Færslur

Þormóðsdalur

Gengið var að fyrrum gullvinnslusvæðinu í Þormóðsdal og kíkt á nýlegt svæði þar sem gerðar hafa verið tilraunaboranir í sama tilgangi og fyrrum. Það mun hafa verið Einar Benediktsson, skáld, sem beitti sér fyrir Útsýni frá námusvæðinu - í boði Landsvirkjunnarnámugreftrinum fyrrum (1905). Náman stóð lengi opin, en nú hefur verið rutt fyrir opið til að fyrirbyggja að einhver fari sér að voða í göngunum. En það er fleira merkilegt – og jafnvel merkilegra – í Þormóðsdal en gull, því ekki er allt gull sem glóir. Vitað er að gullvinnsla bæði mengar og raskar umhverfinu verulega og ekki síður varanlega. Meginútsýninu neðst í Seljadal hefur einnig verið verulega raskað (í boði Landsvirkjunnar), en vonandi ekki varanlega.
Seljadalsáin sjálf virðist líka luma á fleiru en tæru vatni…
Á vefsíðu þann 8. des. 2005 kom m.a. eftirfarandi fram um fyrirhugaða frekari gullvinnslu: “Gull í námu er hins vegar ekki endurnýjanlegt. Það er flutt burtu og kemur aldrei aftur. Gullvinnslu fylgja gríðarleg náttúruspjöll. Heilu hlíðunum, heilu fjöllunum er beinlínis skolað í burtu. Klettar sprengdir upp. Grónu landi breytt í ógeðslegt drullusvað. Þeir sem hafa komið á svona svæði skilja við hvað er átt. Reyndar getur náttúran sloppið vel ef ríkar gullæðar finnast. Því er ekki að heilsa hér. Gullmagnið er við Gamla námusvæðiðneðri mörk hins vinnanlega (og líklega rétt undir þeim). Það þýðir aðeins eitt; hámarks náttúruspjöll. Hvers vegna hafa náttúruverndarmenn okkar ekki látið í sér heyra um þetta mikilvæga mál?”
Í fréttum RÚV 10. des. 2005 sagði m.a.: “Mikið rask af gullgreftri – Nútímavinnsla á gulli er alltaf umhverfisvandamál, segir prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands. Vinnslunni fylgir mikið rask og blásýra er notuð til að greina gullið frá jarðveginum. Rannsóknarboranir til gulleitar eru í þann mund að hefjast í Þormóðsdal ofan Reykjavíkur. Jarðrask og eiturefnahætta fylgir nútímavinnslu á gulli. Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, segir gullvinnslu alltaf vera umhverfisvandamál, mismunandi þó eftir aðstæðum. Algengast sé að greina gullið úr jarðveginum með því að leysa það upp í blásýru í opnum tjörnum. Eftir helgina eiga að hefjast rannsóknarboranir í Þormóðsdal ofan Reykjavíkur til að kanna hvort nægilega mikið gull sé í jarðveginum og hversu stór hugsanleg náma yrði. Finnist nægilega hátt hlutfall gulls í berginu, gæti talist fýsilegt að hefja gullvinnslu.”
Jarðhitaútfelling í bergi í BúrfelliÍ annarri frétt RÚV um efnið þann 15. des. 2005 sagði: “Borað eftir gulli í Þormóðsdal – Borun er hafin á gullleitarsvæðinu í Þormóðsdal, rétt ofan við Reykjavík. Áætlað er að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í apríl og verður þá hugsanlega hægt að meta hvort gullmagnið í berginu sé nægilega mikið. Borun er hafin á gullleitarsvæðinu í Þormóðsdal, rétt ofan við Reykjavík. Áætlað er að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í apríl og verður þá hugsanlega hægt að meta hvort gullmagnið í berginu sé nægilega mikið. Eins og fréttastofa Sjónvarps greindi frá í síðustu viku hafa breskir áhættufjárfestar lagt um 100 miljónir króna í gullleitina en það er íslenska fyrirtækið Melmir sem sér um verkið. Fyrirtækið hefur áður borað eftir gulli á þessum sama stað. Notaður er kjarnabor frá Jarðborunum og þegar fréttastofu bar að garði um miðjan dag voru þar fjórir menn að störfum. Stefnt er að því að unnið verið á tveimur vöktum allan sólarhringinn næstu mánuði. Boraðar verða 30 holur niður á allt að 100 metra dýpi. Þetta er í þriðja sinn sem leitað er að gulli í Þormóðsdal en það var síðast gert fyrir tæpum áratug. Fyrri rannsóknir sýndu að bergið er afar gullríkt og eru menn því nokkuð bjartsýnir.”
Þá greindi RÚV enn þann 24. sept. 2006 frá gullleitinni: “Gullleit í Þormóðsdal lofar góðu – Meira gull hefur fundist í Þormóðsdal en menn þorðu að vona. Niðurstöður rannsóknarborana Melmis vegna gulleitar eru að koma í ljós. Gullleit hefur staðið yfir víða um land og lofa fleiri staðir góðu. Búið er að bora 32 holur, allar í landi Þormóðsdals og Búrfells rétt í grennd við Hafravatn í Mosfellsbæ. Niðurstöður eru alljákvæðar að því er virðist. Rannsóknarleyfi fyrir frekari gullrannsóknir hafa verið gefin út fyrir 14 svæði á landinu. Um tonn af grjóti þarf til að vinna 30-40 grömm af gulli.”
Svæðið - loftmyndLjóst er, þrátt fyrir framangreindar fréttir, að lítil von sé til þess að gullvinnsla verði hafin á svæðinu. Bæði er kostnaðarhlutfallið við vinnsluna mikið og ávinningsvonin lítil, auk þess sem umhverfismálin vega þyngra nú en þau gerðu einungis fyrir nokkrum misserum síðan.
Hér á landi finnast hvorki gimsteinar né dýrir málmar. Demantar finnast einkum í mjög fornu, basísku storkubergi og myndbreyttu bergi, svo og í sand- og malarlögum þar sem þeir sitja eftir þegar mýkra berg eyðist. Málmarnir gull (Au), silfur (Ag) og kopar (Cu) finnast einkum í fellingamyndunum, til dæmis Andes- og Klettafjöllum á vesturjaðri Ameríku, í Úralfjöllum, á Cornwall í Englandi og Harz-fjöllum í Þýskalandi (Harz-fellingin) og svo framvegis, auk fornra og rofinna fellingamyndana, til dæmis í Kanada og Ástralíu. Oftast tengjast þessar myndanir graníthleifum í jörðinni þannig að meðan hleifarnir voru að kólna og kristallast safnaðist vatn og ýmis efni, meðal annars þessir málmar, í síðustu bráðina og mynduðu loks æðar í granítinu og í grannberginu í kring. Að auki olli hið kólnandi granít hringstreymi grunnvatns um bergið sem leysti út málma úr berginu meðan vatnið var að hitna og felldi þá út annars staðar þegar það kólnaði. Á einum stað í Búrfelli má sjá þessar aðstæður.
Ýmislegt er núorðið vitað um þau ferli sem að verki eru við samsöfnun þessara tiltölulega sjaldgæfu efna í nemanlegt form, en um gullið var lengstum sagt að það “finnist þar sem það finnst,” nefnilega að ekkert nema heppni gæti leiðbeint gullleitarmönnum. Gull finnst eingöngu sem málmur, en hin efnin tvö, silfur og kopar, einkum í ýmsum samböndum, oftast sem súlfíð. Algengasta koparsteindin er eirkís (FeCuS2) en silfur myndar til dæmis argentít (Ag2S). Hlunkar af koparmálmi hafa fundist í basalti, til dæmis í Færeyjum og Kanada, og er talið að jarðhitalausnir hafi safnað málminum saman. Sömuleiðis finnst silfurmálmur stundum í jarðhitaæðum í bergi. Jarðhitaæðar eru víða í Búrfelli.
GÓþekkt steintegund í Seljadalsáerð hafa verið nokkur tilhlaup til málmleitar hér á landi – frægar eru fyrrnefndar tilraunir árið 1905 á vegum Einars Benediktssonar við Þormóðsdal í Mosfellssveit og annarra manna í Vatnsmýri í Reykjavík 1907. Sennilegt er að Vatnsmýrar-gullæðið hafi byggst á svikum eða misskilningi, en síðari tíma gullleitir benda til þess að Einar Benediktsson hafi verið furðulega heppinn með jarðfræðinga eða gulleitarmenn og þeir rambað á vænlegasta gullstaðinn á landinu. Kvarsæðin við Þormóðsdal er þó sennilega alltof lítil að rúmmáli til að gullvinnsla borgi sig, og sama á við um koparvinnslu í Svínhólanámu í Lóni þar sem nokkuð er af eirkís í æðum ásamt öðrum málmsteindum, og talið hafa myndast úr kvikuvessum.
Hreint gull (Au) er sjaldan notað í eitthvað annað en gullstangir og safngripi eins og gullpeninga. Ástæðan er sú að hreint gull er of mjúkt til smíða og því er það blandað með kopar eða öðrum málmum þegar smíða á skart og gripi úr gulli. Gull er því yfirleitt blandað öðrum málmum eins og silfri (Ag), platínu (Pt), sinki (Zn) eða kopar (Cu).
Jaspis er dulkornótt afbrigði af kísli, SiO2. Algengustu afbrigðin eru rauð-, gul- og móleit en sjaldnar græn. Litbrigðin eru hins vegar sennilega nær óendanlega mörg, stundum í sama steininum. Jaspis er ógagnsær, jafnvel á skelþunnum brúnum. Hann myndast einkum við lághita-ummyndun þar sem hann fellur út úr kísilmettuðu grunnvatni. Hér á landi finnst hann einkum sem holu- og sprungufylling í tertíeru bergi, og samkvæmt Íslensku steinabókinni eftir Kristján Sæmundsson og Einar Gunnlaugsson er þekktur fundarstaður í Hestfjalli í Borgarfirði.
Í ferðinni rak FERLIR augun í “grænleitt” í Seljadalsánni skammt frá gamla gullleitarsvæðinu. Það skyldi þó aldrei vera….
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín. (Sjá meira um nágrenni Þormóðsdals.

