Tag Archive for: Grindavík

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Sandfelli um Hrútagjádyngju og á hellasvæðið norðan hennar.

Dyngja

Dyngjugos.

Við Sandfell er Hrútfell, sem dyngjan dregur nafn sitt af. Á toppi þess stendur hrúturinn. Hrúthólmi er vestan dyngjunnar og Hrútafell sunnar. Dyngjan sjálf er mikil um sig. Gígurinn er hringlaga og sléttur í henni vestanverðri. Út frá honum liggja myndarlegar hrauntraðir er mynduðust er hraunið rann fyrir u.þ.b. 4500 árum síðan.
Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.

Húshellir

Við Húshelli.

Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum. Gígbarmarnir rísa venjulega ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheiði (Hnúkum). Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Utan Íslands eru dyngjur sjaldgæfar nema á Hawaii-eyjum þar sem þrjár dyngjur eru enn virkar. Úr dyngjunum renna oft mikil hraun, sbr. Sandfellshæðina, Þráinsskjöld, Heiðina há og Hrútargjárdyngju.
Hrútargjárdyngja er einstaklega fallegt jarðfræðifyrirbæri. Barmar meginhraunsins hafa lyfst á gostímanum og myndað veggi og gjár með köntunum. Hrauntraðirnar eru miklar vegna hins mikla hraunmassa og hafa myndað gerðarlega og greiðfæra ganga um hraunið.
Hellunum neðan Hrútargjárdyngju er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, sjá meira HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Árni Hjartarson – JÍ 2003.

Húshellir

Í Húshelli.

Markrakagil
Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum.
Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver séð sig knúinn til þess að spyrna við honum.

Markrakagil

Markrakagil.

Gilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Markragil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).

Hraunhóll

Hraunhóll.

Námusvæði er í vestanverðum Undirhlíðum norðan Vatnsskarðs. Vestan þess, sunnan Krýsuvíkurvegar, er Hraunhóll, enn eitt jarðfræðifyrirbrigðið, sem skemmt hefur verið í gegnum tíðina. Úr honum rann Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, um 1188. Gígurinn hefur verið eyðilagður sem og allt umhverfi hans, Hraunhóll, stundum nefndur Rauðhóll, var með fallegri gígum á Reykjanesi og í rauninni stolt svæðisins. En þegar ráðist er að stolti landsins er dregið úr verðmæti þess. Skammsýni, þegar landsgæði eru annars vegar, hefur því miður verið eitt af höfuðeinkennum Íslendinga, allt frá landnámi til vorra daga.

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Með gengdarlausri eyðingu skóga kom landeyðingin, skjólið hvarf og landsmenn stóðu berrassaðir á berangri um aldir. Nú þegar ferðamennskan er að verða ein aðalatvinnugrein landsmanna standa þeir enn og aftur berrassaðir fyrir framan ferðamennina, með landið sundurkorið og með óafturkræfar námur á einum fallegustu og nærtækustu svæðunum. Þeir, sem fengið hafa að ráða ferðinni í þessum málum, eiga að verða verðlaunaðir með fálkaorðunni fyrir eindæma skammsýni í þessum efnum. Nóg um það í bili.
Haldið var suður með Sveifluhálsi, um Sandfellsklofa. Þessi leið var fyrrum farinn frá Kaldárseli til Krýsuvíkur, Undirhlíðavegur. Hún er sendin frá Vatnsskarði og upp fyrir Norðlingaháls, en þá taka við grónar brekkur og sléttur að Ketilsstíg. Svæðinu um Sandfellsklofa hefur nú verið spillt með efnistöku, auk þess sem vélhólafólk hefur sett för sín á landið.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hrauntröð.

Mikil og löng hrauntröð, sem nú er að mestu sandi orpin, liggur samhliða klofanum. Hún var elt upp í gígana, sem eru í brekkunni áður en beygt er upp að Hrútargjárdyngju. Vegurinn liggur um þá. Jarðföll taka við tröðinni, en í því efra er hægt að komast niður í Klofahelli.Hraunrennslið hefu nær eingöngu orðið úr syðstu gígunum. Stærð hraunsins nær ekki einum ferkílómetra, en raunveruleg stærð þess gæti verið mun meiri. Aldursákvörðun hefur verið gerð á gróðurleifum undir hrauninu (Jón Jónsson, 1983) og fékkst aldurinn 3010 +/-70 eða um 1060 ár f.Kr.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hellisop.

