Færslur

Lesbók Morgunblaðsins 1943

Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1943, Hreindýr og hreindýraskyttur – Kristleifur Þorsteinsson, bls. 53-54.

Hreindýr

Hreindýr.

“Miklu verri lífsskilyrði fyrir hreindýr hafa verið á Reykjanesfjallgarði heldur en í Múlasýslum, bæði hvað snertir vetrarbeit og veðurfar. Þar var líka mannabygð á báðar hliðar og dýrin á stöðugum flótta. Samt voru þau orðin nokkuð mörg um miðbik 19. aldar, en fráleitt hefir fengist nokkur vissa fyrir því á hvaða árum þau urðu flest eða hvað tala þeirra varð hæst. —

Skjaldarkot

Skjaldarkot – tóftir.

Er tveir fellisvetur hafa höggvið stærsta skarðið í þau, einkum, veturinn 1859, sem kendur var við hörðu föstuna. Ágúst í Hala koti á Vatnsleysuströnd segir í endurminningum sínum, að þann vetur hafi dýrin leitað skjóls og bjargað sér niður við bæi á Ströndinni og hafi þrettán hreindýr þá verið skotin, sem stóðu við hjallana í Skjaldakoti. Hafa þau öll verið að dauða komin. En svo kom annar fimbulvetur 1880—1881, sem var bæði lengri og harðari. Þá var jeg um vetrarvertíð á Vatnsleysuströnd. Fjell þar þá því nær hver einasta sauðkind, sem hvorki var ætlað hús eða hey. Svo hefir verið með hreindýrin, að ekki hefir nema lítill hluti þeirra afborið slík harðindi. En þá voru þau víst orðin fá, samanborið við það, sem var um miðja öldina. Og í grennd við mannabústaði varð þeirra þá ekki vart. Þegar komið var fram undir aldamótin 1900, þótti það í frásögur færandi, ef hreindýr sáust á þessum stöðum. Vorið 1895 kom til mín kaupmaður austan úr Þorlákshöfn. Taldi hann það merkilegasta sem fyrir hann bar á leiðinni, að á Hellisheiði sá hann fimm hreindýr á beit ekki langt frá alfaravegi.
En hvenær síðasta dýrið hefir sjest þar uppistandandi, veit jeg; ekkert um, en ekki hefir það verið löngu eftir síðustu aldamót.

Tvö hreindýr í einu skoti

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Ekki þótti það gerlegt að, skjóta hreindýr með öðru en kúlurifflum, en þeir voru þá í fárra höndum. Samt veit jeg eitt dæmi til þess, að maður banaði tveimur dýrum í sama skoti úr haglabyssu. Það var Jón Sigurðsson á Vífilsstöðum, síðar í Efstabæ í Skorradal. —
Var jeg samtíða honum margar vertíðir við sjó. Hugði jeg þá að hann hlyti að verða stórbóndi og sveitarhöfðingi svo vel þótti mjer hann til foringja fallinn. En hann, þessi frábæra skytta, beið bana af byssuskoti, þegar hann var í broddi lífsins. Var hann þá á rjúpnaveiðum frá Efstabæ. Jeg gat ekki sneitt hjá því að minnast þessa fornvinar míns hjer, af því hann var sá eini maður, sem jeg hefi áreiðanlega heimild fyrir að skyti tvö hreindýr með einu rjúpnaskoti.
Ekki er mjer kunnugt nema um, tvo menn sem urðu nafnkendir fyrir hreindýraveiðar á Reykjanesfjallgarðinum. Voru það Guðmundur Jakobsson frá Húsafelli og Guðmundur Hannesson frá Hjalla í Ölfusi. Verður þeirra hjer að nokkru getið.

Hreindýraskyttan Guðmundur Hannesson

Móakot

Móakot.

