Tóftir gamla bæjarins að Elliðakoti eru á ási norðan Nátthagavatns.
Einkennandi fyrir tóftirnar, sem enn standa, eru reglulega tilhöggvnir steinar, allir að svipaðri stærð. Um er að ræða stórt skepnuhús og annað minna, líklega sauðakofa, sem breytt hefur verið í hænsnahús. Íbúðarhúsið hefur staðið á grunni vestan skepnuhússins. Heimagarðurinn er í brekku á móti suðvestri. Heimtröðin er norðan hans.
Gamlir hleðslugarðar umlykja heimatúnið. Norðaustan í því eru garðar umhverfis matjurtargarð. Sunnan bæjarins, á klapparholti, er snyrtilega hlaðin tóft. Ekki er að sjá að tóftin hafi verið þekjuð eða notuð. Þó gæti hafa verið hlið í henni framanverðri. Þá gæti þana verið um að ræða „sýningarbás“ í vegghleðslu með grjótinu úr námunni, en í holtinu er steinnáma og þar hefur að öllum líkindum mest af grjótinu í skepnuhúsin og önnur hlaðin hús verið sótt. Stafaáletrun (EG eða EC) er á einum steini útihúsanna. Þess má geta að Eggert Norðdal Guðmundsson bjó í Elliðakoti frá þriggja ára aldri (fæddur í Landbroti 1866). Faðir hans fluttist síðan að Geithálsi, en Eggert að Hólmi eftir að hann kvæntist. Talið er að Eggert og Skúli, bróðir hans, hafi hlaðið steinveggina í Elliðakoti seint á 19. öld. Ættarnafnið Norðdal mun vera komið frá Hvammi í Norðurárdal.
Bærinn hefur staðið undir lágu hamrabelti. Ofan hans liggur gata um Miðdalsheiði, framhjá Selvatni og áfram upp með Lyklafelli, Draugatjörn og að Kolviðarhól annars vegar og hins vegar áleiðis að Grafningi við Þingvallavatn. Um er að ræða svonefnt nyrðra vegarstæði á þjóðleiðinni austur fyrir fjall, en deilur stóðu um það um 1880 á hvora leiðina ætti að leggja áherslu m.t.t. til samgöngubóta. Þessi leið var ákjósanlegri þar sem hún sneiddi ofan við Fóelluvötn og þær ófærur sem Sandskeiðið var.
Leifar kots Sólheimatjarnar eru norðvestar. Skammt austar eru þrjú stór grenitré. Við þau eru hluti skorsteins, nokkurs konar minnismerki um fólkið, sem þarna lifði og hrærðist. Vestan við Elliðakot, á grónum hæðóttum túnum, eru allnokkrar mun eldri minjar, a.m.k. gamall bæjarhóll með beðasléttum. Túnið er bókstaflega allt unnið þannig, eða svo til. Þetta var víst víða gert en svo sléttað aftur þegar tæki komu í stað handa. Mjög mikil vinna, allt með höndum. Menn töldu að það fengist meira hey af slíku, þ.e. að fermetrafjöldinn yrði meiri fyrir utan það skurðirnir á milli söfnuðu til sín vatni þannig að þurrara yrði. Slétturnar eru mót suðvestri. Skammt frá eru tóftir útihúsa, garðar o.fl. Rétt er að geta þess að eldra nafn á Elliðakoti var Helliskot og gætu þarna verið um að ræða tóftir þess bæjar.
Búið var í Elliðakoti fram til 1940. Brá þá síðasti bóndinn búi. Búið var þó í húsunum fram til 1948 eða 1949. Brunnu húsin þá og fór jörðin þar með endanlega í eyði.
Þegar farið er um þetta svæði er hvergi merkingar að sjá. Engar aðgengilegar upplýsingar er að fá um það. Í fornleifaskýrslum er einungis fjallað um vörður og einstaka tóft, en hvergi svo vitað sé um um býlin sjálf, fólkið og minjarnar. Svæðið í heild er mjög fallegt og ákjósanlegt til útivistar, en sagnfræðilega einangrað. Hvort það er af ásettu ráði eða ekki skal ósagt látið.
Fyrir ofan Lækjarbotna, liggur vegurinn um svo kallaða Fossvelli, er áin rennur yfir, og hefur hún þar oft gert usla. Svo liggur hann upp Lakheiði, en þar er ekki annað að óttast en þverrásir, sem stundum hafa orðið nokkuð dýrar. En þegar kemur upp undir Arnaþúfu, fer heldur að versna sagan. Þar liggur vegurinn á parti fram með ánum, fyrir sunnan neðri vötnin – svo er Fóelluvötnum skipt – enda flýtur hann þar burtu árlega, sem þó er enn verra, er kemur upp á Sandskeiðið. Þar má segja, að komi vatn úr hverri átt og það eigi lítið. Renna þar saman allar leysingakvíslir, er koma sunnan með öllum Bláfjöllum og hraunum og heiðum þar í kring, einnig með Vífilfelli að austan og norðan. Verður þá yfir allt Sandskeiðið og Fóelluvötnin einn hafsjór, enda sýndi það sig best, veturinn eftir að vegurinn var þar lagður, því þá gersópaðist hann svo burtu, að eftir voru kafhlaup, þar sem hann var áður. Síðan hefur þar ekki verið vegur lagður og var það hyggilegt. Að vísu er þar allgóður vegur í þurrkatíð um hásumarið, en fram eftir öllu vori er þar oft lítt fært.
