Færslur

Gunnuhver

Skoðaður var Gunnuhver á Reykjanesi sem og næsta nágrenni. Hverasvæðið er litskrúðugt og mikilfenglegt, en varasamt og síbreytilegt. Við hverasvæðið eru m.a. nokkrar tóftir og grunnur húss.

Gunnuhver

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Margir kannast við söguna af Gunnu Önundardóttur er hverinn er nefndur eftir. Hún segir af Guðrúnu og viðureign hennar við Vilhjálm á Kirkjubóli á Suðurnesjum. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina. Viðureign þeirra endaði með því stakkst ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver. (Hafa ber í huga að hverinn sá hefur átt það til að hlaupa til um svæðið og er því síbreytilegur.)

Höyer

Hús Höyers og Eriku við Gunnuhver.

Tóftirnar við Gunnuhver eru eftir búsetu Anders Christian Carl Julius Höyer og konu hans, Eriku Höyer, á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá út á Reykjanes. Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver. Hús Höyers var nálægt bílastæðinu t.v.

Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Þar er volg jörð og þurfti ekki aðra hitun. Annar endi hússins var gróðurhús og innangengt í íbúðarhlutann. Þarna er vatnslaust, en Høyer bjargaði sér með því að þétta gufu úr hverunum “für Menschen, Hund und Blumen” segir í þýskri ferðabók (E. Dautert án ártals). Aðallega munu þau hjón hafa fengist við að búa til blómapotta úr hveraleir sem þau bökuðu/hertu við jarðhitann.

Höyer

Anders C. Höyer.

Høyer var aðstoðarritstjóri garðyrkjublaðs “Politiken” fyrir komu sína hingað og líklega einnig á stríðsárunum (finn ekki heimild um það, en minnir ég hafi lesið). Þá skrifaði hann ævisögu konu sinnar fram að því að hún komst til Þýskalands eftir fyrra stríð. Bókin kom út í Danmökru á stríðsárunum. Árni Óla þýddi hana á íslensku (hún heitir “Anna Ivanowna” og höfundur er skráður Erika Høyer). Bókin er átakanleg lýsing á miklum hörmungatímum í ævi konunnar, var lesin sem útvarpssaga. Erika var 15 árum yngri en Høyer. Hann kom aftur til Íslands eftir stríð en hún varð eftir í Danmörku. Hann endaði sem “flugumferðarstjóri” á Melgerðismelum í Eyjafirði. Heimildir eru um Høyer í bók Árna Óla “Erill og ferill blaðamanns.”
Í bók eftir Erich Dautert (Islandfahrt) er sagt frá viðkynningu og innliti til hjónanna.
Einnig er að finna frásögn af heimsókn til þeirra í bókinni “Árin okkar Gunnlaugs” (Scheving) eftir konu hans (G.L. Grönbech). Kristján Sæmundsson tók saman upplýsingarnar um Höyer. Þá segir í  Degi 16. mars 1955 um Höyer:”Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði.

Gunnuhver

Gunnuhver – loftmynd.

“A. C. Höyer Jóhannesson afgreiðslumaður á Melgerðisflugvelli varð 70 ára í gær”.
Þegar A. C. Höyer kom hingað til Íslands áríð 1925, hafði hann þegar víða farið og reynt margt. Hann er fæddur í Árósum í Danmörku, af suður-józku foreldri, en uppalinn í Suður-Jótlandi undir þýzku krúnunni.

Bræðratunga

Bræðratunga í Biskupstungum.

Ungur lagði hann land undir fót og fór suður um Evrópu, gekk á búnaðarskóla í Berlín, og réðist til ræktunarstarfa á lettnaskum búgarði. En útlendingum var ekki vært þar þegar byltingin flæddi yfir, þótt þeir hefðu þraukað af styrjaldarárin. Þá hélt Höyer til Danmerkur með unga konu af lettneskum uppruna. Ætlunin var að fá jarðnæði í Danmörk, en það var ekki laust fyrir efnalítinn mann. Úr fjarlægð að sjá var nóg landrými á Íslandi. Höyer réðist vinnumaður að Bræðratungu í Biskupstungum, síðan á búgarði Thor Jensens, en árið 1927 hófu hjónin, Höyer og Erika, landnám sem þótti harla nýstárlegt hér á landi á þeim tíma.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Landnám í Hveradölum og Reykjanesi.
Þau byggðu sér bæ við heitar Laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bílfarm af fallegum blómum og þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar. Þar höfðu þau hjónin garðrækt og seldu garðávexti og blóm til höfuðstaðarins. En þar var lífið erfitt, staðurinn einangraður og samgöngur strjálar.
Þar hófu þau leirmunagerð í smáum stíl til búdrýginda, en skorti verkfæri. Þau fóru til Danmerkur skömmu fyrir stríð til að afla sér þeirra, en lokuðust inni í Danmörk í styrjöldinni og komust ekki hingað út fyrr en árið 1946.

Gunnuhver

Leirgoshver við Gunnuhver.

Þriðja landnámið á Melgerðismelum.
Eftir viðdvöl í Reykjavík komu þau hingað norður, og litlu seinna réðist Höyer til Flugfélags Íslands og flugmálastjórnarinnar sem gæslumaður á Melgerðisflugvelli, og þar hafa þau hjónin átt heima síðan. Fyrst í húsakynnum vallarins, sem brunnu árið 1950 þeim til mikils tjóns, og síðan á nýbýli því, er Höyer hefur byggt og nefnir Melbrekku. Er það þriðja landnám hans hér á landi.
Frá 1947 til ársloka 1954 var mikil flugvélaferð um Melgerðisflugvöll og var nafn Höyers tengt henni á einn eða annan veg. Farþegar allir sáu þennan gráhærða, góðlega mann fyrst er þeir stigu á land, og síðastan manna, er þeir litu út um gluggana er vélin ók út á flugbrautina. Inni í skálanum við völlinn — meðan uppi stóð — hafði frú Erika veitingasölu, sem var mjög vinsæl af farþegum og fólki héðan úr bænum, sem gjarnan kom í heimsókn.

Melgerðisflugvöllur

Melgerðisflugvöllur (MWL).

Nú eru flugvéladrunurnar yfir Melgerðisflugvelli þagnaðar, en Höyer hefur eftirlit með tækjum og eignum flugmálastjórnarinnar þar, því að völlurinn er enn nothæfur ef þörf krefur. En þótt árin færist yfir og landnám gerist erfiðara, er það samt fjarri skapgerð Höyers að leggja árar í bát. Nú rekur hann hænsnarækt á búi sínu og unir allvel við sitt.

Gunnuhver

Upplýsingaskilti um Höyer við Gunnuhver.

Sýslar við bú, þótt svalt blási.
Lífið í Lettlandi á stríðsárunum fyrri vandi þau hjónin ekki á lúxus, og það kom sér vel í vistinni í Hveradölum og á Reykjanesi. Ríkmannlegt hefur aldrei verið hjá þeim á Melgerðisvelli, en hlýlegt, og ævinlega nóg um bækur og blöð, enda eru þau hjónin bæði bókelsk og vel að sér í mörgum greinum. Bæði hafa þau ritað nokkuð og margir minnast sögu Eriku um Önnu, Ivanovnu, en þar er víða haldið meira en í meðallagi vel á penna.
Nú eru 70 ár að baki og trauðla hyggur Höyer á nýtt landnám. Hann segist líka kunna vel við sig í Eyjafirðinum og talar um að gott verði að hvílast að Möðruvöllum eða Saurbæ að afloknu dagsverki. En þótt elli sæki nokkuð á, er engin uppgjöf hjá honum nú frekar en fyrri daginn. Á mánudaginn blés svalt um Melgerðismela og lítt sá til fjalla fyrir fjúki. En þá stóð Höyer enn að starfi við búsýslu sína. Hann þarf að sinna um 100 hænur í kofa. Þær verða 200 næsta ár, segir hann.
Hún ætlar að endast honum, sjálfsbjargarhvötin.”

Í Litla Bergþóri, 2. tölublað (01.12.2012), bls. 20-23, er fjallað um “Hveradala Höyer og konu hans”:
“Hér verður fjallað um hjón, sitt af hvoru þjóðerni, sem skolaði hér á land í umróti millistríðsáranna. Þau voru ólík sem dagur og nótt en undu sér samt vel saman og voru hér til dauðadags, með hléum þó.
Höyer Þau höfðu bæði reynt ýmislegt áður en þau settust að á Íslandi og hér fóru þau heldur ekki troðnar slóðir.
Sérstakt var að þau virtust sækjast eftir að búa á hrjóstrugum jaðarsvæðum, þó þau væru engar mannafælur. Þvert á móti. Þau tóku gjarnan á móti ferðamönnum og voru vel liðin af þeim sem höfðu við þau samskipti. Þau komu á sinn hátt að tveimur starfsgreinum, sem voru að hasla sér völl þegar þau voru á manndómsárum, ylrækt og svo farþegaflugi innanlands, þar sem þau voru umsjónarmenn á flugvelli. Það gætu því þess vegna hangið myndir af þeim bæði á Flugminjasafninu og á tilvonandi Garðyrkjusafni.
„Var hún ekki rússnesk prinsessa?“ Þannig spurði fullorðinn Akureyringur þegar ég nefndi við hann hvort að hann myndi eftir Ericu Höyer og þeim hjónum fyrir norðan. Já, það var ekki laust við að nokkur ævintýrabragur þætti á þeim og margt höfðu þau brallað á langri ævi. Það var fyrst að frétta af Anders C. Höyer hér á landi að hann kom sem vinnumaður í Bræðratungu í Biskupstungum í maí 1926. Þar var hann í fjóra mánuði, en eigandi jarðarinnar þá var hinn danski ritstjóri Berlinske Tidende, Svend Paulsen. Höyer kynnti sig hér sem garðyrkjumann og var það sjálfsagt, en síðar kom á daginn að hann hafði starfað sem blaðamaður í Danmörku og því ekki ólíklegt að hann hafi þekkt til Sveins bónda, enda höfðingjadjarfur og ófeiminn að koma sér í kynni við mann og annan.

Jóhannes Boeskov

Johannes Boeskov í dyrum gróðurhúss.
Fyrsta gróðurhúsið reis á Reykjum í Reykjahverfi árið 1923. Var það gert að frumkvæði Guðmundar Jónssonar skipstjóra og mágs hans Bjarna Ásgeirssonar alþingismanns en báðir bjuggu þeir á Reykjum og höfðu þeir mikinn áhuga á ylrækt. Helsti hvatamaður þeirra var Daninn Johannes Boeskov sem starfaði sem vinnumaður á Reykjum. Á garðyrkjusýningu sem haldin var í Reykjavík 1924 mætti Johannes með afurðir gróðurhússins eða 14 tegundir af matjurtum og blómum sem vöktu töluverða athygli enda ýmislegt sem ekki hafði sést áður.
Johannes stofnaði árið 1926 garðyrkjubýlið Blómvang sem telst vera eitt fyrsta nýbýlið sem byggðist eingöngu á ylrækt.
Johannes lést af völdum voðaskots árið 1927.

Um haustið fór hann ekki heim til Danmerkur heldur réði sig að Lágafelli í Mosfellssveit og var þar til vors. Hann sagði seinna (1953) í grein í Garðyrkjuritinu, að hann hefði strax heyrt um „vitlausa“ Danann, sem vildi byggja gróðurhús og lifa af ylrækt. Því miður ruglar Höyer aðeins saman gróðurhúsi sem byggt var á Reykjum í Mosfellssveit 1924, að vísu í umsjón Danans Jóhannesar Boeskov, en í eigu máganna á Reykjum, Bjarna Ásgeirssonar og Guðmundar skipstjóra, og svo aftur gróðurhúsi sem Boeskov byggði á nýbýlinu Blómvangi 1926 og telst fyrsta garðyrkjubýli á Íslandi þar sem eingöngu var treyst á ylrækt. Höyer og Boeskov urðu vinir og Höyer hjálpaði honum við byggingu gróðurhússins í Blómvangi og vildi svo fara sjálfur út í ræktun. Um sumarið var hann í Reykjavík og þá kom til hans hingað til lands unnustan Erica, fædd Hartmann, en hún var fimmtán árum yngri, aðeins 27 ára, en Höyer 42. Erica var frá Lettlandi, þeim hluta sem kallast Kúrland, og hafði ratað í ótrúlegustu hörmungar í fyrra stríði og sagði frá því í skáldsöguformi seinna. Það var bókin Anna Íwanowna, sem kom út í Danmörku haustið 1939, um þann mund sem seinna stríðið skall á og fékk góða dóma.

Skáldævisaga Kúrlendings.
Bókin er svokölluð „skáldævisaga“ og segir sögu fjölskyldu Ericu frá því að fyrri heimstyrjöld skellur á, þegar Erica var fjórtan ára, og þangað til þau snúa heim úr útlegð í Rússlandi og koma að öllu í rúst í sveitinni sinni í Lettlandi í stríðslok. Rússar og Þjóðverjar völtuðu til skiptis yfir þetta smáríki og það stóð varla steinn yfir steini er yfir lauk. Þau upplifðu stríðsátök, flótta, borgarastríð og rússnesku byltinguna, svo það var engin furða að henni þætti
friðsamlegt á Íslandi þegar hún rifjaði upp ævi sína á efri árum.

Auðvitað hefur Höyer skrifað bókina“, sagði Árni Óla löngu seinna, enda reyndist Höyer eftir allt saman þrælvanur blaðamaður þótt hann væri í fjósverkum og öðru púli meðan hann dvaldi hér fyrir stríð. Hvað um það, Erica er enn viðurkennd í Danmörku sem rithöfundur fyrir þessa bók. Árni Óla þýddi hana 1942 og var hún ein mest auglýsta og selda bókin hér á landi það árið. Ég var að enda við að lesa hana núna sem kvöldsögu fyrir konuna mína og gefum við henni bestu meðmæli. Erica, hin unga og lífsreynda, var semsagt komin til unnusta síns er hallaði sumri 1927. Þau fengu leyfi til að setjast að í Hveradölum á Hellisheiði þá um haustið og voru svo bjartsýn að ætla sér að búa í tjaldi á þessum stað meðan þau væru að hrófla sér upp kofa.

Landnámið í Hveradölum og á Reykjanesi.
HöyerAldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk. En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir fyrrnefndur Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.

Erika Höyer

Erika Höyer – minningargrein.

