Færslur

Gunnuhver

Skoðaður var Gunnuhver á Reykjanesi sem og næsta nágrenni. Hverasvæðið er litskrúðugt og mikilfenglegt, en varasamt og síbreytilegt. Við hverasvæðið eru m.a. nokkrar tóftir og grunnur húss.

Reykjanes

Reykjanes – grunnur húss Höyers.

Margir kannast við söguna af Gunnu Önundardóttur er hverinn er nefndur eftir. Hún segir af Guðrúnu og viðureign hennar við Vilhjálm á Kirkjubóli á Suðurnesjum. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina. Viðureign þeirra endaði með því stakkst ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver. (Hafa ber í huga að hverinn sá hefur átt það til að hlaupa til um svæðið og er því síbreytilegur.)

Höyer

Hús Höyers og Eriku við Gunnuhver.

Tóftirnar við Gunnuhver eru eftir búsetu Anders Christian Carl Julius Höyer og konu hans, Eriku Höyer, á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá út á Reykjanes. Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver. Hús Höyers var nálægt bílastæðinu t.v.

Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Þar er volg jörð og þurfti ekki aðra hitun. Annar endi hússins var gróðurhús og innangengt í íbúðarhlutann. Þarna er vatnslaust, en Høyer bjargaði sér með því að þétta gufu úr hverunum “für Menschen, Hund und Blumen” segir í þýskri ferðabók (E. Dautert án ártals). Aðallega munu þau hjón hafa fengist við að búa til blómapotta úr hveraleir sem þau bökuðu/hertu við jarðhitann.

Höyer

Anders C. Höyer.

Høyer var aðstoðarritstjóri garðyrkjublaðs “Politiken” fyrir komu sína hingað og líklega einnig á stríðsárunum (finn ekki heimild um það, en minnir ég hafi lesið). Þá skrifaði hann ævisögu konu sinnar fram að því að hún komst til Þýskalands eftir fyrra stríð. Bókin kom út í Danmökru á stríðsárunum. Árni Óla þýddi hana á íslensku (hún heitir “Anna Ivanowna” og höfundur er skráður Erika Høyer). Bókin er átakanleg lýsing á miklum hörmungatímum í ævi konunnar, var lesin sem útvarpssaga. Erika var 15 árum yngri en Høyer. Hann kom aftur til Íslands eftir stríð en hún varð eftir í Danmörku. Hann endaði sem “flugumferðarstjóri” á Melgerðismelum í Eyjafirði. Heimildir eru um Høyer í bók Árna Óla “Erill og ferill blaðamanns.”

Reykjanes

Reykjanes – texti á skilti við fyrrum bústað Höyers.

Í bók eftir Erich Dautert (Islandfahrt) er sagt frá viðkynningu og innliti til hjónanna.
Einnig er að finna frásögn af heimsókn til þeirra í bókinni “Árin okkar Gunnlaugs” (Scheving) eftir konu hans (G.L. Grönbech). Kristján Sæmundsson tók saman upplýsingarnar um Höyer. Þá segir í  Degi 16. mars 1955 um Höyer:”Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði.

Gunnuhver

Gunnuhver – loftmynd.

“A. C. Höyer Jóhannesson afgreiðslumaður á Melgerðisflugvelli varð 70 ára í gær”.
Þegar A. C. Höyer kom hingað til Íslands áríð 1925, hafði hann þegar víða farið og reynt margt. Hann er fæddur í Árósum í Danmörku, af suður-józku foreldri, en uppalinn í Suður-Jótlandi undir þýzku krúnunni.

Bræðratunga

Bræðratunga í Biskupstungum.

Ungur lagði hann land undir fót og fór suður um Evrópu, gekk á búnaðarskóla í Berlín, og réðist til ræktunarstarfa á lettnaskum búgarði. En útlendingum var ekki vært þar þegar byltingin flæddi yfir, þótt þeir hefðu þraukað af styrjaldarárin. Þá hélt Höyer til Danmerkur með unga konu af lettneskum uppruna. Ætlunin var að fá jarðnæði í Danmörk, en það var ekki laust fyrir efnalítinn mann. Úr fjarlægð að sjá var nóg landrými á Íslandi. Höyer réðist vinnumaður að Bræðratungu í Biskupstungum, síðan á búgarði Thor Jensens, en árið 1927 hófu hjónin, Höyer og Erika, landnám sem þótti harla nýstárlegt hér á landi á þeim tíma.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Landnám í Hveradölum og Reykjanesi.
Þau byggðu sér bæ við heitar Laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bílfarm af fallegum blómum og þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar. Þar höfðu þau hjónin garðrækt og seldu garðávexti og blóm til höfuðstaðarins. En þar var lífið erfitt, staðurinn einangraður og samgöngur strjálar.
Þar hófu þau leirmunagerð í smáum stíl til búdrýginda, en skorti verkfæri. Þau fóru til Danmerkur skömmu fyrir stríð til að afla sér þeirra, en lokuðust inni í Danmörk í styrjöldinni og komust ekki hingað út fyrr en árið 1946.

Gunnuhver

Leirgoshver við Gunnuhver.

Þriðja landnámið á Melgerðismelum.
Eftir viðdvöl í Reykjavík komu þau hingað norður, og litlu seinna réðist Höyer til Flugfélags Íslands og flugmálastjórnarinnar sem gæslumaður á Melgerðisflugvelli, og þar hafa þau hjónin átt heima síðan. Fyrst í húsakynnum vallarins, sem brunnu árið 1950 þeim til mikils tjóns, og síðan á nýbýli því, er Höyer hefur byggt og nefnir Melbrekku. Er það þriðja landnám hans hér á landi.
Frá 1947 til ársloka 1954 var mikil flugvélaferð um Melgerðisflugvöll og var nafn Höyers tengt henni á einn eða annan veg. Farþegar allir sáu þennan gráhærða, góðlega mann fyrst er þeir stigu á land, og síðastan manna, er þeir litu út um gluggana er vélin ók út á flugbrautina. Inni í skálanum við völlinn — meðan uppi stóð — hafði frú Erika veitingasölu, sem var mjög vinsæl af farþegum og fólki héðan úr bænum, sem gjarnan kom í heimsókn.

Melgerðisflugvöllur

Melgerðisflugvöllur (MWL).

Nú eru flugvéladrunurnar yfir Melgerðisflugvelli þagnaðar, en Höyer hefur eftirlit með tækjum og eignum flugmálastjórnarinnar þar, því að völlurinn er enn nothæfur ef þörf krefur. En þótt árin færist yfir og landnám gerist erfiðara, er það samt fjarri skapgerð Höyers að leggja árar í bát. Nú rekur hann hænsnarækt á búi sínu og unir allvel við sitt.

Gunnuhver

Upplýsingaskilti um Höyer við Gunnuhver.

Sýslar við bú, þótt svalt blási.
Lífið í Lettlandi á stríðsárunum fyrri vandi þau hjónin ekki á lúxus, og það kom sér vel í vistinni í Hveradölum og á Reykjanesi. Ríkmannlegt hefur aldrei verið hjá þeim á Melgerðisvelli, en hlýlegt, og ævinlega nóg um bækur og blöð, enda eru þau hjónin bæði bókelsk og vel að sér í mörgum greinum. Bæði hafa þau ritað nokkuð og margir minnast sögu Eriku um Önnu, Ivanovnu, en þar er víða haldið meira en í meðallagi vel á penna.
Nú eru 70 ár að baki og trauðla hyggur Höyer á nýtt landnám. Hann segist líka kunna vel við sig í Eyjafirðinum og talar um að gott verði að hvílast að Möðruvöllum eða Saurbæ að afloknu dagsverki. En þótt elli sæki nokkuð á, er engin uppgjöf hjá honum nú frekar en fyrri daginn. Á mánudaginn blés svalt um Melgerðismela og lítt sá til fjalla fyrir fjúki. En þá stóð Höyer enn að starfi við búsýslu sína. Hann þarf að sinna um 100 hænur í kofa. Þær verða 200 næsta ár, segir hann.
Hún ætlar að endast honum, sjálfsbjargarhvötin.”

Í Litla Bergþóri, 2. tölublað (01.12.2012), bls. 20-23, er fjallað um “Hveradala Höyer og konu hans”:
“Hér verður fjallað um hjón, sitt af hvoru þjóðerni, sem skolaði hér á land í umróti millistríðsáranna. Þau voru ólík sem dagur og nótt en undu sér samt vel saman og voru hér til dauðadags, með hléum þó.
Höyer Þau höfðu bæði reynt ýmislegt áður en þau settust að á Íslandi og hér fóru þau heldur ekki troðnar slóðir.
Sérstakt var að þau virtust sækjast eftir að búa á hrjóstrugum jaðarsvæðum, þó þau væru engar mannafælur. Þvert á móti. Þau tóku gjarnan á móti ferðamönnum og voru vel liðin af þeim sem höfðu við þau samskipti. Þau komu á sinn hátt að tveimur starfsgreinum, sem voru að hasla sér völl þegar þau voru á manndómsárum, ylrækt og svo farþegaflugi innanlands, þar sem þau voru umsjónarmenn á flugvelli. Það gætu því þess vegna hangið myndir af þeim bæði á Flugminjasafninu og á tilvonandi Garðyrkjusafni.
„Var hún ekki rússnesk prinsessa?“ Þannig spurði fullorðinn Akureyringur þegar ég nefndi við hann hvort að hann myndi eftir Ericu Höyer og þeim hjónum fyrir norðan. Já, það var ekki laust við að nokkur ævintýrabragur þætti á þeim og margt höfðu þau brallað á langri ævi. Það var fyrst að frétta af Anders C. Höyer hér á landi að hann kom sem vinnumaður í Bræðratungu í Biskupstungum í maí 1926. Þar var hann í fjóra mánuði, en eigandi jarðarinnar þá var hinn danski ritstjóri Berlinske Tidende, Svend Paulsen. Höyer kynnti sig hér sem garðyrkjumann og var það sjálfsagt, en síðar kom á daginn að hann hafði starfað sem blaðamaður í Danmörku og því ekki ólíklegt að hann hafi þekkt til Sveins bónda, enda höfðingjadjarfur og ófeiminn að koma sér í kynni við mann og annan.

Jóhannes Boeskov

Johannes Boeskov í dyrum gróðurhúss.
Fyrsta gróðurhúsið reis á Reykjum í Reykjahverfi árið 1923. Var það gert að frumkvæði Guðmundar Jónssonar skipstjóra og mágs hans Bjarna Ásgeirssonar alþingismanns en báðir bjuggu þeir á Reykjum og höfðu þeir mikinn áhuga á ylrækt. Helsti hvatamaður þeirra var Daninn Johannes Boeskov sem starfaði sem vinnumaður á Reykjum. Á garðyrkjusýningu sem haldin var í Reykjavík 1924 mætti Johannes með afurðir gróðurhússins eða 14 tegundir af matjurtum og blómum sem vöktu töluverða athygli enda ýmislegt sem ekki hafði sést áður.
Johannes stofnaði árið 1926 garðyrkjubýlið Blómvang sem telst vera eitt fyrsta nýbýlið sem byggðist eingöngu á ylrækt.
Johannes lést af völdum voðaskots árið 1927.

Um haustið fór hann ekki heim til Danmerkur heldur réði sig að Lágafelli í Mosfellssveit og var þar til vors. Hann sagði seinna (1953) í grein í Garðyrkjuritinu, að hann hefði strax heyrt um „vitlausa“ Danann, sem vildi byggja gróðurhús og lifa af ylrækt. Því miður ruglar Höyer aðeins saman gróðurhúsi sem byggt var á Reykjum í Mosfellssveit 1924, að vísu í umsjón Danans Jóhannesar Boeskov, en í eigu máganna á Reykjum, Bjarna Ásgeirssonar og Guðmundar skipstjóra, og svo aftur gróðurhúsi sem Boeskov byggði á nýbýlinu Blómvangi 1926 og telst fyrsta garðyrkjubýli á Íslandi þar sem eingöngu var treyst á ylrækt. Höyer og Boeskov urðu vinir og Höyer hjálpaði honum við byggingu gróðurhússins í Blómvangi og vildi svo fara sjálfur út í ræktun. Um sumarið var hann í Reykjavík og þá kom til hans hingað til lands unnustan Erica, fædd Hartmann, en hún var fimmtán árum yngri, aðeins 27 ára, en Höyer 42. Erica var frá Lettlandi, þeim hluta sem kallast Kúrland, og hafði ratað í ótrúlegustu hörmungar í fyrra stríði og sagði frá því í skáldsöguformi seinna. Það var bókin Anna Íwanowna, sem kom út í Danmörku haustið 1939, um þann mund sem seinna stríðið skall á og fékk góða dóma.

