Tag Archive for: Grindavík

Grindavík

Eldgos hófst af miklum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu Stóra-Skógfelli ofan Grindavíkur um klukkan 23.14 þann 20. nóv. 2024. Starfsmenn HS Orku urðu fyrst varir við merki í borholum um yfirvofandi eldgos rétt áður en það hófst. Starfsmenn voru á svæðinu og fluttu þeir sig strax upp á Reykjanes.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrstu fréttir af hraunrennsli benda til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggi sunnanvert í Stóra-Skógfelli, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík, heldur hefur hann leitað lengra til vesturs en áður hefur verið – að bílastæði Bláa lónsins. Þar mætir hraunstraumurinn annars vegar hárri hraunbrún Illahrauns að sunnanverðu og Arnarseturshraunsbrúninni að austan. Eini möguleikinn er að meint hrauntunga teygi sig í átt að Lat, syðsta gíg hinna eldri Eldvarpahrauna.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Gosmökkurinn var mikill í upphafi goss. Sást hann greinilega í kvöld- og næturskímunni. Sprunga opnaðist á annars miðri gosrásinni á um 2.5-3.0 km kafla milli Sundhnúks og austur fyrir sunnanvert Stóra-Skógfell. Umfangs hraunsins gæti orðið um 6 ferkílómetrar. Væntanlega mun draga úr gosinu fljótlega. Fyrsta sólahrringinn kom upp tæplega helmingur þeirrar kviku sem hafði áður safnast upp undir svæðinu.

Þetta er tíunda hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021. Þrjú hinna fyrstu áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst og þetta nýjasta 20. nóv., sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Líklegt er að þessi hrina verði litlu langlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á hólminn er komið.
Náttúruöflin eru ólíkindatól. Þótt þetta eldgos, líkt og hin fyrri, hafi virst óálitlegt tilsýndar, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og óvænta möguleika. Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum sex við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgs 20. nóv. 2024.

Járngerðarstaðarétt

Um tíma var fjárrétt við Járngerðarstaði í Grindavík. Hennar er hvergi getið í skráðum heimildum.

Járngerðarstaðarétt

Járngerðarstaðarétt.

Réttin sést á loftmynd frá 1954, en um 1960 er hún horfin að mestu. Fjárréttin var þar sem nú er vesturgafl Þorbjarnar h/f, þ.e. þar sem hlaðin er braut upp á efri hæð hússins. Ekki er ólíklegt að grjótið úr réttinni hafi verið notað í hleðslu brautarinnar eða það farið í nálægar bryggjuframkvæmdir.

Járngerðarstaðarétt

Járngerðarstaðarétt, annars vegar 1954 (t.v.) og 2021.

Hraunsfjara

Eftirfarandi frásögn af „Síðasta strandinu í Grindavík“ birtist í Faxa 1947:
„Á þrettándakvöld sl. barst hið alþjóðlega neyðarkall — S O S — á öldum ljósvakans að eyrum þeirra dyggu þjóna, sem hlusta nótt og nýtan dag eftir þörfum þeirra, er afskektastir eru allra og oft í lois-222bráðri hættu — sjómannanna, sem oft og og einatt eiga líf sitt undir því einu komið að hlustað sé í lítil og veikbyggð tæki annað hvort í landi eða á öðrum skipum, sem betur eru sett. Menn þeir, sem annast tæki þessi, eru venjulega sérmenntaðir loftskeytamenn. Oft hafa þeir verið litnir öfundar- og stundum jafnvel fyrirlitningaraugum utan af dekkinu, sökum þess að þeir geta starfsins vegna gjarna verið vel til fara jafnvel fínir, eru venjulega inni í dúnhita og geta skemmt sér að músik og ýmsu öðru, þó að aðrir þræli í náttmyrkri og vetrarhörkum við ömurlegustu skilyrði.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Stétt loftskeytamanna hefur þó getið sér frægðarorð og bjargað mörgum mannslífum. Í þetta sinn var það brezki botnvörpungurinn Lois, sem var í nauðum staddur. Hann var að koma frá Englandi og hefur sjálfsagt ætlað vestur fyrir land, á hin auðugu fiskimið, sem mjög eru sótt af erlendum fiskiskipum. En dimmviðri var á og hríð annað slagið. Auk þess kann að vera að áttavitinn hafi truflazt af segulmagni fjallanna í Reykjanessfjallgarðinum, en slíkt hefur oft komið fyrir áður. En hvernig sem á því stóð, þá stóð skipið allt í einu í stórgrýttri fjörunni. Brimið ólmaðist óskaplega og stormurinn stundi við Festarfjall.

Selatangar

Við Selatanga.

Í skeyti því, er skipstjórinn sendi Slysavarnarfélagi Íslands, hélt hann sig vera 15 mílum vestan við Selvogsvita. Þá hefðu þeir lent á Selatöngum, sem eru alllangt frá mannabyggðum og auk þess er landtaka þar mun verri, svo að hæpið hefði verið að nokkur skipsmannanna hefði haldið lífi, ef staðarákvörðunin hefði reynzt rétt. Reyndin var sú að skipið var 4 mílum vestar, eða vestanhallt í Hrólfsvík, sem er nokkur hundruð metrum austan við Hraun í Grindavík. Það reyndist þeirra lán í óláninu.
Um svipað leyti og skeytið barst til Slysavarnarfélags Íslands varð strandsins vart frá Hrauni.

Þorbjörn

Þorbjörn – merki.

