Á upplýsingaskilti við Hvaleyrarlón má lesa eftirfarandi:
“Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði voru friðlýst sem fólkvangur árið 2009. Markmið friðlýsingarinnar var að vernda lífríki leirunnar í lóninu og fjörunnar fyrir Hvaleyrarhöfðann. Leirur hafa átt í vök að verjast á Suðvesturlandi en þær eru afar mikilvæg fæðulind fugla, ekki síst á fartímum og vetrum. Vaðfuglar af ýmsum tegundum koma í stórum hópum á Hvaleyrarlón. Leiru eru auðugar af sjávarhryggleysingjum, t.d. liðormum, lindýrum og krabbadýrum, sem eru undirstaða fuglalífsins.
Einnig var friðlýsingunni ætlað að tryggja fólki áhugavert útivistarsvæði til að fræðast um lífríkið og til fuglaskoðunar. Aðgengi að fólkvanginum er gott og fyrir grunnskóla og leikskóla í nágrenninu er svæðið tilvalið til útikennslu. Svæðið hefur lengi veriðe ftirsótt til útivistar og talið ákjósanlegt til fuglaskoðunar allt árið um kring. Stundum hefur mátt sjá þar sjaldséða fugla eins og gráhegra.
Í auglýsingu um stofnun fólksvangs Hvaleyrarlóns og Hvaleyrarhöfða kemur m.a. fram að almenningi er heimil för um fólkvanginn, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er lausaganga hunda óheimil.
Umferð vélknúinna farartækja, þ.m.t. sjóþotna (jet-ski), er óheimild í friðlandinu. Þó er eigendum bátaskýla við Hvaleyrarlón heimilt að sigla að skýlunum, en þeim ber að tryggja að ekki hljótist af mengun vegna spilliefna.
Hvaleyrarlón
Í Hauksbók Landnámu þar sem segir frá heimferð Hrafna-Flóka og samferðamanna hans frá íslandi er stuttur texti um Hafnarfjörð og Hvaleyrarlónið. Eftir að þeir höfðu dvalið hér á landi í eitt ár lögðu þeir af stað heim til Noregs en þegar komið var út fyrir Reykajnes lentu þeir í óveðri.
“Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og á Herjólf, – hann kom í Herjólfshöfn. Flóki kom í Hafnarfjörð, – þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu Hvaleyri – þar fundust þeir Herjólfur.” Talið er að Herjólfshöfn sé Hvaleyrarlónið en þar var höfnin sem Hafnarfjörður dregur nafn sitt af. Þá var lónið mun stærra og myndaði öruggt skjól fyrir skip sem þar lágu.
Upp úr 1400 var Hafnarfjörður orðinn ein helsta höfn landsins enda frá náttúrnnar hendi mjög góð. Þá gekk mikill grandi eins og hafnargarður norðaustur úr Hvaleyrinni, Hvaleyrargrandi, sem endaði í Háagranda eða Grandhöfða nokkuð frá landi. Á þeim granda reis fyrsti verslunarstaðurinn í firðinum, Fornubúðir, og réðu þar ríkjum m.a.a. Hansakaupmenn sem létu reisa þar fyrstu lútnersku kirkjuna hér á landi.
Plágan síðari, mjög mannskæð farsótt sem gekk á Íslandi á árunum 1494-95, barst til landsins með ensku kaupskipi sem lá á Hvaleyrarlóni. Í heimildum er því lýst að plágan hafi komið úr bláu klæði “og þegar hún kom upp fyrst úr klæðinu, hafi hún verið sem fugl að sjá, og úr því sem reykur upp í loftið”. Almennt er talið að þetta hafi verið lungnapest, sú sama og svartidauði, sem gengið hafi um landið í upphafi aldarinnar.
Árið 1677 var kaupstaðurinn fluttur af grandanum yfir á jörðina Akurgerði, einkum vegna þess að sökum sjávargangs var farið að bera töluvert á landbroti þar. Í lýsingu frá lokum 18. aldar kemur fram að Hafnarfjörður hafi verið aðalhöfn landsins og “sú lanbezta allt árið um kring og meira að segja mörg að vetrarlagi án verulegs tilkostnaðar”.”
Fornubúðir
Gísli Sigurðsson skrifaði um Fornubúðir í ritið Sögu árið 1961. Þar segir hann m.a.:
“Fornubúðir hét hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum.
Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.
Í þann tíma, sem verzlunarstaðurinn var á Hvaleyrargranda, hefur Háigrandi verið eins konar höfði eða hólmi.
Á þessum hólma eða höfða, Háagranda, hefur auðveldlega mátt koma fyrir húsum, tóttum sem tjaldað var yfir.
Vel mátti fleyta allstórum skipum og leggja þeim við háan, þverhníptan bakkann og binda þau. Ferming og afferming var því óvenju hagstæð. Af landi varð Háigrandi ekki sóttur nema frá einni hlið og þar auðvelt að verjast óvinum.” – Saga 01.01.1961, Gísli Sigurðsson – Fonubúðir, bls. 291-298.