Tag Archive for: Grindavíkurkirkja

Tyrkjaránið

Á skilti við Grindavíkurkirkju má lesa eftirfarandi texta um Tyrkjaránið. (Skiltið er reyndar óþarflega stórt því til hliðar eru önnur jafnsstór á fimm öðrum tungumálum (sem auðvelt ætti að vera að nálgast á Google translate (þýðingar)). Óþarfi er að vanmeta áhuga útlendinga á íslenskunni.

Tyrkjaránið – Árásin á Grindavík

Grindavík

Grindavík – upplýsingarskilti um Tyrkjaránið við Grindarvíkurkirkju.

Í júnímánuði á því herrans ári 1627 lá dönsk kaupmannsdugga í höfn í Grindavík og verslun var í fullum gangi. Bar þá svo við að óvænt byrtist þar annað skip, sýnu stærra. Af því komu í heimsókn í dugguna menn sem mæsltu á þýska tungu, sögðust vera menn Danakonungs og í birgðaleit. Ekki brást kaupmaður vel við því og fóru þeir þýðversku aftur til skips síns.

Nokkrir Grindvíkingar réru út í hið stærra skipið fyrir forvitni sakir en þegar um borð kom blasti við hópur manna, klæddir litskrúðugum fötum, þeldökkir flestir og gráir fyrir járnum.

Grindavík

Grindavík – upplýsingar um Tyrkjaránið við Grindavíkurkirkju.

Heimamönnum varð fljótt ljóst að Hund-Tyrkinn frá Afríkuströndum var kominn og það ekki í neinni kurteisisheimsókn. Aðkomumenn sendu bát að duggunni og létu þar greipar sópa áður en þeir héldu í land og fóru um plássið eins og logi yfir akur.

Á bænum Járngerðarstöðum beið húsfreyjan með öðrum milli vonar og ótta eftir heimsókn sjóræningjanna. Sumir heimamanna földu eigur sínar eða leituðu í fylgsni en húsfreyja beið þess sem verða vili. Vágestirnir rændu bæinn og hófu svo að reka fólkið til strandar. Húsfreyja sýndi mikinn mótþróa en var tekin og borin af sta. Bræður hennar þrír reyndu að koma henni til hjálpar en þeim var öllum misþyrmt illa.

Erlendu hrottarnir héldu svo til skips með bæði ránsfeng sinn og fólk það sem þeir höfðu hertekið. Tveimur mönnum var snúið aftur til lands fyrir aldurs sakir en 15 mann hópur var hrakinn niður í lestar skipsins.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Að því búnu hugðust illmennin halda burt en sáu þá til ferða annars dansks kaupfars. Þeir sýnu á ný klækindi sín með því að draga að húni danska hornveifu sem þeir höfðu rænt í landi.

Þannig ginntu þeir skipið til sín og reyndist þeim auðvelt að hremma þessa nýju bráð, bæði farm og áhöfn.

Grindvíkingar urðu illa fyrir barðinu á þessum ránsmönnum en komu þó skilaboðum til annarra byggðalaga sem reyndu af veikum mætti að búa sig undir komu vágestanna.

Grindavík

Grindavík – sögu og minjaskilti við Járngerðarstaði. Sjá meira á ferlir.is.

Þeir fundir fóru ýmislega en sú saga verður ekki rakin hér frekar.

Í Grindavík hefur síðan gengið sú munnmælasaga að þar sem ræningjarnir og heimamenn börðust og blóð þeirra blandast hafi sprottið upp þyrnijurt. Þessa jurt má enn í dag finna á þremur stöðum í Grindavík. – (Matthías Kristiansen tók saman á grundvelli bókar Jóns Helgasonar – Tyrkjaránið, sem Setberg gaf út í Reykjavík 1963).

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Grindavíkurkirkja

Gamla Grindavíkurkirkja, við Kirkjustíg, varð aldargömul þann 26. september [2009].
Þennan dag árið 1909 var kirkjan vígð í Járngerðarstaðahverfi. Hönnuðurinn var Rögnvaldur Ólafsson. Hún þjónaði söfnuðinum allt þar til núverandi kirkja Grindavíkurkirkja um 1923tók við hlutverki hennar 26. september 1982. Áður hafði kirkjustaðurinn verið á Stað í Staðarhverfi. Elstu skráðar heimildir um kirkju þar eru frá 1640.

