Næst þegar farið verður á svæðið verður leiðin, sem farin var á sínum tíma, gengin í fylgd Helga. Þá verður gengið frá Sundvörðuhrauni á móts við Sundvörðuna og slóðanum fylgt að hraunkantinum þar sem hann endar utan í Sandfellshæð. Gamli slóðinn sést ágætlega í hrauninu þrátt fyrir tilkomu nýja vegarins út í Eldvörp. Vitað er að hellirinn er í lægð skammt frá slóðanum og á opið að snúa á mót suðri. Bræðurnir höfðu hlaupið frá dráttarvélinni þegar hlé var gert á akstrinum og þá séð hellisopið. Hlaðið er fyrir það og er dyragatið reglulegt. Hellirinn var notaður af bóndanum á Hömrum er hann skyrraðist við hreppstjórann á Húsatóttum er meinaði honum fjörubeit. Hamrabóndi fór þá með sauði sína inn á hraunið og fóðraði þá þar um veturinn. Alls ekki er útilokað að nýi Eldvarparvegurinn hafi verið lagður yfir hellisopið – annað eins hefur gerst í vegagerð hér á landi.
Frábært veður þrátt fyrir takmarkaðan árangur. Hafa ber þó í huga að „mottó“ FERLIRs er að „læra meira og meira, meira í dag en í gær“.
Tag Archive for: Hamrabóndahellir
Leitin að Hamrabóndahelli hélt áfram.
Nú var ætlunin að leita sléttlendi eldra Eldvarpahrauns frá Bræðra- og Blettahrauni í átt að Lágafelli. Eldvarpahraunin voru að renna úr hinni löngu gígaröð á svo til beinni sprungureininni um það leiti er Kristur hélt Fjallræðuna fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir u.þ.b. 2000 árum síðan. Þá opnaðist jörðin á Atlantshafshryggnum við vestanverða suðurströnd Grindavíkur, bæði í sjó og á landi. Sprungan teygði sig um 10 km upp til landsins, að mörkum Lats, sem sjá má skammt vestan við Bláa lónið, og að mörkum Arnarseturshrauns, en það hraun (1226) rann yfir efsta hluta þess. Hraungosið gekk á í hrinum með hléum á millum. Ef grannt er skoðað má sjá hraunskil víða á svæðinu. Um blandhraun eru að ræða, þ.e. bæði hellu- og apalhraun. Klepragígarnir á sprungureininni eru hver öðrum myndarlegri. Víða má finna skúta við þá sem og hella. Flestir og stærstir eru þeir þar sem gígaröðin rís hæst. Þar er t.d. hægt að ganga inn í einn myndarlegasta gíginn, u.þ.b. 12 metra djúpan, og feta sig í gegnum jörðina yfir í annan engu að síðri. Á nokkrum stöðum við Eldvörpin má sjá mannvistarleifar, en þær munu vera yngri en hraunin.
Nýrra Eldvarpagos, frá 13. öld, kom úr gígunum sunnarlega í gígaröðinni, gegnt Rauðhól og áfram til suðurs að Staðarbergi. Þeir gígar hafa svolítið suðlægari stefnu en gígarnir efra. Er líklegt að það hraun hafi fært neðri gíga eldri hraunsins í kaf. Hraunið vestan við þetta hraun heitir Klofningahraun og er Rauðhóll eini sjáanlegi gígurinn í því hrauni. Hann er í rauninni náttúrufyrirbrigði út af fyrir sig, með stutta, en fallega hrauntröð, stórar kvikuþrær og fallegan litskrúðugan gjóskugíg. Sumir hafa nefnt hraunið Rauðhólshraun, en það er talið vera 2000-3000 ára.