Var þegar í stað hringt til Sigurðar Þorleifssonar, formanns Slysavarnarfélagsins „Þorbjörn“ í Grindavík, en það var um kl. 9,30 um kvöldið og honum tilkynnt strandið. Þegar var hafizt handa um að hóa mannskap saman og koma björgunartækjum á strandstaðinn. Gekk þetta hvorttveggja mjög greiðlega og um kl. 10 var komið á strandstaðinn og undirbúningur að björgunarstarfinu hafinn. Skipið lá þá þversum í brimgarðinum um 100 m. frá flæðarmáli. SSA-stormur var og mjög mikið brim, svo að skipið barðist harkalega við stórgrýti og flúðir. Fljótlega mun hafa laskazt sú hliðin, er að landi sneri, og daginn eftír er menn komust um borð var síðan sem sagt úr.

Fljótlega tókst að koma á sambandi milli skips og björgunarsveitarinnar. Árni G. Magnússon, skytta sveitarinnar, hæfði með fyrsta skoti. „Rakettan“ flaug gegnum loftið með granna línu í eftirdragi.

Hraun

Hraun.

Skyttan hæfði skipið miðskipa undir loftnetið, eða svo haganlega, sem á varð kosið. Skipverjar drógu nú til sín sverari línur, dráttartaugar og líflínu, sem þeir komu fyrir í framreiðanum. Síðan hófst hin vasklega björgun. Tugum saman stóðu Grindvíkingar á ströndinni og unnu sem einn maður með hröðum og vissum handtökum. Hver maður á sínum stað og sigurverkið var í fullum gangi. Björgunarstóllinn var dreginn út til skipsins og þaðan kom hann með hvern skipverjann á fætur öðrum. Sökum þess hve skipið valt mikið varð að hafa líftaugina fremur slaka, svo að strandmennirnir drógust í sjóinn á leið til lands. Flestir þeirra voru þó allbrattir er í land kom. Einn þeirra hafði þó fengið taugaáfall og nokkra fleiri varð að styðja að bíl, sem flutti þá heim að Hrauni, en þar var kominn Karl G. Magnússon héraðslæknir.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Klukkan 11,30 voru allir skipverjarnir komnir á land, nema skipstjórinn, sem var þá staddur í „brúnni“. Allt að 10 mínútur var beðið eftir honum. Þegar hann loks fór fram á þilfarið virtist hann hrasa en komst þó um síðir að vantinum Og upp á borðstokkinn og mun hafa ætlað að teygja sig eftir stólnum, en þá reið ólag undir skipið og stríkkaði við það á líflínunni, svo að skipstjórinn tapaði jafnvægi og féll í hafið — líkið rak að landi eftir tvo eða þrjá daga. Strandmennirnir 15, sem björguðust, dvöldu að Hrauni hjá bræðrunum Gísla og Magnúsi Hafliðasonum um einn sólarhring við góða aðhlynningu.

Lois

Unnið að björgn áhafnar Lois.

Allflestir karlmenn úr Grindavík voru komnir á strandstaðinn og telur Sigurður Þorleifsson, að þessi vel heppnaða björgun sé árangur ákaflega góðra samtaka og skipulags við framkvæmd þessa ábyrgðarmikla starfs — þar sem hvert handtak getur verið lífsábyrgð.
Slysavarnarsveitin „Þorbjörn“ telur nú um 200 félagsmenn og konur. Sveitin er löngu landfræg fyrir frækilegar bjarganir úr sjávarháska. Grindvíkingar hafa vanizt hörðum fangbrögðum Ægis. Þrálátt og þróttmikið brimið hefur þjálfað þetta lið í einbeitingu mannlegs máttar til varnar og sóknar gegn hamslausri náttúrunni, þegar hún vill gerast ágeng við líf eða limi.
Það er sigurfögnuður hjá þjóðinni allri, þegar slík afreksverk eru unnin.
J.T.

Heimild:
-Faxi – 7. árg. 1947, bls. 1-2.

Hraun

Hraun.

Grindavík

Nokkur minnismerki er að finna í Grindavík og umdæmi Grindavíkur.

Ingibjörg Jónsdóttir (1879-1969)

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Ingibjörg Jónsdóttir.

Grindvíkingar reistu minnisvarðann til heiðurs Ingibjörgu Jónsdóttur skólastjóra fyrir félags- og menningarstörf 1879-1969.
Ingibjargarstígur er til heiðurs Ingibjörgu Jónsdóttur, eins stofnanda og síðar formanns Kvenfélags Grindavíkur til áratuga og brautryðjanda í skógrækt í Grindavík. Hún hafði forgöngu um að tré yrðu gróðursett norðan við Þorbjörn. Hún gerði það eftir sextugsafmæli sitt en þá stofnuðu kvenfélagskonur í Grindavík sjóð henni til heiðurs og mátti hún ráðstafa honum að vild. Skógrækt varð fyrir valinu. Fyrstu trjáplönturnar gróðursetti Ingibjörg 29. maí 1957. Af því tilefni fór Ingbjörg með eftirfarandi erindi úr kvæði eftir Jónas Hallgrímsson:

,,Veit þá enginn að eyjan hvíta
á sér enn vor ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista
hlýða réttu, góðs að bíða?
Fagur er dalur og fyllist skógi
og frjálsir menn, þegar aldir renna.
Skáldið hnígur og margir í moldu
með honum búa, en þessu trúið!”

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Ingibjörg Jónsdóttir.