Í tilefni af afmæli gömlu Grindavíkurkirkju var gengin kirkjugatan frá Stað að gömlu kirkjunni í Járngerðarstaðahverfi. Álitlegt söguskilti, hannað af FERLIR og Martak, var sett upp við kirkjuna á þessum tímamótum að frumkvæði Grindavíkurbæjar og myndir af gömlum kirkjugripum var komið fyrir í kirkjunni. Auk þess var heitt á könnunni fyrir aðkomandi gesti í gömlu kirkjunni.

GunnlaugurÁ safnaðarfundi í júni 1888 var rætt um, hvernig stuðla mætti að betri kirkjusókn. Töldu menn þá nauðsynlegt, að kirkjan yrði flutt í miðja sveit. Á almennum safnarfundi þremur árum síðar að samþykkt var með öllum atkvæðum að fá kirkjuna flutta sem allra fyrst. Það var þó ekki fyrr en í formlegri atkvæðagreiðslu safnaðarins 23. nóvember árið 1906 að samþykktur var flutningur Staðarkirkju í Járngerðarstaðahverfi.
Í júní 1909 samþykkti sóknarnefndin að láta rífa gömlu kirkjuna á Stað þá um haustið og selja timbrið úr henni. Árið áður hafði verið ákveðið að ný kirkja yrði reist á flötunni fyrir norðan barnaskólann (Templarann). Lagt var til að vegur yrði gerður frá sjónum að skólahúsinu til að hægara yrði að flyta efniðvið að kirkjustæðinu. Grafreitur Grindvíkinga er ennþá í Staðarhverfi.

Grindavíkurkirkja

Tryggvi Árnason, trésmiður úr Reykjavík, bauðst til að reisa kirkjuna ásamt grindvískum smiðum, s.s. Guðjóni í Hliði og Engilbert á Hrauni, og útvega allt efni til hennar að frádregnum ofni, málningu og málverki. Kostnaðurinn átti að verða 44.475 krónur. Verkið hófst vorið 1909 og um haustið var kirkjuhúsið við Kirkjustíg tilbúið. Heildarkostnaður varð um 50.000 krónur. Var kirkjan vígð af þáverandi biskupi, Þórhalli Bjarnasyni, þann 26. september 1909. Sonur hans, Tryggvi Þórhallsson, lék á orgel og stjórnaði kirkjusöng, og mun það eitt með öðru hafa sett eftirminnilegan svip á kirkjuvígsluna. Fyrsta embættisverkið í kirkjunni var þegar Fanney Guðjónsdóttir frá Hliði (f: 13. júní 1909 d.1988) var skírð, við vígsluathöfnina. Guðjón Einarsson frá Hliði, faðir Fanneyjar, smiður og útgerðarmaður, tók m.a. þátt í byggingu kirkjunnar.
GrindavíkurkirkjaKirkjan þótti „einkar snotur“ og bæði rismikil og björt. Var hún byggð úr timbri og klædd að utan með járni. Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var hins vegar flutt á „fornminjasafnið“. Á því, nú Þjóðminjasafni Íslands, eru nú 16 gripir úr Staðarkirkju, s.s. textílar (höklar, altarisklæði og patínudúkur), altaristafla, predikunarstóll, ljóshjálmur, stjakar, söngtafla og skarbakki.

Orgelið

Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð málverk eftir Ásgrím Jónsson er sýnir Krist stilla vind og sjó. Hún var sett upp í kirkjunni árið 1910. Einar  G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið, M. Hörügel, árið 1912. Það var síðan flutt upp í skóla og notað þar uns Ólafur Rúnar Þorvarðarson, kennari, kom því í geymslu um 1980 er til stóð að henda því, en því var bjargað af bílpallinum á síðustu stundu. Orgelið er nú á geymsulofti á bæjarskrifstofunum.
Dagbjartur Einarsson, bóndi á Velli, gaf kirkjunni rikkilín og hökkul og nokkrar konur í hreppnum tóku sig saman og gáfu kirkjunni altarisklæði. Tveir ljóshjálmar og sex vegglampar voru keypt fyrir samskot. Með tímanum var kirkjunni færðar fleiri veglegar gjafir, s.s. minningarspjald um Gísla Jónsson frá Vík, sem ekkja hans, Kristólína Jónsdóttir, gaf. Ramminn var gerður af Ríkharði Jónssyni. Um 19050 eignaðist kirkjan skírnarfont úr grárri marmarasteypu, gerðan af Ásmundi Sveinssyni, til minningar um hjónin Eyjólf Björnsson og Vilborgu Þorsteinsdóttur frá Krosshúsum. Nokkru síðar eignaðist kirkjan fagurlega útskorinn stól eftir Ríkharð Jónsson. Orgelin voru þrjú frá upphafi. Annað orgelið, rafmagnsorgel, var keypt nýtt árið 1951. Mun það „tvímálalaust verið eitthvert hið frábærasta hljóðfæri, sem til [væri] í kirkju hér á landi“. Árið 1968 eignaðist kirkjan svo vandað ellefu radda pípuorgel frá Þýskalandi. Flestir gripanna prýða nú hina nýrri kirkju Grindvíkinga.

