Tag Archive for: Hausastaðaskóli

Garðabær

Hér á eftir verður fjallað um helstu minnismerkin í Garðabæ:

Alfred Wegener – Landrekskenningin

Alfred Wegener

Alfred Wegener – stöpullinn á Arnarnesi.

Minnismerki um Alfred Wegener og „Landrekskenningu“ hans er fremst á Arnarnesi

.Alfred Wegener setti landrekskenningu sína fram á árunum 1908-1912. Hann hafði veitt því eftirtekt að strendur meginlanda, einkum Afríku og Suður-Ameríku, falla býsna vel hvor að annarri. Hið sama átti við um jarðmyndanir og plöntu- og dýrasteingervinga á aðskildum meginlöndum.
Wegener dró þá ályktun að upphaflega hefðu öll löndin myndað eitt meginland, Pangeu. Hann hélt því jafnframt fram að á miðlífsöld, fyrir um það bil 200 milljónum ára, hefði Pangea byrjað að klofna, fyrst í tvo meginlandsfleka og síðar í fleiri og væru þeir á stöðugri hreyfingu, sums staðar hver frá öðrum, annars staðar hver að öðrum.
Samtímamenn Wegeners höfnuðu landrekskenningunni enda var fátt sem renndi stoðum undir hana í upphafi. það var ekki fyrr en um 1960 að hún fékk byr undir báða vængi. Það gerðist í kjölfar þess að breskum jarðeðlisfræðingum tókst að túlka rákamynstur sem fram kom við segulmælingar á Reykjaneshrygg. Síðan þá hafa fjölmargar niðurstöður mælinga á jarðskorpunni staðfest kenningu Wegeners enn frekar þannig að nú nýtur hún almennrar viðurkenningar.

Landrekskenningin

Alfred Wegener

Alfred Wegener – splatti á stöplinum; minnismerki um Alfred.

Stöpul þennan reisti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) í aprílmánuði 1930 ásamt fleiri stöplum með það fyrir augum að færa sönnur á landrekskenninguna sem hann setti fram á árunum 1908-1912. Landrekskenningunni var fálega tekið í upphafi. Nú nýtur landrekskenning Wegeners almennrar viðurkenningar. Alfred Wegener varð úti í rannsóknarleiðangri á Grænlandi 1930.

Í DV 2017 skrifaði Kristinn H. Guðnason grein með fyrirsögninni „1930 – Wegener reisir stöpul á Arnarneshæð„:
„Alfred Wegener var þýskur stjörnu- og jarðeðlisfræðingur sem stundaði rannsóknir á norðurhveli, sér í lagi á Grænlandi. Árið 1915 setti hann fram hugmyndir um landrek sem urðu forveri flekakenningarinnar sem hefur verið viðtekin síðan árið 1968. Wegener sá að meginlöndin Suður-Ameríka og Afríka passa saman eins og púsluspil og því hlytu meginlöndin að vera á hreyfingu.

Alfred Wegener

Alfred Wegener – minnismerki um „Landrekskenninguna“.

Árið 1930 kom Wegener við á Íslandi á leið sinni til Grænlands í rannsóknarleiðangur. Hann sótti hingað íslenska hesta sem gefist höfðu vel í slíkum leiðöngrum sem burðardýr. Þá fóru Wegener og fylgdarlið hans í æfingaferð yfir Vatnajökul. Stöpulinn á Arnarneshæðinni reisti hann til að prófa landrekskenningu sína en sambærilegur stöpull var síðar reistur á vesturströnd Grænlands. Ferðin til Grænlands endaði hins vegar illa því að Wegener og annar samferðamaður hans létust. Wegener, sem var fimmtugur, reykti mikið og hjartað þoldi ekki álagið í jöklaferðunum.
Samferðamaður hans týndist eftir að hafa grafið Wegener.

Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur segir í samtali við DV að stöplarnir hafi ekki haft neina þýðingu því að þeir séu báðir á sama jarðflekanum. „Hann ætlaði að staðfesta kenningu sína með því að koma aftur mörgum árum síðar og mæla rekið.“

Alfred Wegener

Alfred Wegener.

Skömmu síðar kom annar þýskur fræðimaður, Bernauer að nafni, og gerði sams konar tilraun yfir gosbelti Íslands. „En stríðið kom og rótaði því fyrir þeim og í raun var engin hreyfing á norður-gosbeltinu á þessum tíma. Þetta gerist í rykkjum.“

Árið 1930 var ekki þéttbýli í kringum stöpulinn á Arnarneshæð. Nú stendur hann í mynni íbúðahverfis en margir gera sér ekki grein fyrir því að hann sé hluti af merkum jarðfræðitilraunum.“

Urriðavöllur

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um gróðursetningu.

Minnismerki um gróðursetningu við völlinn stendur á Urriðavelli í Urriðavatnsdölum milli golfskálans og vélahúss. Um er að ræða stuðlabergsstöpul með áletrunni „Lundur þessi er gróðursettur í tilefni af Landsmóti Oddfellowa 1994“.

Urriðavöllur
Minnismerkið er um frumkvöðla og er áfest bjargi við skúr ofan golfskálans.
Oddfellowar á Íslandi létu gera þessa plötu til heiðurs þeim Oddfellowum sem gáfu Oddfellowreglunni á Íslandi jörðina Urriðavatn.

Gísli Guðmundsson skrifaði um Urriðavatn (Urriðakot) í fylgiblað Morgunblaðsins 1997 undir fyrirsögninni „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi“:
„Guðmundur Jónsson átti jörðina til 1939, en seldi hana þá sonarsonum sínum, Kára og Alfreð, sem síðar varð forstöðumaður Kjarvalsstaða. Síðasti ábúandi á Urriðavatni var hinsvegar Gunnlaugur Sigurðsson, sem bjó þar til 1957. Bærinn brann skömmu síðar.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um frumkvöðlana.

Nokkru áður, 1946, hafði 30 manna hópur úr Oddfellowreglunni eignast jörðina. Hún hafði verið auglýst til sölu og Reykjavíkurbær gerði tilboð, sem var hafnað. Þá var það að hópurinn úr Oddfellowreglunni bauð betur, svo kaupin gengu: Kaupverðið var 160 þúsund krónur. Síðar bættist við hópinn svo í honum varð 61 maður.
Núna, eftir að Urriðavatnsland er orðið þekkt útivistarsvæði, hafa menn dást að þessari framsýni Oddfellowa. En þeir voru ekki með draumsýnir um það sem nú er orðið að veruleika þarna, heldur var annað sem stóð hug þeirra og hjarta nær á þeim tíma. Þeir höfðu fengið augastað á hlíðinni ofan við Urriðavatn fyrir sumarbústaði.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – Minnismerkið um frumkvöðlana.