Guðmundur Jakobsson var elstur af tólf börnum þeirra Húsafellshjóna Jakobs Snorrasonar og Kristínar Guðmundsdóttur, fæddur 1794. Hann var talinn gáfumaður, þjóðhagasmiður, rammur að afli og alt var honum vel gefið. Þegar hann var fulltíða maður fluttist hann frá foreldrum sínum suður að Elliðavatni og giftist þar frændkonu sinni Valgerði Pálsdóttur, þau voru systrabörn. Valgerður, var alsystir sjera Páls í Hörgsdal, sem fjölmenn ætt er frá komin. Guðmundur bjó á Vatnsenda, síðar á Reykjum í Ölfusi og síðast í Lambhúsum í grennd við Bessastaði. Guðmundur fór að búa á þeim jörðum, sem lágu að því svæði er hreindýr hjeldu sig í þá daga. Hann var æfð skytta frá æsku og neytti hann nú þeirrar listar, þegar hreindýr gengu honum úr greipum. Var hann að líkindum sá fyrsti og næstum sá eini maður á þriðja og fjórða áratug 19. aldar, sem talinn var frækin hreindýraskytta. Mynduðust þá margar sögur af honum, bæði um skotfimi hans og hreysti, bárust sögur mann frá manni ýktar og endurbættar að gömlum þjóðar sið. Til dæmis um krafta hans var sagt, að hann hefði eitt sinn skotið hreindýr uppi í Henglafjöllum og borið það á herðum sjer til Hafnarfjarðar. Vildu Hafnfirðingar er þetta mundu, fullyrða að þetta væri satt. Einn sagði að til merkis um skotfimi Guðmundar, að hann hefði hæft dýr á 900 faðma færi og byssukúlan hefði farið inn um krúnuna og komið út hjá dindlinum. Sjálfur hafði Guðmundur verið rauplaus maður og voru sögur þær annara verk, sem af honum bárust. En sannleikur var það að hann var rammur að afli. Það sagði sjera Þórður í Reykholti mjer, að þegar hann var í Bessastaðaskóla hefði Guðmundur búið í Lambhúsum.

Lambhús

Lambhús – tóftir.

Myndaðist góð vinátta milli hans og sumra skólapilta, sem þótti gaman að líta heim til þessa glaða og gáfaða bónda. En ekki þótti þeim hann árennilegri en ísbjörn til fangbragða, enda þreyttu þeir þau aldrei við hann. Þegar ég var á barnsaldri man jeg Skagfirðinga, sem voru í skreiðarferðum suður með sjó, sögðust hafa gert sjer erindi til Guðmundar Jakobssonar, bara til þess að sjá þennan mann, sem svo margar sögur gengu um. Og Einar á Mælifelli föðurfaðir dr. Valtýs Guðmundssonar, gerði sjer ferð norðan úr Skagafirði og suður á Álftanes. Sagði hann það væri erindið að sjá Guðmund Jakobsson. Einar var gáfumaður með frábærri elju að afrita bækur. Einar heimsótti foreldra mína í þessari ferð. Var hann spurður, er hann var á heimleið, hvernig honum hefði þótt að heimsækja Guðmund og um hvað þeir hefðu helst talað. Lofaði hann Guðmund mikið fyrir gáfur og fróðleik og sagði að lokum: — Mest töluðum við um skáldskap gamlan og nýjan og aflraunir fornar.
Guðmundur flutti síðast að Móakoti í Garðahverfi til Helgasonar síns og Rannveigar konu hans. Meðal barna þeirra hjóna er Helgi Helgason verslunarstjóri og einn meðal nafnkendustu Reykjavíkurbúa. Það sagði frú Rannveig mjer, að Guðmundur tengdafaðir sinn hefði verið sá glaðasti og skemtilegasti maður, sem hún hefði kynst um æfina. Hann dó í Móakoti 1. jan. 1873, kominn að áttræðu.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – tóftir.