,,Voru 1200 plöntur gróðursettar næstu daga; birki, greni og bergfura. Margir unnu að þessari fyrstu gróðursetningu, konur karlar og börn” segir meðal annars í Sögu Grindavíkur. Ingibjörg nefndi skóginn Selskóg, en gamlar seltóftir voru á svæðinu. Síðan þá hefur skógurinn vaxið og dafnað enda hafa skólabörn sett þar niður trjáplöntur í gegnum árin. Nú er þar myndarlegur skógur og fallegt útivistarsvæði. Í Selskógi er minnisvarði um Ingibjörgu.

Minnismerki um Ingibjörgu Jónsdóttir í norðurhlíð Þorbjarnarfells, miðja vegu Baðsvallaskógar, ofan göngustígs er liggur í gegnum skógarsvæðið.

Oddur V. Gíslason (1836-1911)

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.

Á minnisvarðanum er eftirfarandi áletrun:
„Séra Oddur Vigfús Gíslason – Fæddur 8.4.1836. Kvæntist Önnu Vilhjálmsdóttur úr Kotvogi í Höfnum 31.12.1870. Lauk embættisprófi í guðfræði 1860.
Fyrst prestur að Lundi í Borgarfirði 1875-1878.
Sóknarprestur að Stað í Grindavík og Höfnum 1878-1894.
Fluttist þá til Vesturheims og andaðist þar 10.1.1911.
Hann var hugsjóna- og framkvæmdamaður, brautryðjandi um slysavarnir á Íslandi.
Lagði grunninn að barnafræðslunni í Grindavík árið 1889.

Minnismerkið er reist af söfnuðunum í Grindavík og Höfnum ásamt ættingjum og Slysavarnarfélagi Íslands árið 1990.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík og er eftir Gest Þorgrímsson (1990).

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1991 er frásögn um þegar “minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason” var afhjúpaður í Staðarkirkjugarði.

“Minnisvarði um Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1879-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum.
Minnisvarðinn er gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann er reistur að frumkvæði sóknarnefndar Grindavíkur og Hafna auk ættingja sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands.
Oddur beitti sér fyrir fræðslumálum í Grindavík og var á undan sinni samtíð um nýjungar. Þá stofnaði Oddur bjargráðanefndir um land allt sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.

Við athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni Önnu Vilhjálmsdóttur frá Kirkjuvogi í Höfnum á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni.”

Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Horft hefur verið til Odds sem frumkvöðuls sjóslysavarna á Íslandi.

Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Sigvaldi Kaldalóns.

Bjó og starfaði í Grindavík 1929-1945 og samdi þar mörg sín þekktustu sönglög.

Minnisvarðinn stendur við Kvennó, Kvenfélagshúsið í Grindavík.
Aðrir minnisvarðar um Sigvalda Kaldalóns eru í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp og í Flatey á Breiðafirði.

Minnisvarði um týnda menn

Minnisvarðin er stuðlabergsstandur. Á hann er letrað:

,,Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað, muni geta gert oss viðskilja við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú drottni vorum. Róm 8:38-39.”

Á minnisvarðann eru festir skildir með nöfnum þeirra sem týnst hafa.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; minnismerki um týnda menn.

Minnisvarðann reistu samtök sjómanna og útvegsmanna í Grindavík á Sjómannadaginn 10. júní 1990 og stendur hann í kirkjugarðinum á Stað.

Minnisvarði um drukknaða – Vonin

,,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera”. Jes 30.15.

Vonin er listaverk sem stendur á háum stalli í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Ragnar Kjartansson (1923-1988), myndhöggvari og leirlistamaður, vann listaverkið fyrir kvenfélag Grindavíkur og var það steypt í brons í London 1979.

Kvenfélagið í Grindavík hóf söfnun fyrir verkinu 1952 en tilefni hennar var hörmulegt sjóslys það ár þegar bátur fórst með fimm mönnum við Hópsnes. Ragnar lagði fram þrjár tillögur að listaverkinu á sínum tíma og voru þær sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Ein þeirra var valin og það er sú sem styttan sýnir. Grindvíkingar voru mjög ánægðir með verkið.

Listaverkið er helgað minningu drukknaðra í Grindavík.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Vonin.

Verk Ragnars er kröftugt og reisulegt. Það talar mjög skýrt til þess er virðir það fyrir sér. Yfir því er kyrrð og festa, þolgæði og æðruleysi. Tregafull andlit en þó er vonin enn til staðar því horft er fram. Sjómannskona einbeitt og alvörufull á svip með barn í fangi og annað sér við hlið. Hún horfir til hafs og við hægri hlið hennar er bjarghringur sem hún heldur um. Stúlkubarnið í fangi móðurinnar horfir öruggum augum til himins en drengurinn starir fram harmi lostinn og heldur á vænum fiski í vinstri hönd.

Vonin hefur ekki látið undan.

Í þolinmæði og trausti liggur styrkur Grindvíkinga.

Minnisvarðinn er eftir Ragnar Kjartansson og gerður árin 1978-79 og stendur við Mánagötu í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík.

Tyrkjaránið – árásin á Grindavík

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Tyrkjaránið.

