Í jólablaði Víkurfrétta árið 1984 eru Ísólfur Guðmundsson og Herta Guðmundsson á Ísólfsskála heimsótt undir fyrirsögninni „Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt, Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita, vatns, rafmagns og símalaus“:
[Hafa ber í huga að ritstjórar og blaðamenn Víkurfrétta hafa í gegnum tíðina haft eingregin vilja til að heimfæra Grindavík upp á Suðurnesin, sem er gegn öllum fyrri heimildum. Efnisumfjöllunin sem slík á hins vegar erindi til almennings.]
Inngangur – Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt
Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita-, vatns-, rafmagns. Eins og flestir vita er þéttbýiasti staður landsins hérna á suðvestur horninu, og þvi teljast Suðurnesin vera með þéttbýlustu svæðum landsins. Er það þá ekki skritið, að á þessu svæði skuli finnast bóndabýli sem er aðeins 5 km frá einum af þremur kaupstöðum á svæðinu, þar sem heimilisfólkið verður að búa við einangrun oft frá hausti og fram á vor, vegna þess hve vegarsamgöngur eru slæmar? Þetta fólk, sem er hið eina á Suðurnesjum sem hefur afkomu sina eingöngu af fjárbúskap, verður einnig, þó það sé ekki lengra frá þéttbýli, að búa rafmagnslaust og vatnslaust meira og minna á hverjum vetri. Laugardaginn 1. desembersl. brutust Víkurfréttir á bíl með drifi á öllum hjólum til þessa fólks og tóku það tali, og birtist viðtalið hér á eftir. En fyrir þá sem ekki eru þegar farnir að renna grun um hverja er verið að tala, skal þess getið að hér er átt við hjónin Ísólf og Herthu Guðmundsson, að Ísólfsskála við Grindavík.
Ferðin að Ísólfsskála gekk nokkuð vel, þó var það ansi skrítin tilfinning í þessu góða veðri, að á Grindavíkurveginum frá Seltjörn og upp undir Gíghól [Gíghæð], var það þétt hrímþoka að aðeins var nokkurra metra skyggni.
Nú, eftir að henni lauk gekk ferðin vel. En til þess að komast að Ísólfsskála þarf að fara yfir Festarfjall og þar var algjörlega ófært fyrir venjulega fólksbíla, en fyrir þann farkost sem við völdum til fararinnar var þetta lítið mál. Þó voru kaflar sem voru afar slæmir jafnvel fyrir slíkan bíl.
Engu að síður tókst vel að komast á staðinn og eftir að hafa fengið kaffi hjá þeim hjónum var sest inn í stofu. Fyrst báðum við Ísólf að segja frá uppruna og sögu jarðarinnar.
„Ísólfsskáli er landnámsjörð, hér er ég fæddur og uppalinn“, sagði Ísólfur bóndi, „pabbi og mamma bjuggu hérna líka í 5 1/2 ár og afi bjó hérna. Hann var þrígiftur og átti 33 börn og eitt á milli kvenna, þannig að börnin voru 34. Hann hóf búskap að Hjalla í Ölfusi og þaðan fluttist hann að Breiðagerði á Vatnsleysuströnd. Þá fluttist hann að Vigdísarvöllum, bjó þar í nokkur ár. Síðan fluttust þau hingað og hér létust þau. Eftir það var Skálinn í eyði í 3 ár, en eftir það var Brandur bróðir hans pabba hér í 3 ár, en þá flutti pabbi hingað úr Grindavík 1916 og bjó hér eins og áður segir í 51 1/2 ár.
Mamma var gift áður, en við systkinin erum 11 á lífi, 5 hálfsystkini og 6 alsystkini. Eitt, þ.e. elsta hálfsystkinið, er nýlega dáið, en hann bjó hérna í Grindavík. Fyrst þegar pabbi kom hérna þá var þetta eiginlega ekki árennilegt, þetta var nú ekki annað en smá túnsnepill sem náttúrulega varð að slá með orfi og ljá eins og það gerðist í gamla daga, og þá setti hann á þetta eina belju og 10 gemlinga, og ég held að hann hafi fengið eitthvað um 20-25 hesta af heyi af þessu með því að slá þetta með orfi og ljá og kroppa þetta saman. Nú eru túnin með því sem hann stækkaði og ég líka, orðin um 40 hektarar, að mér er sagt. Þar af leiðandi hefur þetta stækkað smátt og smátt, en erfiðleikar fyrst voru miklir hérna varðandi það að rækta þetta, því að hér voru sandur og melar og varð að tína ofan af þessu grjót með handafli og grafa það niður til þess að losna við það, eða þá að bera það út fyrir í hauga.