Skáldævisaga Kúrlendings.
Bókin er svokölluð „skáldævisaga“ og segir sögu fjölskyldu Ericu frá því að fyrri heimstyrjöld skellur á, þegar Erica var fjórtan ára, og þangað til þau snúa heim úr útlegð í Rússlandi og koma að öllu í rúst í sveitinni sinni í Lettlandi í stríðslok. Rússar og Þjóðverjar völtuðu til skiptis yfir þetta smáríki og það stóð varla steinn yfir steini er yfir lauk. Þau upplifðu stríðsátök, flótta, borgarastríð og rússnesku byltinguna, svo það var engin furða að henni þætti
friðsamlegt á Íslandi þegar hún rifjaði upp ævi sína á efri árum.

Auðvitað hefur Höyer skrifað bókina“, sagði Árni Óla löngu seinna, enda reyndist Höyer eftir allt saman þrælvanur blaðamaður þótt hann væri í fjósverkum og öðru púli meðan hann dvaldi hér fyrir stríð. Hvað um það, Erica er enn viðurkennd í Danmörku sem rithöfundur fyrir þessa bók. Árni Óla þýddi hana 1942 og var hún ein mest auglýsta og selda bókin hér á landi það árið. Ég var að enda við að lesa hana núna sem kvöldsögu fyrir konuna mína og gefum við henni bestu meðmæli. Erica, hin unga og lífsreynda, var semsagt komin til unnusta síns er hallaði sumri 1927. Þau fengu leyfi til að setjast að í Hveradölum á Hellisheiði þá um haustið og voru svo bjartsýn að ætla sér að búa í tjaldi á þessum stað meðan þau væru að hrófla sér upp kofa.

Landnámið í Hveradölum og á Reykjanesi.
HöyerAldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk. En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir fyrrnefndur Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.

Erika Höyer

Erika Höyer – minningargrein.

Já margt átti eftir að henda þau hjón áður en yfir lauk. Fyrst fóru þau bókstaflega úr öskunni í eldinn, því þau fluttu út á Reykjanes og gerðu sér annað nýbýli við Gunnuhver þar sem allt ólgar og sýður og ekki þurfti upphitun í kofann. Hitinn streymdi upp um fjalirnar í gólfinu eins og í „Nature Spa Laugarvatn Fontana“ í dag. Þau gátu ræktað og gerðu það, en vegaleysið varð til þess að þau komu ekki afurðum frá sér. Síðar datt þeim svo í hug að búa til jurtapotta úr leir, sem þarna var við hendina. Þau hertu pottana ýmist við hverahita eða brenndu í ofni sem kyntur var með rekaviði, sem þau söguðu í búta og klufu. Þau spöruðu ekki erfiðið, það var eins og þau væru að keppast í „ræktinni“ og þyrftu að passa línurnar. Árni Óla heimsótti þau þarna og leist ekki á. Höyer var kátur að vanda en sagðist samt vera á förum til Danmerkur, sér hefði verið boðin staða hjá Politiken og ætti að verða aðstoðarritstjóri landbúnaðarútgáfu blaðsins. Þegar hér var komið sögu höfðu þau eignast son og var trúlega ekki gæfulegt til frambúðar að hokra þarna hjá Gunnuhver með stækkandi fjölskyldu.
Þarna við hverinn er nú skilti þar sem sagt er frá „síðustu ábúendunum“ en það voru þau hjónin. Því miður eru nokkrar missagnir í frásögninni, t.d. að Höyer hefði verið fæddur í „einhverjum fyrrum Eystrasaltshéruðum Prússlands og það skýrði hina sérstöku málakunnáttu hans“. Hið rétta mun vera að hann fæddist í Árósum á Jótlandi 1885 og var kominn til Kaupmannahafnar fyrir tvítugt. Sem ungur maður hafði Höyer starfað sem formaður Ungra jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og á landsvísu og kynnst mörgum lykilmönnum í Jafnaðarmannaflokknum. Og ekki urðu kynnin minni er hann gerðist blaðamaður á þeirra vegum og þá líka hjá stærsta blaðinu Socialdemokraten. Hann var þá á uppleið, hafði eignast konu og tvo syni, en eitthvað fór úrskeiðis, hann skildi við konuna og fluttist til Lettlands. Hann dvaldi í Lettlandi árin 1923 til 1925, þar sem hann hitti Ericu og þar með tóku örlögin nýja stefnu. Annað sem missagt er á skiltinu er að Erica hafi orðið eftir í Danmörku eftir stríð en Höyer hafi komið einn til Íslands. Hið rétta er að hjónin komu saman og voru hér til dauðadags, en sonur þeirra varð eftir í Danmörku, þó hann væri aðeins 12 ára gamall er þau fluttu „heim“.

Í dönsku útvarpi og þýsku. 

HöyerÞau fluttust sem sagt frá Gunnuhver á Reykjanesi til Danmerkur 1937. Höyer komst strax inn á danska útvarpið og var mælt með honum sem fyrirlesara og fékk hann venjulega greiðslu fyrir, sem voru 100 krónur fyrir hvert erindi. Hann flutti þó nokkur erindi í Statsradioen fram að stríði og var mjög fundvís á efni sem þóttu nýstárleg í Danmörku á þessum tíma. T.d. hét einn þátturinn „Danskur veiðimaður og landnemi á Íslandi“, annar hét „Að eiga heima á eldfjalli“ o.s.frv. Sem dæmi um fjölbreytnina má nefna erindi um skipakirkjugarð við Ísland, rjúpnaveiðar og bindindismál, að ógleymdu erindi um íslenskan landbúnað, þar sem hann lýsir búskapnum í Bræðratungu og þótti takast vel upp. Hann var óþreytandi að bjóða efni, sumt var tekið en öðru hafnað, og þótti vel frambærilegur fyrirlesari. Það virkar því dálítið kómískt að lesa það í bók Jóhannesar flugstjóra, Skrifað í skýin, um Höyer að þegar hann var orðinn umsjónarmaður á flugvellinum á Melgerðismelum, hafi hann verið búinn að týna niður dönskunni, sem og öðrum tungumálum og verið næsta óskiljanlegur, þó að oft þyrfti hann að leiðbeina flugmönnum í lendingu gegnum talstöð. Flugstjórinn hefur ekki vitað að Höyer var ekki alls óvanur að handleika hljóðnema.

Erika Höyer

Erika Höyer.

Nú voru þau Erica og Höyer semsagt komin til Danmerkur eftir fyrri dvöl sína á Íslandi og það var ekki langt í næstu heimstyrjöld. Það var örlagadagur fyrir Höyer og fjölskyldu þegar Danmörk var hertekin 9. apríl 1940. Höyer gekk þá strax Þjóðverjum á hönd og tók þátt í útvarpssendingu á þeirra vegum þar sem hann studdi „frelsun Danmerkur“. Þá var hann umsvifalaust rekinn frá útvarpinu, því að danska útvarpið hélt merkilegt nokk sjálfstæði sínu alveg þangað til í hreinsunum í ágúst 1943, þegar lögreglan var leyst upp og ríkisstjórnin fór frá. Í júlí 1941 varð Höyer fréttaritari í Berlín fyrir dönsku bændasamtökin, en þau gáfu út blöð og tímarit í Danmörku. Danskir bændur voru hallir undir þjóðverja, enda þénuðu þeir á úflutningi til Þýskalands, sem var óþrjótandi markaður fyrir danskar landbúnaðarvörur.
Meðfram fréttaritarastarfinu kom Höyer líka að sendingum þýska útvarpsins á dönsku og flutti m.a. 10 erindi um landbúnaðarmál á þessum tíma. Í Berlín var Höyer fram að uppgjöf Þjóðverja, en Erica var í Danmörku með soninn. Þau lentu í yfirheyrslum í Danmörku í stríðslok en sluppu með skrekkinn, enda íslenskir ríkisborgarar og komu „heim“ með Drottningunni um miðjan janúar 1946, eins og segir í klausu í Morgunblaðinu.

Erika Höyer

Erika Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 1900-1982.

Ástandið í Danmörku hafði verið þrúgandi öll hernámsárin. Fyrsta stríðsveturinn 1939-40 höfðu Danir reynt að halda uppi hlutleysi eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en 9. apríl 1940 var sá draumur úti. Ráðherrar voru rifnir upp á rassinum úr hlýjum sængurfiðunum og settir úrslitakostir, annað hvort að samþykkja hernámið eða fá sprengjuregn yfir Kaupmannahöfn. Þeir völdu fyrri kostinn með óbragð í munni eins og sagt er. Spennan fór vaxandi eftir því sem tíminn leið og þegar Þjóðverjum fór að ganga verr í stríðinu óx andstöðuhópum fiskur um hrygg í Danmörku og þeir voru tilbúnir á friðardaginn 5. maí 1945 með lista yfir handbendi Þjóðverja í styrjöldinni. Það var engin miskunn sýnd, 34.000 manns voru handteknir fyrstu dagana eftir friðardaginn, smalað aftan á vörubíla og keyrðir þannig um götur með uppréttar hendur og skammaryrði hengd um háls. Og múgurinn hrópaði krossfestum þá, eða eitthvað álíka. Mörgum urðu þessir frelsisvinir að sleppa vegna óljósra sannana, en margir fóru í fangelsi og 48 fengu dauðadóm fyrir landráð. Kamban var skotinn án dóms og laga og varð af því mikið milliríkjastapp, sem kunnugt er.

Braggalíf á Melgerðismelum og ekkjustand á Akureyri.
HöyerÞeim Ericu og Höyer þótti margt breytt á Íslandi eftir stríðið, ekki síst í garðyrkjunni, þar sem risnar voru stórar garðyrkjustöðvar með fleiri þúsund fermetrum undir gleri. Þó ætluðu þau sér enn að reyna að lifa á landsins gæðum og jarðhitanum. Þau fluttust norður í Eyjafjörð að Melgerðismelum, en þar hafði verið flugvöllur og bækistöð Bandamanna á stríðsárunum. Þar komu þau sér fyrir í bragga, sem þau skiptu í tvennt, annars vegar íbúð og hins vegar afgreiðslusal fyrir flugið. Þar voru þau hjón umsjónarmenn og höfðu greiðasölu. „Við vorum þar mörg góð ár“ sagði Erica í endurminningum sínum.
Sigmundur Benediktsson, Eyfirðingur sem ég talaði við, man eftir þeim hjónum í bragganum, þar sem haldin voru böll sem þóttu nýstárleg. Þar skaust hin dökkeyga, smávaxna Erica á milli dansfólksins og stráði yfir það „Konfetti“-pappírsræmum. Það hafði ekki tíðkast í Eyjafirði þó mörg erlend áhrif hefðu borist til Akureyrar gegnum tíðina. Þessir góðu dagar á Melgerðismelum tóku enda eins og aðrir dagar. Flugið fluttist inn til Akureyrar 1955. Þá var bragginn rifinn og hjónin byggðu sér lítið hús, sem þau nefndu Melbrekku.

Höyer

Anders Christian Carl Julius Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 15 mars 1885-30 júní 1959.