Í júní mánuði á því herrans árið 1627 lá dönsk kaupmannsdugga í höfn í Grindavík og verslun var í fullum gangi. Bar þá svo við að óvænt birtist þar annað skip, sýnu stærra. Af því komu í heimsókn í dugguna menn sem mæltu á þýska tungu og sögðust vera menn Danakonungs og í birgðaleit. Ekki brást kaupmaður vel við því og fóru þeir þýðversku aftur til skips síns.
Nokkrir Grindvíkingar réru út í hið stærra skipið fyrir forvitni sakir en þegar um borð kom blasti við hópur manna, klæddir litskrúðugum fötum, þeldökkir flestir og gráir fyrir járnum.
Heimamönnum varð fljótt ljóst að Hund-Tyrkinn frá Afríkuströndum var kominn og það ekki í neinni kurteisisheimsókn. Aðkomumenn sendu bát að duggunni og létu þar greipar sópa áður en þeir héldu í land og fóru um plássið eins og logi yfir akur.
Á bænum Járngerðarstöðum beið húsfreyjan með öðrum milli vonar og ótta eftir heimsókn sjóræningjanna Sumir heimamanna földu eigur sínar eða leituðu í fylgsni en húsfreyjan beið þess sem verða vildi. Vágestirnir rændu bæinn og hófu svo að reka fólkið til strandar. Húsfreyja sýndi mikinn mótþróa en var tekin og borin af stað. Bræður hennar þrír reyndu að koma henni til hjálpar en þeim var öllum misþyrmt illa.
Erlendu hrottarnir héldu svo til skips með bæði ránsfeng sinn og fólk það sem þeir höfðu hertekið. Tveimur mönnum var snúið aftur til lands fyrir aldurs sakir en 15 manna hópur var hrakinn niður í lestar skipsins.

Stefánshöfði

Grindavík – minnismerki; Stefánshöfði.

Í Grindavík hefur síðan gengið sú munnmælasaga að þar sem ræningjarnir og heimamenn börðust og blóð þeirra blandast hafi sprottið upp þyrnijurt. Þessa jurt má enn þann dag í dag finna á þrem stöðum í Grindavík.

Þessi steindi gluggi stendur við hlið Grindavíkurkirkju.

Minnismerki – Stefánshöfði

Stefánshöfði er vestan við Kleifarvatn. Höfðinn er nefndur eftir Stefáni Stefánssyni f. 5.12.1878, d. 22.12.1944, eða Stebba guide, en ösku hans var dreift í vatnið árið 1944. Skjöldur á klettavegg Stefánshöfða við Krýsuvíkurveginn.

Þorbjörn 70 ára – 1953-2023

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Þorbjörn 70 ára.

Neðan við skrifstofuhús Þorbjarnar HF í Grindavík, við gatnamót Mánagötu og Seljabótar, er minnismerki. Við það er skilti, sem á stendur eftirfarandi:

Á þessu ári 2023 eru 70 ár síðan fyrirtækið Þorbjörn HF var stofnað. Við fögnum því með því að reisa þetta listaverk sem við nefnum Saltarann. Listaverkið er til að heiðra starfsfólkið okkar fyrr og síðar. Það er líka til að heiðra viðskiptavini okkar hér heima og erlendi.
Styttan er tákn afls og áræðis. að er spænskur listamaður að nafni Eskerri sem gerir verkið. Einn af okkar gtryggustu viðskiptavinum á Spáni Giraldo í Baskalandi fékk fyrsta verkið og hefur sent okkur áritun, sem er rituð á fótstall styttunnar. Þar segir á spænsku: „Olas Hielo, Sal, Sangre entre el Sudor Y A Final un Tesoro“ sem gæti þýtt á íslensku: Öldur – Ís – Salt – Blóð í svitanum og að lokum fjársjóður. Þar er líka þetta orðatiltæki á basnesku: „Gure Odol Gazituaren Gogoan“ sem gæti þýtt á íslensku: Í huga okkar salta blóðs.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991, Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason afhjúpaður, bls. 18.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Oddur_V._G%C3%ADslason
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Vonin.

Grindavík

Sunnudagskvöldið 10. nóvember voru ljósin tendruð á „Ljósi vonar“, ljósaverki sem sett verður upp neðan við Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga. Verkið sýnir geithafurinn sem sjá má í bæjarmerki Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – bæjarmerki.

Hugmyndin að baki „Ljósi vonar“ er að endurspegla þá bjartsýni og seiglu sem Grindvíkingar hafa ávallt sýnt, jafnvel á erfiðum tímum. Verkið er því tákn samfélagsins í Grindavík í fortíð, nútíð og framtíð.

Það er táknrænt að verkinu hafi verið gefið nafnið „Ljós vonar“, þar sem vonin hefur lengi lýst Grindvíkingum í lífsins ólgusjó. Vonin hefur veitt okkur hugrekki til að horfast í augu við mótlæti og trú á að nýr dagur rísi, þótt skýin séu dökk. Í krafti vonarinnar hafa Grindvíkingar sótt mátt og jafnvel nýjan tilgang til að halda áfram. „Ljós vonar“ verður þannig táknmynd þess að ávallt er hægt að finna leið í myrkrinu og sigrast á hindrunum með bjartsýni.

Geithafurinn í bæjarmerki Grindavíkurbæjar

Grindavík

Grindavík – ljós vonar.

Geitur í Grindavík eiga sér sína sögu. Í Landnámu segir frá þvi að Molda-Gnúpur hafi numið land í Grindavík. Birni, einum sona hans, dreymdi eitt sinn að til hans kæmi bergbúi og bauð honum samning sem hann samþykkti. Eftir það birtist geithafur í hjörð hans og auðgaðist þá skjótt hans fé. Varð hann í kjölfarið vellauðugur og í kjölfarið nefndur Hafur-Björn. Menn þóttust sjá að landvættir allir fylgdu Hafur-Birni til þings. Á sama tíma fylgdu vættir bræðrum hans, þeim Þorsteini og Þórði, til fiskjar.

Síðar táknaði geithafurinn velmegun Hafur-Bjarnar og varð að tákni Grindavíkurbæjar en bæjarmerki Grindavíkurbæjar er frá 1986 og er hannað af Kristínu Þorkelsdóttur.

