Færslur

Vífilsstaðasel

Sel í landi Garðabæjar (Úr bókinni “Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar”).

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar er m.a. fjallað um selin í Selgjá, Vífilstaðasel, Setbergssel, Kaldársel og Hraunsholtssel.
“Selgjá (Norðurhellragjá, Norðurhellnagjá, Norðurhellagjá) er í Urriðakotshrauni. Selgjárhellir er vestast í norðurbrún gjárinnar… ”….nokkuð breið gjá er í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.
Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku”.
Seljabúskapur var að heita má algjörlega horfinn um aldamótin. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skipti minna máli. Eyðing skóga hefur einng átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli (sjá Hitzler 1979).

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Búsmalinn var hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir ví nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru til að mjalta ærnar í og kofi handa kúm ef þær voru hafðar í selinu (Jónas Jónasson 1945: 60-62).

Selgjá

Sel í Selgjá.

Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður sem allar eru byggðar upp við gjárbarmana, að minnsta kosti um tuttugu byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar. Að því er virðist hefur verið erfitt um vatn í Norðurhellagjárseljum en vatn mun hafa verið sótt í Gjáaréttarvatnsgjá (Vatnsgjá).
Eftir gjánni liggur Norðurhellagjárstígurinn austur eftir gjánni. Þar í norðurbrún gjárinnar er steinn og á hann klappað B. Stígurinn liggur svo austur og upp úr gjánni sunan syðstu seljarústanna undir norðurbrún gjárinnar.

Urriðakotssystur gáfu upplýsingar um þetta, Vilborg og Guðbjörg, einnig eiginmaður Guðbjargar, Páll Kjartansson, en þau höfðu upplýsingar þessar frá föður Guðbjargar, Guðmundi Jónssyni, sem fæddur var og uppalinn í Urriðakoti og bjóð þar um 50 ára skeið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Heiman frá Vífilstöðum lá Selstígurinn suður á Maríuflöt, suður með hraunjaðrinum, sneiddi sig upp Ljóskollulág, upp á háhálsinn og suður í lægðardragið þar sem Vífilstaðasel stóð. Nú er algengast að fylgja svokölluðum Línuvegi upp á Vífilstaðahlíð og þá blasa við rústir Vífilstaðasels með Selholt (Selshamar) að sunnan en Selás að norðan. Selkvíarnar eru uppi á Selásnum. Austan við Vífilstaðasel er lítill hóll, Selhóllinn. Gísli Sigurðsson hefur það eftir Sigrúnu Sigurðardóttir að gott hafi verið til beitar á sauðum niður um Grunnuvötn og suður á Hjallana.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Um selið segja Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: “Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, er nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Rústirnar eru greinilegar miðað við margar aðar seljarústir, sem við höfum séð. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum (væntanlega svefnhús, eldhús, mjólkurhús). Sunnanvert við rústirnar eru tvær aðrar rústir (kvíar, stöðull?). Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er þannig einir 50 m2 að utanmáli. Vífilsstaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703”.
Guðrún P. Helgadóttir orti eftirfarandi um Sigrúnu Sigurðardóttur á Hofstöðum: “Hefur þú séð rústirnar – samgrónar landinu – sem mynda torfveggi – í hallandi brekku – og nefndar eru sel – Vífilsstaðasel.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í Kaldárseli var selstaða frá Görðum. Í Jarðabók Árna og Páls segir í lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott” (Jarðabók III:180). Ólafur Þorvaldsson hefur ritað um Kaldársel í minningum sínum (sjá Ólafur Þorvaldsson 1968:119-140). Byggð mun hafa verið stuttan tíma í Kaldárseli. Mikill skógur hefur verið á þessu svæði og var óspart á hann gengið, rifinn til kolagerðar og eldiviðar og ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs. Búpeningur gekk þarna sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum. Hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Síðar var hrískvöðinni breytt í fiskakvöð. Um Kaldársel segir Þorvaldur Thoroddsen: “Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kadársel, og þar eru víða í hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d:1887), sem áður hafði verið á Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið”.

Setbergssel

Setbergssel.

Hraunsholtssel var sunnan við Hádegishól Hraunsholts og einnig nefnt Hraunsholtshella. Selstígurinn lá sunnan við Brunann, fram hjá Hádegishól, að selinu (G.S.). G. Ben. sá enn votta fyrir selinu 1987. 16)
Setbergssel var í Ketshelli samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Gísli Sigurðsson, varðstjóri og útivistarfrömuður; lýsti mörgum leiðum í nágrenni við Hafnarfjörð. Í riti um Selvogsgötuna kemur hann m.a. við í tveimur seljum; “Í miðri brekkunni er landið grænna en annars staðar enda var hér í gamla daga Setbergssel eða Setbergsstekkur. Á hægri hönd er varða.

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Gengið er niður að Setbergsseli. Komið er að helli, sem tilheyrði stekk þessum, það er að segja helmingur hans. Hinn helmingurinn tilheyrði Hamarskoti, og hét því Hamarskotssel. Hellirinn er hólfaður sundur í tvennt með allveglegum garði”.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.