Færslur

Bollar

Selvogsgatan var gengin frá Bláfjallavegi áleiðis að Grindarskörðum við Kristjánsdali.

Ekkitilvatn

Ekkitilvatn.

Gamla þjóðleiðin var fetuð upp skörðin, upp á brún og síðan haldið áfram til vesturs ofan hennar. Komið var inn í tiltölulega sléttan dal, opinn til suðurs. Haldið var upp úr honum að norðanverðu. Þegar komið var upp yfir brúnina að austanverðu blasti við fallegt lítið ónafngreint vatn. Á vatninu var gullkista.
Sú saga fylgdi kistunni að hún sæist á vatninu einungis einn dag á ári. Reyndar væri vatnið ekki til, stundum nefnt Ekkitilvatn, en hér verður það nefnt Gullkistuvatn.

Ekkitilvatn

Við Ekkitilvatn.

Sagan segir að í fyrndinni hafi bóndi nokkur, vel efnum búinn, staðið í búferlaflutningum að vetrarlagi. Á leiðinni suður með sjóð sinn hafi hann villst af leið í ófærð, orðið hræddur og ákveðið að sökkva kistlinum, sem sjóðinn geymdi, í vatnið í von um að enginn myndi verða hans var. Auðnaðist honum að komast til byggða myndi hann koma aftur síðar og sækja sjóðinn. Það gekk eftir, en er hann ætlaði að leita vatnsins nokkrum dögum síðar, fann hann það hvergi. Kom hann þá þeirri sögu á framfæri að ef einhver kæmi að vatni á þessum slóðum skyldi hinn sá sami varast að snerta það því vatnið væri eitrað.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Nú voru góð ráð dýr. Þarna var gullkista úti á vatninu, en ekki mátti snerta vatnið. Á bakkanum lágu nokkrir bandspottar. Einhverjum datt í hug að binda þá saman í einn langan, ganga síðan með annan endann yfir á öndverðan bakka og reyna að slæða kistuna þannig yfir vatnið. Það gekk eftir. Þegar kistan var opnuð leyndist í henni bréf frá bóndanum forna, en hins vegar engin veraldleg verðmæti. Kistunni ásamt bréfinu góða var því komið fyrir aftur á sama stað á vatninu. Þess skal getið að er FERLIR kom þarna að nokkrum dögum seinna var ekkert vatn þar að sjá.

 

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli (Konungsfelli).

Gengið var niður af hlíðunum að sunnanverðu og strikið síðan tekið að Kóngsfelli, landamerkjum Gullbringu- og Árnessýslu. Sumir segja þau reyndar vera í Stóra-Kóngsfellið við Drottningu í Bláfjöllum og enn aðrir í Litla-Kóngsfell undir Stórkonugjá, sem er suðaustan við fyrstnefnda Kóngsfellið. Kóngsfellið er fallegur eldgígur, klofinn og auðveldur gegnumgöngu. Í miðju hans er laut, gott skjól fyrir öllum áttum. Segir sagan að nafngiftin sé komin til vegna þess að þarna hafi fjárkóngarnir hist í upphafi leita, ráðið ráðum sínum og skipt liði.
Þá var gengið til vesturs sunnan við Stórabolla og Miðbolla að Kerlingarskarði, niður það með stuttu stoppi við Drykkjarsteininn efst í því og götunni síðan fylgt uns komið var að upphafsstað við Bláfjallaveginn.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Bollar

Bollar.