Um fjögurra metra hátt með 2.200 LED ljósum

Grindavík

Grindavík – Ljós vonar.

Ljósaverkið mun fyrst um sinn standa við Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga, en áætlað er að finna verkinu varanlegan stað í framtíðinni. Verkið er um fjögurra metra hátt og lýst upp með um 2.200 LED-ljósum.
Verkið var hannað var í samstarfi Grindavíkurbæjar, MK-illuminatium og Garðlistar.

Sjá myndasafn sex eldgosa ofan Grindavíkur HÉR.

Heimild:
-https://www.grindavik.is/v/27400

Grindavík

Frá Grindavík 10. nóv. 2024.

Stóri-Hamradalur

Gengið var um Stóra-Hamradal og upp í Litla-Hamradal þar norður af. Upp úr honum var gengið til norðvesturs upp á Núpshlíðarháls og síðan eftir hálsinum ofan við Hraunssel, um Selsvallafjall og Grænavatnseggjar ofan við Grænavatn og niður að Spákonuvatni, Sogadal og staðnæmst við Sogagíg við rætur Trölladyngju ofan Höskuldarvalla.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Í Stóra-Hamradal er hár hamraveggur, misgengi. Dalurinn hefur sigið, en ofan af brúnum gjárveggjarins hefur síðan runnið nýrra þunnfljótandi hraun úr gígunum ofan við Tófubruna. Sumsstaðar hefur það smurt veggina líkt og að vandaða múrhúðun sé um að ræða. Undir gjánni sunnarlega er hlaðin rúningsrétt.
Litli-Hamradalur virðist ekki jafn tilkomumikill og stóri bróðir hans, en dalurinn er allsléttur og getur verið mjög litskrúðugur í bjartviðri, einkum eftir rigningar. Gengið var á Núpshlíðarhálsinn upp úr norðurenda dalsins. Þegar komið var upp á brún blasti Höfði í suðvestri, Sandfell í vestri og Hraunssels-Vatnsfell í norðvestri.

Hraunssel

Hraunssel.

Niður undir hálsinum lá Hraunsselið, vel gróið. Út frá því liggja greinilegar gamlar götur, sem spillt hefur verið í seinni tíð með utanvegaakstri.
Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík. Ofarlega í hlíðinni eru falleg litbrigði kulnaðra hverasvæða. Eftir að hafa staldrað við í grónum brekkunum ofan við selið var haldið áfram norður eftir hálsinum og útsýnið nýtt til hins ítrasta.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunsels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norðar kemur slétt graslendi Selsvalla í ljós. Af Selsvallafjalli má, ef vel er að gáð, sjá tóftir Grindavíkurseljanna suðvestanvert á völlunum sem og undir hlíðinni á þeim austanverðum. Selsvellir mynduðust með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Syðst á austanverðum völlunum er svonefndar Kúalágar.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar. Spölkorn vestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu vestan Selsvalla að norðanverðu, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann að hluta með umferð ökutækja. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, löngu eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt.

Grænavatn

Grænavatn.

Frá Grænavatnseggjum er frábært útsýni niður að Grænavatni á hægri hönd og að Trölladyngju og Grænudyngju til norðurs. Dyngjurnar eru móbergshnjúkar (393 og 375 m.y.s). Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum. Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Spákonuvatn birtist í einum gígnum á vinstri hönd. Fallegt útsýni er frá því yfir að Keili og umhverfi hans. Gengið var niður hin litskrúðugu Sog, um Sogadal og litið í Sogagíg þar sem selstóftir Sogasels voru skoðaðar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://www.os.is/jardhiti/
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.

Dyngjur-3

Dyngjur.

