Tag Archive for: Grunnuvötn

Vífilsstaðasel

Til er lýsing af Vífilsstaðaseli í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 1985.

Vífilsstaðasel

Stekkur í Vífilsstaðaseli.

Í Árbókinni stendur m.a. (bls. 34): „Nú sést vegur, sem liggur upp Vífilstaðahlíðina, svokallaður línuvegur. Ef þessum vegi er fylgt upp hlíðina, er innan stundar komið að rústum Vífilstaðasels, norðan vegar (vinstra megin). Eru þær allgreinilegar. Við þetta sel er kenndur Selás þar rétt hjá“.
Hópurinn gekk eftir lýsingunni um Vífilstaðahlíðina, um Ljóskollulág og Grunnuvatnaskarð, þ.e. svæðið norðan línuvegar (vinstra megin). Ekkert fannst, sem gæti hafa verið sel.
Þegar þátttakendur komu hins vegar aftur að upphafsstað á línuveginum blasti selið við, sunnan hans (hægra megin). Það er í kvos í u.þ.b. tveggja mínútna gang frá veginum.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Um er að ræða nokkuð stórt sel með mörgum einingum. Ofan þess blasir Selásinn við, slétt klapparholt. Stekkur er á holtinu austan við selið. Stígur virðist liggja yfir hálsinn og niður að Grunnuvötnum hinum syðri enda ákjósanlegt vatnsstæði. Gróið er í kringum vötnin. Ofan þeirra blasir Arnarbæli við.
Við sjónarrönd, á Hjöllunum, sést í Vatnsendaborgina. Til suðurs er ágætt útsýni yfir Búrfellsgjá, Búrfell, Valahnúka og Helgafell.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.