Skúli Helgason ritaði grein í Árbók Fornleifafélagsins árið 1981 er bar yfirskriftina; Gamla rústin við Fóelluvötn – og fólkið sem þar kom við sögu. Í henni (10 bls.) kemur m.a. fram eftirfarandi:
“Það var haustið 1979 að ég sem þetta rita brá mér eitt sinn inn í Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Fékk ég að líta í málsskjöl, sem eru geymd viðkomandi landaþrætum milli Hólms, Lækjarbotna og Elliðakots á áratugunum 1870-1890. Meðal þeirra manna sem þar koma fram sem vitni að gefa upplýsingar um landsvæðið þar efra var Geir kaupmaður Zoëga. Hann var fæddur í Reykjavík árið 1830 og dvaldi og bjó þar alla ævi, en hann andaðist árið 1917. Hann hafði verið fróður um nágrenni Reykjavíkur, einkum á svæðinu þar efra, upp um Fóelluvötn til Kolviðarhóls og inn í Marardal. Hafði hann farið þangað fyrr á árum í sumarútreiðartúra sem fleiri Reykvíkingar, er voru þess megnugir að eiga hesta.
Í áðurnefndum vitnaleiðslum, sem fram fóru sumarið 1891, er eftirfarandi bókað eftir Geir Zoëga, sem þá var 61 árs:
“Vitninu var sagt það ungling, að kona nokkur, Guðrún Hákonardóttir, einhverntíma milli 1820-1830, hafi byggt kofa og búið í Fóelluvötnum sem afréttarlandi.”
Til að skyggnast aðeins inn í þessa liðnu atburði lá nú fyrst að vita hvort íverukofinn, sem nefndur er við Fóelluvötn, væri nú framar finnanlegur. Til þess var leitað á vit þess manns, sem nú er meira en áttræður og hefur dvalið alla ævi á sama bæ. Hann er bæði greindur vel og langminnugur, eins og hann á kyn til. Þessi maður er Karl Nordal, bóndi á Hólmi við Suðurlandsbraut. Hann tók erindi mínu vel og kannaðsit hann við gamla rúst fyrir norðvestan Vötnin. Sagði hann að það væru þær einu rústir sem hann vissi til að væru þarna á stóru svæði, að fráteknum “Vatnakofanum” við Sandskeiðið, sem væri hinn gamli sæluhúskofi og var uppi standandi fram á þessa öld og margir eldri menn muna vel eftir. Karl á Hólmi var svo vinsamlegur að bjóða mér leiðsögn sína upp fyrir Fóelluvötn að finna rústina, ef mig fýsti að fara þangað og líta þar á fornar mannvistarleifar.
Þegar þarna upp eftir kom fann Karl fljótlega rústina, þótt hann hefði ekki að henni komið um síðastliðin sextíu ár. Rústin er dágóðan spöl suðvestur af Lyklafelli, gengur þar heiðardrag nokkurt til suðurs frá Fóelluvötnum. Nefnist það Eystri-Vatnaásinn.
Eftir að gerð hafði verið nokkur leit í kirkjubókum og sýsluskjölum Gullbringu- og Kjósasýslu komu fram eftirfarandi heimildir um fólk það sem rústin við Fóelluvötn er eftir.
Guðmundur Guðmundsson var fæddur í Skildinganesi 1796 og þar ólst hann upp með foreldrum sínum og systkinum. Fluttist hann svo upp að Lágafelli í Mosfellssveit með foreldrum sínum, er þau fóru frá Skildinganesi. Guðmundur hefur vafalaust verið dugnaðar- og atorkumaður sem bræður hans áttu kyn til. Um svipað leyti og Guðmundur fluttist upp að Lágafelli kom þangað stúlka um tvítugsaldur neðan úr Reykjavík. Hét hún Guðrún Hákonardóttir, talin fædd á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd árið 1795.