Kapella

Jochum Magnús Eggertsson (9. september 1896 – 23. febrúar 1966) var íslenskur rithöfundur og skáld, alþýðufræðimaður og skógræktarmaður, sem skrifaði jafnan undir höfundarnafninu „Skuggi“.
Skuggi-1Jochum las og rannsakaði allar galdraskræður og fornan fróðleik sem hann kom höndum yfir, og skrifaði meðal annars bókina Galdraskræðu, þar sem hann tók saman ýmsan fróðleik um galdra og galdrastafi. Hann sagðist líka hafa fundið galdrabókina Gullskinnu eða Gullbringu, sem getið er í þjóðsögum, en hún væri í rauninni ekki galdrabók, heldur frumgerð Landnámu og þar væri sögð saga fyrstu alda Íslandsbyggðar eins og hún væri raunverulega. Aldrei vildi Jochum þó sýna neinum Gullskinnu.
Margir telja að Landnáma hafi komið á undan Íslendingabók. Höfundur hennar voru Ari fróði og Kolskeggur hinn vitri.
Samkvæmt kenningum Jochums var Suðurland albyggt þegar landnámsmenn komu og var þar fyrir írskur þjóðflokkur sem naut andlegrar handleiðslu Krýsa (Chrysostomosa eða gullmunna) Skuggi-2og hafi það verið hluti launhelga sem voru til víða um Evrópu og allt suður til Krítar og Egyptalands. Höfuðstöðvar Krýsa voru samkvæmt kenningum Skugga í Krýsuvík. Hann hélt því fram að Krýsar og landnámsmenn hefðu í fyrstu búið saman í friði. Höfuðprestur Krýsa á elleftu öld var Kolskeggur vitri og hafði hann lærisveina sína og ritara á tveimur stöðum, í Krýsuvík, þar sem hann bjó sjálfur, og á Vífilsstöðum undir stjórn Jóns Kjarvalarsonar hins gamla, og voru alls 13 á hvorum stað að meðtöldum lærisveinum. Þeir voru jafnan hvítklæddir.
Þessir fræðimenn sköpuðu menningararf Íslendinga, segir Skuggi. Kolskeggur vitri kenndi Íslendingum að skrifa með latínuletri; hann orti sjálfur Hávamál og skrifaði margar Íslendingasagna, þar á meðal Njálu, Laxdælu, Hrafnkels sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Bandamanna sögu. En höfðingjum þóttu Krýsar orðnir of voldugir og haustið 1054 söfnuðu þeir miklum her, brenndu Jón Kjarvalarson og menn hans inni á Vífilsstöðum og settust svo um Krýsuvík, sem þeim tókst loksins að vinna þrátt fyrir frækilega vörn. Kolskeggur komst undan á Brimfaxa, arabískum gæðingi, en náðist í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, þar sem hesturinn fótbrotnaði og Kolskeggur var felldur. Eftir þetta var Krýsum útrýmt.
Skuggi-3Mönnum stóð brátt ógn af þeim stað þar sem Kolskeggur hafði fallið og var þar reist kapella og hraunið síðan kallað Kapelluhraun. Hann var sagður galdramaður og djöfull og með tímanum umbreyttist nafn hans í Kölski. Kapellan var reist við fornu reiðgötuna í auðninni þar sem Kolskeggur var veginn; var á miðöldum kölluð „Kölskakapella“ eða „Kölska-kyrkja“. Nýtt hraun hefur runnið á hana og kaffært hana að nokkru leyti, en vegsummerki hennar sjást þó enn greinilega á hraunhryggnum og storkunni, austurgaflinn nokkurnveginn heillegur að innan og innganginn og fyllt hana þeim megin. Hraunið dregur síðan nafn af Kapellunni. Það fylgir fornu sögninni, að bein Kölska hafi verið geymd eða dysjuð þar í Kapellunni.
Fornar fræðibækur Krýsa voru bannaðar og kallaðar galdraskræður. Ari fróði var svo fenginn til að umskrifa söguna og afmá hlut Krýsa, en eftir hvarf þeirra varð nær algjör stöðnun í menningararfi og ritstörfum meðal Íslendinga. Síðustu leifar þessa stórbýlis [Krýsuvíkur] hafa varðveizt á undraverðan hátt, umkringdar og greiptar í hraunstorkuna og bíða þar grasi grónar eins og þær hafa gert síðastliðin 600 ár. Yngsta gólfskánin hefur því tíðindi að segja frá þeim tíma.
Þá má þess geta að í þjóðsögunum segir að Eiríkur galdraprestur í Selvogi hafi áskotnast Gullskinna þessi, en hann ákveðið að urða hana í Kálfsgili í Urðarfelli, enda um að ræða „mestu galdrabók allra tíma“.

Skuggi-4

Jochum var ættaður frá Skógum í Þorskafirði og var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds. Hann sendi frá sér allnokkurn fjölda bóka og ritlinga, bæði stuttar skáldsögur og smásögur, ljóð, þjóðlegan fróðleik og ritgerðir, og þykja mörg ritverk hans nokkuð sérstæð. Hann var einnig góður teiknari og skrautritari og hafði lært það af eldri bróður sínum, Samúel Eggertssyni kortagerðarmanni og skrautskrifara, sem ól hann upp að einhverju leyti. Jochum myndskreytti sumar bækur sínar og handskrifaði aðrar. Á meðal bóka hans má nefna Brísingamen Freyju, Syndir guðanna – þessar pólitísku, Viðskipta- og ástalífið í síldinni og Skammir.
Jochum keypti Skóga í Þorskafirði árið 1951, dvaldist þar meira og minna öll sumur eftir það og stundaði þar allnokkra skógrækt og gerði tilraunir með ræktun ýmissa trjátegunda. Hann var ókvæntur og barnlaus en arfleiddi Baháí-samfélagið á Íslandi að jörðinni eftir sinn dag.

Sjá meira HÉR.
Sjá einnig Brísingamen Freyju.

Heimildir
– (Jochum M. Eggertsson) Skuggi: Brísingamen Freyju: nokkrar greinar. Reykjavík, 1948.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Skreið

Það var við hæfi að fara í sérstaka „Hjallaferð“ á föstudaginn langa. Föstur í kaþólskum sið voru helstu forsendurnar fyrir skreiðavinnslu og fiskútflutningi Íslendinga í gegnum aldirnar.

Skreið

Skreið í trönum.

Um langan tíma var hertur fiskur svo til eina útflutningsvaran. Á þeim tíma var fiskur þurrkaður á grjóti, hlöðnum grjótgörðum og byrgjum, auk þess sem sérstök verkhús voru á sumum stöðum. Verin gengdu þýðingarmiklu hlutverki við veiðar og verkun skreiðar. Í sumum þeirra, einkum á Snæfellsnesi, voru sérstakir hjallar (rekaviður milli hlaðinna stólpa). Á Reykjanesi eru nú einungis eftir fiskhjallar (trönur) á fáum stöðum, s.s. við Hafnarfjörð, Grindavík og Garð.