Svo eftir að ýturnar komu þá fengum við ýtu hingað tvívegis til að ýta hérna melum og með því móti gátum við ræktað töluvert svæði hérna og þetta hefur þróast svona. Núna er ég eingöngu með fé, hátt á þriðja hundrað, en þetta fer að verða nokkuð mikið, því fóðurverð hefur hækkað mikið og þetta því orðið nokkuð dýrt. Ég keypti áburð í fyrra fyrir 60 þúsund. Svo keypti ég aftur í vor og þá fyrir 120 þúsund, og það var ekki nema 3 tonnum meira, svo á þessu sést hvað allt hefur hækkað“.
-Eru þeir ekki orðnir fáir hér á Suðurnesjum sem lifa á búskap?
„Þetta er eina lögbýlið sem er eingöngu með fjárbúskap, en þeir eru fleiri með fé hérna í Grindavík og á Vatnsleysuströnd. Eru það aðallega bræðurnir á Efri-Brunnastöðum sem eru með margt fé. En fé hefur fækkað á skaganum undanfarin ár, því mér var sagt að 1922 hefði verið 22 þúsund fjár hérna á Reykjanesskaganum og 100 hross í fjalli, auk þess sem allir bændur voru með beljur, eina, tvær og þrjár, en núna er ekki nema líklega 3 þúsund kindur á þessu svæði. Er þetta yfirleitt komið heim í rétt eða hólf við fyrstu eða aðra rétt og ekkert beitt yfir vetrarmánuðina, en áður fyrrgekk þetta fé úti allt árið og svo á sumrin suður í Selvogi eða Ölfusi. Nú eru menn að tala um ofbeit, en það er ekki fyrir hendi, því undanfarin ár hafa verið köld, eins og t.d. í fyrra þegar heyin hröktust ekki einu sinni á túnunum, því þau voru eins og í kæliskap og í sumar hröktust þau meira, því það var heitara og í sumar var gott sumar hvað sprettu snertir“.
-Hefur þú hér einhver önnur hlunnindi, s.s. reka?
-„Nei, að vísu rekur hérna smávegis af belgjum og plastkúlum, en maður verður eiginlega að passa þetta þvi það er svo mikið af fólki sem gengur um og annað hvort hirðir þetta eða þá hreinlega gengur vopnað um og skýtur þetta og eyðilegur, og það er það sem gerir það að verkum að þessi umferð hérna er ekki góð þegar menn skemma svona mikið í kringum sig. Það væri allt í lagi með þessa umferð, ef það væru almennilegir menn sem gengju um þetta“.
-Nú er aðeins korters keyrsla til Grindavíkur, búið þið við einangrun?
-„Það eru 5 km héðan til Grindavíkur, en þeir hafa aldrei verið það framfærir menn að þeir legðu rafmagn þessa leið. í upphafi uppistóð oddviti Grindavíkur ásamt nokkrum úr hreppsnefndinni sem þá var, að hreppurinn keypti ljósavél, 10 ha. Lister og aðra að Stað við Grindavík, því þá var búið á þessum tveimur bæjum. Nú, það var náttúrlega betra að hafa þessar vélar en myrkrið, en þær reyndust mjög illa, að minnsta kosti þessi hérna, því að það var rétt að maður gat haft ljóstýru af henni, annað ekki“.
-En hvernig eru þessi mál núna?
