Færslur

Setbergssel

Vestan við Kershelli sér niður á grassvæði. Þarna var selstaða Setbergs í Garðahreppi hinum forna (nú að mestu í Hafnarfirði).

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur) gamla liggur niður um selstöðuna og áfram í gegnum hana uns hún sveigir að Þverhlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum.
Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir, öðru nafni fyrrnefndur Ketshellir. Þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir, öðru nafni Selshellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Skammt sunnar má sjá hlaðinn stekk selstöðunnar. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir. Hamarkotsselsfjárhellir hægra megin.

Samkvæmt Jarðarbókinni sem Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að árið 1703 í Gullbringusýslu kemur fram: að jörðin á selstöðu þar sem heitir Kietsheller. Sami hellir var einnig nefndur í tengslum við Hamarskot, sem var hjáleiga Garðakirkju. Var greint frá því að selstöðu ætti Hamarskot í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel. (Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-1942). Hellirinn var á mörkum jarðanna og opinn í báða enda og þar af leiðandi notaður af ábúendum beggja jarða til helminga og þá jafnan nefndur einu nafni Selhellir.

Kershellir

Í Kershelli.

Um það bil 50 metrum austar og nær Smyrlabúðarhrauni, steinsnar frá Selvogsgötunni er hinn eiginlegi Kershellir í jarðfalli. Honum lýsti Ólafur Þorvaldsson á leið sinni um Selvogsgötuna.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Hann gat réttilega um að menn úr félaginu Hvati hafi helgað sér hellinn laust eftir aldamótin 1900, sem varð til þess að margt manna lagði þangað leið sína til að skoða hann. Kölluðu þeir hann Hvatshelli, sem varð til þess að Kershellisnafnið féll í skuggann um árabil.

Kershellir

Kershellir. Setbergssel og Hamarkotssel fjær t.v.

Ólafur gefur eftirfarandi lýsingu: Til leiðbeiningar skal þess getið að til skamms tíma voru þrjár litlar vörður á Kersbrún norðaustan við op hans (Ólafur Þorvaldsson 1949). Þessar vörður voru sameinaðar í eina um eða eftir 1960.

Svæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jafnframt skoða mikið á skömmum tíma.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Setbergshellir

Gengið var frá Mosum sunnan Smyrlabúða og haldið norður Selvogsgötu. Ætlunin var að ganga um Gráhelluhraun, niður um Lækjarbotna og enda við stekkinn í Stekkjarhrauni.
Þegar komið var að Smyrlabúðarhrauni var gengið norður með vesturjaðri þess svo sem Selvogsgatan liggur. Ekki leið á löngu þangað til komið var að því er virtist hlöðnu gerði utan í grónum hraunbolla. Áður hafði jafnvel verið talið að þarna gæti hafa verið um hraunskrið úr hlíðinni andspænis að ræða, en við nánari skoðun virðist þarna vera um fyrrum hlaðinn vegg að ræða. Grjótið hefur verið tekið úr hlíðinni, enda handhægt, og raðað reglulega í bogadreginn vegg. Veggurinn virðist hafa verið hlaðinn til að loka af bollanum. Ekki er ólíklegt að þar fyrir innan hafi hestar eða fé verið geymt á ferðum Selvogsmanna í Fjörðinn. Þarna gæti jafnvel verið tilkomið búðarnafnið á Hraunið. Staðurinn er kjörinn áningarstaður áður en haldið hefur verið síðasta áfangann niður í þorpið. Hann er skjólgóður og ágæt beit við hendina.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Annars eru framangrein hraun eitt og hið sama; Búrfellshraun. Það er talið hafa runnið um 5300 f. Kr.. Annar angi þess rann til norðurs og kom niður á Álftanesi, beggja vegna. Hraunið ber t.d. nöfnin Urriðavatnshraun (Urriðakotshraun), Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun og Gálgahraun.
Hinn angi þess rann til norðvesturs. Í honum eru Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun.
Gengin var gatan framhjá Kershelli og haldið niður að Setbergshelli, gömlum fjárhelli Setbergsbænda og að hluta til Hamarskotsbænda. Gamla Selvogsgatan lá svo að segja í gegnum aðstöðuna, eða með austurjarðri hennar, skammt ofan við rétt eða stekk í gróinni laut.

Setbergshellir

Setbergsfjárhellir.

Hellirinn er með myndarlegri hleðslu Setbergshellismegin, auk þverhleðslu er aðskilur hann frá Hamarskotsbóndahlutanum. Í hellinnum vour síðast hafðar geitur, en Setbergsbóndi færði fé sitt úr hellinum, sem einnig var notaður sem selstaða um tíma, enda ber umhverfið þess glögg merki, upp á Setbergshlíðina norðan Þverhlíðar. Þar má sjá rústir hlaðins fjárhúss ofan við fallega hlaðna vörðu. Önnur fallega hlaðin varða er nokkur sunnar á hlíðinni, gegnt selinu.

Í stað þess að fylga Selvogsgötunni var gengi þvert á Gráhelluhraun og síðan haldið eftir því til norðurs, að Gráhellu.

Gráhella

Gráhella.

Gráhella er ílöng klettaborg í austanverðu hrauninu. Norðan undir henni eru hlaðnar rústir gerðist og húss. Þau mannvirki munu Setbergsbændur hafa nýtt sér fyrir fjárhald sitt, en Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi um og fyrir aldamótin 1900 var einn fjármesti bóndi landsvæðsins og jafnvel þótt lengra væri leitað. Faðir hans var um tíma bóndi á Geysi í Haukadal, en ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum. Var hann jafnan nefndur “hinn fjárglöggi” því hann kunni skil á öllum fjármörkum sem kunna þurfti skil á. Dóttir Jóns á Setbergi bjó m.a. á Þorbjarnarstöðum í Hraunum og önnur á Urriðakoti, svo nærtæk dæmi séu nefnd.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – skilti.

Þegar komið var niður í Lækjarbotna var strax tekið eftir því að þar hafði nýlega verið sett upp upplýsingaskilti um vatnsveituna, sem þar var, en vatnsveita í Hafnarfirði átti aldarafmæli árið 2004. Skiltið stendur við hlaðnar undirstöður undir fyrrum lindarhús. Á því stendur eftirfarandi:
“Fram til 1904 var engin vatnsveita í hafnarfirði, en þða ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið stóð meðal annars að því að grafnir vour brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá þegar tengd veitunni, en auk þess voru settir upp vatnspóstar víða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttur sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerða.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landsverkfræðings, en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið héðan vegna þess hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og þaðan lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár, en þó þurfti oftar en einu sinni að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar.

Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóns Ísleifssonar verfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðfrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Setbergshlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma, en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949, en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjánlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951”.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Skammt neðar er hlaðin stífla, tengd vatnsveitunni í Lækjarbotnum. Ofurlítið norðar er áberandi grágrýtissteinn; eyktarmark frá Setbergi. Af útlitinu mætti vel ætla að í honum byggi huldufólk, eða a.m.k. álfar.
Læknum var fylgt niður að Stekkjarhrauni. Gengið var þvert á hraunið uns komið var að stekknum, sem hraunið dregur nafn sitt af. Hann er í náttúrlegri hraunkvos með klettaveggi á þrjá vegu. Framst er hlaðin fyrirstaða. Skammt suðvestar er hlaðið gerði í einni lautinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.