Færslur

Breiðabás

Farið var að Breiðabás austan við Herdísarvík og leitað hellisops, sem Einar skáld Benediktsson hafði fyrrum lýst á þeim slóðum. Sagði hann í lýsingu sinni af hellinum að hann hefði náð úr Breiðasbás upp í mitt Mosaskarð, en þangað er vel á annan kílómeter. Vitað er um menn, sem villst höfðu inni í hellinum, en hann mun vera margarma og erfitt að rata inni í honum. Um er að ræða afhelli innan af hinum eiginlega Breiðabáshelli, stórum fjárhelli, sem lengi var notaður frá Herdísarvík.

Fornugata

Fornugata.

Í viðtali Jóhanns Davíðssonar við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík árið 2004 kom eftirfarandi fram um Breiðabáshelli: “Í Breiðabás var mikill sölvareki. Svo komum við að þessum stóra helli. Mig langaði til að fara inn í þennan tigna hellir. Gísli var í opinu í stóra hellinum og ég fór inn hellirinn, langaði að sjá hve hann næði langt þegar ég var kominn inn. Ég var ekki með ljós. Þegar ég var kominn langt inn, komu þrengsli, ég fór yfir þau, þá kom hellir til vinstri og annar lítill til hægri. Þá sá ég að ég var orðinn snarvilltur, ætlaði að finna leiðina til baka, en fann ekki, sá gat og gat skriðið þar upp, mjög þröngt. Ef ég hefði haft vasaljós hefði ég getað haldið áfram að skoða þetta betur. En þarna var bara svarta myrkur.

Breiðabás

Í Breiðabás

Þarna getur verið voðalegur hellir og stækkað er innar var komið. Þótt svona þrengsli væru þegar að var komið gæti verið víður hellir innar. Það veit enginn. Hægt væri að skoða þetta með góðum ljósum. Sárt að sjá að hellirinn er nú kominn í kampinn því þetta var góður hellir. Hann tók þrjú til fjögur hundruð fjár. Hann var meira en manngengur, en þegar inn var komið fór hann að þrengjast…, það komu svona göng…skosnur sitt á hvað.. þegar ég fór yfir þrengsin komu þar hellirar.. Það kom einhver smá skíma og þar fór ég upp, annars hefði ég orðið innlyksa.
Gísli var náttúrulega til frásagnar að ég fór inn í hann. Það hefði verið hægt að leita með ljósi því vasalljós voru komin þá – og kerti, en það var svo mikill dragsúgur í hessum hellirum.

Sjá einnig viðtal og ferð með bróður Eggert í Stakkavík, Þorkeli Kristmundssyni.

Breiðabás

Í Breiðabás.

Ofan við opið á Breiðabáshelli, sem nú er komið undir háan sjávarkampinn, sést í fjárgötuna niður að opinu. FERLIRsfélögum í félagi við Hellarannsóknarfélagsmenn hafa komist undir hraunið þar sem yfirborðsrásir liggja þvers og kurs innundir, en ekki hefur enn tekist að finna leiðina að hinni löngu rás, ef frásögnin um hana er þá sönn. Vonir eru bundnar við það að eitthvert þungavinnutækið við lagningu Suðurstrandarvegar muni óvart dumpa niður í rásina þegar þar að kemur.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Þrátt fyrir nokkra leit að þessu sinni komust leiðangursmenn ekki lengra en inn undir hraunið á nokkrum stöðum – en hvergi niður í rásina.

Þá var haldið í kaffi til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum. Þórarinn sýndi FERLIRsfélögum Fornagarð, sem var vörslugarður ofan við Selvog. Fornigarður (hét áður Strandargarður) lá frá Hlíðarvatni yfir að Nesi, um 5 km leið. Garðurinn var reistur fyrir árið 1200 og sést hann enn vel þrátt fyrir að sandurinn, sem hafði nær lagt byggðina í aun, hafi fokið vel að honum á köflum. Bæði sést móta fyrir garðinum á Vogsósatúninu sem og á heiðinni ofan þess. Ætlunin er að ganga síðar eftir garðinum frá Vogsósum að Nesi (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Þórarinn vísaði á gömlu Vogsósagötuna frá Ósum að Háahrauni. Um er að ræða tvær götur, gömlu og nýju götuna, að sögn Þórarins. Báðar eru þær klappaðar í helluhraunið og sést gatan mjög vel svo til alla leiðina.

Hellugata

Hellugata (Fornagata) vestan Vogsósa.

Þarna hefur verið mikil umferð áður en gatan lokaðist af Háahrauni er það rann um árið 1320. Víða eru 10-15 cm djúp för langar leiðir í klöppina.Gatan, sem stundum hefur verið nefnd Hellisvörðugata (hún er vörðuð á sléttri hraunhellu er nefnd er Hellan) er tvískipt, sem fyrr segir, sú nýrri er nær sjónum, og kemur aftur fram vestan hraunsins uns hrauntunga fer yfir hana að nýju. Hún greinist varla þegar kemur að túnunum austan Herdísarvíkur, en gamli vegurinn í gegnum hraunið, á milli löngu fiskigarðanna, gæti hafa komið á hana. Skammt vestan Mölvíkurtjarnar greinist gatan, annars vegar að Mölvík (rekagata) og hins vegar áleiðis í spor núverandi þjóðvegar.
Þá lýsti Þórarinn Stakkavíkurhelli og er ætlunin að skoða hann síðar. Hann er vestan og uppi í Nátthagaskarði (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Frábært veður – Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.