Þau Guðmundur á Lágafelli og Guðrún Hákonardóttir gengu í hjónaband um 1818. Um þær mundir hafði hún lært ljósmóðurfræði og gegndi síðan ljósmóðurstörfum í Mosfellsveit um fjölda ára. Áttu þau nokkur börn sem upp komust og eru ættir frá þeim komnar. Þau hjón bjuggu á Lágafelli í tvíbýli til 1826. Á hinum hluta jarðarinnar bjó faðir Guðmundar uns hann andaðist 1822. Jörðin hefur sennilega verið fullsetin. Árið 1822 eru á báðum heimilum yfir 20 manns, bú hefur verið stórt og efnahagur góður. Um þessar mundir virðist Guðmundur bóndi yngri hafa tekið þá ákvörðun að efna til nýbýlisbyggingar og þá hafi hann komið auga á landspildu nokkra við Fóelluvötnin.
Eins og áður er að vikið er fram undan Lyklafelli, þó nokkurn spöl til suðvesturs, hæðardrag fram í Fóelluvötnin, en þau kannast felstir Reykvíkingar við. Hæðardrag þetta-Eystri-Vatnaásinn, liggur til suðurs. Fremst á því er klettabelti, reyndar tvö með stuttu millibili. Framundan því efra til suðvesturs er lítil brekka, gróin og græn hvert sumar, falleg tilsýndar og blasir við sunnan frá um nokkra vegalengd. Fyrir neðan þessa brekku er mýrardrag með vatnsrennsli í úrkomutíð. Svipað er einnig hinum megin við hæðardragið, en þar er efri hluti Fóelluvatnanna.
Þennan stað hefur Guðmundur á Lágafelli haft í huga er hann hugði til nýbýlisbyggingar. Suðvestan undir klettabeltinu fyrrnefnda hefur hann trúlega viljað byggja bæ sinn, þar hallar vel frá, skjólgott fyrir norðaustannæðingi, því að klettarnir mynda þarna nokkurn skjólgarð á litlu svæði. Eigi er nú vitað við hverja Guðmundur hefur samið um að fá að byggja þarna, trúlega hefur hann í það minnsta fengið munnlega heimild til þess hjá hreppstjórum Seltjarnarneshrepps og þeir hafa álitið svæði þetta vera óskipt afréttarland, en það munu Elliðakotsbændur ekki hafa viljað vera láta.
Nú gerist það þann 11. desember árið 1822 að Guðmundur á Lágafelli ritaði sýslumanninum í Gullbringusýslu, Ólafi Finsen, eftirfarandi bréf, eða mætti ein nefna það tilkynningu, sem var svohljóðandi: “Að ég undirritaður hefi ásett mér með tilvonandi leyfi yfirvalda að byggja eftirleiðis bæ og reisa bú í svonefndum Fóelluvötnum fyrir ofan Mosfellsveit og Seltjarnarneshrepp, auglýsist hér með eftir fyrirmælum tilskipunarinnar af 15. apríl 1776.”
Eigi mun sýslumaðurinn hafa svarað bréfi þessu strax, heldur skotið því fyrst til amtúrskurðar. En það er nokkurnveginn víst, að Guðmundur hefur hafið framkvæmdir þarna suður frá vorðið 1823. Eigi hefur hann þó beinlínis byrjað á venjulegri bæjarbyggingu, heldur byggt þarna hús, sem hann hefur hagnýtt fyrir selstöðu. Hústóftin sést enn nokkuð vel. Hún er nú fyrir löngu fallin saman (veggir hrundir inn) og því er nokkuð erfitt að sjá hvað hún hefur verið stór nema að grafin væri upp, en eftir því sem næst verður komist hefur hún verið 3 álnir á breidd eða um 1.80 m, en lengdin 11-12 álnir, um 8 m.
Trúlega hefur húsinu verið skipt í tvennt, verið í því milligerð. Gaflhlaðið er jarðfast bjarg, næstum jafnbreitt tóftinni, það er að líkindum meðalmanni í axlarhæð af gólfi, ef grafið væri niður í það, og næstum því lóðréttur flötur sem inn í húsið hefur snúið. Eins og áður segir, hefur húsinu verið skipt í sundur innan veggja, þar hefur verið svefnhús (selbaðstofa) og mjólkurhús. Þar að auki hefur verið eldhúskofi, máske utan veggja, sem ekki er nú vel hægt að átta sig á, en svona var húsaskipun háttað almennt í hinum gömlu seljum. Auk þessara húrústar sem er nokkuð greinileg, virðist votta fyrir ógreinilegum hleðslum, sem gætu verið miklu eldri, og þá kemur manni til hugar, að þarna hafi máske einhverntíma áður verið sel, á 18. öld, og þá ef til vill frá Skildinganesbændum. En um þetta verður nú ekkert fullyrt framar.
