Færslur

Ingjaldur

Í Lesbók Morgunblaðsins 1927 fjallar Árni Óla um Nilson skipstjóra á Anlaby – “Úr sögu landhelgisvarnanna“:

Hannes Hafstein

Hannes Hafstein.

“Það var rjett fyrir aldamótin, að yfirgangur erlenrka botnvörpuskipa byrjaði hjer við land fyrir alvöru. Landhelgisgæsluna hafði þá danska skipið “Heimdallur” og gekk hann vel fram þann tíma ársins, sem hann var hjer við land. En á haustin og fyrri hluta vetrar var landið varnarlaust, að kalla mátti, fyrir ásælni og yfirgangi útlendinga. Óðu þeir þá uppi hjer eins og stigamenn og voru ósvífnari en dæmi eru til nú á dögum.
Árið 1899 var Hannes Hafstein sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Þá var það um haustið, dagana 4.- 9. október, að enskt botnvörpuskip var stöðugt að veiðum inni á Dýrafirði og var oft að toga alveg uppi í landsteinum. Dýrfirðingum þótti þetta illur vágestur. Tóku þeir því saman ráð sín og gerðu sendimann, Guðjón Friðriksson að nafni, á fund sýslumanns til þess að kæra skip þetta.
Kom Guðjón til Ísafjarðar hinn 9. október og bar mál þetta upp fyrir sýslumanni. Brá hann þegar við og fór um nóttina með sendimanni yfir til Dýrafjarðar, og komu þeir þar að morgni. Var þá skipið að veiðum fram undan Haukadal, og örskamt undan Landi.
Hannes Hafstein fjekk sjer nú bát og fór við 6. mann út að skipinu. Var veður kalt og hráslagalegt. Mennirnir, sem með honum voru hjetu: Jóhannes Guðmundsson, Bessastöðum, Guðmundur Jónsson á Bakka, Jón Þórðarson, Jón Gunnarsson og Guðjón Friðriksson, sá er áður er nefndur.
Á botnvörpuskipinu var einn Íslendingur, Valdemar Rögnvaldsson að nafni, búsettur í Keflavík. Var það mál manna, að hann hefði þekkt sýslumann áður en báturinu náði skipinu, enda þótt sýslumaður væri í yfirhöfn utan yfir einkennisbúningi sínum. Segir sagan, að hann hafi varað skipverja við því, að hætta væri á ferðum, því að þeir bjuggust til varnar með bareflum þá er báturinn nálgaðist.

Ingjaldur

Ingjaldur – landhelgisbátur.

Sýslumaður ávarpaði nú skipstjóra og vildi fá að komast upp á skipið, en hinn svaraði aðeins ónotum og skömmum. Reyndu bátverjar þá að ná í kaðal, sem hjekk útbyrðis, en tókst það ekki, og seig báturinn þannig aftur með skipinu, sem var á hægri ferð. Þegar báturinn kom aftur undir skut náðu bátverjar í vörpuvírinn og drógust svo með skipinu um stund. En er skipverjar sáu það, þutu þeir aftur í skut með ópum og óhljóðum og báru sig vígamannlega. Hannes Hafstein sýndi þá einkennisbúning sinn og krafist þess af skipstjóra, að hann ljeti sig ná uppgöngu á skipið. En skipverjar svöruðu með því, að skjóta þungri og stórri ár á bátverja, en til allrar hamingju hittu þeir engan þeirra, því að hverjum þeim, sem árin hæfði, hefði verið stórmeiðsl eða bani búinn. Síðan slökuðu skipverjar alt í einu á vörpuvírnum. Lenti þá vírinn á bátnum svo að hann stakst á stefnið og sökk.
Skipverjar skeyttu þessu engu, en fóru að draga inn vörpuna. — Máttu þeir þó sjá, að allir þeir, sem á bátnum höfðu verið, voru í bráðum lífsháska. Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í háfinn og hjeldu sjer þar. En hinir fjórir skoluðust nokkuð í burtu.

Dýrafjörður

Dýrafjörður – minnismerki um atburðinn á Dýrafirði 1899.

