Tag Archive for: Gullbringuhellir

Reykjanesskaginn

Í Faxa árið 1998 fjalla nemendur FS á Suðurnesjum um „Áhugaverða staði í Reykjanesfólkvangi„. Frásögnin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að nemendurnir hafa að öllum líkindum lítið kynnt sér vettvangsaðstæður sem og hina fjölmörgu möguleika, sem Reykjanesskaginn hefur upp á bjóða innan fólkvangsins, en taka þarf viljan fyrir verkið því það er jú niðurstaðan hverju sinni er mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Faxi„Náttúran á Reykjanesi er frekar rýr ef bera á hana saman við náttúru annars staðar á landinu vegna þess að svæðinu hefur einfaldlega verið misboðið í svo langan tíma. Þó svo að ekki hafi alltaf verið farið vel með svæðið þá er ýmislegt að sjá ef áhuginn er fyrir hendi. Of margir Suðurnesjabúar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu leita oft langt yfir skammt þegar njóta á íslenskrar náttúru. Vill það gleymast að Reykjanesið er spennandi svæði að ferðast um og kynnast. Það er öðruvísi en margir staðir á landinu vegna þess að þar er hægt að sjá mjög greinilega hvernig Reykjaneshryggurin kemur inn í landið. Allt umhverfi okkar er mótað vegna Reykjaneshryggsins því þar hafa orðið mörg eldgos fyrr á tímum og enn í dag er þar mikil eldvirkni í jörðu þó svo ekki hafi gosið á þessu svæði í nokkurn tíma.

Gróður á Reykjanesi er í slæmu ásigkomulagi samanborið við það sem hann var fyrir landnám og þeir sem vilja sjá mikinn gróður fara því á aðra staði á landinu. Allir verða að kynnast auðninni til þess að geta gert sér það ljóst að ekki má halda áfram eins og fram horfir án þess að illa geti farið. Það vekur kannski ekki áhuga margra að ferðast um Reykjanesið en ef vel er að gáð má þó finna eitthvað fyrir alla. Skemmtilegar gönguleiðir eru víðsvegar um svæðið, hraunmyndanir og háhitasvæði eru víðsvegar og reyndar er hægt að finna þar mikinn gróður þó á takmörkuðum svæðum sé. Fuglabjörg eru einnig á svæðinu og einnig er hægt að komast í silungsveiði með alla fjölskylduna. Þegar fólk ætlar að njóta náttúrunnar er oftast farið á þá staði sem eru meira þekktir og þykja merkilegir s.s Þingvelli, Gullfoss og Geysi eða önnur þekkt svæði. Hér á eftir verður fjallað um þau svæði sem okkur þykja merkilegust í Reykjanesfólkvangi.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Þegar Reykjanesbrautin er ekin blasir Keilir við á hægri hönd ef komið er frá Keflavík. Ef beygt er til hægri og ekið sem leið liggur frá Kúagerði og upp að fjöllunum þá er þar komið að mikilli grassléttu. Þessi grasslétta heitir Höskuldarvellir og eru þeir stærsta samfellda graslendið í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Sogalækur

Sogalækur.

Í leysingum liggur lækur úr Sogunum fyrir sunnan Trölladyngju og er talið að lækurinn hafi smám saman borið jarðveg niður á sléttlendið. Frá Höskuldarvöllum eru margar skemmtilegar gönguleiðir t.d á frægasta fjall Suðurnesja, Keili. Einnig er hægt að ganga á Mávahlíðar en það er mjór hryggur sem er brattur á báða vegu og sést hann því vel í næsta umhverfi. Þegar komið er á staðinn er best að velja gönguleiðir um svæðið eftir áhuga og getu hvers og eins.
Mjög fallegt er í kringum Höskuldarvelli á sumrin þegar allt er í blóma en þó er ekki síðra þar á veturna þegar snjór liggur yfir öllu svæðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja er ekki langt frá Höskuldarvöllum og er því alveg tilvalið að ganga þangað og skilja bílinn eftir undir fjallshlíðinni við Höskuldavelli. Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði norður af Núpshlíðum eða Vesturfjalli. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar. Austan við Trölladyngju er annað móbergsfjall, Grænadyngja. Nefnast þær saman Dyngjunnar. Í dyngjunum eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Norðan og sunnan við dyngjurnar eru gígar og gígaraðir.

Sogin

Sogin.

