Tag Archive for: Herdísarvík

Stóra-Eldborg

Í Krýsuvíkurlandi, skammt ofan Kerlingahvamms undir Geitahlíð, eru þrjár dysjar, ýmist nefndar Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu ofan Kerlingahvamms. FERLIRsfélagar mættir á vettvang.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) er dysjanna getið sem og leiðina að þeim frá Krýsuvík: „Alfaraleið austur á allbreiða mela ofan Bleiksmýrar. Þar nefndust Breiðgötur. Er austar dregur liggja þær alveg neðst við Geitahlíðarskriður.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg. Deildarháls er ofan hennar.

Hér blasir Eldborgin við Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar.

Dysjar Herdísar og krýsu

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans neðst í Kerlingadal.

Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir. Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur.“

Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar segir:

Herdís og Krýsa

Kerlingadysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu, auk smalans fremst. Þjóðleiðin lá milli dysjar smalans og kerlinganna.

Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.

Dysjar

Dysjar Herdísar og Krýsu við götuna um Kerlingadal.

Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. –

Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu. Eldborg fjær. Hér má sjá friðlýsingarskilti, sem nú er horfið.

Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.

Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.

Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn undir Búrkletti.

Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.“

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Seltún

Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um „Krýsuvík„:

„Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna pess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig að minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.

Þórður Jónsson

Þórður Jónsson frá Eyrarbakka.

Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka. Árið 1861 segir hann þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Guðmundur fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík.
Búandi Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.
Á heimajörðinni Krýsuvík: Stóra-Nýjabæ, Litla-Nýjabæ, Norðurkoti, Suðurkoti, Arnarfelli og Fitjum. Í Vigdísarvöllum 2 búendur. Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot. Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurengjar.

Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð — fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.
Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrirsauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð. Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.

Krýsuvík

Brennisteinsnámurnar ofan Seltúns í Krýsuvík. Kleifarvatn fjær.

Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu bnennisteinsnámur í Krýsuvík, ogvar brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu pá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
Krýsuvíkurkirkja
Í Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og messaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.
Fyrr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um í Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.

Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.
Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum.

Guðmundur Ísleifsson

Hjónin Guðmundur Ísleifsson, útvegsbóndi og kaupmaður, og Sigríður Þorleifsdóttir, húsfreyja, Stóru-Háeyri á Eyrarbakka, ásamt börnum sínum.

En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri“ hina.
Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið.

Hellugata

Forn gata um hraunhelluna við Herdísarvík.

Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdísarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum,

Kapelluhraun

Ferðamaður á leið um Kapelluhraun.

Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stiga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa, En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breytingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við blíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.

Krýsuvík

Fólk framan við Nýjabæ í Krýsuvík um 1930.

Mér, sem þetta ritar, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhrið þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Þá bjó í Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kend verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka staði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar — atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargleg verða eins haldgóð til að viðhalda karlmensku og hreysti í búskapnum í Krýsuvík, skal ósagt látið.

Krýsuvík

Krýsuvík 1909.

Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.“ – Þórður Jónsson.

Heimild:
-Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um Krýsuvík.
Krýsuvík

Surtla

Á Tilraunastöðinni á Keldum hangir allmerkilegur kindahaus upp á vegg. Þessi dökkbrúni tvíhorna haus tengist að mörgu leyti Herdísarvík. Augun kveða skýrt á um viðhorf skepnunnar til þeirra atburða er hún upplifði á síðustu mínútum ævinnar. Þau segja meira en fjölmörg orð um hana Surtlu. En hérna koma þó fáein þeirra.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Vegna mæðiveikinnar 1951-52 var ákveðið að Suðurland yrði fjárlaust eitt ár til að koma í veg fyrir smit við fjárskiptin. Hver kind varð því að nást af fjalli. Á Reykjanesskaga var hins vegar svört ær, Surtla, kennd við Herdísarvík. Neitaði hún með öllu að láta góma sig. Lamb hennar náðist fljótlega en eftir fjölmargar ferðir til að ná Surtlu í hús var hún enn á fjalli. Var þá sett fé til höfuðs Surtlu. Hópur manna leitaði og elti Herdísarvíkur-Surtlu laugardaginn 31. ágúst 1952. Hlupu þeir fram og aftur um Herdísarvíkurhraun í ævintýralegum eltingaleik við Surtlu á sjöttu klukkustund, og leikurinn hefði getað staðið lengur. Jón Kristgeirsson hefur lýst síðustu augnablikum Herdísarvíkur-Surtlu í Lesbók Morgunblaðsins:

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

„Þetta var væn kind og falleg. Andlitið mikið og frítt og sérstaklega gáfulegt.
Þegar hér var komið sögu, myndaðist allt í einu nýtt og óvænt viðhorf í málinu. Þá bar að fjóra menn, vopnaða byssum, neðan frá undirlendinu, þrjá úr Reykjavík og einn úr Sandgerði. Svall þeim veiðibræði mjög í huga, er þeir sáu ána. Einn var svo óðfús að skjóta, að hann gáði þess ekki, að þegar hann miðaði á ána, þá hafði hann Hákon líka í sigti.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Hallgrímur benti honum á þetta og bað hann blessaðan að skjóta ekki bróður sinn. Lét þá skyttan byssuna falla. Hákon ávarpaði aðkomumenn og bað þess að ærin væri ekki skotin. En orð hans báru sama árangur og orð Snorra forðum, er hann sagði í Reykholti: „Eigi skal höggva.“ Skotin gullu við hvert af öðru. Lokst tókst Sigurgeiri Stefánssyni að fella hana í þriðja skoti. Var það, sem betur fór, eina skotið, sem hæfði.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Alveg eins og Snorri, mest skáld Íslands um langan aldur, féll fyrir öxinni, þannig lá nú svarta sauðkindin, sem frægust hefur orðið allra íslenzkra sauðkinda, fallin fyrir kúlunni. Er það síðasti fulltrúi þess kynstofns á Suðvesturlandi, sem um aldaraðir var meginbjargvættur fólksins, og veitti því fæði, klæði, skæði, akur, fénað og öll gæði. Galt hún sín gjöld á sama hátt og ættingjar hennar og félagar gjörðu. Lét líf sitt til meintrar velfarnaðar mannkindinni.
Ég harma það, að skapadægur hennar urðu þessa stund og mér þykir miður, að ég skyldi verða þátttakandi í þessum örlögum hennar, enda þótt það hafi orðið án vilja míns.
Við Hákon lögðum nú af stað til hraunsins að leita fata okkar. Reyndist það torsótt, löng leið og seinfarin, þegar allur spenningur var horfinn. Myrkur datt nú óðum á. — Hraunið tók á sig allskonar undramyndir, sem við könnuðumst ekki við.“
Surtla var veginn á Brúnunum austan við Lyngskjöld.

Surtla

Surtla.

Eftir að fyrsta fréttin um Surtlu, „Svarta ærin á Reykjanesskaga var unnin s.l. laugardag“, birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 2. sept. varð hún tilefni til nokkurrar umfjöllunar. Þann 6. sept. skrifaði Kristín Sigfúsdóttir frá Syðri-Völlum um „Surtlu frá Herdísarvík“ og Sigurgeir Stefánsson endurtekur fyrri skrif Jóns Kristgeirssonar, kennara, í Morgunblaðinu 11. sept. og vitnar þá m.a. í frásagnir í útvarpi og skrif Jóns í Tímann um síðasta dag Surtlu. Þann 3. sept. hafði Ólafur Þorvaldsson skrifað í Morgunblaðið, bls. 6, þar sem eftirfarandi fyrirsögn var: „Þúsund ára gamall fjárstofn fallinn til síðustu kindar – Eftirmæli Herdísarvíkur-Sturlu“.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Í skrifum sínum 3. sept. segir Ólafur Sturlu hafa verið venjulega á, sem enginn hafði tekið eftir fyrr en hún varð sá einstæðingur er eftirsóttur varð – með næga ofsóknarmenn, sem gjarnan hefðu mátt vera færri. Ólafur hafði furðar sig á öllum þeim sögum, sem gengið höfðu um Sturlu frá því hún varð eftirlegukind á Reykjanesskaganum sem og eldtingarleik þeim er fóthvötustu smalar þar um kring höfðu átt við þessa undrakind. Og það var ekki fyrr en fé var sett til höfuðs henni að hún hún var felld samdægurs. Surtla hafi orðið svo dýr að fáar kindur hafi dýrari orðið í landinu – jafnvel óþarflega dýr. Og eitthvað hafi ferðalögin í kringum Surtlu kostað. „Já, það var orðið dýrt að smala í Herdísarvík“. Og nú er „hinn þúsund ára gamli fjárstofn á Reykjanesskagagnum fallinn til síðustu kindar“.

Mosaskarð

Í Mosaskarði á Herdísarvíkurfjalli.

Í fréttinni í MBL 3. sept., bls. 8, segir frá falli svörtu ærinnar á Reykjanesskaga eftir að til höfuðs henni höfðu verið lagðar tvö þúsund krónur: „Einhver harðgerasta og fótfráasta saukind, sem almenningur þessa lands hefur heyrt getið um var felld s.l. laugardag. Um eins árs skeið hefur Surtla, eins og hún var nefnd, verið eina sauðkindin á öllum Reykjanesskaga og hafði hún gert yfirmönnum fjárskiptanna svo heitt í hamsi, að lagðar höfðu verið 2000 krónur til höfuðs henni, lifandi eða dauðri…
Eftir að fjárhæðin hafði verið lögð til höfuðs Surtlu, fjölgaði þeim, er að henni leituðu. Eftir hádegi s.l. laugardag fóru m.a. fjórir menn, bræðurnir Hákon, Hallgrímur og Jón Kristgeirssynir, sem allir eru þaulvanir fjármenn, ásamt Ólafi Ólafssyni brunaverði og hugðust þeir reyna að ná Surtlu á lífi“. Síðan er frásögn þeirra félaga rakin líkt og að framan greinir. Surtla hljóp að lokum um snarbrattar Brúnirnar og var að kasta mæðinni þegar „Í kíki okkar sáum við á Surtlu, hélt Kristinn áfram, inni á milli kletta. Við Sigurgeir fórum þá upp á klettana. Ég var að vestanverðu við Surtlu, Sigurgeir að austanverðu. Er við höfðum komið okkur fyrir skaut Jóhannes í klettana rétt við bæli Surtlu. Hún tók á rás vestur eftir, sneri við austur á bóginn og lenti í fang Sigurgeirs, sem hæfði hana í þriðja skoti – Þannig endaði æfi þessarar harðgerðu svörtu saukindar. Hún var í þremur reifum“.

Herdísarvík

Mynd af Surtu greypt í Herdísarvíkurfjall.

Um „Surtlumálið“ sagði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík m.a. í viðtali við Ferlir (sjá Lýsingar; Stakkavík – með Eggerti Kristmundssyni), en hann var einn þeirra er ólst upp með henni á svæðinu: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.

Horfa þarf á framangreint með augum þess „mannlega“; veiðimanninum er bráðin eftirsóknarverð – og er þá jafnan ekki spurt um tilgang.

Heimildir m.a.:
-MBl. 3. sept. bls. 6 – Þúsund ára gamall fjárstofn fallinn til síðustu kindar – Ólafur Þorvaldsson.
-MBl. 3. sept. 1952, bls. 8 – Svarta ærin á Reykjanesskaga var unnin s.l. laugardag – frétt.
-Mbl. 6. sept. 1952 – Surtla frá Herdísarvík – Kristín Sigfúsdóttir.
-Mbl. 11. sept. 1952 – Herdísarvíkur-Surtla – Sigurgeir Stefánsson.
-Björn Hróarsson – „tilkynning“.

Surtla

Surtla á Keldum.