Anders var eins og áður sagði 15 árum eldri en Erica og heilsan fór að bila. Síðustu þrjú árin sem hann lifði var hann á sjúkrahúsinu á Akureyri og lést þar 30. júní 1959. Erica auglýsti látið og jarðarförina rækilega. Fyrst auglýsir hún í Morgunblaðinu: „Hjartkær eiginmaður minn og faðir A.C.Höyer, Melbrekku, áður Hveradölum, lést á sjúkrahúsi Akureyrar 30. júní. Jarðsett verður frá Fossvogskirkju 8. júlí kl. 2“.
Þá er önnur auglýsing þar sem bálförin er auglýst frá Fossvogskapellu þann 7. júlí og undir stendur Erica Höyer og synir. Síðan er í Degi 16. september auglýst minningarathöfn um Carl Höyer Jóhannesson umsjónarmann, sem fari fram daginn eftir frá Möðruvallakirkju. Síðast kemur þakkartilkynning, einnig í Degi, þar sem Erica þakkar öllum sem studdu hana við útförina; sr. Pétri Sigurgeirssyni fyrir ræðu og liðveislu, söngkór fyrir aðstoð og kvenfélagskonum fyrir gefnar veitingar. Það hafa margir lagt þessari erlendu konu lið og hún var vel kynnt hjá þeim sem umgengust hana.

Erika Höyer

Erika Höyer – Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.

Erica átti mörg ár eftir ólifuð sem ekkja á Akureyri. Hún stundaði saumaskap meðan heilsa leyfði, eignaðist vinkonur sem ortu til hennar í minningagrein þegar hennar tími kom. Seinustu tvö árin átti hún heima á dvalarheimilinu Hlíð, en hún lést 9. maí 1982, fyrir aðeins 30 árum.
Annar Kúrlendingur, Wolf von Seefeld, minnist hennar í grein í Íslendingaþáttum Tímans, og nefndi m.a. að hún hafi verið þrítyngd, jafnvíg á þýsku, lettnesku og rússnesku. Íslenskan hennar var ekki alveg eftir málfræðinni sagði hann, en kom beint frá hjartanu. Wolf, sem seinna varð Úlfur Friðriksson, var líka flóttamaður úr stríðunum tveim, fæddur 1912 í Kúrlandi og kom til starfa hjá föður mínum 1955. Hann var fornfræðingur og sagnfræðingur, en hafði „lent í garðyrkju“ upp úr stríðinu. Mér fannst hann vera gamalmenni er ég sótti hann á rútuna þá um sumarið, en þá hefur hann verið 43 ára. Það var þó seigt í karli, því að hann varð 97 ára, mikill Íslendingur og skrifaði bækur, bæði um íslenska hestinn og minningabrot úr Hólavallakirkjugarði.
Nú hef ég verið að stikla á stóru í lífi útileguhjónanna Höyer. Ekki koma öll kurl til grafar með þeirra líf, en þau voru hluti af íslenskri sögu á umbrota- og framfaraskeiði þjóðarinnar og áttu sinn hlut, ekki síður en hinir, sem hér voru bornir og barnfæddir.
Erica gaf Íslendingum góðan vitnisburð í minningarbrotum, sem hún var beðin um að skrifa í jólablað Dags 1957: „Helstu kostir Íslendinga eru heilbrigð skynsemi þeirra og jafnaðargeð. Þeir rasa ekki um ráð fram, þeir gera ekki vanhugsaða hluti í reiðiköstum. Svo eru Íslendingar óþreytandi að hjálpa þeim sem miður mega sín og gestrisni þeirra er frábær“.
Þetta er ekki slæmur vitnisburður hjá gestinum glögga, sem bjó hér í yfir 40 ár. Þau hjónin hvíla í Möðruvallakirkjugarði í Eyjafirði, hlið við hlið, eins og í tjaldinu í Hveradölum forðum. En nú gildir einu þó að rigni.

Heimildir:
-Árni Óla: Erill og ferill blaðamanns hjá Morgunblaðinu um hálfa öld, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1963).
Ásgeir Guðmundsson: Berlínarblús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista, (Reykjavík: Skjaldborg,
1996).
-Danmarks Historie, Kjersgaard, Erik, önnur útáfa, 1997.
-Erica Höyer: Anna Iwanowna, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, [1942]).
-Hallir gróðurs háar rísa, Haraldur Sigurðsson, 1995.
-Grete Grönbech: Árin okkar Gunnlaugs, ([Reykjavík]: Almenna bókafélagið, 1979).
-Garðyrkjuritið, 1953.
-Íslensk dagblöð á ýmsum tímum.
-Sunnlenskar byggðir 3 : Laugardalur, Grímsnes, Þingvallasveit,
-Grafningur, Ölfus, Hveragerði og Selvogur, Páll Lýðsson bjó undir prentun, ([Selfoss]: Búnaðarsamband Suðurlands, 1983).

Gangan tók 1 klst. Frábært veður.

Meginheimildir m.a.:
-Dagur, 16, mars 1955, Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði, bls. 16.
-Litli Bergþór – 2. tölublað (01.12.2012) – bls. 20-23.
-Íslendingaþættir Tímans, 24. tbl. 23.06.1982, Minning; Erika Höyer, bls. 4.
-Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.

Gunnuhver

Reykjanesviti.

Gunnuhver

Þjóðsagan um Gunnu við Gunnuhver á Reykjanesi er eftirfarandi:
“Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandi við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti semhann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.
Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagann sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skaganum og var þá allur blár og beinbrotinn.

Gunnuhver.

Lík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hefði drepið hann og væri nú afturgengin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Var það allt af völdum Guðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var viðvært mönnum né málleysingjum.

Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík í Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki alténd vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott.

Gunnuhver

Gunnuhver – hverasvæðið.

Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins ogfyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru ástað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðanu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju.

Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undir eins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðanu valt það á stað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja, hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint við afturgöngu Gunnu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin, því hún vill fyrir hvern mun sízt fara ofan í vilpu þessa”.

Í kringum svæði Gunnuhvers er mikil litadýrð og óvæntir möguleikar er fæstir ættu að láta fram hjá sér fara, sbr. meðfylgjandi FERLIRsmyndband…

Heimild:
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Gunnuhver

Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og s svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: “Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.”
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.
Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.

En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.

Gunnuhver

Gunnuhver. Hverinn færist fram og aftur um hverasvæðið.

Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: “Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.”
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.

Jón Árnason I 563

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi.
Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan Gunnuhver-12leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir. Gufustreymið jókst mjög er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.
Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 á Richter. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri.
Gunnuhver-13Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli Hversins 1919 er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir) virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Heimild:
-http://isor.is/efni/9-gunnuhver-%E2%80%93-hverasvaedi

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Reykjanes

Guðmundur G. Bárðason skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins 1928, “Á Reykjanesi“:

Guðmundur G. Bárðarson

Guðmundur G. Bárðarson.

“Þeir sem ætla frá Reykjavík út á Reykjanes eiga um tvær leiðir að velja. Önnur liggur frá Grindavík en hin frá Kalmanstjörn í Höfnum vestan á Reykjanesskaga. Til beggja þessara staða er góður bílvegur frá Reykjavík og tekur aksturinn um 2 klst. Frá Kalmanstjörn er 3 klst. gangur suður á Reykjanes. Liggur vegurinn fyrst fram hjá Hafnarbergi yfir gömul helluhraun, sem eiga upptök sín í Sandfellsdyngju (Sandfellshæð) upp við fjöllin á skaganum hefir hrunið fallið hjer í sjó fram og myndað Hafnaberg. Er hæsti hraunhóllinn yst á berginu nefndur Berghóll. Sunnan við Hafnaberg taka við Stóra- og Litla-Sandvík. Alt þangað suður eru foksandsbreiður á veginum, er skapast hafa af foksandi frá ströndinni. Veður í sandinn og er þungfært, einkum þegar þurt er. Úr Litlu-Sandvík liggur leiðin heim að Reykjanesbænum yfir Stampahraun. Er þar greiðfær og sæmilega sljett gata. Öll er þessi leið greiðfær hestum.

Gömlu-Hafnir

Tóftir í Gömlu-Höfnum.

Norðanvert við Hafnaberg mótar fyrir sandorpnum rústum, eyðibýlum. Þar voru í fyrndinni 3 bæir, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, og Eyri og sunnan við Hafnaberg eru rústir af bæ, sem hjet Skjótastaðir. Líklega efir sandfok eytt býlum þessum. Nú eru þessi svæði mjög sandorpin og gróðurlaus að kalla. Hefir roksandurinn hjeðan borist langa leið upp í Hafnaheiði, austur fyrir veg þann, er liggur úr (Grindavík norður) í Hafnir.

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík. Það mun hafa verið Ólafur Sveinsson vitavörður, er fyrstur kastaði þarna grjóti úr götu. Ólafur og synir hans voru menn harðduglegir til verka, og þeir ruddu þarna veg svo að bílar gátu komist alla leið út að vita.

Frá Járngerðarstöðum í (Grindavík er einnig 3 klst. gangur út á Reykjanes. En s.l. vor hefir Ólafur Sveinsson vitav. á Reykjanesi unnið að því með sonum sínum að bæta veginn úr Staðarhverfinu út á nesið, og orðið mikið ágengt. 23. júlí í sumar fór jeg á bíl úr Grindavík alla leið út að túninu á Reykjanesi. Var það fyrsti bíllinn er komst alla þá leið. Milli Járngerðarstaða og Staðar skiftast á grónar grundir með sjónum og hraun, og á einum stað er sjávarós, sem tæpast verður ekið yfir um flæði.

Staðarberg

Staðarberg.

Utan við Stað taka við hraun og eru sum allúfin apalhraun. Ná þau útundir svo nefnda Sandvík mitt á milli Staðar og Reykjanes. Enda hraunin í bröttum hömrum við sjóinn. Heitir þar Staðarberg. Er þar torfærulaus leið fyrir bíla, en krókótt og seinfarin. — Út frá Sandvík er vegurinn sljettur og greiðfær, en víðast sandborinn. — Aðeins á stöku stað, svo laus að hjólin vantaði viðspyrnu og „spóluðu” sem kallað er; en úr því hefir vitavörðurinn bætt með því að leggja hraunsteina í veginn. Alt er þetta bærilegur reiðvegur og greiðfær gönguleið, en heldur þungfært í sandinum. En hvorki þessa leið eða frá Kalmanstjörn skyldu menn fara á spariskóm. Eru gúmmískór hentastir í hraununum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Eldvörp kallast hraunhólaröð, sem ber við himin í hraununum nlllangt fyrir norðan veginn. Er það gömul gígaröð með strjálum gíghólum og eldborgum, sem mynd ast hefir á eldsprungu. Stefnir hún frá Sandvík til norðausturs inn Skagann, norðanveit við Þorbjarnarfell. Úr eldvörpunum hefir fallið mikil hraunbreiða fram á Staðarberg milli Staðar og Sandvíkur og önnur kvísl til sjávar milli Húsatófta opr Járngerðarstaða. Hafa gos þessi líklega orðið á undan landnámstíð, þó eigi verði það sagt með neinni vissu.

Baðstofa

Baðstofa.

Gjár eða hraunsprungur alldjúpar eru á nokkrum stöðum í hraunum þessum nærri veginum og stefna þær allar að kalla líkt og Eldvörpin, frá SV.—NA. — Nafnkunnust er gjá austan vert við bæinn á Húsatóftum; er hún kölluð Baðstofa. Er hún ca. 25—30 m. djúp og ferskt vatn í henni um fjöru. Er það eini staðurinn á þessari strandlengju sem ósalt vatn er að fá. Silfurgjá („Silfra”) er fyrir ofan Járngerðarstaði, 20—25 m. djúp. Inn í sumar gjárnar gengur smá upsi gegnum hraunið t.d. Bjarnagjá.

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Útilegumannabygð. Í Eldvarpahrauni, í norðvestur frá Grindavík, fundust 1872 eldgamlar rústir af hraunkofum er sumir hafa haldið að væru eftir menn sem lagst hafi út í hraunið, en aðrir halda að Grindvíkingar hafi notað þá sem fylgsni á ófriðartímum. Eru kofarústirnar á afskektum stað í versta hrauninu, og eigi gjörlegt að leita þeirra nema með leiðsögu kunnugra manna. Hefir Þorv. Thoroddsen lýst þeim í ferðabók sinni, (Ferðabókin T. bls. 174).