Þórður Kristjánsson, byggingameistari, er einn af fimm eftirlifandi félögum úr hinum upphaflega 30 manna hópi Oddfellowa sem keyptu landið. Hinir eru Björn G. Bjömsson, fyrrverandi forstjóri Sænska frystihússins, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, fyrrverandi stórkaupmaður, Guðjón Sigurðsson múrarameistari og Jónas B. Jónsson fyrrverandi fræðslustjóri. Þórður er Dýrfirðingur að uppruna, en lærði húsasmíði á Ísafirði og fluttist síðan til Reykjavíkur 1943 og varð mikilvirkur í byggingastastarfsemi um sína daga byggði mörg stórhýsi, þar á meðal hótelið og aðrar byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli, mörg hús Pósts og síma, flestar byggingar KR; þar á meðal KR-heimilið og svo byggði hann að sjálfsögðu blokkir. Þórður verður áttræður á þessu ári, og er í útliti og að líkamsburðum eins og alla dreymir um að geta orðið á þeim aldri, en fæstir ná. Hann kvaðst hafa dregið sig í hlé frá byggingarstarfsemi þegar hann var 75 ára; „þá nennti ég þessu ekki lengur og fór að leika mér“, segir hann.
Og hvað meinar hann með því?

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Ójú, hann kynntist því aldrei í æsku að mega leika sér og á fullorðinsárunum hafði hann ekki tíma til þess. Núna leikur hann golf á hinum nýja golfvelli Oddfellowa í Urriðavatnslandi og nýtur þess. Hann sagði að það hefði verið afar skrýtin tilfinning í fyrstu að geta bara farið út og leikið sér. En hann kvaðst hafa kunnað því merkilega vel.
En hvað varð um drauminn um sumarbústaðina? Um þær mundir var þjóðin í hlekkjum allskonar hafta. Til þess að kaupa bíl þurfti gjaldeyrisleyfi og til þess að fá að byggja sumarbústað þurfti fjárfestingarleyfi, – og öllu var úthlutað eftir pólitískum línum og geðþótta. Skömmtunarstjórunum þótti ekki nauðsynlegt að byggja sumarbústaði og fjárfestingarleyfi til þeirra fengust einfaldlega ekki. Þá kom upp tvær hugmyndir, segir Þórður. Önnur var sú að selja landið í bútum og græða á því; hin var sú að gefa það Oddfellowreglunni. Það varð ofaná árið 1957 að gefa Urriðavatnsland og Oddfellowreglan þáði gjöfina með þökkkum.“

Hausastaðaskóli 1792-1812

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla.

Minnismerki um Hausastaðaskóla er við aðkeyrsluna að Hausastöðum.

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er aflíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistarbarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Árið 1793 var byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé “afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn.”

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – tóftir.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafði starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði. [Lengri útgáfa á Ferlir.is, sjá HÉR, HÉR og HÉR.]

Minnisvarðinn var reistur 18.10.1978.

Heilsuhælis-félagið

Garðabær

Garðabær-minnismerki; Vífilsstaðir.

Framan við Vífilsstaðaspítala eru þrír uppistandandi stuðlabergsstandar, bundnir saman með keðju. Framan við minnismerkið er skjöldur. „1906 – Heilsuhælis-félagið. Berið hvers annars byrðar. Heilsuhælisfélagið var stofnað 19. nóvember 1906 að forgöngu Guðmundar Björnssonar landlæknis og félögumhans í Oddfellowreglunni Ingólfi. Mikil og almenn samstaða var meðal þjóðarinnar um þetta verkefni. Fjórum árum síðar þann 5. september 1910 var Vífilstaðahælið vígt. Vífilsstaðahælið 1910“.

Undir skildinum er annar skjöldur: „Gefandi Oddfellowreglan á Íslandi. Hönnuðir Jón Otti Sigurðsson – Þorkell Gunnar Guðmundsson. 5 september 2010“.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/gardabaer-minn/

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerkið.

Hausastaðaskóli

Gengið var um Langeyri og Malir, skoðaðir gamlir fiskreitir og síðan haldið út með ströndinni með Bala, Dysjum og Görðum. Gengin var Lindargata að Garðalind og síðan út á Hliðsnes og að Hausastaðaskóla.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Langeyri var upphaflega tómt hús í landi Garðakirkju sem stóð autt árið 1703 vegna aflabrests. Þegar fríhöndlunin gekk í garð 1787 lögðu danskir lausakaupmenn Langeyri undir sig og reistu sér íbúðarhús og vöruskemmur. Örnefnið Rauðhúsnef er frá þeim tíma er rauðlituð dönsk hús stóðu við tangann er kallast í dag Rauðsnef. Þar var í eina tíð hvalstöð sem lagðist niður þegar alvarlegt slys varð í stöðinni. Núverandi Langeyrarbær var byggður árið 1904 og telst vera dæmigerður hafnfirskur hraunbær af stærri gerðinni.

Fagrihvammur

Fagrihvammur.

Nokkru vestar eru fleiri gömul hús Eyrarhraun, Fagrihvammur og steinbærinn Brúsastaðir. Utar taka við Brúsastaðamalir eða Litlu-Langeyrarmalir og Skereyrarmalir. Hér voru fyrirtaks malir fyrir smábáta sem þurftu ekki að fara djúpt til að afla vel.
Finna mátti samskonar malarkamba inn eftir öllum Hafnarfirði í aldarbyrjun. Langeyrarmalir voru lengstar malanna og hér reisti August Flygenring fiskvinnsluhús 1904. Malirnar voru mikið athafnasvæði og var saltfiskur breiddur til þurrkunar á góðviðrisdögum á fiskreitum í hrauninu sem enn sést móta fyrir, t.d. utan við beygjuna neðan við Eyrarhraun.

Allians

AllianZ-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Fiskverkunarhúsin voru rifin á níunda tug 20. aldar. Líklegt er að þessir fiskreitir verði eyðilagðir innan skamms vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á svæðinu. Allians-reiturinn, sem var þarna skammt ofar, var t.d. rifinn uppá einum degi þegar síðast var byggt við Hrafnistu. Í rauninni virðist það hafa verið óþarfa eyðilegging ef tekið er mið af byggingunni, sem reist var á svæðinu. Í rauninni hefði verið táknrænt að vernda þennan gamla fiskreit svo til við gaflinn á þessu dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954. Fiskreitir víða.

Þegar saltfiskverkun var sem mest í bænum á fyrrri hluta 20. aldar var fjöldi fiskreita og stakkstæða um allan bæ þar sem fiskurinn var breiddur og þurrkaður. Það er enn hægt að skoða fagurlega hlaðna fiskreiti á nokkrum stöðum í bænum þó mjög hafi verið þrengt að þeim. Alliansreitur (stundum nefndur Allanzreitur) er sunnan Hrafnistu. Hann er kenndur við Allen Major, framkvæmdastjóra hinna ensku Hellyers bræðra sem stunduðu útgerð frá Hafnarfirði 1924 – 1929. Annar þekktur fiskreitur var Einarsreitur, sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður og kaupmaður lét útbúa, er á svæðinu milli Arnarhrauns, Smyrlahrauns, Álfaskeiðs og Reykjavíkurvegar.

Einarsreitur

Einarsreitur.

Byggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð og er talið að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og bjó á Skúlastöðum. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Minnismerki stendur nú þar sem Hausastaðaskóli var. Enn má sjá tóftir hans. Skólinn var annar fyrstu skóla á Íslandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára. Skólinn starfaði á árunum 1792-1812. Skólinn var stofnaður handa fátækum börnum sem fengu ekki tækifæri til að læra. Það voru bæði strákar og stelpur í skólanum sem þótti merkilegt því stelpur gengu ekki í skóla þá. Fyrst í stað voru 6 stelpur og 6 strákar en þeim fjölgaði fljótlega. Eftir 1804 fækkaði þeim aftur. Markmið Hausastaðaskóla var ekki bara að lesa, skrifa og reikna, heldur líka að ala upp fátæk börn. Minnisvarði um Hausastaðaskóla var reistur árið 1979.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá meira um Hausastaðaskóla HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.gardabaer.is/default.asp?cat_id=69
-http://www2.hafnarfj.is/hafnarfj.nsf/pages/merkir_stadir
-Jón Skálholtsrektir – minning um Jón Þorkelsson Thorkillius, Rvík 1959.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli.

Hausastaðaskóli

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er afleíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistabarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.
Stofnun barnaskóla á Íslandi var að vísu ekki algert nýmæli, því að hinn fyrsti barnaskóli landsins var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745. Ekki fara þó langar sögu af honum. hann mun hafa verið endurbættur 1750, en nokkrum árum seinna var hann kominn í kalda kol.
Árið 1761 gerðu Finnur biskup Jónsson og Magnús amtmaður Gíslason reglugerð fyrir væntanlegan skóla, er stofnaður skyldi í Njarðvík. Það átti að vera hinn væntanlegi uppeldisskóli samkvæmt gjöf J. Þork. Skal hér birtur útdráttur úr reglugerðinni, sem var alls í 33 greinum, þar eð hún var í öllum meginatriðum tekin upp, þegar Hausastaðaskólinn var stofnaður 1791. Sýnir reglugerðin ljóslega tíðarandann og hugmyndir æðstu embættismanna þjóðarinnar um fyrirmyndar barnaskóla.

Hausastaðir

Hausastaðir og tóft Hausastaðaskóla 2024.

Skólahaldarinn átti að vera lærður maður, „kunnur að guðhræðslu og reglusemi og hæfur til að gegna svo þýðingarmiklum starfa“. Sé hann kvongaður „skal kona hans vera þekkt af heiðarlegum lifnaði“. Hann átti að hafa „gang og sæti á opinberum mannafundum næst á eftir prestum eða conrektorum við latínuskóla“. Í skólann mátti ekki taka yngri börn en 6-7 ára.

Hausastaðir

Hausastaðaskóli (t.v.), minnismerki og Hausastaðir.

Um kennsluna var það tekið fram, að „með því að ótti drottins er upphaf allrar visku, hamingju og blessunar“, þá átti daglega, „kvöld og morga, að halda í skólanum bænargjörð eða lofsöng“, lesa kafla úr Biblíunni eða annarri guðsorðabók og „stuttlega skýra innihaldið fyrir börnunum“, og „aldrei gleyma að biðja fyrir guðs kirkju, fyrir hans hátign konunginum, öllu konungsfólkinu og fyrir heill landsins“.

Hausastaðir

Hausastaðir 2022.

Þá átti að láta börnin sjálf lesa í Biblíunni og venja þau á að syngja „alla sálma tíðkanlega hér á landi.“ Og til þess að „lærdómar Biblíunnar nái betur að festa rætur muni nokkuð af því, (skólahaldarinn) rannsaka, hvort þau muni nokkuð af því, sem lesið var og skýrt fyrir þeim morguninn eða kvöldið áður.“
Þá voru hreinlætisreglur. Börnin áttu að vera með hreinar hendur og kembt hár. Um matinn er þess getið, að þau skuli fá hann „eftir óbrotnum landssið, en ekki til að fylla búk þeirra eða seðja græðgi þeirra“.
Börnin áttu að læra lestur, og stálpaðir piltar skyldu læra að draga til stafs. Og þau, sem til þess væru hæf, áttu að læra 4 höfuðreglur reiknings í heilum tölum. Eldri börn áttu að hjálpa þeim yngri við lestrarnámið.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þá skyldu börnin læra öll algeng störf, að þetta var jafnframt verknámsskóli. Drengirnir áttu að vera við slátt og fara til róðra með vönduðum formönnum. Stúkunum var ætluð ullarvinna, spuni, saumur, prjón og að bæta föt. – Börnin áttu að vera kurteins, ekki mátti þola þeim yfirsjónir, og skyldi þeim hengt fyrir brot á skólareglum, annaðhvort með ávítunum eða hrísvendi.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki í Njarðvíkum.

Að skólahaldi í Njarðvík varð þó ekki. Yfirstjórnendur sjóðsins [Torkelliissjóðsins)] töldu verð á byggingarefni of hátt, til þess að hægt væri að ráðast í skólabyggingu.
Árið 1793 var svo byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé „afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn. Langs eftir er húsið gegnum þiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 værelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi. Fyrir þesum værelsum eru 8 hurðir á járnum, fyrir 2mur skrár tvílæstar, fyrir 2 einlæstar og 2mur lítt nýtar. Fyrir forstofu þiljarðri er vænghurð á hjörum með klínku; fyrir útidyrum hurð á járnum með stórri skrá einlæstri. Á húsinu eru 8 gluggar með 6 rúðum hver.“

Jón Þorkellsson - minnismerki

Minnismerki um Jón Þorkelsson í Njarðvík – teiknað af Ríkarði Jónssyni.

Þá er því ennfremur lýst, að í „sængurkamersinu sé innþiljuð lokrekkja með lagföstum hillum umhverfis. Í dagkegustofunni er kaalofn, sem gengur út til kokkhússins, þar hjá opinn bókaskápur með 4 hillum.“ Úr forstofu lá stigi upp á loft. kennslustofur voru niðir, en uppi á lofti voru svefnkamers. Á loftinu voru 3 gluggar með 4 rúðum hver.
Sér Þorvaldur stjórnaði skólanum í 12 ár eða til ársins 1804. Á þessu tímabili höfðu 26 börn verið í skólanum. Af þeim 12, sem fyrst voru tekin í skólann, hafði eitt farið úr skóla eftir vottorði landlæknis og úrskurði stiptamtmanns. Einn drengur og eins telpa höfðu verið öll þessi 12 ár í skólanum, og voru nú útskrifuð sem sjálfbjarga og vel vinnufær ungmenni, tvær telpur voru í 11 ár, drengur og telpa í 9 ár, drengur og telpa í 8 ár, einn drengur í 6 ár, en einn drengur vék úr skóla eftir eitt ár. Einn piltur, sem kominn var yfir brottfararaldur, hélt áfram að vinna á vegum skólans.

Hausastaðir

Hausastaðir og minnismerkið um Hausastaðaskóla.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafi starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði.