-„Ég hef mikið rifist út af þessu bæði við þingmenn og aðra. En þingmennirnir virðast ekkert gera fyrir mann. Eins hef ég rifist við bæjarstjórn og bæjarráð og hafa þeir sýnt þessu máli nokkurn skilning. Keyptu þeir vél, að vísu gamla og gerðu hana upp, og létu mig hafa hana. Verð ég síðan að sjá um rekstur á henni, og núna sl. sumar fór rafall í henni og þá kostaði 26 þúsund að láta gera við vélina fyrir utan rafvirkja sem ég varð að fá til að rífa hana í sundur og setja saman aftur. Kostaði þetta því stórfé. Tel ég þetta vera algjörlega ófullnægjandi að hafa þessa ljósavél, því að í 3 mánuði á síðasta ári vorum við hitalaus og vatnslaus vegna bilunar, því ef vélin ekki snýst, er allt stopp“.
-Hvernig eru þá símamálin?
-„Fyrst var hérna bara „bretasími“ sem var lagður á jörðina og var hann í lagi ef logn var, en ef það gerði vind þá hristist hann og skarst í sundur á jörðinni.
Nú, einu sinni fór ég að rífast í því að fá síma, við Ólaf heitinn Thors rétt fyrir kosningar. Spyr ég hann um símann og sagðist hann skyldi athuga það. Svo varð nú ekkert úr því, nema að ég var með þennan helv … bretasíma sem á höppum og glöppum í lagi. Nú, svo koma kosningarnar og þá er ég staddur í Grindavík og þá er Ólafur þar. Þá segir einn við hann: Hvernig heldur þú að kosningarnar fari núna, Ólafur? Ja, ætli það rokki ekki til eins og vant er, segir Ólafur. Ja, þú átt nú einn þarna, og bendir á mig.
Ja, ég segi þá við hann að ég lifði nú ekki á lygum og svikum. Þá segir Ólafur og ræskti sig: Ég man nú ekki eftir því aö hafa lofað þér þessu, en þetta kom til tals. Já, en ég vil nú að það sé byrjað á að mæla fyrir þessu. Nú, daginn eftir komu verkfræðingar og byrjuðu að mæla fyrir þessu, og síðan kom síminn“.
-Þannig að síminn hefur komið vegna kosningaloforðs Ólafs Thors?
-„Já, en það gildir ekki varðandi þá þingmenn sem nú eru, t.d. varðandi rafmagnið, því ég hef talað við þá marga, bæði Gunnar Schram og fleiri. Þeir virðast engir vilja vinna fyrir okkur, við eigum enga þingmenn núna, sem vilja starfa fyrir kjósendur sína, eins og virðist þó vera varðandi aðra landshluta. Þar koma þingmenn vilja kjósenda á framfæri og efna loforðin. Enda leggja þessir þingmenn rafmagn og láta byggja brýr o.fl., en þingmenn okkar gera ekki neitt“.
-Þrátt fyrir það að aðeins 5 km séu til Grindavíkur, þá er oft ófært hingað svo mánuðum skiptir og þið því algörlega einangruð?
-Já, 1932 þegar þetta hús var byggt hérna, var enginn vegur hingað og þá þurfti að leggja veg til að koma efninu í húsið. Þá fóru pabbi og systkinin í þáð að ryðja veg og voru allirsneiðingar handmokaðir, fyrst brekkurnar til að komast upp og svo aftur niður. Svo fengum við hálfs annars tonna vörubíl til að koma hingað með efnið í sperrurnar og sementið. Gekk ágætlega að komast hingað niður, en verra að komast upp aftur, því það var svo laust í brekkunum. Enduðu mál með því að farið var ofan í Grindavík til að fá skipshöfn af bát til að koma hingað. Lentu þeir í fjörunni og síðan ýttu þeir bílnum upp brekkurnar“.
-Eruð þið þá í algjörri einangrun frá hausti til vors, og haf ið því engin tök á að nýta ykkur þá þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á?
-„Nei, þeir hafa nú komið hingað og rutt veginn t.d. ef ég verð rafmagnslaus og eins ef mig hefur vanhagað um eitthvað sérstakt. Það er hins vegar útilokað i sambandi við slysahættu og annað að hafa engar samgöngur við Grindavik, því hér er heldur hvergi hægt að koma aö af sjó. Enda sýndi þaö sig einu sinni, er ég var vakinn hér upp um miðja nótt, að þá hafði maður sem ætlaði á bát úr Grindavík til Eyrarbakka orðið að taka land hérna fyrir neðan vegna bilunar á vél. Var hann orðinn það kaldur að ef hér hefði ekki verið fólk, þá hefði hann ekki lifað þetta af. Á þessu sést að nauðsynlegt er að hafa byggð hérna. En það væri ekkert vandamál, ef hér væri rafmagn, en það ástand sem er á þeim málum háir manni bæði varðandi féð og annað. Hér vill fólk reisa sumarbústaði og laxeldi, og einnig hafa menn viljað fá að búa hér, en þetta strandar allt á rafmagninu, því þetta er mátulega langt frá þéttbýliskjarnanum“.
