Færslur

Garðhús

Í Morgunblaðinu 30. okt. 2021 er fjallað um “Alþýðustúlkuna sem varð greifaynja”. Það segir meira um frásegjandann en húsið þar sem alþýðustúlkan átti heima:
Húsið er steinbærinn nr. 9 við Bakkastíg í Reykjavík, nú við Lagargötu 2. Steinbærinn var friðaður af mennta- og menningarmálaráðherra 1. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis hússins.

Garðhús

Garðhús – upplýsingaskilti.

Steinbærinn Garðhús var byggður af Bjarna Oddssyni hafnsögumanni árið 1884 en áður stóð þarna torfbær með sama nafni. Bærinn taldist lengst af til Bakkastígs, enda lá sú gata áður framhjá húsinu og niður að sjó, og var raunar einnig kölluð Garðhúsastígur. Um tíma taldist húsið til Lagargötu en nýlega fékk það staðfangið Mýrargata 24.

Lóðin var mæld út úr Ánanaustalandi. Hliðaveggir bæjarins eru hlaðnir úr höggnum grásteini, en stafnar eru úr bindingi sem í er hlaðið múrsteini. Litlar breytingar hafa verið gerðar á steinbænum, þó viðbyggingar hafi verið byggðar við hann, þeim breytt og teknar niður.

Garðhús

Garðhús 1948.

Árið 1903 keyptu hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir Garðhús. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín ekkja hans áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm. Hún hafði m.a. aðstöðu til fiskþurrkunar og matjurtaræktunar á lóðinni og leigði út hluta af húseigninni. Tvö herbergi og eldhús með kolaeldavél voru niðri í bænum og þrjú herbergi á loftinu. Inngönguskúr var byggður við vesturhlið hússins árið 1923. Kristín bjó í Garðhúsum allt til um 1941 er hún seldi Hraðfrystistöðinni eignina.

Önnur hús sem byggð höfðu verið við bæinn, lágreist íbúðarhús úr timbri sem byggt var við norðurgafl hans í lok 19. aldar (Bakkastígur 9b) og skrifstofu- og geymsluhús úr timbri sem byggt var vestan við inngönguskúrinn árið 1942 (Bakkastígur 9a), voru rifin fyrir um 20 árum og endurbætur gerðar á gamla bænum. Bærinn sjálfur er mjög upprunalegur að gerð. Hann hefur eins og aðrir steinbæir í Reykjavík sérstakt menningar- og byggingarsögulegt gildi

Þuríður Dýrfinna

Þuríður Dýrfinna.

Bjarni starfaði sem hafnsögumaður og stundaði því ekki búskap og var því tómthúsmaður. Eiginkona Bjarna var Þuríður Eyjólfsdóttir. Hún þótti hinn mesti skörungur, stórgáfuð og mikill persónuleiki. Hún var vel að sér í íslenskum fræðum og kunni býsn af ljóðum. Hún safnaði ljóðabókum, sem hún batt inn í gott band. Undir hennar verndarvæng áttu skáld og menntamenn athvarf og því fór oft fram lífleg umræða í Garðhúsum þar sem bókleg mennt var í hávegum höfð og mikið lesið. Eftir að eiginmaður hennar lést flutti hún í viðbyggingu við Garðhús, einlyft timburhús. Það hús var rifið árið 1997.
Hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir keyptu Garðhús árið 1903. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm allt til áranna 1941-1942 þegar hún seldi Garðhúsaeignina.
Árið 1923 var búið að byggja inngönguskúr úr timbri við vesturhlið steinbæjarins.

Þurríður

Þurríður, lengst til vinstri í neðstu röð.

Tvær viðbyggingar voru við húsið, Bakkastígur 9a og 9b. Bakkastígur 9a stóð við vesturhlið hússins og var reist árið 1942.
Það var skrifstofu- og geymsluhús. Árið 1944 var virt undir br.nr. 264 í fyrsta sinn íbúðarhús við norðurgaflinn
(Bakkastígur 9b) og er stafl. b í virðingunni. Bakkastígur 9b var reistur í kringum 1896. Árið 1997 var óskað eftir leyfi til að
rífa viðbyggingarnar og lagðist Árbæjarsafn ekki gegn niðurrifi þeirra.
Árið 1942 var Garðhúsaeignin komin í eigu Hraðfrystistöðvarinnar hf. Það ár var byggt skrifstofu- og geymsluhús úr bindingi við vesturgafl steinbæjarins. Sú viðbygging var einnig rifin árið 1997. Nú eiga Faxaflóahafnir ehf. steinbæinn.
Bakkastígur var einnig nefndur Garðhúsastígur.
Árið 2002 hófust endurbætur á steinbænum.