Norður af Trölladyngju eru síðan gufuhverir sem vert er að skoða. Jarðhiti er mikill í Trölladyngju. Sunnan hennar er litskrúðugur skorningur, svokallað Sog. Gaman er að ganga um svæðið og virða fyrir sér þá sérkennilegu liti sem em í dyngjunum. Þar eru mörg litaafbrigði og eru þau breytileg eftir því hvernig veður- og birtuskilyrði eru. Lítill lækjarfarvegur liggur í gegnum dyngjurnar og hefur hann í tímans rás grafið sig sífellt neðar. Dýptin er sumstaðar komin yfir tvær mannhæðir.
Stórkostlegt er að litast þarna um og njóta þeirrar fjölbreytni sem náttúran hefur upp á að bjóða í litavali.
Slæmur vegur liggur áleiðis að Trölladyngju frá Höskuldarvöllum. Frá Trölladyngju er síðan hægt að aka að Grænavatni og Djúpavatni.
Víðsvegar á þessu svæði er jörðin illa farin eftir umferð og nýjar slóðir eru sífellt að myndast og jörðin er á mörgum stöðum uppspóluð. Þetta er til skammar fyrir Reykjanesið og þeir sem aka utanvega ættu að skammast sín fyrir að eyðileggja marga fallegustu staði á Suðurnesjum sem seinna meir gætu orðið ferðamannastaðir sem myndu skapa miklar tekjur fyrir Suðurnesjabúa. Best er að ferðast um svæðið gangandi þegar á það er komið því þannig fæst best yfirlit yfir svæðið, við það skemmist það ekki og einnig er ganga heilsusamleg og nauðsynleg.

Spákonuvatn

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Mjög skemmtileg gönguleið er eftir Vesturhálsi þegar gengið er til suðurs frá Sogunum. Þá er komið að vatni uppá fjallinu og heitir það Spákonuvatn. Vatnið hefur myndast við það að hraun hefur lokað dalverpi og það hefur orðið til þess að vatn safnaðist þar fyrir. Það er mjög sérkennilegt að sjá það með eigin augum hvernig hraunið hefur runnið þannig að dalurinn hefur lokast og vatnið myndast. Ekki er fiskur í Spákonuvatni.

Grænavatn

Grænavatn

Grænavatn.

Vegurinn sem liggur frá Trölladyngju að Grænavatni er aðeins fyrir jeppa því hann er erfiður yfirferðar. Grænavatn er í dalverpi sunnan við Trölladyngju. Það er frekar grunnt og lítið vatn en þó er einhver veiði í því. Umhverfið er allsérstætt og fallegt vegna þess hversu stórgrýttar hlíðarnar eru.

Djúpavatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er sprengigígur sem hefur fyllst af vatni. Við Djúpavatn er skáli sem hægt er að gista í ef veiðileyfi er keypt. Þó nokkur veiði er í vatninu og hafa þar veiðst ágætlega vænir silungar. Það er því alveg þess virði að kaupa veiðileyfi í vatnið og fara með fjölskylduna og reyna að krækja í þann stóra. Ekki er síðra að dorga á veturna þegar ís er á vatninu. Vatnið er mjög djúpt og af því er nafnið dregið.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vigdísarvellir er dálítil grasslétta austan undir Núpshlíðarhálsi. Þar er oftast skjól af fjöllunum í nágrenninu. Á Vigdísarvöllum var byggður bær árið 1830 og búið þar fram til ársins 1905 en þá hrundu húsin í jarðskjálfta.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Bæjarrústirnar eru þó nokkuð stórar og þar sést einnig móta fyrir gömlum garði sem hefur verið hlaðinn til að halda skepnunum á sínum stað.
Það er athyglisvert að nokkur hafi lagt það á sig að búa svona langt frá byggð því að lífið hefur sjálfsagt verið erfitt þama eins og annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Þó svo að þetta svæði sé langt upp í fjöllum þá er þar ótrúlega mikill gróður á þessu svæði og því er það kannski ástæðan fyrir því að menn vildu búa þarna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Hentugasta leiðin að Krísuvfkurbergi frá Vigdísarvöllum liggur meðfram Núpshlíðarhálsi. Þaðan er beygl til austurs eftir þjóðveginum og síðan er beygt til sjávar eftir auðsjáanlegum slóða. Krýsuvíkurberg er mesta fuglabjargið á svæðinu. Það er um 7 km langt og 40 – 50 metra hátt.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Áhugavert er að ganga um svæðið, einkum á vorin og snemma sumars þegar fuglalífið er áberandi mest. Hverjum manni væri það gagnlegt að sjá fuglana í sínu náttúrulega umhveifi og geta virt þá fyrir sér í ungauppeldinu og baráttunni við náttúrulega óvini. Tveir lækir falla til sjávar fram af berginu, Eystrilækur og Vesturlækur. Eystrilækur myndar háan foss sem steypist fram af berginu. Í berginu verpa um 57 þúsund sjófuglapör en það er um 65% allra bjargfugla á svæðinu.