Heimildir m.a.:
-Britannica Online.
-h.i. visindavefur

Járnbrautarteinn

Þormóðsdalur

Um gullnámuna í Þormóðsdal segir m.a. í Árbók VFÍ/TFÍ 1994-1995:
gull-13“Saga steiningar og tilrauna til gullnáms á Íslandi er nátengd. Lengi voru gamlar sagnir um að gull væri fólgið í jörðu í landi Miðdals í Mosfellssveit. Einar Guðmundsson lét á fyrsta áratug aldarinnar greina hversu mikið gull væri í sýnishorni úr kvartsæð sem lá yfir Seljadalsá. Niðurstöðurnar reyndust jákvæðar og í framhaldi af því var rannsóknum haldið áfram. Einar Benediktsson kom þar mikið við sögu og stóð hann ásamt öðrum fyrir stofnun nokkurra hlutafélaga um gullvinnslu í landi Þormóðsdals og Miðdals.
Aktieselskabet Pluto Limited var stofnað 1911 með bresku og norsku fjármagni og stóð það félag fyrir ítarlegum rannsóknum árin 1912 og 1913. Grafnar voru geilar í kvartsæðina niður sitt hvoru megin við Seljadalsá, en niðurstöður rannsókna þóttu ófullægjandi og rétt þótti að kanna málið enn frekar.
gull-1Fyrri heimsstyrjöldin tafði framgang rannsókna, en Norræna námufélagið vann við rannsóknir í Miðdal árin 1923-1924. Hlutafélagið Arkturus sem var stofnað með Þjóðverjum vann á svæðinu árin 1924-1925. Þessi félög réðust í kostnaðarsamar rannsóknir og grófu námugöng eftir kvartsæðinni sitt hvorum megin við Seljadalsá. Niðustöður rannsókna sem þessir aðilar stóðu fyrir voru nokkuð samhljóða. Gull var vissulega í kvartsinu og sýndu mælingar það var á bilinu 11-315 grömm í hverju tonni af grjóti. I mörgum gullnámum í Suður-Afríku, þar sem námuvinnsla þótti arðbær fengust aðeins 8-10 grömm af gulli úr hverju tonni af málmgrýti. Ætla má að að lengd kvartsæðarinnar, tæpir tveir kílómetrar og takmarkað umfang námunnar í Miðdal hafi verið helsta ástæðan fyrir því að álitið var að vinnsla á gulli borgaði sig ekki.
Ekki var þar með öll sagan sögð með námuvinnslu á gullkvartsi. Guðmundur Einarson frá
frá Miðdal (sonur Einars Guðmundssonar) hafði kynnst því erlendis, hvernig ýmsar bergtegundir voru notaðar til skreytinga við utanhúðun og kynnti Guðjóni Samúelssyni hugmyndir sínar. Á þessum árum var Þjóðleikhúsið í byggingu og var erfitt að fá gjaldeyri til að flytja inn erlend steinefni. Það þótti því tilvalið að nota kvars úr námunni í Miðdal og í framhaldi af því þróaði Guðjón aðferðir við hrafntinnukvartshúðun, fyrst á útveggi Þjóðleikhússins.
Námuvinnsla í landi Miðdals og Þormóðsdals hélt þannig áfram en með öðrum formerkjum, þar sem fyrst og fremst var unnið kvarts úr haugunum sem urðu eftir gullgöftinn. Kvartsmulningur úr þessari námu hefur líklegast verið ríkjandi efni á fyrsta áratug steiningarinnar. Vorið 1933 var byrjað á utanhúðun útveggja á Þjóðleikhúsinu, með aðferð sem var nefnd hrafntinnu-kvartshúðun, eftir fyrirsögn Guðjóns Samúelssonar, sem þá var húsameistari ríkisins. Verkið var unnið af nokkrum múrurum undir stjórn Kornelíusar Sigmundssonar múrarameistara. Þjóðleikhúsið var fyrsta byggingin sem var múrhúðuð að utan með þessari aðferð, sem fólst í því að þrýsta eða kasta steinmulningi í límlag utan á afréttingarlag. Í múrhúðina utan á Þjóðleikhúsinu var notuð hrafntinna, kvarts, silfurberg og kalksteinn að hluta. Aðferðin sem slík er séríslensk og var Guðjón um tíma skráður fyrir einkaleyfi á aðferðinni, m.a. á Íslandi og í Danmörku.”

