Færslur

Sæluhús

Á vefsíðu Ferðafélags Íslands er sagt frá endurbyggingu sæluhússins við gamla Þingvallaveginn. Annað sæluhús, eldra, hlaðið úr torfi og grjóti, var í Moldbrekkum skammt norðaustar á Mosfellsheiði, við Þingvallaleiðina um Seljadal og Bringur.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – gamla sæluhúsið.

“Ferðafélag Íslands hefur undanfarin misseri unnið að endurbyggingu á sæluhúsi austarlega á Mosfellsheiði. Það var upphaflega reist um 1890 við nýjan veg til Þingvalla sem gengur núna undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn. Húsið var byggt úr tilhöggnu grágrýti, það var 7×4 m að flatarmáli og veggir 1,80 m á hæð. Á því var risþak, sennilega klætt með bárujárni og útidyr voru á langvegg.

Bjarki Bjarnason sem átti hugmyndina um endurbyggingu hússins var ráðinn umsjónarmaður verksins. Bjarki segir að á ofanverðri 19. öld hafi töluvert verið byggt af húsum hérlendis úr tilhöggnu grágrýti og sæluhúsið á heiðinni fylli þann flokk. Steinhúsin voru einskonar millispil, torfhús höfðu verið allsráðandi um aldir en steinsteypt hús risu síðan á nýrri öld.

Sæluhús

Sæluhúsið við gamla Þingvallaveginn um 1920.

Sæluhúsið á Mosfellsheiði gerði sitt gagn í nokkra áratugi, það var jafnvel ferðamönnum til lífs að komast þangað í skjól í vályndum veðrum. En fyrir alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930 var nýr þjóðvegur lagður til Þingvalla á svipuðum slóðum og akvegurinn liggur þangað nú. Gamli Þingvallavegurinn var minna notaður en áður og einnig sæluhúsið, enda var notalegra að gista undir mjúkri sæng á gistihúsinu á Geithálsi eða Hótel Valhöll á Þingvöllum. Viðhaldi sæluhússins var ekki sinnt, þak, gluggar og hurð urðu veðrinu og tímanum að bráð og steinhlaðnir veggirnir féllu undan eigin þunga en hafa alltaf verið sýnilegir á sínum upphaflega stað.

Sæluhús

Sökkull að sæluhúsinu er tilbúinn og nú verið að hlaða upp veggi þess. Því verki á að ljúka í haust. Þak verður svo sett á bygginguna á næsta ári. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta hús hefur mikið byggingarsögulegt gildi og er sannarlega þess virði að það verði varðveitt, segir Bjarki, og einnig Gamli Þingvallavegurinn sem lá þvert yfir heiðina frá Geithálsi að Almannagjá, nú eru uppi hugmyndir um friðlýsingu hans. Vegna endurbyggingarinnar var aflað tilskilinna leyfa, Arkitektastofan Argos vann tillögur að endurgerð hússins og Húsafriðunarsjóður hefur veitt rúmlega þrjár milljónir króna til þessara framkvæmda sem er um þriðjungur af kostnaðaráætlun verksins. Mér finnst það afar spennandi að vinna að þessari uppbyggingu og gaman að sjá húsið rísa úr öskustónni eftir ár og öld.“

Þingvallavegurinn gamli

Sæluhúsatóft við gamla Þingvallaveginn árið 2020.

Þegar öll tilskilin leyfi voru í höfn hófst endurreisnin á heiðinni á síðasta ári. Leitað var til tvíburabræðranna Ævars múrsmiðs og Örvars húsasmiðs Aðalsteinssona og óskað eftir því að þeir tækju endurbygginguna að sér. Þeir hafa mikla og góða verkþekkingu á þessu sviði og mikinn áhuga á málinu, hafa auk þess starfað sem fararstjórar fyrir Ferðafélag Íslands.

Í fyrrasumar voru hleðslusteinarnir teknir ofan og raðað við hliðina á rústinni eftir ákveðnu kerfi. Síðan var grafið niður á klöpp og grunnurinn fylltur af grús. Eftir það lagðist vinnan í vetrardvala en á nýliðnu sumri var aftur tekið til óspilltra málanna og steyptur sökkull fyrir húsið. Á þeim grunni hafa veggirnir verið endurhlaðnir á sama hátt og gert var fyrir 130 árum. Þeir Ævar og Örvar hafa unnið þetta verk, með þeim hafa starfað Bjarni Bjarnason fjallkóngur og verktaki á Hraðastöðum í Mosfellsdal og Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari frá Ferjubakka í Borgarfirði.

Sæluhús

Sæluhúsið endurbyggt.

En hvenær eru áætluð verklok, Bjarki svarar því: „Veggjahleðslunni lýkur í haust en frágangur og frekari smíði bíður næsta sumars. Þá þarf að smíða þak á húsið, einnig hurð, glugga, gólf og rúmbálk. Allar teikningar liggja fyrir og voru forsenda þess að FÍ fengi úthlutun úr húsaverndunarsjóði Minjastofnunar.“
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir endurbyggingu hússins mjög mikilvægt og skemmtilegt verkefni sem falli vel að tilgangi félagsins.”

Sæluhús þetta er í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Heimildir:
https://www.fi.is/is/frettir/saeluhuhus
Sæluhúsið á Mosfellsheiðinni endurreist (mbl.is)

Sæluhús

Sæluhúsið við gamla Þingvallaveinn 2020.