Tag Archive for: Gunna

Gunnuhver

Þegar afspurnir voru hafðar af miklum og skyndilegum breytingum á hverasvæðinu á Reykjanesi þótti FERLIR ástæða til að fara á vettvang og skoða málið nánar.
Hverasvæðið við GunnuhverNýr hver, stór og mikill, ca. 8×8, spúandi drullu upp í ca. 4m hæð, er kominn upp skammt austan við gamla Gunnuhver. Leirsletturnar ganga einnig öðru hvoru hærra í loft upp og nokkuð út frá hvernum.
Trúlega er Gunna gamla ekki dauð eftir allt saman. Nýir hverir hafa myndast á veginum og er hann nú lokaður þess vegna. Hveragufur sjást upp hálfar hlíðar Skálafells. Spurningar, sem eftir standa, eru a.m.k. tvær; er þetta eitthvað óvenjulegt m.v. forsögu svæðisins og ef svo er, hvaða fyrirboða er hér um að ræða? Og hvaða prestur er nú á takteinum, sambærilegur við séra Eirík sem réð við málið fyrrum?
Hér er um að ræða hverasvæði skammt austan Reykjanessvita. Malarvegur að því frá vitaveginum og áfram upp á þjóðveginn til Grindavíkur. Af mörgum hverum á svæðinu hefur einn verið áberandi stærstur. Sá nefnist Gunna eða Gunnuhver og er í kísilhóli sunnarlega á svæðinu. Þjóðsaga er um nafn hversins: Guðrún hét grimm fordæða sem gekk aftur og „lék menn grátt, reið húsum og fældi fénað“. Þar kom að leitað var til kunnáttusams prests til að koma draugnum fyrir. Hann fékk draugnum bandhnykil og lét hann halda í endann á bandinu. Þegar hnykillinn rann neyddist draugsi til að elta því hann gat ekki sleppt. Hnykillinn rann í hverinn og draugurinn Gunna á eftir.

Hverasvæðið við Gunnuhver

Síðan hefur ekki orðið vart við Gunnu. Þjóðsagan segir að presturinn hafi verið fyrrnefndur sr. Eiríkur Magnússon í Vogsósum (1638-1716), uppnefndur Vogsósagráni og sagður fjölkunnugur.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagan svona: „Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.
Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og slokaði svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag.
En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var Hverasvæðiðþá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.
En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.

Nýir hverir

Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur. Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.
En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.
Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.“
Gunnuhver hefur legið í dvala um nokkurt skeið. Hverasvæðið skoðaðHverasvæðið sjálft er þó um einn ferkílómetri að flatarmáli og nær aðeins yfir hluta af háhitasvæðinu. Á hverasvæðinu eru margir leir- og gufuhverir og gufu leggur um allt svæðið. Fallegar útfellingar eftir brennistein er að finna á svæðinu og er litadýrð svæðisins mikil. Hverasvæðið sjálft er síbreytilegt og leirhverir og gufuhverir koma og fara. Vitað er að svæðið allt var mun virkara einungis fyrir áratug síðan. Þar, skammt uppi í hlíðum Skálafells, fæddist m.a. Litli Geysir (eða 1918) skömmu eftir aldamótin 1900 og lifði þar um tíma – en dó síðan. Á unglingsárum sínum gaus hann allt að 20 metra háum vatnsstrókum með ennþá hærri gufutaumum.
Tóftir við Gunnuhver eru eftir búsetu Høyers og veru hans á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá Leirhverút á Reykjanes.
Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir. Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Vegna volgrar jarðarinnar þurfti ekki aðra hitun.
Reglulega hefur gosið á Stampasprungureinunum, sem þarna eru, síðast á 18. öld. Það gos náði þó ekki landi. Væntanlega er hér ekki um fyrirboða goss að ræða, heldur breytinga á undirliggjandi þrýstingi við tilkomu nýrrar Reykjanesvirkjunnar. Hitauppstreymið færist til þegar aðstæður breytast – eða er breytt. Þekkt náttúrulegt fyrirbæri þessa varð t.a.m. eftir jarðskjálfana árið 2000. Þá lækkaði vatnsyfirborð Kleifarvatns með þeim afleiðingum að hverir í Hverahlíð kólnuðu, en aðrir næst lækkandi vatnsyfirborðinu komu í ljós. Nú, með hækkandi vatnsyfirborði, hefur þetta breyst á nýjan leik. Í rauninni þarf ekki meira til.
Hver við KleifarvatnÁ síðasta ári (2007) úthlutaði Ferðamálastofa FSS og Grindavíkurbæ eina milljón króna til að laga aðgengi að Gunnuhver. Miðað við undanfarin hverahlaup á svæðinu er ólíklegt að varanleg mannvirki er aukið geta aðgengi og öryggi ferðamanna á svæðinu verði að veruleika á næstu árum, að minnsta kosti.

Sjá meira um breytingarnar á Gunnuhver á mbl.is daginn eftir, eða þann 3. mars 2008.

Heimildir m.a.:
-Hjónin að Sólbergi í Vogum.
-Jón Árnason I 563.

Gunnuhver

Gunnuhver.