Gufunes er nesið austur af Viðeyjarsundi, suðvestan Eiðsvíkur. “Gufunes virðist snemma hafa orðið sjálfstæð jörð og kirkja (Maríukirkja) er þar komin um 1150 og henni fylgdi kirkjugarður. Gufuneskirkja var lögð niður 1886 en beinin úr kirkjugarðinum voru tekin upp árið 1968 og flutt í nýjan grafreit vegna byggingarframkvæmda Áburðarverksmiðjunnar.” Skv. upplýsingum Sigurðar Hreiðars var kirkjan í Gufunesi hins vegar ekki tekin niður fyrr en 1888 þegar hafin var smíði nýrrar kirkju að Lágafelli sem kom í stað kirkjanna að Gufunesi og Mosfelli og sóknirnar sameinaðar.
Nú á dögum er Gufunesið hluti af Grafarvogshverfi. Norðaustan og norðan þess er Eiðsvík og Geldinganes og að sunnan er Grafarvogur. Ein útgáfa Landnámu segir frá Katli gufu Örlygssyni, sem átti þar vetursetu og önnur frá Gufu Ketilssyni. Getgátur eru einnig uppi um aðra ástæðu nafngiftar nessins, þ.á.m. uppgufun úr leirunum í sólskini um fjöru. Hús bæjarins, kirkjan og kirkjugarðurinn voru á hól vestan núverandi skrifstofubyggingar áburðarverksmiðju.
Örnefnin Akur og Fjósaklettar eru yst á Gufunesi. Talið er að korn hafi verið ræktað á Gufunesi eins og örnefnið Akurinn gefur til kynna. Einnig er líklegt, að jörðin hafi átt hlut í laxveiðum í Elliðaánum 1235. Viðeyjarklaustur eignaðist jörðina í kringum 1313 og hún er skráð sem slík 1395. Samtímis því var stunduð verzlun á Gufunesi. Við siðaskiptin 1248 varð jörðin eign konungs. Skömmu eftir að Skúli fógeti Magnússon fluttist til Viðeyjar lét hann flytja þaðan spítala, eða dvalarstað eldri borgara, til Gufuness (1752). Hann var lagður niður 1795. Jörðin var seld skömmu fyrir aldamótin 1800 og Bjarni Thorarensen skáld bjó þar 1816-33, þegar hann var dómari í landsyfirrétti.
Kirkjan var lögð af 1886 (1888) og beinin úr kirkjugarðinum voru flutt í nýjan reit sunnar í túninu 1978, þegar hafizt var handa við byggingu áburðarverksmiðjunnar.
Í Fornleifaskráningarskýrslu fyrir Gufunes 2004 segir m.a.: “Elstu heimildir um Gufunes er að finna í Landnámu bæði í Hauksbók og Styrmisbók, bækur þessar eru samhljóða um landnámsmanninn Ketil gufu Örlygsson, ætt hans og mægðir. Þó er Hauksbók fyllri um búsetu hans en þar segir: „Ketill … kom út síð landnámatíðar; hann hafði verit í vestrvíking … Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann þar hinn fyrsta vetr at Gufuskálum, en um várit fór hann inn á Nes ok sat at Gufunesi annan vetr. … Ketill fekk engan bústað á Nesjum, ok fór hann inn í BorgarfjQrð at leita sér at bústað ok sat inn þriðja vetr á Gufuskálum við Gufá.”
Fáar eða engar heimildir eru um Gufunes næstu aldirnar. Kirkja hefur verið sett í Gufunesi fyrir 1180 og helguð Maríu Guðsmóður því það ár er kirkjunni settur máldagi af Þorláki biskupi Þórhallssyni. Í máldaganum segir meðal annars: Mariu kirkia a gufunesi a xx c i lande oc kyr .ij. kross oc kluckur. silfr calec oc messo fot. tiolld vm hverfis. alltara klæþe .iij. Vatn ker. gloþa ker oc elldbera. slopp oc munnlogar .ij. lás oc kertta stikur .ij. Þar scal tíund heima oc af nio bæiom oc sva groptir. þar scal vera prestr oc syngia allar heimilis tiþir. ij. messor hvern dag vm langa fosto. messa hvern vigiliu dag. hvern dag vm jola fosto .ij. messor. nacqvern imbrodag a jola fosto. oc of haust. lysa fra mario messo vnz liþr paska vico.