Vigdísarvellir hjet heiðarbýli eigi langt frá Keili, en fjarri öllum bygðum bólum. Þegar jeg var sjómaður á Vatnsleysuströnd frá 1878 til 1888, bjó þar maður að nafni Guðmundur Hannesson. Strandarmenn sögðu mjer að hann væri einn af þeim 29 börnum, sem Hannes bóndi á Hjalla hefði eignast með konum sínum, en bókfærðar heimildir hefi jeg engar fyrir þessu. Jeg sá þennan Guðmund nokkrum sinnum og líka þekti jeg mörg systkin hans, sem voru víðsvegar þar syðra, bæði hjú og búendur, meðal þeirra var Sæfinnur vatnsberi í Reykjavík, er gárungar kölluðu Sæfinn með sextán skó. Þessi systkini voru fyrir mínum augum ekki meiri en miðlungsfólk, og báru sum þeirra vitni þess, að vanlíðan í æsku hefði markað þroska þeirra. Einkum var það einn bræðranna, sem Helgi hjet, er talinn var lítilmenni. En Sæfinnur og Guðmundur voru þeirra burðugastir.

Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Ágúst í Halakoti lýsir Guðmundi Hannessyni sem frábæru karlmenni og bestu skyttu, og er það enginn efi að svo hafi verið, hafi hann skotið sjötíu hreindýr eins og Ágúst fullyrðir. Til dæmis um frækleik Guðmundar og hreysti, segir hann sögu af því, að eitt sinn hafi helskotinn tarfur, sem ekki átti undankomu auðið, ráðist á hann. Guðmundur brá sjer þá upp á svíra dýrins og banaði því með beittum hnífi. Þessu nákvæmlega samhljóða sögu heyrði jeg í bernsku minni um Guðmund Jakobsson. Kemur mjer til hugar, að það sama atvik sje fært á milli manna. Ekki var Guðmundur Hannesson jafn stórmannlegur í mínum augum, eins og í lýsingu þeirri sem Ágúst í Halakoti gaf af honum og efast jeg um að allar heimildir um dýraveiðar hans sjeu óyggjandi, því bygðar eru þær á sögnum, er gengið hafa mann frá manni. Jeg hefi spurt Herdísi Sigurðardóttur húsfrú á Varmalæk, sem þekti Guðmund vel, er hún átti heima á Vífilsstöðum og Krýsivík, hvort það geti komið til mála að hann hefði skotið sjötíu hreindýr. Hún þorði ekki að mótmæla því með öllu, að svo hefði getað verið þótt henni virtist líklegra að einhverju hefði verið krítað í þá tölu. En það vissi hún að hann var talinn góð skytta og skaut bæði refi og hreindýr, þegar tök voru á. Að öllum líkindum hefir hann lagt fleiri hreindýr að velli á Reykjanessfjallgarði, en nokkur annar maður.
Það væri fróðlegt að vita nöfn allra þeirra manna, sem skutu hreindýr á þessu svæði og tölu þeirra dýra, sem fjellu fyrir skotum, en um það er ekkert að finna nema í munnmælum, sem færast úr lagi og gleymast síðan með öllu.
Nú á dögum líta ýmsir svo á, að það hafi verið mesta goðgá að leggja þessi friðsömu fjalldýr að velli. En þau áttu ekki ætíð sjö dagana sæla. —
Þegar allt fór saman, vetrarbyljir, stórregn og hagleysi, þá hlutu þau að lokum að hníga að velli helfrosin og hungurmorða. Við allar þær nauðir losnuðu dýrin, sem fengu skot í höfuð eða hjarta og hlutu þar með bráðan bana. Má því líta svo á, að þessir markvissu veiðimenn hafi unnið miskunnarverk með því að leggja dýrin hreinlega að velli. Og með þeim færðu þeir líka oft þurfandi fjölskyldu góða björg í búið. Þá var heldur ekki um lagabrot að ræða, þótt hreindýr væru unnin á þeim árum, sem frásagnir þær gerðust sem hjer eru skráðar.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1943, Hreindýr og hreindýraskyttur – Kristleifur Þorsteinsson, bls. 53-54.

Hreindýr

Hreindýr.