Gengið var að fyrrum gullvinnslusvæðinu í Þormóðsdal og kíkt á nýlegt svæði þar sem gerðar hafa verið tilraunaboranir í sama tilgangi og fyrrum. Það mun hafa verið Einar Benediktsson, skáld, sem beitti sér fyrir námugreftrinum fyrrum (1905). Náman stóð lengi opin, en nú hefur verið rutt fyrir opið til að fyrirbyggja að einhver fari sér að voða í göngunum. En það er fleira merkilegt – og jafnvel merkilegra – í Þormóðsdal en gull, því ekki er allt gull sem glóir. Vitað er að gullvinnsla bæði mengar og raskar umhverfinu verulega og ekki síður varanlega. Meginútsýninu neðst í Seljadal hefur einnig verið verulega raskað (í boði Landsvirkjunnar), en vonandi ekki varanlega.
Seljadalsáin sjálf virðist líka luma á fleiru en tæru vatni…
Á vefsíðu þann 8. des. 2005 kom m.a. eftirfarandi fram um fyrirhugaða frekari gullvinnslu: „Gull í námu er hins vegar ekki endurnýjanlegt. Það er flutt burtu og kemur aldrei aftur. Gullvinnslu fylgja gríðarleg náttúruspjöll. Heilu hlíðunum, heilu fjöllunum er beinlínis skolað í burtu. Klettar sprengdir upp. Grónu landi breytt í ógeðslegt drullusvað. Þeir sem hafa komið á svona svæði skilja við hvað er átt. Reyndar getur náttúran sloppið vel ef ríkar gullæðar finnast. Því er ekki að heilsa hér. Gullmagnið er við neðri mörk hins vinnanlega (og líklega rétt undir þeim). Það þýðir aðeins eitt; hámarks náttúruspjöll. Hvers vegna hafa náttúruverndarmenn okkar ekki látið í sér heyra um þetta mikilvæga mál?“
Í fréttum RÚV 10. des. 2005 sagði m.a.: „Mikið rask af gullgreftri – Nútímavinnsla á gulli er alltaf umhverfisvandamál, segir prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands. Vinnslunni fylgir mikið rask og blásýra er notuð til að greina gullið frá jarðveginum. Rannsóknarboranir til gulleitar eru í þann mund að hefjast í Þormóðsdal ofan Reykjavíkur. Jarðrask og eiturefnahætta fylgir nútímavinnslu á gulli. Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, segir gullvinnslu alltaf vera umhverfisvandamál, mismunandi þó eftir aðstæðum. Algengast sé að greina gullið úr jarðveginum með því að leysa það upp í blásýru í opnum tjörnum. Eftir helgina eiga að hefjast rannsóknarboranir í Þormóðsdal ofan Reykjavíkur til að kanna hvort nægilega mikið gull sé í jarðveginum og hversu stór hugsanleg náma yrði. Finnist nægilega hátt hlutfall gulls í berginu, gæti talist fýsilegt að hefja gullvinnslu.“
Í annarri frétt RÚV um efnið þann 15. des. 2005 sagði: „Borað eftir gulli í Þormóðsdal – Borun er hafin á gullleitarsvæðinu í Þormóðsdal, rétt ofan við Reykjavík. Áætlað er að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í apríl og verður þá hugsanlega hægt að meta hvort gullmagnið í berginu sé nægilega mikið. Borun er hafin á gullleitarsvæðinu í Þormóðsdal, rétt ofan við Reykjavík. Áætlað er að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í apríl og verður þá hugsanlega hægt að meta hvort gullmagnið í berginu sé nægilega mikið. Eins og fréttastofa Sjónvarps greindi frá í síðustu viku hafa breskir áhættufjárfestar lagt um 100 miljónir króna í gullleitina en það er íslenska fyrirtækið Melmir sem sér um verkið. Fyrirtækið hefur áður borað eftir gulli á þessum sama stað. Notaður er kjarnabor frá Jarðborunum og þegar fréttastofu bar að garði um miðjan dag voru þar fjórir menn að störfum. Stefnt er að því að unnið verið á tveimur vöktum allan sólarhringinn næstu mánuði. Boraðar verða 30 holur niður á allt að 100 metra dýpi. Þetta er í þriðja sinn sem leitað er að gulli í Þormóðsdal en það var síðast gert fyrir tæpum áratug. Fyrri rannsóknir sýndu að bergið er afar gullríkt og eru menn því nokkuð bjartsýnir.“
Þá greindi RÚV enn þann 24. sept. 2006 frá gullleitinni: „Gullleit í Þormóðsdal lofar góðu – Meira gull hefur fundist í Þormóðsdal en menn þorðu að vona. Niðurstöður rannsóknarborana Melmis vegna gulleitar eru að koma í ljós. Gullleit hefur staðið yfir víða um land og lofa fleiri staðir góðu. Búið er að bora 32 holur, allar í landi Þormóðsdals og Búrfells rétt í grennd við Hafravatn í Mosfellsbæ. Niðurstöður eru alljákvæðar að því er virðist. Rannsóknarleyfi fyrir frekari gullrannsóknir hafa verið gefin út fyrir 14 svæði á landinu. Um tonn af grjóti þarf til að vinna 30-40 grömm af gulli.“
Ljóst er, þrátt fyrir framangreindar fréttir, að lítil von sé til þess að gullvinnsla verði hafin á svæðinu. Bæði er kostnaðarhlutfallið við vinnsluna mikið og ávinningsvonin lítil, auk þess sem umhverfismálin vega þyngra nú en þau gerðu einungis fyrir nokkrum misserum síðan.