Um 1230 er skrifað bréf um tolla og ítök Gufunesinga í Viðey, „ … sem Snorri Illugason lagði aptr.” Jón Sigurðsson forseti ritaði ítarlegan inngang að bréfinu í Fornbréfasafninu. Þar segir hann að Ásgeir prestur Guðmundsson, sem var fóstri Illuga, föður Snorra, sem lagði aftur tollana, muni líklega hafa verið sá sem talinn var með helstu prestum í Sunnlendingafjórðungi árið 1143 en hann andaðist líklega um 1180. Jón segir að síra Ásgeir hafi án efa búið í Gufunesi, að minnsta kosti um hríð. Hann telur Ásgeir hafa á ofanverðri ævi sinni selt Illuga fóstursyni sínum Gufunes en eftir hans daga hafi erfingjar hans rift kaupunum. Máldagi kirkjunnar hér að ofan gæti því lýst gripum og eignum kirkjunnar á ofanverðum dögum síra Ásgeirs.
Í Sturlungu er getið um deilur þeirra Snorra Sturlusonar og Magnúsar Guðmundssonar biskupsefni, um arf eftir Jórunni ríku: ,,Jórunn hin auðga hét kona, er bjó á Gufunesi. Atli hét maðr sá, er at búi var með henni. Þeir voru þrír bræður, Svartr og Eiríkr, synir Eyjólfs Óblauðssonar. Í þann tíma andaðist Jórunn ok átti engan erfingja, þann er skil væri at en hon var í þingi með Magnúsi, ok ætlaði hann sér fé hennar, en skipta frændum hennar til handa slíkt, sem honum sýndist. En er Snorri spurði þetta, sendi hann suður á nes Starkað Snorrason. En er hann kom sunnan, hafði hann með sér þann mann, er Koðrán hét, strák einn, ok kallaði Snorri þann erfingja Jórunnar, ok tók hann þat fémál af Koðráni.
Var loks gerð sætt þeirra og var landið leyst til handa Atla. Í bréfinu um tolla og ítök Gufunesinga í Viðey, sem fyrr var getið segir að: „ … þá andaðist Asgeirr. oc tokv þav arf epter hann Olafr Þorvarðs son oc kona hans.” Jón Sigurðsson taldi ekki ólíklegt að sú kona hafi verið Jórunn ríka og hún hafi þá búið í Gufunesi um 1214 og andast um svipað leyti.
Í sögu Árna biskups Þorlákssonar er getið Þormóðar í Gufunesi og konu hans Þóru Finnsdóttur frá Hömrum. Þau hjón hafa líklega verið fædd um aldamótin 1200 og búið í Gufunesi einhvern tíma fyrir miðbik þrettándu aldar. Í máldaga um veiði í Elliðaám frá því um 1235 er nefndur Þormóður Svartsson og mun hann líklega vera þessi Þormóður.
Lítið fer fyrir Gufunesi í heimildum fyrr en við siðaskipti. Þá er jörðin komin í konungseign og er hennar getið í fógetareikningum á þessum tíma. Tvíbýli hefur verið í Gufunesi á árunum 1548-1553 en þá er ein leigukýr Bessastaðamanna hjá Lofti, ábúanda í Gufunesi og ein hjá Gissuri á sama stað „…bleff hannem thenne lege til giffet forskipeferd till Sternes.”
Kirkjunnar í Gufunesi er getið í Gíslamáldaga frá 1570 og síðar og gripir hennar og eignir taldar upp en þeim hafði fækkað mjög síðan fyrir siðaskipti. Í Jarðabókinni er Gufunes kirkjustaður og annexía frá Mosfelli. Sigurður lögréttumaður Högnason bjó þá á allri jörðinni. Landskuld jarðarinnar var að því er virðist níutíu álnir. Kúgildi kirkjunnar voru tvö, hálfum leigum galt hann presti en hélt hinum helmingnum, en leigukúgildi var ekkert. Kvikfénaður Sigurðar var tíu kýr, ein kvíga veturgömul, tíu ær með lömbum, einn sauður tvævetur, átta veturgamlir, tveir hestar, eitt hross og tveir folar tvævetrir. Jörðin gat fóðrað átta kýr, eitt ungneyti og tíu lömb, en heimilismenn voru átta. Hlunnindi bæði jarðar og kirkju voru góð.16 Hjáleigur eru skráðar fjórar í Jarðabókinni. Fyrsta hjáleiga er nafnlaus, en þar bjó þá Jón Knútsson, hugsanlega er það Knútskot. Önnur er Brands Kot, þar var ábúandi Guðbrandur Tómasson. Þriðja var Holkot, þar var ábúandi Jón Arason.
Fjórða var Helguhjáleiga, þar voru ábúendur tveir, Helga Ólafsdóttir sem bjó á hálfri en Margrét Þorsteinsdóttir á hinum helmingnum. Ekki er vita hvar þessar hjáleigur voru nákvæmlega nema hugsanlega Knútskot. Gufunesjörðin átti landamerki að Keldum, Korpúlfssöðum og Eiði.