Eldborgir

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Eftir að Krýsuvíkurberg hefur verið skoðað liggur leiðin að Eldborgum. Eldborgir eru undir Geitahlíð austan Krýsuvíkur. Þær eru tvær og heita Stóra og Litla Eldborg. Þjóðvegurinn liggur á milli þeirra.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra Eldborg er einn allra fallegasti gígur á Suðvesturlandi, um 50 metra hár, hlaðinn úr hraunskánum og gjalli. Frá Stóru Eldborg liggur hrauntröð þar sem hraunið hefur runnið til sjávar. Vesturlækur fellur til sjávar í Hælsvík og myndar einnig fallegan foss.
Gróðureyðing fyrir ofan Krýsuvíkurberg er óvíða ljótari á Skaganum. Þar skiptast á blásnir melar og rofabörð.
Gróðurfar á þessu svæði er mjög slæmt vegna ofbeitar. Litla Eldborg er austar en hin og öllu fyrirferðanninni, Hún er hluti af stuttri gígaröð eins og Stóra Eldborg. Hraunið frá Litlu Eldborg hefur lagst yfir hraunið frá Stóru Eldborg að hluta og er gaman að virða þetta fyrir sér á góðvirðisdegi. Jarðvegur á þessu svæði er frekar rýr og er mosaþemba aðal gróðurinn á svæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hverasvæðin á Krísuvíkursvæðinu eru mjög fallegur ferðamannastaður en því miður eru það fáir sem leggja leið sína um svæðið en þangað er fólksbílafært og ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Krísuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufuhverum og leirhverum. Á svæðinu eru tvö gígvötn, Grænavatn og Geststaðavatn, sitt hvoru megin við veginn. Vötnin eru merkileg fyrir þær sakir að þau eru gamlar eldstöðvar sem hafa fyllst af vatni í tímans rás. Grænavatn hefur mjög sérkennilegan lit vegna þess hversu mikill þörungagróður er í vatninu.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Fyrir þá sem þora er gaman að fara í hellaskoðun. Þægilegasta leiðin að hellinum er frá þjóðvegi 42 sem er vegurinn sem við förum á leið okkar austur með Kleifarvatni og þarf að ganga síðasta spölinn að hellinum. Gullbringuhellir er eini hellirinn sem er þekktur í hrauninu við Kleifarvatn. Hann er norðaustan við fjallið Gullbringu. Hellirinn er um 170 metra langur en frá opinu liggur hann í tvær áttir. Mjög athyglisvert er að skoða hellinn því að í honum eru hraunstrá og þar er vítt til veggja og hátt til lofts og því þægilegt að ferðast um hann. Þessi hellir er aðgengilegur og því ætti fólk á öllum aldri að geta skoðað hann.

Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt dýpsta stöðuvatnið á Íslandi um 97 metrar að dýpt. Það er á miðjum skaganum inn í Reykjanesfólkvangi. Kleifarvatn hefur írennsli en ekkert sýnilegt frárennsli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Vatnsmagnið í Kleifarvatni er breytilegt og breytist mest vegna úrkomu. Jarðhiti er syðst í vatninu og er stundum hægt að sjá hverina ofan af Vatnshlíð. Þeir eru öðruvísi á litinn og skera sig því út úr. Á veturna sér maður vakir vegna hitamismunar en annars staðar er vatnið ísi lagt. Silungsveiði er talsverð í vatninu og er gaman að fara með fjölskylduna að veiða í Kleifarvatni vegna þess hversu stutt er að fara úr amstri hófuðborgarinnar og einnig vegna þess að svæðið er öðruvísi en menn eiga að venjast. Það má kannski geta þess að einn af síðustu stórbændunum í Krýsuvík tók silung úr Elliðavatni og flutti yfir í Kleifarvatn svo að hann á heiðurinn af því að þarna er hægt að veiða silung. Við vatnið er fallegt útsýni en þar er mikið af sérkennilegum klettamyndunum.

Hellirinn eini

Maístjarnan

Í Hellinum eina.

Eftir að hafa skoðað Kleifarvatn höldum við áfram eftir þjóðveginum og stoppum hjá Fjallinu eina. Í næsta nágrenni við það eru tveir hellar, annar þeirra heitir Hellirinn eini og hinn heitir Híðið. Hellirinn eini er um 170 metra langur, hann er víða lágur til lofts en víðast hvar er hann þó manngengur. Það eru dropasteinar og hraunstrá í hellinum. Miklar sprungur skerast þvert á hellinn og mynda litla afhella. Jarðfræðilega séð telst þessi hraunrásarhellir merkilegur fyrir það að hann er skorinn af þessum mörgu og stóru sprungum. Mikil litadýrð er í hellinum sem gerir hann áhugaverðari fyrir vikið.