Voru þeir allir ósyndir nema sýslumaður, sem var syndur eins og selur og hið mesta karlmenni. Reyndi hann eftir föngum að bjarga þeim fjelögum Jóhannesi, Guðmundi og Jóni Þórðarsyni og draga þá að bátnum. Lá þá við sjálft að það mundi verða til þess að hann drukknaði þar, því að í fátinu, sem á hinum drukknandi mönnum var, drógu þeir sýslumann hvað eftir annað í kaf, og mun hann ekki hafa komist í aðra þrekraun meiri.
Skipverjar horfðu á þá fjelaga berjast við dauðann rjett utan við borðstokkinn, en það ljetu þeir ekki á sig fá. — En í landi sáu menn aðfarirnar og var skotið fram tveimur bátum til þess að reyna að bjarga þeim fjelögum. Þá er bátar þessir voru komnir miðja vega milli lands og skips, var svo að sjá, sem skipverjar iðruðust framferðis síns, því að þeir gerðu sig líklega til þess að skjóta út björgunarbáti. En þó hættu þeir við það aftur og fleygðu út kaðli og bjarghjring til hinna druknandi manna- Þá voru sokknir þeir 3, sem ekki náðu í bátinn. Þeim Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í bjarghringinn, en Hannes Hafstein náði í kaðalinn og brá honum utan um sig. Mátti ekki tæpara standa, því að um leið og hann hafði bundið sig þannig, leið yfir hann. Var hann örmagna af sjávarkulda og áreynslu og vissi ekki af sjer fyr en nokkru síðar. Höfðu skipverjar þá dregið hann og hina 2 upp á þilfar. Lágu þeir þar milli heims og heljar þangað til bátarnir komu frá landi. Með þeim fluttust þeir í land og voru bornir heim til Matthíasar Ólafssonar í Haukadal.
Þegar er skipið hafði losnað við menn þá, er björguðust, ljet það í haf og höfðu menn ekki meira af því í það sinn. Bjuggust margir við, að ekki yrði hægt að hafa hendur í hári sökudólganna, því að þeir höfðu málað yfir suma stafi í nafni og númeri skipsins. Gátu þeir sýslumaður eigi lesið annað en þetta: OYALI H 42.
Á þessum árum var hjer enginn ritsími nje talsími og bárust því fregnir seint og illa yfir landið. En hjer stóð svo á, að skip kom frá Vestfjörðum hingað til Reykjavíkur fáum dögum seinna og flutti fregnir af þessum atburði- — Hinn 26. október sigldi Tryggvi Gunnarsson bankastjóri hjeðan með „Laura” til Kaupmannahafnar og hafði frjett um atburð þennan rjett áður en hann fór. „Laura” kom til Kaupmannahafnar 8. nóv. og þann sama dag varð Tryggva gengið þar inn á veitingahús. Þar voru dagblöðin til sýnis og í þeim sá Tryggvi smáfrjett um það, að enskur botnvörpungur, „Royalist” að nafni, hefði verið tekinn að ólöglegum veiðum hjá Jótlandsskaga og fluttur til Frederikshavn.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson.