Fyrir ofan Sandskeiðið taka öldurnar við og er þar ekki slæmt vegstæði í sjálfu sér, en þar er svo mikið aðrennsli, sunnan úr Sauðadölum og fjöllum þar í grennd, að vegurinn hefur orðið þar fyrir miklum áföllum og er nú svo eyðilagður, að víða er hann verri en enginn vegur. En síðast og ekki síst kemur Svínahraun, er staðið hefur eins og „þrándur í götu“ fyrir allri vegasmíð á þessari suður-vegsleið, með alla sína lögnu og flóknu vegargerðasögu, er væri nóg í stóra bók, og verður henni því sleppt hér.
Í fáum orðum sagt, virðist vegurinn frá Hólmi upp að Kolviðarhól vera lagður um þær verstu torfærur, er voru á þessari leið og er það hrapalegt, um hinn fjölfarnasta veg upp frá sjálfum höfuðstaðnum. Þetta sýnist nú því verra, þar eð fenginn var útlendur vegfræðingur til að leggja veginn, en ætli hann hafi eða verið þá skipað að skoða, hvort ekki væri hentugra vegstæði á öðrum stað, en eitt má telja víst, að hefði vegurinn verið fyrst lagður frá Reykjavík, að þá hefði aldrei verið farið með hann suður fyrir ár, og upp í Fóelluvötn, sem nú er líka dálaglegur krókur.
Hér skal því benda á, hvar vegurinn hefði átt að liggja, eða öllu heldur, hvar hann nú ætti að leggjast, því ótrúlegt er að hann, þar, sem hann nú er líti dagsljós tuttugustu aldarinnar, og það því heldur, sem við nú höfum vegfræðing við hendina, og erum búnir að fá dálitla reynslu í vegasmíði.
Nyrðri leiðin hefur af sumum hefur verið álitin betri til vegalagningar, enda er þeim óðum að fjölga, er sannfærast um, að þar hefði hann orðið að mun styttri, ódýrari og varanlegri, því á leiðinni frá Árbæ og upp að Húsmúla, eru bara tvær leysingavatns-rásir og lækurinn milli Vilborgarkost og Elliðakots, er bæði væri hægt að brúa, og eins að fara fyrir upptök hans, ef það þætti betra, en það mætti með því móti að skilja ekki suðurveginn frá Mosfellsheiðarveginum fyr en fyrir ofan Sólheimatjörn.
Leysingarásirnar eru, önnur fyrir vestan Lyklafell, sem sjaldan rennur og þá örlítil, en hin fyrir austan fellið og er hún nokkuð meiri, en þó hverfandi á móti öllu því vatni, er kemur úr suðurfjallinu, er nú stendur mest hætta af, hvað veginn áhrærir. Að nyrðri leiðin sé styttri, getur hver meðalgreindur maður séð og þó ekki sé mælingafróður, því frá Árbæ upp í Hellisskarð, er línan hér um bil um Elliðakot, Lyklafell og norðan til á öldunum, en bein lína milli tveggja punkta er þó stysti vegur.
Lagt var til að þingið léti vegfr. Sigurð Thoroddsen rannsaka vegarstæði á nyrðri leiðinni, áður en veitt væri stórfé til viðgerðar suðurveginum enn á ný, því þó gert væri við hann all-rækilega þá er þó efri hlutinn í mesta óstandi, helst öldurnar, er ekki mundi veita af nokkrum þúsundum krónum til viðreisnar. Sumum þótti nú kannske nokkuð í ráðist, að hætta nú við suðurveginn, en slíkt er þó varla áhorfsmál, því þó búið sé að verja til hans allmiklu fé, þá er því þó alls ekki á glæ kastað. Fyrst hefur vegurinn verið til mikils hægðarauka og að öðru leyti hefur féð að mestu leyti runnið í hendur landsmanna sjálfra. En úr því við höfum ekki peninga til vegabóta, nema af skornum skammti, ætti þeim helst að vera varið þar, er traustast yrði með framtíðinni, en ekki fleygt út til eins fávíslegrar vegagerðar, eins og suðurvegurinn er, því á þeim stað, sem hann er nú, verður hann fyrr eða síðar dæmdur ófær.
Nátthagavatn er syðst, þá Selvatn (en vegarslóðinn ofan Elliðkots (Helliskots) liggur áleiðis að því, þá Krókatjörn, Nykurtjörn og Leirtjörn og loks Silungatjörn nyrst.
Í viðtölum við fólk í sumarbústað við Nátthagavatn kom fram að það teldi að vegurinn ofan við Elliðakot hafi verið gömul reiðleið austur fyrir fjall sem og að Grafningi að Þingvallavatni. Það gæti vel passað við legu gamla Þingvallavegarins, sem liggur skammt norðan nýja vegarins að Nesjavöllum.
Meira um svæðið á næstunni.
Frábært veður – sól og stilla. Ferðin um svæðið tók 1 klst og 1 mín.
Upplýsingarnar um vegagerðina eru m.a. fengnar af
http://www.vegag.is/vefur