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um „Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

„Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.“

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog„.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni „Vanhugsað fálm„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar“, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg“ — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa“ á grundvelli misskilnings og „rannsóknar“, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels“, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður“ eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.“ – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, „Vanhugsað fálm“, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Embla

Í Emblu, 1. tbl. 01.01.1946, er „Ferðasaga Sigrúnar Gísladóttur frá Reykjavík í Selvog„:

Emla„Þegar ég var telpa austur á Eyrarbakka, heyrði ég oft sjómenn tala um, að þeir ætluðu áð skreppa út í Vog, það er Selvog, rétt eins og við börnin skruppum milli liúsa. Hafði ég því á tilfinningunni, að þetta væri afar auðvelt.
Svo fluttist ég til Reykjavíkur, og árin liðu, en aldrei komst ég í Selvoginn. Áætlun var gerð þangað á ári hverju, því að í Voginn vildi ég komast, þar sem hann var nú líka eina sveitin á Suðurlandi, sem ég hafði ekki komið í. Mig langaði líka að sjá Strandarkirkju, þetta Htla, einfalda guðshús, sem á orðið fúlgur fjár fyrir trú manna á kraft þess, og Vogsósa, þar sem séra Eiríkur hinn fjölkunnugi sat.
Því var það í júní 1940, að ég fekk tvær stallsystur mínar til að skreppa með mér austur í Vog. Við fórum úr Reykjavík um hádegi á laugardag með bíl að Kleifarvatni, gengum upp Lönguhlíð og tókum stefnu þaðan á Herdísarvík. En hvernig er annars Langahlíð, þegar upp er komið, fjallið, sem dregið er með langri, beinni línu og sker sig því svo sterklega úr öðrum fjöllum Reykjaness, sem öll eru eintómar strýtur og hnúkar með skörðum á milli, séð úr Reykjavík? Það var nógu gaman að kynnast því.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í norðanverðum Lönguhlíðum.

Þegar brúninni, sem við sjáum úr Reykjavík, sleppir, taka við mosaþembur, síðan talsverður gróður og víða yndisfagrir valllendisbollar með háfjallablómgresi. Fórum við því ekki óðslega að neinu. Veður var hið bezta, logn og sólskin. En nú fundum við, að þetta fjall er ekki einstakt í sjón, heldur líka í raun. Gróðurinn fer minnkandi, og nú tekur við hraun og aftur hraun, sem virðist alveg ógengt; svo stórgert er það.

Lönguhlíðar

Lönguhlíðar – Kerlingagil.

Eitt einkennir þennan stað sem fjall, að þaðan sér aðeins upp í himininn, og er því ekki hægt að átta sig á nokkrum hlut nema eftir korti og áttavita eða klukkunni og sólinni. Sjóndeildarhringurinn er ekkert nema hraun og þústir, hver annarri líkar. Frá norðurbrún, sem heitir Langahlíð, lækkar landið til austurs og hækkar svo aftur, svo að það er eins og maður sé niðri í skál. Við gengum upp á hæstu hraunstrýtuna og lituðumst um. Sáum við þá, að hraunið er lægst í miðju. Tókum við nú stóran krók á hala okkar til að leita að útgöngudyrum úr þessu völundarhúsi.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu við Litla-Kóngsfell.

Þegar við komum að þessari lægð, reyndist hún vera helluhraun, sem liggur, má segja, þvert yfir þessar ógöngur. Fréttum við síðar í Selvogi, að það er eina leiðin, sem fær er, þarna yfir. Þarna sáum við meira að segja slóða á hellunum á stöku stað eftir hesta, en þær eru nokkuð víða, þessar steinlögðu götur á Reykjanesfjallgarði. Þegar við komum að suðurbrún þessarar miklu hraunskálar, sáum við út á sjóinn, en fram undan hallar landinu, sem er hraunstraumur mikill, til suðurs. Er hraun það illt yfirferðar, — betra að vera vel skóaður í slíku gangfæri. Í þessum hraunstraumi sáum við einhvers konar dauf strik, sem reyndust vera gata. Var mikil hvíld að fylgja henni. Þessi gata, sem þarna liggur yfir hraunið, er sú elzta, sem við höfum séð á ferðum okkar.
EmblaÞessir gömlu götuslóðar tala sínu hljóða máli. Svipir horfinna kynslóða birtast og líða fram hjá. Sagan tekur á sig undarlega skýrar myndir. — Þarna hillir undir langa lest, langt niður frá. Þar er einhver stórbóndinn að fara með ullina, sem er þétt troðið í mislita hærupoka. — Niður hraunið að vestan kemur önnur. Á henni eru skreiðarbaggar svo stórir, að þá ber við loft. Eitthvað á nú að borða af þorskhausum á þessum bæ. — Þarna glittir í gyllta hnappa og skrautbúin reiðtygi. Danska valdið er að fara með fátækan bónda suður að Bessastöðum. Það á að dæma hann til fangelsisvistar á Brimarhólmi, af því að hann stal gamalli rollu til að seðja hungur barna sinna. — Sitthvað segja þessi gömlu spor. — Þarna kemur fólk á stangli — fótgangandi, hörmulega útleikið, með sár á fótum, þrútin augu og svartar tanngeiflur. Gömul kona er að þrotum komin; hún sezt við götuna og stynur mjög. — Þetta fólk er að koma frá eldunum, — Skaftáreldunum. Svona verka gömul spor kynslóðanna á vegfarandann, sem rekur þau.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Nú vorum við komnar niður á Selvogsheiði og höfðum gras undir fótum. Var þá ekki beðið boðanna að tylla sér og taka upp malinn. — Nú gerðust fæturnir viljugir, og var nú gengið rösklega. Ekki sáum við samt Selvog. Þarna eru götur, krossgötur. Við völdum þá, sem stefnir á Herdísarvík, fylgdum henni, þangað til hún hvarf í stórgerðan móa. Allt í einu stóðum við fram á svimhárri brún. Fyrir neðan okkur lá sjórinn og strandlengjan. Við sáum niður í Herdísarvík og bæinn, þar sem stórskáldið okkar, Einar Benediktsson, kvaddi þetta líf. Selvogur blasti við með hinu stóra, fallega Hlíðarvatni. Svo langt, sem augað eygði til hægri og vinstri, sáum við svartar hamrabrúnir. Hvernig áttum við, vængjalausar, að komast þarna niður?

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð.

Við komum auga á þráðbeint strik, sem náði milli fjalls og fjöru. Það gat hvorki verið gjá né gata; það hlaut að vera girðing, sem lögð var alla leið upp á fjallsbrún, annars gagnslaus sem vörn fyrir fé. Ákveðið var að reyna þar niðurgöngu, sem reyndist líka sú eina þar um slóðir. Þar hefur vatn brotið skarð í fjallið og myndað skriðu endur fyrir löngu. Er þar einstigi niður. Þar sem nú var orðið kvöldsett og áætlað var að komast að Nesi um kvöldið, gátum við ekki komið að Herdísarvík án þess að taka á okkur stóran krók, þar sem girðingin liggur langt fyrir austan víkina. Var því haldið áfram. Nú voru greiðar götur til bæja. Þarna er fallegur gróður, blóm og birki, móti sólu, í skjóli fjallsins, mikil hvíld fyrir augað frá hraununum, sem við höfðum gengið allan daginn.
Stakkavík er vestasti bær í Selvogi. Komum við þar og fengum mjólk. Var fóikið þar hlýlegt og gott. Hlíðarvatn liggur alveg að Stakkavík að vestan, og var nú freistandi að fá bát yfir vatnið, sem sparaði okkur 2—3 klst. göngu. Bóndinn átti trillubát, sem synir hans voru að tjarga þá um morguninn. Var hann því ekki vel þurr að innan, en velkominn okkur, ef við vildum þiggja hann í slíku ástandi, sem við og gerðum. En botnóttar urðum við býsna vel.

Vogsósar

Vogsósar.

Þá vorum við komnar að Vogsósum. Þar er ljómandi fallegt, — valllendisflatir, þegar túninu sleppir. Vatnið framan við bæinn rennur þar til sjávar gegnum ósinn, sem bærinn dregur nafn af.
Nú var miðnætti. Engin hreyfing sást á bænum. Sjálfsagt allir menn í fasta svefni. Svartbakur, ritur og kríur mynduðu hvítar breiður niðri á fjörunum. Endur syntu letilega með unga sína á vatninu, sem var purpuralitað frá endurskini sólarlagsins.

Vogsósar

Vogsósar.

Við gengum niður að sjónum. Það var fjara. Skerin, vafin sjávargróðri, náðu langt út í sjó og mynduðu spegilslétt lón á milli sín. Þar var æðarfuglinn og ú-aði hálfólundarlega yfir þessu ónæði svona um hánóttina. Þá dró það ekki úr fegurðinni, að máninn, sem var kominn nokkuð hátt á loft, speglaðist í lónunum. Allt var kyrrt. Náttúran tók á sig náðir. Í svona andrúmslofti gleymist stund og staður. Maður samlagast náttúrunni, leggst endilangur á sjávarbakkann og teygar að sér ilminn úr jörðinni og seltuna frá sjónum, nýtur þess að vera til. Við gengum í rólegheitum gegnum byggðina.

Selvogur

Selvogur – kvöld við Engilvík.

Að Nesi, sem er austasti bærinn, komum við á fimmta tímanum. Þar hugðumst við að fá leigða hesta hjá Guðmundi bónda upp að Hveragerði.
Urðum við nú að vekja upp, því að við þörfnuðumst hvíldar. Var okkur mjög vel tekið. Sofnuðum við fljótt og sváfum til kl. 9 um morguninn. Fórum við þá að fala hestana af Guðmundi, en það var ekki auðsótt mál, enda ástæða til. Þannig var ástatt, að sauðburður stóð yfir og því nýafstaðnar miklar smalamennskur, enda dreifðu ærnar sér um tún og hága með lömbin sín. Líka barst að mikill rekaviður vegna stríðsins, liestar því notaðir til liins ýtrasta við störfin. Samt var nú svo komið, að Guðmundur ætlaði að reiða okkur upp að Hrauni í Ölfusi.

Nes

Nes í Selvogi.

Á hlaðinu í Nesi voru kynstrin öll af rekaviði, sem staflað var upp í laupa. Hafði Guðmundur selt það allt til mæðiveikinefndar. Átti að senda bát eftir timbrinu í apríl-maí, en enginn hafði komið ennþá. Með þeim bát átti fólkið að fá nauðsynjar sínar úr kaupstaðnum. Var því víða orðið svo þröngt í búi, að til vandræða horfði. Skorti fólk marga hluti.

Nes

Nes árið 2000.

Húsmóðirin í Nesi átti eitthvað eftir af hrísgrjónum, svo að hún gat gefið okkur mjólkurgraut, svo og kjöt og slátur. Kaffikorn átti hún líka. Garðamatur var að þrotum kominn, því að það varð að ganga á hann, þegar mjölmatinn vantaði.
Fórum við stallsystur nú að skoða okkur um í Voginum, heimsóttum við einu manneskjuna, sem við þekktum þar, Margréti að nafni. Þótti henni hart að geta ekki gefið okkur kaffi, því að það var þrotið, og ekki þýddi að leita á náðir nágrannanna, því að alls staðar var sama sagan. Margrét var að elda sér kjötsúpu úr síðasta útákastinu, sem hún átti, og, sem meira var, síðasta kjötbitanum, svo að hún sagðist bara ekkert hafa að borða, þangað til báturinn kæmi með vörurnar. Ekki var að tala um að komast á sjóinn. Einn bátur sjófær, en engir menn til að róa, því að allur tíminn fór í að bjarga lömbunum.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Margrét fór með okkur út að Strandarkirkju og sýndi okkur hana. Er það ein snotrasta kirkja, sem ég hef komið í, mjög snyrtileg og vel við haldið. Einhver sérstök „stemning“ er í þessari kirkju. Ef til vill er það ímyndun vegna þjóðsögunnar um hana, og hversu vel hún verður við áheitum. Mikill og sterkur garður er nú hlaðinn henni til varnar, og virðist þess ekki vanþörf, því að satt að segja er það furðulegt, að hún skuli ekki fyrir löngu vera komin í sjóinn, svo nærri honum sem hún stendur.

Selvogur

Fornigarður í Selvogi.

Þessi varnargarður hefur líka varið landið frá eyðileggingu foksandsins, sem teygði sig inn eftir landinu og át upp gróðurinn, svo að þar, sem fyrir nokkrum árum sá ekki stingandi strá, eru nú gróðursælar valllendisflatir. Þegar við komum aftur heim að Nesi, færði Guðmundur okkur þau tíðindi, að hins langþráða báts væri nú loksins von upp úr hádegi þann sama dag. Var því alveg sjálfsagt að nota ferðina til Stokkseyrar, en þaðan var báturinn. Bæði var það fljótara og svo komumst við hjá því að níðast á veslings lúnu klárunum.
Eftir burtfarartíma bátsins frá Stokkseyri að dæma reiknaðist þeim í Selvogi svo til, að hann gæti farið þaðan um sex leytið e. h. þann dag. Með því móti átti okkur að heppnast að ná í síðustu áætlunarferð til Reykjavíkur.