Sagan um viðureign Hannesar Hafstein við botnvörpunginn á Dýrafirði, var Tryggva enn í fersku minni, þar sem hann hafði heyrt fréttina rjett áður en hann steig á skipsfjöl í Reykjavík. — Kemur honum þá undir eins til hugar: Þetta skyldi þó aldrei vera sama skipið? „OYALI” hjet það — og mun þá eigi hafi vantað R fyrir framan og ST fyrir aftan — að málað hafi verið yfir þá stafi?
Tryggvi ljet ekki við það sitja að draga þetta tvennt saman í huga sínum. Hann símaði þegar til Ólafs Halldórssonar, sem þá var á íslensku skrifstofunni í Kaupmannahöfn, og sagði honum frá grun sínum. – Ólafur var heldur eigi sá maður, að hann hleypti þessu frá sjer, hversu ótrúleg, sem honum hefir sagan virst. — Hann sneri sjer þegar til hinna dönsku stjórnarvalda. Þá var svo komið, að Nilsson skipstjóri á „Royalist” hafði gengið inn á sátt í Frederikshavn fyrir landhelgisbrot og var í þann veginn að fara þaðan. Stóð aðeins á því, að hann hafði eigi fengið skipsskjölin afhent. Var hann nú kyrrsettur að nýju og kom þá upp úr kafinu, að þetta var sama skipið sem valdið hafði manndrápunum á Dýrafirði 10. október þá um haustið. Voru nú þrír af skipverjunum, Nilsson skipstjóri (sænskur), Holnigrén stýrimaður og Rugaard matsveinn settir í varðhald og mál höfðað gegn þeim.
Vegir forlaganna eru órannsakanlegir. Eftir hermdarverkið á Dýrafirði lætur skipið í haf og bjóst víst enginn við því, að hægt mundi að hafa hendur í hári sökudólganna. En það er alveg eins og forsjónin hafi ætlast til þess að málið kæmist upp. Nilsson fer utan, en getur eigi stilt sig um að fara í landhelgi Danmerkur. Þar er hann tekinn. Tryggvi Gunnarsson siglir um sama leyti, en frjettir áður á skotspónum um Dýrafjarðarslysið. Af tilviljun rekst hann á frjettina um landhelgisbrotið hjá Jótlandi, og dettur það þegar í hug — sem fæstum mundi þó hafa hugkvæmst — að hjer sje sama skipið og var á Dýrafirði. Ef honum hefði eigi dottið það í hug og ef þeir Ólafur Halldórsson hefði eigi báðir brugðið eins fljótt við og þeir gerðu, mundi Nilsson hafa sloppið frá Frederikshavn. Er það undarleg atvikakeðja, sem verður þess valdandi, að sökudólgunum er náð.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Skal nú fljótt yfir sögu farið í bili. Hinn 27. mars 1900 voru þeir fjelagar þrír dæmdir í undirrjetti, Nilsson í 18 mánaða betrunarhússvinnu, 3000 kr. sekt til landsjóðs Íslands og 200 kr. sekt til ríkissjóðs Dana fyrir landhelgisbrot hjá Jótlandi um haustið. Stýrimaður var dæmdur í 3×5 daga upp á vatn og brauð, og matsveinn í 4×5 daga upp á vatn og brauð.
Svo fór málið til hæstarjettar í Danmörku. Var Nilsson þá dæmdur í tveggja ára betrunarhússvinnu; 3000 kr. skyldi hann greiða landsjóði Íslands, og ríkissjóði Dana 200 kr. Auk þess skyldi hann greiða Hannesi Hafstein 750 kr. í skaðabætur og ekkjum 2 þeirra manna, er druknuðu, annari 3600 krónur, en hinni 1100 kr. Dómur hinna var staðfestur í hæstarjetti, en Nilsson var dæmdur til þess að flytjast af landi brott eftir úttöku hegningar, vegna þess að hann var útlendingur; Svíi.
Vitum vjer nú eigi hvernig fór með hegningu Nilssons, en hitt er víst, að hann er kominn til Englands öndverðan vetur 1901 og fær þar nýtt skip til forráða. — Hjet það „Anlaby”. Sigldi hann því skipi þegar til veiða hjá Íslandsströndum.
Um miðjan jan. 1902 sáust tveir botnvörpungar undan Grindavík og voru þar að veiðum, sjálfsagt í landhelgi. Um kvöldið gerði afspyrnurok á landsunnan og dimmviðri. Æsti þá mjög sjó þar syðra, eins og vant er, þótt í hægara veðri sje. Hættu skipin þá veiðum samtímis og hjeldu til hafs.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Af afdrifum þeirra er það að segja, að eftir nokkra daga kom annað skipið til Keflavíkur og hafði þá sögu að segja, að skömmu eftir að skipin ljetu út frá Grindavík, hefði þau orðið viðskila, og hefði þeir seinast sjeð það til hins skipsins, „Anlaby” að það stefndi frá landi og stóð einn maður í stýrishúsi. Síðan hefir það skip ekki sjest.
Daginn eftir að skipin þessi tvö ljetu í haf frá Grindavík, fór maður þaðan niður til sjávar til þess að gá að kindum. Var þá komið fram undir hádegi og komið gott veður. En er hann kom niður fyrir sjávarkambinn milli Húsatófta og Járngerðarstaða, rekst hann þar á sjórekinn mann í fjörunni. Virtist honum sem líf mundi leynast með manni þessum og að hann mundi nýkominn á land. — Var hann með belg á baki, kominn upp úr fjörumáli og lá þar hjá honum annað stígvjelið í fjörunni, og varð eigi annað sjeð, en maðurinn hefði sjálfur dregið það af sjer.