Garðhús

Garðhús.

Garðhús tengjast íslenskri alþýðustúlku sem varð greifynja de Grimaldi, en sú saga er mörgum gleymd. Stúlkan hét Þuríður Þobjarnardóttir. Hún giftist Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó.

„Þuríður fæddist 30. október 1891 en hún missti föður sinn ung og var fyrir vikið alin upp hjá einstæðri móður og afa sínum og ömmu, sem öll bjuggu í Garðhúsum í Reykjavík. Húsið stendur enn og er friðað, en þau eru ekki mörg húsin hér á landi sem enn standa og eru beintengd við sögu kvenna. Þetta er stein­bær sem var sjómannshús við sjávarsíðuna og byggt í anda torfbæjanna. Garðhús voru alþýðuheimili en mikið menningarhús. Þuríður ólst upp við mjög menningarlegar aðstæður á alþýðuvísu en amma hennar og nafna, Þuríður Eyjólfsdóttir, var hafjór af fróðleik og áberandi í bæjarlífi á þessum tíma sem ein helsta menningarkona bæjarins. Í Garðhús sóttu skáld og þar þótti líf og fjör. Af þessu sést í hvaða umhverfi hin unga Þuríður elst upp og hún fékk að fara í Kvennaskólann, tók tvo bekki saman á einum vetri, 1911-1912.“

Garðhús

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin 1925, dánarár Þuríðar.

Þuríður hafði gott vald á tungumálum.
„Hún talaði dönsku, ensku og frönsku og hún starfaði um tíma í verslun á Búðum og í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugavegi. Eflaust hefur hún þurft að nota erlend tungumál í því sem hún sinnti fyrir þessi tvö fyrirtæki. Afi hennar var hafnsögumaður, en til að geta orðið slíkur í Reykjavík á þessum tíma þurftu menn að kunna hrafl í erlendum tungumálum, þeir þurftu að geta bjargað sér þegar erlend skip komu. Tungumál hafa því væntanlega ekki verið framandi í Garðhúsum, á æskuheimili Þuríðar.“

Þurríður

Morgunblaðið 23. ágúst 2005, bls. 9.

Sigrún seg­ir að þegar Þuríður var 29 ára hafi hún verið fengin til að starfa á Hótel Skjaldbreið, hið örlagaríka ár í lífi hennar fyrir hundrað árum, 1921.

„Þá var mikið að gerast í Reykjavík og fólk bjóst við erlendum ferðamönnum og þá veitti ekki af að hafa stúlku í móttöku hótelsins sem kunni erlend tungu­mál. Þar hitti hún markgreifann, Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó, ekkjumann sem var þrjátíu árum eldri og tilheyrði elstu kon­ung­s­ætt Evrópu. Sagt er að hann hafi verið mjög háttprúður og stórgáfaður maður, hafi meðal annars haft þrettán tungumál á valdi sínu, en hann var mál­vís­indamaður og lagði meðal annars stund á norræn mál og talaði og skrifaði íslensku. Henri hafði kynnst Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði þegar hann var í Sorbonnehá­skóla í Frakklandi og fyrir hvatningu hans kom Henri til Íslands. Væntanlega hefur verið stórkostleg uppgötvun fyrir greifann að hitta fyrir á Hót­el Skjald­breið hana Þuríði, unga glæsilega reykvíska stúlku, sem var vel að sér í bókmenntum og menningu. Hún hafði gott menningarlegt nesti úr Garðhúsum, þar sem skáld voru fastagestir og amman lifði í fornum riddarasögum. Sagt er að greifinn hafi hrifist af glæsileika, menntun og háttvísi Þuríðar. Hann gisti á hótelinu og svo getum við í eyðurnar. Þetta er mikið ástarævintýri þar sem erlendur stórefnaður konungborinn greifi og alþýðustúlka á Íslandi verða ástfangin við upphaf tuttugustu aldar.“

Garðhús

Garðhús.