Já margt átti eftir að henda þau hjón áður en yfir lauk. Fyrst fóru þau bókstaflega úr öskunni í eldinn, því þau fluttu út á Reykjanes og gerðu sér annað nýbýli við Gunnuhver þar sem allt ólgar og sýður og ekki þurfti upphitun í kofann. Hitinn streymdi upp um fjalirnar í gólfinu eins og í „Nature Spa Laugarvatn Fontana“ í dag. Þau gátu ræktað og gerðu það, en vegaleysið varð til þess að þau komu ekki afurðum frá sér. Síðar datt þeim svo í hug að búa til jurtapotta úr leir, sem þarna var við hendina. Þau hertu pottana ýmist við hverahita eða brenndu í ofni sem kyntur var með rekaviði, sem þau söguðu í búta og klufu. Þau spöruðu ekki erfiðið, það var eins og þau væru að keppast í „ræktinni“ og þyrftu að passa línurnar. Árni Óla heimsótti þau þarna og leist ekki á. Höyer var kátur að vanda en sagðist samt vera á förum til Danmerkur, sér hefði verið boðin staða hjá Politiken og ætti að verða aðstoðarritstjóri landbúnaðarútgáfu blaðsins. Þegar hér var komið sögu höfðu þau eignast son og var trúlega ekki gæfulegt til frambúðar að hokra þarna hjá Gunnuhver með stækkandi fjölskyldu.
Þarna við hverinn er nú skilti þar sem sagt er frá „síðustu ábúendunum“ en það voru þau hjónin. Því miður eru nokkrar missagnir í frásögninni, t.d. að Höyer hefði verið fæddur í „einhverjum fyrrum Eystrasaltshéruðum Prússlands og það skýrði hina sérstöku málakunnáttu hans“. Hið rétta mun vera að hann fæddist í Árósum á Jótlandi 1885 og var kominn til Kaupmannahafnar fyrir tvítugt. Sem ungur maður hafði Höyer starfað sem formaður Ungra jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og á landsvísu og kynnst mörgum lykilmönnum í Jafnaðarmannaflokknum. Og ekki urðu kynnin minni er hann gerðist blaðamaður á þeirra vegum og þá líka hjá stærsta blaðinu Socialdemokraten. Hann var þá á uppleið, hafði eignast konu og tvo syni, en eitthvað fór úrskeiðis, hann skildi við konuna og fluttist til Lettlands. Hann dvaldi í Lettlandi árin 1923 til 1925, þar sem hann hitti Ericu og þar með tóku örlögin nýja stefnu. Annað sem missagt er á skiltinu er að Erica hafi orðið eftir í Danmörku eftir stríð en Höyer hafi komið einn til Íslands. Hið rétta er að hjónin komu saman og voru hér til dauðadags, en sonur þeirra varð eftir í Danmörku, þó hann væri aðeins 12 ára gamall er þau fluttu „heim“.

Í dönsku útvarpi og þýsku. 

HöyerÞau fluttust sem sagt frá Gunnuhver á Reykjanesi til Danmerkur 1937. Höyer komst strax inn á danska útvarpið og var mælt með honum sem fyrirlesara og fékk hann venjulega greiðslu fyrir, sem voru 100 krónur fyrir hvert erindi. Hann flutti þó nokkur erindi í Statsradioen fram að stríði og var mjög fundvís á efni sem þóttu nýstárleg í Danmörku á þessum tíma. T.d. hét einn þátturinn „Danskur veiðimaður og landnemi á Íslandi“, annar hét „Að eiga heima á eldfjalli“ o.s.frv. Sem dæmi um fjölbreytnina má nefna erindi um skipakirkjugarð við Ísland, rjúpnaveiðar og bindindismál, að ógleymdu erindi um íslenskan landbúnað, þar sem hann lýsir búskapnum í Bræðratungu og þótti takast vel upp. Hann var óþreytandi að bjóða efni, sumt var tekið en öðru hafnað, og þótti vel frambærilegur fyrirlesari. Það virkar því dálítið kómískt að lesa það í bók Jóhannesar flugstjóra, Skrifað í skýin, um Höyer að þegar hann var orðinn umsjónarmaður á flugvellinum á Melgerðismelum, hafi hann verið búinn að týna niður dönskunni, sem og öðrum tungumálum og verið næsta óskiljanlegur, þó að oft þyrfti hann að leiðbeina flugmönnum í lendingu gegnum talstöð. Flugstjórinn hefur ekki vitað að Höyer var ekki alls óvanur að handleika hljóðnema.

Erika Höyer

Erika Höyer.

Nú voru þau Erica og Höyer semsagt komin til Danmerkur eftir fyrri dvöl sína á Íslandi og það var ekki langt í næstu heimstyrjöld. Það var örlagadagur fyrir Höyer og fjölskyldu þegar Danmörk var hertekin 9. apríl 1940. Höyer gekk þá strax Þjóðverjum á hönd og tók þátt í útvarpssendingu á þeirra vegum þar sem hann studdi „frelsun Danmerkur“. Þá var hann umsvifalaust rekinn frá útvarpinu, því að danska útvarpið hélt merkilegt nokk sjálfstæði sínu alveg þangað til í hreinsunum í ágúst 1943, þegar lögreglan var leyst upp og ríkisstjórnin fór frá. Í júlí 1941 varð Höyer fréttaritari í Berlín fyrir dönsku bændasamtökin, en þau gáfu út blöð og tímarit í Danmörku. Danskir bændur voru hallir undir þjóðverja, enda þénuðu þeir á úflutningi til Þýskalands, sem var óþrjótandi markaður fyrir danskar landbúnaðarvörur.
Meðfram fréttaritarastarfinu kom Höyer líka að sendingum þýska útvarpsins á dönsku og flutti m.a. 10 erindi um landbúnaðarmál á þessum tíma. Í Berlín var Höyer fram að uppgjöf Þjóðverja, en Erica var í Danmörku með soninn. Þau lentu í yfirheyrslum í Danmörku í stríðslok en sluppu með skrekkinn, enda íslenskir ríkisborgarar og komu „heim“ með Drottningunni um miðjan janúar 1946, eins og segir í klausu í Morgunblaðinu.

Erika Höyer

Erika Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 1900-1982.

Ástandið í Danmörku hafði verið þrúgandi öll hernámsárin. Fyrsta stríðsveturinn 1939-40 höfðu Danir reynt að halda uppi hlutleysi eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en 9. apríl 1940 var sá draumur úti. Ráðherrar voru rifnir upp á rassinum úr hlýjum sængurfiðunum og settir úrslitakostir, annað hvort að samþykkja hernámið eða fá sprengjuregn yfir Kaupmannahöfn. Þeir völdu fyrri kostinn með óbragð í munni eins og sagt er. Spennan fór vaxandi eftir því sem tíminn leið og þegar Þjóðverjum fór að ganga verr í stríðinu óx andstöðuhópum fiskur um hrygg í Danmörku og þeir voru tilbúnir á friðardaginn 5. maí 1945 með lista yfir handbendi Þjóðverja í styrjöldinni. Það var engin miskunn sýnd, 34.000 manns voru handteknir fyrstu dagana eftir friðardaginn, smalað aftan á vörubíla og keyrðir þannig um götur með uppréttar hendur og skammaryrði hengd um háls. Og múgurinn hrópaði krossfestum þá, eða eitthvað álíka. Mörgum urðu þessir frelsisvinir að sleppa vegna óljósra sannana, en margir fóru í fangelsi og 48 fengu dauðadóm fyrir landráð. Kamban var skotinn án dóms og laga og varð af því mikið milliríkjastapp, sem kunnugt er.

Braggalíf á Melgerðismelum og ekkjustand á Akureyri.
HöyerÞeim Ericu og Höyer þótti margt breytt á Íslandi eftir stríðið, ekki síst í garðyrkjunni, þar sem risnar voru stórar garðyrkjustöðvar með fleiri þúsund fermetrum undir gleri. Þó ætluðu þau sér enn að reyna að lifa á landsins gæðum og jarðhitanum. Þau fluttust norður í Eyjafjörð að Melgerðismelum, en þar hafði verið flugvöllur og bækistöð Bandamanna á stríðsárunum. Þar komu þau sér fyrir í bragga, sem þau skiptu í tvennt, annars vegar íbúð og hins vegar afgreiðslusal fyrir flugið. Þar voru þau hjón umsjónarmenn og höfðu greiðasölu. „Við vorum þar mörg góð ár“ sagði Erica í endurminningum sínum.
Sigmundur Benediktsson, Eyfirðingur sem ég talaði við, man eftir þeim hjónum í bragganum, þar sem haldin voru böll sem þóttu nýstárleg. Þar skaust hin dökkeyga, smávaxna Erica á milli dansfólksins og stráði yfir það „Konfetti“-pappírsræmum. Það hafði ekki tíðkast í Eyjafirði þó mörg erlend áhrif hefðu borist til Akureyrar gegnum tíðina. Þessir góðu dagar á Melgerðismelum tóku enda eins og aðrir dagar. Flugið fluttist inn til Akureyrar 1955. Þá var bragginn rifinn og hjónin byggðu sér lítið hús, sem þau nefndu Melbrekku.

Höyer

Anders Christian Carl Julius Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 15 mars 1885-30 júní 1959.

Anders var eins og áður sagði 15 árum eldri en Erica og heilsan fór að bila. Síðustu þrjú árin sem hann lifði var hann á sjúkrahúsinu á Akureyri og lést þar 30. júní 1959. Erica auglýsti látið og jarðarförina rækilega. Fyrst auglýsir hún í Morgunblaðinu: „Hjartkær eiginmaður minn og faðir A.C.Höyer, Melbrekku, áður Hveradölum, lést á sjúkrahúsi Akureyrar 30. júní. Jarðsett verður frá Fossvogskirkju 8. júlí kl. 2“.
Þá er önnur auglýsing þar sem bálförin er auglýst frá Fossvogskapellu þann 7. júlí og undir stendur Erica Höyer og synir. Síðan er í Degi 16. september auglýst minningarathöfn um Carl Höyer Jóhannesson umsjónarmann, sem fari fram daginn eftir frá Möðruvallakirkju. Síðast kemur þakkartilkynning, einnig í Degi, þar sem Erica þakkar öllum sem studdu hana við útförina; sr. Pétri Sigurgeirssyni fyrir ræðu og liðveislu, söngkór fyrir aðstoð og kvenfélagskonum fyrir gefnar veitingar. Það hafa margir lagt þessari erlendu konu lið og hún var vel kynnt hjá þeim sem umgengust hana.

Erika Höyer

Erika Höyer – Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.

Erica átti mörg ár eftir ólifuð sem ekkja á Akureyri. Hún stundaði saumaskap meðan heilsa leyfði, eignaðist vinkonur sem ortu til hennar í minningagrein þegar hennar tími kom. Seinustu tvö árin átti hún heima á dvalarheimilinu Hlíð, en hún lést 9. maí 1982, fyrir aðeins 30 árum.
Annar Kúrlendingur, Wolf von Seefeld, minnist hennar í grein í Íslendingaþáttum Tímans, og nefndi m.a. að hún hafi verið þrítyngd, jafnvíg á þýsku, lettnesku og rússnesku. Íslenskan hennar var ekki alveg eftir málfræðinni sagði hann, en kom beint frá hjartanu. Wolf, sem seinna varð Úlfur Friðriksson, var líka flóttamaður úr stríðunum tveim, fæddur 1912 í Kúrlandi og kom til starfa hjá föður mínum 1955. Hann var fornfræðingur og sagnfræðingur, en hafði „lent í garðyrkju“ upp úr stríðinu. Mér fannst hann vera gamalmenni er ég sótti hann á rútuna þá um sumarið, en þá hefur hann verið 43 ára. Það var þó seigt í karli, því að hann varð 97 ára, mikill Íslendingur og skrifaði bækur, bæði um íslenska hestinn og minningabrot úr Hólavallakirkjugarði.
Nú hef ég verið að stikla á stóru í lífi útileguhjónanna Höyer. Ekki koma öll kurl til grafar með þeirra líf, en þau voru hluti af íslenskri sögu á umbrota- og framfaraskeiði þjóðarinnar og áttu sinn hlut, ekki síður en hinir, sem hér voru bornir og barnfæddir.
Erica gaf Íslendingum góðan vitnisburð í minningarbrotum, sem hún var beðin um að skrifa í jólablað Dags 1957: „Helstu kostir Íslendinga eru heilbrigð skynsemi þeirra og jafnaðargeð. Þeir rasa ekki um ráð fram, þeir gera ekki vanhugsaða hluti í reiðiköstum. Svo eru Íslendingar óþreytandi að hjálpa þeim sem miður mega sín og gestrisni þeirra er frábær“.
Þetta er ekki slæmur vitnisburður hjá gestinum glögga, sem bjó hér í yfir 40 ár. Þau hjónin hvíla í Möðruvallakirkjugarði í Eyjafirði, hlið við hlið, eins og í tjaldinu í Hveradölum forðum. En nú gildir einu þó að rigni.

Heimildir:
-Árni Óla: Erill og ferill blaðamanns hjá Morgunblaðinu um hálfa öld, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1963).
Ásgeir Guðmundsson: Berlínarblús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista, (Reykjavík: Skjaldborg,
1996).
-Danmarks Historie, Kjersgaard, Erik, önnur útáfa, 1997.
-Erica Höyer: Anna Iwanowna, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, [1942]).
-Hallir gróðurs háar rísa, Haraldur Sigurðsson, 1995.
-Grete Grönbech: Árin okkar Gunnlaugs, ([Reykjavík]: Almenna bókafélagið, 1979).
-Garðyrkjuritið, 1953.
-Íslensk dagblöð á ýmsum tímum.
-Sunnlenskar byggðir 3 : Laugardalur, Grímsnes, Þingvallasveit,
-Grafningur, Ölfus, Hveragerði og Selvogur, Páll Lýðsson bjó undir prentun, ([Selfoss]: Búnaðarsamband Suðurlands, 1983).

Gangan tók 1 klst. Frábært veður.

Meginheimildir m.a.:
-Dagur, 16, mars 1955, Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði, bls. 16.
-Litli Bergþór – 2. tölublað (01.12.2012) – bls. 20-23.
-Íslendingaþættir Tímans, 24. tbl. 23.06.1982, Minning; Erika Höyer, bls. 4.
-Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.

Gunnuhver

Reykjanesviti.

Reykjanes

Gengið var um suðvestanvert Bæjarfellið sunnan Vatnsfells á Reykjanesi og litið í fallegan brunn er hlaðinn er úr “betons”grjóti upp á dönsku.

Skálafell

Áletrun við Skálabarmshelli.

Hann er sérstakur að því leyti að gengið er inn í hann til að sækja vatn, en ekki bara horft ofan í vatnsaugað eins og algengara var. Segja má að þessi brunnur hafi verið forveri fölmargra annarra er á eftir komu víðar um Reykjanesskagann. Brunnurinn var byggður á sama tíma og (gamla) vitavarðarhúsið, þ.e. þegar fyrsti vitinn hér á landi var reistur á Valahnúk (1879). Næstu brunnar voru grafnir og hlaðnir við helstu kirkjustaðina og síðan við hvern bæinn á eftir öðrum. Flesta þeirra má sjá enn þann dag í dag. Þeir voru reyndar sumir fylltir eða fyrirbyggðir eftir miðja 20. öldina þegar vatnsleiðslur höfðu verið lagðar í hús svæðisfólksins, en enn má berja marga þeirra augum.

Reykjanes

Reykjanes – brunnur.

Tóftir fyrrum útihúsa fyrrum vitavarðar á ystu mörkum Reykjanessins eru skammt frá brunninum. Vitinn sjálfur var hlaðinn úr tilhöggnu grjóti þarna skammt frá, sem dregið var upp á Valahnúk og raðað þar vandlega saman eftir fínni teikningu. Mannvirkið átti að standa um aldur og ævi, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og mynduðust þá þrjár stórar sprungur í bergið skammt frá honum. Bær vitavarðarins skemmdist í jarðskjálftunum og enn meira rask varð á jörðu og öðrum mannvirkjum. Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú, á árunum 1907-1908.

Reykjanes

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Skammt undan landi trónar 52 m hár móbergsdrangur úr sjó. Heitir sá Karl. Sjá má þverhnípta klettaeyju (77 m.y.s.) 8 sjómílur utan af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum. Annað sker, Geirfuglasker, er skammt undan. Þar voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins, Sothbysuppboðsvæna, en skerið sökk að mestu í eldsumbrotunum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlum. Súludans er þar algengur, einkum fyrir varptímann. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.

Reykjanesviti

Flóruð gata milli vitavarðarhússins og Valahnúks, áleiðis að gamla vitanum.