Altaristaflan

Á safnaðarfundi árið 1933 lagði Sigvaldi Kaldalóns, læknir, til að kirkjan yrði máluð að innan, mislitar rúður settar í gluggana og blómum plantað í kringum hana.
Þann 17. júlí 1910 urðu prófastur, prestur og sóknarnefnd ásátt um, að hin nýja kirkja sóknarinnar skuli heita Grindavíkurkirkja og sóknin þá Grindavíkursókn. Um tíma var kirkjan kynnt með kolaofni og síðar olíuofni. Bar hún þess merki, skorstein ofan við gráturnar.
Þegar Grindavíkurkirkja var vísteruð af prófasti vorið 1950, höfðu miklar viðgerðir farið fram á húsinu, og þótti prófasti kirkjan „í alla staði hið fegursta og vandaðsta guðshús vel hirt og vel um gengið“. Á næstu tveimur árum var lóð kirkjunnar sléttuð og lögð grasþökum. Umhverfis var steypt vönduð girðing um 1956 og lögð breið gangstétt frá hliði að Kirkjutröppum. Seinna var sett blómabeð meðfram kirkjunni og þremur bekkjum komið fyrir á kirkjulóðinni. Um 1960 var skipt um járnklæðningu á kirkjunni og hún máluð að utan og innan, settir í hana nýir gluggar og máttarviðir endurnýjaðir.

En kirkjan var þá þegar orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Íbúafjöldinn nálgaðist þúsund, og var nú svo komið, að við guðsþjónustur á stórhátíðum og ýmsar aðrar athafnir varð fólk að standa úti undir vegg og hlusta á það, sem fór fram inni, úr hátalara, sem komið var fyrir úti.
Hinn fyrsta nóvember Stóll1972 tók þáverandi sóknarnefndarformaður, Einar Kr. Einarsson, fyrstu skófustunguna að nýrri kirkju og um um haustið 1982 var byggingunni lokið. Sunnudaginn 12. september fór síðasta guðsþjónustan fram í gömlu kirkjunni, sem þá var formlega lögð niður sem sóknarkirkja, 73 þremur árum eftir að hún var fullbyggð.
Tíðarhlið var á kirkjugötunni frá Stað, skammt suðvestan Járngerðarstaða. Þar skiptu kirkjugestir m.a. um skó og geymdu aðra í litlum skúta.

Kirkjan var fastheldin á þjóna sína, þá séra Brynjólfur Gunnarsson (1909-1910), Brynjólfur Magnússon (1910-1947) og séra Jón Árni Sigurðsson (1947-1982). Sr. Örn Bárður Jónsson þjónaði nýju kirkjunni til 1990, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, síðar bæjarstjóri, þjónaði frá 1990 til haustins 2007 er sr. Elínborg Gísladóttir var skipuð sóknarprestur. Séra Jónas Gíslason, leysti Jón Árna af í veikindum á áttunda áratugnum (Jónas fermdi t.d. í gömlu kirkjunni börn fædd 1960, vorið 1974).

Kirkjan var afhelguð við messu í henni 12. september 1982.