Híðið

Híðið

Í Híðinu.

Híðið er um 500 metra frá Hellinum eina og því getur verið gaman fyrir þá allra hörðustu að skoða hann líka. Híðið er um 155 metra langur hellir og þröngur, hæstur er hellirinn um 2 metrar að hæð en víðast hvar töluvert minni. Erfitt er að fara um hellinn því sums staðar þarf að leggjast niður og skríða. Mikið er um fallega dropasteina og hraunstrá í hellinum, dropasteinarnir eru nokkur hundruð og hraunstráin talsvert fleiri. Híðið er alveg ósnortið vegna þess að hingað til hafa aðallega hellaáhugamenn farið þangað. En það vill oft fara þannig að vinsælir ferðamannastaðir fara illa út úr mikilli umferð ferðafólks sem því miður gengur oft ekki nógu vel um fallega og athyglisverða staði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Þetta er síðasti viðkomustaður okkar á þessu skemmtilega ferðalagi um Reykjanesfólkvang og héðan er ekki löng keyrsla upp á Reykjanesbrautina aftur en þaðan ættu allir að rata heim til sín á ný. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir allt það sem hægt er að skoða á svæðinu en við vonum að við lestur þessarar ritgerðar geti lesandi gert sér það ljóst að á heimaslóðunum leynist ýmislegt skoðunarvert í náttúrunni.
Sá misskilningur virðist vera allsráðandi að það þurfi að aka mörg hundruð kílómetra út fyrir höfuðborgina til að komast í spennandi landslag og fallega náttúru. Þetta svæði hefur upp á allt að bjóða sem íslensk náttúra getur á annað borð boðið upp á. Ef fólk gefur sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi verður það alveg örugglega hissa á því að sjá hversu margt er í boði. Þarna má sjá bæði spillta og óspillta náttúru, gróðumikil svæði og auðnir, háhitasvæði, fuglavarp, hraunhella og vötn. Til þess að skoða svæðið þarf að vera með opinn huga því að mörgum finnst það í rauninni ekki vera neitt ferðalag að fara svona stutt frá heimahögunum. En eins og áður sagði vill það gerast með Íslendinga að þeir leiti langt yfir skammt.
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verður það þannig að landinn taki við sér og sjái alla fegurðina sem er við bæjardyr höfuðborgarbúa. Kannski verður það þannig að innan fárra ára verði Reykjanesið eitt mest sótta ferðamannasvæði landsins.“

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 1998, Áhugaverðir staðir í Reykjanesfólkvangi, bls. 28-30.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Gullbringuhellir

Gengið var frá Herdísarvíkuvegi að Geitahlíð og síðan áfram norður með henni að Vegghömrum. Hamrabeltið er bæði fagurt og skjólsælt. Grösugt er undir veggjunum, en hvergi bar á minjum eða tóftum.

 Vegghamar

Vegghamar.

Þegar yfir hálsinn norðan Vegghamars var komið tóku við “tunglummyndað” umhverfi. Þangað komu t.a.m. til æfinga fyrstu bandarísku geimfararnir er stigu fæti á tunglið og þarna var tekin íslensk kvikmynd í árdaga innlendrar kvikmyndaleikgerðar er gerast átti að hluta til á tunglinu. Í henni eru m.a. myndskeið þar sem börn flækjast í kóngulóarvef og dýrið, risastórt, sækir að þeim. Enn má sjá slitrur úr “vefnum”, sem var úr girni, á móbergsklöppunum við einn skútann.

Kleifarvatn

Á ferð við Kleifarvatn.

Kálfadalir tóku við eftir skamma göngu. Þeir skiptast í tvennt. Á milli þeirra er þröngt gil, sem auðvelt er að ganga um. Niður í syðri dalinn hefur runnið mikil og myndarlegur hraunfoss niður Kálfadalahlíðarnar að austanverðu og skipt þeim hluta dalsins svo til í tvennt. Hraunið kom úr gígunum norðan við Æsubúðir, en þeir eru nokkrir þarna uppi á hraunsléttunni austan við dalina. Gróðurrönd er með hlíðinni að vestanverðu, en annars fyllir hraunið syðri dalinn að mestu leyti. Nyrst er hann þó grósugur, enda hraunið ekki náð þangað. Þegar komið var í gegnum gilið tók við nyrðri hluti Kálfadala, gróðurvænn og skjólgóður.

Kálfadalir

Í Kálfadölum.