gull-2

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1999 er einnig sagt frá gullnámunni: “Fyrstu athugun á því hvort þarna væri að fmna gull gerði Einar H. Guðmundsson bóndi í Miðdal er hann sendi Benedikt Gröndal kvarzmola og bað hann að rannsaka gullinnihald hans. Niðurstaða Gröndals var sú að lítið gull væri í molanum. Steingrímur J. Þorsteinsson segir svo frá því í bók sinni um Einar Benediktsson að Einar bóndi í Miðdal hafi sent Steingrími Tómassyni frænda sínum sýnishorn af jarðvegi úr landi sínu en Steingrímur var búsettur í Ástralíu og fékkst við gullleit fyrr á árum. Steingrími Tómassyni þóttu sýnishornin álitleg og kom hann heim árið 1908 til frekari rannsókna að tilhlutan Einars Benediktssonar. Niðurstaða Steingríms var gull væri að finna beggja vegna Seljadalsár bæði í landi Miðdals og Þormóðsdals.
gull-3Í ævisögu sinni segir Tryggvi Einarsson frá Miðdal að Steingrímur Tómasson hafi ekki komið sérstaklega til landsins til að rannsaka gullið heldur var hann þegar hér var komið sögu orðinn aldraður og illa farinn af fyrra líferni. Þeim Miðdalsbræðrum þótti mikið til gamla mannsins koma og sýndu honum steina úr ánni sem þeir kölluðu draugasteina því að á þá glampaði þegar þeim var núið saman í myrkri. Steingrímur bað strákana að sýna sér hvar þeir hefðu fundið steinana. Eftir að hafa rannsakað þá komst hann að þeirri niðurstöðu að þetta væri gullkvarz. Steingrímur dvaldist hér á landi á annað ár en hélt síðan aftur til Ástralíu og hafði með sér sýnishornin úr Miðdal. Ári síðar sendi hann svo Einari Guðmundssyni niðurstöður úr nákvæmari rannsóknum sem sýndu að svo mikið væri þarna af gulli að það gæti borgað sig að vinna það. Hver svo sem ástæðan var fyrir heimkomu Steingríms þá sendi hann sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu beiðni um gullleitarheimild þann 17. ágúst 1908 og segist hafa fundið vott þess að málmur sé í landi Þormóðsdals „Hjerumbil 100 faðma fyrir vestan við bæinn, rétt fyrir utan túnið og hjerumbil 130 faðma frá ánni.”
gull-4Nokkru áður eða 14. ágúst höfðu borist aðrar málmleitarumsóknir og ekki leið á löngu þar til þær fóru að streyma inn í stórum stíl. Ekki var það þó svo að gullæði hefði gripið um sig meðal almennings því að flestar umsóknirnar komu frá sömu mönnunum. Þetta var hópur kringum Björn Kristjánsson kaupmann og ber mest á umsóknum frá honum, Hannesi S. Hanssyni og Sturlu Jónssyni en í tengslum við þá voru Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, Eggert Claessen, Sveinn Björnsson lögmaður og síðar forseti, Sighvatur Bjarnason bankastjóri og fleiri góðborgarar. Um þetta leyti voru mældir út námuteigar í landi Þormóðsdals eftir námulögunum frá 1907, alls 77 teigar. Hver teigur var 100 000 m2.
Steingrímur J. Þorsteinsson segir að 21. maí árið 1909 hafi Námufélag Íslands gert samning um námaréttindin við Einar Guðmundsson og Gísla Björnsson mág hans en þeir áttu hvor sinn hlutann af Miðdal. Óvíst er hvernig afskiptum félagsins af námunni lauk og ekki var Einar Benediktsson í stjórn þess en gerði tilraun til að afla fjár fyrir félagið erlendis en hún endaði heldur snautlega. Mikill áhugi var á námuvinnslu meðal Íslendinga á þessum árum og tengdist hann þeim framfarahug sem gegnsýrði allt samfélagið.
Að sögn Valgerðar Benediktsson hófust afskipti Einars Benediktssonar af Miðdalsnámunni þegar nafni hans Guðmundsson skrifað honum til London og bað hann að vera umboðsmaður sinn í Englandi. Fyrstu skjalfestu heimildir um afskipti Einars er hins vegar skýrsla sem hann skrifar til hinna bresku samstarfsmanna sinna 23. maí 1910 og bréf sem hann sendir til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu 16. september sama ár þar sem hann tilkynnir að kaupmaður H.S. Hansson sé umboðsmaður þeirra hjóna og barna þeirra og hafi leyfi til að sækja um námateiga fyrir þau. Einar virðist hafa tekið til óspilltra málanna í London og vitnar Steingrímur J. Þorseinsson í áðurnefnda skýrslu þar sem ekki var dregið úr ágæti gullæðarinnar og er hún sögð liggja þvert yfir landareignina og langt út um héraðið. Árið 1911 tekur dótturfyrirtæki British North-Western Syndicate Miðdalsnámurnar á leigu og var ákveðið að fá Norðmenn með sérþekkingu á málmvinnslu til samstarfs um rannsóknir og vinnslu.