Fuglinn hefur hins vegar ekki verið talinn þar á síðari árum, a.m.k. ekki fugl fyrir fugl. Drangarnir voru baðaðir sól.

Gengið var eftir flóraðri “vitagötunni” að Valahnúk. Undir honum má sjá leifar af vitanum, fast við grjóthlaðið hesthús. Gengið var á Valahnúk, skoðað gerðið, sem áður stóð neðan og til hliðar við gamla vitann. Gott útsýni yfir umhverfið (tækifærið notað og uppdráttur gerður af svæðinu). Hægur andvari var og 8 gráðu hiti. Gengið með austanverðum Valahnúk og litið upp í draugahellir þann er svo rammlega er fjallað um í Rauðskinnu. Þeir, sem þar gistu að næturlagi eftir rekasögun, eru sagðir aldrei hafa orðið samir á eftir – sjá meira HÉR.
Frá hellinum var gengið austur yfir að gamalli volgrusundlaug Grindvíkinga í Valbjargargjá (Saga Grindavíkur). Elstu núlifandi grindjánar (innfæddir) lærðu sína sundfimi í þessari laug – syntu bakka á millum. Hún er hlaðin utan um vermslagjá og þótti allvelboðleg á þeim tíma. Laugin er innan túngarðs.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Lagt var á misgengið eftir að hafa litið á hlaðið skjól refaskyttu neðan við Keldutjarnir. Olíuskipið Clam strandaði undan ströndinni skammt austan við hamravegginn 28. febr. 1950, á stað, sem nefndur var Kirkjuvogsbás (Suður með sjó – leiðsögn um Suðurnes). Það var um tíu þúsund smálesta olíuskip með 54 manna áhöfn. Tuttugu og sjö úr áhöfninni, bretar og kínverjar, drukknuðu, en öðrum var bjargað.
Gengið var austur með ströndinni að Blásíðubás. Básinn er í senn bæði falleg og hrikaleg Ægissmíð (sjá mynd í Grindavíkurbókinni). Í fárvirði 24. mars 1916 hleypti Einar Einarsson frá Merki í Staðarhverfi, þar upp skipi sínu. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist, en skipið brotnaði í spón. Oftar mun básinn hafa bjargað sjómönnum í vanda.

Reykjanes

Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.

Áð var við vitann (byggður 1970 – áletrun), sem þar er á bjargbrúninni. Skammt austan við hann er fallegur gatklettur undan bjarginu.

Allt er svæðið þarna mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri, nema ef vera skyldi ofanvert Krossavíkur- og Hrafnkelsstaðabergið (borgin). Gamlar sagnir segja frá byggð þar fyrrum, en lítið hefur fundist af minjum. Ætlunin var að nota tækifærið og gaumgæfa það vel að þessu sinni, en engar slíkar fundust. Hins vegar fundust þrjú merkt greni (vörður).

Reykjanes

Reykjanes – Skálafell.

Eldfjöll eru þarna mörg, en öll fremur lág. Þau eru einkum hraundyngjur, s.s. Skálafellið og Háleyjarbungan. Komið var við á hinu fyrrnefna og lóðrétt hellisopið var barið augum (BH-Hraunhellar á Íslandi). Á klöpp nálægt opinu er gömul áletrun í berginu (?RELDA). Forvitnilegt væri að grennslast meira fyrir um þetta.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er landið þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpyttum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét, hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Loks var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í hver, sem síðan var nefnd Gunna. Við hverasvæðið eru gamlar minjar búsetu og byggðar. Þar er einnig mikið kríuvarp, en fuglinn sá kemur ekki á varpstað fyrr en líða tekur á þriðjungsbyrjun maímánaðar.

Gangan tók 1 og 1/2 klst. Frábært veður.

Reykjanesviti

Skjöldur konungs á Reykjanesvita.

Landnám

Hér verður áfram fjallað um landnám Íslands. Taka verður umfjöllunina með öllum þeim fyrirvörum, sem þegar hafa verið gerðir um landnám norrænna manna hér á landi, bæði fyrr og síðar.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Englar og Saxar höfðu hernumið Bretlandseyjar um 600 e.Kr. Samkvæmt Ulsterannálum hefjast ránsferðir víkinga til Bretlandseyja laust fyrir 800 e.Kr. Um 30% þeirra, sem námu land á Íslandi eftir 870, komu frá Bretlandi eða Suðureyjum ef taka á mið af Landnámu. Þórður skeggi, Helgi Bjóla og Örlygur gamli voru t.d. búsettir á Suðureyjum áður en þeir tóku sig upp ásamt “þrælum” og fluttust til Íslands. Helgi magri, sem nam Eyjafjörð, var gauskur, en hann var fæddur og uppaldinn á Bretlandseyjum og átti írska móður. Auður djúpúðga og fylgdarlið hennar kom frá Katanesi í Skotlandi.

Landnám Íslands

Landnám Íslands – Samúel Eggertsson.

Fundur Íslands hefur ekki verið sú tilviljun, sem margir vilja halda. Íbúar á norðvesturjöðrum Bretlands hafa eflaust mjög snemma séð ótvíræðar bendingar á náttúrunni um tilveru mikilla eyja og landa norðar og norðvestur í hafi. Sambúð víkinga og Kelta um nokkurt skeið fyrir landnám virðist einnig varpa ljósi á sumt í landnáms- og siglingasögunni. Víkingar stunduðu ekki eiginlegar úthafssiglingar, en á því vandasama sviði sóttu þeir þekkingu til Kelta.
Löngu á undan manninum námu fuglar hér land. Frá Skotlandi finnur fuglinn auðveldlega Orkneyjar og Hjaltland og einnig Færeyjar, Ísland og Grænland. Flestir farfuglanna koma frá Norður-Írlandi. Þar bjuggu Keltar löngu fyrir landnám Íslands. Vor- og haustferðir farfuglanna hafa varla farið framhjá Keltum.

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Á öldunum fyrir Víkingaöld voru Írar ein mesta lærdómsþjóð Evrópu. Þeir höfðu tekið kristni á 5. öld, en einangrast svo er hinir heiðnu Englar og Saxar lögðu undir sig England í kringum 600 e. Kr. Á 7. og 8. og 9. öld gerðust írskir og skoskir munkar miklir trúboðar og kennarar í Evrópu, bæði í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi. Þeir hafa eflaust gert sér einhverjar hugmyndir um landið eða löndin, sem fuglarnir og ungar þeirra áttu endurkomu frá á haustin.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi?

Veigamikil rök hníga að því að Írar hafi stundað landaleitir í norðvestri eftir daga Pýþeasar (þ.e. 300 f. Kr.) og gætu því vel hafa fundið Færeyjar og Ísland snemma á öldum. Skiljanlegt er þó að rústir eftir byggð þeirra eða annarra frumherja finnist hér engar, nema ef vera skyldu manngerðir hellar á Suðurlandi. Í sífelldum skorti á hleðsluefni rifu Íslendingar jafnan niður hverja rúst, sem nærtæk var og notuðu efnið í nýrri hús – aftur og aftur.

Keltar

Keltar – landvættir.

Til er skrifleg íslensk heimild um veru írskra trúmanna hér á landi, eftir að norrænir menn setjast hér að. Þá höfðu forfeður okkar umstaflað búðatóttum Íra og tínt allt, sem þar kann að hafa verið að finna. Ekki er að efa að Írar voru í Færeyjum fyrir norræna byggð þar. Heimildir um fund Íslands ganga einnig miklu lengra til baka. Landnáma hefst á á tilvitunun í Beda prest um eyland eitt, kallað Týli, sem á bókum sé talið 6 dægra signing norður frá Bretlandseyjum og einnig eftir lýsingu á sólargangi gæti vel átt við Ísland.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Rit Beda prests, sem í er vitnað, er samið 703 eða 725. Þetta Týli eð Thulenafn gengur einnig í gegnum rit allt frá tímum Grikkja. Pýþeas siglir frá grísku nýlendunni Massalíu (nú Marseilles) um 300 f. Kr. til Bretlands og þaðan norður í Týli, sem gæti eftir lýsingunni að sumu leyti átt við Ísland.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Hrafna-Flóki tók með sér hrafna til að vísa sér veginn að landi. Með í för með honum var suðureyskur maður. Gæti það hafa verið tilviljun? Og varla fer Ingólfur út í óvissuna í leit að óþekktu landi, einkum ef hafðar eru í huga fyrri hrakningasögur Garðars og Naddoðs á og við landið. Ingólfur er sagður hafa haft með sér “þræla”, sem voru í raun Keltar. Var það vegna þess að þeir þekktu leiðina?
Þeir Ingólfur og Hjörleifur fóru fyrst til Íslands til að kanna nánar búsetumöguleika, sem talsverðar sögur gengu þá þegar af. Þeir létu sér nægja að hafast við í Álftafirði einn vetur. Staðsetningin er athyglisverð. Hann liggur á milli Papeyjar að norðan og Papafjarðar og Papóss að sunnan, eða í miðri papabyggð, að því er virðist.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Voru þeir svona hittnir, bráðókunnugir, á leiðina yfir úthafið mikla, að geta siglt beint á miðja papabyggðina, eða höfðu þeir ekki öllu heldur með sér Vestmenn eða mann, sem þekkti leiðina og hafði átt vinsamleg samskipti við Papana og talaði mál þeirra. Völdu þeir ekki einmitt þennan stað til þess að geta haft samskipti við þá menn, sem mest vissu um landið? Og hvað gat verið sjálfsagðara fyrir þá en að vingast við Papana, úr því að þeir höfðu í huga að setjast fáliðaðir að í sama landinu og slá eign sinni á nokkurn hluta þess.

Víkingar og Keltar höfðu lifað í friði saman í 1-3 kynslóðir þegar norrænir menn tóku að nema Ísland. Þegar til landnámsins kemur hafa Keltar haldið uppi siglingum hingað í allt að því öld og ef til vill lengur. Hvað er þá sjálfsagðara fyrir nýliðana að færa sér reynslu hinna í nyt, ráða sér vana menn á skip, þegar sigla á með sína nánustu út á úthafið stóra. Ingólfur hefur varla einungis treyst á mjaltakonur og sauðamenn til þeirra verka.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Í reynsluferð þeirra Ingólfs um Álftafjörð ætti þeim félögum að hafa orðið ljóst að friðsamleg viðskipti við margfalt fjölmennari Íra voru þeim sjálfum fyrir bestu, ef þeir ætluðu á annað borð að setjast að í landinu. Hitt er annað mál, að þegar norrænum mönnum fjölgaði í landinu, hafa þeir sjálfsagt þrengt að byggð papanna, sem kusu þá heldur að hverfa á brott eða hætta ferðum hingað. Hliðstætt upphaf og þróun er margþekkt í samskiptum landnema víða um heim. Ekki þarf að fara lengra en til Norður-Ameríku (nærtækt dæmi) þegar hvíti maðurinn ásældist lönd indíána – fyrst vinsamleg viðskipti, en síðan rán og dráp.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Ingólfur valdi þann kost að setjast að vestan við svæði Íranna svo minni hætta væri á árekstrum. Suðausturhorn landsins lá best við landnáminu, en Ingólfur ákvað einnig að sníða hjá landnámi í Vestmannaeyjum, einu raunverulegu höfninni fyrir allri Suðurströndinni, ákjósalegum stað til fisk- og fuglaveiða og búskap fyrir allmarga bændur. Ástæðan gæti verið sú að Írar hafi þegar verið þar fyrir, enda byggðust eyjarnar seint af norrænum mönnum að sögn Landnámu. Írar voru jafnan nefndir Vestmenn og er það ekki ólíklegri ástæða til nafngiftar eyjanna en síðar saga um þræla Ingólfs, sem nefndir eru Vestmenn í landnámu. Þeir gætu hafa verið að flýja á náðir samlanda sinna, sem þar voru fyrir, eftir drápið á Hjörleifi. Á Suðurlandi eru líka víða manngerðir móbergshellar. Margir þeirra eru taldir hafa verið gerðir af Keltum, sbr. hellana á Hellum og í Landssveit.

Landnám

Landnám Íslands.

Ingólfur settist að í Reykjavík. Öll skynsemi mælir með því miðað við þáverandi aðstæður. Sagan um öndvegissúlurnar er jafn ólíkeg og margt annað. Við komu Ingólfs hafa fjörur og firðir verið þaktir rekaviði líkt og nú á Ian Mayen og því ógjörningur að finna tvo drumba þar innan um á allri slíkri leið. Hefur einhver reynt að ganga fjörur Suðvesturlands og líta í allar víkur og vik á þeirri leið? Og það með þeirra tíma skótau á fótum. Hins vegar má ætla að strandir Reykjanesskagans hafi litið örðuvísi út í þá daga og líklegt má telja að víðast hvar hafi verið greiðfærara, en á öðrum stöðum erfiðara yfirferðar, s.s. undir björgunum er nú liggja ofar í landinu. Hraun á sögulegum tíma hafa ummyndað landið og breytt útlínum þess og aðstæðum allnokkuð frá því sem þá var.
Búpeningur landnámsmanna óx með ólíkindum á fyrstu árum landnámsins. Tölulegar staðreyndir draga í efa möguleika á slíkum flutningum hingað til lands með þeirra tíma skipabúnaði.

Landnám

Siglingar forfeðra vorra.

Aðdragandi að norrænu landnámi hér á landi er sagnakennd og sögnin af fyrsta landnámsmanninum virðist vera arfsögn.
Með fullri virðingu fyrir fornleifafræðingum og öðrum er mikilvægt að benda á að þeir verða a.m.k. að gera tvennt til að leiða hið sennilega í ljós; þ.e. a) að gefa sér tíma til að leita og b) halda áfram að leita (grafa dýpra) þegar eitthvað finnst. Hætta er á að fræðingarnir hafi um of viðurkennda lýsingu af landnáminu til hliðsjónar þegar þeir skoða í jörð – og láta þar við setja. Ekki hætta – leitið lengur og grafið dýpra. Þessu fólki til stuðnings (því það þarf ekki bara skilning, heldur og bæði tíma og fjármuni) er því hér með komið á framfæri við löggjafarvaldið að verja nú fjármunum (umfram þá, sem þegar eru veittir úr Kristnitökusjóði) til rannsókna á “venjulegum” minjum, ekki síst á afskiptasta svæði landsins hingað til – Reykjanesinu. Staðreyndin er nefnilega sú að allar minjar eru jafnmerkilegar. Þær, hver og ein, eru handritin, sem skrifuð voru með hinu daglega striti dugandi fólks.