Framundan blasti Gullbringan við (eins og hún er merkt á landakortum) austan við Kleifarvatnið. Aðrir segja að Gullbringa sé heiti á hlíðinni austan og ofan við sandfjallið, sem ber þetta nafn. Nafnið hafi komið til vegna þess þegar sólin er að setjast á bak við Sveifluhálsinn slái stundum gylltum roða á hlíðina alla. FERLIRsfélagar hafa nokkrum sinnum orðið vitni af því í kvöldferðum sínum um svæðið.

Þegar upp á Gullbringu var komið sáust vel verksummerki eftir jarðskjálftan 17. júní árið 2000. Stórum steinum hafði verið kastað upp á kollinum og þeir snúist við á leið niður. Mosinn, sem eitt sinn hafði verið ofan á steinunum var nú ýmist undir þeim eða á hlið. Sólin var að setjast á bak við Hádegishnúk og bjarma sló á hlíðina að baki. Hárnákvæm tímasetning á toppnum. Kleifarvatn spegilslétt fyrir neðan.

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Gengið var niður af Gullbringu að norðanverðu og kíkt ofan í helli, sem þar er (Gullbringuhelli). Í honum er hlaðið bæli. Rás liggur lengra inn eftir, en þrengist. Svo virðist sem hún víkki á ný þegar innar dregur. Hún var ekki skoðuð nánar að þessu sinni. Hellisopið er við gömlu þjóðleiðina frá Krýsuvík yfir Hvammahraunið (Hvannahraun). Götunni var fylgt yfir úfið hraunið á kafla, en hún er vel greinileg þangað til yfir er komið. Handan þess gerist hún ógreinileg vegna jarðvegseyðingar. Gengið var framhjá veglegum kletti, sem hafði margsprungið við skjálftann.

Fagridalur

Fagridalur.

Haldið var norður með hlíðinni og síðan haldið upp á háhæðina ofan við Vatnshlíðarhornið og stefnan tekin á Fagradal. Yfir grjótbarinn berangur er að fara sem og mosaþembur á stangli. Gatan niður hlíðina er í breiðum hraunfossi, sem runnið hefur þar niður í Fagradal. Fagradalsmúlinn er handan við, en leiðin niður liggur í hlykkjum og er nokkuð greiðfær. Þegar niður í dalinn var komið tók við gróið sléttlendi og síðasti spölurinn að endastöðinni því vel greiðfær yfirferðar.
Frábært veður. Sól og kyrrviðri. Gangan tók 7 klst og 21 mín.

Vegghamar

Vegghamar.

Lambhagarétt

Gengið var frá Vatnsskarði og áleiðis umhverfis Kleifarvatn; um Sveifluháls, Hellutinda, Stapatinda, Miðdegishnúk (Hádegishnúk), gengið niður að Kaldrana, elstu minjum í ofanverðri Krýsuvík að talið er, austur með sunnanverðu vatninu ofan við Hvamma, undir Geithöfða, til norðurs vestan Gullbringu og yfir Hvammahraun með viðkomu í Gullbringuhelli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Þá var gengið með vatninu undir Vatnshlíðinni, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegur möguleiki. En skýring er þó á því, eins og flestu öðru. Þá var haldið vestur um Lambhaga, litið á rétt og athvarf smala fyrrum, og síðan gengið áfram eftir eyðinu milli Lambhagatjarnar og Kleifarvatns norðan þess, uns staðnæmst var við hellisskútann undir Hellunni. Fagurt útsýni var yfir Kleifarvatn alla gönguna. Á leiðinni var rifjaður upp ýmiss fróðleikur um vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli, a.m.k. ekki ofanjarðar. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, þannig að veiði (er) var um tíma ágæt. Sumir telja að besti veiðistaðurinn er syðst í vatninu þar sem heitt jarðvatn frá hverasvæðum sytrar út í vatnið, en reyndir veiðimenn vita að besti veiðistaðurinn er undan norðanverðu Hvannahrauni (Hvammahrauni) austan við vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hveravolgrur.

Kleifarvatn er mjög kalt frá náttúrunnar hendi, en volgrur þessar skapa bleikjunni ákjósanleg skilyrði. Eldbrunnið og hrjóstrugt umhverfi vatnsins er bæði sérstakt og fagurt. Í jarskjálftunum 17. og 21. júní 2000 opnuðust sprungur á vatnsbotninum og vatnsborðið lækkaði verulega, en byrjaði að hækka aftur árið 2004.