Stokkseyri

Frá Stokkseyri.

Teitur Eyjólfsson, forstjóri Vinnuhælisins að Litla-Hrauni, hafði veg og vanda af þessari bátsferð. Þurftum við því að leita til hans með flutning á okkur. Teitur sló á glens, þegar við bárum upp bónorðið, sagðist hreínt ekki vita, hvernig það færi, þar sem við værum þrjár ungar stúlkur. Skipshöfnin væri nefnilega þrír ungir piltar. Formaðurinn væri reyndar talinn einn sá öruggasti á Stokkseyri, Ingimundur á Strönd. Hann sagðist ekki vita, nema þeir slepptu allri stjórn á bátnum og keyrðu í strand, ef þeir hefðu slíkan ágætis farm um borð! Ég hugsaði í símann: Það sér á, að síminn er ekki sjónvarp!

Stokkseyri

Frá Stokkseyri.

Tafir urðu svo miklar við útskipun í Voginum, að klukkan var orðin 2 um nóttina, þegar lagt var af stað þaðan. Við stúlkurnar áttum auðvitað „kojuvakt“. Við héldum eldinum við í „kabyssunni“, fengum okkur kaffi, sem var þar á könnunni, og létum fara vel um okkur.
Nú vorum við komin upp undir Stokkseyri. Var þá ekki orðið það hátt í, að við gætum flotið inn fyrir. Urðum við því að doka við. Settist þá öll „skipshöfnin“ að kaffidrykkju niðri í „lúkar“.
Var þar glatt á hjalla. Allt í einu tekur báturinn snarpan kipp. — Jú, við dinglum þar uppi á skeri. — Báturinn er kominn í strand! Það er yfirleitt ekki hlátursefni, þegar skip stranda á þessum slóð um, en í þetta sinn vakti það óskiptan hlátur skipshafnar og farþega vegna spár Teits forstjóra. Flóðið losaði um bátinn með hjálp vélarinnar, og allir björguðust vel í land. Til Reykjavíkur komumst við um hádegi á mánudag.“

Heimild:
-Embla, 1. tbl. 01.01.1946, Ferðasaga, Sigrún Gísladóttir, bls. 83-89.
Embla

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu árið 1957, fjallar Friðfinnur V. Stefánsson um „Guðlaugs þátt Gjáhúsa„.

Símtal
Friðfinnur V. Stefánsson„Það var kvöld eitt, ekki alls fyrir löngu, að til mín hringir blaðamaður og spyr, hvort ég sé fáanlegur til þess að skrifa smáþátt um minn gamla vin og kunningja, Guðlaug heitinn Gjáhúsa.
Ég tók þessu mjög illa. Taldi ég öll vandkvæði á því. Benti ég á, að frá því ég lauk prófi frá Flensborgarskóla 1911 hefði ég naumast snert penna. Hlutskipti mitt í lífinu hefði verið að handleika handbörukjálka, fisk, kola- og saltpoka, skóflur, hamra, múrskeiðar, beizlistauma og m. fl. Nei, það var svo fráleitt, að ætlast til þess að ég færi að skrifa minningaþátt. Það var jafn fráleitt og farið væri fram á það við mig, að ég reyndi að ná tíkinni margumtöluðu niður úr tunglinu. En blaðamaðurinn var ýtinn. Ég kvaddi hann samt snögglega og lagði símatólið á.

Vindás

Vindás í Hvolhreppi.

Síðar um kvöldið, þegar ég var háttaður, tókst mér ekki að sofna, hvernig sem ég reyndi. Ég var í huganum aftur og aftur kominn út í gamlan ævintýraheim. Við Guðlaugur vorum komnir á hestbak og þeystum um grænar grundir, fjöll og hálsa. Og þegar við áðum, sagði hann mér sögu eftir sögu af sinni alkunnu snilld. Þetta gekk langt fram á nótt. Loksins sofnaði ég. Daginn eftir, er hlé varð á störfum mínum, leitaði ég uppi blað og penna og byrjaði.

Inngangur

Guðlaugur

Guðlaugur Guðlaugsson (1874-1951).

Það er orðin næsta algeng venja að tala um, að hún eða hann hafi sett svip sinn á bæinn. Ég ætla nú að fylgja þessari venju og segja, að hafi nokkur maður sett svip sinn á Vesturbæinn í Hafnarfirði, þá var það Guðlaugur heitinn Gjáhúsa.
Guðlaugur var að mörgu leyti merkilegur maður og á ýmsan hátt dálítið sérstæður persónuleiki, sem allir hlutu að taka eftir, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var bæði greindur og minnugur.
En það í fari hans, sem sérstaklega heillaði mann, var hve snarráður, úrræðagóður, ósérhlífinn og fylginn sér hann var. Þó er einn ótalinn eðlisþáttur hans. Hann verður ógleymanlegur öllum þeim, sem kynntust honum. Hann bjó yfír alveg óvenjulega frjórri frásagnargáfu – og gleði. Mun ég nú reyna að lofa lesendum að kynnast henni ofurlítið, með því að endursegja nokkrar sögur og minni atburði, er hann sagði mér.

Uppvaxtarár
Eggert PálssonGuðlaugur var fæddur 26. ágúst 1874 að Vindási í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Ólst hann þar upp við kröpp kjör, eins og hlutskipti margra var í þá daga. Rétt fyrir fermingu, að mig minnir fastlega, missir hann föður sinn úr lungnabólgu og systkini sín þrjú úr barnaveiki, öll í sömu vikunni.
Ekki var þetta nú uppörvandi fyrir umkomulausan fermingardreng að leggja með þetta veganesi út í lífið. Þá var ekki margra kosta völ fyrir þá, sem enga áttu að. Einn og óstuddur varð hann að sjá sér farborða.
Fyrst var hann á bæjum í Fljótshlíðinni t. d. jarðskjálftaárið mikla 1896, þá rúmlega tvítugur að aldri. Hrundu þá bæjardyrnar á bæ þeim, er hann dvaldi á, svo að hann og annað heimilisfólk varð að skríða út um stafngluggann á baðstofunni. Aldrei gat Guðlaugur gleymt þessum atburði. — Þá var Guðlaugur einnig vinnumaður hjá síra Eggerti á Breiðabólsstað. Þann mann dáði Guðlaugur mikið.

Herdísarvík
HerdísarvíkBrátt tók Guðlaugur, eins og fleiri í þá daga, að fara suður til sjóróðra. Reri hann margar vertíðir, oftast í Grindavík. Kem ég betur að því síðar. Þá var alltaf farið um Selvog og Herdísarvík. í einni vertíðarferð kynntist Guðlaugur bóndanum í Herdísarvík, Þórarni Árnasyni, sýslumanns í Krýsuvík. Réðist Guðlaugur til hans og gerðist fjármaður hans, við mikinn og góðan orðstír. Hjá honum var hann í fimm ár. Þroskaðist hann þá mikið. Reyndi þarna oft á þrek hans í vondum veðrum við fjárgæzluna. í Herdísarvík var að mestu byggt á beit, bæði til fjöru og fjalls. Margan, kaldan vetrardaginn, þegar jarðbönn voru, stóð hann myrkranna á milli við ofanafmokstur til þess að féð næði að seðja mesta hungur sitt.
Síðar í þættinum mun ég víkja frekar að veru Guðlaugs, í Herdísarvík.

Ástin vaknar

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Guðlaugur varð, eins og aðrir fjármenn, að fara í útréttir. Haust nokkurt sendi Þórarinn bóndi hann í Gjáarrétt við Hafnarfjörð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Sá Þórarinn mikið eftir því, að hafa sent Guðlaug í þessa ferð. Hann vildi fyrir hvern mun halda í Guðlaug. En í þessari ferð gisti Guðlaugur á Setbergi. Þar sá hann mjög gjörvulega og myndarlega stúlku, Sigurbjörgu Sigvaldadóttur, sem síðar varð ævilangur förunautur hans. Þegar Guðlaugur kom heim úr réttarferðinni, leið ekki á löngu áður en hann sagði upp vistinni. Hvarf hann frá Herdísarvík, þegar ráðningartími hans var á enda.
Flutti hann þá að Setbergi við Hafnarfjörð og gerðist vinnumaður um skeið hjá Halldóri Halldórssyni, sem síðar var kenndur við Bergen í Hafnarfirði.

Til Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1905.

Flestum lífverum er frelsisþráin meðfædd. Svo er um okkur mennina. Brátt tóku þau Guðlaugur og Sigurbjörg að búa sig undir að verða sjálfstæð. Árið 1905 eða 1906 fluttu þau hjón til Hafnarfjarðar.

Víðistaðir

Víðistaðir – stakkstæðið.

Bjuggu þau fyrst á svonefndu Stakkstœði, þar sem Guðmundur á Hól, Eyjólfur frá Dröngum o. fl. bjuggu. Það lýsir Guðlaugi vel að undir eins á fyrsta ári byrjar hann á því að byggja hús þar við Vesturbraut, er hann síðar nefndi Gjáhús. Stendur það enn, sem kunnugt er. Þarna bjuggu þau hjónin alla tíð síðan, með mikilli prýði og myndarskap. Brátt fékk Guðlaugur gott orð á sig sem smiður.
Stundaði hann smíðar um margra ára skeið.

Djöflafélagið

Hafnarfjörður 1912

Hafnarfjörður 1912.

Um þessar mundir var lítið um félagssamtök í Hafnarfirði. Góðtemplarareglan var helzti félagsskapurinn. En um þetta leyti reyndu verkamenn í Hafnarfirði að stofna með sér félag. Guðlaugur tók þátt í því. Mig langar að segja frá smáatviki, sem henti Guðlaug. Lýsir það vel aldarandanum í þá daga.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Það var kvöld eitt, að Guðlaugur var á leið heim. Hann hafði verið á verkamannafélagsfundi. Hittist svo á, að atvinnurekandi nokkur og einn af betri borgurum bæjarins stóð á tröppum húss síns. Ávarpaði hann Guðlaug heldur hvatskeytislega með þessum orðum: „Ert þú genginn í þetta Djöflafélag, Guðlaugur?“
„Ef þú átt við verkamannafélagið, þá er ég genginn í það,“ svaraði Guðlaugur jafn snúðugt og hinn spurði. Hélt hann síðan áfram ferð sinni. — Guðlaugur vann hjá þessum manni.

Gjáhús

Gjáhús. Guðlaugur byggði lágreist hús að Merkurgötu 18 árið 1906 er síðar varð Vesturgata 16.

Næstu fjóra daga var hann ekki kvaddur til vinnu. En á fimmta degi var sent eftir honum og vinna tekin upp eins og ekkert hefði í skorizt. Svona var nú aldarandinn þá. Stingur þar mjög í stúf við öll elskulegheitin, sem atvinnurekendablöðin sýna launastéttunum nú og jafnvel hálaunastéttunum. En skylt finnst mér að taka fram, að fyrrnefndur atvinnurekandi og hans líkar voru ýmsum kostum búnir líka, þótt þeir væri kaldir og hrjúfir á stundum. Þeir áttu það til að lána fátækum mönnum bæði timbur og járn o. fl. til þess að þeir gætu byggt sér skýli yfir höfuðið, — og ábyrgðar- og rentulaust. Væntanleg vinna, ef heilsa og kraftar leyfðu, var eina tryggingin.

Vindmyllan

Vindmylla

Vindmylla.

Guðlaugur stundaði smíðar, eins og fyrr var sagt, í nokkur ár. Síðan breytti hann til og gerðist verkstjóri hjá Bookless Bros. Í þá daga var notuð vindmylla til þess að dæla sjó í þvottakerin. Skal nú sagt frá atburði, seni sýnir, að Guðlaugur var gæddur óvenjulegu hugrekki, snarræði og þreki, er í þessu tilfelli gekk ofdirfsku næst.
Guðlaugur var hvorki stór maður vexti né kraftalegur, en hann leyndi á sér. Þrekið og áræðið fór þó langt fram úr því, sem útlitið benti til. Það vissu þeir, sem með honum unnu. Andlitsdrættir Guðlaugs voru sterkir og fastmótaðir. Stundum fannst mér gæta nokkurs kulda í svipnum. Má vera, að harðrétti og óblíða unglingsáranna ætti þar nokkurn hlut að.
Það var einhverju sinni, að verið var að dæla sjó með vindmyllunni. Þá rauk hann skyndilega upp á norðan. Hvassviðrið jókst og myllan ærðist, ef svo mætti segja.