gull-5

Til þessa verks var stofnað Aktieselskabet Pluto Limited með 100.000 punda hlutafé sem að langmestum hluta var í eigu British North-Western Syndicate. Norðmennirnir lögðu aðeins fram um 2000 pund af hlutafénu. Auk Einars sem var fulltrúi British North-Western Syndicate sátu sex Norðmenn stofnfundinn og auk Einars voru þrír Norðmenn í stjórn Pluto þeir Sigurd Kloumann, E. Wettre og Fredrik Hjort sem var formaður. Pluto gerði svo samning við landeigendur um nýtingu námunnar. Það er skemmst frá því að segja að strax árið 1911 komu tveir norskir verkfræðingar hingað til rannsókna á vegum félagsins og næstu tvö ár 1912 og 13 voru gerðar víðtækar athuganir á jarðveginum við ána. Tryggvi Einarsson segir að vísu að verkfræðingarnir hafi verið breskir og er lýsing hans á þessum rannsóknum er allævintýraleg. Verkfræðingarnir komu nefnilega ekki einir heldur með námuverkamenn með sér og voru það Finnar og Lappar frá Norður-Noregi.
Einnig voru í hópnum Norðmaður og Svíi. Síðan segir Tryggvi: gull-7„Lapparnir voru ansi skrítnir útlits, miklu lægri vexti en hinir og hausinn á þeim alveg snarkringlóttur. Þeir héldu alltaf hópinn. …Það var byrjað Miðdalsmegin við Seljadalsána, en kvarzlagið liggur undir hana. Grafin var djúp hola beint niður og hún timbruð að innan með þriggja tommu plönkum. Við Axel Grímsson vorum alltaf að sniglast í kringum verkamennina. Þeir voru góðir við okkur og lofuðu okkur stundum að húrra niður í námuna í tunnu, en allur uppgröfturinn var halaður upp í tunnu á spili. Þetta spil sem Englendingarnir notuðu, er til enn, að ég held, vestur í Gróttu…. Þetta var vandað spil og tunnan geysistórt eikarkerald, járnslegið. Ekki mátti láta vatn safnast í holuna. Þarna var því dæla, og við hana var unnið allan sólarhringinn. Við námuna var byggt allstórt skúrmyndað hús, og þar var líka eldhús. Þarna bjuggu sumir mennirnir í nokkur ár og sáu alveg um sig sjálfir. Það var grafið alveg eins og kvarzlagið lá, fyrst beint niður, en þegar komið var niður á nokkurt dýpi, fór laginu að halla töluvert til vesturs, tók svo á sig beygju og lá svo aftur beint niður, næstum út undir Seljadalsána.
Svo fór að lokum að ekki varð ráðið við vatnsagann í göngunum. Þá fluttu námamennirnir sig yfir á hinn bakkann en allt fór á sömu leið. Á svipuðum tíma hófst fyrri heimsstyrjöldin og gerði alla aðdrætti mjög erfiða. Þetta hvort tveggja varð til þess að hætt var við framkvæmdir en fjöldi sýnishorna náðist úr jarðlögunum.
gull-8Á þessum árum gerðu þeir nafnar Benediktsson og Guðmundsson ýmsar ráðstafanir til að tryggja námuréttindi sín í Þormóðsdal og Miðdal og eru varðveitt á Þjóðskjalasafni fjöldi beiðna um málmleitarheimildir frá þeim og samstarfsmönnum þeirra bæði fyrir sig, börn sín og annað skyldfólk. Öll börn Einars ogValgerðar og Einars Guðmundssonar sóttu um málmleitarheimildir í Þormóðsdal. Þessi athafnasemi varð tilefni til fréttar í blaðinu Reykjavík þar sem sagði að lögreglustjórinn í Hafnarfirði hafi látið mæla út 12 námuteiga handa félögum í Námafélagi Íslands og að 104 aðrir hafi lagt fram beiðnir um að mældir yrðu út handa þeim námuteigar. Beiðnirnar voru að sönnu fjölmargar en þær voru flestar frá þeim nöfnum, skyldmennum þeirra og fólki sem tengdist þeim. Fátt er sagt um námagröftinn í blöðunum í Reykjavík. Eina fréttin um Miðdalsnámuna er smáfrétt í Vísi þess efnis að fjöldi manna vinni við námuna en ekkert er getið um þjóðerni þeirra.
Í apríl árið 1912 barst svo sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu tilkynning dagsett 2. apríl þar sem Þorsteinn Kjarval, Einar Guðmundsson, Sigurður Sigurjónsson, Gísli Þorbjörnsson, Finnbogi Jóhannsson og Sveinn Gíslason afsala sér námuleigurétti sínum í löndum Leirvogstungu, Mosfells, Þormóðsdals og Óskots til Iceland Minerals Syndicate Limited, Charing Cross, London. Þetta félag hefur líklega verið í eigu Einars Benediktssonar og hefur hann haft þennan hátt á til að styrkja stöðu sína gagnvart hinum bresku og norsku samstarfsaðilum. Ekki voru allir uppnæmir yfir gullfundinum og í Vísi birtust tvær greinar undirritaðar af Búa þar sem þess var krafist að stjórnvöld létu rannsaka hvort hér væru finnanleg nýtanleg jarðefni og varað við glæframönnum sem haldi uppi trú manna á gullnámur.

gull-9

Annars er þögn blaðanna um Miðdalsævintýrið einkennileg. Ef til vill hafa gullleitarmenn látið fátt uppi og passað vandlega upp á alla leka eða þá að bæjarbúar hafa vitað upp á hár var að gerast á svæðinu og það því ekki þótt fréttnæmt. Er það síðarnefnda óneitanlega líklegra ef tekið er mið af Íslendingseðlinu. Ljóst er þó af frásögn Morgunblaðsins um námagröftinn 1924-25 að mikið hefur verið rætt um málið og sumir óttuðust gullæði á borð við það sem geysað hafði í Ameríku og Ástralíu og að hingað flykktust misindismenn af ýmsu tagi. Blaðið hafnar öllum slíkum vangaveltum og segir að náman sé ekki af því tagi að menn geti labbað upp í Miðdal með tvær hendur tómar og fyllt vasa sína af gulli.
Á stríðsárunum lágu allar rannsóknir á námunni niðri og varð ekki af framkvæmdum fyrr en árið 1921. Eftir stríð keypti Einar Benediktsson hluta Gísla Björnssonar í Miðdal og styrkti þá enn stöðu sína. Það ár voru þeir nafnar í Englandi og áttu í samningaviðræðum við enska fjármálamenn, þar á meðal Neville Chamberlain, síðar forsætisráðherra Breta. Katrín Hrefna Einarsdóttir getur þess að Einar Guðmundsson hafi ekki síður vakið athygli hina bresku viðsemjenda en nafni hans Benediktsson. Í kjölfarið komu hingað menn á vegum félagsins og sendu þeir sýnishorn til Englands en þá kippti félagið að sér hendinni og meira varð ekki úr framkvæmdum í það skiptið.
Árið 1922 var Einar í Þýskalandi og komst þar í samband við Nordische Bergbau Gesellschaft í Hamborg. Þetta félag vann að rannsóknum í námunni á árunum 1923-24. Meðal þeirra þriggja sérfræðinga sem rannsökuðu námurnar var prófessor Konrad Keilhack, sem mun hafa verið mjög kunnur námafræðingur. Félagið lagði of fjár í rannsóknina (170 þús. íslenskar krónur) og segir Valgerður Benediktsson að félagið hafi greitt Einari 140 þús. gullmörk fyrir þær eignir sem hann hafi lagt fram. Jafnframt seldi Einar Benediktsson síðustu jarðirnar sem hann átti til að fjármagna framkvæmdir.24 Sigfús Blöndahl þáverandi aðalræðismaður Þýskalands í Reykjavík staðfesti þetta.