Krýsuvíkurland sunnan Kleifarvatns tilheyrir landi Hafnarfjarðar, sem í rauninni er forgangssök því í vitund landvætta vorra tilheyrir það umdæmi Grindavíkur. Núverandi ráðstöfun er afleiðing klækja mannanna í valdastöðum þess tíma.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Umhverfisráðuneytið ákvað ekki alls fyrir löngu að veita Náttúrufræðistofu Kópavogs 300.000 kr. styrk vegna fyrirhugaðra lífríkisrannsókna á Kleifarvatni. Ástæðan er sú að Kleifarvatn er afskaplega áhugavert vatn. Það er mjög djúpt og tært, í því er verulegur jarðhiti, það er án afrennslis á yfirborði og í því geta orðið verulegar vatnsborðssveiflur. Þrátt fyrir þetta hafa litlar rannsóknir farið fram á lífríki þess og vistkerfi. Fróðlegt verður að skoða niðursstöðurnar þá og þegar þær liggja fyrir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnsyfirborð 2000-2004 (Vatnamælingar Orkustofnunar).

Vatnið er (var og er þess á milli) þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97 m djúpt. Það hefur lítilsháttar aðrennsli en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Jarðhitinn er einkum syðst í vatninu og einnig út af Innristapa.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og eins. Á það að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð.

Sveifluháls

FERLIR á Sveifluhálsi 17. júní 2000.

Síðan í jarðskjálftanum mikla (þeir reyndust vera tveir) í júní 200 lækkaði vatnsborð Kleifarvatns um 4 metra. Sprungur í vatnsbotninum opnuðust í Suðurlandsskjálftanum sem svo var nefndur og olli auknum leka úr vatninu. Við lækkaði vatnsborðið og flatarmál Kleifarvatns minnkaði um 20% eða úr 10 km2 í 8 km2, og sandur og leir, sem áður var undir vatnsborðinu, varð nú á þurru. Tanginn norðan í vatninu, undan Lambhagatanga, kom upp úr undirdjúpunum og þurrgegnt varð með vatninu að norðaustanverðu.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

FERLIR var staddur á Sveifluhálsi er jarðskjálftarnir riðu yfir 17. júni 2000 með nokkurra mínútna millibili. Fyrst heyrðist vaxandi hvinur úr suðri og siðan má segja með sanni að Sveifluhálsinn hafi risið undir nafni; hann gekk í bylgjum líkt og um öldugang væri um að ræða. Í kjölfarið fylgdi annar og öflugri jarðskjálfti, beint undir fótum. Þá var eins og lamið væri með sleggju upp undir yfirborðið. Grjót hrundi úr nærliggjandi hlíðum í báðum tilvikum, en þegar einn félaganna horfði niður á skóna sína tók hann eftir að þeir voru hálfgrafnir í sendinn jarðveginn.
Síðastliðið hálft ár hefur vatnshæð Kleifarvatns verið nokkuð stöðugt, en hefur þó sveiflast með veðurfari að venju, hækkað við úrkomu, en lækkað í þurrkatíð.
Ef til vill er Kleifarvatn að ná jafnvægi við grunnvatni en of snemmt er að fyllyrða að ekki lækki meira í Kleifarvatni að sinni. Vatnsborð Kleifarvatns mun smám saman þéttast á ný með leir og öðru seti, og vatnsborððið hækka. Það mun þó taka Kleifarvatn ár eða áratugi að ná þeirri vatnshæð, sem var fyrir Suðurlandskjálftann í júní 2000.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV. Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2, sem fyrr sagði, og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er að öðru leyti afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann, en rannsaka þarf nánar tengsl þess við grunnvatn í nágrenninu. Kleifarvatn hefur um allnokkurt skeið verið notað sem úrkomumælir á suðvesturlandi. Mælirinn er (var) í litlu húsi vestan við vatnið, undir Hellunni.

Kaldrani

Kleifarvatn.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja. Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring, sem fyrr segir.
Af nálægum ummerkjum að dæma hefur Kleifarvatn einhverju sinni, jafnvel oftar en einu sinni, risið hærra en þekkist. Þegar grant er skoðað má lesa lækjarfarveg til suðurs frá vatninu. Fremst varð Nýjaland til með tilheyrandi afleiðingum fyrir hinn mikla dyngjugýg norðan Stóra-Lambafells. Farvegurinn hefur legið yfir núverandi Grænavatn og mótað landslagið allt niður á Krýsuvíkurberg.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indjáninn.