-Hvað myndi ske ef hér kæmi upp eldur að vetrarlagi?
-„Þá er annað hvort að reyna að slökkva sjálfur eða reyna að fá hjálp með því að hringja, svo framarlega sem síminn er ekki bilaður“. Til að geta lifað í slíkri einangrun, verðið þið ekki að lifa eftir öðrum kenningum en aðrir íbúar í þessum mikla þéttbýliskjarna sem Suðurnes eru?
-„Jú, lífið hér byggist upp á því að vera sjálfum sér nógur og geta bjargað sér, hvað sem kemur fyrir“.
-Hvað gerið þið af ykkur í ykkar frítíma?
-„Hér er engin leið að sjá sjónvarp. Hafa þeir frá sjónvarpinu komið til að mæla það út, en fjöllin virðast skyggja á, þannig að í sjónvarp næst ekki nema til komi sendir til að endurvarpa t.d. frá Grindavik. Annars líður dagurinn þannig, að ég er allan daginn yfir fénu, síðan matast maður og sefur, eða þá að maður lítur í bók. Við erum afskipt af öllum félagsmálum. Hitt er verra, að hingað hefur á undanförnum áru
m komið mikið af alls konar óþverralýð, sem hafa verið að skjóta hér og eyðileggja. Skotið hefur verið á húsin hér, jafnvel þó fólk hafi verið í þeim, á fjárhúsin. Einu sinni skutu þeir rétt yfir konuna þegar hún var hér uppi við hjalla, en þá var ég í grenjaleit. Eru því víða för eftir kúluskot hér á húsunum. Virðast þetta vera einhverjir vitleysingar. Sem dæmi get ég sagt að hér verpir mikið af fýl og eitt árið sem það var mjög áberandi, óku þeir hér um og skutu fuglinn út um bílgluggann og létu hræin liggja síðan tvist og bast. Þessir menn virðast geta fengið byssuleyfi hvenær sem þeim dettur í hug, án þess að hafa ákveðin skotsvæði í huga. Sama er með selinn, hann flýtur hér um allar fjörur eftir að hafa verið skotinn af þessum mönnum“.
-Að lokum?
-„Það verður að fá hingað rafmagn. Það er helv… hart aö þurfa að eyða 1600 lítrum af olíu á mánuði. Þó maður fái þennan olíustyrk þá dugar þaö ekki. Samt reynir maður að spara olíuna eins og hægt er. Nú hefur hún hækkað enn, og þá sjá menn hvað þetta gildir. Svo það, að halda þessari vél gangandi, þetta eyðileggst og því þarf að endurnýja það. Nú, svo ef eitthvað bilar, þá kostar þetta tugi þúsunda, svo það er útilokað fyrir einn mann að standa undir þessu helv. … nema að þingmenn eða einhverjir menn hafi það að markmiði eins og í öðrum byggðarlögum, að leggja hingað rafmagn“.
Húsfreyjan á Ísólfsskála heitir Hertha Guðmundsson. Við spurðum hana hvernig henni fyndist að búa þarna.
„-Mér líkar það alls ekki illa. Ef hér væri bara meiri hiti í húsinu og meira rafmagn, þá væri þetta allt í lagi, en eins og nú er getum við ekki haft nein raftæki, t.d. er frystikistan geymd í húsi í Grindavik“.
-Eru rafmagnsmálin þá aðalvandamálið hérna?