Heimild:
-Jón Skálholtsrektor; minning um Jón Þorkelsson Thorkillius á 20 ára árstíð hans. Gunnar M. Magnússon tók saman, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1950, bls. 119-127.

Hausastaðaskóla

Tóftir Hausastaðaskóla.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – fyrsti heimavistarskólinn „Einn fyrsti vísir að reglulegu skólahaldi fyrir börn og ungmenni hér á landi var Hausastaðaskóli í Garðahverfi 1791-1812.
hausastadaskoli-991Tildrög skólahaldsins voru þau að Jón Þorkelsson, fyrrum skólameistari í Skálholti, mælti svo fyrir í erfðaskrá sinni að eigur hans skyldu renna í sjóð, Thorkilliisjóðinn, og átti hann síðan að standa straum af menntun fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi. Hausastaðir í Garðahverfi urðu fyrir valinu og tók skólinn til starfa árið 1791 (14. mynd) (Ragnar Karlsson & Jón Jónsson, 1992).
Börnin voru tekin í skólann sex til átta ára gömul og voru þar fram á 17. aldursár. Meðal kennslugreina var lestur og skrift sem börnin þurftu að læra til undirbúnings fermingar, reikningur og margvísleg hagnýt störf. Drengirnir áttu að kunna öll venjuleg störf við heyskap, jarðrækt og fiskveiðar, en stúlkurnar fengu tilsögn í hefðbundnum vinnukonustörfum, jafnt utan húss sem innan. Eftir að skólinn hafði verið starfsræktur í 20 ár gekk sjóðurinn til þurrðar. Ekki fékkst fjármagn annars staðar frá til skólahaldsins og var starfsemin því lögð niður árið 1812 og munir skólans seldir á uppboði (Ragnar Karlsson & Jón Jónsson, 1992).“

Heimild:
-Garðahverfi í fortíð og nútíð, Tinna Rut Pétursdóttir, BS 2012.
http://skemman.is/stream/get/1946/15582/37597/1/2012_BS_Tinna_Rut_Petursdottir.pdf

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – tóftir.

Hausastaðir

Grein þessi er erindi, lítið eitt breytt, sem höfundur flutti á kvöldvöku í Barnaskólanum í Garðahreppi 18. október síðastliðinn, þegar kennarar þar og nokkrir fleiri minntust 15 ára starfsemi skólans. Óskaði skólastjórinn, Vilbergur Júlíusson, eftir erindi um þetta efni, en höfundurinn liafði þá fyrir skömmu verið ráðimi til að taka saman sögu skólanna á svæðinu frá Krýsuvíkurbergi að Fífuhvammslæk. Hér er greinin lítillega stytt, en hana má lesa í heild í „Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar“ árið 1973 – „Á Hausastöðum gerðist merkileg saga„:

Ólafur Þ. Kristjánsson„Yzt í Garðahverfi, á lágum ásenda í vestur frá hinu forna prestsetri Görðum, liggur býlið Hausastaðir. Samtýmis er Katrínarkot, byggt á öldinni sem leið úr landi Hausastaða.
Hausastaða mun fyrst vera getið í máldögum Garðakirkju frá ofanverðri 14. öld og eru þeir þá í eigu kirkjunnar. Enginn veit, hve býli þar er gamalt. Hitt má telja víst, að Hausastaðaland hafi frá öndverðu verið hluti af Garðalandi, en Garðar hafa ugglaust verið elzta — og um skeið eina — býlið í Garðahverfi öllu, enda benda margar líkur til, að í Görðum hafi verið aðsetur landnámsmannsins, Ásbjarnar Össurarsonar.
Í Jarðabók Arna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er frá því skýrt, að tvær fjölskyldur búi á Hausastöðum, samtals 8 menn. Hausastaðir voru eign Garðakirkju, eins og fyrr er sagt. Árið 1762 er enn tvíbýli á Hausastöðum.
Átjánda öldin er merkilegt tímabil í sögu Íslendinga fyrir margra hluta sakir. Aldrei var eymd og vesaldómur þjóðarinnar meiri, aldrei var jafn tvísýnt um, hvort hún myndi lífi halda. En sé miðað við allar aðstæður, hafa sennilega aldrei verið hér á landi menn, sem hafa hugsað jafn djarft og stórt um framtíð þjóðar sinnar. Nægir að nefna menn eins og Skúla Magnússon og Eggert Ólafsson, og Magnús Stephensen var farinn að láta til sín taka undir aldarlokin, þótt meira yrði síðar.

Ludvig Harboe

Ludvig Harboe.

En margir fleiri voru í þessum flokki, þótt ekki séu eins nafnkunnir Einn þessara manna var Jón Þorkelsson skólameistari, ágætlega lærður maður, flestum samvizkusamari í störfum, gæddur óþrotlegum áhuga á menningu íslenzku þjóðarinnar. Hann hefur ekki verið metinn að verðleikum. Kann þar að valda nokkru um, að hann stendur í skugga af öðrum manni, dönskum að vísu, en manni sem getið hefur sér að maklegleikum gott orð í íslenzkri sögu: Ludvig Harboe biskupi. Hann var sendur hingað til lands 1741 og dvaldist hér til 1745 til þess að kynna sér ástand í kirkju- og kristnimálum og gera tillögur til bóta. En aðstoðarmaður hans í þessari ferð var Jón Þorkelsson, sem verið hafði skólameistari í Skálholti 1729 til 1737. Átti hann mestan þátt í að ferð þessi var farin, en það ýtti og undir, að þá var heittrúarstefnan svonefnda (pietisminn) í sem mestum uppgangi í Danmörku. Bar Harboe fram ýmsar tillögur um kristnihald í anda þeirrar stefnu, og reyndust sumar þeirra að vísu heldur fánýtar í framkvæmd, en aðrar komu að drjúgu gagni, svo sem það, hve mikil úherzla var lögð á að börn lærðu að lesa, að vísu til þess að þau gætu lesið guðsorð sér til sáluhjálpar. Víst er, að þessar tillögur ýmsar voru frá Jóni Þorkelssyni runnar, því að hann hafði sýnt það áður, að hann var mikill áhugamaður um uppfræðslu barna og unglinga, og átti hann í því sammerkt við Harboe. Hitt er alkunnugt, að lestrarkunnátta þjóðarinnar tók miklum framförum á næstu áratugum.
Jón Þorkelsson
En Jón Þorkelsson lét ekki hér við lenda. Hann dvaldist í Danmörku eftir að rannsókn þeirra Harboes hér á landi lauk og andaðist þar 5. maí 1759, 62 ára gamall, ókvæntur og barnlaus og án nokkurra nákominna ættingja á lífi. Hann lét eftir sig töluverðar eignir, bæði hér á landi og í Danmörku. Hann gerði erfðaskrá og mælti svo fyrir, að í kirkju í Innri-Njarðvík, þar sem hann var fæddur og upp alinn, skyldu geymast guðfræðirit hans á íslenzku, bæði prentaðar bækur og handrit, en eigandi ritanna væri uppeldisstofnun, sem öðrum eigum hans skyldi varið til að koma á fót og starfrækja. Í þessari stofnun áttu hin allra aumustu og fátækustu börn í Kjalarnesþingi að fá kristilegt uppeldi og alla nauðsynlega umönnun, þar í talið húsnæði, fatnaður og fæði, unz þau gætu unnið fyrir sér hjá öðrum. Má hiklaust fullyrða, að aldrei hafi maður lagt fram jafnstóra gjöf til uppeldismála hér á landi, miðað við verðgildi á þeim tímum. Og gjöfin skyldi koma þeim til gagns, sem sízt gátu borið hönd yfir höfuð sér og áttu enga von á sæmilegu uppeldi nema þetta kæmi til. Er dánargjöf Jóns skólameistara einstök í sinni röð að flestu leyti og þá líka maðurinn, er erfðaskrána setti.

