Færslur

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu árið 1957, fjallar Friðfinnur V. Stefánsson um “Guðlaugs þátt Gjáhúsa”.

Símtal
Friðfinnur V. Stefánsson“Það var kvöld eitt, ekki alls fyrir löngu, að til mín hringir blaðamaður og spyr, hvort ég sé fáanlegur til þess að skrifa smáþátt um minn gamla vin og kunningja, Guðlaug heitinn Gjáhúsa.
Ég tók þessu mjög illa. Taldi ég öll vandkvæði á því. Benti ég á, að frá því ég lauk prófi frá Flensborgarskóla 1911 hefði ég naumast snert penna. Hlutskipti mitt í lífinu hefði verið að handleika handbörukjálka, fisk, kola- og saltpoka, skóflur, hamra, múrskeiðar, beizlistauma og m. fl. Nei, það var svo fráleitt, að ætlast til þess að ég færi að skrifa minningaþátt. Það var jafn fráleitt og farið væri fram á það við mig, að ég reyndi að ná tíkinni margumtöluðu niður úr tunglinu. En blaðamaðurinn var ýtinn. Ég kvaddi hann samt snögglega og lagði símatólið á.
Síðar um kvöldið, þegar ég var háttaður, tókst mér ekki að sofna, hvernig sem ég reyndi. Ég var í huganum aftur og aftur kominn út í gamlan ævintýraheim. Við Guðlaugur vorum komnir á hestbak og þeystum um grænar grundir, fjöll og hálsa. Og þegar við áðum, sagði hann mér sögu eftir sögu af sinni alkunnu snilld. Þetta gekk langt fram á nótt. Loksins sofnaði ég. Daginn eftir, er hlé varð á störfum mínum, leitaði ég uppi blað og penna og byrjaði.

Inngangur

Guðlaugur

Það er orðin næsta algeng venja að tala um, að hún eða hann hafi sett svip sinn á bæinn. Ég ætla nú að fylgja þessari venju og segja, að hafi nokkur maður sett svip sinn á Vesturbæinn í Hafnarfirði, þá var það Guðlaugur heitinn Gjáhúsa.
Guðlaugur var að mörgu leyti merkilegur maður og á ýmsan hátt dálítið sérstæður persónuleiki, sem allir hlutu að taka eftir, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var bæði greindur og minnugur.
En það í fari hans, sem sérstaklega heillaði mann, var hve snarráður, úrræðagóður, ósérhlífinn og fylginn sér hann var. Þó er einn ótalinn eðlisþáttur hans. Hann verður ógleymanlegur öllum þeim, sem kynntust honum. Hann bjó yfír alveg óvenjulega frjórri frásagnargáfu – og gleði. Mun ég nú reyna að lofa lesendum að kynnast henni ofurlítið, með því að endursegja nokkrar sögur og minni atburði, er hann sagði mér.

Uppvaxtarár
Eggert PálssonGuðlaugur var fæddur 26. ágúst 1874 að Vindási í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Ólst hann þar upp við kröpp kjör, eins og hlutskipti margra var í þá daga. Rétt fyrir fermingu, að mig minnir fastlega, missir hann föður sinn úr lungnabólgu og systkini sín þrjú úr barnaveiki, öll í sömu vikunni.
Ekki var þetta nú uppörvandi fyrir umkomulausan fermingardreng að leggja með þetta veganesi út í lífið. Þá var ekki margra kosta völ fyrir þá, sem enga áttu að. Einn og óstuddur varð hann að sjá sér farborða.
Fyrst var hann á bæjum í Fljótshlíðinni t. d. jarðskjálftaárið mikla 1896, þá rúmlega tvítugur að aldri. Hrundu þá bæjardyrnar á bæ þeim, er hann dvaldi á, svo að hann og annað heimilisfólk varð að skríða út um stafngluggann á baðstofunni. Aldrei gat Guðlaugur gleymt þessum atburði. — Þá var Guðlaugur einnig vinnumaður hjá síra Eggerti á Breiðabólsstað. Þann mann dáði Guðlaugur mikið.