gull-10

Sumarið 1924 hætti Nordische Bergbau Gesellschaft við rannsóknir sínar en Einar var ekki tilbúinn að leggja árar í bát. Haustið 1924 stofnar hann ásamt nýjum þýskum samstarfsmönnum námafélagið Arcturus og stóð það að framkvæmdum í Þormóðsdal árin 1924-25. Ýmsum sögum fer af framkvæmdum á svæðinu þessi ár frá 1923 til 1925. Til dæmis verður ekki betur séð en Valgerður Benediktsson og Tryggvi Einarsson slái þessum félögum saman í eitt. Þær fatæklegu heimildir sem til eru benda til að það hafi þó fyrst og fremst verið Arcturus sem stóð fyrir miklum framkvæmdum í Þormóðsdal.
Um allar fjármálaflækjurnar kringum félögin má lesa í ævisögu Einars Benedikssonar III eftir Guðjón Friðriksson, einkum 10.-13. kafla. Ekkert er minnst á framkvæmdirnar í dagblöðunum árið 1923 en hinn 3. febrúar árið 1925 kom smáfrétt í Morgunblaðinu þess efnis að í Miðdalsnámunni vinni nú milli 10 og 20 manns, grafin hafi verið 60 m löng göng og 10 metra djúp og von sé á þýskum verkfræðingi með vorinu og þá verði verkamönnum fjölgað. Verkfræðingurinn hét W.E Swinburne og reyndist þegar til kom vera Englendingur. Í viðtali við Morgunblaðið var hann ákaflega varkár og sagði að langur tími muni líða þangað til hægt sé að segja til um hvort vinnsla í námunni sé möguleg hvað þá heldur að vinnsla hefjist.28 Annar verkfræðingur, sem var þýskur og hét Marburg, starfaði við námuna og Tryggvi Einarsson segir að þar hafi einnig starfað amerískur yfirverkfræðingur.
Þann 3 maí gull-11birti Morgunblaðið svo samantekt úr þýska blaðinu Hamburger Nachrichten, þar sem fjallað er um námuna. Í upphafi greinarinnar er tekið fram að lítið hafi verið fjallað um framkvæmdirnar í Miðdal undanfarið og ástæðan sögð sú að oft áður hafi menn gert sér vonir um námugröft en orðið fyrir vonbrigðum. Greinin er eftir Dr. R. Friedrich Franz Grunow, einn af forgöngumönnum félagsins í Þýskalandi, og er bjartsýnin ríkjandi og námugangurinn sagður vera orðinn yfir km á lengd og einn m á þykkt. Hér er þó varla verið að tala um lengd ganganna heldur að öllum líkindum það svæði sem gull hefur þegar fundist á. Greinarhöfundur hefur eftir áðurnefndum dr. Keilhack að í námunni væru um 80 þús. tonn af námugrjóti en bætir síðan við að breskur verkfræðingur hafi talið að þar væru 160 þús. tonn. I greininni er fullyrt að í sýnishornum sem rannsökuð hafi verið í Þýskalandi hafi fundist 315 gr. af gulli í tonni en í lökustu sýnunum hafi magnið farið alveg niður í 11 gr. Til samanburðar nefnir höfundur námur í Suður-Afríku og Evrópu þar sem gullinnihald í tonni sé mun minna en vinnsla borgi sig samt vel. Að síðustu er þess getið að settar verði upp vélar til vinnslunnar með haustinu, búið sé að tryggja landareignir og námuréttindi og verið sé að undirbúa félagsstofnun með þýsku, hollensku og svissnesku fé.
Morgunblaðið er mjög varkárt í niðurlagsorðum sínum, staðfestir að mikið sé unnið í Miðdal en bendir jafnframt á það sem haft var eftir Breymann verkfræðingi í viðtalinu 23. apríl. Síðan bætir blaðið við að nokkuð kveði við annan tón í greininni í Hamburger Nachrichten?
Í áðurnefndum skjölum Einars á handritadeild Landsbókasafns er að finna teikningu af íbúðarhúsi sem hann hugðist reisa í Miðdal.
gull-12Tryggvi Einarsson segir í ævisögu sinni að faðir sinn hafi verið búinn að fá í hendur teikningar af verksmiðjuhúsinu. Hann segir að síðasti hluti vinnslunnar hafi verið að láta steinsallann sem búið var að mylja renna yfir silki og átti gullið að festast í því. Tryggvi segir líka að Þjóðverjarnir hafi verið búnir að mæla fyrir járnbraut sem hafi átt að leggja niður á Gufunesklöpp og einnig hafi verið uppi áætlanir u m virkja foss ofar í ánni. Ekki minnist Tryggvi á Einar Benediktsson í sambandi við þessar framkvæmdir heldur segir aðeins að Þjóðverjarnir hafi samið við föður sinn og hann átt að fá 10% af hagnaðinum af námunni.
Í Morgunblaðinu birtist svo frétt u m Miðdalsnámuna 2. júlí. Þar segir að Þjóðverjarnir séu til búnir til að afhenda hollenskum aðilum námuréttindin og hér sé staddur hollenskur lögfræðingur, Fokker að nafni, í þeim tilgangi að ganga frá þessum málum. Síðan er tekið fram að ekki hafi verið allskostar rétt með farið í greininni í þýska blaðinu og of mikið gert úr gullmagninu í námunni. Breyman verkfræðingur hikaði samt ekki við að leggja til að rannsóknum og undirbúningsvinnu verði haldið áfram. Til að komast að fullnægjandi niðurstöðu þurfi meiri tækjakost og víðtækari rannsóknir. Í greininni er fullyrt að þegar sé búið að leggja eina milljón gullmarka í framkvæmdina og þurfa muni annað eins áður en frumrannsóknum sé lokið. Hollendingarnir séu tilbúnir að leggja fram þetta fé.
Síðan segir: „Nokkrir menn hafa verið við vinnu í Miðdal í alt vor. En þeir hafa verið alt of fáir til þess að verkinu miði nokkuð verulega áfram. Hvað veldur töfinni? … Eftir því sem næst verður komið hefir þeim námumönnum engar hindranir verið lagðar í götu frá yfirvaldanna hendi. Gildandi lög gefa heldur enga átyllu til þess að svo verði gert. Almenningsálitið mun og vera á sama máli.” Morgunblaðið fullyrðir hins vegar að hollenska félagið hafi ekki enn fengið í hendur þau skilríki sem forsvarsmenn þess telji nauðsynleg til að leggja fram fé til vinnslunnar.