Þuríður sigldi með Gullfossi af landi brott með greifanum 23. október 1921, fyrir um 100 árum.
„Þau sigldu héðan með Gullfossi til Kaupmannahafnar og kannski hélt hún upp á þrítugsafmælið um borð í Gullfossi. Þau fóru svo frá Kaupmannahöfn til Hamborgar, þaðan til Parísar og að lokum til Lissabon þar sem greifinn bjó. Þeim auðnaðist því miður ekki að vera samvistum nema í fjögur ár og eignuðust engin börn, en Þuríður dó úr berklum í Brussel árið 1925, þá tæplega 34 ára. Hún hefur mögulega borið berklana með sér héðan frá Íslandi, því það var þó nokkuð um berkla í hennar móðurætt.“
„Þuríður skrifaði bréf heim til Íslands til vinkonu sinnar Ragnhildar Sigurðardóttur, öll þessi fjögur ár sem hún bjó erlendis. Fyrsta bréfið skrifaði hún rétt rúm­um mánuði eftir að hún fór héðan. Þar kemur fram að með þeim er ung stúlka, Gunnlaug Briem, 19 ára dóttir Valdimars Briem prests, en það voru tengsl á milli fjölskyldnanna. Gunnlaug var hjá þeim í Lissabon í heilt ár og Auður Finnbogadóttir, systurdóttir Þuríðar, kom eftir það og var líka ár hjá þeim sér til heilsubótar. Greifinn vildi gjarnan að Þuríður hefði íslenska konu sér til félagsskapar, til halds og trausts,“ segir Sigrún og bætir við að deilur hafi verið í fjölskyldu greifans um hver væri rétti prinsinn af Mónakó.

Garðhús

Garðhús.

„Um þetta skrifar Þuríður í einu bréfanna og þar segir orðrétt: „Hann er voða ríkur maður og það er gremjulegt að sjá allt hans skraut og auðæfi sem eru í kringum hann og hann á alls engan rétt á að hafa. Ekki svo að skilja að það sé leiðinlegt fyrir mig, því ef greifinn væri í rétti sínum að vera prins af Mónakó, væri ég að öllum líkindum ekki gift honum, sem í raun og veru er stórt lán fyrir mig, ekki satt.“

„Hún var alltaf að vonast til að komast aftur til Íslands í heimsókn. Í einu bréfinu segist hún því miður ekki komast það sumarið, því hún þurfi að fara á heilsuhæli í Belgíu. Hún segist vera mikið innan um hefðarfólk í fínum húsum, en að hana langi meira til að vera samvistum við alþýðufólk. Í einu bréfinu segir hún orðrétt: „Mikið vildi ég heldur vera í einhverju húsinu í Reykjavík.“

Íslensk kona í Íslendingafélaginu í Brussel, Guðrún Högnadóttir Ansiau, htók sig til og fór að grafast fyrir um líf Þuríðar eftir að hún fluttist út.
„Hún heimsótti ættingja greifans og hefur fengið margskonar upplýsingar frá Grimaldiættinni. Guðrún hefur lagt mikið á sig við þessa vinnu og hún hafði einnig uppi á legsteini Þuríðar þar sem hún er jarðsett í Brussel, undir kórónu Grimaldiættarinnar. Guðrún heillaðist af sögu Þuríðar og hefur annast um grafreit hennar af stakri prýði.“

Garðhús

Garðhús.

Á legsteini í Brussel í Belgíu er legsteinn og á honum er skjaldarmerki Grimaldi aðalsættarinnar, en undir hvílir greifynjan Þuríður Marquise de Grimaldi d´ Antibes et de Cagne. Í áletrunina er mörkuð sagan hennar.

Þuríður fæddist 30. október 1891 í Garðhúsum við Bakkastíg í Reykjavík; dóttir Guðbjargar Bjarnadóttur og Þorbjarnar Jónassonar. Þuríður þótti snemma efnileg stúlka og hneigð til bókar. Fer þó fáum sögum af uppvexti hennar fram til 1911, en þann vetur tók hún tvo efstu bekki Kvennaskólans og lauk prófi þaðan vorið 1912. Starfaði hún síðan ýmist við verslunarstörf eða kennslu og nýttist þar vel óvenjuleg hæfni hennar til að nema tungumál, einkum dönsku og ensku. Á sumrin dvaldi hún einatt við sveitastörf.