Hafnarfjörður

Athafnasvæði Bookless-bræðra í Hafnarfirði í kríngum 1913. Vindmyllan sést á myndinni.

Stórhætta var á að vængir myllunnar brotnuðu í spón, ef ekki tækist að stöðva hana. Nú voru góð róð dýr. Þarna voru margir karlmenn til staðar, en enginn treysti sér til þess að fara upp og freista þess að stöðva mylluna. Þá bar Guðlaug þarna að. Hann réðst þegar í stað til uppgöngu, en myllan stóð í turni á húsþakinu. Guðlaugur lét þrjá menn fylgja sér. Hann skipaði þeim að taka traustataki um taug, er bundin var í stél myllunnar. Áttu þeir að beina vængjum hennar undan vindi, ef ske kynni að hún hægði nokkuð á sér. Meðan þessu fór fram, tók Guðlaugur sér stöðu, hélt sér föstum með annarri hendi, en hina hafði hann lausa. Hugðist hann grípa með henni um einn vænginn, ef færi gæfist. Allt í einu rak fólkið, sem á horfði, upp skelfingaróp. Guðlaugur hafði gripið um vænginn. Við þetta missti hann fótanna, sveiflaðist nokkra stund í lausu lofti, en hvorugri hendinni sleppti hann. Það gerði gæfumuninn, — og vindmyllan stöðvaðist. Létti mjög yfir áhorfendum, þegar Guðlaugur hafði leyst þessa þrekraun af hendi.

Hlauparinn

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Áður en bílar komu til sögunnar notaði yngra fólkið helzt reiðhjól til þess að ferðast á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Dag nokkurn lagði einn snjall og kappsamur hjólreiðamaður, Ásgeir G. Stefánsson að nafni, á stað til Reykjavíkur. Er hann var kominn rétt upp fyrir bæinn, sér hann gangandi mann á undan sér. Hann þekkti manninn, sem var á leið til Reykjavíkur, kastar á hann kveðju, um leið og hann hjólar fram hjá honum. Heldur Ásgeir síðan áfram með sígandi hraða og horfir fram á veginn. Skömmu síðar verður hann þess var, að maðurinn, sem hann var nýbúinn að kveðja, er kominn á hæla honum og hleypur mjög léttilega. Ásgeir hjólaði alltaf greitt, og fylgdust þessir kappar að alla leið, til Reykjavíkur, þótt ótrúlegt megi virðast. Ekki var hlauparinn mæðnari en það, að þeir héldu uppi eðlilegum samræðum mikið af leiðinni.
HafnarfjörðurNú skyldi margur ætla, að hér væri á ferðinni Olympíufari eða hlaupasnillingur, sem þjálfaður er eftir kerfisbundnum reglum. Nei, þarna var á ferðinni sonur dalanna og íslenzku heiðanna, þjálfaður af nauðsyn í sjálfu lífsstarfinu, smali, nýfluttur til Hafnarfjarðar, Guðlaugur frá Gjáhúsum.
Mér þykir rétt að skjóta því hérna inn í, úr því að ég fór að minnast á hjólreiðamenn, að fleiri voru snjallir og kappsfullir en Ásgeir, t. d. Guðmundur Hróbjartsson, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þorbjörn Klemensson. Einu sinni lenti þeim Gunnlaugi og Þorbirni saman í geysiharðri keppni, og mátti varla milli sjá, hvor þeirra var á undan, þegar hetjurnar, móðar og másandi, náðu Hraunsholtsbeygjunni.
Guðmundur Hró og Ásgeir áttu það stundum til að skreppa austur yfir fjall á hjólum sínum seinni part laugardags, borða lax á Kolviðarhóli (þá voru allar rúður þar vel heilar) á austurleið, koma svo aftur heim til Hafnarfjarðar að sunnudagskveldi. Brást þó aldrei, að þeir voru mættir til vinnu í bítið á mánudagsmorgni. En þetta var nú útúrdúr. —

Nautið
Vindás
Nú bregðum við okkur, lesandi góður, austur á æskustöðvar Guðlaugs.
Það var einn dag um hásumarið í góðu veðri, að Guðlaugur fór fram á heiði til þess að huga að hestum. Þarna var vel grösugt en allstórir steinar á víð og dreif. Allt í einu tekur Guðlaugur eftir því, að heljarmikið naut stendur fyrir framan hann. Hefur það sennilega legið á bak við einn stóra steininn. Nautið rekur upp öskur mikið, tekur undir sig stökk og stefnir beint á Guðlaug.

Setberg

Setberg um 1986 – fjósið.

Drengurinn tekur til fótanna, stekkur að stærsta steininum þarna og kemst með naumindum upp á hann. Nautið skellir framfótunum upp á steininn og öskrar ógurlega. Drengurinn getur þó varizt og er hólpinn í bili. Nú var Guðlaugur staddur í ærnum vanda. Aleinn, svangur, hræddur og langt frá mannabyggðum. Við fætur hans stóð dauðinn í nautslíki. Nautið hafði nóg gras að bíta. Það gat því beðið endalaust eftir bráð sinni. En lesandi góður: Eftir nokkra stund var ungi drengurinn búinn að leysa þessa heljarþraut, sloppinn úr allri lífshættu og kominn heim á leið.
Hann hafði stungið hendi í vasa sinn, opnað vasahnífinn, stóð þarna allvígalegur á steininum og engdi nautið óspart, en það teygði fram hausinn og reyndi öskrandi að ná til drengsins. Leiftursnöggt brá litli drengurinn hnífi sínum og rak hann á kaf í annað auga dýrsins. Nautið rak upp feiknarlegt öskur, hentist af stað út í buskann, eins langt og augu drengsins eygðu.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Setberg 1983.

Guðlaugur rölti heim á leið, glaður og hryggur. Góður drengur kennir í brjósti um sært dýr. En þetta var nauðvörn hans. Ekki þorði hann að segja neinum frá þessu, þegar heim kom.
Sumarið leið. í vetrarbyrjun var Guðlaugur sendur á bæ fram í sveit. Það var byrjað að skyggja, þegar hann kom að bænum. Hann sá glitta í ljóstýru í fjósinu. Gengur hann þá inn í fjósið og býður hressilega gott kvöld. Um leið tekur að hrikta í öllu og fjósið að skjálfa. Stórt naut, sem bundið var á utasta bás, slítur sig laust og ryðst út og er horfið á svipstundu.
Heimamaður kvað naut þetta hafa komið eineygt af fjalli um haustið. „Þetta er ekki einleikið. Það er engu líkara en það hafi brjálazt.“ — Guðlaugur mælti fátt, en hugsaði: „Nautgreyið hefur þekkt rödd mína og ekki viljað eiga það á hættu að missa hitt augað líka.“

Blóðblettir

Heykuml

Heykuml – h.m.

Einn vetur, þegar Guðlaugur var á 14. ári, var honum falið að hirða fé á eigin ábyrgð, að öðru leyti en því, að móðir hans kom vikulega til þess að fylgjast með verkum sonar síns. Við fjárhúsið var heykuml. Stóð fjárhúsið nokkuð frá bænum. Svo bar við, að móðirin finnur að því við son sinn, að hann gangi ekki nógu vel um heyið. Segir hún töluverðan slæðing vera á gólfinu og heyið vera illa leyst.
HafnarfjörðurGuðlaugi sárnar þetta nokkuð og lofar að gera betur. Gefur hann enga skýringu á þessu og reynir ekki að afsaka sig.
Þegar móðir hans er farin, verður Guðlaugur sér úti um fjóra ljái, brýnir þá allvel. Stingur hann þeim síðan í stálið hér og hvar.
Guðlaugi gengur hálfilla að sofna um kveldið. Næsta morgun er hann snemma á fótum. Hann röltir til fjárhúsanna. Hann opnaði síðan heykumlið, dálítið óstyrkur. Nú var engan slæðing að finna. En þarna á gólfinu mátti sjá annað, sem vissulega kom honum ekki á óvart. Hér og hvar gat að líta blóðbletti.
Þennan sama dag og næstu daga, sást maður nokkur í sveitinni með reifaðar hendur. Ekki þurfti móðir Guðlaugs að vanda um við son sinn vegna slæmrar umgengni í hlöðunni eftir þetta.

Seilin
GrindavíkVið erum stödd um síðustu aldamót niður í fjöru í Grindavík.
Mikið er um að vera. Vel hefur fiskazt þennan dag. Mörg skip hafa orðið að seila. En um aldamótin síðustu var, sem kunnugt er, róið á opnum bátum. Þurfti þá að gæta ýtrustu varfærni við að ofhlaða ekki þessi litlu, opnu skip. Var þá það ráð tekið að seila, sem kallað var. Það var gert á eftirfarandi hátt: Nál úr hvalbeini, með flötum, þunnum oddi og víðu auga var stungið undir kjálkabarð fiskjarins og út um kjaftinn. Bandi var brugðið í augað og fiskarnir þræddir upp á bandið, einn af öðrum. Fiskurinn á bandinu var síðan látinn fljóta aftur með skipinu og dreginn til lands. Þessu má líkja við, þegar kringlur voru dregnar upp á band í gamla daga eða. perlur nú til dags. Þegar komið var með seilar að landi, var þeim stundum fest við steina í fjörunni. Stundum var líka haldið í þær.
SeilaðVíkjum nú aftur að því, þar sem við stöndum í fjörunni. Guðlaugur er þar að vinna. Hann verður þess var, að ein seilin er að renna út með útsoginu og hverfa. Töluvert hafði brimað. Guðlaugur bregður eldsnöggt við, hleypur á eftir útsoginu, sækir seilina, — en verður of seinn. Kolblá holskeflan skellur yfir hann og han n hverfur um stund. En með einhverjum óskiljanlegum hraða tekst honum að komast í var við stóran, þangivaxinn stein. Greip hann traustataki í þangið. Hélt hann sér þar rígföstum.
Drykklanga stund var Guðlaugur í kafi, en aftur kom útsog, og upp stóð piltur, að vísu dálítið dasaður. Hélt hann um seilina og skilaði henni til lands. Jafnaði hann sig furðufljótt. Varð honum ekki meint af volkinu, en fékk dálítil aukalaun, og aðdáun allra hlaut hann að sjálfsögðu fyrir þetta einstæða afrek sitt.

Vaka við tafl á jólanótt

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshrauni.

Þetta gerðist á aðfangadag jóla, dimmt var í lofti, frost nokkurt og herti það, er á daginn leið. Guðlaugur hafði farið, að venju, í birtingu til fjárins. Hann hafði með sér skóflu, því að snjó hafði hlaðið niður. Hugðist hann létta fénu krafsturinn, með því að moka ofan af. Upp úr hádeginu tók að hvessa og hríða að nýju. Enn herti frostið og loks tók að skafa líka.
Lagði nú Guðlaugur alla áherzlu á að ná fénu saman í skjól. Ekki var það áhlaupaverk.

Fjárskjólshraun

Fjárhellir í Fjárskjólshrauni vestan Herdísarvíkur.

Guðlaugur hafði þann háttinn á við fjárgeymsluna, að halda fénu í smáhópum, dreift um allt beitilandð. Í illviðrum reyndi hann að halda hverjum hópi í sínu skjóli. Vann hann nú dyggilega að því ásamt hundi sínum að koma fénu í afdrep, og gekk það vonum framar. Dagur tók að styttast og alltaf snjóaði meir og meir. Skall nú á iðulaus stórhríð og hörkugaddur. Þá var Guðlaugur staddur í svonefndu Fjárskjólshrauni, langt vestur af Herdísarvík. Þarna barðist Guðlaugur nú upp á líf og dauða í grenjandi stórhríðinni og hafði ekkert nema vindstöðuna að styðjast við. Hinn nístandi sviði í fótunum kvaldi hann mikið. Brátt dró úr sviðanum aftur, en ekki vissi það á gott, eins og síðar kom fram.

Herdísarvík

Herdísarvíkurbærinn yngri.