Sjá meira um Landnám – aldur. Einnig Landnám II.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Húshólmi

Hér er fjallað svolítið um landnám hér á landi. Taka verður þó skrifin með hæfilegum fyrirvara því sérfræðikunnáttu er ekki nægilega vel fyrir að fara.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Elsta ritaða heimild um sögu Íslands er að öllum líkindum frásögn gríska landkönnuðarins Pýþeasar frá því um 300 fyrir Krist. Þar segir frá eyju í norðri er hann nefndi Thule. Lýsingar hans minna á Ísland. Hann heldur því fram að eyjan hafi þá verið fullbyggð fólki.
Írski menntamaðurinn Dicuil kappkostaði að skrifa um eyjuna Thule í landfræðiriti sínu Liber de Mensura Orbis Tarrae (Bók um mælingu jarðkringlunnar). Í því riti, sem talið er vera skráð um 825 e. Kr. fjallar hann um írska einsetumunka, sem flust hafa búferlum til eyjarinnar Thule þrjátíu árum áður eða undir lok 8. aldra. Rit hans hefur verið ein áreiðanlegasta heimildin um Ísland.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Af skrifum Dicuil má einnig ráða að umræddir einsetumenn, papar, hafi ekki fundið landið fyrstir manna. Þvert á móti virðist sem vitneskjan um tilvist landsins hafi verið löngu þekkt og Írar hafi byrjað að sigla hingað mun fyrr. M.a. segir frá ferðum hins írska Brendans um 600 e.Kr. til Íslands og hvernig hann hitti einsetumanninn Pól (Paul). Hann nefndi eyjuna Ísan upp á gelísku. Einnig eru til heimildir um ferðir Rómverja til norðurhafseyja. Á síðustu öld fundust í fornleifauppgröftum á nokkrum stöðum hér á landi rómverskir peningar frá þeim tíma. Þeir gætu þó hafa borist hingað til lands allnokkru eftir útgáfudag.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Bát Náttfara og ambáttar slitnaði frá skipi á ferð með landinu um miðja 9. öld. Bátinn rak að landi og hefur Náttfari lítið getað gert annað en að setjast hér að.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Elstu íslensku heimildina um veru papa hér á landi er að finna í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, en þá merku bók ritaði hann á árunum 1122-1133 e.Kr. Þar segir svo frá: “Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðar á braut, af því þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir sig bækur írskar og bjöllur og bagla; af því mátti skilja að þeir voru írskir”. Ari ritaði bók sína 250 árum eftir komu norrænna manna og studdist því einungis við munnmælasögur. Þá var bók hans fyrst og fremst ætluð sem nokkurs konar “jarðarbók” með ekki síst það hlutverk að festa í sessi ráðandi ættir þess tíma með hliðsjón af þáverandi skipulagi Alþingis.
Þótt fáar skýrar fornminjar hafi fundist um veru papa hér á Íslandi þá er óneitanlega gnægð af örnefnum með tilvísunum í einsetumunkanna. Nægir þar að nefna Papey á Austfjörðum, Papýli fyrir austan, Papafjörð í Lóni og talið er að Apavatn hafi upphaflega heitið Papavatn. Í fornum heimildum er þess einnig getið að á Kirkjubæ hafi papar búið áður en Ketill hinn fíflski, landnámsmaður, reisti þar bú. Þeirra er ekki getið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Mörgum hefur fundist skrýtið hversu bústofn norrænna landsnámsmanna óx ört skömmu eftir landnám þeirra þrátt fyrir tiltölulega fáar ferðir og fáar skepnur í hverri ferð. Til eru nokkrar tilvitnanir í Íslendingasögur þess efnis, s.s. sagan af Hafur-Birni og einnig landnámsmönnum í Hvalfirði. Talið er að Hjaltland hafi verið byggðar Keltum áður en norrænir menn tóku þær yfir, yfirtóku bústofninn og flæmdu eyjaskeggja á braut. Sama á við um Færeyjar. Ekki er ólíklegt að draga megi sömu ályktun um Ísland, enda stutt á milli eyjanna.
Þrátt fyrir að fornleifafræðingar telji að engar minjar sem fundist hafa hingað til sanni að papar hafi siglt hingað, hafa fundist þrjár litlar bronsbjöllur í heiðnum kumlum sem freistandi er að eigna írskum einsetumunkum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þá nefnir Ari fróði bagla papanna, en baglar þessir hafa að öllum líkindum verið einfaldir göngustafir förumunka en ekki skreyttir biskupsstafir þótt bagall merki það nú. Loks hafa fundist krossristur í hellum víðs vegar um landið en ómögulegt er að tímaseta þær. Nú er unnið að rannsókn nokkurra þeirra á Rangárvöllum með hliðsjón af svipuðum hellaristum Kelta. Ef papar létu sér ekki nægja einfalda hellisskúta sem híbýli er mjög líklegt að skýli þeirra hafi verið einföld og látlaus. Þess háttar bústaði er því miður mjög erfitt að greina með fornleifarannsóknum. Þá er og líklegt að þeir, sem á eftir komu, hafi nýtt sér híbýli þeirra, sem fyrir voru, auk þess sem mjög líklegt er að sama grjótið hafi verið notað aftur og aftur í hleðslur nýrri eða endurnýjaðra húsa.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Einnig ber á það að líta að lítið sem ekkert hefur verið gert að því að leita skipulega að fornminjum hér á landi, hvað þá fornminjum sem lítil tiltrú er á að hafi verið til staðar. Nógu erfitt er að greina hús frá því á 17. öld, eða fyrir 300 árum, hvað þá látlausa bústaði frá því 1200 árum fyrr.
Ef fyrstu víkingarnir sem hingað komu hafi hitt fyrir kristna og friðsama Íra má telja víst að heiðingjar hafi haldið uppteknum hætti í samskiptum sínum við þá; rænt og ruplað, hneppt í þrældóm líkt og Tyrkir síðar eða hrakið þá af landi brott. Það sætir því ekki furðu að hinn prestlærði Ari hafi reynt að skrifa sem minnst um papana.
Hús, sem hafa verið endurbyggð og enn standa, t.d. í Landssveit, hafa óyggjandi keltneskt toppbyggingalag. Fornar garðhleðslur eru líkar því sem þekktust á Írlandi.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Hringlaga hlaðnar fjárborgir hafa sama handbragð og þekktust á Írlandi. Má þar t.d. nefna fjárborgina í Óbrennishólma í Krýsuvík sem og garðhleðslur, grafreit og skála í Húshólma. Í dag má enn sjá móta fyrir u.þ.b. 70 fjárborgum á Reykjanesi einu, misjafnlega gömlum. Munir, sem fundist hafa í fornum gröfum, s.s. á Hafurbjarnastöðum í Garði, útiloka ekki að þar hafi fólk af keltneskum uppruna verið greftrað.
Fornar þjóðleiðir á hraunleiðum eru furðu mikið niðurgrafnar. Hraun runnu að hluta til yfir þær skömmu eftir norrænt landnám. Fleira mætt nefna. Það ætti því enginn að afskrifa alveg tilvist eldri forfeðra Íslendinga en þeirra er segir af norrænum mönnum í Landnámabók, enda benda blóðrannsóknir m.a. til þess að Íslendingar megi alveg eins rekja ættir sínar til Írlands en til Skandinavíu. Hins vegar er ljóst að fyrsti skráði landnámsmaðurinn hér á landi var norrænn.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Í Tímanum 1972 er fjallað um “Útvegsbæinn á hraunströndinni undir Þorbirni“:

Grindavík“Svo finnst ritað á fornar bækur að Molda-Gnúpur og hans kyn hafi endur fyrir löngu reist byggð í Grindavík. Þeir frændur bjuggu við geitfé, enda heitir Geitahlíð ei mjög fjarri þessum slóðum, og er sú sögn um son Gnúps, Hafur-Björn, að hafur einn, sem ekki var úr byggðum manna, heldur hergbúa eða huldufólks, hafi komið í geitur hans um fengitímann. Eftir það tímguðust þær með ólíkindum og undruðust menn stórum búsæld Grindavíkurhóndans.
Þessari sögu get ég vel trúað, ekki siður en Helgi á Hrafnkelsstöðum, og hef ég það einkanlega til sannindamerkis, að enginn skagi landsins er jafnhrjóstrugur og Reykjanesskagi og snauður að grænum gróðri. En geitfé gengur fast að mat sínum, þar sem það er margt, og hef ég að minnsta kosti fyrir satt, að þess finnist dæmi í veraldarsögunni, að það hafi sorfið í grjót niður stærri skaga en það horn Íslands, sem spyrnir fæti suðvestur í hafið.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Það getur að minnsta kosti hugsazt, að það hafi verið dálítið tvíeggjuð lukka, ef Björn heitinn Gnúpsson hefur átt svo miklar geitahjarðir, sem fornir sagnritarar gefa í skyn. Og einhvern veginn býður mér i grun, að kvikfjárbúskapur hafi ekki verið sá þátturinn, sem bezt hentaði á Suðurnesjum eða mest var í sómanum i Grindavík á liðnum öldum, og orð Jóns á Laxamýri hef ég fyrir því, að sauðfjárræktin þar syðra hafi verið heldur bágborin yfirleitt talsvert fram á þessa öld. Henni mun hafa verið þannig háttað, að sauðfé fullkomnaði það verk, sem geiturnar kunna að hafa hafið, enda ekki auðhlaupið að því að finna slægjur á Reykjanesskaga, svo að safna mætti heyi í garð til vetrarins. Auk þess var torfengið eldsneyti í fjölmennum verstöövum, þar sem enginn var svörður né heldur tað, svo að þurrka varð þang og þöngla í eldinn og rífa lyngtætlur á meðan þær fundust.

Gerði sig digran, en féll samt
GrindavíkLíf Grindavíkur hefur þess vegna fyrst og fremst verið sjórinn — miðin framundan hraunströndinni, þar sem matfiskurinn gekk svo grunnt, þegar vel lét, að stundum máttu heita fá áratog fram á fiskislóðir. Það eru sjálfsagt vænar kasir, sem búið er að draga á Klofi um Kónga og Húsum um Hnúðana, svo að ekki séu nefnd þau mið, sem utar liggja.
Og sagan um fiskinn á Grindavíkurmiðum er löng saga. Bretum og Þjóðverjum var mætavel kunnugt um fiskidrátt karlanna í Grindavík á kaþólskri tíð og litu þá skreið þeirra miklu girndarauga, svo að af spruttu bardagar og manndráp.

Grindavík

Leifar virkis Jóns breiða.

Á Járngerðarstöðum gerði til dæmis Englendingur einn sér virki, þegar i harðbakkann sló. Sá hét Jón breiði, og af því má ráða, að ekki er ný bóla, að Englendingar geri sig digra, þegar fiskurinn okkar er annars vegar. Hann neitaði líka að greiða hirðstjóranum toll, ekki fús á að láta sér neitt úr greipum ganga af því, sem hann hafði hremmt, og þess vegna gerði hirðstjórinn honum aðför með tilstyrk Þjóðverja, er væntanlega hafa fengið eitthvað fyrir snúð sinn, og þar féll Jón breiði eins og Gordon í Khartum mörgum öldum seinna.

Fógeti og kaupmaður flugust á um pundara

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Grindavík varð ein helzta verstöð Skálholtsstaðar, er fram liðu stundir, og þangað sigldi Ögmundur Pálsson, þegar gott var orðið í sjóinn á vorin á biskupsjaktinni, sem hann hafði látið smíða í Vatnsfirði, svo að hann gæti séð með eigin augum, að ekkert væri undan dregið af því, sem heilög kirkja átti að hreppa af fiskmetinu. Í Grindavík var Marteinn Einarsson á vegum Mammons, kaupmaður á snærum Englendinga, áður en Kristján kóngur og lútherskan lögðu biskupskápuna á axlir honum og settu á hann mítrið.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Þá fór að styttast í því, að aðrir en þeir, sem kóngleg náð útvaldi, fengjust við verzlun á Íslandi, hvort heldur var í Grindavík eða annars staðar, og hafi karlarnir ekki áður kunnað að standa álútir með pottlokið sitt milli handanna, þá hafa þeir lært það þá. Ég get ímyndað mér, að þeir hafi fast að því fallið í stafi af forundran eftir hálfra aldar kynni af danska verzlunarvaldinu, þegar sá dagur rann, að Skúli fógeti reið grýttar slóðir suður í Grindavík og flaugst á við sjálfan kaupmanninn út af sviknum pundara hans í verzlunarhúsunum.

Margir fóru upp, en fáir út aftur

Grindavík

Grindavík fyrrum.

Þó að ég verði að gera ráð fyrir því, að Grindvíkingum gömlu hafi verið einn kostur nauðugur að gera sig bljúga andspænis kaupmanninum, hefur ósmá verið sú seigla, sem í þeim bjó, og mikil mannlifssaga væri öll þeirra sjósókn, ef einhvers staðar væri á vísan að róa, þar sem hún er. En það er eins með varsímann, sem bátarnir draga á sjávarflötinn, og það, sem í sand er skrifað: Það er horfið áður en við er litið. Eftir er aðeins það, sem má láta sig gruna eða óra fyrir. Í gulnuðum annálum má lesa örfáar línur um þennan eða hinn skipstapann, stökum sinnum jafnvel drepið á björgun úr þeim lífsháska, er vonlaust virtist að sleppa frá. En þögnin og gleymskan hylja sögur um mikinn garpskap og mikið æðruleysi hinna gengnu kynslóða i Staðahverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi — gömlu byggðarlögunum þrem í Grindavík.

Grindavík

Grindavík – bátar við bryggju.

Öll skipin, sem hafa skolazt upp að ströndinni, hvort heldur gömul og úr sér gengin eða svo ný, að þau höfðu flutt afla að landi, segja líka sína sögu um það, hversu víðsjárverður þessi staður var, jafnvel þeim, sem stærri fleytum réðu en Grindvíkingar sjálfir. Flökunum, sem brimið hefur tvístrað um hrauntangana, ægir þar saman af mörgum þjóðernum — enskum, frönskum og dönskum og guð má vita hvað: Fiskiskip frá Vidalínsútgerðinni og Duus, spekúlantsskip frá Eyþóri Felixsyni, franskarskútur frá Normandí, togarar frá Hull og Grimsby — hver getur talið það allt eða tíundað þau mannslíf, sem þar hafa slokknað.
Jú — við getum nefnt Karl Nilsson, veiðiþjófinn og óþokkann, sem drekkti mönnunum á Dýrafirði um aldamótin— hann lauk líka ævidögum sínum á þessum slóðum.

Grimmur leikur og djúp sár

Brim

Grindavíkurbrim.

Þó að örlög Karls Nilssonar hafi tæpast verið sárt hörmuð hérlendis, eftir það sem á undan var gengið, hafa margir, sem í landi sátu, hlotið mikil og djúp sár, sem seint greru, af völdum þeirra dætra Ægis, sem þreytt hafa grimman leik við þessa háskalegu strönd. Og af öllum þeim skipum, sem þarna hafa borizt upp, eru þau færri en fingur annarrar handar, er komizt hafa aftur á flot. En dæmi eru þess, að í svo rismiklum sjó hafi vélvana bátur lent, að bylgja bar hann yfir öll sker og grynningar langt upp á malarkamp, þar sem hann stóð á þurru við útsogið, svo að ganga mátti úr honum þurrum fótum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Á slíkum stað má nærri geta, að oft hefur þurft að hlynna að sjóhröktum mönnum, sem naumlega sluppu af strandi — hjúkra þeim, fæða þá og klæða. Væru þeir margir klæðvana, var einna helzt að leita til Einars á Garðhúsum, eftir að mektardagar hans runnu upp. Þá urðu franskir strandmenn kannski að sætta sig við ívið færri flíkur en hentaði vexti þeirra, því að Fransarar á skútunum gömlu voru ekki nein tröll og talsvert smávaxnari en þeir, sem fatnaðar þörfnuðust í Grindavík endranær.