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Eydd bygð. Nú er Staðarhverfið vestasta bygðin sunnan á Skaganum. En ummæli herma að í fyrndinni hafi bygð verið miklu lengra út eftir og prestssetrið Staður hafi þá verið í miðri sveit. Ef til vill hefir einhver bygð verið í Sandvík og þar í grend, sem sje eydd af sandfoki. Sumir telja að Reykjanes hafi áður fyr náð lengra út og þar muni hafa verið bygð, sem sokkin sje í sjó. En það er harla óiíklegt og engin rök hafa fundist fyrir því í fornritum. Hafi Eldvarpahraun runnið eftir landnámstíð gæti það hafa eytt býlum við ströndina.
Háleyjarbunga. Utanvert við Sandvík er ávöl hæð eða bunga suður við ströndina góðan spöl frá veginum. Heitir hún Háleyjarbunga. Er hentugt að taka sjer krók af veginum til að skoða hana. – Er það gömul gosdyngja svipuð Skjaldbreið að lögun, en margfalt minni og halla minni. Efst í bungunni er gosketillinn og sjest hann eigi fyr en alveg er komið að honum. Er hann um 130 m. að þverm. og 20—30 m. djúpur, í börmunum er straumlögótt grágrýtiskent berg með glitrandi ólivín kristöllum gul grænum að lit og eru sumir með bláleitum blæ. Gosdyngjur svipaðar þessum eru allvíða hjer á landi en fágætar annarsstaðar nema á Sandwicheyjum í Kyrrahafi. Sjórinn hefir brotið af suðurjaðri dyngjanna og heitir þar Háleyjaberg.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Skálafell. (Heiðin). Af Háleyjarþungu er best að fara vestur á Skálafell, sem er eldfjall (ef fjall skyldi kalla), og hæsta fjalli sunnan á Reykjanesi (78 m.).
Djúpur gígur eða eldborg með börmum af gjallkendu hrauni en austan í fellstoppnum. Þaðan hefir mikið apalhraun runnið niður fjallið. Annar eldri gígur ógleggri er þar nokkrum metrum vestar. Á fjallinu er gott útsýni út á Reykjanestána, þar sem litli vitinn er. Hraunsprungur og gjár eru margar í fjallshlíðinni að norðvestan. Stefna allar frá SV—NA og rýkur úr þeim á stóru svæði.
Mest ber á Misgengissprungu niður við rætur fjallsins og nær hún út að sjó, hefir þar myndast kletta belti af því landið austan við gjána hefir sigið 10—15m. Þar sem mest er. Heitir gjáin

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valbjargargjá. Stefnir hún yfir hverasvæðið upp á nesinu. Líklega er suðurbarmurinn á svo kallaðri Hauksvörðugjá, norðvestur af Sandfelli inn á Skaganum, áframhald af Valbjargargjá. Sumir telja að sprungur þessar megi rekja austur í Strandaheiði, suður af Vogum.

Reykjanes-sundlaug

Reykjanes – sundlaug. Valborgargjá er staður sem fáir hafa heyrt um og er falin perla fyrir mörgum. Hún er með fallegri stöðum á Reykjanesi en þar er m.a að finna eina af elstu sundlaugum landsins. Ólafur P. Sveinsson vitavörður á Reykjanesi lét gera litla laug í gjánni á árunum 1925–1930. Hann lét sprengja hraunklöpp þannig að volgur sjór seytlaði í gjánna og útbjó hann þrep niður í gjánna. Byggður var skúr yfir gjána og var börnum kennt sund þarna áður en sundlaugar komu til skjalanna í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaganum. Laugin er kulnuð í dag.

Sjávarlaug. Sunnan við Valbjargargjá eru óslitin hraun út á Reykjanestána. Sunnanvert við Reykjanestána er Blásíðubás og svo Skarfasetur, þar sem litli vitinn stendur. Eru þar allsstaðar brattir hraunhamrar með ströndinni norður undir Valbjargargjá.
Norðan við gjána er láglent, Hefir brimið hlaðið þar upp háum malarkambi úr stórum hnullungum, er nær norður að Valahnúkum. Bak við malarkambinn er mjótt og langt krókótt lón. Sígur sjórinn inn í það um flæði gegnum malarkambinn. Einnig mun sjór leita neðanjarðar miklu lengra inn undir hraunin bak við, þangað sem jarðhitinn er. Þegar fer að falla út sígur sjórinn undan hrauninu út í lónið og er þá 26° heitur. Er hitinn mestur nyrst í lóninu. Þarna virðist vera efni í besta baðstað. Væri lónið hreinsað, steyptir að því veggir og stúkað í sundur, ættu menn þar völ á sjóböðum, misheitum, frá átta til tíu gráður eins og hann er hjer við ströndina upp í 26° eins og suður við Ítalíu. Nóg er hjer líka af skjólasömum sandstráðum, lægðum og skútum í Valbjargargjá og hrauninu til sólbaða þegar sólar nýtur.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Valahnúkar. Svo heita tveir einkennilegir móbergshnúkar við sjóinn norðan við sjólaugina og er sá syðri miklu stærri (48 m. hár). Í raun og veru munu hnúkarnir vera leifar af afargömlum eldvörpum, er spúið hafa ösku. Hefir sjórinn sorfið og brotið niður helming hnjúkanna og stendur þvergnýpt stálið eftir og fljettast svartir blágrýtisgangar og blágrýtislög alla vega innan um móbergið. Í nyrðri hnúknum ber meira á blágrýtinu. Hefir brimið etið breið göng í gegnum hann. Geta menn um fjöru gengið þar þurrum fótum í gegn, undir fellið.
Áður stóð vitinn á Stóra-Valahnúk En í landskjálftum vildi það til að bergið sprakk og hrundu úr því stykki svo staðurinn var ótyggur. Á vorin og framan af sumrum er allmikið af bjargfugli bæði lunda, ritu og fíl í hömrunum framaii í hnúkunum. Eiga þeir þar hreiður sín. Er þar tækifæri til að sjá þá hlynna að ungum sínum og færa þeim fæðu.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli. Eldri vitavarðahúsin.

Heima á Reykjanesi. Jeg býst við að ferðamennirnir sjeu farnir að þreytast af göngunni, þegar þeir hafa sköðað það sem hjer hefir verið talið. Er þá ráð að skreppa heim á bæinn og heilsa upp á vitavörðinn, taka sjer stundar hvíld.
Bærinn stendur sunnan undir svonefndu Bæjarfelli. Er það úr móbergi og líkt og Valahnúkar. Vitavörðurinn og frú hans taka vel á móti gestum sínum og eru fús að greiða götu ferðamanna og leiðbeina þeim. Ólafur vitavörður hefir aðeins verið 3 ár á Reykjanesi. Er hann mesti atorkumaður og hefir ótrálega mikið bætt jörðina á þeim stutta tíma, bæði aukið og bætt túnið og girt það með öflugum grjótgirðingum.

Reykajnes - viti

Reykjanes – yngri vitinn og yngri vitarvarðahús.

Vitinn stendur efst á Bæjarfelli (áður Vatnsfelli), er hann 25 m. hár og ljóskerið um 73 metra hátt, yfir sjó. — Borgar sig að skreppa upp í hann til að skoða ljóskerin og njóta útsýnis yfir nágrennið. Er erfitt að standa á verði við ljósin efst í turninum þegar landskjálftar ganga og alt leikur á reiðiskjálfi.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Hefir vitavörðurinn stundum komist í hann krappan við ljóskerin þegar landskjálftar hafa komið. Goshverinn er góðan spöl fyrir austan bæinn á jarðhitasvæðinu norður af Skálafelli. Er hann nefndur Litli-Geysir. Mun hann hafa; myndast 1906(?). Áfast við hann að vestan er annað uppgönguauga. — Eru þetta einu hverirnir hjer á nesinu sem gjósa vatni. Þó er það ekki ferskt vatn sem kemur upp með gosunum, heldur saltur sjór, enn saltari en við ströndina. Liggur þó hverinn nm 15 metra hátt yfir sjó og frá honum er 2—3 km. spölur til sjávar. En óefað sígur sjórinn eftir sprungum neðan jarðar inn undir jarðhitasvæðið. Hverinn gýs á 15—20 mínútna fresti og eigi hefi jeg sjeð hann gjósa nema c.a. 3 m. frá jafusljettu, en stundum kvað hann gjósa mun hærra. Á undan gosunum heyrast miklar dunur niðri í jörðinni, er smáaukast þangað til gosið byrjar. — Nokkrum metrum fyrir austan Geysi ee vellandi leirpyttur er mikið gufar úr. Myndaðist hann í landskjálftum 1919.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gunna eða Gunnuhver. Fyrir norðaustan Geysi er öll jörðin soðin sundur af jarðhita, bergtegundirnar leystar upp og orðnar að ruuðum, gulleitum og hvítum leirtegundum. Hafa menn haldið að hvítasti leirinn, sem best sjest þar í gryfju einni, væri postulínsjörð, en í rauninni er í honum sömu efni og venjulegu hverahrúðri (Kisill). Þar í holtunum eru á stóru svæði fjölmörg jarðffufuott, er sjóðheitar gufur streyma upp um. Hefir safnast nokkur brennisteinn við sumar þeirra (brenniateinshverir) og víða er leirinn blandaður brennisteini. Í dálítilli hvilft norður í holtaröðlinum, sem þar er, eru vellandi leirhverir. Heitir aðalhverinn Gunna eða Gunnuhver. Er sagt að hverinn dragi nafn af draug, er Eiríkur prestur á Vogsósum setti þar niður (Þjóðsögur Jóns Arnasonar I. 577—578). Í hverunum er vellandi leirgrautur, og öðru hvoru gjósa þar upp brennheitir gufustrókar með miklum hvin og dunum. Er þetta talinn einna mestur leirhver hjer á landi. Fara skyldu menn gætilega nærri þessum leirhverum því jarðvegurinn er ótraustur og undir honum er jörðin sjóðheit og vellandi.

Gunnuhver

Gunnuhver – hverasvæðið.

Láta mun nærri að jarðhitasvæðið á Reykjanesi muni vera 3-4 ferkílómetrar. Á öllu því svæði stíga gufur upp hjer og hvar úr sprungum og hraungjótum, þegar svalt er veður. Í grasflesjunum nærri aðalhveruuum, þar sem engar gufur sjást koma úr jörðu, er jörðin víða 80—90° heit rjett undir grassverðinuni; fer þar að rjúka ef jarðvegurinn er rofinn. Er það ljóst að hjer er geysimikil og dýrmæt orka falin í jörðu, sem nægt gæti Reykjavík og öllum þorpum hjer á skaganum til ljósa, hita og iðnaðarstarfa. En til þess þarf að beisla jarðhitann og breyta honum í rafmagn, líkt og nú er gert á Ítalíu og Japan. Telja fróðir menn að virkjun jarðhitans sje ódýrari en fossavirkjun. Áður en farið er að virkja fossa í stórum stíl handa Reykjavík, er sjálfsagt að rannsaka það til hlítar, hvort eigi borgi sig eins vel eða betur að virkja jarðhitann á Reykjanesi eða öðrum hverasvæðum í nálægð við bæinn.

Sýrfell

Sýrfell.

Sýrfell. Frá hverunum er um klukkutíma gangur norður á Sýrfell; er það móbergsfjall og hæsta fjallið út á nesinu (96 m.). Er þaðan gott útsýni. Suðvestur af því eru svo nefndir Rauðhólar; eru þar ljós og rauðleit leirlög, leifar eftir gamla hveri. Í hæðarana suðvestur af Sýrfelli er gígskál allstór og annar gígur nokkrum metrum sunnar efst í sömu hæðinni. Norðaustur af Sýrfelli mætast nýju hraunin úr Grindavíkur-Eldvörpunum og Stampahraunin úr gígaröðinni á norðanverðu nesinu.

Súlur

Súlur.