Nokkrir hellar ganga fáeina tugi metra inn frá miklum niðurföllum við suðurenda hrauntraðarinnar. Í þessum smáhellum hefur mikið hrunið, en þeir eru nafnlausir og hluti af Klofahelliskerfinu.
Inn frá litlu opi ofan við Djúpavatnsveginn. Inn frá því til norðausturs er Klofahellir. Fyrst er klöngrast niður þrönga rás, sem á stunum er á tveimur hæðum. Þar innanvið er mikil hvelfing með um fjögurra metra lofthæð og um átta metrar eru milli veggja. Aftur þrengist hellirinn nokkra vegalengd þar til komið er í “símaklefann”, en þar má rétta úr sér á ný. Inn frá símaklefanum eru um 10 m göng, en ákaflega þröng og ekki á færi allra að fara þar í gegn. Þar innan við stækkar hellirinn á ný, en endar svo í miklu hruni. Klofahellir er um 115 m langur.
Suðvestan við Klofahelli er enn einn hellir eða skúti. Heildarlengd er um 15 metrar. Í honum voru fjögur pör af skóm og fékk hellirinn því nafnið Skóhellir.

Sandfell

Sandfell – austurhliðin er snýr að Sandfellsklofa.

Sandfellið er auðvelt uppgöngu. Fallegt útsýni er af því yfir að Hraunhól, yfir Kapelluhraun og Óbrennisbrunahraun. Gengið var niður af fellinu að austanverðu og haldið yfir nokkuð slétt hraunið og sandsléttu að upphafsstað. Upp úr henni gægist ein og ein burnirót. Ósjálfrátt fara tvífætlingar að gaumgæfa hvar þeir stíga niður. Það, sem næst er, yfirsést – oftast.
Á leiðinni var gengið yfir tiltölulega litla hraunsprungu. Jarðvinnuvél hafði verið ekið af óskiljanlegri ástæðu yfir sprunguna og verið rótað með henni að hluta til yfir hana. Forvitnilegt skoðunarverkefni síðar.
Innst í Sandfellsklofa eru glögg merki þess hversu utanvegaakstur getur spillt annars fallegu landslagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Fjárskjólshraun

Gengið var niður Fjárskjólshraun og að opi Fjárskjólshraunshellis, sem fannst fyrir skömmu í grónu jarðfalli í hrauninu. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess.

Fjárskjólshraun

Á leið í Fjárskjólshraun. Keflavík að handan.

Komið var niður í skúta undir berghellunni, en með því að fara til hægri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri.

Fjárskjóshraun

Í helli í Fjárskjóshrauni.

Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnum á einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.
Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Ekki var komist inn í meginrásina að þessu sinni. Líklega má telja svæðið í kring hellavænlegt og því vel þess virði að gefa því nánari gætur við tækifæri. Frést hefur af opi þarna nokkru austar, skammt neðan við þjóðveginn, sem á eftir að staðsetja og skoða.
Frábært veður.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunshelli.

Ögmundarstígur

Gengið var yfir Sveifluháls eftir gamalli þjóðleið frá austri til vesturs, framhjá Drumbi og áfram niður í Bleikingsdal.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Lækur rennur þar niður hraunið sunnan Vigdísarvalla, um svonefnda Suðurvelli og Klettavelli ofan við Krýsuvíur-Mælifell og niður Ögmundarhraun. Hann kemur úr hvilftunum suðvestan Hettu í Sveifluhálsi og hefur smám saman rutt á undan sér sandi og leir úr hlíðunum, líkt og Selsvallalækurinn og Sogadalslækurinn. Gróið er á bökkum læksins, því meira sem norðar dregur. Ljóst er að fé hefur nýtt sér vatnið í gegnum tíðina og launað fyrir sig með því að leggja sitt af mörkum við uppgræðsluna næst læknum. Til skamms tíma náði lækurinn niður í hraunið norðan þjóðvegarins milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála, en nú er hann kominn suður fyrir hann og ætlar greinilega alla leið áfram til sjávar, jafnvel þótt það taki tíma.
Læknum var fylgt niður að Ögmundardys, við gömlu þjóðleiðina yfir hraunið. Dysin er við austanvert hraunið, við eina stubbinn, sem enn er óbreyttur frá því sem var. Gatan var jafnan lagfærð með seinni tíma vegarlagningum (1932) og síðar.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Þjóðsagan segir að áður en gatan var rudd varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi vildi ei gefa dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
Jón Jónsson, jarðfræðingur segir aldur Ögmundarhrauns vera C14 945 ± 85, þ.e. að hraunið hafi runnið árið 1005?
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 61 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=276
-J.J. 81