Það var á elleftu stundu
GrindavíkVið drápum aðeins á þá alla sögu, sem orðið hefur i Grindavík, án þess að hennar sjái nú stað. Þessi mikla og aflasæla verstöð var þannig sett, að þar var furðulega lengi mjög örðugt um vik um útgerð. Grindavík var að vísu lengi kaupstaður og Járngerðarstaðavíkin löggiltur verzlunarstaður. En þar flutu ekki í varir nema lítil róðrarskip, og þó vandfarið inn. Það var fyrst 1928 eða 1929, að þar var bryggja gerð milli tveggja vara. Þá fyrst féll það niður, að sjómennirnir bæru aflann sinn á bakinu upp úr bátunum, nýkomnir úr róðri.
GrindavíkVinnuhagræðingin komst á það stig, að kasta mátti fiskinum upp á bryggjuna og aka honum þaðan á handvögnum. En eftir sem áður urðu menn að bjarga bátum sínum undan sjó eftir hvern róður, setja þá sem kallað var, því að enginn vissi, nema sjór tæki að stæra áður en við var litið, og þá voru bátarnir í voða.
Úti fyrir Hópinu var rifið, og var svo grunnt á því, að yfir það flutu ei nema litlir bátar. En er skipastóllinn fór að taka stórbreytingu í öðrum verstöðvum, vofði sú hætta yfir Grindavík, að fólk færi að flýja þaðan á staði, þar sem lífið var léttara. Það var fyrst 1939, að byrjað var á því að gera vísi að bátaleið inn í Hópið.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Reynt var að dýpka svonefndan Miðós — með handverkfærum. Eftir það gátu tíu til fimmtán lesta bátar flotið inn á flóði. Árið 1945 var loks heldur betur tekið að beita tækninni: Dýpkunarskip kom til starfa, og það var ruddur gegnum rifið þrjátíu metra breiður skurður, sjö eða átta feta djúpur. Það var á elleftu stundu, því að óþreyja var komin í margan Grindvíkinginn við allt það, sem þar var við að stríða við sjósóknina.
Síðan hafa mikil tíðindi gerzt. Það er komin höfn í Grindavík og mikill og góður bátafloti, og þar er líf og önn og vöxtur — þúsund manna bær, sem leggur mikið í þjóðarbúið, og mun á komandi tíð bjóða upp á fjölbreyttari störf en hingað til, þótt sjórinn og aflinn verði jafnan undirstaðan.

Vísindamaðurinn og Gunna í kongungshúsinu

Grindavík

Til skamms tima hefur fátt manna úr Grindavík gengið þá braut, sem kölluð hefur menntavegur. Þaðan var þó Bjarni Sæmundsson, fiskifræðingurinn okkar fyrsti, og fleiri Grindvíkingar af gömlu kynslóðinni hafa orðið mörgum kunnir, þótt ekki hefðu þeir lært svo mjög til bókar. Mér dettur i hug hún Gunna gamla i Konungshúsinu, eins og við kölluðum hana hér fyrr meir — veitingakonan, sem átti langa sögu á Þingvöllum, erfingi hússins, sem reist var handa kónginum árið 1907. Öðrum finnst kannski, að heldur hefði átt að nefna aðra en hana, svona við hliðina á vísindamanninum Bjarna Sæmundssyni.

Sjóslysaskilti

Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.

En gamla konan á líka sín ítök, þar sem hún liggur undir grænni torfu, svo margir drukku hjá henni kaffisopa. Það hefðu svo verið hæg heimantökin að tíunda einhvern harðfengan skipstjóra og veiðikló.
Ef við víkjum að listum í sambandi í Grindavík þá er skemmst að minnast nýja félagsheimilisins, sem Ragnar Kjartansson myndhöggvari hefur skreytt myndum í tengslum við hlutverk staðarins í þjóðlífinu og málverka Péturs Friðriks Sigurðssonar af gömlu húsunum, bátunum og höfninni.

Getið tveggja guðsmanna með góðan orðstír

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Ekki má ljúka þessu spjalli, án þess að geta svo sem tveggja presta, sem lifðu og störfuðu á meðal Grindvíkinga, alllöngu áður en nýi tíminn hélt þar innreið sína. Þar var séra Kristján Eldjárn prestur um skeið, og var í minnum hafður sökum þess meðal annars, að hann taldi sig ekki ofgóðan til þess að skemmta sóknarbörnum sínum, þegar það átti við. Hann var maður, sem hafði margt dottið í hug — jafnvel ekki grunlaust um, að hann hafi eitthvað fitlað við smíði einhvers konar frumstæðrar flugvélar á æskuárum, og suður í Grindavík brá hann því fyrir sig að leika persónur úr Skugga-Sveini. Hann náði i skottið á þeim tima, er fyrirmenn áttu korða, og sjálfur eignaðist hann þvílíkan grip.

Staðarhverfi

Korði séra Kristjáns. (Úr Staðhverfingabók).

Korðar hafa að líkindum verið lítið notaðir í Grindavík síðan gengið var af Jóni breiða dauðum, nema hvað Tyrkir hafa eflaust brugðið þess kona vopni. En af því er saga, að sér Kristján greip einu sinni til korða síns. Það bar til að steypireyður á flótta undan háhyrningatorfu hljóp á land í Grindavík. Presturinn tók sér þá korðann i hönd og stytti þjáningarstundir skepnunnar, sem brauzt um í fjörunni, með því að reka hann á kaf undir bægslið.

Grindavík

Árabátur neðan verbúðar.

Hinn presturinn, sem við getum ekki gengið fram hjá, var séra Oddur Gíslason frumherji í björgunarmálum á Íslandi og bindindishetja að auki á mikilli drykkjuöld, þegar brennivín var bæði ódýrt og auðfengið. Hann leitaðist við að kenna mönnum að nota bárufleyg í sjávarháska, láta lýsi eða olíu lægja öldurnar. Hann gaf af fátækt sinni út tímaritið Sæbjörgu i eitt ár, og mun tímariti ekki hafa verið stjórnað úr Grindavik í annan tíma, og hann lagði sig fram um að kenna sund. Sjálfur hafði hann bjargað sér og dreng, er með honum var, á sundi úr bráðum háska, er báti hvolfdi undir þeim.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Því er ekki að leyna, að meðal Grindvíkinga hafa verið þeir, sem þótti dropinn góður, og er þar til marks, að einu sinni fór harðmannlegur sægarpur að hágráta, þegar hreppstjórinn velti um einu víntunnunni, sem borizt hafði að landi ósködduð úr strönduðu skipi, og er þó þeim, er þreyta ævi langan leik við hafið, sízt öðrum táragjarnara að jafnaði. Bindindisboðskapur séra Odds kann þess vegna að hafa fallið í grýtta jörð hjá sumum í sókninni. Hvenær gerir boðskapur það ekki? En séra Oddi var svo farið, að hann var maður síns fólks, sjálfur sjómaður, og formaður af bezta tagi, og jafnvígur, hvort sem hann var í skinnklæðum á miðum úti í rismiklum sjó eða hempu í kirkju sinni eöa annars staðar í ræðustóli. Og um hann lék frægðarljómi sökum þess, að hann hafði ungur rænt sér brúði úr húsum þess og höndum, sem ríkastur var og mestur fyrir sér meðal margra ráðríkra útvegsbænda á Suðurnesjum.

Sitthvað úr náttúrunnar ríki

Grindavík

Grindavík – höfnin.

Við höfum látið móðan mása og hlupið úr einu i annað. Og þó er næsta fátt sagt. Það er að svo mörgu að hyggja í Grindavík. Þar eru vatnsgjár, sem álar ganga í neðanjarðar, og þar vex þistill á bletti, og segir þjóðsagan, að hann hafi komið upp af blóði manns, sem Tyrkir drápu. Fuglum, sem annars eru sjaldséðir hérlendis, bregður oft fyrir í Grindavík. Einkum bar nokkuð oft við, að hegrar sæjust þar, og áttu þeir að minnsta kosti fyrr á árum fast náttból undir hraunjaðri utanvert við túnið á Járngerðarstöðum. Þetta eru sem sagt fuglar, sem hafa reiðu á sínu.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

Ekki síður bregður þar fyrir mörgu sérkennilegu og fágætu úr sjónum. Þannig er það í minnum haft, að rétt fyrir aldamótin skaut Helgi i Húsatóftum rostung með framhlaðning. Þeim þótti vont af honum kjötið, Grindvíkingum, en húðin var aftur á móti hreinasta þing í reipi. Það voru þess konar reipi, er nefndust svarðreipi áður fyrr. Þorradag nokkrum árum fyrr rak upp svo mikið af karfa, að fjaran var öll rauð yfir að líta.
Þá var ekki búið að skarka með botnvörpur um allan sjó. En meðal sjaldgæfra fiska, sem rekið hafa þar syðra, má nefna gljáháf 1917, tunglfisk 1931 og umfram allt Bretahveðni, sem er svo sjaldgæfur, að það ætti að halda uppi á daginn, þegar hann fannst, 7. marz 1905, ekki síður en afmæli kóngsins á meðan sú persóna var og hét.
En svona nokkuð þýðir ekki að þylja, því að það myndi æra óstöðugan. Það er ekki seinna vænna að slá punkti aftan við.” — JH.

Heimild:
-Tíminn, 248. tbl. 29.10.1972, Útvegsbærinn á hraunströndinni undir Þorbirni, JB, bls. 10-11.

Grindavík

Grindavík.

Grindavík

Engar áreiðanlegar vísbendingar liggja fyrir um bæjarstæði Moldar-Gnúps, þess landnámsmanns er nam land, skv. Landnámu, í Grindavík. Ef vel er að gáð má þó sjá nokkrar vísbendingar þess efnis, einkum er varða afkomendur hans er byggðu þar sem nú er Grindavík. Bent verður á þær hér – þangað til eitthvað annað bitastæðara kemur í ljós.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

[G]núpshlíð, [G]núpshlíðarendi og [G]núpshlíðarháls heitir fjallendi norðan Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, þar sem nefnt er “Gamla-Krýsuvík. Ekki er með öllu fyrir það skotið að Molda-Gnúpur hafi búið við ströndina í Krýsuvík. Hraunið er síðar umlukti bæjarstæðið rann um 1151, eða u.þ.b. hundrað árum eftir að hann kom til “Grindavíkur” að sögn Landnámu. Hafa ber í huga að Krýsuvík er í landi Grindavíkur.

Hópsnes

Hópsnes – kort.

Við nákvæmari leitir að bæjarstæði Molar-Gnúps færumst alltaf nær og nær. Ljóst er að maðurinn átti a.m.k. þrjá sonu á lífi; frumvarpið Gnúp, (Hafur) Björn og Þórð (Leggjanda). Þorsteinn er einnig nefndur til sögunnar. Hver og einn þeirra valdi sér bæjarstæði nálægt föður sínum. Vitað er að fjögur býli voru þá og þegar á fjórum stöðum í og við Grindavík; á Húsatóttum, á Járngerðarstöðum, á Hópi og á Þórkötlustöðum. Flestir hallast að því að Hafur-Björn hafi búið á Hofi (Hópi) enda álitlegt höfuðbýli frá fornu fari. Haugur og bæjarhóll, sem þar voru lengi fram eftir öldum, voru því miður ruddir þegar núverandi hús voru byggð.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 2020.

Járngerðarstaðir voru með beitaraðstöðu á Baðsvöllum, miðbærinn (Hóp) var með selstöðu við Svartsengi og austurbærinn (Þórkötlustaðir) í Fagradal. Húsatóttir (Staður) voru með beitaraðstöðu inn við Þórðarfell. Síðar sameinuðust Grindavíkurbæirnir, vegna óhóflegs beitarálags, um selstöður á Selsvöllum. Tóftir gömlu sameiginlegu selstöður bæjanna eru á austanverðum Völlunum. Selstöðurnar lögðust þarna af um tíma, líklega vegna óvæntra náttúrlegra aðstæðna, en voru síðan teknar upp að nýju í byrjun 19. aldar. Selstöður lögðust síðan af á Grindavíkurbæjunum sem og annars staðar í fyrrum landnámi Ingólfs undir lok aldarinnar.

Ef (G)Núpshlíðarhálsinn heitir eftir Gnúpi er líklegt að hann hafi búið í Húshólma, fyrrum Krýsuvík.
Af landfræðilegum líkum má draga þá ályktun að Hafur-Björn hafi búið á Hópi (Hofi).

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Goðhús var á Hópi (Hofi). Þar er enn (2012) til gamall platti uppi á vegg í stofu með niðjatali Hafur-Björns.
Við forkönnun á framangreindum stöðum kemur og einn annars staður til greina. Hann hefur enn ekki áður verið skoðaður líklegur sem slíkur.

-ÓSÁ tók saman.

Grindavík

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið.

Eyri

Eyri – tóftir.

Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring…

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892. Snorrakot t.h.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestarilæk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti. Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu.

Selalda

Fjárskjól undir Strák í Selöldu.

Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera. Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.

Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var stíflaður á nokkrum stöðum upp að námunum og brennisteinninn skolaður í hólfunum.

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Hafliðastakkur norðan Bæjarfells. Uppdráttur: ÓSÁ.

Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar. Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði. Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni. Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum. Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.
Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Ögmundarhrauni.

Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.

Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

-ÓSÁ tók saman.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Brennisteinsfjöll

Brennistaeinsjallasvæðið hefur nú verið friðlýst. Því ber að fagna.
Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar að stærð og liggur í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um er að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna má ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum.

Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu.

Kista

Kista í Brennisteinsfjöllum – samtal.

Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu.

Brennisteinsfjöll

Útsýni yfir Reykjanesskagann til vesturs frá Bollum.

Kleifarvatn

Pálmi Hannesson skrifaði um Kleifarvatn í Náttúrfræðinginn árið 1941. Þá skrifaði geir Gígja um vatnið í Sunnudagsblað Vísis sama ár:

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

“Sumarið 1930 rannsakaðii ég Kleifarvatn eftir tilmælum dr. Bjarna Sæmundssonar. Tilgangur rannsóknanna var sá að afla nokkurrar vitneskju um lífsskilyrði í vatninu, eðli þess og gerð, en það vex og minnkar til skiptis, eins og kunnugt er, og hafa menn verið harla ófróðir um orsakir þeirra breytinga.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Í þennan tíma var eigi bílfært nema skammt eitt suður frá Hafnarfirði, og gat ég því eigi komið við þeim tækjum, er ég hefði helzt kosið. Ég keypti norskan bát, fjórróinn, og lét flytja hann suður að vatninu með allmiklum erfiðismunum. Dvaldist ég við vatnið í vikutíma um miðjan júlímánuð, ásamt þeim kennurunum, Einari Magnússyni og Sveinbirni Sigurjónssyni, sem voru mér til aðstoðar. Bjuggum við í tjaldi í brekkukorni gegnt Lambhaga og höfðum yfirleitt allgott veður. Að lokum settum við bátinn á hellisskúta einn í Lambhaga, og sá lengi síðan nokkur merki þeirrar útgerðar.

DÝPTARMÆLINGAR.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Höfuðverkefni mitt var það að fá vitneskju um dýpi vatnsins og botnlag, enda hafði hvorugt verið nannsakað áður, svo kunnugt væri. Mældi ég dýpi á fjórum línum þvert yfir vatnið, en auk þess allvíða annars staðar, bæði út frá landi og úti á vatninu.

Niðurstaðan af mælingunum er í stuttu máli þessi: Vatnið er yfirleitt mjög djúpt eftir stærð og víðast mjög aðdjúpt, einkum undir Sveiflubálsi. Mest dýpi í vatninu, 87,5 m, mældist út frá Syðri-Stapa, aðeins 200 m frá landi. En þar er megindýpið mjóst, því að Stapinn þrengir að því sín megin, en frá hinu landinu gengur grunn lengra út en í mitt vatnið.

Fremri-Stapi

Stapi við Keifarvatn.