Herdísarvík
HerdísarvíkBrátt tók Guðlaugur, eins og fleiri í þá daga, að fara suður til sjóróðra. Reri hann margar vertíðir, oftast í Grindavík. Kem ég betur að því síðar. Þá var alltaf farið um Selvog og Herdísarvík. í einni vertíðarferð kynntist Guðlaugur bóndanum í Herdísarvík, Þórarni Árnasyni, sýslumanns í Krýsuvík. Réðist Guðlaugur til hans og gerðist fjármaður hans, við mikinn og góðan orðstír. Hjá honum var hann í fimm ár. Þroskaðist hann þá mikið. Reyndi þarna oft á þrek hans í vondum veðrum við fjárgæzluna. í Herdísarvík var að mestu byggt á beit, bæði til fjöru og fjalls. Margan, kaldan vetrardaginn, þegar jarðbönn voru, stóð hann myrkranna á milli við ofanafmokstur til þess að féð næði að seðja mesta hungur sitt.
Síðar í þættinum mun ég víkja frekar að veru Guðlaugs, í Herdísarvík.

Ástin vaknar

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Guðlaugur varð, eins og aðrir fjármenn, að fara í útréttir. Haust nokkurt sendi Þórarinn bóndi hann í Gjáarrétt við Hafnarfjörð.
Sá Þórarinn mikið eftir því, að hafa sent Guðlaug í þessa ferð. Hann vildi fyrir hvern mun halda í Guðlaug. En í þessari ferð gisti Guðlaugur á Setbergi. Þar sá hann mjög gjörvulega og myndarlega stúlku, Sigurbjörgu Sigvaldadóttur, sem síðar varð ævilangur förunautur hans. Þegar Guðlaugur kom heim úr réttarferðinni, leið ekki á löngu áður en hann sagði upp vistinni. Hvarf hann frá Herdísarvík, þegar ráðningartími hans var á enda.
Flutti hann þá að Setbergi við Hafnarfjörð og gerðist vinnumaður um skeið hjá Halldóri Halldórssyni, sem síðar var kenndur við Bergen í Hafnarfirði.

Til Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1905.

Flestum lífverum er frelsisþráin meðfædd. Svo er um okkur mennina. Brátt tóku þau Guðlaugur og Sigurbjörg að búa sig undir að verða sjálfstæð. Árið 1905 eða 1906 fluttu þau hjón til Hafnarfjarðar.
Bjuggu þau fyrst á svonefndu Stakkstœði, þar sem Guðmundur á Hól, Eyjólfur frá Dröngum o. fl. bjuggu. Það lýsir Guðlaugi vel að undir eins á fyrsta ári byrjar hann á því að byggja hús þar við Vesturbraut, er hann síðar nefndi Gjáhús. Stendur það enn, sem kunnugt er. Þarna bjuggu þau hjónin alla tíð síðan, með mikilli prýði og myndarskap. Brátt fékk Guðlaugur gott orð á sig sem smiður.
Stundaði hann smíðar um margra ára skeið.

Djöflafélagið

Hafnarfjörður 1912

Hafnarfjörður 1912.

Um þessar mundir var lítið um félagssamtök í Hafnarfirði. Góðtemplarareglan var helzti félagsskapurinn. En um þetta leyti reyndu verkamenn í Hafnarfirði að stofna með sér félag. Guðlaugur tók þátt í því. Mig langar að segja frá smáatviki, sem henti Guðlaug. Lýsir það vel aldarandanum í þá daga. Það var kvöld eitt, að Guðlaugur var á leið heim. Hann hafði verið á verkamannafélagsfundi. Hittist svo á, að atvinnurekandi nokkur og einn af betri borgurum bæjarins stóð á tröppum húss síns. Ávarpaði hann Guðlaug heldur hvatskeytislega með þessum orðum: „Ert þú genginn í þetta Djöflafélag, Guðlaugur?”
„Ef þú átt við verkamannafélagið, þá er ég genginn í það,” svaraði Guðlaugur jafn snúðugt og hinn spurði. Hélt hann síðan áfram ferð sinni. — Guðlaugur vann hjá þessum manni. Næstu fjóra daga var hann ekki kvaddur til vinnu. En á fimmta degi var sent eftir honum og vinna tekin upp eins og ekkert hefði í skorizt. Svona var nú aldarandinn þá. Stingur þar mjög í stúf við öll elskulegheitin, sem atvinnurekendablöðin sýna launastéttunum nú og jafnvel hálaunastéttunum. En skylt finnst mér að taka fram, að fyrrnefndur atvinnurekandi og hans líkar voru ýmsum kostum búnir líka, þótt þeir væri kaldir og hrjúfir á stundum. Þeir áttu það til að lána fátækum mönnum bæði timbur og járn o. fl. til þess að þeir gætu byggt sér skýli yfir höfuðið, — og ábyrgðar- og rentulaust. Væntanleg vinna, ef heilsa og kraftar leyfðu, var eina tryggingin.