Verður nú fljótt farið yfir sögu. Guðlaugur náði heim með guðshjálp. Gaddfreðinn, fannbarinn og kalinn á fótum komst hann heim til bæjar að lokum. Var honum vel fagnað, hresstur á volgri nýmjólk, og ekki var seppa heldur gleymt, sem líka var illa á sig kominn. Fötin voru rist utan af Guðlaugi, bali með vatni í settur við rúm hans og ísmolar settir í vatnið. Síðan var Guðlaugi hjálpað við að koma fótunum ofan í balann.
Þannig sat Guðlaugur alla jólalóttina — og langt fram á næsta morgun. — En húsbóndinn, Þórarinn Árnason, vakti með fjármanni sínum og stytti honum stundir með því að tefla við hann allan tímann. En vegna þessarar hörkumeðferðar hélt fjármaðurinn heilum fótum sínum.

Sókrates

Hlín Johnson

Guðlaugur var mikill og góður hestamaður. Sat hann hest sinn vel og bar áseta hans af. Margar ferðir fórum við Guðlaugur saman á hestum austur í Selvog. Fórum við þá oftast um Krýsuvík og Herdísarvík. Eitt sinn sem oftar gistum við í Herdísarvík hjá frú Hlín Johnson. Fengum við frábærar móttökur eins og alltaf áður. Það var á sunnudagsmorgni. Við vorum búin að drekka kaffi og vorum að rabba saman. Um þetta leyti var frú Hlín að koma sér upp fjárstofni í Herdísarvík. Talið barst því að fjárgeymslu. Sneri Hlín sér að Guðlaugi og sagði: „Það ber sannarlega vel í veiði, að þú ert hér staddur, Guðlaugur minn. Þú hefur mann a bezta og mesta þekkingu á öllu því, sem lýtur að sauðfjárækt á jörð eins og Herdísarvík. Blessaður, miðlaðu mér nú af þekkingu þinni og reynslu. Láttu mig nú heyra með nokkrum vel völdum orðum um allt hið mikilvægasta í sambandi við fjárbúskap, miðað við þær sérstöku aðstæður, sem hér eru fyrir hendi í Herdísarvík.“ Guðlaugur brosti lítið eitt, dró alldjúpt andann, reisti höfuðið svolítið og hóf síðan mál sitt. Hann talaði í fullar 20 mínútur samfleytt. Kom hann víða við, en ekki ætla ég mér þá dul að endursegja efni ræðunnar.
Einar BenediktssonÉg mun heldur ekki gera tilraun til þess að lýsa því, hvernig Guðlaugi tókst. Þess í stað þykir mér rétt að lofa ykkur að heyra álit dómbærari manns. Held ég, að hann verði vart fundinn. Maður þessi hlustaði ásamt okkur Hlín á ræðu Guðlaugs. Þetta var skáldið og spekingurinn Einar Benediktsson.
Þegar Guðlaugur hafði lokið ræðu sinni, vorum við öll þögul nokkra stund, eins og oft vill verða, þegar men n upplifa eitthvað, sem sker sig úr um það venjulega. En allt í einu lyftir skáldið hendi sinni, leggur hana þéttingsfast á öxl Guðlaugs og segir hægt og skýrt: „Ég þakka þér, Sókrates.“
Hér lýkur svo Guðlaugs þætti Gjáhúsa.
Óska ég svo öllum gleðilegra jóla og góðs nýárs.“ – Friðfinnur V. Stefánsson.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Friðfinnur V. Stefánsson; Guðlaugs þáttur Gjáhúsa, jólablað 1957, bls. 17-19.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Herdísarvík

Eftirfarandi frásögn um „Ferð yfir Reykjanesfjallgarðinn“ er Ólafs Þorvaldssonar í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969. Ólafur og fjölskylda hans bjó um tíma í Herdísarvík og hefur skrifað margan fróðleiksþáttinn um svæðið:

Selvosgleidir-551

„Ferð þessa fór ég að liðnum fardögum árið 1928. Ég lagði upp frá Hafnarfirði, einhesta, á hina ævafornu, fjölförnu leið milli Selvogssveitar og Hafnarfjarðar, sem liggur um þveran Reykjanesskagann nyrzt. Yfir fjallið er farið norðan Lönguhlíðar um skarð, er Kerlingarskarð heitir, og er á hinni gömlu Grindskarðaleið. Mín ferð var gerð til Herdísarvíkur, sem er vestust jörð í Selvogi og þar með í Árnessýslu, við sjó fram.
Ekki var Rauður minn neinn gæðingur. en léttur var hann og þægilegur ásetu, mjög góður ferðahestur, traustur og hraustur, svo að erfitt held ég hefði verið að ofbjóða honum. Þess utan var Rauður fallegur og vel vaxinn.
Klukkan tíu að kvöldi lagði ég af stað frá Hafnarfirði, austur yfir fjall. Veðrið var unaðslegt, logn og ekki skýskán á himni. Á ferð minni hafði ég hinn gamla og sjálfsagða máta; að fara hægt til að byrja méð, aðeins ferðamannagutl, en þess á milli lét ég kasta toppi.

Helgadalur

Helgadalur – vatnsbólið.

Alllangur aðdragandi er frá Hafnarfirði upp að fjalli, allt heldur á fótinn, en hvergi bratt. Mörg kennileiti eru á þessari leið, sem bera sitt nafn, og nefni ég hér þau helztu: Helgadalur, og er talið að þar hafi verið byggð að fornu og sjást þar enn rústir nokkrar, þar suður af er hið tigulega Helgafell, Valhnjúk, Mygludalir og þar vestur af Búrfell, sem einhvern tíma hefur gosið miklu hraungosi, þar nokkru austar Húsfell, stórt og ábúðarmikið. Allt þetta nefnda svæði má heita, að hafi verið mínar æsku- og ungdómsheimahagar. Ég gat því vel raulað fyrir munni mér hina fornu vísu: Þessar klappir þekkti ég fyrr, þegar ég var ungur…

Kerlingarskard-553

Úr Mygludölum liggur leiðin upp á hraunið, sem er hluti hins úfna og illfæra Húsfellsbruna. Í Mygludölum voru margir vanir að á smá stund, einkum á austurleið, þar eð þarna er síðasta grænlendi nálægt vegi, þar til kemur langt austur á fjall. Snertispöl upp í hrauninu eru Kaplatór, en til forna nefndar Strandartorfur. Þar átti Strandarkirkja í Selvogi skógarhögg, en nú sést þar öngin hrísla.
Á miðnætti var ég kominn allhátt í fjallið, þar sem grasi gróin hvilft er inn í efsta hluta þess. Í hvilft þessari fóru lausríðandi menn oft af baki, á austurleið. Á síðari helmingi nítjándu aldar var byggt þarna ofurlítið sæluhús. Kofa þann lét byggja W. G. S. Paterson, skozkur maður, forstjóri brennisteinsvinnslunar í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum. Brennisteinninn var fluttur á hestum til Hafnarfjarðar frá báðum þessum stöðum, og lá Brennisteinsfjallaleiðin vestur yfir Kerlingarskarð. Í áðurnefndri hvilft var
eins konar umhleðslustöð. Til þessara flutninga þurfti fjölda hesta, og mun Paterson hafa haft nær sjötíu, og sagðist hann vera mesti lestamaður Íslands.
Kerlingarskard-552Frá Brennisteinsfjöllum var brennisteinninn selfluttur þannig, að lest að austan fór ekki lengra en ofan fyrir skarðið í hvilft þá, sem hér er nefnd, og sú, sem frá Hafnarfirði korm, stanzaði einnig þarna. Svo var skipt um farangur, þannig að önnur lestin tók bagga 
hinnar og fór sína leið aftur til baka. Sæluhúskofann lét Paterson byggja sem afdrep handa lestamönnum og farangri, ef bíða þurfti eftir annarri hvorri lestinni. Uppruni þessa litla sæluhúss, held ég, að fæstum Selvogamanna hafi verið kunnur að hálfri öld liðinni frá tilkomu þess.
Svona gleymast á stundum, atvik og hlutir undrafljótt. Í þessu tilfelli gat ég, nýkominn í hreppinn frætt þá um þetta. Ég vék Rauð í hvilftina, út af götunni lítið eitt til vinstri, að litlu tóftinni, sem enn var allstæðileg, teymdi hann upp í brekkuna, spretti af hnakk og beizli, lét vel að Rauði og sagði við hann, að nú skyldi hann blása mæðinni, því „við eigum brekku eftir, hún er há“.

Brennisteinsnamur-551

Nú var lægst stund nætur, þegar náttúran tekur að mestu á sig náðir litla stund — enginn andblær, ekkert hljóð. Og einmana ferðalangur hefur heldur ekki hátt um sig. Eina hljóðið, sem ég heyrði, var þegar Rauður minn klippti grængresið ótt og reglubundið, svo og hinn lági andardráttur náttúrunnar, sem maður skynjar aðeins, þegar öll önnur hljóð þagna. Ég settist með hnakktösku mína framan undir öðrum dyrakampinum og fékk mér ofurlítinn miðnæturbita, og Rauður fékk sinn hluta. Ég fór að hugsa um það starf, sem hér fór fram fyrir sem næst hálfri öld. Hér heyrðust ekki lengur æðaslög athafnalífsins. Nú blundaði hér allt, nema ég og Rauður minn. Og mér varð hugsað til hinna mörgu frænda minna og vina, sem sumir lifðu nokkuð fram á tuttugustu öldina, er verið höfðu lestamenn Patersons. Í þennan litla hvamm fluttu þeir mat og annað til þeirra, sem í námunum unni í Brennisteinsfjöllum hér suður af.
Í miðnæturkyrrðinni er sem ég heyri málróm lestamanna, þeirra sem ég man bezt. Þeir, sem koma úr Selvogsgata-559margmenninu, segja fréttir þaðan, hinir, sem frá námunum koma, segja það, sem fréttnæmt er úr fámenni fjallanna. Síðan var skipzt á farangri og aftur haldið af stað, en hvammurinn og litla sæluhúsið biðu í kyrrð fjalla næstu komumanna. Vel man ég einn þeirra, sem unnu í þessum brennisteinsnámum, og ég spurði hann og spurði. Meðal annars sagði hann mér, að sjaldnast hefðu námumenn getað verið lengur niðri í námunum en fimm eða sex mínútur í einu sökum hitans — þá hefði verið skipt um. Allir urðu að vera í tréskóm, klossum, allt annað soðnaði óðar. Og margt annað sagði hann mér um lífið og starfið þarna, sem of langt mál er að rekja. Það er runninn nýr og bjartur dagur, klukkan er eitt ef
tir miðnætti.

Draugahlidagigur-551Ég rís á fætur, fel þessari enn stæðilegu sæluhústóft þær hugsanir mínar, sem bundnar eru henni og þeim mönnum, er hún var gerð handa fyrir rösklega hálfri öld. Tóftin lætur ekki mikið yfir sér og mun nú flestum óþekkt. Og ekki liggur lengur þarna um sá aðalvegur og sú alfaraleið þess byggðarlags, sem að minnsta kosti í fjórar aldir var voldug sveit og víðþekkt, bæði innan lands og utan, Selvogssveitar. Í þeirri sveit sátu um aldir margir lögmenn landsins. Þar sátu einnig á 14. öld tveir hirðstjórar, Vigfús Jónsson og sonur hans, Ívar Hólmur.

Ölfus

Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).

Þegar þetta er skrifað, 1968, búa aðeins, að ég ætla, fjórir eða fimm bændur í Selvogi og enginn hjáleigubóndi. Þar munu nú ekki vera nein teljandi stekkjarþrengsli, og er mér tjáð, að bændur þessir búi vel, eftir því sem heyrist nú úr sveitum yfirleitt. Nú fer enginn Selvogsmaður lengur þessa gömlu Grindaskarðaleið. Að vísu var Kerlingarskarð farið seinustu áratugina, og er það skarð aðeins sunnar í fjallinu en Grindaskarð, því það þótti að ýmsu leyti greiðari leið, en leiðin engu síður kölluð Grindaskarðaleið. Þessi leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar hefur verið mjög fjölfarin um margar aldir, það sýna hellurnar vestan fjallsins. Þar um má hafa það, sem Grímur Thomsen sagði af öðru tilefni: „Ennþá sjást í hellum hófaförin“. En nú sporar enginn hestur lengur þessar klappir.