Kirkja var í Gufunesi til 1886 en með landshöfðingjabréfi dagsettu 21. september. 1886 eru Mosfells og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar sóknir að Lágafelli. Staðsetning kirkjunar glataðist með tímanum en við byggingaframkvæmdir við Áburðaverksmiðjuna 1978 komu upp mannabein sem reyndust tilheyra gamla kirkjugarðinum. Ákveðið var að láta grafreitinn víkja fyrir framkvæmdum og voru beinin flutt í nýjan grafreit í túninu.
Varðveist hefur altari úr kirkjunni. Það barst að Úlfarsfelli eftir að kirkjan í Gufunesi var aflögð. Þar var það lengi notað sem búrskápur, þar til séra Hálfdán Helgason á Mosfelli rakst á það og flutti heim að Mosfelli og notaði það við hjónavígslur. Síðar var það flutt að Reykjalundi og gert upp og er notað þar við guðþjónustur.
Bæjarsjóður keypti jörðina árið 1924 ásamt Eiði og Knútskoti. Landsími Íslands lét reisa fjarskiptastöð á Gufunesmelum, þegar verið var að koma á talsambandi við útlönd 1935. Síðustu ábúendurnir í Gufunesi voru hjónin Þorgeir Jónsson og Guðný Guðlaugsdóttir en þau fluttu í Gufunes frá Viðey 1938. Þorgeir var landsþekktur glímukappi og hestamaður.
Á stríðstíma hafði herinn aðsetur í Gufunesi og reis þá braggahverfi norðvestan við bæinn.
Áburðarverksmiðja var byggð fyrir austan bæinn 1952. Raskaði sú bygging mjög minjum samanber að flytja varð kirkjugarðinn. Gufunesbærinn var síðan fluttur 1954, eftir að Áburðaverksmiðjan var komin í rekstur. Nýi bærinn stendur enn við fyrrum Gufunesvog en mun sunnar, þar er nú rekin starfssemi ÍTR. Í Gufunesvogi voru sorphaugar Reykjavíkur til langs tíma og var vogurinn þá fylltur upp með sorpi.”
Þá segir í skýrslunni um einstakar minjar: Gufunes – kirkja, aldur: 1180-1886, horfin: Já. Staðhættir: ,,Kirkjustaður var í Gufunesi, … en þá var kirkjan flutt að Lágafelli. Kirkjan stóð 30-40 m sunnan við bæinn á hól einum. Þegar grafið var fyrir verksmiðjunni í Gufunesi var komið niður á kirkjugarð og var hann færður sunnar. Þar er nú klukknaport.” Fyrir dyrum hinnar niðurlögðu kirkju á Gufunesi var legsteinn sem mælt er að upp hafi komið úr moldu er kirkjan var stækkuð eða færð fram. Steinn þessi tilheyrði Högna Sigurðssyni bónda í Gufunesi sem lést 1671. Kirkjan var úr timbri með múrbindingi og borðaklæðningu árið 1782-84. Kirkjustaður var í Gufunesi til 1886 en með landshöfðingjabréfi frá 21. september 1886 eru Mosfells- og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar að Lágafelli.”
Gufunes – kirkjugarður, aldur: 1180-1886, horfin: Já. Staðhættir: “Í örnefnaskrá yfir Gufunes kemur fram að: ,,Kirkjustaður var í Gufunesi fram yfir síðustu aldamót, en þá var kirkjan flutt að Lágafelli. Kirkjan stóð 30-40 metrum sunnan við bæ á hól einum. Þegar grafið var fyrir verksmiðjunni í Gufunesi var komið niður á kirkjugarð og var hann færður sunnar. Þar er nú klukknaport.” Þegar sú ákvörðun var tekin árið 1952 af borgaryfirvöldum og Áburðarverksmiðjustjórn að á Gufunesi skyldi reisa verksmiðju, þá er hér hefur starfað í aldarfjórðung, var þeim er að þeirri ákvörðun stóðu ekki ljóst að á landsvæði sem úthlutað var, væri forn kirkjugarður, allt frá því á 13. öld, enda hafði yfirborð hans verið sléttað og staðsetning hans óljós. Hinn 28. júní 1965 var jarðvinna í næsta nágrenni við grunn nýbygginga stöðvuð, þar sem í ljós komu leifar grafinna í hinum gamla garði, sem var á allt öðrum stað en áætlað hafði verið. Þáverandi þjóðminjavörður Kristján Eldjárn, kom strax á staðinn ásamt biskupi og fleirum. Hinn 20. apríl tilkynnti biskup Íslands að moldir garðsins yrðu fluttar, með ákveðnum skilyrðum. Hinn 6. ágúst 1968 sama ár hófst flutningur ,,molda” undir stjórn Jóns Magnússonar bónda og verkstjóra frá Stardal. Verkinu lauk 3. okt. 1968. Sjá skýrslu ,,Færsla á gamla kirkjugarðinum í Gufunesi.”