Haldið var í hjallana við Hafnarfjörð, gengið þar um og sagan rifjuð upp í tilefni dagsins. Í hjöllunum hanga nú þorskur, ufsi, ýsa, lýsa og langa, en áður fyrr var þar nær einvörðungu þorskur og hausar. Hausarnir nú virtust af öllum hugsanlegum fiskskepnum. Sumir hafa líklega hangið þarna lengi, aðrir voru nýkomnir.
Þurrkbyrgi á SelatöngumSkreið er framleiðsluheiti yfir þurrkaðan, afhausaðan fisk. Þurrkunin er gömul aðferð til að auka geymsluþol fisks. Íslendingar hafa þurrkað fisk í aldaraðir en í nútímanum má segja að hér á landi sé aðeins borðuð ein tegund skreiðar þ.e. harðfiskur, öll önnur skreið er framleidd til útflutnings. Helstu markaðir fyrir skreið eru Ítalía og Nigería, auk nokkurra ríkja á vesturströnd Afríku.
Skreið hefur lengst af verið útiþurrkuð þar sem tveir fiskar eru spyrtir saman og hengdir upp í þar til gerðum fiskhjöllum og sól og vindur látin um þurrkunina. Nú getur þurrkun fisksins verið hvort heldur sem er, inniþurrkun – og er þá jarðhiti gjarnan nýttur til verkunarinnar.

Skreið

Skreið í hjalla.

Þessi hausaverkun getur verið mismunandi og helst hún gjarnan í hendur með því í hverskonar verkun bolur fiskins fer; haus m/klumbu, haus án klumbu og haus með hrygg.
Á miðöldum steig skreið mjög í verði á erlendum markaði. Þá reið mjög á því fyrir landsmenn að geta framleitt góða og vel verkaða skreið til sölu erlendis. Annmarkar voru á því, sérstaklega vegna rakans í sjávarloftinu. Eyjamenn tóku t.d. þá upp á að herða fisk á syllum í móbergshömrum, t.d. fiskhellum svokölluðum. En meira rými þurfti til. Eyjabúar fundu þá upp gerð fiskigarða. Hver jarðarvöllur (tvær jarðir) eignaðist afmarkað svæði, sem girt var hlöðnum grjótgarði til varnar sauðfé t.d., sem þá gekk í hundraðatali um alla Heimaey. Inni í gerðinu voru síðan hlaðnir reitir úr hraungrýti með bili á milli, svo að ekki þurfti að ganga á reitunum sjálfum (þurrkreitunum) meðan fiskurinn var breiddur til herzlu. En fleira var innan gerðisins en herzlureitirnir. Þarna var byggð kró úr hraungrýti, – hringmynduð kró, sem mjókkaði upp í toppinn svo að loka mátti henni með dálítilli steinhellu. Að baki krónni var reitur, kallaður kassareitur.
Annars staðar á landinu voru hlaðnir langir grjótgarðar og hlaðin grjótbyrgi, s.s. nálægt Grindavík og á Snæfellsnesi.
Oftast var fiskurinn hertur flattur, tekinn úr honum hryggurinn.
Þegar fiskurinn var fluttur í gerðið, ýmist borinn á baki eða reiddur á hesti. var hann settur í kös á kasarreitinn. Þar var hann látinn liggja, þar til byrjaði að slá í hann. Þá var hann breiddur á herzlureitina. Lágnaður fyrir herzlu þótti fiskurinn bragðbetri og mýkri. Eiga Norðmenn að hafa fundið upp þessa verkunarferð á miðöldum.

Skreið

Skreiðarhjallur.

Hálfharður var fiskurinn síðan settur inn í króna. Þar blés hann og fullharðnaði án þess að regn kæmist að honum. Loftstraumur lék um króna, þar sem hún var hlaðin upp úr hraungrýti með einföldum veggjum. Fyrir krónni var rimlahurð. Dyrnar voru lágar, svo að ganga varð hálfboginn um þær eða skríða nánast. Yfir dyragættinni var hvalbein, t.d. rifbein úr hval. Í krónni geymdist skreiðin vel. Þaðan var hún flutt á verzlunarskipið, þegar hún var seld til útflutnings, og þangað sóttu menn skreið til heimilisnota. Á Reyjanesi voru notuð steinhlaðin byrgi í sama tilgangi.
Líkan af vestmannaeyskum fiskigörðum gjörði Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ. Það er gjört eftir frásögn Jóns Jónssonar frá Brautarholti, síðast sjúkrahússráðsmaður þar í bæ. Hann var fæddur 1869 og mundi gerð síðasta fiskigarðsins, sem var rifinn um 1880, eða um svipað leyti og verstöðin á Selatöngum lagðist af.
Fiskbyrgi í Strýthólahrauni við GrindavíkHarðfiskur hefur fylgt landsmönnum allt frá upphafi byggðar og lengi framan af skipaði hann stóran sess í fæðunni, einkum til sveita þar sem ekki var mikið framboð af fersku sjávarmeti. Í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson sagnfræðing er fróðlegur kafli um skreið og harðfisk. Þar segir að víða sé minnst á skreið í Íslendingasögum og má þar nefna skreiðarhlaðann á Fróðá í Eyrbyggju. Í Íslandslýsingu Odds biskups Einarssonar frá lokum 16. aldar segir að næst á eftir mjólkurvörum og kjöti sé venjulegur fiskur stór hluti af fæðu Íslendinga. „Er hann þá fyrst hertur…

Skreið

Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.

Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngum verið drjúgir við að vinna saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni – Uppdráttur ÓSÁ.

Sýningin er forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna. Hún er liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Í kringum Grindavík eru víða gamlir þurrkgarðar og byrgi, s.s. við Húsatóftir, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni, við Ísólfsskála og á Selatöngum. Í Herdísarvík má einnig enn sjá garða og leifar byrgja, en vegagerð hefur þegar skemmt hluta þeirra.
Um miðja átjándu öld voru fáeinir tugir báta gerðir út frá Reykjavík, mest tveggja manna för, og voru veiðarfærin nær eingöngu handfæri. Fiskurinn var að mestu leyti verkaður í skreið. Eftir 1800 stækkuðu fleyturnar og fjögurra og sex manna för urðu uppistaða bátaflotans.