Yngra Eldvarpahraunið er jafnan talið hafa runnið árið 1226. Eldsumbrotin eru þó venjulega kennd við þrettándu öldina því þau stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226, sem fyrr segir. Þessi hrina er oft nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Samskipti Þorsteins í Hömrum og hreppsstjórans á Húsatóftum voru flestu fólki kunn hér fyrr á árum. Munnmæli þessa efnis hafa lifað og lýsa vel hvað skyndileg viðbrögð geta haft í för með sér. Rústir af grunni hússins sjást en neðan við þjóðveginn sakmmt vestan Tófta – fast við golfvöllinn. Þorsteinn var vinnumaður hjá hreppsstjóranum og þótti bæði iðinn og atorkumikill. Hann var vel af guði gerður, en skapmikill. Í staðinn fyrir starfann fékk Þorsteinn að beita fé sínu á landið.
Eitt sinn er snjór þakti jörð ætlaði Þorsteinn að beita fé sínu í fjöruna við Arfadalsvíkina, neðan við bæinn. Þegar hreppsstjóri sá hvers kyns var skipaði hann Þorsteini að fjarlægja féð úr fjörunni. Hann hefði aldrei gefið honum leyfi til þessa. Hreppsstjórinn stóð jafnan fastur á sínu og vildi manngæskan þá stundum gleymast. Í stað þess að þrátta við hreppsstjórann rauk Þorsteinn með fé sitt upp í hraunið norðan við Tóftir, hlóð fyrir skúta og hélt fénu þar um veturinn. Það hefur varla verið margt, enda skútinn lítill. Þorsteinn hefur þurft að fara margar ferðirnar upp í hraunið um veturinn og þá borið heyið á bakinu. Skúti, eða hellir, þessi hefur verið týndur um allnokkurt skeið og þrátt fyrir fyrirspurnir hafa þeir ekki borið árangur. Auk þessa hefur verið gerð nokkur leit að hellinum, en án árangurs – til þessa.
Helgi Gamalíelsson, fæddur á Stað árið 1947 og upp alinn í Staðarhverfi, kom tvisvar í hellinn í kringum fermingu. Í bæði skiptin var hann á ferð með föður sínum og bræðrum á traktor Staðarbræðra.
Ekið var eftir skriðdrekaslóðanum upp frá Tóftum, í gegnum hraunin og upp undir Þórðarfelli. Tilgangurinn var að sækja þangað oddmjóa járnstaura, um 70 cm langa, sem herinn hafði skilið þar eftir. Í hverri ferð var haldið með 20-30 staura á vagni, sem dreginn var af traktornum, og krakkarnir sátu á. Bræðurnir höfðu hlaupið frá dráttarvélinni þegar hlé var gert á akstrinum og þá séð hellisopið. Staurarnir voru hins vegar seldir útgerðarmönnum í Grindavík á kr. 60- stk, en þeir gerðu m.a. úr þeim netadreka.
Helgi lýsti opinu þannig: „Opið er nálægt þeim stað þar sem vegurinn er – vestan við skriðdrekaslóðann (gæti þó verið eitthvað ofar) – opið snýr í vestur, í átt að Stapafelli, í lítilli lægð, undir klöpp, hlaðið er um opið, sem er ferkantað.“
Helgi var mættur á svæðið, „tók veðrið“ og „exploraði“ minnið. Hann, snerist síðan í þrjá hringi og varð þá, sem fyrr, viss um að hellirinn væri þarna einhvers staðar. Slétthraunið norðan Sundvörðuhrauns, sem reyndar er eitt Eldvarpahraunanna, var skannað og síðan tekin stefnan til norðvesturs með vestanverðum slóðanum.
Gengið var til vesturs yfir slétt Eldvarpahraunið eldra. Árnastígur liggur um hraunið, markaður í klöppina. Skriðdrekaslóðinni, sem er samhliða stígnum, var fylgt og leitað vandlega vestan hans – reyndar í þriðja sinn á jafn mörgum árum. Vestar blasir Sandfellshæðin við. Hún er dyngja með stórum gíg í toppinn. Það er reyndar alveg þess virði að taka lykkju á leið sína og ganga upp á Sandfellshæð (90 m.h.).
Þegar upp er komið blasir hringlaga dalverpið við, en það nefnist Sandfellsdalur. Dalurinn þessi er dyngjuhvirfillinn. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir hin mikilu eldsumbrot og öskufallá Reykjanesi á þrettándu öld hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg.