Einkarekið dagmæðraheimili, Kirkjukot, var í húsinu á árunum frá byrjun árs 1989 til febrúar 2001 þegar leikskólinn Krókur opnaði við Stamphólsveg.
Álfhildur H. Jónsdóttir var síðasti Grindavíkurkirkjaforstöðumaðurinn þegar dagmæðraheimili var starfrækt í gömlu kirkjunni. Hún færði Grindavíkurbæ nýlega gestabók úr Kirkjukoti frá 1993 þar sem stendur: ,,Í tilefni af miklum ferðamannastraum útlendinga sl. sumar sem koma að skoða Kirkjukot, þá var ákveðið að fá gestabók fyrir kotið. Við fáum líka Íslendinga hingað til okkar og allir eru mjög hrifnir af barnaheimili í kirkju.“
Álfhildur minnist þess að allt að 30 börn hafi verið samtímis í Kirkjukoti, allt frá því að þau byrjuðu að ganga til 6 ára aldurs. Tíminn með börnunum í kirkjunni var mjög ánægjulegur í alla staði.
AA-samtökin hafa haft athvart í kirkjunni með fundi sína sem og önnur félagsstarfsemi í bænum.
Karitas Una og Bjarný hafa unnið muna- og myndaskrá um munina, sem voru í Grindavíkurkirkjunni gömlu og hafa verið varðveittir í nýju kirkjunni. Hún er til sýnis í gömlu kirkjunni.
Gangan tók u.þ.b. klukkustund. Spáð hafði verið leiðindarveðri á göngutímanum, en Guð sá um sína. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Þ. Þór – Saga Grindavíkur.
-Staðhverfingabók.
-Ólafur Rúnar Þorvarðarson.
-Jóna Kristin Þorvaldsdóttir .

Upplýsingaskilti

Grindavíkurkirkja

Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var flutt á “fornminjasafnið”. Á því, nú Þjóðminjasafni Íslands, eru nú 16 gripir úr Staðarkirkju, s.s. textílar (höklar, altarisklæði og patínudúkur), altaristafla, predikunarstóll, ljóshjálmur, stjakar, söngtafla og skarbakki.
Staðarkirkja
Ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi var reist 1909. Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð málverk eftir Ásgrím Jónsson. Hún var sett upp í kirkjunni árið 1910. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið, M. Hörügel, árið 1912. Sjá

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja – altaristafla krikjunnar frá 1909.

Einar segir frá því einhvers staðar að hann hafi viljað að Ásgrímur hefði líf sjómanna í huga við gerð töflunnar, enda var Einar þá formaður á árabát og hugur hans snerist fyrst og fremst um róðra, fisk og útgerð, minnugur þess að þegar á reyndi og líf sjómannanna lá við gat sú stund runnið upp að fátt var á annað að treysta en Guð almáttugan þeim til bjargar. Altaristaflan sýnir Krist stilla vind og sjó. Kunnuglegt kennileiti er í bakgrunni, Krýsuvíkurberg (Krýsuvíkurbjarg heitir bergið austan Eystri-lækjar að Eystri Bergsenda). Grindavík var lengstum útvegsbændasamfélag með aðaláherslu á útveginn. Margir sjómenn höfðu í gegnum aldirnar lent í sjávarháska undir berginu og sumir þeirra farist. Þeim stóð stuggur af berginu.
Listfræðingar hafa skrifa um það hvers vegna t.d. Ásgrímur, Kjarval, Jón Hallgrímsson, Þórarinn B. Þorláksson, Finnur Jónsson og Halldór Pétursson, sem málaði m.a. altaristöfluna í Garðakirkju með Keili í bakgrunni, hafi ekki þorað að stíga skrefið til fulls og málað annað fólk á myndum sínum í íslenskum fötum, í þessu tilviki sjómennina í sjóklæðum. Altaristafla Ásgríms Jónssonar, sem hann málaði fyrir Stóra-Núpskirkju í Árnessýslu 1912 má glöggt þekkja landslag úr Þjórsárdalnum og andlit sumra þeirra sem hlýða á fjallræðuna. Þetta eru að sögn Steinþórs Gestssonar á Hæli þekkt andlit úr sveitinni. Jón Ófeigsson menntaskólakennari mun vera fyrirmyndin að Kristsmyndinni. Meðal áheyrenda er fremstur í flokki prófasturinn, séra Valdimar Briem, og einnig má þekkja þarna fræðimanninn Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og vísast fleiri. Í hverju einstöku tilviki hlýtur þó söfnuðurinn að hafa þurft að gera það upp við sig, hvort hann telji verkið eiga heima í kirkjunni, en þá reyndi vissulega á dómgreind hans. Á 20. öldinni virðist ríkari þjóðernisvitund gera auknar kröfur um íslenskt myndefni í samspili við hið trúarlega.

Sjá meira um Grindavíkurkirkju HÉR og HÉR.

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja frá 1909.