Vindmyllan

Vindmylla

Vindmylla.

Guðlaugur stundaði smíðar, eins og fyrr var sagt, í nokkur ár. Síðan breytti hann til og gerðist verkstjóri hjá Bookless Bros. Í þá daga var notuð vindmylla til þess að dæla sjó í þvottakerin. Skal nú sagt frá atburði, seni sýnir, að Guðlaugur var gæddur óvenjulegu hugrekki, snarræði og þreki, er í þessu tilfelli gekk ofdirfsku næst.
Guðlaugur var hvorki stór maður vexti né kraftalegur, en hann leyndi á sér. Þrekið og áræðið fór þó langt fram úr því, sem útlitið benti til. Það vissu þeir, sem með honum unnu. Andlitsdrættir Guðlaugs voru sterkir og fastmótaðir. Stundum fannst mér gæta nokkurs kulda í svipnum. Má vera, að harðrétti og óblíða unglingsáranna ætti þar nokkurn hlut að.
Það var einhverju sinni, að verið var að dæla sjó með vindmyllunni. Þá rauk hann skyndilega upp á norðan. Hvassviðrið jókst og myllan ærðist, ef svo mætti segja. Stórhætta var á að vængir myllunnar brotnuðu í spón, ef ekki tækist að stöðva hana. Nú voru góð róð dýr. Þarna voru margir karlmenn til staðar, en enginn treysti sér til þess að fara upp og freista þess að stöðva mylluna. Þá bar Guðlaug þarna að. Hann réðst þegar í stað til uppgöngu, en myllan stóð í turni á húsþakinu. Guðlaugur lét þrjá menn fylgja sér. Hann skipaði þeim að taka traustataki um taug, er bundin var í stél myllunnar. Áttu þeir að beina vængjum hennar undan vindi, ef ske kynni að hún hægði nokkuð á sér. Meðan þessu fór fram, tók Guðlaugur sér stöðu, hélt sér föstum með annarri hendi, en hina hafði hann lausa. Hugðist hann grípa með henni um einn vænginn, ef færi gæfist. Allt í einu rak fólkið, sem á horfði, upp skelfingaróp. Guðlaugur hafði gripið um vænginn. Við þetta missti hann fótanna, sveiflaðist nokkra stund í lausu lofti, en hvorugri hendinni sleppti hann. Það gerði gæfumuninn, — og vindmyllan stöðvaðist. Létti mjög yfir áhorfendum, þegar Guðlaugur hafði leyst þessa þrekraun af hendi.