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Dalssel

Gengið var til norðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli, framhjá Kastinu og inn að Nauthólum í Fagradal. Á sumum landakortum er Sandakravegurinn dreginn þessa leið og áfram til norðvesturs að Skógfellaveginum ofan við Stóru-Aragjá. Áður en haldið var áfram um Aura og Mosadal var ætlunin að huga að mögulegum Brúnavegi úr Fagradal áleiðis inn á Brúnir ofan við Kálffellsheiði. Ef vel gengi var ætlunin að koma við í Oddshelli.

Göngusvæðið

Að lokum var svo markmiðið að skoða kaflann úr Fagradal til vesturs að Stóru-Aragjá m.t.t. þess hvort þarna hafi fyrrum verið sú þjóðleið er ætlað hefur verið. Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum frá einu af síðustu jökulskeiðum ísaldar. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi. Hraunhetta hylur hæsta hluta fjallsins í norðvestri (KristjánSæmundsson og Sigmundur Einarsson, 1980) en yngri hraun frá nútíma liggja umhverfis fjallið.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).

Kastið

Kastið.

Um klukkustundar gangur er með fjallinu inn í Fagradal. Á leiðinni er gengið framhjá Sandhól, en norður með honum liggur grópuð þjóðleið yfir á Skógfellastíginn milli Skógfellanna. Þessi leið hefur gjarnan verið nefnd Sandakravegur. Kastið stendur sem fell úr úr Fagradalsfjalli. Norðan hennar er Fremstidalur, þá Miðdalur og nyrst Innstidalur. Milli þeirra síðarnefndu stendur Sandhóll-innri úti í hrauninu. Þegar komið er inn í Fagradal eru Nauthólar og Nauthólaflatir fremst. Ofan við þær er Rauðgil.  Norðaustar eru þrír hólar og er Dalssel norðan í þeim. Tóftirnar eru sunnanverðum lækjarbakka. Enn má sjá þar gróna húsatóft, kví og stekk vestast.

Sauðaskjól í Kálffelli

Þá var haldið inn á Brúnir. Varða er syðst á þeim, en síðan taka við fokmelar og grjótþýfi. Enga greinilega götu er þar að sjá. Hemphóll sést vel í norðri, en ekki var að merkja götumynd áleiðis að honum.
Haldið var niður að Kálffelli og m.a. litið á sauðaskjól og íveruhelli. Landamerki Vatnsleysustrandarhrepps og Grindavíkur liggja um Kálffellið. Í lýsingu á merkjum Vatnsleysustrandarhrepps gerð af Gunnari á Kálfatjörn 1981 kemur fram að suðausturmörk og suðurmörk hans voru eftirfarandi: „Úr Markhelluhól liggja mörkin til útsuðurs sjónhending um Hörðuvallakofa og milli Dyngna, þ.e. skarðið milli Stóru-Dyngju og Grænudyngju, síðan sömu stefnu upp og suður Vesturháls um Grænavatnseggjar og Selsvallafjall í móbergsfell nær vesturbrún hálsins, upp af Þrengslum og Hraunsseli. Fell þetta er ýmist nefnt Framfell eða Vesturfell. Þaðan liggja mörkin til útnorðurs í Hraunsvatnsfell og þaðan í Vatnskatla á Vatnsfelli norðan Fagradalsfjalls. Úr Vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla- Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna en þaðan til sjávar yst í Grynnri-Skoru á Vogastapa“.

Oddshellir

Í Oddshelli.