Í norðri og austri blasir við Hafnaheiði, Stapafell, Súlur, Þórðarfell, Sandfell og Sandfellshæð, sem er langstærsta hraundyngjan á utanverðum skaganum. Frá Sýrfelli gengur lægð til norðausturs inn skagann, sjest glögt fyrir henni norðaustur við nýjuhraunin. Heitir dældin Hauksvörðugjá, er þessi sigdæld takmörkuð af misgengissprungum beggja vegna. Framhald þessarar sigdældar er lægðin á Reykjanesi milli Skálafells og Stampahrauns. En sprungurnar eru þar víðast duldar undir yngri hraunum nema norðan í Skálafelli. Þjóðsögur herma að Kaldá hjá Kaldárseli hafi í fyrndinni runnið út Reykjanesskaga og þessi sigdæld sje hinn forni farvegur hennar, en forneskjumaður hafi breytt farvegi hennar.

Stampar

Stampar og Stampahraun.

Stampar og Stampahraun. Hraunbreiðan á nesinu norðan við fellin heitir Stampahraun. Hafa þau hraun komið úr eldsprungu (einni eða fleiri) er hefir vanalega stefnu (SV—NA) og nær alla leið frá sjó við svo kallaður Kerlingarbás, eins langt til norðausturs sem hraunið nær. Hefir röð af gígum eða eldvörpum myndast á sjálfum sprungunum þar sem hraunið hefir ollið upp. Heita gíghólar þessir Stampar. Mun nafnið þó helst eiga við þá syðstu. Til þess að skoða gígaröðina er hentast að fara út í hraunið norðvestur af Sýrfelli og fylga eldvörpunum til sjávar. Þar eru víða holar hrannpípur eða hraunræsi er storknað hafa utan um hraunstrauma og hraunleðjan síðan tæmst innan úr. Niður við sjóinn eru háir hamrar af lagskiftu móbergi og hraunið ofan á. Þar eru lóðrjettir blágrýtisgangar upp í gegnum móbergið er renna saman við hraunið ofan á, Eru það án efa endarnir á eldvörpunum sem hraunið hefir ollið upp um.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Spöl norður með sjónum er gíghóll framan í hömrunum. Hefir brimið etið hann inn að miðju svo þverskurður sjest af innri gerð hans. Er gígrásin full af rauðleitu gjalli. Önglabrjótsnef, litlu norðar, er myndað úr gjallkendu hrauni úr þessum gíg og fleirum af líkri gerð, er standa nokkru fjær ströndinni.

Karlinn

Karlinn.

Karlinn er 50 m. hár drangur fram af nesinu undan Stampahrauni 400—500 m undan landi. Þar eiga bjargfuglar hreiður í berghillum.
Eldey blasir við í suðvestur af nesinu. Er hún um 14 km. undan lyndi, álíka há og Skálafell (77 m., 100 m. breið, um 300 m. löng), flöt að ofan og öllu megin þverhnýpt niður að fjöru. Eyjan er úr móbergi og gróðurlaus. Hjalti Jónsson framkvæmdarstjóri kleif upp í eyjuna 30. maí 1894. Þótti það þrekvirki. Rak hann járngadda í bergið og las sig eftir þeim upp á eyjuna, og tengdi festi í bjargið. Þar verpa súlur í þúsundatali.

Reykjanes

Reykjanes – brim.

Brimið við Reykjanes er oft stórkostlegt þegar vindur stendur af vestri. Þeir sem staldra við á Reykjanesi þegar öldurót er, og eigi hafa sjeð stór brim, ættu að bregða sjer ofan á hamrana hjá Valbjargargjá eða ofan á Valahnúk, og virða fyrir sjer brimgarðinn, og hlusta á gróttuhljóðið við Valhuúkamöl, þegar brimsogið og öldurnar eru að velta til hnullungunum, sem sumir hverjir eru 1—2 m að þvermáli, Fágætar jurtir. Mjög er gróður lítið á Reykjanesi. Helstu gróðurflesjurnar eru í lægðinni frá túninu vestur fyrir hverina. Fann jeg þar á nesinu um 50 plöntutegundir. Af fágætum plöntum, fann jeg þar þessar: Baunagras í brekku við bæinn. — Naðartungu og flóajurt við gufuhverina. Þistil í túnjaðrinum. Gullkollur er algengur í hraununum. Sækvönn í grasbrekkum og á bjargröndinni suður af Skálafelli.

Gullkollur

Gullkollur – einkennisblóm Reykjaness.

Landskjálftar eru að líkindum tíðari á Reykjanesi en á nokkrum öðrum stað hjer á landi. Hafa þeir oft gert þar spjöll á vitanum og bæjarhúsum og valdið röskun á hverunum. Hafa þeir stundum staðið í sambandi við eldsumbrot í hafinu út af nesinu. Engar sögur fara af eldgosum á landi þar á hesinu. Vita menn því eigi hvort nokkur af hraununum þar hafa runnið eftir landnámstíð. Frásögurnar um gosin í hafi, framundan nesinu eru einnig mjög óglöggar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 38. tbl. 23.09.1928, Á Reykjanesi – Guðmundur G. Bárðarson, bls. 297-300.

Reykjanes

Reykjanes.

Gunnuhver

5. Reykjanesviti – Gunnuhver

-Karlinn

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Sést utan við Reykjanesið. Gígtappi úr einum gíga gígaraðarinnar í Stömpunum, sá syðsti (frá Stampagosinu hinu Yngra). Karlinn um 50 metra hár og þétt setinn fugli.

-Kerlingin
Horfin, var einnig einn gígtappinn í gígaröðinni vestan við Karlsgígaröðina. Annars eru raðirnar fjórar frá mismundandi tímum. Hörslin eru elst og austast, þá kemur gígaröð milli Stampa og Hörsla, ein vestastan þeirra og síðan Stamparnir. Raða sér á misgengissvæðin frá SV-NA.
Segja má að þar rísi Atlanshafshryggurinn úr hafi og gengur á land með stórum sprungum sem og úfnu hrauni alsettu smágígum. Síðasta gosið á þessum slóðum var árið 1268.

-Atlantshafshryggurinn
Jarðvirkni á Íslandi er mikil og landmótun hröð. Þetta má helst skýra með legu landsins á Atlantshafshryggnum sem teygir sig úr Norður-Íshafinu suður fyrir Afríku. Á hryggnum er hár hiti úr jörðu sem stýrir eldvirkninni og nefnist þetta svæði á Íslandi virka gosbeltið einnig kallað eldvirka beltið. Atlantshafshryggurinn liggur á mörkun tveggja fleka (sjá landrekskenninguna) sem rekur í sundur til vesturs og austurs. Þessar plötur eru nefndar Evrópuplatan og Norður-Ameríkuplatan. Plöturnar eru um 100-200 km þykkar og mörg þúsund kílómetar að breidd. Jarðvirkni á Íslandi, svo sem eldgos og jarðskjálftar, er afleiðing þessa landreks.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Sums staðar á hryggnum, á svokölluðum heitum reitum, eru mikið uppstreymi kviku og jarðvarmi mikill. Fræðimenn hallast að þeirri kenningu að undir reitunum myndist möttulstrókar vegna mikils varmaflæðis frá kjarnanum til jarðskorpunnar. Heitur reitur liggur undir Íslandi en talið er að um 20-30 heitir reitir séu dreifðir um jörðina, óháð flekamörkum. Eldvirkni á heitum reitum er oftast meiri en umhverfis hann og því liggur Ísland 2000 metrum ofansjávar meðan hryggurinn rétt hjá er á 2000-3000 metra dýpi. Ísland væri allt öðruvísi í lögun ef heiti reiturinn einn hefði valdið gosum, Ísland myndi þá líkjast meira Hawaii. Ísland hefði að sama skapi sjálfsagt ekki myndast ef einungis hefði verið um að ræða gos vegna plötureks. Ísland er einsdæmi á Atlantshafshryggnum að því leyti að saman fara plötuskil og heitur reitur sem bætir við efni þannig að landið er ofansjávar. Til eru eyjar nálægt úthafshryggjum en engin er nákvæmlega á honum miðjum, líkt og Ísland er eða jafnstór.

-Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta Súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið. Vegarslóði (6,7) á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina en þar mun hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (7,0) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptippingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka. Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali Hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu og blásandi borholum austan Reykjanessvita.

Þverhnípt klettaeyja (77 m.y.s) 8 sjómílur suður af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær 45 sjómílur frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins en það sökk að mestu í
eldsumbrotum 1830.
Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlu. Við talningu, sem gerð var 1949 var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.
Eldey er rúmir 70 metrar á hæð og þar 38er ein stærsta súlnabyggð í heimi. Eldey hefur veriðfriðuð frá 1940 en hefur aðeins einu sinni verið klif-in eftir það. Hundrað árum áður eða 1844 voru síðustu Geirfuglarnir teknir við Eldey.

-Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. (Greinarhöfundur hefur skrifað sögu Björgunarsveitarinnar Eldeyjar í Höfnum. Þar er m.a. fjallað nokkuð ítarlega um stærri sjóslys á þessu svæði. Greinin er einnig birt á þessari vefsíðu). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.

Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878. Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli (nefnt eftir litlu vatni/uppsprettu sem er norðan þess – reyndar eru þeir til sem fullyrða að heitið Vatnsfell sé dregið af eimingartækjum sem þar voru sett upp og áttu að sjá vitavarðarhúsinu fyrir drykkjarvatni en sem ekki reyndist svo þörf fyrir) byggður og tekinn í notkun 1908. Annar viti, minni, var reistur sunnar á sk. Austurnefi og er ástæðan sú að lítið fell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Skálafell

Skálafell.

Suður og austur frá bænum er hraundyngja allmikil, sem nefnd er Skálarfell. Kvað vera skál ofan í hana miðja. Það er merkilegast við þessa dyngju, að hún rýkur öll, eins og kolabyngur, sem kastað hefur verið ofan á glæður. Það eru hveragufur, sem alstaðar leggur út úr henni, hátt og lágt. Norðan undir henni eru hverirnir, sem nesið dregur nafn af.
Vestan undir dyngjunni er gjá mikil, og gengur hún allt í sjó fram. Gjáveggurinn eystri er nokkuð hærri en hinn og báðir barmar mjög klofnir og sprungnir. Hveragufur leggur alstaðar upp um glufurnar. Vestur af bænum eru leifar af gömlum gígum eða móbergshnúðum, sem sjórinn er nú að brjóta upp. Enginn veit, hve margir þeirra eru horfnir í brimið. Leifarnar af einum þessum hnúð standa fyrir framan fjöruborðið. Er það drangur mikill og heitir Karlinn. Aðrar leifar, og þær allra mestar, standa úti í reginhafi fram undan nesinu. Er það drangur hár og digur, sem nefnist Eldey. Þessi gígaröð nær langt út í hafið. Eitt hnúkbrotið frammi við sjóinn, sem nú stendur líklega tæpur helmingur eftir af, heitir Litli-Valahnúkur. Þar
stóð vitinn áður, og mátti víst ekki seinna vera, að hann væri fluttur. Vitaturninn gamli var sprengdur sundur með púðurskotum, svo að ekki skyldi hann skyggja á nýja vitann, og liggja brotin úr honum þar uppi á hólnum.

Á Reykjanesi var fyrsti vitinn á Íslandi byggður árið 1878. Hann laskaðist í jarðskjálftum 1887 og var síðar felldur. Nú hefur þessum rústum verið bjargað niður af Valahnúk þar sem hætta var á aðþær féllu í sjóinn vegna hruns úr hnúknum. Tilstendur að endurhlaða vitann á næstu árum. Nýr viti var byggður á Bæjarfelli (áður Grasfell eða/og Vatnsfell) árið 1907-08.