Hlauparinn

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Áður en bílar komu til sögunnar notaði yngra fólkið helzt reiðhjól til þess að ferðast á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Dag nokkurn lagði einn snjall og kappsamur hjólreiðamaður, Ásgeir G. Stefánsson að nafni, á stað til Reykjavíkur. Er hann var kominn rétt upp fyrir bæinn, sér hann gangandi mann á undan sér. Hann þekkti manninn, sem var á leið til Reykjavíkur, kastar á hann kveðju, um leið og hann hjólar fram hjá honum. Heldur Ásgeir síðan áfram með sígandi hraða og horfir fram á veginn. Skömmu síðar verður hann þess var, að maðurinn, sem hann var nýbúinn að kveðja, er kominn á hæla honum og hleypur mjög léttilega. Ásgeir hjólaði alltaf greitt, og fylgdust þessir kappar að alla leið, til Reykjavíkur, þótt ótrúlegt megi virðast. Ekki var hlauparinn mæðnari en það, að þeir héldu uppi eðlilegum samræðum mikið af leiðinni. Nú skyldi margur ætla, að hér væri á ferðinni Olympíufari eða hlaupasnillingur, sem þjálfaður er eftir kerfisbundnum reglum. Nei, þarna var á ferðinni sonur dalanna og íslenzku heiðanna, þjálfaður af nauðsyn í sjálfu lífsstarfinu, smali, nýfluttur til Hafnarfjarðar, Guðlaugur frá Gjáhúsum.
Mér þykir rétt að skjóta því hérna inn í, úr því að ég fór að minnast á hjólreiðamenn, að fleiri voru snjallir og kappsfullir en Ásgeir, t. d. Guðmundur Hróbjartsson, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þorbjörn Klemensson. Einu sinni lenti þeim Gunnlaugi og Þorbirni saman í geysiharðri keppni, og mátti varla milli sjá, hvor þeirra var á undan, þegar hetjurnar, móðar og másandi, náðu Hraunsholtsbeygjunni.
Guðmundur Hró og Ásgeir áttu það stundum til að skreppa austur yfir fjall á hjólum sínum seinni part laugardags, borða lax á Kolviðarhóli (þá voru allar rúður þar vel heilar) á austurleið, koma svo aftur heim til Hafnarfjarðar að sunnudagskveldi. Brást þó aldrei, að þeir voru mættir til vinnu í bítið á mánudagsmorgni. En þetta var nú útúrdúr. —

Nautið
Vindás
Nú bregðum við okkur, lesandi góður, austur á æskustöðvar Guðlaugs.
Það var einn dag um hásumarið í góðu veðri, að Guðlaugur fór fram á heiði til þess að huga að hestum. Þarna var vel grösugt en allstórir steinar á víð og dreif. Allt í einu tekur Guðlaugur eftir því, að heljarmikið naut stendur fyrir framan hann. Hefur það sennilega legið á bak við einn stóra steininn. Nautið rekur upp öskur mikið, tekur undir sig stökk og stefnir beint á Guðlaug. Drengurinn tekur til fótanna, stekkur að stærsta steininum þarna og kemst með naumindum upp á hann. Nautið skellir framfótunum upp á steininn og öskrar ógurlega. Drengurinn getur þó varizt og er hólpinn í bili. Nú var Guðlaugur staddur í ærnum vanda. Aleinn, svangur, hræddur og langt frá mannabyggðum. Við fætur hans stóð dauðinn í nautslíki. Nautið hafði nóg gras að bíta. Það gat því beðið endalaust eftir bráð sinni. En lesandi góður: Eftir nokkra stund var ungi drengurinn búinn að leysa þessa heljarþraut, sloppinn úr allri lífshættu og kominn heim á leið.
Hann hafði stungið hendi í vasa sinn, opnað vasahnífinn, stóð þarna allvígalegur á steininum og engdi nautið óspart, en það teygði fram hausinn og reyndi öskrandi að ná til drengsins. Leiftursnöggt brá litli drengurinn hnífi sínum og rak hann á kaf í annað auga dýrsins. Nautið rak upp feiknarlegt öskur, hentist af stað út í buskann, eins langt og augu drengsins eygðu.
Guðlaugur rölti heim á leið, glaður og hryggur. Góður drengur kennir í brjósti um sært dýr. En þetta var nauðvörn hans. Ekki þorði hann að segja neinum frá þessu, þegar heim kom.
Sumarið leið. í vetrarbyrjun var Guðlaugur sendur á bæ fram í sveit. Það var byrjað að skyggja, þegar hann kom að bænum. Hann sá glitta í ljóstýru í fjósinu. Gengur hann þá inn í fjósið og býður hressilega gott kvöld. Um leið tekur að hrikta í öllu og fjósið að skjálfa. Stórt naut, sem bundið var á utasta bás, slítur sig laust og ryðst út og er horfið á svipstundu.
Heimamaður kvað naut þetta hafa komið eineygt af fjalli um haustið. „Þetta er ekki einleikið. Það er engu líkara en það hafi brjálazt.” — Guðlaugur mælti fátt, en hugsaði: „Nautgreyið hefur þekkt rödd mína og ekki viljað eiga það á hættu að missa hitt augað líka.”

Blóðblettir

Heykuml

Heykuml – h.m.