Oddshellir er í Brunnhól. Opið er eins og brunnop, en auk þess er hann opinn í toppinn. Um tveir metrar eru niður á gólfið. Talið er að Oddur í Grænuborg hafi átt afdrep í hellinum og af því mun nafngiftin vera dreginn. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað. Sauðhellarnir eru skammt norðan við Oddshelli. Í gígnum eru leifar af hlöðnu gerði svo og fyrirhleðsla skammt norðar. Þótt Kállfellið virðist standa hátt í heiðinni er hæð þess ekki nema 87 m.y.s.
Haldið var til suðurs niður á Aura og þeim fylgt að austurgjárbrún Mosadals. Engin ummerki eftir götu voru þar með gjárbrúninni, en varða á hól ofan hennar. Engin ummerki voru heldur á gjárbarminum (Mosadalsgjá) að vestanverðu. Ef gata hefur legið um Fagradal og Aura niður á Skógfellastíg ofan Snorrastaðatjarna þá hefur sú gata legið mun austar, eða við enda gjánna, með stefnu í suðvestanvert Kálffell, við rætur Kálffellsheiðar.
Snorrastaðatjarnir í síðdegissólinniListaverkaísmyndanir á pollum, sígrænn einir, sólbakaður mosi og kyrrð vetrardægrar í logninu voru sem viðauki á annars ágæta gönguferð. Að vísu voru þátttakendur orðnir lúnir til fótanna að henni lokinni, en upplýsing hugans er aflað var á leiðinni vó verulega á móti þreytunni og mun lifa áfram að henni úrsérgenginni.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Leiðin er um 18 km.
Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

Kálffell

Kálffell – rétt.

Spákonuvatn

Gengið var frá norðvesturhorni Trölladyngju í dýrindisveðri.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Sogasel var skoðað í Sogaselsgíg, en þar eru rústir nokkurra húsa á a.m.k. þremur stöðum frá selstíð Kálfatjarnar, auk stekkjar og réttar. Ein rústin er sýnilega elst, en jafnvel er talið að Krýsuvík hafi haft þarna í seli um tíma. Utan við gíginn er enn ein rústin.

Gengið var áleiðis upp Sogadal, skoðuð heitavatnsuppspretta í hlíðinni og síðan upp að Spákonuvatni á Núpshlíðarhálsi, niður Grænavatnseggjar og að Grænavatni. Haldið var með vatninu og kíkt eftir hugsanlegum hleðslum norðan við það, en mjög gróið er þar við vatnið.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Uppi í hlíðinni gætu verið óljósar hleðslur og einhver mannanna verk gætu einnig verið þar við vatnið. Gengið var að Selsvallafjalli og beygt til austurs með hálsinum ofan við Krókamýri. Farið var á ská niður hálsinn og vegurinn genginn með Djúpavatni þar sem áð var á Lækjarvöllum norðan við vatnið. Að því búnu var gengið með hálsinum og frammeð Fíflvallafjalli. Við enda þess er mikill gígur. Vel sést hvar Rauðamelsselstígur liggur þaðan yfir hraunið að Hrútafelli og vestur fyrir það, en sunnan við fellið er vatn, sem Lækjarvallalækurinn hefur myndað utan í grónum völlum. Loks var gengið um Hörðuvelli, niður með eldgígum og hrauntröðum uns komið var að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Kastið

Gengið var um Fagradalsfjall með það að markmiði að finna og skoða þrjú flugvélaflök, sem þar eiga að vera.

kastid-213

Hluti braksins í Kastinu.

Gengið var frá Siglubergshálsi og gengið um Lyngbrekkur og upp með Langahrygg að austanverðu. Þaðan er gott útsýni yfir að Skála-Mælifelli. Flugvélabrak frá því á stríðsárunum liggur norðaustan í hryggnum. Tólf menn fórust, Bretar og Bandaríkjamenn. Stutta stund tók að finna brakið. Það er efst í hryggnum og í brekkunni þar fyrir neðan. Hluti braksins er í gili undir brekkunni.

Haldið var yfir að Langhól. Þar fórst önnur vél í stríðinu, Sunderland flugbátur. Ekki er ljóst með mannskaða. Brakið er norðaustan í hólnum, nokkuð ofarlega. Áður en komið vara ð barkinu var gengið fram á vatnsketil þar í hlíðinni og var þó svolítið vatn í honum. Vel gekk að finna brakið. Gengið var svo til beint á það.

Eftir að hafa skoðað svæðið var gengið upp á hæsta punkt Langhóls (391 m.y.s.).

Langhóll

Langhóll – brak.

Þar er gott útsýni yfir hinar fögru og blómlegu byggðir Suðurnesja og Útnesja. Brak af flugvél er ofarlega undir Langhól í norðaustur.
Frá Langhól var haldið í Kastið, en þar er þriðja flugvélabrakið. Það er af Liberator-flugvél Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu, en hann fórst þarna 3. maí 1943. Fjórtán fórust og einn komst lífs af í þessu slysi.
Eftir að hafa skoðað brakið í Kastinu var haldið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Átján km voru lagðir að baki.

kastid-212

Kastið í Fagradalsfjalli.