Árið 1970 var kirkjugarðurinn nýi hlaðinn, samkvæmt hönnun Reynis Vilhjálmssonar. 34 ,,Hinn 6. ágúst var byrjað á að grafa upp og færa á nýjan stað gamla kirkjugarðinn í Gufunesi. Kirkjugarðurinn sem færður var líktist ávölum hólma vestast við syðstu áburðarskemmurnar. Stærð hans var 40 x 38 m hæð, um 1.8-2 m og slétt móhelluklöpp undir.Við uppgröftinn komu upp 768 mannabein eða höfuðkúpur, beinin voru látin í 125 kassa, sem allir voru af sömu gerð og stærð. Allar gamlar kistuleifar, sem voru ekki annað en fjalabútar voru látnar fylgja kössunum og raðað á botninn undir þá.
Undir lokfjöl einnar kistunnar lá silfurskjöldur áletraður, Páll Jónsson sýslumaður, Elliðavatni, settur sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1801-1803, dáinn 1819. Og í annarri kistu fundust tvö silfurlauf af sömu gerð, en mismunandi stærð. Þessi lauf voru við höfða- og fótagafl. Í þriðju kistunni lá naglbítur. Þessir gripir eiga að fara á Þjóðminjasafnið, eftir ósk Þjóðminjavarðar Þórs Magnússonar. Hann kom og tók í sína vörslu bein Páls Jónssonar, sýslumanns.”
,,Í nýja grafreitnum er nú klukknaport. Grafsvæðið er hringlaga, um 35m í þvermál, hið ytra, en 15m – 19m hið innra. Veggir úr torfi, 0,8m á hæð að innanverðu og lækka jafnt út. Klukknaport er í NNV. Í garðinum er minnisvarði úr steini (granít) sem á stendur: „Hér hvílir duft þeirra, sem greftraðir voru að Maríukirkju í Gufunesi. Kirkja var í Gufunesi í fullar sjö aldir. Árið 1886 var hún niður lögð. Moldir kirkjugrunns og kirkjugarðs voru hingað fluttar árið 1968 til þess að friða þær fyrir umferð og mannvirkjagerð. SÆLIR ERU DÁNIR, ÞEIR SEM Í DROTTNI DEYJA. Op. 14,13. JESÚS KRISTUR ER Í GÆR OG Í DAG HINN SAMI OG UM ALDIR. Hebr. 13,8.”
,,Nyrst, þar sem verksmiðjan er núna var mjög grasgefin flöt sem hét Akur”. Heimildir eru fyrir kornrækt í Gufunesi. ,,Akur var mjög grasgefið land, er var nyrst á nesinu.” Þar er nú geymsla. Nokkuð nákvæma staðsetningu akursins er að finna á korti frá 1922 og er hann þá staðsettur vestan við geymslu. Á þeim stöðum þar sem akurinn hefur verið er búið að fylla upp og búa til plan.”
Fyrsta hjáleiga Gufuness er ekki nefnd með nafni í Jarðabók Árna og Páls 1703, þar gæti þó verið um Knútskot að ræða, því að þar var ábúandi Jón Knútsson. Landsskuld var þá xlv álnir, leigukúgildi eitt og heimilismenn þrír.108 Í Jarðabók Johnsen sem nær yfir tímabilið 1835-1845 er Knútskot einnig nefnt Núpakot og er það eina hjáleiga Gufuness þá, jarðardýrðleiki var fimm hundruð og ábúandi einn sem var leigjandi. Gamla Knútskot var á bakkanum við voginn og var það í ábúð 1916 þegar túnakort er gert, en það var flutt ofar í brekkuna fyrir ofan veginn að Áburðaverksmiðjunni, en útihúsin stóðu alltaf þar sem gamli bærinn var, samanber kort frá 1922. Engar rústir eru lengur sjáanlegar á þessu svæði. Gamla Knútskotið er farið undir fyllingar, en sléttað hefur verið úr því Knútskoti sem var í brekkunni. Ljósmynd af nýrra húsinu er t.d. að finna í Sögu Mosfellsbæjar.”
Frábært veður. Gangan um svæðið tók 1. klst. og 1 mín. Erfitt reyndist að finna einhvern inni á lokuðu svæði fyrrum Áburðarverksmiðjunnar, en snubbótt girðingin kom þó ekki í veg fyrir að svæðið væri skoðað með hliðsjón af framangreindu.
Heimild m.a.:
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Gufuness og hjáleigu hennar Knútskots, Minjasafn Reykjavíkur – Árbæjarsafn, Skýrsla nr 115 – Reykjavík 2004.
-Sigurður Hreiðar, Mosfellsbæ.
Gufunes.