Jónsbásar

Jónsbásar – Brunnar fjær.

Maður sá, er líkið fann gerði þegar aðvart. Hreppstjórinn, Einar Jónsson á Húsatóftum skarst í leikinn. Var hinn sjórekni maður þegar fluttur til kirkju. Þangað kom maddama Helga Ketilsdóttir, systir Ólafs bónda á Kalmanstjörn, og gerði á honum tvær lífgunartilraunir. — En þær reyndust báðar árangurslausar og veitti þá maddama Helga líkinu nábjargirnar.
Þegar eftir að fyrsta líkið fannst var gangskör ger að því að leita í fjörunum og komast eftir því hvar skipið mundi vera og hvort enginn hefði komist af því lífs á land. Sú leit reyndist svo, að af skipinu fannst rekið borðstokkur, stefni og „hekk”. Nokkuru síðar fannst eitthvað rekið af kolum, en aldrei fannst neitt af innanstokksmunum skipsins nje áhöldum.
En úti í lóni, sem er rjett fram af svonefndum Brunnum fundust lík 10 manna. Voru þau slædd þar upp. Sex líkin voru allsnakin að öðru leyti en því, að eitt þeirra var með mittisól.
Talið er, að skipið muni hafa farist aðfaranótt 14. jan. sjá það, að þessir menn höfðu druknað í svefni, eða skipið farist meðan þeir lágu í hvílum sínum. En lík skipstjórans fannst ekki og hefir ekki fundist. Þá gekk sú saga, að lík hans hefði rekið og verið höfuðlaust- Var það af ýmsum tekið sem tákn þess, að forsjónin hefði viljað refsa honum fyrir framferðið á Dýrafirði. Menn eru gjarnir á að trúa slíku og því fjekk þessi saga svo byr undir vængi að hún barst um land alt. En það vitum vjer sannast um þetta að segja, að ástæðan til þess, að þessi saga kom upp, mun vera sú, að ellefta líkið sem náðist, var mjög skaddað á höfði, svo mjög, að vart mundi þekkjanlegt þeim, er manninn þekktu í lifanda lífi. En eigi var það skipstjóri.

Staður

Staður fyrrum.