Ólafur Stephensen

Ólafur Stephensen.

Stiftamtmaðurinn yfir Íslandi og biskupinn yfir Sjálandi áttu að sjá um framkvæmd erfðaskrárinnar. Voru eignir Jóns í Danmörku seldar og myndaður af sjóður, en hans var heldur slælega gætt og varð hann fyrir stórtjóni af verðfalli peninga og fleiri sökum. Eigur Jóns á Íslandi voru í jörðum, sem skiluðu árlega landskuld og leigum í sjóðinn. Sjóðurinn var kenndur við gefandann og kallaður Thorkillii-sjóður, en þau rök liggja til nafnsins, að skólameistari færði oft heiti sitt í latneskan búning að hætti lærðra manna á þeim tímum og kallaði sig Johannes Thorkillius, en Thorkillii er eignarfall af Thorkillius.
Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi og Magnúsi Gíslasyni amtmanni var skjótlega falið að semja reglugerð fyrir væntanlega uppeldisstofnun. Gerðu þeir það 1761, og mun raunar biskupinn hafa átt þar að mestan hlut. Tóku æðri stjórnarvöld tillögum þeirra vel, og var rætt um að setja stofnunina á fót í Innri-Njarðvík, fæðingarstað gefandans, því að sú jörð var í eigu konungs og átti því að vera auðfengin. Ekkert varð úr framkvæmdum: viður til húsagerðar þótti dýr og fleira tafði. Liðu svo 30 ár.
Þá varð það árið 1790, að íslenzkur maður var skipaður í embætti stiftamtmanns, Ólafur Stefánsson, sem kunnastur er undir nafninu Stephensen. Hann tók erfðaskrá Jóns skólameistara Þorkelssonar skjótt til athugunar, skrifaði Balle Sjálandsbiskupi [Nicolai Edinger Balle] og kvað einsætt að stofna skóla samkvæmt erfðaskránni, enda væri sjóðurinn þess vel megnugur. Tók biskup þessu vel. Stiftamtmaður samdi þá ýtarlega reglugerð fyrir hina nýju stofnun, og fór þar í mörgu eftir reglugerð Finns biskups og Magnúsar amtmanns frá 1761, en breytti þó ýmsu.
Jarðnæði fyrir skólastofnunina var fengið á Hausastöðum í Garðahverfi. Prófasturinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu átti að hafa eftirlit með skólastarfseminni, og nú vildi svo til, að prófastur var séra Markús Magnússon í Görðum, einn af mest virtu prestum á landinu á þeim tímum. Munu hafa þótt hæg heimatökin að hafa skólann í nágrenni hans. Jörðin var eign Garðakirkju, eins og fyrr var sagt, og því auðgert að losa hann úr ábúð, en Thorkillii-sjóður galt kirkjunni jafnan leigu fyrir jörðina þau ár, sem skólinn stóð þar.

Nicolai Edinger Balle

Nicolai Edinger Balle.

Vanda þurfti til forstöðumanns við hina nýju uppeldisstofnun. Var til þess fenginn Þorvaldur Böðvarsson, búandi maður á Flókastöðum í Fljótshlíð. Hinn nýi skólahaldari — eins og hann var jafnan nefndur — var maður tæplega hálffertugur að aldri, vel að sér og prúðmenni mikið og ríkur að lífsreynslu. Hann hafði verið aðstoðarprestur hjá föðurbróður sínum á Breiðabólsstað og verið kvæntur dóttur hans. Þau voru saman í hjónabandi í 5 ár, en þá andaðist kona hans. Þau höfðu eignazt 3 börn, er öll dóu á 1. ári, en hið 4. fæddist andvana.
Þá réðst til prests bústýra, sem Margrét hét Arnoddsdóttir. Þau felldu hugi saman, en mjög var það að óvilja frænda séra Þorvalds, einkum þó móður hans, sem var skaprík kona og fullmetnaðar fyrir hönd sína og sinna, en Margrét þótti smárrar ættar. Kom svo, að beðið var honum til handa lögréttumannsdóttur utan úr Gnúpverjahrepp, Guðrúnar Einarsdóttur, mætrar konu. En kunningsskapur hélzt með presti og Margrétu, og fæddist þeim sonur haustið 1787. Var þá ekki að sökum að spyrja, og var prestur dæmdur frá kjóli og kalli, eins og lög stóðu til. Tók hann sér þetta nærri, ekki sízt vegna konu sinnar, sem hann mat mikils. Bar hann þó harm sinn í hljóði, því að hann var stillingarmaður. Bjó hann embættislaus á Flókastöðum, eins og áður er að vikið, þegar til hans var leitað um að taka að sér forstöðu hins nýja skóla. Segir hann í ævisögu sinni, sem prentuð er í 4. árgangi Fjölnis, að það hafi verið fyrir atbeina séra Páls Þorlákssonar á Þingvöllum, en sá séra Páll var bróðir séra Jóns Þorlákssonar skálds á Bægisá og var kvæntur systur fyrri konu Þorvalds, þekkti hann vel og vissi, hvílíkur hæfileikamaður hann var.

Finnur Magnússon

Finnur Magnússon.