 

Tóustígur

Gengið var frá Hvassahrauni að Afstapahrauni (Arnstapahrauni) og inn í hraunið. Það virtist ógreiðfært við fyrstu sýn, en raunin var önnur. Það er vel gróið á kafla og auðvelt yfirferðar. Að austanverðu eru falleg gróin svæði strax og komið er inn í hraunið með fallegum klettamyndunum.

Tóustígur

Vinnuvélar komnar fast af fornum garði í Neðstu-tóu – Tóustígur h.m.

Sjá mátti fyrirhleðslu á einum stað. Stígur liggur þar í gegnum. Gengið var upp á línuveginn og eftir honum til vesturs uns komið var inn í Tóu tvö. Jarðvinnuvélar voru að moka hrauninu vestan hennar, u.þ.b. tveimur metrum frá Tóustígnum og hlöðnu görðunum, fornminjum, sem þar eru. Sorglegt á að horfa. (FERLIR vakti athygli MBL á aðstæðum. Það birti mynd af jarðvinnuvélunum og sagði frá nálægðinni við garðana. Vegagerð ríkisins stöðvaði framkvæmdir og þáði afsökun verktakans. Hann hafði ekki áttað sig, að sögn, á hversu nálægt hann var kominn, þrátt fyrir skráða skilmála þess efnis).

Toustigur

Tóustígur.

Gengið var til suðurs upp eftir Tóustígnum, upp í Tóu þrjú. Þar er jarðfall og hleðsla fyrir. Bændur munu hafa hýst fé þar í skjóli. Bein voru ofan við jarðfallið eftir refaveiðimenn, en þeir munu hafa borið þar út æti með það fyrir augum að veiða refinn. Greni eru þarna í hraunkantinum. Haldið var eftir stíg í Hrístóu. Hún er vel gróin að hluta. Gengið var með Seltóunni og var stígurinn þræddur til austurs í gegnum gróft hraunið uns komið var í slétt mosahraun – Dyngnahraun. Í því voru greni og mjög fallega hlaðið refabyrgi. Mjög erfitt er að koma auga á það – svo vel fellur það inn í landslagið. Sennilega er þarna fundið byrgi er Jónas Bjarnason var að reyna að lýsa fyrir FERLIR fyrir u.þ.b. tveimur árum og nokkrum sinnum hefur verið reynt að hafa uppi á. Allt finnst þetta þó að lokum.

Tóustígur

Tóustígur.

Efst suðvestan í efstu Tóunni liggur varðaður stígur til suðvesturs yfir Afstapahraunið. Stígurinn er mjög greinilegur og hefur verið fjölfarinn fyrrum. Greinilegt er að þarna hefur verið um hrísgötu að ræða, enda lagaður til umferðar. Hún hefur legið upp með vesturjaðri Afstapahrauns og beygt inn á hraunið að efstu Tóunni þar sem haunhaftið er mjóst. Með því að fara upp með gróningunum vestan hraunsins hefur meðferð hesta verið mun meðfærilegri en að fara með þá niður Tóurnar, yfir hraunhöft og torleiði þar sem hrísið var m.a. annars vegar.

Upp af Tóunum tók við hraunkantur, sem stígurinn lá í gegnum.
Þegar út úr hrauninu var komið var haldið til austurs uns komið var í hraunkrika Dyngnahrauns.

Skógarnef

Skógarnefsgreni.

Haldið var upp í krikann og stígur þræddur yfir úfið hraunið. Þegar yfir það var komið tók við gróinn Almenningur skammt vestan við Gömlu þúfu. Gengið var spölkorn norður með hraunkantinum og þá komið að Búðarvatnsstæðinu. Það reyndist því miður þurrt með öllu. Vatnsbirgðirnar voru því látnar duga. Girðing hefur legið í gegnum vatnsstæðið og beygt þar hornrétt. Eftir að hafa áð við vatnsstæðið var gengið með hraunkantinum og stefnan tekin á Hvassahraun.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var í gegnum gróið hraun, niður í gegnum Skógarnefið, sem er þarna skammt frá, og áfram í genum gróið mosahraun vestan þess. Gerð var leit að Skógarnefsskúta, en án árangurs. Gengið var um Jónshæð og niður að Öskjuholti. Staldrað var við Öskjuholtsskúta og hann skoðaður. Þá var gengið áfram til norðurs, niður með Bláberjahrygg og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 19.4 km.