gull-14

Þetta voru síðustu fréttirnar af Miðdalsnámunni. Tryggvi Einarsson fullyrðir að Þjóðverjarnir hafi orðið að gefa vinnsluna upp á bátinn þegar þýsk yfirvöld breyttu markinu til að vinna bug á óðaverðbólgunni 1923. Steingrímur J. Þorsteinsson segir að sýnishornin hafi verið svo misjöfn að gæðum að Þjóðverjarnir hafi gefist upp. Af ævisögu Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson er þó ljóst að ýmis konar klúður hefur ekki síður átt þátt í að námaævintýrinu lauk. Tryggvi Einarsson segir og frá því að 1938 hafi sömu aðilar og stóðu að Arcturusi haft samband við íslensk stjórnvöld og sótt um leyfi til námuvinnslu en fengið neitun. Þeir hafi svo enn haft samband við Guðmund Einarsson eftir heimsstyrjöldina en ekkert varð af framkvæmdum. Þjóðverjarnir voru þó ekki þeir einu sem höfðu trú á Miðdalsnámunni. Þann 26. júní árið 1928 skrifar Einar Benediktsson Matthíasi Rohde og Co. í Hamborg bréf þar sem hann segir meðal annars að íslenskt fjármálalíf sé að verða tilbúið undir tæknibyltingu og hægt sé að nota gullið í Miðdal sem grunn að traustri bankastarfsemi í Reykjavík og öðrum bæjum á Íslandi.
En lítum að lokum á námuna sjálfa. Hún er eins og áður sagði í gili sem Seljadalsá hefur grafið. Flest mannvirkin eru á eystri bakka árinnar. Þar hafa íslensku jarðfræðingarnir fundið nokkrar leitarholur frá fyrri tilraunum og ein göng sem eru uppistandandi (göng A) og op annarra sem fallin eru saman eða full af jarðvegi en þau eru nokkru fyrir sunnan göng A, ofar í hlíðinni. Á vestari bakka árinnar eru göng B. Þar hafa fyrri gullleitarmenn grafið á ská inn í bergið meðfram leirlagi sem gullkvarzið er í. Þetta leirlag er um 60 cm þykkt með kísilúrfellingum næst grjótinu og þar mun gullið að finna.
Þormóðsdalur er í útjaðri Stardalseldstöðvarinnar svonefndu, á svæði þar sem jarðlög hafa brotnað mjög mikið og umturnast. Gullið er líklega þannig til orðið að heitt vatn hefur streymt í hringrás í sprungum og brotum milli berglaga og tekið í sig ýmis jarðefni, þar á meðal gullútfellingar, sem það síðan hefur skilið eftir. Bergið þarna er laust í sér og flagnar auðveldlega og veðrast. Gullið fmnst á takmörkuðu svæði þvert yfir ána og er alsendis óvíst að heildarmagnið sé nægjanlegt til að réttlæta vinnslu, þrátt fyrir bætta tækni í þeim efnum á síðustu áratugum.
gull-15Göng A eru á eystri bakka árinnar. Fyrst hefur um tveggja metra breið opin renna verið grafin inn í klettavegginn og síðan gerð göng hvor til sinnar handar. Göng A eru á hægri hönd, um 11 m löng, tveir metrar á hæð og um metri á breidd, þó víðast hvar aðeins þrengri við loftið. Í þeim er um 50 cm djúpt vatn.Við opið er moldarhaft, um 1,60 m á þykkt. Þessi göng eru óregluleg og þegar innar dregur eru útskot í veggjum (sjá teikningu snið A).
Beint á móti göngum A er dálítill klefi. Hann er svipaður á hæð og göngin en nokkru rýmri. Í gólfi hans, innst vinstra meginn, er hola sem virtist full af grjótmulningi og jarðvegi. Verið getur að þar hafi önnur göng legið niður á við en ógerningur er að kanna það án viðamikilla framkvæmda.
Bergið austan megin árinnar virðist mun harðara í sér en vestan megin, Göng B eru í botninum á djúpum skurði og ólík göngum A. Þau eru um 10 m löng, regluleg og burstlaga. Hæðin er einnig regluleg, um 2,10 m undir mæni. Göngin eru um 1,70 m á breidd við gólf. Á gólfinu er nokkuð af lausagrjóti sem flagnað hefur úr veggjum og borist inn í göngin með vatni en það er um meters djúpt. Um þrjá metra frá opi hægra megin hefur hrunið úr gangaveggnum og myndast dálítið útskot inn í vegginn. Gullleitarmenn hafa lokað göngunum með moldarhafti enda engin ástæða til að óviðkomandi fari að troða sér inn í þau. Á vestari bakkanum má og sjá leifar af járnbrautarteinum sem notaðir hafa verið til að flytja jarðefni frá námugöngunum.
Líklegt er að þessi tvenn göng séu frá framkvæmdum Arcturusmanna enda eru þau í samræmi við lýsingu Tryggva Einarssonar. Hann segir að Þjóðverjarnir hafi grafið inn í jarðlögin og látið vatnið renna út enda hafi þeim gengið betur en fyrirrennurum sínum. Eins og áður sagði fundu gullleitarmenn op þriðju ganganna nokkur sunnar og ofar í hlíðinni. Það eru líklega göngin frá 1913-14, grafm beint ofan í bergið og opið klætt með timbri. Eins og áður sagði þá er heildarlengd námaganganna nokkuð á reiki. Morgunblaðið segir göng Arcturusfélagsins hafa verið 60 m á lengd. Steingrímur J. Þorsteinsson segir göngin hafa verið um 150 m ogValgerður Benediktsson segir þau 200 m. Ekkert hefur fundist sem staðfestir neina af þessum fullyrðingum. Ljóst er hins vegar af þeim göngum sem fundist hafa að rannsóknargöngin hafi verið hér og þar í hlíðinni, grafm þar sem gullæðarnar fundust og síðan hætt þegar komið var að enda þeirra því að allar æðarnar eru stuttar og dreifðar um svæðið. Þegar talað er um tuga eða jafnvel hundruða metra löng göng hlýtur því að vera átt við samanlagða lengd ganganna. Mat heimildarmanna á lengd ganganna er hins vegar svo mismunandi að það er augljóslega byggt á sögusögnum og verður því ekkert fullyrt um raunverulegt umfang framkvæmdanna fyrr en gögn frá námufélögunum koma í leitirnar hvar svo sem þau eru niðurkomin.”