Kleifarvatn er án afrennslis á yfirborði. Fyrir jarðskjálftana árið 2000 rann lækur úr vatninu norður í Lambhagatjörn og seig vatnið þaðan í gegnum móbergshryggina og hraunin til sjávar norður í Straumsvík. Sumarið 2000 opnaðist 20-40 cm víð sprunga við norðurenda vatnsins og þar streymir vatnið niður. Tvö hverasvæði hafa síðan komið í ljós suðurenda vatnsins og nú er manngengt í hella í Syðristapa sem áður voru í vatnsborðinu

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í gegnum tíðina hefur Kleifarvatn verið vinsæll köfunarstaður. Í vatninu eru nefnilega góðar aðstæður fyrir þá sem eru að læra eða hafa lokið námskeiði og vilja æfa sig. Vatnið er frekar tært svona 10-15 metrar og skyggnið breytist ekki líkt og það gerir í sjónum. Þess vegna geta kafarar nánast alltaf gengið að aðstæðum vísum. Þó bera að geta þess að í miklum vindum og þá sérstaklega í austanátt getur vatnið átt það til að gára og öldurnar verða þó nokkuð háar í slíkum aðstæðum. Gallinn við vatnið er sá að dýralíf í því er fábreytt. Þarna eru stangveiðar algengar en að sjá fiska undir ydirborðinu er sjaldgæfara. Köfurum finnst það því hálfpartinn skrítið að nokkuð veiðist þarna yfirleitt.
Eflaust er besti köfunarstaðurinn staðsettur við Indjánann en það er auðþekkjanlegur steinstapi sem stendur við Stefánshöfða. Indíáninn fer ekki á milli mála þegar komið er á staðinn því ef hann er grannt skoðaður má sjá andlitsmynd í honum sem svipar til indíána. Piltar á leið í Vinnuskólann í Krýsuvík um og eftir 1960 höfðu jafnan það að venju að reka upp indíánaöskur í rútunni þegar ekið var fram hjá steinstöpli þessum – svona til að minna á að nú væri komið að því að takast á við viðfangsefni sumarsins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Botn vatnsins er sandbotn og þegar komið er u.þ.b 60 metra frá landi fer þessi botn að breytast í gróðursælan botn allt að brekkunni sem liggur niður á hyldýpi eða um 97 metrana, en hún er aurbrekka sem auðvelt er að þyrla upp.
Fræg skáldsaga ber nafn vatnsins. Kleifarvatn er áttunda skáldsaga Arnaldar Indriðasonar. Bækur hans hafa notið gríðarlegra vinsælda og verið þaulsætnar á mestöluslistum hér heima og erlendis á undanförnum árum og tvö ár í röð hlaut Arnaldur Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina og Grafarþögn. Kleifarvatn gefur bestu bókum hans ekkert eftir. Hún fjallar m.a. um beinagrind, sem fannst í vatninu er lækkaði í því í kjölfar jarðskjálfta.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Um Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni. 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

Kleifarvatn

Kleifarvatn að kvöldi.

Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Stefánshöfði

Stefánshöfði – minningarskjöldur.

Stefán Stefánsson var kunnastur leiðsögumaður útlendra ferðamanna á landi hér. Hann gerþekkti landið af löngum ferðalögum á hestum hvert einasta sumar. Þó mun Krýsuvík hafa verið honum kærari en flestir aðrir staðir. Við Kleifarvatn hefur skjöldur verið felldur í klett til minningar um hann og höfði, áður Innristapi, verið nefndur eftir honum. Á þeim stað var ösku hans dreift út á vatnið að fyrirlagi hans sjálfs.
Kaldrani er talinn elstur bæja í Krýsuvík. Honum tengist þjóðsagan af Herdísi og Krýsu, sem gerð hefur verið góð skil í annarri leiðarlýsingu um svæðið sunnan og austan undir Stóru-Eldborg. Enn má sjá móta fyrir garðlagi og jafnvel tóftum undir lítilli hæð neðan við einn gíganna, sem þarna eru. Í þeim er friðlýsingarmerki Þjóðminjasafnsins.

Kleifarvatn

Ytristapi, öðru nafni Stefánshöfði.

Stefán Stefánsson sagði í skrifum sínum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.
Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði. Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetraræagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Hellurhellir

Smiðjuhellir undir Hellunni.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.
Leirhver mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Austurnegjahver, eða Stórihver, eins og hann er stundum nefndur, sést vel frá sunnanverðu Kleifarvatni.
Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, við Seltún. Endur fyrir löngu mun hafa þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurengjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.
Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.”

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Árni Óla fjallar um nýja Krýsuvíkurveginn undir Hellunni. Þar segir hann m.a. að “hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.
Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýja Suðurlandsbraut rúmir 70 km., eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg.
En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna.
Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Er það að vísu ekki nema 3 km. Leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Innristapi.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Landnám 2002; Litla Grindavík numin.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning, Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallir” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.”
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Gullbringa er nafn á “fjalli” austan við Kleifarvatn. Aðrir segja að það sé nafnið á hlíðinni að baki henni, enda er hún er jafnan roðagylt af kvöldsólinni þar sem hún gæist yfir og til hliðar við Miðdegishnúk á fögru sumarkvöldi. Gamla þjóðleiðin lá um Hvannahraun (Hvammahraun). Við hana er Gullbringuhellir, gott skjól í vondum veðrum. Í hellinum er flórað bæli.