Þorvaldur Böðvarsson fluttist að Hausastöðum vorið 1792 og veitti skólanum forstöðu til 1804 eða í 12 ár. Gerðist hann á þeim tíma þekktur lærdómsmaður og kenndi mörgum piltum undir skóla bæði fyrr og síðar. Jafnframt varð hann frægur fyrir sálma, sem hann orti, eins og sjá má á sálmabókinni, sem Magnús Stephensen sá um útgáfu á (1801). Var Þorvaldur bæði vinsæll maður og vel metinn.
Það var loks árið 1803 að Þorvaldur fékk uppreisn og réttindi til prestskapar á ný, sér til mikillar gleði og ekki síður maddömu Guðrúnu, en hún andaðist í ársbyrjun 1804. Fer séra Þorvaldur um það þessum orðum í ævisögunni: „Þannig var ég sviptur trúfastri og hollri aðstoð, sem ég hafði notið í 18 ár, og stóð nú uppi á Hausastöðum með 4 börn ásamt móður minni, sem þá var mjög hnigin að kröftum, og 16 skólabörnum, vafinn töluverðum kaupstaðarskuldum, og sá mér öldungis ófært að bjargast framvegis.“ — Eitt af þessum 4 börnum hans var Böðvar, faðir séra Þórarins í Görðum, er stofnaði Flensborgarskóla.
Vorið 1804 lét séra Þorvaldur af stjórn Hausastaðaskóla og gerðist prestur á Reynivöllum í Kjós og kvongaðist í 3. sinn, en frá Reynivöllum fór hann prestur að Holti í Önundarfirði og var síðan um skeið á Melum í Borgarfjarðarsýslu, en síðast í Holti undir Eyjafjöllum. Þar dó hann 1836, hátt á áttræðisaldri, og þótti hafa verið hinn merkilegasti maður.
Þótt venja sé að tala um skólann á Hausastöðum og forstöðumaðurinn væri kallaður skólahaldari, var þó hér um meira að ræða en venjulegan skóla. Þetta var uppeldisstofnun, þar sem börnin voru allan ársins hring frávikalaust og höfðu allt uppeldi, komu í skólann 6 eða 7 ára gömul og voru þar í 10 eða 12 ár. Skólahaldarinn kostaði þau að öllu leyti, en fékk 16 ríkisdali til jafnaðar með hverju barni, en það meðlag var síðan hækkað í 20 dali. Einnig hafði hann 45 ríkisdali í árslaun, en kona hans 15 dali. Enn fremur fékk hann leigulausa ábúð á Hausastöðum og hafði Vífilsstaði hálfa til afnota.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Ekki auðgaðist Þorvaldur Böðvarsson á veru sinni á Hausastöðum, enda óx verðlag allrar vöru mjög á þeim árum vegna Norðurálfuófriðarins (Napóleonsstyrjaldanna). Eru áðurgreind ummæli séra Þorvaldar um hag sinn, er hann fór þaðan, en um komuna þangað segir hann þetta: „Þetta embætti var bæði örðugt og launalítið og þurfti mikið fólkshald, í tómu húsi að kalla mátti, því ekki urðu hafðar fleiri en 4 kýr.“ — Tómthús er sama og þurrabúð.
Nokkra uppbót fékk séra Þorvaldur síðar á laun sín sem forstöðumaður skólans. Þess var áður getið, að skólanum hefði verið sett reglugerð. Hún var í 23 greinum, sumum löngum, og öll á dönsku, en hér á eftir verða nokkur atriði úr henni endursögð, sum nákvæmlega, önnur lauslegar.
Tilgangur með skólanum er að gera alþýðubörn að kristnum, duglegum, siðsömum og nýtum mönnum. Þess vegna skal öll starfsemin miða að því að innræta börnunum hollan og heilbrigðan hugsunarhátt, einlægan guðsótta og ráðvendni, iðjusemi, aðgát, nægjusemi og þrifnað.  Skólahaldarinn átti að vera vammlaus og hæfur maður, kunnur að ráðvendni og siðprýði, lipur til kennslu, duglegur og með þekkingu á búskap. Honum til aðstoðar átti að vera kona, helzt eiginkona hans, væri hún nauðsynlegum kostum búin, en hún átti að vera þrifin, nægjusöm og myndarleg í framkomu og kunna skil á öllu, sem bóndakonu hæfði að kunna og vita, einkum þó að búa til óbrotinn, hreinlegan og bragðgóðan mat úr innlendum efnum. Kona þessi er kölluð skólamamma (Læremoder).

Skálholt

Skálholt.

Börnin átti að velja úr hópi öreiga, sennilega þeirra, sem voru á sveitarframfæri, en foreldrarnir þó helzt að vera sómasamlegt fólk og börnin sjálf vel lynt og viðráðanleg. Hverju barni átti að fylgja vottorð frá sóknarpresti þess um aldur þess og foreldra og enn fremur um gáfnafar þess og hneigðir. Skólahaldari sjái börnunum fyrir öllum nauðþurftum. Öll áttu börnin að borða við sama borð, nema veik væru, piltar þó við borð sér og stúlkur sér. Skólahaldari eða skólamamma áttu að vera viðstödd til eftirlits. Börnin skiptist á um að lesa hæn, er setzt er að borðum og er upp er staðið. Þau skulu vanin á að ganga vel og hæversklega að mat sínum. Tekið er fram, að þau séu vanin á kálmeti, enda á að rækta það svo, að dugi allt árið: grænkál, hvítkál, gulrófur og jarðepli. Maturinn á að vera sem mest úr innlendum efnum, hollur en íburðarlaus, svo að börnin fúlsuðu síður við mat hjá bændum, er þau réðust í vist. Fötin skyldu vera úr innlendu efni, búin til eftir því sem unnt væri í skólanum sjálfum, öll af sömu gerð. Fátækrasjóður hreppsins leggi til 4 ríkisdali til fata með hverju barni um leið og það kemur í skólann, en fær fötin, sem barnið kemur í, jafnskjótt til baka, því að barnið fer í skólafötin. Skólahaldari kostar að sjálfsögðu skólafatnaðinn, og sæmilega fötuð skyldu börnin vera, er þau færu úr skólanum að vist þar lokinni.
Hausastaðir
Skólamamma átti að sjá um að börnin væru snyrtilega til fara, aldrei rifin, bæði þau og fötinhrein. Telpurnar á að venja sem fyrst við að þvo og bæta föt og einnig að gera við skó, drengjanna líka. Stúlkurnar eiga að búa um rúmin, en ekki skulu þær draga klæði af drengjunum; það skulu þeir sjálfir vandir á að gera.
Dagurinn hófst með því að skólahaldari fór með bæn og sálmur var sunginn, lesið úr biblíunni og síðan farið með morgunbæn. Börnin lesa til skiptis, þau sem læs eru, en öll séu þau viðstödd. Á kvöldin var farið með bæn, lesinn kafli úr guðrækilegri bók, sem sóknarprestur hafði valið, sálmur sunginn og kvöldbæn lesin. Skólahaldari spyr úr efninu til þess að æfa eftirtekt og athygli nemendanna og jafnframt skýrir hann efnið. Á sumrin var morgunbænin ein látin nægja, en allt haft eins á kvöldin, þótt sumar væri.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Jafnskjótt og börnin eru orðin bóklæs, fara þau að læra barnalærdóminn, kverið. Skólahaldari skýri og útlisti hvern kafla áður en hann er lærður. Mikil áherzla er lögð á að börnin skilji trúarlærdóm og siðalærdóm, svo að þau geti haft kunnáttuna að leiðarvísi í daglegu lífi, hvert eftir því sem það hefur greind til. Þau eiga að ganga til spurninga til sóknarprestsins undir fermingu eins og önnur börn í sókninni.
Til bóknáms voru ætlaðir 2 klukkutímar fyrir hádegi og 4 eftir hádegi daglega yfir veturinn, sem talinn var frá 13. október til 11. maí. Yfir sumarið átti að halda því við, sem lært hafði verið. 10 ára gömul skyldu börnin hafa lokið við kverið. Eftir það áttu þau að rifja upp eftir þörfum og læra sálma, bænir og fleira gott. Hvern virkan dag frá nóvemberbyrjun fram til marzmánaðar átti að kenna hverjum pilti í tvo tíma á hverjum degi að skrifa og reikna 4 höfuðgreinir reiknings í heilum tölum og einnig þríliðu. Einnig átti að kenna þeim vefnað og smíðar á tré og járn eftir því sem hver bóndi þurfti að kunna. Stúlkur, sem langar til að læra að skrifa og reikna, fái kennslu í því einn tíma tvisvar á viku. Þær læri að sníða og sauma föt á sig og piltana og öll heimilisstörf hjá forstöðukonunni. Garðyrkju átti að kenna bæði piltum og stúlkum. Öll venjuleg verk á heimili úti og inni áttu þau að læra. Þau unnu öll í einni vinnustofu, svo að betra væri að fylgjast með störfum þeirra, en þó skyldi vera skilrúm milli pilta og stúlkna, grind. Skólahaldari fékk verðlaun fyrir hverja alin, sem ofin var, 2 skildinga. Það var einkum vaðmál og einskefta, sem ofin var. Aldrei skyldu börnin vera iðjulaus og aldrei rápa á aðra bæi nema með leyfi skólahaldara, og það leyfi skyldi hann ekki láta í té nema nauðsyn bæri til, og er þó ekki langt milli bæja í Garðahverfinu. Einn klukkutíma á dag máttu börnin leika sér að eigin vild, en þó skyldi skólahaldari eða skólamamma líta eftir að þau gerðu ekki neitt hættulegt eða ósiðlegt.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – Helgi S. Jónsson (1910-1982).