Sunnan við þessa mjódd breiðist megindýpið út, og er vatnsbotninn suður þaðan nokkuð regluleg skál með jöfnu aðdýpi og þó allmiklu, allt suður undir Geithöfða. Þó verður þar um 50 m. hár hamar, er gengur suður frá Syðri-Stapa nokkuð úti í vatninu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Vatnsflöturinn er um 9,5 km2, og er þá mælt eftir uppdrætti herforingjaráðsins danska, sem gerður er samkv. mælingu frá 1908, en þá var mjög hiátt í vatninu. Árið 1930 var vatnið allmiklu minna. Þá var þurr fjara framan við Innri-Stapa, norðurvík vatnsins, Lambhagatjörn, þurr með öllu, svo að hvergi sá þar vatn, en að sunnan vatnaði aðeins inn fyrir tangana, sem afmarka víkina, er gengur upp að Nýjalandi. Telst mér svo til, að þá hafi flatarmál vatnsins verið um 8,65 km2 eða nærri 90 ha minna en þá, er mest er í vatninu.

BOTN.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í öllu megindýpi vatnsins er leirbotn og raunar víðast þar, sem dýpi er 15 m eða meira. Út frá Syðri-Stapa eru þó hamrar og stórgrýti að minnsta kostá niður á 40 m dýpi. Leirinn á vatnsbotninum er límkenndur og mislitur, víðast gráblár eða grár, en sums staðar þó svartur, rauðleitur eða mógulur. Hann reyndist að langmestu leyti ólífrænn, enda mun hann vera veðrað móberg og hafa borizt í vatnið með vindi og í leysingum. Nokkuð er hann þó blandaður rotleifum (detritus) og eskilögnum (diatomea), og sunnan til í vatninu reyndist í honum vottur af brennisteini. Á grunnunum er sandur í botni, eða leir, en grjót næst landinu og sums staðar móibergsklappir alllangt úti. Ofan á sandinum er víðast mógrátt lag eða himna, og kveður þar mest að lífrænum efnum, rotleifum og eskilögnum. Í víkunum undir Sveifluhálsi er dökkur vikursandur, léttur og hvarflandi fyrir öldugangi. Við báða enda vatnsins og víkina sunnan við Lambhaga er kastmöl í fjörum og út þaðan í vatnið. Hefir öldurótið orpið henni upp í granda og malargarða.

FJARA.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Við suðvesturlandið er fjaran víðast föst, og er þar víðast grjót, en sums staðar klappir. Svo er og við stapana báða, Lambatanga, Geithöfða og Lambhaga, nema hvað þar eru hamrar víðast. Í víkunum beggja vegna við Syðri-Stapa er dökkur vikursandur mjög laus, en malarfjörur við vatnsendana, eins og áður getur.

HITI.

Kleifarvatn

Jarðhiti í og við Kleifarvatn.

Þá daga, er ég dvaldist við vatnið, neyndist yfirborðshiti þess um 10° C eða mjög hinn sami og meðalhiti loftsins í júlímán., enda breyttist hann með lofthitanum. Botnhiti á megindýpinu mældist 4,6° C, en á grunnunum tæp 9° C. Hitavarp (Sprungschicht) virtist eigi greinilegt, en þó lækkað hitinn mest á 20—30 m dýpi.
Tveir hverir að minnsta kosti koma upp í vatninu, báðir í því sunnanverðu, er annar skammt norður frá Lambatanga, en hinn austan við Geithöfða, nærri landi. Virðast þeir hafa hlaðið um sig hóla á vatnsbotninum og kemur allmikið vatn upp úr þeim.

Kleifarvatn

Hverir við Kleifarvatn.

Hita gætir þó eigi nema örskammt út frá þeim og aðeins í yfirborði, enda hafa þeir engin áhrif á hita vatnsins í heild. Sumarið 1930 vatnaði yfir hveri þessa, en þó eigi meira en svo, að báturinn flaut ekki yfir þann eystri, og rauk þar upp úr vatninu, þegar loft var kyrrt og rakt. Árið 1932 voru þessir hverir komnir upp úr vatninu.

AÐRENNSLI OG VATNSKOSTIR.

Svæði það, er veitir vatni til Kleifarvatns, er ca 30 km-, enda hefir vatnið ekkert fast aðrennsli ofan jarðar.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Lækjarkorn eitt rennur þó að jafnaði sunnan í það, en sumarið 1930 þornaði þessi lækur upp áður en hann næði vatninu. Hann kemur frá hverasvæðinu hjá Seltúni og er nokkuð mengaður brennisteinssamböndum.
Allt umhverfis vatnið má kalla gróðurleysur, nema að suðvestan, en þar liggja engjalönd frá Krýsuvík. Mjög lítið af áburðarefnum, einkum köfnunarefni, mun því berast í vatnið, enda er það ófrjótt. Sjóndýpi mældist ca 8 m norðanvert í vatninu, en ca 4,5 í því sunnanverðu, og hygg ég, að þar kenni brennisteinssambanda frá hverunum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – uppdráttur.

GRÓÐUR OG DÝRALÍF.
Botnfastur gróður í vatninu er nær einvörðungu bundinn við grunnin, en þar eru talsverðar græður af þara allt út á 10 m dýpi.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Landnám 2002; Litla Grindavík numin.

Annarra plantna gætir lítið. Allstórir blettir eru þó á víð og dreif gróðurlausir með öllu, og yfirleitt eru plönturnar heldur þroskalitlar, enda mun köfnunarefni skorta. Grunnin og þeir aðrir hlutar vatnsins, þar sem botngróður getur þrifizt, munu varla vera meira en ca 180 ha, þegar ekki eru taldar víkurnar við vatnsendana, er þurrar voru vorið 1930.

Á grunnunum er allmikið um vatnabobba, einkum nærri landi, þar sem grýtt er. Mest virðist mér kveða að þeim sunnan til, og nálægt hverunum voru þeir mjög margir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – sprengjuhluti a botni vatnsins.

Eigi fann ég önnur botndýr, en þó nokkuð af hömum og hýsum eftir skordýralirfur, bæði í vatninu sjálfu og vogrekum úr því. Aftur er mikil mergð hornsíla í vatninu og mörg stórvaxin. Mjög mörg þeirra voru með bandorm, svo að ég hefi hvergi annars staðar slíkt séð. Veltust þau hundruðum saman við fjörurnar dauðvona með orminn hálfan út úr kviðnum.
Heyrt hefi ég, að eitt sinn hafi lifandi silungur verið fluttur í vatnið, en hans sér nú engin merki. Svifdýr eru fá, einkum virðist einstaklingafjöldinn lítill í samanburði við önnur vötn, og eigi fann ég nema hinar algengustu tegundir.

Fjörubeltið er tiltakanlega lífsvana, og veldur þar vafalaust miklu, að vatnið vex og minnkar frá vori til hausts og ári til árs. Vikurfjaran niður frá Sveifluhálsi má heita aldeyða, og líku máli gegnir um malarfjöruna við vatnsendana. Helzt er líf að finna í fjörunni suðaustan við vatnið, enda er hún grýtt og föst. Nokkurt mý var við vatnið og fáeinar vorflugur. Sundfuglar dvöldust þar ekki að jafnaði, en nokkrar stokkendur komu þangað öðru hverju sem gestir.

VATNSHÆÐARMÆLINGAR.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – dýpt.

Það er gamalt mál, að í Kleifarvatni gæti flóðs og fjöru og komi hvorttveggja á 40 ára fresti þannig, að vatnið vaxi í 20 ár, en minnki í önnur 20. Tvenn merki höfðu menn til þessa. Annað er það, að Krýsvíkingar fóru með kaupstaðarlestir sínar fram með vatninu, þegar þar var fært með hesta, en þar er ófært talið nema fara megi fjöru framan við Innri-Stapa. Hitt merkið er engiland frá Krýsuvík, sem liggur sunnan við vatnið og fer í kaf, þegar hæst er í því. Má gera ráð fyrir því, að Krýsuvíkurmenn hafi gefið gaum að þessum merkjum, og er því líklegt, að munnmælin um vatnið hafi við rök að styðjast.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Guðmundur Jónsson, sem síðastur bænda bjó að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, sagði mér það, sem hér fer á eftir: Árið 1880 fluttist Árni sýslumaður Gíslason að Krýsuvík. Var vatnið þá talið minnkandi, en þó mikið. Engjarnar voru komnar upp, en fífugróður þar svo mikill, að á Nýjalandi „fékkst vel á engjalest”, og bendir gróðurfar þetta til þess, að engjarnar hafi verið komnar undan vatni fyrir nokkrum árum, en þó blautar.
Árið 1895 fluttist Guðmundur að Nýjabæ. Var vatnið þá talið vaxandi, og ófært fyrir Stapann. Ekki vissi Guðmundur, hvenær vatnið hefði orðið minnst milli 1880 og 1895, en taldi þó, að það hafi alltaf verið fremur mikið á því tímabili og vafasamt, hvort þá hafi verið fært fyrir Stapann, enda var tíðarfar kalt og votviðrasamt á þeim árum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Eftir 1895 óx vatnið jafnt og þétt, og fóru Krýsuvíkurengjar í kaf árið 1907 eða 1908. Telur Guðmundur, að vatnið hafi komizt hæst árið 1912, en tekið síðan að lækka, og árið 1916 komu engjarnar aftur upp úr. Eftir 1920, einkum eftir 1924, hyggur hann að mestu hafi munað um lækkunina, en ekki var þó farið fyrir stapann fyrri en 1929, en þá var komin þar allgóð fjara, svo að hann telur líklegt, að þar hafi verið fært 1—2 árum fyrr.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Á uppdrætti herforingjaráðsins er vatnsborðið talið 135,00 m yfir sjó árið 1908, en ekki mun sú ákvörðun alls kostar nákvæm. Eftir samanburðarmælingum, sem Jón Víðis hefir gert, stóð vatnið 132,44 m yfir sjó árið 1930, en 131,67 m árið 1932, þegar það var lægst. Samkvæmt þessu hefir vatnið staðið 3,33 m hærra árið 1908 en árið 1932, en eftir 1908 hækkaði það enn til 1911 eða 1912, og má því ætla, að munurinn á mestu og minnstu hæð þess hafi verið 4,0—4.5 m.
Árið 1926 tók Emil Jónsson, vitamálastjóri, mynd við vatnið, og mátti af henni marka hæð vatnsins þá með mikilli nákvæmni. En síðan 1930 hefir vatnshæðin verið mæld árlega og sum árin oftar en einu sinni. Mælingarnar annaðist Emil Jónsson frá 1932 —1938, en vegamálastjórnin eftir það.

Kaldrani

Kleifarvatn.

Það gefur að skilja, að þessar mælingar séu of fáar til þess, að af þeim megi draga miklar ályktanir um breytingar vatnsins, hversu þær gerist eða hve lengi hver umferð (cyclus) standi. Þó sýna þær, að vatnið hefir ekki vaxið jafnt hin síðari ár, heldur í stökkum með kyrrstöðu á milli eða jafnvel afturhvarfi. Þannig hækkaði vatnsborðið um 212 cm frá 1932—1934, stóð svo í stað til 1935, en lækkaði síðan á næsta ári um 107 cm. En heimildir þær, sem hér hefir verið getið, benda til þess, að hið síðasta breytingaskeið vatnsins hafi verið um 40 ár, eins og munnmælin herma, og má því ætla, að þau styðjist við athuganir. Að minnsta kosti má telja víst, að vatnið hafi orðið mest árið 1911 eða 1912, en farið síðan minnkandi til 1932.

ORSAKIR VATNSBORÐSBREYTINGA.

Reykjanesskagi

Kleifarvatn.

Ýmsar tilgátur hafa komið upp um það, hvað valda muni þessum breytingum á vatninu, og mun sú almennust, að það hafi afrennsli neðanjarðar gegnum gjár eða hella, er ýmist teppist eða lokist einhverra orsaka vegna. Sumir hugsa sér þetta afrennsli sem einhvers konar sogpípu, er taki að verka, þegar vatnið er hœst, en fyllist lofti, þegar í því lækkar. Ekki virðast mér þessar skýringar næsta sennilegar, og kennir þar raunar misskilnings á eðli stöðuvatna. Mun því rétt að ræða þetta mál nánar og freista þess að finna skýringu, er við megi hlíta, að minnsta kosti sem undirstöðu frekari rannsókna.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – kort herforingjaráðsins.

Kunnugt er, að Kleifarvatn vaxi á vetrum, en minnki á sumrum, hvað sem hinum langvarandi breytingum líður. Guðmundur í Nýjaibæ sagði mér, að þegar hátt væri í vatninu, gengi það hærra á Krýsuvíkurengjar á vetur en sumar, og er fjara tæki. Kæmu engjarnar upp úr að sumrinu aðeins, en hyrfu undir vatn á veturna fyrst í stað.
Sumarið 1931 mældum við Emil Jónsson lækkun vatnsborðsins frá efstu fjörumörkum um vorið til 15. júlí, og nam hún 70 em. Síðari mælingar sýna og, að vatnið minnkar frá vori til hausts. Þannig lækkar vatnsborðið um 20 cm frá 18. maí til 25. nóv. árið 1938, en árið 1936 lækkar það um 20 em frá 16. júlí til 16. ágúst, eða nærri því um 0,6 cm á sólarhring að meðaltali. Kleifarvatn er ekkert einsdæmi að þessu leyti, heldur eiga öll afrennslislaus vötn sammerkt í því, og er munurinn á vatnsborðinu vor og haust sums staðar miklu meiri, t. d. í ýmsum smávötnum á hálendinu. Þar hefi ég mælt fulla 6 m frá vatni að efstu fjörumörkum ársins.

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Skýringin á þessum árlegu vatnshæðarbreytingum virðist mér í stuttu máli þessi: Afrennslislaus stöðuvötn eru hluti af jarðvatninu og verða þar, sem jarðvatnið liggur ofar en yfirborð jarðar. Vatnsborð þeirra er því raunar jarðvatnsborðið sjálft. Nú nærist jarðvatnið á úrkomunni, þeim hluta hennar, sem ekki gufar upp eða rennur fram ofanjarðar. Jarðvatnsyfirborðið hækkar því í úrkomum, en lækkar í þurrkum. Sama máli gegnir þá um afrennslislaus vötn. Þau hækka því að jafnaði yfir veturinn, en lækka yfir sumarið. Á hálendinu verður þessi árstíðamunur meiri en á láglendinu, því að þar geymist vetrarúrkoman að mestu sem snjór, er leysir á skömmum tíma á vorin. Vötnin verða því mest, er leysingum lýkur.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnsborð eftir árum.

Hver er þá orsök hinna langvarandi vatnsborðsbreytinga?
Samkvæmt þeirri skoðun, sem hér hefir verið lýst, verður að ætla, að þær stafi af langvarandi breytingum á úrkomu. Ekki er mér kunnugt um, að slíkar úrkomubreytingar hafi verið rannsakaðar hér á landi, en svo ber við, að erlendir fræðimenn hafa fært að því veigamikil rök, að þær eigi sér stað.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn liggur í djúpri dalkvos milli brattra hlíða. Beggja vegna við það hlýtur því jarðvatnsborðið að liggja allmiklu hærra en vatnsflöturinn og halla að honum. Jarðvatnið hlýtur því að streyma stöðugt til vatnslægðarinnar, en aðstreymi þess er ekki svo mikið, að það nægi til þess að fylla hana svo, að vatnið fái framrás ofanjarðar. Hins vegar hallar svo stóru svæði að vatninu, að óhugsanlegt er, að uppgufun frá vatnsfletinum hamli á móti aðrennslinu. Vatnið hlýtur því að hafa afrennsli neðan jarðar, og það afrennsli er rennsli jarðvatnsins. Nú getur jarðvatnið ekki fremur en annað vatn runnið þangað, sem hærra vatnsborð er fyrir, en þannig er háttað beggja megin við Kleifarvatn, eins og áður segir. Hæð Grœnavatns og Gestsstaðavatns sýnir, að sama máli gegnir um lægðina suðvestur frá vatninu. Afrennsli vatnsins hlýtur því að vera til norðausturs, undir skarðinu, sem verður milli Lönguhlíðar og Sveifluháls. Í Kleifarvatni öllu er því straumur til norðausturs — straumur jarðvatnsins.