Kleifarvatn

Vatnshlíðarhorn.

Í Vatnshlíðinni eru sérstakar jarðmyndanir, s.s. hraunfoss, sem “frosið” hefur efst í einu gili hennar svo undrum sætir. Undir Lambhaga er hlaðin rétt og hvíluskúti smalanna er þeir komu með féð af fjalli. Lambhagatjörni er sérstakt jarðfræðifyrirbæri, sem og skútinn undir hellunni. Hann er til kominn, líkt og skútinn bak við Indíánann, vegna ágangs vatnsins. Þeir, sem og aðrir skúta við norðanvert vatnið, eru ágætir vitnisburðir um fyrrum hærri vatnsstöðu þess, en skútarnir eru tilkomnir vegna ágangs vatns á móbergið til lengri tíma.
Skútinn undir Hellunni er brotabergskenndur, en þar mun Þorsteinn frá Hömrum við Húsatóftir haft smiðju um tíma. Smíðaði hann það fyrir vegavinnumenn og aðra það er þeir þurftu. Þá var skútinn um nokkurt skeið afdrep veghefilsstjóra, er unnu að því að bæta Krýsuvíkurveginn, enda ekki vanþörf á oft á tíðum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 05 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.reykjanes.is/
-http://www.os.is/
-http://www.natkop.is/
-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Sunnudagsblaði Tímans 25. júní 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.
-Dulheimar 97.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – norðurljós.

Gullbringuhellir

Farið var að jaðri Hvammahrauns austan Kleifarvatns til að leita Hvammahraunshellis.

Jón Bergsson leiddi leitarhópinn, en hann hafði rekist á hellisop þarna á leið sinni um Gullbringur nokkrum áratugum fyrr. Hann var þá ljóslaus og gat ekki kannað nánar.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Þarna, norðan Gullbringu (ranglega merkt á landakort), liggur Dalaleiðin í fleyg upp gras- og lyngbrekku, upp með suðurjaðri hraunsins og áfram norður yfir það allnokkru ofar, neðan hinnar eiginlegu Gullbringu. Norðan hennar er Gullbringuhellir (Jónshellir).

Greinilegt var að engin umferð hefur verið um hellisopið í langan tíma. Dýjamosi er á steinunum innan við opið, en þar voru hvorki spor og né önnur ummerki. Haldið var niður í hellinn, en nokkuð hrun er í fremst í honum. Komið var niður á slétt gólf stórrar hraunrásar. Hraunstrá voru í loftum. Innar þrengist rásin. Þar var hlaðið sporöskjulaga fleti á þurrum stað. Gólfið undir er slétt og grjótið var greinilega týnt til og flórað þarna undir fleti. Ofan við fletið var fúin spýta, en til hliðar við þar voru nokkur smábein. Haldið var innar í hellinn, en eftir u.þ.b. 40 metra lækkar hann og þarf að skríða að opi þar sem rásin hallar niður á við og víttkar á ný (eftir um 70 metra). Ákveðið var að fara ekki lengra að sinni, en skoða bælið betur. Ofan við það virtist hellisveggurinn vera svartur af sóti á kafla. Fallið hafði úr loftinu að veggnum. Góð birta er allt að bælinu og sést vel frá því að opinu, en ekki sést í fletið ef staðið er við opið og horft inn.

Gullbringuhellir

Í Gullbringuhellir.

Hellirinn var nefndur Jónshellir þangað til annað kemur í ljós. Jafnframt var ákveðið að láta Hellarannsóknarfélagið vita um hellinn því skoða þarf hann nánar, einkum innan og neðan við þrengslin. Þegar haldið var upp frá jarðfallinu birtist um 10 m. hellisrás.
Á næstunni verður reynt að grafa upp sögur og sagnir af notkun hellisins, en allt eins er víst að þarna hafi forðum verið athvarft eða skjól fyrir vegfarendur á leið um Dalaleiðina sunnanverða.
Skammt ofar og norðar í Hvammahrauni er Hvammahraunshellir (lýst síðar).
Í bakaleiðinni var litið ofan í Brunntorfuhelli, en hann er á um fimm metra dýpi. Sá hellir bíður enn nákvæmari skoðunar.
Veður var frábært – hlýtt og bjart.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir. Nafnarnir Jón Bergs og Jón Svanþórsson við opið.