Þegar komið var yfir Eldvarpagígaröðina ýfðist hraunið, en slóðinn liggur áfram í gegnum það. Stígurinn er til hliðar við slóðina, en beygi síðan frá henni til vesturs. Slóðinni var fylgt í gegnum hraunið og síðan norður með vesturrönd þess, alveg upp í Gjár. Nokkur merkt greni urðu á leiðinni, reyndar nokkur af merkustu Grindavíkurgrenjunum, sem og hlaðið skjól fyrir grenjaskyttu. Efst tekur hin gríðarlega hrauntröð Gígsins við. Hún hefur áður verið fetur, skref fyrir skref.
Haldið var til baka og svæðaleit gerð með slóðanum vestan Eldvarpa, yfir þau og áfram til suðausturs austan þeirra.
Á leiðinni sáust m.a. ummerki eftir æfingar „varnarliðsmanna“ á svæðinu, fjöldinn allur af tómum skothylkjum og brunninn mosi. Nokkur óhöpp urðu við æfingar vegna þess að „hetjurnar“ gleymdu að þeir lágu hreinlega á eldiviðarkesti þegar hleypt var af skoti, með tilheyrandi afleiðingum.
Nú er búið að merkja Árnastíginn frá Húsatóftum til Njarðvíkur, en kaflinn austan og næst Eldvörpum hefur verið merktur svolítið norðar en hinn eiginlegi stígur liggur, þrátt fyrir að sjá megi hann greinilega markaðan þar í klöppina.
Skammt austar í sléttu mosahrauninu er stórt sporöskjulaga svæði rúið mosa svo skín í bera klöppina. Út frá svæðinu til suðurs liggur slóði, inn á skriðdrekastíginn við Árnastíg og áleiðis niður að Húsatóftum. Ef grannt er skoðað má sjá talsvert af braki flugvélar á svæðinu, m.a. svonefndan „chock“, hjólakubb úr tré, sem notaður var til að setja við hjól flugvéla á jörðu niðri. Númer má sjá á einum hlutnum, hringlaga með gleri í. Talsvert af álleiðslum og álbitum eru þarna einnig.
Heyrst hafði af því að flugvél, svonefnt „Fljúgandi virkið“, hafi nauðlent ofan við Húsatóftir á fimmta áratugnum. Vélin hafi skemmst lítið og áhöfnin sloppið heil á húfi.
Að sögn Friðþór Eydals er líklegt að þarna hafi verið um B-17 vél að ræða, fjögurra hreyfla, sem nauðlenti ofan við Tóftir í apríl 1943 á leið til Keflavíkurflugvallar, en hann hafði þá nýlega verið opnaður fyrir flugumferð. Vélin var nokkuð heil eftir óhappið, en var síðan bútuð niður og flutt á brott, en enn má sjá þarna hluti úr henni, sem fyrr sagði. Brak úr B-47 flugvél er hrapaði vestan Húsatófta, sést einnig enn ef grannt er skoðað.
Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið væntanlega brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943.
Kringlótta brotið á myndinni er úr hliðinnni á kúlulaga byssuturni í botni vélarinnar rétt aftan við vænginn sem skyttan, sem sat milli tveggja 50 cal. Browning vélbyssa sem hann miðaði með því að snúa kúlunni. Kúluna mátti draga upp svo botninn næmi við botn vélarinnar þegar þurfti ekki að sitja í honum eða í flugtaki og lendingu. Slíkur bydduturn var yfirleitt ekki í öðrum vélum sem leið áttu hér um.“
Myndin af vettvangi í apríl 1943 staðfestir að hér er um sömu vél að ræða – við svipaðar aðstæður og þegar brakið af henni fannst í mars 2006.
Enn vantar staðfestingu á staðsetningu „Hamrabóndahellis“ ofan við Húsatóftir. Ef einhver hefur komið auga á hann einhvern tímann eða getur gefið upplýsingar um hvar hann kann að vera að finna er sá (eða sú) sami vinsamlegast beðin/n að hafa samband.
Frábært veður. Leitin tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Helgi Gamalíelsson.
-Kristján Sæmundsson.
-Friðþór Eydal.