Sumarið 1921, þá er Þuríður stóð á þrítugu, brá hún út af föstum vana um störf í sveit, réði sig á Hótel Skjaldbreið, og varð fljótt altalandi á frönsku. Á hótelinu dvöldu oft útlendingar og kom í hlut Þuríðar að annast samskipti við þá. Meðal hótelgesta þetta sumar var markgreifinn Henri Charles Raoul Marquis de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, stóreignamaður í Lissabon, afsprengi elstu konungsættar í Evrópu og náinn ættingi þjóðhöfðingjans í Mónakó. Greifinn, sem þá var liðlega sextugur ekkjumaður, heillaðist mjög af hinni ungu íslensku konu, glæsileik hennar, menntun og háttvísi. Var sú hrifning gagnkvæm, þótt aldursmunur væri vissulega mikill. Fór enda svo að Þuríður hét honum eiginorði, eftir mikil heilabrot, en hjúskapur við greifann boðaði gríðarleg umskipti í lífi hennar. Var hið lúthersk/kaþólska par gefið saman við borgaralega vígslu í Reykjavík 15. október 1921 og viku síðar veitt kirkjuleg vígsla í Landakotskirkju.

Garðhús

Brúðkaupið hlaut mikla umfjöllun reykvískra blaðamanna, enda fátítt að svo tignir menn sem markgreifinn heiðruðu höfuðstað Íslands með nærveru sinni, hvað þá að þeir kvæntust dætrum þjóðarinnar. Var annars lítið vitað um þennan tigna gest og ærið örðugt um heimildaöflun, ólíkt því sem nú er. Samtímaheimildir geta þess þó að hér hafi verið á ferð einstakt prúðmenni, víðförull, afburðagreindur og vel menntaður, sérlega mikill tungumálamaður og mikill áhugamaður um norræn fræði og kveðskap. Er hermt, að greifinn hafi verið talandi á 13 tungumál. Þess er og getið að greifinn hefði kynnst Guðmundi Finnbogasyni, dr. phil síðar landsbókaverði, þegar sá síðarnefndi var við nám í París um 1910 og hann kennt greifanum íslensku, enda hugur greifans staðið til þess að geta lesið hin fornu kvæði á frummálinu. Fór enda svo að greifinn náði góðu valdi á íslensku innan fárra ára og ritaði hana sem íslenskur væri. Liggja eftir greifann allmörg bréf þessu til staðfestu, sem hann sendi vinum og ættingjum Þuríðar greifynju, hið síðasta 11. maí 1940, skömmu fyrir andlát hans 10. desember sama ár.

Sunnudaginn 23. október 1921 lét Gullfoss úr höfn í Reykjavík, og með skipinu hin nýbökuðu hjón. Þuríður kvaddi föðurlandið íklædd dökkblárri dragt og ljósri blússu, með lítinn rósavönd í hendi; grönn og teinrétt, en alvörugefin á svip. Með í för var 19 ára snót, Gunnlaug Briem, sem greifinn hafði boðið henni að taka með sér til samfylgdar og samneytis á nýju heimili í Portúgal. Hefur Þuríði vart grunað, þá er Esjan hvarf henni sjónum, að hún myndi aldrei aftur fjallið líta.