Að undirlagi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu rannsakaði hreppstjóri nákvæmlega, hvort eigi væri nein merki á líkunum, ef vinir eða vandamenn gæti merkt af hver maðurirm væri.
Sýslumaður mun einnig hafa lagt svo fyrir, að sæist engin merki (tatoveringar) á einhverju líki, þá skyldi aðgæta hvort eigi mætti ráða það af öðru hver maðurinn væri, t.d. hvort ekkert væri í vasa líksins er benti á það, eða þó ekki væri annað en hringur á hönd með stöfum.
Nú vildi svo til, að af þessum ellefu líkum voru 10 með merki á handlegg eða hönd, en ellefta líkið ekki. En á hönd þess var einbugur. Vegna þess að höndin var sollin, varð honum ekki náð ,af, nema því aðeins að hann væri sagaður sundur. Var til þess fenginn maður frá Stað, Sigurður Hjeronýmusson að nafni. Fundust þá innan í hringnum stafir. Skrifaði hreppstjóri þá hjá sjer, en ætlaði jafnframt að senda hringinn til skipafjelagsins er skipið átti, svo að hann kæmist til ástvina mannsins.
Nú voru smíðaðar kistur að öllum þessum líkum og þau kistulögð. Þá var það annaðhvort nóttina á eftir, eða næstu nótt, að mann, sem býr í Bergskoti, og Bjarni Ólafsson hjet, dreymir það, að maður kemur á gluggann hjá honum. Bjarni þekkir eigi þennan mann og hefir aldrei sjeð hann fyr. Þessi maður talar til Bjarna og biður hann að sjá svo um, að hann fái aftur það, sem tekið hafi verið af sjer.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Um morguninn segir Bjarni þennan draum sinn, og þótti hann undarlegur. Var þá gestkomandi hjá honum Sigurður Hjeronýmusson, sá, er fyrr getur. Þegar hann heyrði drauminn, brá honum í brún og hugsaði með sjer eitthvað á þessa leið: „Það skyldi þó aldrei hafa verið maðurinn, sem jeg sagaði hringinn af, og nú hefir vitjað Bjarna í draumi, og er að kalla eftir hringnum?” Þetta var þó þeim mun ólíklegra sem Bjarni hafði eigi hugmynd um hringinn. Samt sem áður fer Sigurður heim til hreppstjórans; en hvað þeim fór á milli, eða hvort sýslumanns naut líka að, vitum vjer ekki. En hitt er víst, að afráðið var það, að senda hringinn eigi af landi brott, heldur skyldi hann leggjast í kistuna hjá því líki, sem hann var af tekinn. En nú stóðu þar 11 kistur, og allar eins. Var því vandi að finna manninn, sem hringinn átti. Þá voru fengnir til þess trúverðugir menn að brjóta upp kisturnar og skila hringnum. Ekki hittu þeir á rjettu kistuna fyrst, sem ekki var von, en í þriðju kistunni lá sá rjetti. Var nú hringurinn lagður í kistuna hjá honum, kistunum öllum lokað, og síðan hefir eigi orðið vart við þennan mann.
Mennirnir þessir eru grafnir í Grindavík, allir í sömu gröf. Sú gröf sjest enn þá í Grindavík — framandi og nafnlausra sjómannagröf — en enn veit hvert mannsbarn þar syðra hvar hennar er að leita.

Staðarhverfi

Horft yfir kirkjugarðinn í Staðarhverfi.

Nú er stutt eftir af þessari sögu, en þó verður að bæta nokkru við. Það var nokkuru eftir jarðarförina, að stúlku á Stað, Margrjeti Salomonsdóttur að nafni, dreymir það, að hún er þar í rúmi sínu inni í baðstofu. Þykir henni þá maður koma upp í stigagættina. Hann ávarpar hana og segist vera kominn til þess að þakka fyrir sig og fjelaga sína. „En eitt þykir mjer verst,” bætir hann við, „að eigi skyldi jafn mikið haft við okkur alla.”
Jeg sel það ekki dýrara en jeg keypti, að stúlkunni fannst þetta vera sá maður frá „Anlaby”, er fyrstur fannst. Var nú margt rætt um drauni þennan og fanst mönnum ólíklegt, að hann ætti við nein rök að styðjast, ef svo væri að hún ætti að eiga við sjóreknu mennina af „Anlaby”, því að enginn vissi betur en að líkum þeirra allra hefði verið gert jafn hátt undir höfði og sami sómi sýndur. En þó varð það síðar nokkuð, er menn hugsuðu sig betur um, að annað varð uppi á teningnum.
Jafnóðum sem líkin fundust, voru þau borin í kirkju. Báru ýmist 4 eða 6 menn hvert lík og um leið og þau voru borin inn úr kirkjudyrum, var klukkum hringt og sunginn sálmurinn: „Jurtagarður er herrans hjer.” En af einhverri vangá, er eigi varð kunnugt um fyr en síðar, höfðu burðarmenn eins líksins borið það svo í kirkju að yfir því var hvorki klukkum hringt nje sálmur sunginn.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1927, Nilson Skipstjóri – Úr sögu landhelgisvarnanna, Árni Óla, bls. 17-20.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.