Eins og áður er að vikið var markmið skólans að venja börnin á guðsótta og góða siði, iðjusemi og nýtni, og átti skólahaldari að leiða þau með lempni á þá braut. Hann átti að skýra fyrir þeim svo að þau gætu skilið af hverju þau ættu að haga sér á þennan hátt eða hinn. Aldrei átti hann að líða þeim óátalið að aðhafast neitt, sem ekki átti að vera, en aðfinnslur átti að bera fram gremjulaust með ástúðlegri hógværð. Dugi ekki endurteknar áminningar, skal grípa til refsinga, þó einungis með venjulegum vendi, en áður skyldi barninu gert skiljanlegt, af hverju þetta hlaut þannig að vera. Skipist barnið ekki við þríendurtekna refsingu, skal sóknarpresti gert aðvart, og skal hann og skólahaldari þá reyna að finna ráð til bóta eftir sinni þekkingu á skapgerð barnsins. Komi allt fyrir ekki, má vísa barninu burtu eftir að málið hefur verið borið undir eftirlitsmenn skólans, og sé þá jafnskjótt annað barn frá sama hreppi tekið í staðinn. Gert er ráð fyrir, að börnin geti fermzt á 15. ári. Þau eiga að vera orðin nokkurn veginn kunnandi í öllu, sem læra skal, á 17. ári, og yfirgefa þau þá skólann að afstöðnu prófi. Skólahaldari fær 2 ríkisdali aukalega fyrir hvern pilt, sem nær prófi innan 17 ára aldurs, en skólamamma sömu upphæð fyrir hverja stúlku, og auk þess fær skólahaldari 2 dali fyrir hverja stúlku, sem lært hefur að vefa, en skylt var að kenna piltum vefnað.
Sérstakt hús var reist fyrir skólann árið 1793. Það var 15 álna langt og 8 álna breitt, og var allur gólfflöturinn þannig innan við 50 fermetra. Húsið var í 7 stafgólfum, allt þiljað og með fjalagólfi nema grjótlagt stykki fyrir framan reykháfinn. „Langseftir er húsið gegnumþiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 verelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi,“ segir í úttektarlýsingu. Átta gluggar voru á húsinu, hver með 6 rúðum. Loft var í húsinu með tveim herbergjum afþiljuðum í endunum, og voru 3 gluggar á loftinu með 4 rúðum hver.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – tóftir.

Þegar séra Þorvaldur Böðvarsson lét af störfum sem forstöðumaður Hausastaðaskóla vorið 1804, reyndist erfitt að fá mann til að taka við skólanum. Um síðir var ráðinn til þess prestlærður maður, 27 ára gamall, Guðni Guðmundsson að nafni, síðar prestur í Miðdal og á Ólafsvöllum. Hann var karlmenni til burða og kallaður Guðni sterki, en þótti ekki mikill gáfumaður. Stjórn hans á skólanum var léleg, og þótti séra Markúsi í Görðum hann ekki hæfur til þess starfs. Hann hafði hins vegar talið stjórn séra Þorvalds fullnægjandi í sumum efnum, og mun þá hafa átt við bóklegu kennsluna, en nokkurs vera á vant í öðru, enda segir prófastur einhvers staðar, að séra Þorvaldur sé ekki mikill fésýslumaður. Nemendur höfðu verið 12 fyrsta árið, jafnmargt af piltum og stúlkum, en eftir 3 ár voru þeir orðnir 16, og hélzt sú tala, meðan Þorvaldur var við skólann, en þegar Guðni sleppti skólastjórninni eftir 2 ár (1806) voru þeir aðeins 8, á aldrinum 8 til 16 ára.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – AMS-kort.

Til er „úttekt“ á skólabörnunum, þegar Guðni fór, en því miður finnst engin slík „úttekt“, þegar hann tók við, þótt hún hafi sennilega verið gerð þá líka.
Þegar Guðni sterki fór frá skólanum 1806, tók við annar prestlærður maður, einnig 27 ára gamall, Hjálmar Guðmundsson, síðar prestur á Kolfreyjustað og Hallormsstað. Hann var vel að sér og prýðilega gefinn, en þótti síðar nokkuð sérvitur. Hann stjórnaði skólanum í 6 ár við erfiðar aðstæður, því að dýrtíð óx enn ákaflega. Til er skrá, sem Hjálmar samdi, þar sem hann gerir samanburð á verðlagi á ýmsum vörum 1792 og 1810. Höfðu þær yfirleitt tvöfaldast eða þrefaldast í verði, en gluggarúður til að mynda fjórfaldast. Meðlag með hverju barni var þó hið sama og áður, 20 ríkisdalir, og skyldi skólahaldari kosta uppihald þeirra að öllu leyti. Kvartaði Hjálmar oft undan þessu, en fékk aldrei neina uppbót á kaup sitt. Taldi hann sig hafa tapað 992 ríkisdölum samanlagt. Nemendurnir voru oftast 8 í hans tíð, en 9 skilaði hann af sér, þegar hann hætti. Verður ekki annað séð en Hjálmar hafi leyst starf sitt við skólann vel af hendi, þegar alls er gætt.

Hausastaðir

Hausastaðir – loftmynd.