Lambhagatjörn

Lambhagatjörn.

Þegar vatnið er svo hátt, að Lambhagatjörn sé þurr, liggur afrennslið undir botni hennar. En ef vatn er í tjörninni, rennur fyrst inn í hana úr aðalvatninu, en síðan aftur út úr henni um norðausturfjöruna. Í ósnum hlýtur straumurinn að vera mestur, og þar má mæla afrennslið. Mjög væri fróðlegt að fá úr því skorið, hvort þetta afrennsli er jafnt eða ekki. Í miklum þurrkum er trúlegt, að uppgufunin úr vatninu verði meiri en aðrennsli þess, og ætti þá að renna úr tjörninni inn í vatnið, að minnsta kosti ætti straumurinn í ósnum að verða mjög lítill. Í júlí 1930 mældi ég vatnshæðina daglega, og virtist mér bún fara mjög eftir veðri.

Arnarvatn

Arnarvatn í Krýsuvík.

Mest var lækkunin 0,9 cm á sólarhring, og var þá hinn glaðasti þurrkur. Samkvæmt því hafa á þessum tíma horfið úr vatninu um 778 500 smálestir og svarar það til nærri 9 m3  rennslis á sekúndu. Er næsta ótrúlegt, að aðrennslið nemi svo miklu.
Jarðvatnsborðinu hallar alls staðar að Kleifarvatni, nema að norðaustan, og hallinn er víðast mikill. Úrkomuaukning á því greiða leið að vatninu. Aftur liggur afrennsli þess gegnum þröngt skarð og eykst því ekki svo mjög, þó að vatnsborðið hækki, heldur stendur það fyrir líkt og stífla. Er ekki ósennilegt, að þetta skýri það, að Kleifarvatn virðist hækka og lækka meira en önnur vötn.”

Geir Gígja skrifaði um “Leyndardóm Kleifarvatns“:

Kleifarvatn

Kleifarvatn – loftmynd.

I.
Kleifarvatn hefir lengi verið mönnum ráðgáta. Fá vötn, sem ekkert gefa í aðra hönd, hafa vakið eins mikla athygli hjá alþýðu manna og einmitt það.

Kleifarvatn

Kleifarvatn um Stapana.

Aðalástæðan til þessa eru breytingar þær, sem verða á yfirborðshæð vatnsins og hafa valdið tjóni á engjum í Krýsuvík, sem liggja að vatninu að sunnan. Einnig er leiðin um fjörurnar, fram með vatninu að vestan, ófær, þegar hátt er i því. Kleifarvatn hefir lítið verið rannsakað vísindalega fram til ársins 1940, að Fiskideild Atvinnudeildar Háskólans lét gera nákvæmar rannsóknir á því í samráði við Hafnarfjarðarbæ, sem kostaði þær að mestu leyti. Við dr. Finnur Guðmundsson unnum að rannsóknum þessum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Rannsökuðum við vatnið á 32 stöðum, þannig, að við mældum dýpi þess, hita við botn og yfirborð með samanburði við lofthita og tókum jarðefni á vatnsbotninum og sýnishorn af gróðri hans og dýralífi. Einnig tókum við sýnishorn af svifi við yfirborð vatnsins og sýnishorn af vatninu sjálfu til efnarannsókna. Við athuguðum og fjörurnar fram með vatninu, gróður þeirra og dýralíf og jarðmyndanir í umhverfi vatnsins. Sá, sem þetta ritar, hefir auk þess gert nokkrar athuganir í sambandi við hækkun og lækkun á yfirborði Kleifarvatns, og verða hér birtar í fáum dráttum helztu niðurstöður af þeim.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnshæðarmælir.

En áður en farið er út í það, skal geta um nokkra fræðimenn, er hafa athugað vatnið og sumir þeirra getið þess í ritum sínum. Þorkell Vídalín segir t. d., að Kleifarvatn hafi breytzt við jarðskjálfta árið 1663. Þorvaldur Thoroddsen lýsir umhverfi vatnsins og skýrir frá ferð sinni fram með því 1883. Segir hann, að vatnið hækki og lækki til skiptis og getur þess, að svo hátt hafi verið í því, þegar hann var þar, að ekki hafi verið fært fyrir Stapann.
Árið 1930 lét Emil Jónsson vitamálastjóri setja merki við Kleifarvatn til þess að sjá, hvernig hækkun og lækkun í vatninu væri háttað. Hefir svo afstaða merkjanna til vatnsyfirborðsins verið athuguð árlega síðan. Sama ár athugaði Pálmi Hannesson rektor vatnið og mældi dýpi þess, en ekkert hefir hann birt um þær rannsóknir.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1936 ritar dr. Bjarni Sæmundsson grein, er hann nefnir “Suðurkjálkann”. Segir þar meðal annars: „Kleifarvatn er þriðja stærsta vatn á Suðurlandi, 6—7 km. langt frá NA til SV, og 2 km. breitt og auðsjáanlega orðið til við landsig milli Sveifluháls og vesturhlíða Lönguhlíðarhásléttunnar. Liggur vatnið þarna allniðurgrafið á milli hamraveggja Sveifluháls og snarbrattra skriðna Vatnshlíðarinnar, afskekkt og lítið þekkt eins og óbyggðavatn, enda þótt það hafi hingað til verið nálægt byggð og árlega heyjað á bökkum þess, og má það furðulegt heita, þegar þarna er um eitt merkasta stöðuvatn heimsins að ræða, enda þótt umhverfið sé hrjóstrugt í meira lagi.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnshæðamælingar á vegum Orkustofnunar.

Vatnið hefir lítilsháttar aðrennsli, en ekkert sýnilegt frárennsli. Það er stórmerkilegt vegna þess,að yfirborð þess,sem að jafnaði er ca. 135 m.y.h. hækkar ca. 4 m. á fáum árum og lækkar svo smám saman aftur á ca. 30 árum, án þess menn viti neitt um, hvernig á því stendur.” Dr. Bjarni hafði þekkt Kleifarvatn um langt skeið, að minnsta kosti af afspurn, því að hann var alinn upp í Grindavík og sjálfur hafði hann séð vatnið. Er því óhætt að fullyrða að það, sem hann segir hér um það, er það réttasta, sem vitað var um það á þeim tíma.

Árið 1938 athugaði Ólafur Friðriksson rithöf. Kleifarvatn og lét í ljósi þá skoðun, að hækkunin og lækkunin í því stafaði af breytingu á afrennsli þess neðan jarðar. Ekkert hefir hann birt á prenti um þessar athuganir sínar.

Kleifarvatn

Eyja, “Litla-Grindavík”, kom upp úr vatninu fyrir nokkrum árum. FERLIRsfélagar helguðu sér hið nýja land.

Árni Óla blaðamaður getur um Kleifarvatn í Lesbók Morgunblaðsins árið 1932 og 1940. Í síðari greininni, þar sem hann ræðir um hækkun og lækkun í vatninu, kemst hann að þeirri niðurstöðu, að vatnið fái afrennsli um sprungur, er opnist við jarðskjálfta, en sígi svo saman og smáfyllist af sandi.

II.

Lambhagatangarrétt

Lambhagatangarrétt.

Hér á undan hefi eg drepið á það helzta, sem gert hefir verið til þess að auka þekkingu manna á Kleifarvatni, sérstaklega með tilliti til hækkunar og lækkunar í vatninu, og skal nú fara um það nokkrum orðum.
Menn virðast helzt hafa hallazt að þeirri skoðun, að breytingarnar á yfirborði vatnsins væru jarðfræðilegs eðlis. Þorkell Vídalín getur um lækkun í vatninu við jarðskjálfta, Ólafur Friðriksson álítur orsökina breytilegt niðurrennsli og Árni Óla telur breytingarnar á vatninu stafa af jarðskjálftum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það þarf ekki annað en að koma að Kleifarvatni og sjá jarðlögin í Sveifluhálsinum til þess að ganga úr skugga um, að miklar byltingar af völdum jarðskjálfta hafa átt sér þar stað, enda mun vatnið aðallega myndað við landsig. Og það er ekki ósennilegt, að enn geti jarðhræringar valdið breytingum á vatninu. Eg hefi þó ekki getað aflað mér neinna upplýsinga, sem benda tilþess, að svo hafi orðið undanfarna áratugi. Magnús Ólafsson, sem hefir átt heima í Krýsuvík um hálfa öld, telur, að engar sýnilegar breytingar hafi orðið á vatninu, þegar hinn mikli gufuhver — Austurengjahver — breyttist í sína núverandi mynd árið 1924, eða endranær, þegar jarðhræringar hafa verið þar syðra. Breytingunum á vatninu er heldur ekki þann veg háttað, að líkur séu til að þær eigi yfirleitt rætur sínar að rekja til jarðskjálfta.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það sem dr. Bjarni Sæmundsson segir um breytingarnar á vatnshæðinni i Kleifarvatni, er í aðaldráttum i samræmi við það, sem eg hefi heyrt eftir mönnum, sem átt hafa heima í Krýsuvík fyrr eða síðar, og hafa orðið að veita þessu nána athygli vegna þess að vatnið flæðir fljótt yfir meira eða minna af engjunum, þegar hækkar í því. Hæð vatnsborðsins snerti þvi beinlínis afkomu manna þar, og því hlutu þeir að fylgjast með öllum stærri breytingum, sem urðu á því.
Hin síendurtekna hækkun og lækkun i vatninu, getur ekki að öllu leyti stafað af niðurrennsli um vatnsbotninn, enda hefir engum tekizt enn þá að finna eðlilegt samband þar á milli. Eg mun síðar í þessari ritgerð sýna fram á, að aðalorsakirnar eru líka allt aðrar, nefnilega, tímabilaskipti í úrkomunni. En með því er ekki sagt, að niðurrennsli eigi sér ekki stað, þó að í því sé ekki að finna skýringuna á aðalbreytingunum á vatnsborðinu.

Lambhagatjörn

Lambhagatjörn.

Nokkrar líkur eru fyrir því, að Kleifarvatn hafi frárennsli neðan jarðar í Lambhagatjörn, en það lítur út fyrir að vera svo takmarkað, að það geti ekki tekið á móti nema vissu vatnsmagni, þyi að það virðist ekki hafa yeruleg áhrif á breytingar vatnsins, eins og síðar mun sýnt fram á. En það, sem bendir til þess, að vatnið hafi þarna afrennsli, er sífellt innstreymi í tjörnina úr Kleifarvatni. Þann 23. ágúst i sumar kom i ljós við nákvæmar mælingar, að úr Kleifarvatni og inn í Lambhagatjörn runnu 282,5 lítrar á sek., en í vatnið runnu samtals (lindir og lækir) 234,75 lítrar á sek. eða 47.75 lítrum minna en úr því. Ef niðurrennsli, sem enginn hefir enn séð, á sér stað úr Lambhagatjörn, getur það haft nokkur áhrif á lækkun vatnsins ásamt uppgufuninni, gagnstætt úrkomunni, sem er aðalgerandinn í hækkun þess.

Kleifarvatn

Hellir í Fremri-Stapa.

III.
Til þess að fá úr því skorið, hvaða orsakir lægju til breytinganna á Kleifarvatni, hefi eg í fyrsta lagi fylgst með hækkun og lækkun vatnsborðsins að undanförnu, í öðru lagi gert samanburð á vatnshæð Kleifarvatns og Rauðavatns, sem er hér austan við Reykjavík, og í þriðja lagi hefi eg gert samanburð á vatnshæð Kleifarvatns og úrkomu á Eyrarbakka.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það sem vakti fyrst athygli mína, þegar eg fór að fylgjast með breytingunum á vatnshæðinni i Kleifarvatni, var það, að þegar þurrviðri gengu, lækkaði stöðugt i vatninu og gat lækkað nm 2 cm. á sólarhring og stundum meira. En þegar úrkomur voru, lækkaði hins yegar minna í því, stóð í stað eða jafnvel hækkaði, eftir því hvað úrkoman var mikil, Eg sá á þessu, að úrkoma og uppgufun áttu mikinn þátt í breytingunum á vatnshæðinni eða voru aðalástæðurnar.
Syðst í vatninu er og nokkur jarðhiti, sem hefir ef til vill örfandi áhrif á uppgufun þess. Svo þegar hátt er í vatninu og það gengur upp á engjarnar í Krýsuvík, myndast þar grynningar, sem hafa tiltölulega meiri uppgufun en vatnið sjálft. Þá er Lambhagatjörn norðan við vatnið með miklu flágrynni, en ekki djúp. Tjörnin er enn þá inniluktari en vatnið, því að hár höfði, Lambhagi, er á milli. Á tjörninni er stundum hlýtt og „sléttur sjór”, þó að kul og alda sé á vatninu. Þar ætti því einnig að vera talsverð uppgufun og tiltölulega meiri en úr vatninu. Þá vinnur og niðurrennsli, ef á sér stað, að lækkun í vatninu eins og uppgufunin, svo sem fyrr er greint.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

IV.

Hér á undan hefi eg leitast við að sýna fram á, að hækkun og lækkun í Kleifarvatni stafaði aðallega af úrkomu og uppgufun, og það væri úrkoman, sem aðalbreytingunum ylli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það ætti því að vera vaxandi úrkoma, sem veldur því, að Kleifarvatn fer smáhækkandi ár frá ári um langt skeið, þó að stundum smálækki á milli, og svo aftur minnkandi úrkoma, sem veldur þvi, að vatnið fer lækkandi um mörg ár, unz hækkun hefst að nýju, og svo koll af kolli. Til þess að geta gengið úr skugga um þetta, vantaði enn tilfinnanlega úrkomumælingar frá KIeifarvatni, eða fjallgarðinum þar í grennd, úrkomumælingar, sem næðu yfir marga tugi ára, helzt tvö eða fleiri tímabil að jafnlengd við þau, sem Kleifarvatn á að þurfa til þess að hækka og lækka, svo að bera mætti saman, hvort nokkur slík sambærileg hækkunar og lækkunar tímabil væru í úrkomunni.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

V.
Vegna þess, hvað vatnshæðarmælingar á Kleifarvatni ná skammt aftur í tímann, hefi eg aflað mér upplýsinga hjá mönnum, kunnugum vatninu, um breytingarnar á yfirborði þess fyrr á tímum.

Jón Magnússon, sem bjó i Krýsuvik á árunum 1907—14 hefir tjáð mér, að þegar Árni Gíslason sýslumaður fluttist þangað um 1880, hafi verið að koma slægja á Nýjalandi, en svo heitir engjaflæmi, sem Krýsuvík á við suðurenda Kleifarvatns, og vatnið flæðir yfir að meira eða minna leyti, er hátt er í því.

Nýjaland

Nýjaland.

