Færslur

Mosfellssveit

“Leirurnar við Leiruvog hafa ætíð laðað að sér ríðandi fólk, bæði það er átti erindi milli héraða og þess sem vildi nota sléttar og mjúkar skeiðflatir. Þar var hægt að spretta úr spori eða stefna til hestaats. HestaþinghóllHestaþing, hestaat eða hestavíg voru samkomur þar sem menn öttu saman stóðhestum og létu þá bítast og slást. Stórir og reisulegir graðhestar voru valdir til að kljást og höfðu jafnvel verið þjálfaðir til slíkrar iðju. Nauðsynlegt þótti að leiða að þeim hryssur til að koma þeim í vígamóð. Þessi siður mun hafa flust með landnámsmönnum frá Noregi og þótti það hin besta skemmtun að koma saman og sjá þessar stóru og fallegu skepnur kljást, með prjóni, spörkum og biti. Hið viðkunnulega hnegg hestsins hvarf og öskur, frýs og fnæs komið í þess stað.
Þegar komið var ríðandi að Leiruvogi mátti stundum á fyrri tíð sjá fjölda manna og hesta við Hestaþinghól sem er stór tangi eða sandhóll og skagar fram í sunnanverðan Leiruvog, vestan við svonefndan Surtteig í landi Varmár. Engar skjalfestar sögur eru til um hestaat við Leiruvog og ekki er vitað hve lengi Mosfellingar stunduðu þar hestaat. Þó er líklegt að það hafi verið eitthvað fram yfir siðaskipti á 16. öld.
Í prestastefnusamþykkt Hestaat á ÞingvöllumOdds biskups Einarssonar (1559-1630) frá 1582 er amast við ýmsum leikjum og skemmtun alþýðunnar. Í skjali þessu, sem nefnt hefur verið Kýraugastaða-samþykkt, skyldu prestar setja út af sakramenti alla þá er færu með kukl, rúnir, ristingar, særingar og kveisublöð. Einnig skyldu prestar banna hestaþing, vökunætur og smalabúsreiðar á helgum dögum, hvort heldur að nóttu eða degi að viðlagri klögun til sýslumanns. Síðasta hestaat, sem sögur fara af, var háð árið 1623 að Illugastöðum í Fnjóskadal.
Það eina sem minnir á hestaat í Leiruvogi er örnefnið Hestaþinghóll. Það fer sérlega vel á því að örskammt þaðan er kappreiðarvöllur Hestamannfélagsins Harðar og hesthúsahverfi Mosfellinga. Áður komu menn saman til að horfa á stóðhesta í vígaham við Hestaþinghól og enn njóta Mosfellingar samskipta við þarfasta þjóninn á þessum slóðum.”
HestarVarla þarf að taka það fram að svæðinu hefur verið raskað verulega frá því sem áður var.
Hestaþingsflatir eru til í Hlíð í Grafningi. Þær eru nokkuð stórar valllendisflatir, niður undan Hellisgili, með gulvíðisrunnum í kring. Þar var áður haldið hestaþing. Hestaþingshóll er í landi Kaldaðarness í Flóa. Þar voru háð hestaþing til forna. Ef til vill hefur það einmitt gerst þar að Jóra bóndadóttir trylltist er hún sá hest föður síns bíða lægra hlut fyrir öðrum. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru tveir Hestaþingshólar þekktir, annar fyrrnefndur í landi Varmár, tangi út í Leiruvog. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að vera (Örnefnaskrá). Hinn Hestaþingshóllinn er á Eyri í Kjós.
Þá segir svolítið meira frá síðasta hestaatinu þótt ekki hafi það verið á Reykjanesskaga, ef frá Hestaþinghóller talið hestaatið á Þingvöllum 1930. “
Flaustur nefnist fornbýli um 17 km. sunnan við Reyki. Þar sést vel til mikilla tótta og garða, og telja munnmæli að verið hafi kirkjustaður og stórbýli með átján hurðir á járnum. Átján hurða sagan gengur líka um Skarðssel sem stóð 7 km. norðar. Sléttlendi og engjar eru um Flaustur, þar nefnast Flausturbalar með ánni. Skammt þar utan við heitir Vindhólaskál í fjalli og Vindhólanes við ána. Þar var háð síðasta hestavíg á Íslandi upp úr 1600 og sér enn garðinn um leiksvæðið.  Ástæður hestavígsins voru ósætti milli Sveins ríka á Illugastöðum og eyfirsks stórbónda.  Af Sveini ganga miklar sagnir og talið var að hann hafi átt 500 sauði þegar flest var, auk annars fjár.  Sveinn var talinn forspár því hann seldi alla sauði sína haust eitt fyrir fellisvetur. Örlög Sveins urðu að hann drukknaði í kíl einum milli Illugastaða og Kotungsstaða sem síðan er nefndur Sveins kíll. Talið er að Sveinn hafi falið fé í jörð í landi Illugastaða og er það þar enn fólgið.”

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 31.
-(Jón Sigurðsson, Saga þingeyinga III. S. 150 og 146)
www.arnastofnun.is
-Hallgrímur Óli Helgason.
-Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur I, 173-175.

Steðji

Steðji í Kjós.