Kerlingarskard-555Ég lagði á síðasta og örðugasta hjallann, sem var á leið minni austur. Ég læt Rauð ganga á undan mér, þar til komið er á hæstu brúnina. Útsýni þaðan er mikið til tveggja höfuðátta, austurs og vesturs. Sá, sem kemur upp á brún þessa mikla fjallaskaga og er ekki því kunnugri, mun þykja geta á að líta fyrst í stað. Það má segja, að þarna séu nokkur heimaskil. Við höfum í svipinn yfirgefið „vesturheim“ og höldum í „austurheim“. Fljótt á litið, er landið ekki ólíkt yfir að sjá og áður var — hraunflákar miklir, sem runnið hafa kringum fell og hæðir, lítið af samfelldu gróðurlendi. Þó er gróðurinn nokkuð meiri til austurs. þótt lítt sé greinanlegur sökum fjarlægðar og halla landsins. En lengst í austri ber við „hið víða, blikandi haf“, Atlantshafið, sem héðan séð virðist engin takmörk eiga. Við litum aftur til vesturs yfir nýfarinn veg, og sjáum, að undirlendið er ekki ósvipað því, sem að austan er lýst. Þegar landið þrýtur blasir þar einnig við haf, Faxaflói, sem liggur til „mikils lands og fagurs“ í hinum víða faðmi tveggja mikilla fjallaskaga, Reykjaness og Snæfellsness. Svo gott var skyggnið til vesturs að þessu sinni, að með góðum sjónauka hefði ég að öllum líkindum séð Kerlinguna við samnefnt skarð á Snæfellsnesi. En á því Kerlingarskarði, sem ég var staddur á er engin kerling. Við hvaða kerlingu er þá þetta skarð nyrzt á Reykjanesskaga kennt? Ef til vill skýrist það síðar.
Brennisteinsfjoll-567Ég stíg á bak, og Rauður fer að fikra sig ofan fyrri brekku fjallsins, unz komið er að miklum hraunfláka, sem fyllir dalinn milli Draugahlíðar að vestan og Hvalhnúks að austan. Á hraunbrúninni eru tvær allstórar vörður, Þarna greinist vegurinn af í þrjár kvíslar. Ein er lengst til hægri, liggur suðvestur með Draugahlíðum til Brennlsteinsfjalla. Beint af augum fram er götuslóði í suðaustur út á hraunið, og var einkum farinn af þeim útbæjanmönnum í Stakkavík og Herdísarvík. Lengst til vinstri er gata milli hrauns og hlíðar um svonefndan Grafning til Stóra-Leirdals vestan Hvalskarðs. Þetta er leið þeirra Austanvogsmanna. Þessum leiðum, ásamt fleiri fornum slóðum, hef ég nokkuð lýst í bók minni, Harðsporar, sem enn mun fáanleg hjá bókaforlagi Odds Björnssonar á Akureyri.

Kistufell-551Ég rifja ég upp gamla sögu og segi Rauð mínum hana á meðan við löftrum austur yfir hraunflákann í átt til Hvalhnjúks. Vitanlega er þetta þjóðsaga eins og sú saga, sem sögð var skáldinu og sýslumanninum endur fyrir löngu vestur í hinu Kerlingarskarðinu. Saga sú, sem ég rifja hér upp, er sem næst á þessa leið: Í fyrndinni bjó tröllkona í Tröllkonugjá, norðaustur af Grindaskörðum. Eitt sinn fór hún að leitafanga til Selvogs. Kom hún þar á hvalfjöru og hafði þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með. En til hennar sást, og hún var elt.

Selvogsgata

Hvalskarð.

Erfið varð undankoman, og náðist kerla í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur. Og þjóðsagan heldur áfram og segir: Bóndi sá, sem kerlinguna elti, fékk sig ekki til að svipta hana hvalfengnum, heldur gerði við hana þann samning, að hún verði fyrir sig skörðin vestur á fjallinu, svo að sauðir hans rynnu ekki þar af fjallinu, heldur sneri hún þeim aftur til austurs. Eftir þetta setti tröllkonan grindur í nyrðri skörðin, en syðsta skarðið varði hún sjálf, sem eftir það var kallað Kerlingarskarð. Ekki getur sagan æviloka þessarar tröllkonu, og hvergi þar í grennd sjást þess merki, að hún hafi steinrunnið.

Nú vorum við komnir austur úr hrauninu að suðvesturenda Hvalhnjúks. Á fyrstu grösum brá ég mér af baki og gekk upp í brekkuna, leit á klukkuna og sá þá, að hún var lítillega farin að halla í þrjú. Þarna var ég næsta ókunnugur á móts við það, sem síðar varð. Af brekkunni sá ég til tveggja átta, til austurs og vesturs, og varð mér á að líta fyrst í austurátt.
Brennisteinsfjoll-uppdratturHéðan hallar landinu til austurs og suðausturs fram á brún þess fjalls, sem ég var enn staddur á, en þó nýfarinn yfir bæsta hrygg þess. Austur frá fjallinu tók við Selvogsheiði, allmikið land, en austur af henni blasti Atlantshafiö við í norðaustri „brosti á móti mér, Heiðin há, í helgiljóma“ og birtu upprennandi sólar, löngu fyrir miðjan morgun. Þessi heiði ber fagurt nafn og fágætt. Þessa heiði hafa tveir andans menn, þeir Grétar Fells og Sigvaldi Kaldalóns, gert víðfræga í ljóði og lagi, og er ljóðlínan hér á undan úr því kvæði. Og svo varð „sólskin á sérhverjum tindi“. Síðan leit ég til vesturs yfir nýfarinn veg, Grindaskörð, og sá, að þar skein einnig „fagur roði á fjöllin“. Grindaskörð eiga sammerkt öðrum fjallvegum landsins um það, að þar skiptast á skin og skúrir. Þetta var ég búinn að reyna ári áður í Grindaskörðum. Mér flaug í hug kvæði Kristjáns Jónssonar um illveður í Grindaskörðum fyrir hundrað árum. Um tildrög þess segir höfundur: 

Selvogsleidin gamla-670„Eftirmæli eftir Jón Jónsson, barón v. Repp. Kveðið við þá harmafregn, er spurðist lát hans 1867, og að hann hefði frosið í hel í Grindaskörðum. Ég reis úr sæti sínu í brekkunni, beizlaði Rauð og steig á bak. Nú hallaði heldur undan fæti, og vegurinn var mýkri undir fæti og greiðari. Ég fór norðan við Svörtuhnjúka og Urðarás og hélt niður milli hraunsins og ásanna. Þannig „styttist leiðin löng og ströng“, þótt engan heyrði ég svanasöng. Í svonefndum Selbrekkum, neðarlega í Ásunum, vissi ég af vatni og fór með Rauð þangað. Þar drakk hann nægju sína. Þarna hefur einhvern tíma endur fyrir löngu verið grafið eftir mó, efalaust frá Stakkavík, og sést enn móta fyrir mógröfunum. Þar hefur einnig verið selstöð fyrrum.

Hliðarvatn-552Ég beindi nú Rauð í götuslóðann og lagði í síðasta áfangann að austurbrún fjallsins, þar sem Selstígur, brattur og krókóttur, liggur niður fjallið. Þeir, sem koma í góðu skyggni á þennan stað í fyrsta sinn, hljóta að verða einkennilega snortnir af því, sem þá blasir við. Hér skal aðeins nefnt hið helzta, sem sést. Fyrir fótum okkar liggur vatn, ekki svo lítið, Hlíðarvatn í Selvogi, og er sem næstu skrefin verði að stíga út í þetta vatn, þar eð það er svo nærri fjallinu, að ekki er gengt með því, en götuslóðinn allhátt uppi í brekkunni. Framan vatnsins er Víðisandur að sjó. Á sjávarströndinni, nokkuð austan vatnsins, hillir uppi hina fornfrægu Strandakirkju. Lengst til vesturs sér til Geitahlíðar innan Krýsuvíkur.

Strandarkirkja-590Ég fer af baki á brún fjallsins, læt Rauð rölta lausan á undan niður stíginn, sem er nokkuð í krókum, fyrst um smágerða skriðu, unz komið er í vel grónar brekkur fjallsins, kjarri vaxnar með blóm og góðgresi. Þegar niður úr sjálfum stígnum er komið,  tekur við hrauntunga, sem breiðist austur að vatninu. Yfir hraunið liggur gatan að túngarði jarðarinnar Stakkavíkur.
Klukkan er rösklega þrjú að morgni — allUr hljóta að sofa um þetta leyti nætur inni í litla bænum, sem þá var enn. Þar bjuggu þá æskuvinur minn, Kristimundur Þorláksson, og kona hans, Lára, ásamt börnum sínum, sem voru mörg.
Herdisarvik-579Nú var Hlíðarvatn, sem lá að bæjardyrum Stakkavíkur, eins og spegill, og hafði skammt undan enn stærri spegill, þar eð morgunkyljan er enn ekki runnin á. Nú finnst mér sem ég sé nógu lengi búinn að halda til austurs og suðausturs, breyti hér algerlega stefnu minni og held nú í vestur, heim að Herdísarvík. Rauður tekur götuna vestur á hraunið, hann veit hvað við á. Hraun þetta, sem er mjög auðugt að örnefnum, nær frá Hlíðarvatni vestur að Krýsuvíkurheiði, og er því sú vegarlengd sem næst fimmtán kílómetrar. Að fjórðungi stundar liðnum komum við að austurhliði túngarðsins um heimatún Herdísarvíkur. Við vorum komnir heim eftir fimm og hálfrar klukkustundar ferð frá Hafnarfirði, sem er heldur rólega farið lausríðandi. Hér átti heimili okkar að vera, að minnsta kosti næstu fimm árin. Raunar urðu þau sex. Þá varð ég að standa upp af jörðinni fyrir eiganda hennar, Einari Benediktssyni skáldi.

Herdisarvik-gamliÉg spretti af Rauð, strýk honum um höfuð og háls og þakka honum góða og trausta samveru, hleypi honum síðan til tjarnarinnar, svo að hann geti fengið sér að drekka tært uppsprettuvatn. Ég tek hnakk og beizli og geng rólega heim að bænum. Kaffon minn fagnar mér að vanda hávaðalaus, hlær bara út að eyrum. Ég lít á úr mitt, klukkan er hálffjögur.
Í þetta skipti var ég að koma frá að skila af mér ábúð, sem við höfðum búið á síðastliðin tvö ár og lá undir Hafnarfjarðarkauptað. Von var á litlum þilfarsbáti, sem ég hafði tekið á leigu til þess að flytja búslóð okkar, ásamt matarforða og öðrum nauðsynjum til sumarsins.
Bátur þessi átti að hafa í eftirdragi stórt þriggja marina far, sem ég hafði keypt í Hafnarfirði.
Herdisarvik-leifar gamlaBáðir voru bátar þessir hlaðnir varningi, og þurfti því að sæta góðu veðri og kyrrum sjó — Reykjanesröst á miðri leið. Þetta var því mikil áhætta, þótt nokkuð væri vátryggt. Um þetta, ásamt ýmsu fleira, var ég að hugsa á ferð okkar Rauðs yfir brattan fjallveginn með hraunbreiðurnar til beggja hliða. Og nú stóð ég á langþreyðu hlaði Herdísarvíkur. Ég geng að baðstofuglugga á suðurgafli, því að innan við hann vissi ég, að kona mín svaf, ásamt dóttur okkar, en vinnuhjú í austurenda baðstofunnar. Ég drep létt á rúðu, og í næstu andrá er tjaldi lyft frá, við horfumst í augu augnablik, og tjaldið fellur aftur fyrir.

Herdísarvík

Herdísarvík 1940-1950.

Eftir andartaksstund er loka dregin frá og kona mín stendur léttklædd innandyra. Þetta er mikill fagnaðarfundur, þar eð ég hef verið alllengi að heiman, og enginn vissi, hvernig mér gekk eða hvenær mín var von. En ég skal skjóta því hér við, að báturinn kom á öðrum, degi frá heimkomu minni með allan flutninginn algerlega óskemmdan.

Sú jörð, sem ég var þá að flytjast á, Herdísarvík í Selvogshreppi, á sannarlega sína sögu — og hana ekki ómerkilega. En Hún verður ekki sögð hér — og ef til aldrei. Nú er þessi jörð grafin gullkista og yzta borð hennar nokkuð farið að hrörna. Ef til vill opnar enginn framar þessa gullkistu…“

Heimild:
-Tíminn, sunnudagsblað, Reykjanesfjallgarður, Ólafur Þorvaldsson, 7. des. 1969, bls. 988-992.

Stakkavikurvegur-591

Herdísarvík

Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt.