-Valahnúkur

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Þann 1. desember 1998 voru 120 ár liðin frá því að fyrsti viti í eigu hins opinbera, Reykjanesviti, var formlega tekinn í notkun. Í yfir þúsund ár fóru siglingar fram milli Evrópu, Grænlands, Vínlands og Íslands, án þess að nokkrar leiðbeiningar væru gefnar til sjómanna frá landi. Tilkoma Reykjanesvita og uppbygging vitakerfisins í kjölfarið var því mjög þýðingarmikill þáttur í sögu eyþjóðar. Vitarnir gerðu sjófarendum kleift að sækja sjóinn utan bjartasta tíma ársins. Á 6. áratugnum lauk uppbyggingu vitakerfisins að mestu en þá hafði ljósvitahringnum verið lokað. Í dag eru 104 landsvitar við strendur landsins og annast Siglingastofnun Íslands uppbyggingu og rekstur á þeim vitum, ásamt því að hafa umsjón og eftirlit með uppbyggingu og rekstri hafnarvita og innsiglingarmerkja.
Reykjanesviti var löngum talinn aðalviti landsins. Vitinn var byggður á Valahnjúk, fram við sjávarbrún, þar sem bjargið stendur þverhnípt. Fyrsti vitavörðurinn var Arnbjörn Ólafsson. Vitinn var endurnýjaður árið 1897 en hann hafði skemmst í jarðskjálftum. Nýr viti var byggður á árunum 1907-1908 á Bæjarfelli. Þann 20. mars 1908 var kveikt á núverandi Reykjanesvita, sem er 73 m. yfir sjávarmáli.

-Kríuvarp

Kría

Kría.

Krían er einn best þekkti fugl landsins. Hún er sjófugl sem kemur til landsins um mánaðamótin apríl maí. Síðsumars fara þær svo að tygja sig til brottfarar en þá eiga þær fyrir höndum, eða vængjum, eitthvert mest ferðalag sem nokkurt dýr leggur í á jörðinni. Þær fljúga suður eftir öllu Atlantshafi að Suðurskautslandinu og er jafnvel talið að þær fari umhverfis Suðurskautslandið áður en þær leggja aftur í norðurátt næsta vor. Á farfluginu fljúga þær á 45–60 km hraða á klukkustund í 6–7 tíma daglega og fara þannig um 300 km á hverjum degi. Allt ferðalagið aðra leiðina tekur því um einn og hálfan mánuð, hreint ótrúlegt afrek fyrir fugl sem ekki vegur nema rúm 100 g. Kríurnar verpa hér í þéttum byggðum um allt land jafnvel uppi á hálendinu. Íslenskar kríur skipta hundruðum þúsunda og virðist stofnstærðin sveiflast talsvert. Oft sjá menn að mikill viðkomubrestur verður í kríuvörpum vegna veðurfars eða fæðuskorts. Krían er afbragðs flugfugl sem andæfir yfir vatni og steypir sér síðan eldsnöggt niður eftir sílum sem eru aðalfæða þeirra, ásamt smákrabbadýrum og skordýrum. Hún er einnig þekkt fyrir árásargirni við varplönd sín og njóta aðrir fuglar þar verndar hennar. Sum kríuvörp eru geysistór, það stærsta er í Hrísey með yfir 20.000 varppör en stór vörp eru líka á Snæfellsnesi. Hreiðrið er smálaut oftast án nokkurra hreiðurefna og eggin oftast tvö eða þrjú. Aðalvarptíðin er í júní. Kríur eru friðaðar.
Á Reykjanesi er eitt mesta kríuvarp á landinu. Aðgát sk

al höfð þegar fólk ferðast um Reykjanesið á varptíma því þá er krían mjög aðgangshörð. Hún á sér hreiður allt í kringum vitann og um hverasvæðið.

-Gunnuhver (jarðhiti) og sagan af Gunnu. Varað er við hættum á jarðhitasvæðum.

“Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina. Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og slokaði svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira. En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sézt á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: “Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.” Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.

Hoyer

Hús Hoyers við Gunnuhver.

Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn. Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur. Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu. En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á. Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: “Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.” Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungizt ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.”

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Brimketill

6. Gunnuhver – Grindavík

-Gufa sem stígur upp frá jörðu
Austan Reykjanessvita er mikið hverasvæði. Liggur troðningur að því frá vitaveginum. Af mörgum hverum á svæðinu er einn áberandi stærstur. Sá nefnist Gunna eða Gunnuhver og er í kísilhóli sunnarlega á svæðinu. Þjóðsaga er um nafn hversins: Guðrún hét grimm fordæða sem gekk aftur og ,,lék menn grátt, reið húsum og fældi fénað”. Þar kom að leitað var til kunnáttusams prests til að koma draugnum fyrir. Hann fékk draugnum bandhnykil og lét hann halda í endann á bandinu. Þegar hnykillinn rann neyddist draugsi til að elta því hann gat ekki sleppt. Hnykillinn rann í hverinn og draugurinn Gunna á eftir. Síðan hefur ekki orðið vart við Gunnu. Þjóðsagan segir að presturinn hafi verið Sr. Eiríkur Magnússon í Vogsósum (1638-1716) uppnefndur Vogsósagráni og sagður fjölkunnugur.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi er á Reykjanestá, ekki langt frá Reykjanesvita. Staðsetning (hjá bílastæði) er N 63°49.150′, V 022°40.932′. Svæðið er aðgengilegt ferðafólki og til að komast að svæðinu keyrir maður eftir afleggjara sem liggur útfrá veginum að Reykjanesvita. Afleggjarinn er merktur með skilti sem á stendur Gunnuhver, eftir frægasta hvernum á svæðinu sem nú er kulnaður. Hverasvæðið sjálft er aðeins um einn ferkílómetri að flatarmáli og nær aðeins yfir hluta af háhitasvæðinu. Á hverasvæðinu eru margir leir- og gufuhverir og gufu leggur um allt svæðið. Fallegar útfellingar eftir brennistein er að finna á svæðinu og er litadýrð svæðisins mikil. Hverasvæðið sjálft er síbreytilegt og leirhverir og gufuhverir koma og fara. Þekktustu hverirnir á hverasvæðinu voru hverinn 1918 og Gunnuhver. Þessir tveir hverir eru nú þurrir.

Jarðhiti á yfirborði myndast þegar vatn kemst niður á nokkur hundruð til nokkur þúsund metra dýpi. Þetta getur bæði verið grunnvatn eða leysinga-og úrkomuvatn sem rennur niður í berggrunninn. Vegna þess hve jarðlögin undir Íslandi eru heit, hitnar vatnið. Varminn sem hitar grunnvatnið kemur frá kviku eða heitu bergi í efstu 2-4 km jarðskorpunnar. Varminn er hæstur næst gosbeltunum en þar er jarðskorpan þynnst og bara 10 km niður á bráðið berg. Hitastigið eykst um 80-120° við hverja 1000 metra niður í jörðina. Jarðskorpan þykknar svo og varmaflæðið minnkar eftir því sem fjær dregur gosbeltunum (Axel Björnsson, 1990).
Hitastigið eykst 2-4 sinnum hraðar með dýpi á Íslandi en löndunum í kringum okkur, Skandinavíu og Kanada. Bergrunnur Ísland er auk þess mun sprungnari en berggrunnur þessarra svæða. Þetta skýrir líka þann mikla jarðhita sem er að finna á Íslandi (Ari Trausti Guðmundsson,1982).
Nái vatnið aftur upp á yfirborðið myndast jarðhita- og hverasvæði en stærstur hluti hvers jarðhitasvæðis er þó neðanjarðar. Jarðhiti finnst um allt Ísland en þó síst á Austfjörðum. Jarðhitasvæðum er venjulega skipt í tvo flokka, háhitasvæði og lághitasvæði. Þessi skipting miðast af mismun í hitastigi og mismunandi staðsetningu (Ari Trausti Guðmundsson, 1982).

Í seinni tíð hafa náttúru- og umhverfisverndarsjónarmið verið að ryðja sér til rúms innan raða þeirra sem taka þátt í virkjun jarðvarma. Lengst af hafa slík sjónarmið ekki verið reifuð sérstaklega en nýtingin hefur reyndar ekki verið umfangsmikil fram á síðustu áratugi. Eyðilegging hvera hefur þó átt sér stað bæði vegna nýtingar eða af öðrum ástæðum. Í Náttúruverndarkönnun árið 1979-1980 í Borgarfirði reyndust nærri helmingur hvera hafa verið eyðilagður og var þó heitt vatn langt umfram þarfir íbúa á svæðinu (Tryggvi Þórðarson 1981). Nýting vatnsins var algengasta orsökin fyrir eyðileggingunni, sem fólst oftast í því að steypt hafði verið yfir hverina. Mjög algengt var einnig að náttúrulegar laugar og volgrur höfðu verið eyðilagðar með skurðgreftri og framræslu. Sú nýting jarðhitasvæða sem nú er ráðgerð í landinu er talsvert umfangsmeiri en sú sem stunduð var í Borgarfirði og því er mun nauðsynlegra að náttúru- og umhverfisvernd séu höfð að leiðarljósi við alla áætlunargerð og framkvæmdir. Ljóst er þó að þekkingn á nýtingu jarðhitans er orðin miklu meiri en þekkingin á verndarmöguleikum og umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda. Ástæðan er sú að miklu fé hefur verið varið í undirbúning jarðorkunýtingar en tiltölulega litlu í rannsóknir á umhverfisáhrifum á hverina og lífríki þeirra.
Jarðhitasvæðið á Reykjanesi er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg
jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum, en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr.
Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.
Hraun
Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells.
Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti, en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.
Landslag er ekki frítt á Reykjanesi, en þar er þó að finna skoðunarverð fyrirbæri. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampa-gígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó, en hafa reynst skammlífir.
Langlífari hefur verið goshver í s.k. Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metersþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land. Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver, sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.
Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.
Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.
Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu, en jafnframt seljanlega vöru.

-Hraunið og gróður (gróðurleysi)
Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir(dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigígir t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla t.d. Hvirfill og Kistufell.
Sjálfur Reykjanesfjallgarðurinn er afar merkilegur því hann hvílir á sjálfu virka gosbeltinu sem partur af hinum mikla Atlandshafshrygg sem liggur þvert yfir Ísland. Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Það er ekki hægt að skoða þetta framhald af hinum stóra Atlandshafshrygg ofansjávar nema á Reykjanesskaganum. Hann er því einstakur en með duldar hættur. (Jón Jónsson, Árbók Ferðafélagsins, 1984, bls.51-113) (Gunnar H.Hjálmarsson, Útivist 2.tbl. 1.árg 2002

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld.
Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði.
Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildi(dyngjur), gígaraðir, gígahópa og sprengigíga t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla eins og til dæmis Hvirfill og Kistufell.
Sjálfur Reykjanesfjallgarðurinn er afar merkilegur því hann hvílir á sjálfu virka gosbeltinu sem partur af hinum mikla Atlandshafshrygg sem liggur þvert yfir Ísland. Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Það er ekki hægt að skoða þetta framhald af hinum stóra Atlandshafshrygg ofansjávar nema á Reykjanesskaganum. Hann er því einstakur en með duldar hættur.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Á einum eldgígnum stendur nú vitinn. Það er keilumyndaður hóll, nokkuð hár og ofurlitlar grastór utan í hlíðunum á honum, og hefur hann verið nefndur Valahnúkur, [Sennilega er þarna rangt með örnefni farið, því í Öldinni okkar er birt meðfylgjandi mynd af Reykjanesvita í byggingu á svonefndu Bæjarfelli árið 1907] þó að engan veginn eigi hann hnúks-nafnið skilið. Hann er upphár, eldgamall gjallhaugur og ekkert annað, og guð má vita, hvort hann fer ekki að gjósa undir vitanum; ég hefði að minsta kosti ekki viljað treysta honum. Sunnan undir hólnum stendur bærinn, eða réttara sagt hús vitavarðarins, bygt á landssjóðs kostnað. Ofurlítill túnskækill er græddur upp í brekkunni kringum bæinn. Þá mega heita upptaldar grasnytjar þær, sem vitavörðurinn hefir.