Einn vetur, þegar Guðlaugur var á 14. ári, var honum falið að hirða fé á eigin ábyrgð, að öðru leyti en því, að móðir hans kom vikulega til þess að fylgjast með verkum sonar síns. Við fjárhúsið var heykuml. Stóð fjárhúsið nokkuð frá bænum. Svo bar við, að móðirin finnur að því við son sinn, að hann gangi ekki nógu vel um heyið. Segir hún töluverðan slæðing vera á gólfinu og heyið vera illa leyst. Guðlaugi sárnar þetta nokkuð og lofar að gera betur. Gefur hann enga skýringu á þessu og reynir ekki að afsaka sig.
Þegar móðir hans er farin, verður Guðlaugur sér úti um fjóra ljái, brýnir þá allvel. Stingur hann þeim síðan í stálið hér og hvar.
Guðlaugi gengur hálfilla að sofna um kveldið. Næsta morgun er hann snemma á fótum. Hann röltir til fjárhúsanna. Hann opnaði síðan heykumlið, dálítið óstyrkur. Nú var engan slæðing að finna. En þarna á gólfinu mátti sjá annað, sem vissulega kom honum ekki á óvart. Hér og hvar gat að líta blóðbletti.
Þennan sama dag og næstu daga, sást maður nokkur í sveitinni með reifaðar hendur. Ekki þurfti móðir Guðlaugs að vanda um við son sinn vegna slæmrar umgengni í hlöðunni eftir þetta.

Seilin
GrindavíkVið erum stödd um síðustu aldamót niður í fjöru í Grindavík.
Mikið er um að vera. Vel hefur fiskazt þennan dag. Mörg skip hafa orðið að seila. En um aldamótin síðustu var, sem kunnugt er, róið á opnum bátum. Þurfti þá að gæta ýtrustu varfærni við að ofhlaða ekki þessi litlu, opnu skip. Var þá það ráð tekið að seila, sem kallað var. Það var gert á eftirfarandi hátt: Nál úr hvalbeini, með flötum, þunnum oddi og víðu auga var stungið undir kjálkabarð fiskjarins og út um kjaftinn. Bandi var brugðið í augað og fiskarnir þræddir upp á bandið, einn af öðrum. Fiskurinn á bandinu var síðan látinn fljóta aftur með skipinu og dreginn til lands. Þessu má líkja við, þegar kringlur voru dregnar upp á band í gamla daga eða. perlur nú til dags. Þegar komið var með seilar að landi, var þeim stundum fest við steina í fjörunni. Stundum var líka haldið í þær.
Víkjum nú aftur að því, þar sem við stöndum í fjörunni. Guðlaugur er þar að vinna. Hann verður þess var, að ein seilin er að renna út með útsoginu og hverfa. Töluvert hafði brimað. Guðlaugur bregður eldsnöggt við, hleypur á eftir útsoginu, sækir seilina, — en verður of seinn. Kolblá holskeflan skellur yfir hann og han n hverfur um stund. En með einhverjum óskiljanlegum hraða tekst honum að komast í var við stóran, þangivaxinn stein. Greip hann traustataki í þangið. Hélt hann sér þar rígföstum.
Drykklanga stund var Guðlaugur í kafi, en aftur kom útsog, og upp stóð piltur, að vísu dálítið dasaður. Hélt hann um seilina og skilaði henni til lands. Jafnaði hann sig furðufljótt. Varð honum ekki meint af volkinu, en fékk dálítil aukalaun, og aðdáun allra hlaut hann að sjálfsögðu fyrir þetta einstæða afrek sitt.