Hér á landi finnast hvorki gimsteinar né dýrir málmar. Demantar finnast einkum í mjög fornu, basísku storkubergi og myndbreyttu bergi, svo og í sand- og malarlögum þar sem þeir sitja eftir þegar mýkra berg eyðist. Málmarnir gull (Au), silfur (Ag) og kopar (Cu) finnast einkum í fellingamyndunum, til dæmis Andes- og Klettafjöllum á vesturjaðri Ameríku, í Úralfjöllum, á Cornwall í Englandi og Harz-fjöllum í Þýskalandi (Harz-fellingin) og svo framvegis, auk fornra og rofinna fellingamyndana, til dæmis í Kanada og Ástralíu. Oftast tengjast þessar myndanir graníthleifum í jörðinni þannig að meðan hleifarnir voru að kólna og kristallast safnaðist vatn og ýmis efni, meðal annars þessir málmar, í síðustu bráðina og mynduðu loks æðar í granítinu og í grannberginu í kring. Að auki olli hið kólnandi granít hringstreymi grunnvatns um bergið sem leysti út málma úr berginu meðan vatnið var að hitna og felldi þá út annars staðar þegar það kólnaði. Á einum stað í Búrfelli má sjá þessar aðstæður.
Ýmislegt er núorðið vitað um þau ferli sem að verki eru við samsöfnun þessara tiltölulega sjaldgæfu efna í nemanlegt form, en um gullið var lengstum sagt að það “finnist þar sem það finnst,” nefnilega að ekkert nema heppni gæti leiðbeint gullleitarmönnum. Gull finnst eingöngu sem málmur, en hin efnin tvö, silfur og kopar, einkum í ýmsum samböndum, oftast sem súlfíð. Algengasta koparsteindin er eirkís (FeCuS2) en silfur myndar til dæmis argentít (Ag2S). Hlunkar af koparmálmi hafa fundist í basalti, til dæmis í Færeyjum og Kanada, og er talið að jarðhitalausnir hafi safnað málminum saman. Sömuleiðis finnst silfurmálmur stundum í jarðhitaæðum í bergi. Jarðhitaæðar eru víða í Búrfelli.
Gerð hafa verið nokkur tilhlaup til málmleitar hér á landi – frægar eru fyrrnefndar tilraunir árið 1905 á vegum Einars Benediktssonar við Þormóðsdal í Mosfellssveit og annarra manna í Vatnsmýri í Reykjavík 1907. Sennilegt er að Vatnsmýrar-gullæðið hafi byggst á svikum eða misskilningi, en síðari tíma gullleitir benda til þess að Einar Benediktsson hafi verið furðulega heppinn með jarðfræðinga eða gulleitarmenn og þeir rambað á vænlegasta gullstaðinn á landinu. Kvarsæðin við Þormóðsdal er þó sennilega alltof lítil að rúmmáli til að gullvinnsla borgi sig, og sama á við um koparvinnslu í Svínhólanámu í Lóni þar sem nokkuð er af eirkís í æðum ásamt öðrum málmsteindum, og talið hafa myndast úr kvikuvessum.
Hreint gull (Au) er sjaldan notað í eitthvað annað en gullstangir og safngripi eins og gullpeninga. Ástæðan er sú að hreint gull er of mjúkt til smíða og því er það blandað með kopar eða öðrum málmum þegar smíða á skart og gripi úr gulli. Gull er því yfirleitt blandað öðrum málmum eins og silfri (Ag), platínu (Pt), sinki (Zn) eða kopar (Cu).
Jaspis er dulkornótt afbrigði af kísli, SiO2. Algengustu afbrigðin eru rauð-, gul- og móleit en sjaldnar græn. Litbrigðin eru hins vegar sennilega nær óendanlega mörg, stundum í sama steininum. Jaspis er ógagnsær, jafnvel á skelþunnum brúnum. Hann myndast einkum við lághita-ummyndun þar sem hann fellur út úr kísilmettuðu grunnvatni. Hér á landi finnst hann einkum sem holu- og sprungufylling í tertíeru bergi, og samkvæmt Íslensku steinabókinni eftir Kristján Sæmundsson og Einar Gunnlaugsson er þekktur fundarstaður í Hestfjalli í Borgarfirði.
Í ferðinni rak FERLIR augun í „grænleitt“ í Seljadalsánni skammt frá gamla gullleitarsvæðinu. Það skyldi þó aldrei vera….
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín. (Sjá meira um nágrenni Þormóðsdals.
Heimildir m.a.:
-Britannica Online.
-h.i. visindavefur