Á vefsíðinni „Legstaðaleit.com“ má lesa eftirfarandi um heimagrafreit Reykdalsfjöldskyldunnar við Setberg ofan Hafnarfjarðar:
„Heimagrafreiturinn Setbergi er staðsettur að Hólsbergi 13 í Hafnarfirði. Þar hvílir Jóhannes Jóhannesson Reykdal ásamt konu sinni Þórunni Böðvarsdóttur Reykdal og fimm börnum þeirra sem dóu þegar þau voru á aldrinum 12 til 34 ára (þau hjónin eignuðust alls 12 börn).
Jóhannes Jóhannesson Reykdal fæddist að Vallarkoti í Reykjadal í S-Þingeyjarsýslu þann 18. janúar 1874. Á Akureyri hóf hann trésmíðanám og fjórum árum síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms. Eftir þriggja ára nám þar flutti hann heim til Íslands með það í huga að setjast að á Akureyri. Á leið sinni hitti hann þó unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur, sem varð til þess að hann festi rætur sunnan heiða.
Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fljótlega leitaði hugurinn hærra, sem varð til þess að hann reisti verksmiðju við Lækinn, hans fyrsta stórvirki. Jóhannes virkjaði Lækinn til þess að knýja vélar verksmiðjunnar áfram. Þetta dugði Jóhannesi þó ekki lengi því árið 1904, þá þrítugur að aldri, fór hann til Noregs og festi þar kaup á rafal og með aðstoð íslensks raffræðings, Halldórs Guðmundssonar, setti Jóhannes rafalinn upp.
Þann 12. desember 1904 urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar með því að virkjun Jóhannesar neðst í læknum tók til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar og fjögurra götuljósa. Með þessum atburði var rafvæðing Íslands hafin.
Mikil eftirspurn var eftir rafmagni virkjunarinnar og fór Jóhannes því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í Læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð á Hörðuvöllum. Sú rafstöð tók til starfa haustið 1906 og var að afli 37 kW, sem fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði. Sú virkjun stendur enn og kallast Reykdalsvirkjun og var fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi. Ellefu árum síðar reis þriðja rafstöð Jóhannesar nú enn ofar í Læknum.
Í DV árið 2007 er m.a. fjallað um grafhýsi hér á landi. Þar segir:
„Lengi stóð grafhýsi í Setbergshverfi ofan Hafnarfjarðar. Athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal var sá fyrsti sem þar hvíldi. Hann varð goðsögn í lifanda lífi þegar hann bókstaflega lýsti upp Hafnarfjörð árið 1904 með því að setja þar upp rafmagnsljós.
Fyrir nokkrum árum var hins vegar mokað yfir grafreitinn en áður voru þeir sem síðast voru þar greftraðir fluttir í kirkjugarð bæjarins og jarðaðir þar.“
Væntanlega hefur hvatinn fyrir stofnun heimagrafreita víða verið sá að fólk vildi hvíla á jörðinni sinni og vera áfram heima. Árið 1885 sótti Jón Bergsson í Brokey á Breiðafirði um að fá að gera heimagrafreit á eyjunni og þar kemur þetta viðhorf skýrt fram. Í bréfi sínu segir hann að „löng dvöl á þessum stað hefur gjört mjer hann svo kæran að jeg vil hvorki lífs nje liðinn hjeðan fara en óska innilega, að bein mín mættu hvílast hjer í friði“.
Frumbyggjar þessa lands á söguöld voru jarðsettir í túnjaðrinum heima, uppi á hólum, við haf eða vatn, á fjöllum og víðar. Eftir að kristni varð almennari í landinu tóku að myndast skipulagðir kirkjugarðar við kirkjur landsins og varð það venjan að fólk var jarðsett í slíkum görðum. Á síðari hluta 19. aldar virðist sem að aukið frjálslyndi í trúmálum hafi gert Íslendingum kleift að auka fjölbreytni við jarðsetningu látinna og eru einkagrafreitir engan veginn sér-íslenskt fyrirbæri, því þeir þekkjast vel í nágrannalöndum okkar. Árið 1963 var tekið fyrir stofnun nýrra heimagrafreita á Íslandi, en þá voru þeir orðnir 158 víða um land. En allt til dagsins í dag eru gamlir heimagrafreitir nýttir.
Stefán Ólafsson fjallar um „Heimagrafreiti á Íslandi“, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2016:
„Hér verða til umfjöllunar leyfi til sjálfseignabænda um greftrun fyrir sig og fjölskyldu sína annars staðar en í sóknarkirkjugarðinum. Þessar lagabreytingar voru samþykktar 1901 og 1902 og fólst í þeim tækifæri fyrir þá sem það vildu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að jarða fólk í þar til gerðum heimagrafreit sem var í þeirra eigin landi. Þessar reglubreytingar urðu í kjölfar umsókna frá bændum til biskups og konungs á seinni hluta 19. aldar um að mega taka upp slíka grafreiti.
