Færslur

Grísanes

Gengið var um Dalinn norðan Hamraness. Í grónum krika í Hellishrauninu er gamalt fjárskjól, að öllum líkindum frá Ási. Hleðslur eru við opið, en hluti loftsins er fallið niður. Dalurinn er vel gróinn og líklega verið mikið nýttur á tímum sauðbúskaparins. Þarna gæti hafa verið skjól fyrir sauði, en fé var á þeim tímum jafnan látið ganga úti um vetur.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás segir m.a.: “Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.” Ás hafði í seli við Hvaleyrarvatn um tíma og má sjá selstóftina á bakkanum austan við vatnið, skammt norðaustan við tóftir Hvaleyrarselsins. Þá eru minjar selstöðunnar uppi á og við Selhöfða, neðan hans og sunnan vatnsins.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjólið í dag, 2023.

Til baka var gengið eftir Stórhöfðastígnum, yfir Ásfjallsöxlina, áleiðis að Ási. Tóftir eru í norðanverðri öxlinni. Gengið var vestur með norðanverðu Grísanesi og yfir á Hvaleyrarhöfða, en þar munu áður hafa verið mörk strandarinnar á þessu svæði, áður en Hellnahraunin runnu. Undir austurbrún Hellnarhrauns er hlaðinn rétt og a.m.k. tvær tóftir skammt austan hennar. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: “Það mun vera þetta svæði, flatir meðfram hrauninu, sem í skjali frá 1444 nefnist Hraunvellir, en nú nefnast þeir Grísanesflatir. Þá er hér klettatunga mikil, nefnist Grísanes, og norður [leiðrétt; suður] af því á holti er Grísanesfjárhús. Þar eru nú veggir einir uppistandandi. Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól“.
Fjárskjólið í Dalnum hefur nú verið eyðilagt vegna mistaka starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Grísanesfjárhús

Grísanesfjárhús.

Hellishraunsskjól

Fornt fjárskjól, Hellishraunsskjól, er í gróinni lægð í Hellishrauni við Ásflatir milli Hamraness og Ásfjalls. Tvö önnur slík skjól, Grófarhellir og Grísanesskjól, eru í nágrenninu:
Í Örnefnalýsinu Ara Gísasonar um Ás segir m.a.:  „Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness.“ Skýrslan fjallar einungis um Hvaleyri, en svæðið er að hluta til í Áslandi og þar er eina skráða fornleifin í skýrslunni; fjárhellirinn. Um hann segir Gísli Sigurðsson m.a. í Örnefnalýsingu sinni um ÁS: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn”.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Út frá frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.  Þær liggja norðan við Bláberjahrygg.  En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja.“ Landamerkja línan liggur s.s. í vörður á Grísaneshálsi og  Hamraneshálsi (Bleiksteinshálsi). Báðar þessar vörður verða að teljast fornleifar sem og leiðirnar verða að teljast til fornleifa skv. Þjóðminjalögum. Þarna lá um Skarðið  vegurinn frá Ási upp á Hrauntungu- og Stórhöfðastíg. Auk þess sem selstígarnir frá Ási og Hvaleyri lágu um Ásflatir og skáhallt yfir Hamraneshálsinn að Hvaleyrarvatni.
Við þetta má bæta að í örnefnalýsingum Hvaleyrar segir, sbr.  Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar: „….), “Vestur frá Ási og vestur frá Ástjörn ganga fram í hraunið tvær hæðarbungur óbrunnar. Sú sem er nær Ási heitir Grísanes, og þaðan beint í suður er annað nes, sem heitir Hamranes. Það þekkist á, að í því eru hamrar. Suðvestur af eða í Grísanesi er smáhellir, sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum, heitir Grófarhellir. Hamranesið er skógi vaxið, brekkur sunnan og vestan, háir hamrar að vestan en aflíðandi að ofan. Þá er næst Bleikisteinn í norðanverðum Bleikisteinshálsi.“

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyrir segir um svæðið: „Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól. Landamerkjalínan liggur um Grísanesháls, niður af honum og inn um Ásflatir. En undir brekkunni við hraunið, sem hér nefnist Hellisdalshraun og Hellisdalur, liggur Hrauntungustígur suður yfir að Hamranesi. Þar spretta fram tvær lindir, Hamraneslindir. Frá Hamranesi lá Hrauntungustígurinn vestur yfir hraunið út að Háabruna og vestur yfir hann í Hrauntunguna.“ Þarna er getið um Hrauntungustíginn um Ásflatir og Helludal.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól

Hellirinn sem er norðan í hraunrana, er í smá sveig um 8 m langur og opinn á móti norðaustri. Hleðslur sem hafa verið veggjahleðslur í hellinum hafa hrunið inn í hellinn og er hann illfær. Í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni “Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness” frá árinu 2005 segir: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrri tíma.“

Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar, auk þess sem skjólið er hluti af búsetuminjum svæðisins, sbr. stekkinn í Skarðinu skammt norðar.

Heimild:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Katrín Gunnarsdóttir: Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness Hafnarfirði. Byggðasafn Hafnarfjarðar. 2005.
Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið 2023.