Færslur

Hafnarfjörður

Í “Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaði” árið 1965 er birtur uppdráttur dönsku mælingarmannanna af bænum frá árinu 1903 og farið um hann af nokkrum fróðleik:

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Hér birtist kort af Hafnarfirði, eins og hann leit út um og eftir síðustu aldamót. Er þar allmikinn fróðleik að finna, fyrir þá sem vilja setja sig niður til þeirra hluta, frá erli líðandi stundar. Eru bæði sýnd túnin í suðurbænum og svo matjurtagarðar, sem sýndir eru skástrikaðir. — Einna stærsti kálgarðurinn er sá sem „klúbburinn“ svonefndi stóð í, þar sem nú er húsið Suðurgata 15. Skólinn þar rétt hjá er að sjálfsögðu gamla barnaskólahúsið, sem þá var nýbyggt. Góðtemplarahúsið og sýslumannshúsið eru komin. — Hinum megin við klúbbinn sést Undirhamarsbærinn og syðst í því túni er Stefánshús, þá með kálgarði fyrir framan. Sjávarmegin vegarins sjást m. a. þrjú hús sem enn standa, en fyrir framan þau liggur nú Strandgatan. Vegurinn í gegnum bæinn snarbeygði nálægt þar sem nú er húsið Bristol (Suðurgata 24) og var farið skáhallt upp á suður- eða vesturhamarinn og komið niður á Flensborgarmöl. Verksmiðjan, sem nefnd er, er Gosdrykkjagerðin Kaldá, sem stofnuð var árið 1898 og starfrækt þangað til um 1910.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hellisgata 1905.

Sé farið norðureftir aftur, sést að á meðan lækurinn rann óáreittur af mannshöndinni, var ósinn allmiklu norðar en nú, og brúin nálægt þar sem nú er apótekið. Austan Gunnarssundsins voru stórir kálgarðar, og eru þeir á kortinu skáskornir af götuslóða. Lá hann þaðan sem nú er efnalaugin og upp þangað sem nú eru húsin Austurgata 27 B og 29 B.
Þar sem nú mætast Linnetstígur og Strandgata hefur bærinn breytzt æði mikið, en sé farið enn vestar, sést að leiðin til Beykjavíkur lá á sama stað og nú, og einnig sést hvar hinn þá nýlagði Kirkjuvegur hlykkjast skáhallt upp hraunið. Það var leiðin áleiðis að kirkjustaðnum, Görðum.
Hús, sem sjást vestan Reykjavíkurvegar og enn standa, eru m. a. verzlunin Ásbúð, hús Bjárna riddara Sívertsens og stóra pakkhúsið þar fyrir vestan. Einnig standa enn í miðbænum 3—4 íbúðarhús sem sjást á kortinu, en ekki eins greinilega.
Hugleiðingar út frá þessu korti gætu verið miklu lengri, en vonandi er að þeir sem þarna koma auga á bernskuheimili sitt sem lítinn punkt, misvirði ekki þótt hér verði staðar numið. Þeim til fróðleiks má benda á það sem skrifað hefur verið í jólablaðið um þetta efni á undanförnum árum.
Um áttaheiti hefur verið fylgt hinum reikulu hafnfirzku málvenjum.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 21.12.1965, Hafnarfjörður 1903, bls. 25.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903 – í lit.