Það virðist sem Guðmundur á Lágafelli hafi verið þarna með búsamla sinn (fráfærurær og kannski kýr) um næstu þrjú sumur. Þá fyrst er það sem sýslumaðurinn svarar fyrrgreindu bréfi Guðmundar. Þar vitnar hann til úrskurðar amtmanns. Er Guðmundi þar bannað að byggja nokkuð við Fóelluvötn fyrr en hann sé búinn að fá útmælt land til nýbýlis. Bréf sýslumanns, dags. 1. des. 1825, er svohljóðandi: “Eftir að ég hafði sent amtinu bréf yðar til mín um að útmæla yður jarðarstæði upp í þeim svonefndu Fóelluvötnum, hefur hann svarað því á þá leið, að þar eð þér ekki hafið sannað það að yðar fyrirtæki að byggja í Vötnunum sé löglega lýst, eins og þér í bréfi til amtsins af 11. des. 1822 útþrykkilega hafið sagt frá, að þér væruð búinn að gjöra þá ráðstöfun, að byggingaráformi yðar yrði þinglýst á hinni næstkomandi landsyfirréttarsamkomu, og þér þar hjá með því að byrja í Vötnunum með selstöðu og nokkurs konar útibú leyfislaust og án yirvaldsins tilhlutunar, hafið breytt ólöglega og þvert á móti Jónsbókar landleigubálki, 43. og 46. kap. og þar með orsakað mæðu og mótsagnir, svo finni hann í þetta sinn enga orsök til að leyfa yður það umbeðna, en skylduð þér þrátt fyrir það forboð, sem þegar gjörð eru eða hér eftir kunna að verða gjörð, ekki viljað sleppa þessu yðar fyrirtæki, verður það öldungis að koma á þá skoðunargjörð sem á plássinu yrði að haldast hvar hjá það hlyti af sjálfu sér að ef þar fengist að byggja, að nýbyggjarinn yrði að byggja þar reglulegan bóndabæ og rækta þar tún sem best verður, samt annaðhvort sjálfur búa þar eða eftir kringumstæðum byggja jörðina öðrum.
Eftir framanskrifuðum amtsins úrskurði hlýt ég því hér með alvarlega að fyrirbjóða yður að hafa frá næstkomandi vordögum nokkra selstöðu eða útibú í fyrrnefndu plássi, allt svo lengi sem þér ekki hafið fengið öðlast þar yðar löglega útmælt jarðarstæði.”
En þrátt fyrir þessi fyrirmæli og bann sýslumanns frá amtmanni virðist Guðmundur á Lágafelli ekki hafa viljað gefast upp fyrir framkvæmdir sínar í Fóelluvötnum. Og næsta sumar, 1826, hefur hann flutt búsamala sinn suður eftir eins og undanfarin sumur. Tíminn líður nú fram til 8. júlí (1826). Þá sendir sýslumaður stefnuvottunum í Mosfellsveit eftirfarandi fyrirskipun til birtingar Guðmundi á Lágafelli. Færir sýslumaður hana jafnframt inn í bréfabók sína og nefnir “auglýsingu”. Í henni ítrekar sýslumaður fyrri ákvörðun amtmanns og hans um “að láta útmæla honum jarðnæði í Fóelluvötunum, og ég þar þá fyrirbyði honum að hafa framvegis selstöðu eður útibú í téðu plássi, þar er hún væri ólögmæt… Því vildu stefnuvottarnir í Mosfellsveit á löglegan hátt birta honum, að hann verði viðliggjandi lagaákæru og sektar eiga að hafa burt flutt allan sinn búfénað úr fyrrgreindri selstöðu innan þriggja daga að reikna frá því honum þetta auglýsist…”.