1812 afsagði Hjálmar með öllu að vera við skólann lengur. Erfitt reyndist að fá skólahaldara í hans stað, og brá þá stiftamtmaðurinn Castenskjöld á það ráð án þess að spyrja nokkurn að, að hann lagði skólann niður með öllu það ár. Hausastaðaskóli var úr sögunni eftir að hafa starfað í 20 ár. Einn veturinn hafði hann meira að segja verið eini opinberi skólinn í landinu. Það var veturinn 1804—1805.
Skólarnir höfðu þá fyrir nokkru verið fluttir frá biskupssetrunum í Skálholti og á Hólum til Reykjavíkur og settur einn skóli þar vestur á Hólavelli eða Hólavöllum. Nú var skólahúsið orðið svo lélegt, að heilsa nemenda og kennara þótti í voða, ef þar væri kennt, því að bæði lak húsið og vindar blésu lítt hindraðir þar í gegn, en ofn spjó reyk í allar áttir nema upp um reykháfinn. Næsta vetur hóf latínuskólinn starf á Bessastöðum.
Thorkillii-sjóður kemur nokkuð við sögu menntamála í landinu eftir þetta allt fram á þennan dag, þótt hér verði ekki rakið. En aldrei síðan Hausastaðaskóli var að störfum hefur tilraun verið gerð til að framkvæma fyrirmæli hins stórhuga stofnanda sjóðsins, Jóns skólameistara Þorkelssonar, með því að setja á fót uppeldisstofnun fyrir fátækustu börn í Kjalarnesþingi. Þessi tilraun var látin nægja.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Hafði tilraunin með Hausastaðaskóla þá misheppnazt og gagnið af henni orðið lítið eða ekkert? Þessu verður auðvitað ekki svarað til hlítar, ekki sízt þar sem enginn veit, hvernig rættist úr börnum þeim, er þar áttu dvöl, auk þess sem gagnsemi af skólavist verður aldrei mæld með kvarða eða vegin á vog, einkum þó þegar meira en öld er liðin síðan nemendurnir hurfu af sjónarsviðinu.
Sé nú á það litið, sem bezt verður vitað um uppeldi sveitarbarna á þessum tímum, þegar efnaleysi og erfiðleikar surfu hvað fastast að þjóðinni, ekki sízt í verstöðvunum við Faxaflóa, þá getur engum um það hugur blandast, að skólabörnin á Hausastöðum hafa haft gagn af verunni þar, sum mjög mikið. Þau hafa hlotið þar bóklega menningu og verklegan þrifnað, sem þau hefðu ella að öllum líkindum farið á mis við. Segja mætti mér, þótt ekki verði það sannað, að fleiri eða færri af börnunum hefðu tortímzt algerlega bæði andlega og líkamlega, ef þau hefðu ekki notið vistar í Hausastaðaskóla og aðhlynning hans að sál þeirra og líkama orðið til að gera þau að farsælum mönnum, sem fengu notið sín, sér og þjóðfélagi sínu til nytja.
Það var merk saga, sem gerðist á Hausastöðum áratugina tvo frá 1792 til 1812.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 24.12.1973, Á Hausastöðum gerðist merkileg saga – Ólafur Þ. Kristjánsson, bls. 7-11.
https://timarit.is/page/4677480?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/al%C3%BE%C3%BD%C3%B0ubla%C3%B0%20hafnarfjar%C3%B0ar%20j%C3%B3labla%C3%B0

Hausastaðir

Hausastaðir og nágrenni – túnakort 1918.

Hausastaðaskóli

„Í Fornleifaskráningu Garðahverfis má sjá eftirfarandi upplýsingar um Hausastaðaskóla á Álftanesi (Garðahreppi): „Skv. Örnefnaskrá 1964 (A163/B156) og Örnefnalýsingu 1976 (bls. 10) stóð Hausastaðaskóli eða Thorkiliisjóðsskólinn áður í Húsagarði (190-4) í austanverðu Hausastaðatúni.
Hausastadir-223Fyrir andlát sitt 1759 gaf Jón Þorkelsson Thorchillius, skólameistari í Skálholti, eigur sínar til skólahalds í Kjalarnesþingi. Skóli var ekki stofnaður strax en ýmsar hugmyndir voru um staðsetningu hans. Stóð m.a. til að hann yrði í Njarðvík og Thodal stiftamtmaður vildi hafa hann í nágrenni stjörnuathugunarstöðvarinnar á Bessastöðum þannig að stjörnuathugunar-maðurinn sinnti jafnframt kennslu. Að lokum fengust þó Hausastaðir endurgjaldslaust úr landi Garða og var skólinn stofnaður þar árið 1791. Þegar Manntal var tekið um aldamótin var ábúandinn á Hausastöðum, Þorvaldur Böðvarsson, einnig skólahaldari (bls. 357).
Hausastadir-224Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi sérstaklega ætlaður alþýðubörnum. Hann var fyrir fátækar stúlkur og pilta úr Kjalarnesþingi og höfðu börn af Álftanesi ekki forgang umfram önnur. Markmiðið var „að ala upp mest þurfandi og fátækustu börn í Kjalarnesþingi; í stofnun þessari áttu börnin auk kristilegs uppeldis, að fá húsnæði, föt og fæði, alt þrifalega, en þó alþýðilega útilátið, þangað til þau gætu sjálf unnið fyrir sjer hjá öðrum.“ Börnin áttu að læra lestur og guðsorð, garðrækt og ýmis gagnleg störf. Í skipulagsskrá skólans var einnig kveðið nánar á um fæði þeirra, m.a. tekið fram að þau ættu að fá ferskt grænmeti. Börnin voru á aldrinum sjö til sextán ára en gert ráð fyrir að þau væru tólf, sex piltar og sex stúlkur. Þegar flest var voru sextán börn í skólanum en aðeins átta eða níu undir lokin. Þá var farið að sverfa að starfseminni vegna siglingateppu og dýrtíðar og var hann með öllu lagður niður árið 1812. Hreppstjórar Álftaneshrepps sendu þá sýslumanni bréf þar sem þeir fóru fram á aukið fé vegna barnanna sem komu úr skólanum: „Við beklögum Tíðanna óblíðn, sem stansa skilde þessa góðu guðlegu stiftun, og svifta mörg munaðarlaus börn uppfóstre og Forsorgun […]“. (A.Ó.B: 117 o.þ.tilv.r.). Á 20 ára afmæli Flataskóla, áður Barnaskóla Garðahrepps, 18. okt. 1978, ákvað skólastjórinn að vinna að því að reistur yrði minnisvarði um Hausastaðaskóla. Þennan minnisvarða afhjúpaði svo Ólafía Eyjólfsdóttir, síðasti ábúandi Hausastaða, og stendur hann þar sem bugða er á veginum til bæjarins. – (G.R.G: 12).“

Heimildir:
-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. 1996.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A163 / Garðaland B156.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
-Kristján Eiríksson: Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna. 1976.
-Manntal á Íslandi 1801 suðuramt. Rvk. 1978.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.