Nýjaland kvað hafa gefið af sér um 600 hesta, þegar bezt var. Jón segir og, að árið 1907, þegar hann fluttist þangað, hafi verið síðasta árið, sem hægt var að heyja á Nýjalandi um langt skeið, vegna þess hvað þá var orðið hátt í vatninu, og hafi aðeins kragi af Nýjalandi verið upp úr, enda ekki heyjaðir nema um 100 hestar það ár. Sama ár er haft eftir Guðmundi, sem þá bjó í Nýjabæ og hafði búið að undanförnu, að hann hefði aldrei séð vatnið eins mikið og þá, en þó segir Jón Magnússon, að hækkað hafi í því eftir það.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Um 1912 kvað svo hafa verið hæst i vatninu á þeim tíma, sem Jón Magnússon var í Krýsuvík, og mun það þá hafa flætt hér um bil yfir Nýjaland. Skömmu síðar fór svo vatnið að lækka og hefir yfirleitt farið lækkandi fram til ársins 1932, en úr þvi fór það svo að hækka aftur, sem kunnugt er, og hefir farið hækkandi í stórum dráttum síðan.
Í þau sjö ár, sem Jón Magnússon bjó i Krýsuvík, var ófært fyrir Stapann. Þess má og geta, að árið 1908, þegar herforingjaráðið danska vann að landmælingum við Kleifarvatn, hafði vatnið flætt upp á Nýjaland, samkvæmt því sem kortið eftir þessum mælingum sýnir. Um 1880 er að koma slægja á Nýjaland, af því að yfirborð vatnsins hefir farið lækkandi að undanförnu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Nú koma ár, þegar Nýjaland gefur af sér nokkur hundruð hesta, og það hefir verið snemma á þessu tímabili. En árið 1907 er orðið svo hátt i vatninu, að það er síðasta árið, sem þar er heyjað um langt skeið. Og þá hefir Guðmundur í Nýjabæ heldur aldrei fyrr séð vatnið svona hátt. Það átti þó enn eftir að hækka og úrkoman í Vestmannaeyjum er einnig miklu hærri árið eftir. Um 1912 var svo hæst í vatninu að sögn Jóns Magnússonar, og flæddi það þá um það bil yfir Nýjaland.

VI.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Það, sem eg hefi viljað sýna fram á í þessari ritgerð og færa rök að, er þetta: Að hækkunin og lækkunin í Kleifarvatni, sem telja má reglubundna, en ýmsir hafa álitið að stafaði af breytilegu niðurrennsli um vatnsbotninn, eigi aðalorsakir í tímabilaskiptum í úrkomunni.

Sjá Myndir.

Heimildir:
– Náttúrufræðingurinn 3.-4. tölublað (01.10.1941) – Pálmi Hannesson: KLEIFARVATN, bls. 256 – 168.
-Sunnudagsblað Vísis, 29. okt. 1941, Geir Gígja; Leyndardómur Kleifarvatns, bls. 1,2,3 og 7.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanesið í Grindavík er áhugaverður staður. Minjarnar, sem þar eru ofan við Nesvörina, eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Þar eru m.a. gamlir þurrkgarðar, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og tóttir frá fyrri tíð, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, varar, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, beitningaskúra og innsiglingamerkja frá fyrri hluta síðustu aldar.
Innsiglingavörður ofan við vörina á Þórkötlustaðanesi
Fróðlegt og friðsælt er að ganga um svæðið á góðum degi, anda að sér sjávaranganinni og skoða og rifja upp söguna. Fyrir skömmu var gengið um Nesið á milli Kónga og Strýthóla í fylgd Grindvíkingsins Péturs Guðjónssonar, en hann fæddist í einu húsanna, sem þar voru.
Pétur skýrði svo frá:

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

“Jú, það er rétt. Ég fæddist í Höfn árið 1931 og er alinn upp á Þórkötlustaðanesinu fram yfir fermingu. Foreldrar mínir voru Guðjón Jónsson og Guðbjörg Pétursdóttir, bæði úr Þórkötlustaðahverfinu. Hann var frá Einlandi og hún frá Valhöll. Þau höfðu flutt út á Nesið árið 1928. Húsið, sem þau nefndu Höfn, höfðu þau byggt árið áður. Systkini mín voru fimm; fjórir strákar og ein stelpa. Haukur var elstur, en hann er látinn, síðan Guðmundur sem býr nú í Höfn við Túngötuna, þá ég og Jón Elli. Sjálfur bý ég við Hvassahraun, en Elli býr í Grafarvogi. Systir okkar heitir Guðjörg, kölluð Stella. Hún býr við Litluvelli í Grindavík.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Arnarhvol 2020.

Á Þórkötlustaðanesinu voru auk Hafnar, húsin Arnarhvol og Þórshamar. Í Arnarhvoli, sem var vestan við Höfn, bjuggu Engelbert Jónsson og Jóhanna Einarsdóttir. Hafliði Jónsson og Gíslína Guðmundsdóttir bjuggu í Þórshamri, en húsið stendur að hluta til enn sunnan við Flæðitjörnina.

Þórkötlustaðanes

Pétur Guðjónsson við Höfn í Þórkötlustaðanesi.

Fólkið mitt á Höfn hélt skepnur; 2-3 beljur, 50-60 kindur, 5-6 hesta og 12-15 hænur, líkt og á öðrum bæjum á Nesinu og úti í hverfi. Engar skepnur voru þó Arnarhvoli, en fé var í Þórshamri. Alltaf var eitthvert stúss í kringum dýrin. Við krakkanir sáum aðallega um gjöfina. Fjárhúsið okkar var sunnan við Arnarhvol. Síðan var byggður skúr, hestús og fjárhús fyrir gemlinga heima við húsið. Við þurftum að bera hey og vatn í þetta daglega. Vatninu var safnað af húsþökunum, en í þurrkatíð var dæmi þess að vatn væri sótt alla leið upp í Seltjörn. Kom þó sjaldan fyrir, sem betur fer. Hvergi var vatn að fá í hrauninu, en á veturnar og þegar mikið rigndi var vatn stundum sótt í polla handa fénu.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Höfn 2020.

Ekkert rafmagn var í Nesinu. Það kom ekki til Grindavíkur fyrr en 1947. Þangað til voru gasluktirnar mest notaðar, bæði við beitningu og annað sem til þurfti. Bölvað stúss í kringum það.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Höfn; kjallari. Hæðin var flutt yfir í Járngerðarstaðahverfi.

Umstangið gat verið erfitt hjá okkur eins og öðrum. En þrátt fyrir barninginn var alltaf nóg að bíta og brenna. Eðlilega var mest um fiskmeti yfir vertíðina. Þá var rauðmagi bæði sóttur í Bótina og hirtur upp í fjörunni. Ég er ekki frá því að rekni rauðmaginn hafi bara bragðast betur eftir að hafa veltst þarna um í þanginu. Fugl var skotinn, bæði mávur og skarfur. Einkum var mávarunginn hirtur. Allt var þó nýtt til hins ýtrasta. Oft var soðið úr þessu hin fínasta kjötsúpa. Hún fæst ekki betri í dag, en það væri varla hægt að bjóða pizzufólkinu slíkt í dag. Það komu alltaf einhverjir utan úr hverfi á skytterí í Nesinu. Þeir röðuðu sér suður kambinn út undir vita og skutu á allt sem hreyfðist. Sjálfur fór ég á skytterí 13 ára gamall.
ÞórshamarÁ meðan við bjuggum í Nesinu var hér mikil útgerð. Nesvörin þar sem bryggjan er nú var vel nýtt. Hér var líka alltaf landað þegar ekki var hægt að landa í Buðlunguvör. Útgerðaruppgangurinn byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum. Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí. Sumir réru líka héðan svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshöfn.

Á sumrum var venjulega róið á minni bátum. Aflinn var bæði þurrkaður og saltaður. Stundum var seldur slægður og jafnvel óhausaður fiskur til Reykjavíkur. Það fór bara eftir aðstæðum á hverjum tíma. Sími var í Höfn, en símstöðin í Sólbakka uppi í hverfi. Öll verslunin fór í gegnum símann, einkum eftir að vörubílar fóru að fara á milli staða. Þá var hringt í Höfn og krakkarnir síðan látnir hlaupa eftir formönnunum og sækja þá í símann. Það voru þegar fiskkaupmennirnir sem voru að panta. Þessi hlaup lentu yfirleitt á Stella systur minni. Einar Þorgilsson í Hafnarfirði keypti t.d. talsverðan fisk af þeim.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar 2020.

Fólk kom víða að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Þetta fólk bjó á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var. Hér var því mannmargt í litlu húsi.
Fornar minjar í StrýthólahrauniÁður lentu bátanir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður út á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum. Fyrsti skúrinn var byggður um 1928, sennilega af fólki frá Einaldi. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Á meðan ég átti heima í Nesi var mest um að fiskurinn væri saltaður, enda bera saltþrærnar þess glögg merki. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar voru sem dæmi beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi – bryggjan.

Bryggjan, um 70 metra löng og 10 metra breið steinbryggja, var síðan byggð um 1933 enda vélar þá komnar í flesta báta. Fiskinum var eftir það kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Gamall Fordbíll var til í Höfn um tíma, en hann grotnaði síðar niður undir húsgaflinum. Þá var keyptur bíll í félagi útgerðarmannanna, nefndur “félagsbíllinn”. Á honum var fiskinum ekið upp í fiskhúsin.
Þegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar, en þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.
Spilið á NesinuÁður en bryggjan var byggð voru bátanir drengir á land upp á kambinn norðan hennar. Síðan, þegar stokkarnir voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, sá um það. Það var bensinvélarknúið með Ford-vél. Vélarhúsið við það er horfið. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetninguni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðslan.

Þegar bryggjan var lengd voru ker forsteypt uppi á kambinum og þeim rennt niður stokkana og síðan sökkt ofan á sandpokahleðslur, sem búið var að raða undir þau af kaförum.
En eftir að grafið hafði verið inn í Hópið úti í hverfi árið 1939 og alvöru hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út hérna. Segja má að útgerðin hafi verið aflögð árið 1946. Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvol var svo flutt þangað árið eftir, en húsið hafði verið byggt í Nesinu um 1930. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.
Bára á BótinniJóhann vitavörður Péturssson bjó um tíma í Þórshamri, en húsið var byggt laust eftir 1930. Eftir að flutt var úr hinum húsunum í Nesinu var Jóhann eitthvað að breyta veggjum hjá sér. Varð það til þess að einn þeirra féll á hann og slasaði hann talsvert.
Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu áður en ég fæddist. Ekkert var þurrkað þar í minni tíð í Nesinu. Strýthólaranir eru syðst í hrauninu, en Leiftrunarhóll austast, suðaustan við Þórshamar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Helsti hlífðarfantaður sjómanna voru stakkar, sjóhattar og klofstígvél. Ullavettlingar voru á höndum. Alltaf þurfti að eiga slatta af þeim því þeir þófnuðu og urðu fljótt of litlir, auk þess þeir áttu það til að harðna. Konurnar sátu við og prjónuðu á karlana.

Strýthóll

Efri Strýthóll.

Sums staðar þurftu húsbændurnir að skaffa sjómönnunum vettlinga og jafnvel annan fatnað sem og kost. Útgerðarmennir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgana þegar gaf og fóru síðan fótgangandi heim aftur á kvöldin.
Flestar minjar í Nesinu eru gömlu hlöðnu ískofarnir, fiskhúsin, lifrabræðslan og grunnar beitningaskúranna. Lifrabræðslan var að mig minnir byggð um 1934-35. Öll lifrin var brædd. Guðmann Guðmundsson í lifrabræðslunni keypti alla gotu. Hann bjó í bræðslunni, í skúr nyrst í bræðslunni, kölluð kompan. Þar svaf karlinn á einum bedda. Seldi malt og appelsín.

Grútartjörnin eða Grútarskotti var norðan við lifrabræðsluna. Hún þornaði á sumrum þegar ekkert var verið að vinna þar. Þá kom fyrir að grúturinn væri skorinn upp og hann notaður í eldinn. Hann var reyndar ekki notaður af fólkinu í Nesinu, en fólk kom utan úr hverfi og sótti grút í eldinn. Ég man sérstaklega eftir einum karli, sem það gerði.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ gerður eftir Pétri Guðjónssyni í Höfn.

Aðvitað man maður eftir nokkrum minnistæðum einstaklingum í útgerðinni. Sumir þóttu gamansamir. Gísli á Hrauni var einn þeirra. Hann sagði í seinni tíð um hvað gera ætti við fiskinn. Eitt sinn þegar hann kom inn skúr Sveinbjörns nokkurs, svipti hann upp hurðinni og fylgdi því eftir með eftirfarandi orðum: “Það á að hausa hann Sveinbjörn”. Margar sögur eru til sem gaman væri að rifja upp síðar.
Vegurinn náði að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan út að vörðunni Siggu á vestanverðu Hópsnesi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Vitinn hafði verið byggður á fyrstu árum aldarinnar. Ruddur slóði var út að honum, en hann var síðar lagaður. Nú er kominn hringvegur um Nesið.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – minjar á Kóngum. Höfn fjær t.h.

Innsiglingavörðurnar voru fyrir framan við Buðlungu, þar sem steypti veggurinn er nú, og önnur upp í heiðinni. Eftir þeim var siglt inn í djúpsundið. Síðan var vent til vesturs þegar komið var á móts við innsiglingavörðurnar ofan við Nesbryggjuna. Á þeirri siglingu braut yfirleitt á hlið á bátnunum, sem gat stundum verið slæmt. Að jafnaði var ekki mikið um brim inni á Bótinni. Hins vegar braut oft talsvert sitt hvoru megin, einkum ef eittvað var að veðri. Auðvitað komu hér líka mjög slæm veður. Ég man þó ekki eftir að bátur hafi brotnað á siglingu inn, en í miklum veðrum gekk sjórinn upp á og inn yfir kambinn. Og það kom fyrir að skip, sem þar stóðu, brotnuðu. Ég man eftir því er sjórinn braut hliðar í skúrum næst sjónum í afar vondu veðri, t.d. á skúr afa þíns, hans Árna í Teigi.
Minjar á NesinuHeilmikil útgerð var líka við Flæðitjörnina norðan við Þórshamar. Aðalleiksvæði barnanna var við tjörnina og þar var verið öllum stundum, ýmist við róðra, veiðar og aðgerð. Bóklærdómurinn fór því oft fyrir lítið. Ef ekki var verið við tjörnina var farið niður á bryggju eða út með ströndinni.
Mikil hleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíl, líkt og aðrar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Við hann var dæla, sem notuð var til að dæla sjónum upp upp úr. Nú er búið að sturta yfir brunninn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – leifar lifrabræðslunnar.

Þetta voru ágætis ár þrátt fyrir erfiða tíma á stundum. Allir urðu að hafa eitthvað fyrir stafni. Erfitt gat verið að sækja sjóinn, en þau voru líka mörg handtökin í landi.
Þegar grafið hafði verið inn í Hópið breyttist allt. Þá lagðist allt af í Þórkötlustaðanesinu og atvinnulífið færðist út í Járngerðarstaðahverfið.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Nú standa minjarnar hér eftir sem tákn hins liðna – en eftirminnilega.

-Ómar Smári Ármannsson skráði. (Birtist í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2003).

Vitinn á Þórkötlustaðanesi

Vitinn á Þórkötlustaðanesi. Vitinn hefur einnig verið nefndur “Hópsviti”. Nesið skiptist í tvennt; annars vegar Hópsnes að vestanverðu og Þórkötlustaðanes að austanverðu. Mörkin liggja um Markalón við Markastein í fjörunni u.þ.b. 60 m vestan við vitann og þaðan í Hagafell. Vitinn er því allur í Þórkötlustaðanesi.