Garðhús
Greifahjónin hófu búskap sinn í Lissabon, en þar hafði Henri greifi mikil umsvif, og undi Þuríður hag sínum vel. Var haft á orði, að einkennilegt þætti að greifynjan kynni bæði að baka smákökur og sauma kjóla, og hún spurð af ráðskonu sinni hvort hún hefði lært til slíkra verka sökum fátæktar á Íslandi. Má ætla, að dugur íslenskra kvenna hafi þá enn ekki borist mikið út fyrir landsteina. Vorið 1922 sneri Gunnlaug heim til Íslands og í hennar stað kom til hjónanna Auður Finnbogadóttir systurdóttir Þuríðar. Hafði þá harðnað mjög á dalnum sökum byltingar og síðar kreppu í Portúgal og greifahjónin misst lungann af eignum sínum. Lýsir Þuríður ástandinu glöggt í bréfum til góðvinar síns, sr. Friðriks Friðrikssonar; hefur helst áhyggjur af lasleika eiginmanns síns, en er æðrulaus um eigin krankleika, svo sem kvenna er gjarnan siður. Haustið 1923 fluttu greifahjónin til Frakklands, síðan til Spa í Belgíu, og þaðan aftur til Lissabon, áður en þau settust að í Brussel vorið 1925, við Avenue Montjoise í Uccle. Sama vor sneri Auður heim til Íslands og stóð til að greifahjónin myndu fylgja á eftir í kynnisför um landið, en þau höfðu yndi af því að ferðast og höfðu víða farið á hjúskaparárunum. En af Íslandsför varð ekki; Þuríður veiktist, líklega af berklum, sem voru tíðir í móðurætt hennar. Dvaldist hún síðan ýmist á heilsuhælum í Spa eða Brussel, uns hún lést 10. október 1925, aðeins 34 ára. Til eru bréf frá margreifanum til Auðar Finnbogadóttur, þar sem hann skýrir frá veikindum og síðar andláti konu sinnar og eru þau öll á vandaðri íslensku. Sá er þetta skrifar hefur lesið umrædd bréf, en af þeim er einsætt að greifinn hafi unnað Þuríði heitt og að sorgin yfir missi hennar hafi fylgt honum til æviloka. Segir þannig í bréfi 23. ágúst 1939 að greifinn sé „kraftlítill, gamall og sorgbitinn“ og skömmu síðar ritar hann að stríð sé að skella á og að nú vildi hann öllu helst vera búsettur á Íslandi, en hafi því miður ekki lengur fjárráð til. Minningu eiginkonu sinnar heiðraði greifinn með því að reisa veglegt minnismerki á gröf hennar og þar hvíla nú hjónin hlið við hlið.

Þuríður

Leiði Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne.

Víkur þá sögunni að Guðrúnu og Charles Ansiau, sem varið hafa ómældum tíma í að grafast fyrir um lífshlaup greifynjunnar og koma í veg fyrir að hjúpur gleymskunnar leggist yfir hið ljúfsára ævintýri hennar á erlendri grund. Er þeim rannsóknum hvergi nærri lokið, en við þær hafa Ansiau hjónin kynnst ættmennum markgreifans í Bretlandi, Frakklandi og Mónakó, sem deilt hafa sama eldmóði við að upplýsa um líf greifahjónanna. Meðal þess sem komið hefur í ljós er að markgreifinn var afabróðir Alberts Grimaldi fursta af Mónakó frá 1889-1922, en sonarsonur furstans var enginn annar en Rainier III, sá hinn sami og kvæntist leikonunni Grace Kelly 1956. Komið hefur og í ljós að markgreifinn hafi átt erfðarétt til furstadæmisins í Mónakó, en afsalað honum til yngri bróður síns, svo hann gæti helgað sig fræðistörfum í stað þess að annast um rekstur hins þjóðrekna spilavítis. Má því segja að brennandi áhugi markgreifans á Íslandi og íslenskri menningu hafi komið í veg fyrir að við eignuðumst okkar eigin furstaynju á borð við Grace Kelly.

Íslandsfélagið í Belgíu hyggst á vormánuðum 2013 heiðra minningu Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, með því að boða til gönguferðar í kirkjugarðinn sem hún hvílir í, og munu félagsmenn njóta þar leiðsagnar hinna ágætu Ansiau hjóna. Er aldrei að vita nema hjónin verði þá búin að komast að því sem enn er sveipað dulúð, nefnilega hver eða hverjir leggi enn fersk blóm á grafreit greifynjunnar íslensku.

Heimildir:
-Jónas Jóhannsson forseti Íslandsfélagsins í Belgíu, Brussel, 9. janúar 2013.
-Björg Einarsdóttir, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II, Rvík 1984.
-Björg Einarsdóttir, Grimaldi Greifafrú, Húsfreyjan, Rvík, október-desember 1984, 4. tbl., 35. árg.
-Samtöl við Guðrúnu Ansiau og lestur bréfa greifahjónanna
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/10/30/althydustulkan_sem_vard_greifynja/

Garðhús

Garðhús, byggt 1884.