Einn FERLIRsfélaga hefur dundað við að skoða mögulegar gamlar leiðir um Heiðina há. Heiðarvegurinn, af Selvogsgötu við ofanverð Grindarskörð, með sunnanverðum Kerlingarhnúk og niður heiðina að Sandfelli, hefur verið kortlagður sem og Selvogsgatan öll.
Vörður vestan Heiðarvegar virtust stopular við fyrstu sýn, en þegar farið var að skoða þær nánar og hnitsetja kom svolítið áhugavert í ljós; hugsanleg gata þvert á Heiðarveginn ofan við Bláfjallahornið niður á Selvogsgötu ofan við Urðarfell með viðkomu í Rituvatnsstæðinu. Þessi kafli er rúmlega 9 km langur og liðast niður Háheiðina vestanverða. Ef tekið væri mið af vörðum á þessari leið myndi gatan liggja frá norðri til suðurs um stalla og hvamma.
Þegar komið var á svæðið virtist landslagið einsleitt, hraunhólar hverjum öðrum líkir. Vörðurnar voru litlar og höfðu verið lagaðar. Gata á milli þeirra er næsta óljós. Vörðurnar þarna eru jafnan á klapparhólum svo til í beinni stefnu. Á a.m.k. þremur stöðum eru skjól í hraunbólum, það efsta hið ágætasta.
Jón hafði áður skoðað götur upp með Selfjalli um Rjúpnadali og áfram áleiðis upp í Bláfjöllin vestanverð. Fallnar vörður eru einnig á þeirri leið, en hraunhaft á leiðinni setti strik í reikninginn. Annars er þessi leið í heild mjög greiðfær og í raun mjög eðlileg fyrir t.d. vermenn að vestan á leið í Selvog eða aðra staði á sunnanverðum Reykjanesskaganum. Hins vegar er erfitt að sjá hvers vegna fólk ætti að hafa farið svo hátt upp í Heiðina há þegar hægt var að fara mun greiðfærari leið mun neðar, þ.e. milli Þríhnúka og Strompa. Hækkunin þar er lítil og um slétt helluhraun að fara. Sú leið væri líka eðlilegt framhald af Selvogsgötunni.
Líklegt má telja að framangreindar vörður hafi ráðið smalaskilum. Fjárkóngar Grindavíkinga, Hafnfirðinga, Selvogsinga, Ölvusinga og Reykvíkinga og fylgdarlið þeirra hittust í Kóngsfelli ofan við Bolla. Þaðan skipuðu þeir liði sínu á heiðina. Vörðurnar gætu hafa verið kennileiti fyrir mannskapinn í annars kennilausri heiðinni vestanverðri, annars vegar Ölvusmanna og hins vegar Selvogsmanna.
Annars var frábært að skoða Brennisteinsfjöllin og Ásana frá Heiðinni há. Gengið var langleiðina niður að Rituvatnsstæðinu (Móvatnsstæðinu) ofan við Urðafell. Þegar þangað var komið var stefnan tekin á gíginn í Heiðinni há.
Hún er 2030 fet á hæð, geisimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lík í lögun og Skjaldbreiður. Hún er hlaðin upp úr óteljandi gömlum hraunalögum. Efst á heiðinni markar fyrir gígum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr. Gígurinn er nú fullur af hrauni, em hefir verið afar stór, sem sjá má af leifum þeim, sem standa af gígröndinni. Það eru dálitlir hraunhnúkar sem standa í hring og hefir gígurinn verið allt að 100 faðmar að þvermáli.
Útsýni er frá dyngjunni austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa. Sunnanlands undirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum. Vestmannaeyjar lyftust upp af hyllingunni og Snæfellsjökull norðan við flóðann blasti við eins og fagur og hann er vandur. Langt uppi í landi rís Skjaldbreiður við himin og jöklarnir með hvítleitum bjarma.
Eldstöðin Heiðin há er sem fyrr segir af dyngjuætt og er ein mest eldstöðva á Reykjanesskaganum. Hraun frá henni þekja um 170 ferkíómetra og rúmmál þeirra um 6,8 rúmkílómetrar, en það er ríflega helmingur af hrauninu sem rann í Skaftáreldum 1783. Ekki ber mikið á gígnum sjálfum en þó eru á börmum hans háar hraunstrýtur sem sýna nokkurn vegin útlínur hans. Hæðin er 613 m.y.s.
Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald þeirra, að miklu leyti grafið í yngri hraun.
Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til. Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum.
Dyngjan, sem heiðin há, stendur á, liggur utan í Bláfjöllunum og hefur á kafla kaffært framhald þeirra til suðvesturs að Austurásum. Mögulegt er að hraun frá Heiðinni há hafi fyllt 100-200 m dæld í landið umhverfis Geitafell en það mun vera þykkt hraunanna við fjallið. Eldri hraun, nú grafin, kunna að hafa fyllt slíka dæld við upphaf nútíma áður en Heiðin há varð til.
Gengið var fram á op tveggja hraunrása, aðra suðvestan í gígunum og hina norðan í þeim. Þær voru ekki skoðaðar að þessu sinni, en hnit tekin. Hins vegar var gengið yfir á Heiðarveginn milli Heiðarinnar og Kerlingarhnúks. Veginum var fylgt til vesturs þar sem hann liggur út með Bláfjallshorninu. Vörður og vörðubrot eru á þeirri leið. Handan við hornið sjást ekki vörður en augljóst má telja að vegurinn hafi liðast þar niður smágrýtta hlíðina áleiðis að Stórkonugjá og á mót Selvogsgötu austan Grindaskarða. Ætlunin er að rekja Heiðarveginn fljótlega. (Sjá meira um Heiðina há HÉR.)
Frábært veður. Gengnir voru 13 km og tók það 5 kls og 5 mín.