Krýsuvík

Krýsuvík og Herdísarvík – herforingjaráðskort.

Krýsuvík mjög í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill.

Breiðivegur

Breiðivegur neðan Geitahlíðar.

Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð í Krýsuvík.

Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Heitir þar kerlingadalur, en Deildarháls ofar.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.
Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengur til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum.

-Jón Árnason I 459.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvík

„Herdísarbærinn er snotur, þótt ekki sé hann stór. Þar er stofa byggð forkunnar vel úr völdum viði að mestu. Er það unninn rekaviður úr fjörunni þar. Tvöföld súð er í baðstofunni og tröð á milli.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúð.

Bærinn stendur á ofurlítilli flöt, rétt á tjarnarbakkanum, og stendur lágt. Hefur það oft hefnt sín, að hann stendur ekki hærra, því að þegar stormaflóð koma af hafi, gengur sjór yfir malarkambinn, inn í tjörnina og fyllir hana svo, að hún flóir yfir alla bakka og inn í bæ. Stórfenglegasta flóðið kom veturinn 1925. Þá gerði storm af hafi í stórstraum og belgdi sjórinn inn á víkina, svo að hann gekk yfir allan kambinn og langt út í hraun í allar áttir. Flóðið kom þegar inn í bæinn og varð fólkið að flýja þaðan.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Bóndi tók eitthvað af sængurfötum og batt þau upp í sperrukverk. Hafðist svo fólkið við í hlöðu uppi á túninu á meðan mesta flóðið var. Stóð hlaðan mikið hærra en bærinn, en þó komst flóðið þangað. Þegar fjaraði og fólkið leitaði til bæjarins, voru sængurfötin uppi í sperrukverkinni rennblaut og sást á því, að baðstofan hafi fylst af sjó upp í mæni. En þungi vatnsins inni í bænum hafði orðið svo mikill þegar fjaraði frá úti, að hann sprengdi gaflinn úr baðstofunni fram á hlað, svo skolaði vatnið þar út með sér körfustól og ýmsum öðrum húsgögnum, sem voru í baðstofunni.

Herdísarvík

Herdísarvík – tóftir gamla bæjarins.

Austan við bæinn stóð stór timburskemma á háum grunni og var í henni geymt mikið af þungavöru. Þó var flóðið svo aflmikið, að það velti skemmunni um koll og setti hana rétt fyrir framan fjósdyrnar, svo að ekki varð komist í fjósið í nokkra daga.

Eftir þetta mikla flóð hvarf silungsveiði úr tjörninni um nokkur ár.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

Ætla menn að ýmist hafi flóðið skolað silungnum til sjávar og víðsvegar upp um hraun. Eitthvað hefur þó orðið eftir af hrognum og seyðum, því að nú er veiðin orðin álíka mikil og hún var áður.
Herdísarvík er gæða jörð til lands og sjávar. Þar gengur sauðfé sjálfala allan ársins hring, ef ekki kemur þeim mun harðari klakavetur. Fjörubeit er góð og varla tekur fyrir beit í hrauninu, enda kemur það sér vel, því að engar eru engjarnar og ekki hægt að slá eitt ljáfar utan túngarða. En fjárgeymsla er mjög erfið.

Herdísarvík

Herdísarvík – Herdísarvíkurtjörn.

Ólafur Þorvaldsson, sem þar býr nú, hefur raunsnarbú, og er fyrirmyndar bragur á öllu hjá honum. Hann setur um 500 fjár á vetur hvern. En hann segir að ekki veiti af tveimur fullorðnum mönnum til þess að fylgja fénu allan veturinn, myrkranna á milli, bæði í fjöru og hrauni, að koma því í hús á kvöldin og til beitar snemma á morgnana. Hann kveðst þó oftast taka lömb á gjöf, og í vetur sem leið öll lömbin nema 20, sem gengu algerlega úti, en þau bera nú öllum hinum, enda munu þau hafa verið tápmest. En hér er sama sagan nú og annars staðar, að sauðfjárræktin er dýr, en veitir lítið í aðra hönd. Það er af sú tíðin er menn gátu fætt og klætt sig og sína með afurðum 50-60 fjár. Í haust varð Ólafur að borga 150 dilka í landskuld og kaup eins manns. Hugsið ykkur það, 150 dilka, fyrir utan allt það, sem þurfti til bús að leggja!

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Tún eru tvö í Herdísarvík og fást af þeim í meðal ári um 170 hestar. Ekki kemur til máls að tvíslá, því að kúnum þarf að beita á túnin undir eins og þau eru hirt, því kúahagar eru þar engir og hestahagar ekki heldur. Veitti ekki af að gefa kúm og hestum allan ársins hring. Hestar eru því verstu ómagar þarna, en ekki verður komist hjá því að hafa þá, vegna þess hve bærinn er afskekktur og langt til aðdrátta. Nú seinustu árin hefur Ólafur þó fengið vörur sínar með bíl til Grindavíkur og þaðan með “trillu”-báti til Herdísarvíkur. Er það kostnaðarsamt, en verður þó ódýrara heldur en að flytja allt á hestum þessa löngu leið, og verða fyrir vikið að hafa marga hesta á fóðrum.

Herdísarvík

Herdísarvíkurfiskgarðar.

Í Herdísarvík eru margar og merkilegar fornleifar frá þeim tímum er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar standa enn fornar sjóbúðatættur, og í brunahrauni austan við bæinn og alla leið upp undir fjall má líta óteljandi hraungarða hlaðna af mannahöndum, hvern við annan. Þetta er þurrkreiturinn, þar sem fiskurinn var hertur. Fiskverkunaraðferðin í þá daga var þannig, að fiskurinn var fyrst slægður og flattur og síðan kasaður. Þótti það mikill vandi að kasa vel og öll verkun komin undir því. Ekkert vatn mátti komast í fiskinn og hann varð að kasast þannig, að hann yrði ekki maltur við þurrkun, en til þess þurfti allur safi að síga úr honum áður en hann var breiddur til þerris.

Herdísarvík

Fiskigarðar.

Fiskurinn var kasaður þannig, að eftir að hann var flattur, var hann lagður utan á annan og stungið niður á hnakkakúluna, hver fiskur utan í annan, og skaraðir þannig, að vatn gæti ekki komist á milli þeirra. Í þessum kösum stóð svo fiskurinn allan veturinn, eða þangað til vorþurrkar komu. Þá var hann borinn á bakinu upp um allt hraun og breiddur á garðana. Varð þetta oft langur burður, en sá var kostur við það að hafa þyrrkgarðana úti í hrauninu, að minni hætta var á að fé færi í fiskinn, en það er sólgið í hann, ef það kemst á bragðið.
Af hinum fornu sjóbúðum er nú fátt eftir, en þær hafa verið rammbyggilega hlaðnar úr brimsorfnu hnullungagrjóti og standa þykkir veggirnir lítt hrundir enn í dag. Eru sumar búðirnar 30 fet á lengd að innanmáli og má á því sjá, að þar hafa verið stórar skipshafnir.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskbyrgi.

Svo lagðist útgerð að mestu niður í Herdísarvík um all langt skeið, svo að þar var oft ekki nema eitt skip. En fyrir aldamótin hófst útgerð þar aftur með nýjum krafti. Veturinn 1896 gengu þaðan t.d. 8 skip. En þá var fiskverkunaraðferðin breytt og var þá farið að salta allan fisk. Nú risu þarna upp nýjar sjóbúðir, og standa tvær þeirra enn, en annarri hefur verið breytt í hlöðu og hinni í fjárhús og verður því ekki lengur séð hvernig umhorfs hefur verið þar inni á meðan þetta voru mannabústaðir.
Allir sjóbúðaveggir eru hlaðnir úr hnullungagrjóti og þykkir mjög. Búðirnar eru 30-40 fet að innamáli og munu oft hafa erið 15-16 manns í hverri, því þá var róið þarna á tíæringum og auk þess voru landmenn við aðgerð og söltun, og svo þjónusta.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Búðirnar sneru frá norðri til suðurs og á suðurstafni eru dyr, og reft yfir með þrælsterkum viðum. Stafnar eru hlaðnir úr grjóti eins og veggir, og mæniás lagður á milli þeirra og nokkrar stoðir undir, og standa þær auðvitað á miðju gólfi. Í sumum sjóbúðum voru sperrur og skarsúð, en flestar munu hafa verið þannig, að síreft hefur verið báðum megin á mæniás úr klofnum rekaviði. Hafa raftarnir verið nokkuð mislangir og sköguðu því sumir út úr þekjunni, sitt á hvað. Heldur munu sjóbúðir þessar hafa verið óvistlegar, en sennilega hefur verið hlýtt í þeim.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Frammi á sjávarkambi er þyrping af húsarústum. Nokkuð af þeim hefur sjór brotið, en sumar tætturnar standa óhaggaðar. Þarna var saltgeymsla og beitugeymsla, lýsisgeymsla o.s.frv., en úti munu menn hafa beitt, engu síður en einni. Er þar til marks um það, sem sagt er um áleitni sauðfjár við útróðrarmenn, að þeir máttu ekki víkja sér frá beitningartrogunum inn í sjóbúðirnar. Gerðu þeir það, þá var “kind á hverjum öngli” þegar þeir komu út aftur.“

Heimild:
-Herdísarvík – 1925 – Árni Óla.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Herdísarvík var löngum happasælt fiskver. Oftast nær var ekki róið lengra en út á víina, og fekkst oft góður afli. Á seinni árum voru menn farnir að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þarna oftast nær beint af hafi, og voru þær taldar bestar, þegar ekki fylgdi síli. Eftir sumarmál var fiskur vanur að draga sig frá landi út á svonefndar “Forir”, og aflaðist þá oft vel þar í vertíðarlok.

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs af Herdísarvík.

Nú hefur engin útgerð verið í Herdísarvík um mörg ár, en fiskur gengur þar að, ekki síður en áður. Er til marks um, að í vetur reru þar tveir menn um tíma á svolitlu bátkríli. Fóru þeir rétt fram fyrir landsteinana með handfæri og drógu þar bandóðan rígaþorsk. Voru þeir fljótir að hlaða, því að “báturinn lá með borðstokknum” þegar komnir voru í hann 100 fiskar. En alls fengu þeir um 1000 til hlutar – og allt fast uppi við landsteinana.

Úr Landið er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvík

Í októbermánuði 2024 eru 160 ár liðin frá fæðingardegi Einars skálds Benediktssonar.

Herdíarvíkurgata

Herdísarvíkurgata.

Eftirfarandi er úr grein Konráðs Bjarnason um Einar Benediktsson í Herdísarvík. Hún birtist í Lesbók Morgunblaðsins 9. okt. 1999.
“Höfundur hefur þá sérstöðu að hafa verið í vist um tíma hjá Hlín Johnson og Einari skáldi Benediktssyni á fyrsta ári þeirra í Herdísarvík. Með unglingnum úr Selvoginum og skáldinu tókust góð kynni og stundum fór skáldið á flug. Herdísarvík átti Einar sjálfur, hafði keypt jörðina 1910 og voru þrír Norðmenn með honum í kaupunum. Höfundur átti á árinu 1934 þau Hlín og Einar að húsbændum. Þá átti Einar enn höfuðbólið Krýsuvík í Gullbringusýslu. Jarðir þessar áttu merka og litríka sögu.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson.

Einar skál Benediktsson er sagður hafa keypt Krýsuvík og Herdísarvík af Jóni Magnússyni 1908 ásamt Arnemann skartgripasala í Osló. Skömmu síðar fer fram sala og endurkaup milli sömu aðila. Við allsherjarmanntal 1910 er eftirfarandi bókað: “Krýsuvík ábúandi Jón Magnússon. Eigandi fyrrverandi sýslumaður Einar Benediktsson og 3 Norðmenn”. Einar virðist frá upphafi hafa verið eigandi að Herdísarvík. En það er ekki fyrr en 13. desember 1928 sem Einar skáld kaupir báðar jarðirnar í Krýsuvík af Arnemann fyrir 30 þúsundir króna.

