Gengið var frá Vogum, litlu vinalegu þorpi á norðurströnd Reykjanesskagans, nánar tiltekið við Stakksfjörðinn, um Reiðskarð og upp á Vogastapa. Stapagötunni var fylgt upp á Grímshól og síðan haldið niður Stapann að norðanverðu, niður í Innri-Njarðvík.
Gengið var framhjá Síkjunum vestan Voga, yfir Kristjánstanga og með Vogavíkinni. Haldið var áfram gömlu þjóðleiðina upp Reiðskarðið áleiðis upp á Stapann, eða Vogastapa eins og hann einnig er nefndur. Eldra nafn á Stapanum er Kvíguvogabjörg. Vogastapi er um 5 km langur og liggur allt vestur undir Innri-Njarðvík. Sjávarmegin eru klettabelti að mestu með stórgrýtisurðum við sjávarmál, en að ofan eru aflíðandi hjallar mót suðri og austri. Gömul þjóðleið, Stapagatan, liggur um Stapann endilangan. Fyrr á öldum lá gatan ofan á Stapanum, en í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti. Mjög villugjarnt er á Gamla-Stapavegi og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum.
Uppi á Stapahorninu, á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar, er slétt svæði, en á því var reist herskálahverfi árið 1942, sem kallað var Dailey Camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Dailey Camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946. Frá herskálunum lá skolplögn niður Stapabrekkuna og síðan í sveig allt til sjávar. Á lögninni eru opnir steyptir brunnar, nokkuð háir, með stuttu millibili. Þeir eru einu sýnilegu minjarnar um hersjúkarhús þetta.
Undir Stapanum eru tóftir Brekku, Stapabúðar, Hólmabúða og Kerlingarbúðar.
Þjóðsaga tengist Grímshól, efstu hæðinni á Stapanum. Á hólnum er útsýnisskífa og þaðan er fallegt útsýni til allra átta.
Þjóðsagan segir frá Norðlingum þá er þeir fóru suður í verið. Er þeir voru á Grímshól gerði byl. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.
Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.
Grænaborg, fjárborg, er skammt frá Stapagötunni stuttu áður en komið er niður í Innri-Njarðvík. Þá er stutt eftir niður að Stapakoti, syðsta kotinu í byggðalaginu.
Skemmtileg og þægileg gönguleið er tengir saman byggðina í Vogum annars vegar og í Innri-Njarðvík hins vegar.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysutrönd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.