Vaka við tafl á jólanótt

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þetta gerðist á aðfangadag jóla, dimmt var í lofti, frost nokkurt og herti það, er á daginn leið. Guðlaugur hafði farið, að venju, í birtingu til fjárins. Hann hafði með sér skóflu, því að snjó hafði hlaðið niður. Hugðist hann létta fénu krafsturinn, með því að moka ofan af. Upp úr hádeginu tók að hvessa og hríða að nýju. Enn herti frostið og loks tók að skafa líka.
Lagði nú Guðlaugur alla áherzlu á að ná fénu saman í skjól. Ekki var það áhlaupaverk. Guðlaugur hafði þann háttinn á við fjárgeymsluna, að halda fénu í smáhópum, dreift um allt beitilandð. Í illviðrum reyndi hann að halda hverjum hópi í sínu skjóli. Vann hann nú dyggilega að því ásamt hundi sínum að koma fénu í afdrep, og gekk það vonum framar. Dagur tók að styttast og alltaf snjóaði meir og meir. Skall nú á iðulaus stórhríð og hörkugaddur. Þá var Guðlaugur staddur í svonefndu Fjárskjólshrauni, langt vestur af Herdísarvík. Þarna barðist Guðlaugur nú upp á líf og dauða í grenjandi stórhríðinni og hafði ekkert nema vindstöðuna að styðjast við. Hinn nístandi sviði í fótunum kvaldi hann mikið. Brátt dró úr sviðanum aftur, en ekki vissi það á gott, eins og síðar kom fram. Verður nú fljótt farið yfir sögu. Guðlaugur náði heim með guðshjálp. Gaddfreðinn, fannbarinn og kalinn á fótum komst hann heim til bæjar að lokum. Var honum vel fagnað, hresstur á volgri nýmjólk, og ekki var seppa heldur gleymt, sem líka var illa á sig kominn. Fötin voru rist utan af Guðlaugi, bali með vatni í settur við rúm hans og ísmolar settir í vatnið. Síðan var Guðlaugi hjálpað við að koma fótunum ofan í balann.
Þannig sat Guðlaugur alla jólalóttina — og langt fram á næsta morgun. — En húsbóndinn, Þórarinn Árnason, vakti með fjármanni sínum og stytti honum stundir með því að tefla við hann allan tímann. En vegna þessarar hörkumeðferðar hélt fjármaðurinn heilum fótum sínum.

Sókrates

Hlín Johnson

Guðlaugur var mikill og góður hestamaður. Sat hann hest sinn vel og bar áseta hans af. Margar ferðir fórum við Guðlaugur saman á hestum austur í Selvog. Fórum við þá oftast um Krýsuvík og Herdísarvík. Eitt sinn sem oftar gistum við í Herdísarvík hjá frú Hlín Johnson. Fengum við frábærar móttökur eins og alltaf áður. Það var á sunnudagsmorgni. Við vorum búin að drekka kaffi og vorum að rabba saman. Um þetta leyti var frú Hlín að koma sér upp fjárstofni í Herdísarvík. Talið barst því að fjárgeymslu. Sneri Hlín sér að Guðlaugi og sagði: „Það ber sannarlega vel í veiði, að þú ert hér staddur, Guðlaugur minn. Þú hefur mann a bezta og mesta þekkingu á öllu því, sem lýtur að sauðfjárækt á jörð eins og Herdísarvík. Blessaður, miðlaðu mér nú af þekkingu þinni og reynslu. Láttu mig nú heyra með nokkrum vel völdum orðum um allt hið mikilvægasta í sambandi við fjárbúskap, miðað við þær sérstöku aðstæður, sem hér eru fyrir hendi í Herdísarvík.” Guðlaugur brosti lítið eitt, dró alldjúpt andann, reisti höfuðið svolítið og hóf síðan mál sitt. Hann talaði í fullar 20 mínútur samfleytt. Kom hann víða við, en ekki ætla ég mér þá dul að endursegja efni ræðunnar. Ég mun heldur ekki gera tilraun til þess að lýsa því, hvernig Guðlaugi tókst. Þess í stað þykir mér rétt að lofa ykkur að heyra álit dómbærari manns. Held ég, að hann verði vart fundinn. Maður þessi hlustaði ásamt okkur Hlín á ræðu Guðlaugs. Þetta var skáldið og spekingurinn Einar Benediktsson.
Þegar Guðlaugur hafði lokið ræðu sinni, vorum við öll þögul nokkra stund, eins og oft vill verða, þegar men n upplifa eitthvað, sem sker sig úr um það venjulega. En allt í einu lyftir skáldið hendi sinni, leggur hana þéttingsfast á öxl Guðlaugs og segir hægt og skýrt: „Ég þakka þér, Sókrates.”
Hér lýkur svo Guðlaugs þætti Gjáhúsa.
Óska ég svo öllum gleðilegra jóla og góðs nýárs.” – Friðfinnur V. Stefánsson.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Friðfinnur V. Stefánsson; Guðlaugs þáttur Gjáhús, jólablað 1957, bls. 17-19.

Herdísarvík

Herdísarvík.