Víkingaskip

„Víkingaskip“ í Afstapahrauni.

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarhraun að Latfjalli, komið við í sæluhúsi í hrauninu undir fjallinu og síðan gengið yfir í Óbrennishólma og þaðan yfir í Húshólma. Stígur í gegnum hraunið liggur ofan við sæluhúsið og með sunnanverðum Óbrennishólma. Áður fyrr hefur hann legið með ströndinni um Húshólma, en sjórinn hefur tekið hann til sín fyrir allnokkru. Stígurinn er klappaður í bergið á kafla.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1200. Í þessu gosi myndaðist feiknarmikil hraun. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun/Kapelluhraun – yfirlit.

Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum. Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni. Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Ögmundarhraun er hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi (Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun, er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs.

Reykjanesskagi

Ögmundarhraun.

Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram. Hraunið var erfitt yfirferðar fyrrum en núna liggur um það nokkuð greiðfær malarvegur. Sjálfur vegurinn er ekki friðlýstur, þó svo einhver gæti haldið það, en hraunið er friðlýst.
Krýsuvík var fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn, og stóð bærinn upphaflega allmiklu vestar. Bæinn tók af, þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið gróðurlendi jarðarinnar, líklega á fyrri hluta 12. aldar. Kirkja mun hafa verið í Krýsuvík á 13. öld. Stórbýli var áfram í Krýsuvík um aldir og undir því voru margar hjáleigur.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.
Bæði Óbrennishólma og Húshólma er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. FERLIR-128, 217, 300, 386, 545, 634 og 715.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

 

Hópsheiði

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir Svavar Sigmundsson um „Önefnið Grindavík„:
„Grindavíkur er getið í Landnámabók (Íslensk fornrit I:330). Í sömu bók eru auk þess Grindalækur í Húnavatnssýslu og Grindur í Borgarfirði.

Hópsvarða

Innsiglingavarða við Hóp í Grindavík – endurhlaðin af FERLIRsfélögum.

Í örnefnum bendir orðið grind til merkingarinnar ‘gerði’ eða ‘hlið’, eða ‘klettarið’, til dæmis Grindaskörð í Gullbringusýslu og Grindamúli í Suður-Múlasýslu, Grindarás í Austfjörðum (Íslenskt fornbréfasafn IV:205,271), Helgrindur á Snæfellsnesi og Jökulgrindur í Rangárvallasýslu. Klettarani á merkjum Þorpa og Hvalsár í Strandasýslu heitir Grind (Íslenskt fornbréfasafn IV:161). Sögn er um að grind hafi verið þar í skarði til varnar ágangi búfjár.

Svartiklettur

Svartiklettur við Hópið í Grindavík – sundmerki.

Hugsanlegt er að grind hafi átt við sundmerki* en Sundvarða er í Herdísarvíkursundi, „sem tréð með grind stendur í“ (Örnefnaskrá).
*Sundmerki er innsiglingarmerki, oft varða með tré í, eins og í Herdísarvíkursundi, og til dæmis þannig að tvær slíkar vörður átti að bera saman þar sem innsigling var örugg.“

Famangreint verður að teljast fróðlegt í ljósi allara sundmerkjanna í Grindavík. Reyndar eru núverandi sundmerki ekki svo gömul að telja megi til landnáms, en þau verður að telja merkileg í samhengi sögunnar. Engum vafa er um það orpið að Grindvíkingar hafi sótt sjó um aldir og hafa því nýtt sér sundmerki sér til leiðsagnar, sbr. Siggu og önnur kennileiti ofan byggðar. Flest þeirra eru nú orðin mosavaxin, líkt og merkið í Leiti ofan Þórkötlusstaða, en önnur þau nýrri eru þó enn augljós, s.s. sundmerkin ofan Hóps.

 

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

FERLIRsfélagar endurhlóðu efri sundvörðuna við Hóp eftir að hluti hennar hrundi í frostvetri, en nú, eftir jarðskjálftana undanfarið (2001) hefur hún sem og sú neðri þurft að lúta í lægra haldi. Þar má segja að „Snorrabúð“ sé nú stekkur. FEELIRSfélagar hafa sýnt lítinn áhuga á að endurhlaða vörðuna vegna lítils áhuga bæjarstjórnar Grindavíkur á að viðhalda gömlum hefðum byggðalagsins…

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6588

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.