Þórarinn flytur alfarinn frá Herdísarvík til Reykjavíkur á vordögum 1927. Næsti ábúandi þar varð Ólafur Þorvaldsson frá Ási við Hafnarfjörð.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Þegar Ólafur fær vitneskju um að Herdísarvík sé laus til ábúðar fer hann á fund jarðareigandans, Einars, sem þá er í Reykjavík, og semst með þeim um 5 ára ábúð í Herdísarvík eða til 1932. Ólafur var þá með fullnægjandi búsetu að Sveinskoti í Hvaleyrarhverfi. Hann kom þangað ári áður frá 6 ára búsetu að Stakkhamri í Miklaholtshreppi með 200 fjár. Ólafur kaupir útigangsær Þórarins með lömbum og selur sauðfé sitt að vestan.
Ólafur rekur útigangsfjárbú sitt í Herdísarvík frá haustdögum 1927 með vinnumanni sínum til vordaga 1928 að hann kemur þangað með fjölskylduna. Búskapur hans hefur verið farsæll í 5 ár þegar hann er enn ófarinn án framlenginga ábúðar eftir fardaga 1932. En um fyrrihluta júlímánaðar kemur eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Johnson, til búsetu þar. En Ólafur naut velvildar jarðeiganda og hélt búsetu fram að fardögum 1933, en með verulega aðþrengdu húsrými í gamla bænum þar til hús Einars skálds yrði fullbyggt. Hann varð að flytja sig í norðurbaðstofuna, svefnstað vinnufólksins.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Á bílum var fært að sumri í þurrkatíð frá Hrauni í Ölfusi og út í Selvog vegna þess að árið 1931 breikkuðu Selvogsmenn með handverkfærum hestagötuna frá Hlíðarenda og færðu hana frá Hlíðarendahelli með stefnu á Selvogsheiði. Gamla leiðin lá um aldir niður Djúpadalahraun. Þess vegna koms drossía á þurrum júlídegi niður að Miðvogstúngarði.
Fararstjórinn, þéttur á velli með erlent yfirbragð, sté fyrstur út og kynnti sig sem Óskar Clausen. Hann væri kominn í Selvog með skáldið Einar Benediktsson og æskti leiðsagnar að höfðubólinu Nesi. Það með steig höfuðskáld þjóðarinnar ásamt föruneyti út úr bifreiðinni. Var þá fullljóst að ekki var ofsagt það sem áður var heyrt um glæsimennið Einar skáld. Hann var mikill á velli, með hæstu mönnum, höfðinglegur í fasi og frakkaklæddur.

Herdísarvík

Einar og Hlín.

Eftir fylgdi kápuklædd kona og drengur nær fermingu. Þau fengu góðar móttökur og gistingu hjá Guðmundi bónda Jónssyni, sem þá var fjárríkastur á landinu. Hann flutti Einar skáld og fjölskyldu næsta dg áhestum til Herdísarvíkur.
Nokkrum dögum eftir komu Einars skálds og Hlínar til Herdisarvíkur verður ljóst að hún var tímabær í vel skipulagrðri framkvæmdaáætlun sem gengur upp með því að nógur mannskapur var kominn á vettvang til uppskipunar á varningi miklum úr strandferðaskipinu Skaftfellingi. Hann fór svo nærri landi sem mest hann mátti svo stutt yrði með flutning á opnum bátum í lendingarvör. Gekk greiðlega að koma farmi skipsins í land.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Mest fór fyrir tilsniðunum húsagerðarvið, sem var einnig í tilgerðum einingum ásamt stórum þilplötum til kæðningar innanhúss og þakjárni. Einnig var þar mikil eldavél ásamt miðstöðvarofnum tengdum henni. Húsgögn og fyrirferðarmikið bókasafn skáldsins, mjölmeti til langs tíma og eldneytisbirgðir. Flutningur að sjávarkambi til síns staðar fylgdi fast á eftir.
Sigurður Haldórsson, yfirsmiður, hafði veg og vanda af gerð hússins og úttekt efnis. Sala á búslóð og málverkum skáldisns gekk til innréttingar ásamt sparifé Hlínar. Óskráður gefandi timburefnis var Sveinn Magnús Sveinsson, forstjóri Völundar og tengdarsonur prófessors Haraldar Níelssonar. Haraldur var prestur í Laugarnesspítala og hjá ekkju hans átti Einar skáld húsnæðisathvarf 1930.

Herdísarvík

Herdísarvík- gamli bærinn nær.

Húsi skáldsins var valinn staður við norðurtúngarð. Bændur og smiðir úr Selvogi komu til liðs við yfirsmið. Grunnur var lagður og hús reist á 6 vikna tíma og fullbúið 8. september 1932. Samtímis flytja Einar skáld og Hlín þar inn. Húsið er búið þeim þægindum sem staðhættir leyfa. Það með hefur Ólafur og fjölskylda endurheimt allt húsrými gamla bæjarins.
Hlín, hin mikla húsfreyja innanhúss, hefur einnig allt framkvæmdavald utanhúss í Herdísarvík. Selvogsmönnum er ljúft að vinna fyrir hana aðkallandi verk. Þeir eru komnir á vettvang þegar hún þurfti á starfskröftum þeirra að halda.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Eins og áður sagði hélt Ólafur búsetu fram að fardögum 1933. En þegar gamli bærinn er orðinn mannlaus lætur Hlín taka niður þök hans og innréttingar og flytja til endurnýjunar á húsum þeim er stóðu vestur af húsi skáldsins og austast byggja byggja þeir upp veggjatóft í sömu stærð og fremri baðstofu gamla bæjar. Margir menn vinna það þrekvirki að bera í heilulagi skarðsúðarþekjuna og leggja niður á veggsyllu hinnar nýju tóftar sem verður alþiljað hús ásamt anddyri með risi. Gömlu rúmin er þar uppsett meðfram veggjum og þar verður notaleg vistarvera fyrir þá sem eru í vinnumennsku fyrir húsbændur í Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Á sunnudegi í marsmánuði 1934 erum við 6 manns úr Selvogi lent á opnu vélskipi á ládauðum sjó við Helluna í gömlu vörinni undan Gerðinu í Herdísarvík. Hlín býður okkur til stofu. Skáldið situr í miklum leðurstól og hlýðir á söng. Hann er vel klæddur, rís á fætur við komu okkar og er sýnt að stórpersónuleiki hans er enn í fullu gildi. Hann tekur okkur með ljúfmennsku, býður okkur sæti og að hlusta á messulok. Hann er fyrstur í Selvogi að eignast útvarpsviðtæki, sem þá var mikið tækniundur. Hlín ber inn góðgerðir og skáldið gengur um gólf.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Á vordögum 1034 er ég kominn til tvisvar hjá húsbændum Herdísarvíkur, sem bera eindæma prersónuleika. Hlín var fædd 16. Nóvember 1976 í Bárðardal í Lundarbrekkusókn, dóttir Arnfríðar Guðrúnar Sigurðardóttur og Jóns Erlendssonar, skálds og alþingismanns að Garði í Kelduhverfi.
Á vordögum 1934 ber það til tíðinda að búskapur hefur lagst af á höfðubólinu Krýsuvík og útbýlum þess, þar með Nýjabæ. Eigandinn, Einar skáld, situr að búi sínu í Herdísarvík og framkvæmdarstjóri hans, Hlín Johnson, fær það viðfangsefni hvernig nýta megi hin gamalrónu tún. Henni verður efst í huga búdrýgindi af heysölu til þéttbýlis þegar hún bjó að Innrahólmi á Akranesi.

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

Ef það yrði endurtekið þurfti að gera akfæran veg frá Ísólfsskála til Krýsuvíkur. Hún fær vitkeskju um möguleika þess hjá manni er vel þekkti leið þessa. Hún gerir hann að verkstjóra vegagerðarinnar sem felst í því að breikka gamla veginn. Verkið reyndist erfiðast í Ögmundarhrauni en eftir það má þræða að mestu leyti melfláka til Krýsuvíkur. Hlín auglýsir eftir mönnum og velur úr stórum hópi tvo dugnaðarlega Arnfirðinga. Þeir komu til Herdísarvíkur og eru þar nokkra daga, einkum við að koma niður grænmeti í kálgarða. Þeir fara svo þaðan með verkstjóra sínum til vegagerðarinnar og verða þar oftast fjórir saman. Þeir hafa vagn og hest og vinna með skólfum og haka. Arnfirðingar komu aftur til Herdísarvíkur. Vegargerðarmönnum Hlínar tókst að koma á bílfærum vegi til Krýsuvíkur í þann mund sem túnsláttur í Nýjabæ er tímabær laust fyrir lok júlimánaðar. (Sjá einnig um vegaframkvæmdina (Hlínarveginn) í frásögn Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála).

Herdísarvík

Hlín Johnson og vinnufólk í Herdísarvík.

Baðstofuhús Nýjabæjar er fyrir skömmu yfirgefið og þokkaleg vistarvera þeirra vegagerðarmanna sem nú ganga til heyskapar á velsprottnu túni. Um fyrri hluta septembermánaðar eru tún Krýsuvíkur fullsprottin. Ganga þá sömu heyskapamenn til verks þar að viðbættum tveimur sláttumönnum frá Grindavík. Í Nýjabæ er aðsetur heyskaparmanna og afbragðs ráðskona sér um matreiðslu. Fullþurrkað hey er flutt frá Krýsuvík með vörubílum. Um arðsemi er ekki kunnugt en framkvæmdastjóri jarðeiganda, Hlín, fór með sigur að hólmi.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson – andlitsmynd
Ásmundur Sveinsson.

Er kom að heimatúnslætti að Herdísarvík sló ég með orfi og ljá en Hlín rakaði og saman unnum við að heyþurrkun og bindingu þess. Gott var að vinna fyrir og með Hlín sem ávallt ávarpaði mig með orðunum “gæskur”. Hún sagði mér frá harðri lífsreynslu sinni þegar hún bjó í Kanada og varð að reka nautgripi langar leiðir til vatns þega frost náði 40 gráðum. Og hún sagði mér frá yndilegum dögum þegar hún átti heima í Buenos Aires í Argentínu þar sem stórbændur voru svo gestrisnir að gera ráð fyrir umframmat daglega vegna gesta. Margir Evrópumenn misnotuðu þess rausn og urðu að iðjuleysingum.

Einar svaf vel út, en var oftast kominn á fætur uppábúinn um ellefuleytið. Hlín bar honum hádegismat í aðalstofu, sem var léttur og fábrotinn og miðaðist við heilsufar. Skáldið drakk hvorki kaffi né te en matnum fylgdi eitt til tvö staup af léttu víni, sem geymt var í 30 lítra glerkeri í litlu búri.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson.

Hlín distileraði það og deyfði niður í Spánarvínsstyrk og bragðbætti það með ýmsu jurtum. Þar stóð kanna á borði og lítil staup tiltæk handa skáldinu til vínneyslu samkvæmt læknisráði. Aldrei gekk skáldið þar inn en var neytandi fyrir milligöngu annarra.

Skáldið, sem hafði í einför glímt við fyrirbærið mannlíf í litríkri orðgnótt, var nú að ganga inn í einsemd mannlegrar hrörnunar með skuggum og skúraskini.
Hugstæðustu samskipti mín við skáldið í Herdísarvík áttu sér stað að kvöldi dags. Jón Eldon er ekki heima og Hlín er nýgengin út til að mjólka kýr sínar og ég er á leið út úr húsinu þegar Einar kemur úr aðalstofu og spyr hvort ég geti náð í staup fryrir sig. Ég hika, því þetta var ekki í mínum verkahring. Einar les hugsanir og segir: “Þú getur treyst því að hér fer allt að mínum vilja.” Ég fór snarlega í búrið góða og kom aftur með vel fullt staup í stofu Einars sem dreypir á vel og endurheimtir stórpersónuleika sinn.

Höfði

Stytta af Einar Benediktssyni við Höfða.

Einar skáld svaraði þeim er spurðu hann um andhverfu milli lífs og ljóðaspeki hans: „Þegar ég orti var ég með viti, en þegar ég lifði var ég vitlaus. Í mér búa tveir menn; annar er séntilmaður, en hinn er dóni. Þeir talast aldrei við“.

Tveimur árum síðar hefur skáldinu hrörnað svo að hann getur trauðla svarað spurningum nema með einsatkvæðisorðum.
Vist minni lauk í Herdísarvík við septembermánaðarlok en rétt áður varð ég meðreiðarmaður Hlínar til Hafnarfjarðar eftir veginum upp Selstíg og yfir Grindarskörð. Hlín átti þá erindi við bankastjóra og marga fyrirmenn.“

Lesbók Morgunblaðsins 9. okt. 1999 – Konráð Bjarnason, frá Þorkelsgerði í Selvogi.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.