Heimildir:
-Árbók VFÍ/TFÍ, 7. árg. 1994-1995, 2. tbl., bls. 183.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 95. árg. 1999, bls. 111-126.

Þormóðsdalur

Gullnáman í Þormóðsdal.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur er í Seljadal. Í rauninni er nafnið tengt bænum og jörðinni Þormóðsdal, vestast í Seljadal, norðan Búrfells. Seljadalsáin rennur þar á millum. Samkvæmt aldagamalli sögn er landnámsmaðurinn Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði. Í landi Dalsins eru nokkrar minjar, sem telja verður áhugaverðar.
FjárborgÓljóst er hvar hinn forni bær stóð nákvæmlega, en þegar verið var að grafa fyrir viðbyggingu austan við nýjasta íbúðarhúsið fyrir nokkrum árum komu í ljós allnokkrar hleðslur og aðrar mannvistarleifar. Tóftir útihúsa eru þarna skammt frá sem og uppi á hól eða hæðarbrún ofan við núverandi íbúðarhús. Ljóst er að bæði land og landkostir hafa breyst þarna umtalsvert á liðnum öldum. Stór gróin svæði hafa orðið gróðureyðingu að bráð og sumsstaðar, þar sem fyrrum voru grónar þústir, eru nú berir melhólar.
Vangaveltur hafa verið um hver hafi verið umræddur Þormóður. Hann hefur að öllum líkindum verið tengdur landeigandanum á einn eða annan hátt. Þess má geta að Þormóður hét sonur Þorkels mána. Þorkell var sonur Þorsteins, sonar Ingólfs Arnarssonar og Hallgerðar Fróðadóttur frá Reykjavík, þeirra er fyrst norrænna manna eru sögð hafa staðfest varanlega búsetu hér á landi (um 874). Þau hjónin bjuggu um tíma búi sínu ofan við tjarnarbakkann, þar sem hús Happdrættis Háskóla Íslands og Herkastalinn eru nú gegnt núverandi ráðhúsi Reykjavíkur. Leifar þeirrar búsetu eru nú horfnar, líkt og svo margt annað. Enn er þó ekki útilokað að takist að endurheimta hluta þeirra við uppgröft á Alþingisreitnum við Tjarnargötu – og rúmlega það.

Fjárhús

Í Sturlubók segir m.a. um þetta: “Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.
Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.
Son Þorsteins var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefir best verið siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fól sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir. Son hans var Þormóður, er þá var allsherjargoði, er kristni kom á Ísland. Hans son var Hamall, faðir Más og Þormóðar og Torfa.”
Ekki síst þessa vegna hefði verið áhugavert að reyna að staðsetja þann stað er þessi náintengdi landnámsmaður hefur verið talinn hvíla æ síðan.
FjárhúsÞótt nafn Þormóðsdals hafi fyrrum tengst gulum geisla hefur nafnið í nútíma einkum tengst samlitum málmi. Og enn er hafin leit að gulli í Þormóðsdal.
“Forsaga þessarar leitar hófst fyrir tæpum 20 árum síðan þegar ÍSOR, sem þá var hluti Orkustofnunar, hóf skipulega leit að gulli. Ástæða gullleitarinnar voru niðurstöður rannsókna um að gull félli út við sérstakar aðstæður í jarðhitakerfum, og ekkert sem mælti því í mót að slíkt ætti einnig við hér. Fyrsti áfangi leitarinnar tók um þrjú ár, og var farið víða um land. Snemma kom í ljós að Þormóðsdalur, rétt austan Hafravatns, bar af öðrum stöðum hvað varðar magn gulls í bergi. Árið 1997 fór gullleit aftur af stað, og var stofnað fyrirtækið Melmi og fengust fjárfestar í gegnum verðbréfamarkaðinn í Kanada. Leit var haldið áfram og meðal annars voru gerðar viðamiklar yfirborðsrannsóknir í Þormóðsdal og boraðar 9 rannsóknarholur til að kanna útbreiðslu gullríka kvarsgangsins. Þegar rannsókn lauk kom annað hlé, enda áhuginn minni, að hluta til vegna afar lágs gullverðs.
Nú er gullverð enn á ný komið í sögulegt hámark, og hefur ekki verið hærra síðan 1984, og hefur áhugi leitaraðila aukist mikið. Hafa tekist samningar við félag í Bretlandi um að fjármagna enn frekari gullleit í samstarfi við fyrirtækið Melmi. Verður áhersla fyrst lögð á að kortleggja mun betur með borunum kvarsganginn áðurnefnda, og meta rúmmál hans og hæfni til námuvinnslu. Enn fremur eru uppi áform um að hefja enn frekari leit að gulli á svæðum á Vestur-, Norður- og Suðurlandi.”
TóftÞormóðsdalur tilheyrir nú Mosfellsbæ. Í landi bæjarins má víða finna fornminjar og af þeim hafa fjórar verið friðlýstar af Þjóðminjasafni Íslands. Þær eru rústirnar á Blikastaðanesi, Sámsstaðarústir í Hrafnhólum, leifar tveggja fjárborga skammt fyrir ofan Gljúfrastein og Hafravatnsrétt við austurenda Hafravatns. Auk þessara merku friðlýstu minja má nefna hólana tvo eða fornmannaleiðin: Hraðaleiði á landamærum Hraðastaða og Mosfells og Þormóðsleiði í Seljadal. Samkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og, eins og fyrr er lýst, er Þormóður heygður í Þormóðsleiði.