Elsta umsókn um heimagrafreit er frá Þórði Sigurðssyni á Fiskilæk í Borgarfirði. Hugmyndina að heimagrafreitum má hugsanlega rekja til þekkingar bænda á kumlum eða haugum landnámsmanna sem almennt var álitið að væru heygðir á jörðum sínum.
Þá hafa margir þeirra vitað að til forna stóðu bænhús við marga bæi og í raun má ætla að þau hafi verið á svo til annarri til þriðju hverri jörð og þar var viðkomandi heimilisfólk jarðsungið. Út frá þessu má því ætla að hugmyndin um heimagrafreitina sé sprottin frá þjóðernisrómantík og frjálshyggju sem þá einkenndi tíðarandann en þessar tvær stefnur höfðu til að mynda mikil áhrif á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Í upphafi hefur vonin um að hvíla í sinni eigin jörð verið sterk því að það þurfti töluverða staðfestu að verða sér úti um slík leyfi.
Með lögum í byrjun febrúar 1963 var sett bann við gerð grafhýsa og heimagrafreita. Þegar hætt var að gefa leyfi til upptöku heimagrafreita 1963 voru þeir orðnir 158 talsins, þar af 5 í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Leyfi til heimagrafreita hafa þó a.m.k. verið 159 því vitað er um eitt tilfelli þar sem heimagrafreitur var lagður niður og einstaklingurinn sem í honum var, grafinn upp og futtur í kirkjugarð þegar jörðin fór úr ábúð ættarinnar.“
Hjalti Hugason krifaði grein í Ritröð Guðfræðistofnunar HÍ árið 2021 undir fyrirsögninni „Jarðsett verður í heimagrafreit“ – Nýbreytni í greftrunarsið Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld:
„Lítið hefur verið ritað fræðilega um íslenska heimagrafreiti. Nýlega birti Stefán Ólafsson fornleifafræðingur þó grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags þar sem hann fjallaði um upphaf heimagrafreitanna, ákvæði laga um þá, fjölda þeirra og dreifingu um landið.
Höfundur þessarar greinar hefur á öðrum vettvangi grafist fyrir um almennar skýringar á því hvers vegna heimagröftur ruddi sér til rúms og hvaða ástæður umsækjendur gáfu upp fyrir óskum sínum um að stofna einstaka grafreiti, sem og sýnt fram á spennu sem nýbreytnin hafði í för með sér milli þeirra sem helst áttu hlut að máli: bænda, kirkjunnar manna og veraldlegra yfirvalda.
Í þessari rannsókn hafa fundist gögn um rúmlega 200 umsóknir um heimild til að stofna heimagrafreiti. Flestar fengu jákvæðar undirtektir, sumum var hafnað, nokkrar dagaði uppi eða fólk féll frá fyrirætlunum sínum. Leiddu þær til þess að stofnaðir voru 170 grafreitir eftir því sem næst verður komist.
Heimagrafreitum fjölgaði ekki jafnt og þétt allt tímabilið 1878–1963. Í fyrstu fór fjöldi þeirra hægt vaxandi en 1910 voru þeir þó orðnir 19. Upp úr því hófst fyrsta fjölgunartímabilið af þrem og stóð til 1918. Þegar því lauk voru grafreitirnir orðnir rúmlega 40. Eftir 1918 var flestum umsóknum hafnað og fækkaði þeim þegar frá leið mjög vegna þessarar breyttu stefnu stjórnvalda. Árið 1928 hófst svo annað fjölgunartímabil sem fjaraði út 1936–1937. Á þeim tæpa áratug voru rúmlega 20 grafreitir teknir upp. Við lok þess tímabils voru þeir því samtals rúmlega 60. Þriðja og öflugasta fjölgunartímabilið hófst svo um 1940 og stóð með sveiflum næstu tvo áratugi er um 100 grafreitir bættust við. Athygli vekur hversu seint helsta fjölgunartímabilið gekk yfir.
Sigurbjörn Einarsson (1911–2008) sem gegndi biskupsembætti til 1981 var mjög andvígur heimagrafreitum og hafði beitt sér fyrir lagabreytingunni 1963.
Nærtækasta skýringin á þeim vinsældum sem heimagrafreitir greinilega nutu hér á landi er að þá beri að skoða sem sýnilegt tákn þeirrar vakningarhreyfingar meðal bænda sem hér ríkti á tímabilinu frá um 1880 og lengst af blómatíma heimagrafreitanna. Þá má því skoða sem minjar um þær félagssálfræðilegu aðstæður sem ríktu í sveitum landsins á tímabilinu og einkenndust af ættarhyggju og átthagaást.“
Jóhannes seldi Hafnarfjarðarbæ virkjanirnar og trésmiðunum verksmiðjuna en keypti sjálfur jörðina Setberg 1931 og hóf þar myndarbúskap. Hafnarfjarðarbær hafði keypt jörðina af Jóni Guðmundssyni, bónda, 1912.