Reykjavík

Reykjavík – tómthús 1890.

Í holtunum í kringum miðbæ Reykjavíkur og út frá honum meðfram sjónum mynduðust þyrpingar torfbæja þar sem tómthúsmennirnir bjuggu. Þeir höfðu lífsframfæri sitt af því að róa til fiskjar og af daglaunavinnu sem til féll. Upphaflega voru þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna og höfðu ekki skepnur kallaðir tómthúsmenn, húsin þeirra voru talin tóm. Víða á Suðurnesjum var þetta fólk nefnt þurrabúðafólk. Fékk það að reisa hús (skjól) á jörðum formanna eða annarra góðviljaðra, sem síðan þróuðust í smábýli eða bæi. Dæmi um slík hús eru t.d. í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík – reyndar endurnýjuð síðan þá var.
Um 1820 var saltfiskur orðinn aðalútflutningsvaran frá Reykjavík og hafði það örvandi áhrif á þéttbýlismyndunina þar sem saltfiskverkun var frek á vinnuafl gagnstætt skreiðarverkun. (Sjá meira undir Skreið I).

Sjá einnig MYNDIR.
Sólstafir yfir Grindavík

Bláa lónið

Genginn var svonefndur „Bláalónshringur“, þ.e. 6-8 km hringleið frá Bláa lóninu um Eldvarpahraun að Skipsstíg, hinni fornu þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur, og götunni síðan fylgt til suðurs að Lágafelli.

Bláa lónið

Bláalónshringur – forsíða.

Gangan var farin í framhaldi af útgáfu gönguleiðarbæklings undir yfirskriftinni „Bláalónshringur“. SJF og ÓSÁ unnu að bæklingnum með stuðningi Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Í bæklingnum er leiðinni umhverfis Bláa lónið lýst af allnokkrurri nákvæmni.

Í göngunni var komið við í Dýrfinnuhelli þar sem samnefnd kona úr Grindavík átti að hafa dulist með börn sín eftir að „Tyrkir“ réðust á Grindvíkinga að morgni 10. júní árið 1627 og rænt þaðan 15 manns.
Rifjuð var upp tilurð og aldur nálægra hrauna; Illahrauns, Bræðrahrauns og Blettahrauns áður en göngunni var framhaldið til austurs með norðanverður Þorbjarnarfelli, um Skjónabrekkur inn á Baðsvelli. Þar voru skoðaðar leifar af selstöðum Járngerðarstaðabænda fyrr á öldum og skógrækt Grindavíkurkvenfélags-kvenna frá 1950.
Loks var haldið yfir Illahraun, framhjá Svartsengisvirkjuninni að Bláa lóninu. Frábært veður.
Sjá má innihald annars ófáanlegs bæklingsins Bláalónshringur-bæklingur.

Bláa lónið

Bláa lónið – þátttakendur.

 

 

Trölladyngja

Gengið var frá Trölladyngju upp í Sogadal, þaðan upp að Spákonuvatni og síðan niður Þórustaðastíginn þar sem hann liggur skásniðinn niður Selsvallafjall á Selsvelli, suður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi, um Þrengsli og Hraunsel, áfram niður með austurjarði Leggjabrjótahrauns og síðan gamla Krýsuvíkurveginum (Hlínarveginum) fylgt austur yfir Núpshlíðarhálsinn á Djúpavatnsveg sunnan Stóra Hamradals.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngjusvæðið er nátttúrminjasvæði, auk Keilis og Höskuldarvalla. Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólkvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffell í Keili. Þá er gígasvæðið vestan í Vesturhálsi er liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla hluti af náttúrverndarsvæðinu, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólkvangs. Sjálf er Trölladyngjan móbergsfjall, líkt og Grænadyngja, systir hennar, og Keilir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn.

Gengið var yfir Sogalækinn og áfram upp á gígbrún Spákonuvatns. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir litskrúðugt Oddafellið og formfagran Keili. Spákonuvatnið er í einum gíg af mörgum á Núpshlíðarhálsinum. Önnur vötn má t.d. nefna Djúpavatn og Grænavatn.

Gengið var um Grænavatnsengjar áleiðis niður að Selsvallafjalli. Af fjallinu var horft yfir Grænavatn í suðaustri. Skásneiðingur Þórustaðastígsins var síðan tekinn niður á Selsvellina vestur undir fjallinu. Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt niður fjallið. Reykjavegurinn liggur um Selsvellina.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengt upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Upp í fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Hluti selstóttanna kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti. Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli.
Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selsturnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.

Keilir

Keilir.

Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt á 19. öld. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega.

Ef marka má lýsingu sr. Geirs var ekki um marga kosti að ræða: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars
Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni.

Hraunssel

Hraunssel.

Gengið var niður Þrengslin og tóftir Hraunssels skoðaðar. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Haldið var áfram niður syðri Þrengslin, með austurjaðri Leggjabrjótshrauns og niður í Línkrók. Þar skammt frá á Sængurkonuhellir að vera í hrauninu undir hlíðinni. Þegar komið var niður á gömlu götuna (Hlínarveginn), sem rudd var fyrir hestvagna um 1932, var beygt til vinstri og götunni fylgt í sneiðingi upp Núpshlíðarhálsinn, um móbergsskarð og niður hálsinn að vestanverðu. Gangan endaði á Djúpavatnsvegi þar sem FERLIR-095 hafði byrjað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dyngjur-2

Dyngjur.