Byggðin á Reykjanesi þróaðist í upphafi með ströndinni, enda sjósókn aðalatvinnuvegur íbúanna og verstöðvar og útræði frá nær hverjum bæ.
Þegar Hafnabergi sleppir taka Sandvíkur við. Sandvíkur er heillandi landsvæði með langri og og skemmtilegri sandströnd. Sandurinn hefur verið að hluta til bundinn með melgresi og gefur það fallegan gulan og grænan lit sem fer vel við svartan sandinn. Sandvíkurnareiga sér litla tjörn þar sem fjölskrúðugt fuglalíf bervitni um ríkt náttúrufar.Á Reykjanesi mætast nýji og gamli heimurinn, Evrópa og Ameríka – jarðfræðilega og tæknilega umKeflavíkurflugvöll. Við Kinn eða suður enda Hafnabergs rétt ofan vegar hefur verið byggð brú yfirsprungu þar sem fólk getur upplifað „göngu” milli Evro-asíuflekans og Ameríkuflekans.Landsvæðið sunnan Hafnabergs ber greinilegmerki um mikið jarðfræðilegt umrót. Eldgos, jarð-skjálftar, hverir, hraun og björg sorfin af stórátökum við öflugar öldur og brim. Af Valahnúk er gott útsýni yfir Reykjanes og út í Eldey 8 sjómílur fráströndinni Nær landiskammt undan Önglabrjótsnefi er kletturinn 1908. Hverasvæðið hefur mikið breyst frá þvísem áður var vegna jarðhræðinga og virkjana og er Gunnuhver í dag rétt svipur hjá sjón. Reykjavegur er ný gönguleið sem hefur verið merkt frá Reykjanesvita til Nesjavalla. Sérstaklega áhugaverð leið sem byggir tilveru sína á jarðfræði Íslands. Segja má að gengið sé eftir gossögunni og fylgt s-vestur n-austur sprunguleiðinni. Áætla má 6 daga í alla leiðina en henni er áfangaskipt með áningastöðum á hæfilegu millibili.

-Jarðfræði
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Elsta bergið á skaganum er í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.
Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

-Skálafell

Skálafell

Skálafell.

Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.

Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.
Í flæðigosum verða engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella. Allir stærstu hellar landsins hafa orðið til með þessum hætti.

-Háleyjabunga
Dyngja myndast við flæðigos og er gosopið yfirleitt kringlótt. Dyngjur gjósa oftar en einu sinni, yfirleitt renna mörg þunn hraunlög sem í heild geta verið mjög þykk (beltuð hraun) en engin laus gosefni. Frá dyngjum renna helluhraun, sem oft geta þakið stór landsvæði. Hér á landi eru um 20-30 dyngjur myndaðar á nútíma (yngri en 10 þúsund ára). Dyngjur eru sjaldgæfar erlendis nema á Hawaii: Mauna Loa og Mauna Kea. Dæmi: Skjaldbreiður, Trölladyngja, Selvogsheiði.

-Sandfellshæð
Á toppi Sandfellshæðar er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni.

-Eldvörp
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við borholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

-Brimketill (Oddnýjarlaug)

Brimketill

Brimketill.

Við ströndina – merktur – vestarlega í Staðarbergi – merkilegt náttúrfyrirbæri. Til er saga um tröllkonuna Oddnýju er baðaði sig jafnan í lauginni.

-Rekaviður
Mikið af rekavið í Sandvík – slóði niður að ströndinni

-Ströndin, sjórinn og fuglalíf
Mikið fuglalíf með berginu beggja vegna – Staðarbergi og Krossavíkurbjargi.
Víða við sjóinn eru skemmtilegar bergmyndanir sem hafaldan hefur sorfið til og mótað. Komið er í Staðarhverfi. Hér var áður vel byggt og kirkjustaður. Eftir miklar hafnarbætur í Grindavík fluttist byggðin þangað og síðar var kirkjan einnig flutt. Á leiðinni frá Staðarhverfi til Grindavíkur er ekið um Húsatóftir. Frá Húsatóftum liggur Prestastígur, forn þjóðleið sem er vel vörðuð og skemmtileg gönguleið til Kalmannstjarnar í Höfnum. Árnastígur liggur einnig frá Húsatóftum til Njarðvíkur. 9 holu golfvöllur Golfklúbbs Grindavíkur er að Húsatóftum. Þessi golfvöllur er mjög vel sóttur enda skemmtilegur fyrir margra hluta sakir. Staðsetning og landslag á stóran þátt í því.

-Grænabergsgjá

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá.

Misgengissprunga, líkt og margar aðrar á svæðinu, sbr. Silfra, Bjarnagjá og Hrafnagjá. Ferskvatn – álar.

-Laxeldi – Íslandslax
Fiskeldisstöð Íslandslax hf. (kt: 430894-2349) er staðsett á sunnanverðum Reykjanesskaga um 8 km vestur af Grindavíkurbæ, á jörðinni Stað við Grindavík. Stöðin er af svo nefndri strandstöðva gerð, þ.e. sjó er dælt í ker á landi. Stöðin var byggð á árunum 1984-1985 og hefur verið í samfeldum rekstri síðan. Eldisrými er 26.000 m3 brúttó. Eldisfiskur er lax og bleikja, og nær starfsemin yfir eldi bæði á matfiski og seiðum þessarra tegunda. Stöðvarstjóri er Hjalti Bogason. Brúttó framleiðsla árið 2003 var 1.450 tonn af fiski, 1.128 tonn af matfiski af laxi og um 60 tonn af matfisk af bleikju, og um 50 tonn af laxaseiðum sem fóru í sjókvíar. Fjöldi starfsmanna eru 10.

-Tyrkjavarða – Gíslavarða
Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.

-Staður – kirkjugarður – brunnur

Staðarhverfi

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Eyðibýli skammt utan við kaupstaðinn í Grindavík. Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.

-Húsatóftir – Arfadalsvík – Kóngshella – konungsútgerð – Anlaby – Skúli fógeti – Anna frá Töfte

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Presturinn bjó að stað og hreppsstjórinn að Húsatóftum. Sagan af viðskiptum Þorsteins í Hamri og hreppstjóra er endaði með því að Þorsteinn rauk með fé sitt upp í hraunið og fóðraði það þar um veturinn; Hamrabóndahellir.

-Grindavíkurstríðið – undanfari
Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og “Enskulágar” þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.
Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kynntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.
Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.

Staðarvör

Staðarvör.

Gunnuhver

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Sólarupprás

Sólsetur við Kálfartjarnarkirkju.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Eldvörp

Kvöld í Eldvörpum.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.

Stapadraugurinn

Draugurinn.

Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.
b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustsvæðum þar sem markaðssvsæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.

Karl

Karlinn.

c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé “útsýni mikið og fagurt”, þar megi finna “áhugaverða staði” og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti (Gunnuhver m.a.). Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Vatnshólavarða

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Melaberg

Melaberg.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Melabergsleið

Melabergsleið – vörður.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.
Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Brimketill

Brimketill.

b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustusvæðum þar sem markaðssvæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.
c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé “útsýni mikið og fagurt”, þar megi finna “áhugaverða staði” og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti. Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Hverasvæði

Hvera- og jarðhitasvæðin eru nokkur á Reykjanesskaganum, enda landsvæðið bæði tiltölulega ungt á jarðfræðilegan mælikvarða auk þess sem flekaskil liggja um skagann endilangann. Þau skiptast í háhita- og lághitasvæði.
Helstu háhitasvæðin eru í Brennisteinsfjöllum, á Hengilssvæðinu, yst á Reykjanesi, í Krýsuvík, við Trölladyngju, við Stóru Sandvík, í Eldvörpum og í Svartsengi. Sum svæðanna tengjast innbyrðis að einhverju leyti.

Háhitasvæði
Á vefnum Wikipedia.org er fjallað almennt um háhitasvæði:
“Háhitasvæði eru svæði þar sem hiti á 1 km dýpi er yfir 200°C. Jarðhitasvæðum er skipt eftir hámarkshitastigi í efsta lagi jarðskorpu en það er gjarnan metið með mælingu á hitastigli svæðisins. Háhitasvæði eru iðulega að finna á virkum gos- og rekbeltum, ýmist á flekamótum eða flekaskilum. Þar er jarðskorpan heitust og fer kólnandi eftir því sem fjær dregur og jarðlögin jafnframt eldri. Ummerki um háhitasvæði á yfirborði jarðar eru brennisteinshverir, gufuhverir, leirhverir og vatnshverir.

Háhitasvæði
Hitastig í miðju jarðar í kjarna hennar er um 7000°C. Uppruni þessa hita er tvíþættur. Sú orka sem átti þátt í myndun jarðarinnar fyrir 4600 milljónum ára umbreyttist í varma. Hins vegar myndast varmi í möttli og jarðskorpu vegna klofnunar geislavirkra samsæta á borð við þóríum 232Th, úraníum 238U og kalíum 40K0 og berst hann til yfirborðsins með varmaburði og varmaleiðni.

Laugardalur

Laugardalur – þvottalaugarnar.

Talið er að maðurinn hafi öldum saman nýtt sér jarðhita til að mæta ýmsum þörfum. Þar má nefna notkun til baða, þvotta, matseldar og iðnaðar. Ein frægasta laugin á Íslandi er líklega Snorralaug. Þá bendir ýmislegt til þess að jarðhiti hafi verið notaður til ylræktar til dæmis í Hveragerði og á Flúðum. Eins og nafn þeirra bendir til, voru Þvottalaugarnar í Laugardalnum lengi vel notaðar til þvotta og upp úr 1930 var farið að nota þær til húshitunar. Laugardalurinn telst þó til lághitasvæða. Þegar olíukreppa skall á árið 1970 hófst mikil vinna við að finna orkugjafa sem leysti olíu og kol af hólmi til kyndingar. Í dag eru opinberar hitaveitur á fjórða tug og litlar sveitahitaveitur tæplega tvö hundruð.

Ítalir voru fyrstir til að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu en þá var gufuvél tengd við rafal sem framleiðir rafmagn. Í kjölfarið var fyrsta jarðhitavirkjun heims reist þar með 250 kW afköstum. Í dag er afl virkjunarinnar rúmlega 700 MW og til stendur að stækka hana í 1200 MW.  Íslendingar hafa lengi verið í fremstu röð hvað varðar jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu.”

Á vefsíðum Orkustofnunnar og ÍSOR má lesa eftirfarandi um háhitasvæðin:
Megineldstöðvar
“Mið-Atlantshafshryggurinn liggur í gegnum Ísland, sem skýrir dreifingu jarðhitans um landið. Öflugustu háhitasvæðin liggja öll í gosbeltinu sem hefur myndast á flekaskilum. Þar eru skilyrði sérlega góð til myndunar jarðhitakerfa vegna nægra varmagjafa í formi heitra kvikuinnskota og margsprunginnar og vel vatnsgengrar jarðskorpu. Hringrás vatnsins flytur smám saman varma frá dýpri hlutum skorpunnar upp undir yfirborð þar sem hún þéttir að nokkru leyti yfirborðsjarðlögin með útfellingum og myndar jarðhitageyma eins og þekktir eru frá borunum niður á 1 – 3 km dýpi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – aðkoman upp frá Fagradal – ÓSÁ.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðarstapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Brennisteinsfjöll voru á náttúruverndaráætlun 2003-2008. Þau þykja sérstök vegna óvenju fjölbreyttra jarðmyndana og þá einkum gosmenja. Bent er á að Brennisteinsfjöll og umhverfi eru meðal fárra slíkra svæða nærri höfuðborgarsvæðinu sem mega heita ósnert. Hins vegar er land þar niðurnítt af beit og uppblásið með flögum og vatnsgrafningum.
Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir.
Megingerð jarðlaga er móberg og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.

Hengilssvæði

Hengilssvæðið

Horft yfir Hengilssvæðið að hluta.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 140 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn. Vesturhlutinn tengist eldstöðvarkerfi Hengilsins. Innan hans eru vinnslusvæðin á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Austan Hengils er Ölkeldu­hálssvæðið, sem tengist Hrómundar­tindseldstöðinni. Sunnan þess er Hverahlíð og ný gögn benda til að vinnanlegur jarðhiti geti verið við Gráuhnúka og Meitil. Austasti hluti háhita­svæðisins tengist Hveragerðiseldstöðinni sem er útdauð og sundurgrafin.

Hellisheiðavirkjun nýtir jarðhitavökva frá Hellisheiði og Hverahlíð. Alls er talið að Hengilssvæðið geti staðið undir um 700 MWe rafafli og enn meira varmafli.

Jarðhiti á Hengilssvæðinu

Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu.