Hann var lengi með 20 kýr í fjósi og um 200 ær, keypti fystu mjaltavélina sem kom til landsins og fyrstu dráttarvélina, en hún var með framdrifna vél sem hægt var að tengja við ýmis vinnutæki. Jóhannes reisti síðan enn eina rafstöðina við Lækinn, árið 1917, sem fyrr sagði. Þá reisti hann timburverslun og trésmiðju neðan við Setbergsbæinn.
Jóhannes lést 1 ágúst 1946 og Þórunn kona hans lést 3. janúar 1964.“
Í Iðnaðarritinu 5.-6. XIX. 1946, segir m.a. um „Jóhannes J. Reykdal, trésmíðamestara og fyrirtæki hans„: „Jarðarför Jóhannesar var hin virðulegasta. Húskveðja að Þórsbergi, og Fríkirkjan í Hafnarfirði fullskipuð ættingjum og vinum. Hann var á sólbjörtum sumardegi lagður til hvíldar í garfhvelfingu fjölskyldunnar, sem hann sjálfur hafði byggt í hlíðinni milli Þórsbergs og Setbergs og ræktað iðngrænt tún í kringum. Þaðan sést vel til fyrirtækja hans, Lækjarins, sem hann meistaralega gerði að afls- og ljósgjafa fyrir 40 árum, til bæjarins, sem vaxið hafði með honum langa æfi og hann átt mikinn þátt í að byggja og út yfir hafðið breiða, sem sólin gyllir og himininn hvelfist yfir.“ – S.J.
Í „Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940“ segir um Jóhannes (18. jan. 1874– 1. ágúst 1946): „Framkv.stjóri, bóndi. Foreldrar: Jóhannes (d. 1889) Magnússon í Vallakoti í Reykjadal og á Litlu Laugum og kona hans Ásdís (d. 29. okt. 1905, 74 ára) Ólafsdóttir á Efsta-Samtúni, Jónssonar.
Var við nám nokkra mánuði eftir fermingu hjá Sigurði Jónssyni á Yztafelli. Lærði húsasmíði á Akureyri og í Kh. Settist að í Hafnarfirði 1902; reisti þar árið eftir trésmíðavinnustofuna „Dverg“, hina fyrstu hér á landi, er gekk fyrir vatnsafli; rak hana í 11 ár. Setti upp litla rafmagnsstöð til ljósa 1905 og aðra stærri 1907, hinar fyrstu á landinu, er komu Hafnarfjarðarbæ að notum; gengu báðar fyrir vatnsafli; seldi bænum stöðvarnar 1909. Bóndi á Setbergi við Hafnarfjörð 1909 –31 og síðan til æviloka á nýbýlinu Þórsbergi, er hann reisti; ræktaði nær 50 dagsláttur lands.
Reisti verksmiðju og íshús á Setbergi. Rak timburverzlun í Hafnarfirði, Var í hreppsnefnd Garðahrepps í 17 ár og oddviti um skeið; sýslunefndarmaður; í fasteignamatsnefnd frá 1918.
Jóhannes var lengi í stjórn Búnaðarsambands Kjalarnesþings. Virðingarmaður Búnaðarbankans og Nýbýlasjóðs. Kona (16. maí 1904): Þórunn (f. 21. nóv. 1884) Böðvarsdóttir í Hafnarfirði, Böðvarssonar. Börn þeirra sem upp komust: Kristín átti Hans Christiansen á Ásbergi við Hafnarfjörð, Ásgeir, Böðvar, Jóhannes, Friðþjófur, dóu allir ókv., Þórarinn á Setbergi, Þórður á Setbergi, Elísabet átti Einar Halldórsson á Setbergi, Ásdís átti Hermann Sigurðsson á Þórsbergi við Hafnarfjörð (Br7.; Óðinn X o. fl.).“
Til fróðleiks mátti lesa eftirfarandi í Nýja tímanum, fimmtudaginn 16. desember 1954 þar sem fjallað var um virkjanir Jóhannesar: „Ör þróun rafvirkjana hér á landi er eðlileg, en þó er jafnvel talið að allt vatnsafl landsins verði fullnotað til rafvirkjana eftir 66 ár, eða árið 2020.“
Heimildir:
-https://www.legstadaleit.com/heimagrafreitur-setbergi/
-https://timarit.is/files/51343345
-DV, föstudagur 30. nóv. 2007, bls. 6.
-Stefán Ólafsson, „Heimagrafreitir á Íslandi“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2016, 2017, bls. 153–170.
-Ritröð Guðfræðistofnunar 52/2021, bls. 3–17 3 DOI: 10.33112/theol. Hjalti Hugason, Háskóla Íslands „Jarðsett verður í heimagrafreit“ Nýbreytni í greftrunarsið Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld – Önnur grein.
-MBL 18. janúar 2013.
-Iðnaðarritið 5.-6. XIX. 1946, Jóhannes J. Reykdal, trésmíðamestari og fyrirtæki hans.
-https://smb.adlib.is/islenzkar/2697
-Nýi tíminn, fimmtudagur 16. desember 1954 — 14. árgangur — 41. tölublað, bls. 12 og 8.