-„Já, ljósavélin bilar oft, þá erum við gjörsamlega hitalaus, vatnslaus og ljóslaus. Það hefur oft komið fyrir að maður hefur verið 3-4 mánuði vatnslaus og þá lifir maður bara af rigningarvatni og þá er ekki hægt að hugsa um þvott, nema þá sem fátækraþvott eins og hann var í gamla daga. Fólk í Grindavík hefur oft boðið okkur að þvo fyrir okkur. En þetta finnst mér það versta við að vera hérna. En vatnsskorturinn stafar af því að í rafmagnsleysinu er ekki hægt að dæla vatninu og því verðum við að notast við rigningarvatnið. Það hefur því komið fyrir að við höfum þurft að fá vatn til neyslu frá Grindavík“.
-Finnst þér ekkert bagalegt að missa af ýmsu sem gerist í félagsmálum?
-„Jú, mann langar nú stundum að komast í samband við fólk eða á samkomur eða annað því um líkt. Við vitum ekkert um þau mál“.
-Hvernig er þá um háveturinn, leiðist ykkur ekkert?
-„Jú, það kemur stundum fyrir, sérstaklega ef símasambandslaust er. Þessi mál hafa nú lagast stórlega eftir að Keflavíkursímstöðin tók við þessum málum. Þær hafa oft samband við okkur eftir slæm veður til að athuga hvort allt sé í lagi. Það er mikil bót“.
-Hvernig líður dagurinn hjá þér?
-„Ég er mikið í handavinnu, sauma, hekla og les töluvert. Ég fæ bækur að heiman og les þær. Svo er maður allan daginn að hugsa um skepnurnar því það er afkoman okkar“.
-Nú ert þú þýsk að uppruna, hefur þú samband við Þýskaland?
-„Já, já, við höfum mikið samband, og margt fólk sem kemur hingað á sumrin kemur við hérna. Síðan hef ég mikið samband við þetta fólk“.
-Hvernig komst þú hingað til lands?
-„Ég kom hingað til lands í gegnum ráðningu hjá Jóni Helgasyni núverandi landbúnaðarráðherra, en hann var þá í Lubeck að ráða fólk til Íslands. Þetta var árið 1949. Kom ég hingað til lands með gamla Maí frá Hafnarfirði. Höldum við enn kunningsskap þrenn hjón sem eins var með, þ.e. konan kom með togaranum hingað til lands. Voru þetta mikil viðbrigði að koma hingað, með mínar minningar, og setjast svo að á sveitabæ sem var svona afskekktur, því ég kom beint hingað að Ísólfsskála. Var þetta allt mjög nýtt fyrir mér, þó ég hafi alist upp á sveitabæ, þó voru viðbrigðin kannski ekki alveg eins mikil og þau hefðu getað orðið að koma hingað. Ég er mikið náttúrubarn og finnst gott að vera mikið úti. Ég gæti ekki hugsað mér að vera alltaf inni“.
-Hvað finnst þér um Íslendinga sem Þjóðverji?
-„Íslendingar eru ágæt þjóð að sumu leyti, en ég held að þeir kunni ekki að hagræða hagsmunum sínum rétt. Þeir hafa of fljótt orðið ríkir að loknu stríðinu og hafa síðan átt erfitt með að halda á peningamálum sínum“.
-Að lokum?
„Ég vil óska öllum kunningjum okkar og vinum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs“.
Þetta fólk býr eins og fram kemur við mikla einangrun, þó það sé aðeins um 5 km frá Grindavik. Það sættir sig við að vera meira og minna innilokað, en rafmagnsmálin eru aftur á móti mikið mál hjá þeim, enda furðulegt að það skuli ekki vera fyrir löngu búið að leggja rafmagn í þessa átt út frá Grindavík eins og í hina áttina. Eins er það mikið öryggismál bæði fyrir þau og sæfarendur, að lagður verði upphækkaður vegur þarna, sem ekki væri eins snjóþungur og sá sem nú er, því þarna fyrir utan eru mið bátaflotans og því þarf að vera akfært þarna, ef eitthvað ber út af, t.d. skipsstrand eða annað því um líkt. Enda ófært að slíkar vegsamgöngur skuli vera hér á einum mesta þéttbýliskjarna landsins. – epj.
Heimildir:
-Víkurfréttir, jólablað, 47. árg. 13.12.1984, Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt, Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita, vatns, rafmagns og símalaus.
-Morgunblaðið, 28. tbl. 03.02.1965, Gengið á fjörur, bls. 12.