Hengilssvæðið nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Gosmyndanir á svæðinu eru um 800.000 ára gamlar. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil.

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar. Aðalgerðir eldstöðva eru þó einungis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti, eins og verið hefur á Hengilssvæði allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar, sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan til inn í Hengilssvæðið.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma. Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það.

Laus jarðlög þekja sléttlendi og fjallshlíðar eru hvergi mjög skriðurunnar nema þar sem þykk hraunlög eru í brúnum eða fjöllin eingöngu úr bólstrabergi. Um vatnafar á Hengilssvæðinu skiptir í tvö horn. Á því vestanverðu eru stöðugar lindir og lækir einungis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau halda vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir árið um kring.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur er það a.m.k. þrískipt:

Grændalur

Í Grændal.

Suðaustasti hluti þess er í Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur). Hún er hætt gosum og þegar nokkuð rofin. Boranir í Hveragerði og upp með Varmá hafa sýnt að þar er á ferðinni afrennsli af heitara svæði norðar eða norðvestar. Vinnsla umfram það sem núverandi borholur gefa myndi því byggjast á borunum í Grændal. Ef nefna ætti eitthvert séreinkenni þessa svæðis, þá væru það kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum, eða hinar fjölmörgu laugar sem spretta fram úr berghlaupum í Grændal. Innan um eru gufuhverir sem gjarnan fylgja sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum. Mörg dæmi eru um hverabreytingar á þessu svæði, bæði fornar og nýjar. Svæðið er þægilega lágt í landinu, um og innan við 200 m. Aðgengi útheimtir vegalagningu yfir skriðurnar vestan megin í dalnum án þess að spilla hverum eða laugasvæðum.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Ölkelduhálssvæðið sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka. Jarðhitinn þar fylgir gosrein með misgömlum móbergsfjöllum og stökum hraungígi, Tjarnarhnúki.
Loks er jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Það nær frá Nesjavöllum suðvestur í Hveradali og Hverahlíð. Jarðhitinn er mestur og samfelldastur utan í Hengli alls staðar nema norðvestan megin. Brennisteinshverir eru mestir vestan til í Henglafjöllum, þ.e. í Sleggjubeinsdölum, norðan við Innstadal og ofan við Hagavíkurlaugar. Austan megin eru kalkhverir og kolsýrulaugar algengar. Jarðhitanum á Henglafjöllum má hugsanlega skipta í nokkur vinnslusvæði, sem öll gætu verið innbyrðis í þrýstisambandi: Nesjavelli, Sleggjubeinsdal, Hellisheiði, Hverahlíð, Þverárdal, Innstadal og Fremstadal.
Landslag á svæðinu er fjöllótt og vinnsla jarðhita fer mjög eftir aðgengi að viðkomandi svæðum. Einnig eru jarðhitasvæðin misjafnlega heppileg til nýtingar, sem aðallega fer eftir hita og kolsýruinnihaldi.

Reykjanessvæði

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á Reykjanesi kemur gliðnunarbelti Reykjaneshryggjarins úr sjó. Eystri hluti Reykjaness er klofinn af misgengjum og opnum gjám, en vestari hlutinn að mestu hulinn yngri hraunum úr Stamparöðinni. Úr henni hefur gosið 3-4 sinnum á síðustu 5 þúsund árum, síðast 1226. Líklegt er að tvær aðskildar sprungureinar séu á Reykjanestá, og að háhitakerfið sé tengt þeirri eystri en nái ekki yfir í þá sem vestar liggur, þ.e. Stampareinina. Viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið sé bundið við þrönga uppstreymisrás eða sprungu og heitt afrennsli út frá henni á 2–300 m dýpi í allar áttir. Þegar rýnt er í viðnámsmyndina neðan lágviðnámskápunnar niður á 5 km dýpi má sjá svæði eða strók með lægra viðnámi en umhverfis. Vökvinn í jarðhitakerfinu er jarðsjór og hiti fylgir suðumarksferli yfir 300°C. Stærð svæðisins er talin um 9 km2 og vinnslugeta er metin 45 MWe.

Framkvæmdasvæðið er innan svæðisins Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg sem er á Náttúruminjaskrá, ekki síst vegna merkilegra jarðmyndana. Einnig njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Það á við um nánast öll hraun á svæðinu, fjölda gíga, Stamparöðina og Skálafell og hvera­svæðið við Gunnuhver.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi

Gunnuhver

Á Reykjanesi – Gunnuhver og nágrenni.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi (á hælnum) er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr. Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.

Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells. Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.

Stampar

Stampar.

Á Reykjanesi er að finna mörg jarðfræðileg fyrirbæri sem vert er að skoða. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampagígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó en hafa reynst skammlífir.

Kísilhóll

Kísilhóll h.m.

Langlífari hefur verið goshver í svo kölluðum Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metraþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land.

Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.

Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.

Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu en jafnframt seljanlega vöru.

Krýsuvíkursvæðið – Seltún

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Krýsuvík er hluti af Fólkvangi á Reykjanesskaga. Land í Krýsuvík er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn.

Meginsvæðið er um 80 km2 að flatarmáli. Umfangsmiklar rannsóknir standa yfir en segja má að miðja uppstreymis sé enn ekki staðsett. Í Trölladyngju eru tvær borholur. Í báðum er um 250°C hiti ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 330°C hita á rúmlega 2 km dýpi. Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á Sveifluhálsinn, með gufu- og leirhverum. Í Krýsuvík hefur dýpst verið borað um 1200 m. Hæstur hiti í borholum þar er í Hveradölum um 230°C og nærri suðuferli niður á um 300 m dýpi en þar neðan við kólnar.

Viðnámsmælingar gefa vonir um að rafafl svæðisins sé 440 MWe og varmaafl öllu meira. Svæðið er metið 89 km2 og rafafl 445 MWe. Óvissa ríkir um vinnslugetu meðan miðja uppstreymis er ekki fundin með rannsóknarborunum.

Jarðhitasvæðið Krýsuvík

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Fjögur þau fyrsttöldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum báðum megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður að lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Hveravirknin á fyrrnefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.

Baðstofa

Í Baðstofu.

Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gifsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi en þar neðan við kólnar. Engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja vegna. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta en var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norður frá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver) en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gifsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Leynihver

Leynihver.

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir fyrrnnefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum, suður á móts við Hverinn eina, er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni. Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni og hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar gefa um 260°C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320°C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sogin

Í Sogum.

Jarðhitinn sem kenndur er við Sandfell er í hrauni norðaustan undir fellinu. Þar stígur gufueimur máttleysislega upp á nokkrum stöðum. Á bletti er leirkennd ummyndun í jarðvegi og þar hefur hiti mælst nærri suðumarki. Móbergið í Vesturhálsi er nokkuð ummyndað á móts við Sandfell og inn með Selvöllum og þar eru grónar hlíðar með rennandi lækjum. Uppi á háhálsinum gegnt gufunum við Sandfell er allstór, leirgul hveraskella en alveg köld. Svæðið gæti samkvæmt því verið stærra en sýnist af yfirborðsmerkjunum.

Hitalækkun í borholum eftir að nokkur hundruð metra dýpi er náð hefur vakið spurningu um hvar uppstreymis sé að leita. Boranirnar í Trölladyngju benda til að þar sé þess að leita undir Sogum. Í Krýsuvík væri þess helst að leita undir Sveifluhálsi. Austurengjahitinn er í útjaðri jarðhitakerfisins skv. viðnámsmælingum, líkt og Trölladyngjuholurnar vestan megin. Svæðið þar sem viðnámsmælingar skynja hátt viðnám undir lágu þarf ekki að lýsa núverandi ástandi því þær sjá ekki mun á því sem var og er >240°C heitt.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Niðurstöður djúpviðnámsmælinga gefa til kynna að jarðhita kunni að vera að finna á Stóru Sandvíkursvæðinu. Ekki er unnt að meta stærð hugsanlegs jarðhitageymis því veru­legur hluti hans gæti legið utan við ströndina. Boranir þarf til að fullvissa sig um hvort nýtanlegur hiti sé á svæðinu. Líklegt er að jarðhitakerfið sé tengt jarðhitakerfinu á Reykjanesi og því mætti líta á Stóru Sandvík sem annan virkjunarstað á Reykjanessvæðinu.

Eldvörp – Svartsengi

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Í Svartsengi hefur verið rekin jarðhitavirkjun frá 1977 og er núverandi afl hennar 70 MWe. Í Eldvörpum liggur fyrir hugmynd um að virkja 30-50 MWe í fyrsta áfanga. Borhola, EG-2 var boruð þar árið 1983 niður í 1265 m dýpi. Hún hefur aldrei verið nýtt, en hefur verið blástursprófuð og eftirlitsmæld nær árlega alla tíð síðan. Hún sýnir náin tengsl við jarðhitasvæðið í Svartsengi, og niðurdælingasvæði Svartsengis liggur mitt á milli svæðanna. Svæðið Eldvörp-Svartsengi er talið um 30 km2 og rafafl þess er metið 150 MWe.”

Lághitasvæði

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

Í Wikipedia.org er einnig fjallað um lághitasvæði:
“Lághitasvæði eru skilgreind svæði með jarðhita þar sem hiti er lægri en 150°C á 1-3 km dýpi í jörðu. Lághitasvæði Íslands eru fjölmörg en þau eru misdreifð um landið. Mikill lághiti er á Vestfjörðum, í Borgarfirði og víða um Suðurland og Miðnorðurland. Lítið er um lághita á Austfjörðum og í Skaftafellssýslum. Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota beinist að því að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar.

Lághitasvæði eru stundum talin nálægt 250 á landinu, og eru þau mjög misstór, allt frá einstökum volgrum og upp í nokkra tugi uppsprettna. Oft er erfitt að skera úr hvað skuli teljast til eins og sama lághitasvæðis, og geta slíkar skilgreiningar breyst með tímanum eftir því sem þekking eykst á einstökum svæðum.”

Á vef ÍSOR segir um lághitasvæði:
Lághitasvæði“Lághitasvæði landsins eru utan við virka gosbeltið sem nær frá Reykjanestá norður um landið út í Öxarfjörð. Þau ná frá jöðrum gosbeltanna, út um allt land og út á landgrunnið. Að vísu má ná ágætis lághitavatni innan gosbeltisins, hvort heldur er til húshitunar, garðyrkju eða fiskeldis, og eru Reykjanesskaginn og Öxarfjörður gott dæmi þar um.

Lághitarannsóknir

Ölkelda

Ölkelda í Hengladölum – nú horfin.

Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota gengur út á að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar. Einstaklingar og smærri byggðarlög eiga því nokkuð undir högg að sækja þar sem samanlagður jarðhitaleitar- og vinnslukostnaður má ekki fara yfir ákveðið hámark á einhverjum ásættanlegum afskriftatíma, þó í reynd njóti nokkrar kynslóðir góðs af stundum áhættusamri jarðhitaleit.

Með breyttri tækni í jarðborunum hefur þróast upp ný leitartækni hjá ÍSOR sem kallast hefur jarðhitaleit á köldum svæðum (þurrum svæðum) og gengur slík leit út á að gera fjölda viðnámsmælinga eða bora margar 50-60 m djúpar ódýrar hitastigulsholur á tilteknu landsvæði og finna þannig út hvar grynnst er á nýtanlegan jarðhita til húshitunar (helst >60°C). Ef álitlegur valkostur finnst er nokkur hundruð metra djúp vinnsluhola boruð.”

Reykir
Lághitasvæði á Reykjanesskaganum eru t.d. yst á Reykjanesi, á Krýsuvíkursvæðinu, í Ölfusdölum, á Hengilssvæðinu og á Reykjavíkursvæðinu, s.s. á Reykjum í Mosfellsbæ og í Hvammsvík í Kjós.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1hitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://orkustofnun.is/jardhiti/jardhitasvaedi-a-islandi/hahitasvaedi/
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-i-brennisteinsfjollum
-https://www.isor.is/jardhiti-hengilssvaedinu
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-reykjanesi
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-krysuvik
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A1ghitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://www.isor.is/laghiti

Hverasvæði

Á hverasvæði Reykjaness.