Ekki er vitað hvort Guðmundur á Lágafelli hafi horfið heim með búsmala sinn í júlí 1826, eins og honum var fyrirskipað. Báðir foreldrar Guðmundar á Lágafelli önduðust þetta sumar. Hinn látni, Guðmundur Jónsson á Lágafelli, var talinn eiga tvo þriðju hluta “í húsinu við Fóelluvötn”, og eru þeir virtir á 14 ríkisdali, 64 skildinga. Það jafngilti á þeim tíma nokkurn veginn einu kýrverði (3-8 vetra). Af þessu má sjá, að þarna hefur enginn smákofi verið byggður heldur talsvert mikið hús. Erfði Guðmundur á Lágafelli þessa 2/3 hluta af húsverðinu, hinn þriðja partinn hefur hann átt sjálfur. Hvað húsið hefur staðið lengi við Vötnin veit nú enginn, en trúlega ekki mörg ár. Það hefur verið rifið og viðirnir fluttir þaðan burtu.
Vitnisburður Geirs Zöega árið 1891 segir að Guðrún Hákonardóttir hafi búið í Fóelluvötnum. Guðrún hefur sennilega verið þarna sjálf selráðskona en aldrei haft þar vetursetu. Geir Zöega hefur vafalaust munað Guðrúnu vel, bæði uppalin í Reykjavík. Hún hefur áreiðanlega verið nokkuð þekkt kona og því hefur nafn hennar og minning lifað miklu lengur en Guðmundar manns hennar, sem dó löngu fyrr en hún sjálf. Trúlega hefur hún verið nokkuð mikil fyrir sér og ekki látið hlut sinn fyrir neinum smámunum.
Guðmundur Guðmundsson, maður Guðrúnar Hákonardóttur, varð ekki maður gamall. Hann drukknaði í fiskiróðri frá Seltjarnarnesi þann 6. apríl árið 1830, var hann þá hálffertugu að aldri. Á þessum mannskaðadegi fórust ekki færri en 15-20 menn í sjó á Seltjarnarnesinu, að vísu áttu þeir ekki allir þar heima.
Guðrún Hákonardóttir hefur verið kona um hálffertugt er hún varð ekkja. Hún bjó áfram á Lágafelli um nokkur ár. Árið 1835 er hún þar í tvíbýli, talin 41 árs gömul ekkja og “yfirheyrð ljósmóðir” (þ.e. lærð ljósm.). Börn hennar og Guðmundar urðu 7 talsins. Það yngsta fæddist eftir að Guðmundur drukknaði. Guðrún fer síðan að Stardal (1940). Árið 1855 er Guðrún komin að Laxnesi þar sem dóttir hennar er fyrir búi. Árið 1856 flytur Guðrún frá Laxnesi upp að Márstöðum í Akraneshreppi þar sem synir hennar munu hafa búið. Á Márstöðum dvaldist hún til æviloka, 2. desember 1859, 64 ára gömul.”
Með greininni fylgdu myndir af höfundi í rústinni.
FERLIR skoðaði rústina við Eystri-Vatnaásinn. Ljóst er að þar hefur verið stekkur. Þegar nágrenni hans var skoðað komu í ljós þrjár aðrar rústir; tvær litlar með op mót vestri og ein stærri og reglulegri, efst á ásnum. Hann er vel gróinn að vestanverðu. Hlaðinn veggur sést sunnan í húsinu, en gróið er yfir nyrðri vegginn. Norðvestan undir því eru minni tóftirnar, sennilega leifar eldri selstöðu. Húsið er litlu stærra en stekkurinn, en breiðara. Fyrir ókunnuga gæti verið erfitt að átta sig á minjaleifunum, en þær, sem og staðsetning þeirra, er augljós þegar að er gáð; í skjóli fyrir austanáttinni.
Selvarðan er á aflöngu klapparholti skammt norðar. Hún sést mjög vel þegar komið er að henni úr norðri, þ.e. frá Mosfellsveit. (Sjá meira um Fóelluvötn HÉR.)
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Skúli Helgason – Árbók fornleifafélagsins 1981, bls. 118-128.