Ef skoðuð er örnefnalýsing Tryggva Einarssonar í Miðdal um Þormóðsdal kennir ýmissa grasa. Tryggvi var gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi var fæddur í Miðdal árið 1901 og hafði átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77.
“Að vestan ræður Hafravatn mörkum, að sunnan Seljadalsá og árförin inn í Leirdal. Lýsi ég örnefnum frá vesturmörkum.
Hafravatnseyrar eru að mestu uppgrónar (nú ræktað tún), markast af Seljadalsá að vestan og Hafravatni að norðan. Fyrir sunnan Hafravatnseyrar er hólaþyrping að Seljadalsá, er Vesturhólar heita. Austur af Vesturhólum, upp með Seljadalsá, eru stakir hólar, sem Sandhólar heita. Norðan við Sandhóla er mýri, sem Reiðingsmýri heitir, var þar nothæf reiðingsrista, en heytorf gott. Voru til menn, sem ristu allt að 300 torfur á dag. Norður af Reiðingsmýri er Grafarmýri; var þar mótak, frekar lélegt. Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita.
KambsréttVið Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás.
Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal. Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil.”
Þegar svæðið milli Stekkjargils og Seljadalsáar er skoðað má sjá móta fyrir víðfeðmri fjárborg, dómhring eða öðru hringlaga mannvirki á vind- og vatnssorfnum melhól, nokkru suðvestan við bæjartóftirnar. Markað hefur verið fyrir mannvirkinu með grjóthring, sem sést enn. Mannvirkið hefur verið gert úr torfi, en er nú löngu horfið af hólnum, enda gróðureyðingin þarna mikil. Eftir stendur grjóthringurinn mótunarumlegi.

“Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt.”
Þrátt fyrir leit að leiðinu fannst það ekki svo öruggt mætti teljast. Bæði hefur svæðinu sunnan við bæinn verið raskað með Nærselvegagerð og athafnasvæði, auk tún- og trjáræktar. Mun gamall maður, Steingrímur, fyrrum ábúandi og hagvanur þarna á svæðinu, eitt sinn hafa skimað eftir leinu, en þá talið að það hefði farið undir nýja veginn. Gamli vegurinn sést þarna enn að hluta (lá fast niður við íbúðarhúsið), en þegar malbikaði vegurinn var lagður fyrir nokkrum árum (upp í malargryfjurnar undir Stórhól ofar í dalnum) er talið að hann hafi verið lagður yfir Þormóðsleiði, líkt og gert var við Járngerðarleiðið í Grindavík á sínum tíma. A.m.k. eru engin (eða nær því engin) ummerki eftir það sjáanleg nú – og er það skaði. Þar með er a.m.k. ein minjaperla Mosfellsbúa, sem fyrr er getið, horfin vegna gátleysis.
Á brún austan við Þormóðsdal eru leifar lítillar tóftar. Þegar nýi vegurinn var lagður hefur verið krukkað utan í syðsta hluta hennar. Tóftin er þrískipt; tvö rými og gerði vestast. Fróðlegt væri að komast að því hvað þessi tóft hefur haft að geyma, en a.m.k. austasti hluti hennar er nokkuð heillegur að sjá.
“Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir [á honum eru tóftir]; vestan undir Gapa er Gapamýri.
Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall. [Sukkar eru ofar og austar}. Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum.”

Nessel

Sauðahús þetta er mjög stórt. Vel sést enn móta fyrir útlínum þess. Aftan (norðan) við það er hlaða eða heygarður. Sunnan við húsið mótar fyrir gerði. Skammt norðaustan við tóftina er næstum jarðlæg fjárborg eða fyrrum hús á lágum grónum hól. Mannvirki þetta hefur allt verið úr torfi, líkt og mannvirkið er áður var lýst á melhólnum suðvestan við bæinn. Enn má þó sjá móta fyrir stærð þess og lögun. Það hefur eflaust tengst sauðahúsinu, en virðist þó eldra af ummerkjum að dæma. Kannski sauðahúsið hafi orðið til þarna vegna borgarinnar.

Ofar er varða á klapparholti. Norðan hennar sést móta fyrir tóft í valllendi. Hún er að mestu jarðlæg og erfitt er að áætla notkunargildi hennar.
“Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.”
Hér er um að ræða tóftir, sem FERLIR fann nýlega eftir loftmynd. Við skoðun komu í ljós tvo mannvirki, er benda til þess að hafi verið sel. Ef ekki hefði komið til uppbit hrossa á þessu svæði hefðu tóftirnar að öllum líkindum horfið í landslagið, eins og þær hafa gert um langan aldur.
Kambsrétt“Skammt fyrir norðan Hesthól er brattur hóll, sem Kambhóll heitir. Sunnan undir Kambhól er fjárrétt, er Kambsrétt heitir. Var hún notuð sem vorrétt. Við Kambsrétt er fallega gerður vegarspotti, sem var gerður fyrir konungskomuna 1874. Skammt fyrir austan Kambsrétt er árspræna, sem rennur niður í Seljadalsá í Seljadal; heitir hún Nesselsá. Upptök Nesselsár eru í sérkennilega fallegum krika undir suðvesturhorni Grímannsfells. Heitir sá kriki Nessel, talið sel frá Gufunesi; sést þar fyrir seltóftum.” Hér er Nessel talið hafa verið frá Gufunesi, en í örnefnalýsingu Ness er það talið hafa verið frá Nesi á Seltjarnarnesi. Reyndar er einungis sagt að Nes hafi haft selstöðu í Seljadal, en telja má líklegt að enn eigi eftir að finnast tóftir selja í dalnum – við nánari leit. (Enn á eftir að gaumgæfa suður- og austurhluta dalsins). Þá er ekki vitað með vissu hvaða bæ Nærsel hafi tilheyrt, en það er jú í Seljadal.
Vekjandi athygli á ógætilegri vegagerð í nálægð má vel sjá á veginum í gegnum Kambsréttina miðja hversu lítið hugsunarháttur vegagerðarhönnuða hefur lítið breyst í langan tíma, eða allt frá tímum fyrstu vegargerðar hér á landi allt að því til dagsins í dag. Á allra síðustu árum virðist þó vera farið að rofa svolítið til í þessum efnum – til hins betra.

FERLIR skoðaði nýlega Kambsréttina sem og Nesselið, auk tófta tveggja annarra selja í Seldalnum.
Að lokum segir í örnefnalýsingu Tryggva að “suðvestur af Nesseli er hár hóll með klettaborgum að ofan, sem Hulduhóll heitir. Norðan við Nessel er hár melhryggur, sem Torfadalshryggur heitir. Norðaustur af Nesseli, uppi í Grímannsfelli, er áberandi urð, er Skollaurð heitir; þar er tófugreni. Nálægt miðju Grímannsfelli að sunnan er Illagil. Nær það hátt upp í fellið og er með öllu ófært yfirferðar; er tófugreni skammt frá efri enda gilsins.”
Sem fyrr segir verður eitt af verkefnum FERLIRs að skoða sunnanverðan Seljadalinn m.t.t. hugsanlegra tófta þar. Fjallað er og um gullvinnslu í Þormóðsdal HÉR.

Heimildir m.a.:
-isor.is
-mosfellsbaer.is
-Sturlubók.
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.

Járnbrautarteina