Færslur

Þórkötlustaðanes

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1992 ritar Hinrik Bergsson viðtal við Júlíus Danílesson um “Útgerðarsögu í Þórkötlustaðanesi“.

Hinrik Bergsson“Óljóst tengjast bernskuminningar mínar, ferðum suður í Þórkötlustaðarnes með bræðrum mínum og frænku, til að færa föður okkar mat eftir róður eða beitningu, og kannski var rennt fyrir smáufsa af bryggjusporðinum í leiðinni. Seinna, þegar ég fór að vinna í tímavinnu hjá Hraðfrystihúsi Þórkötlustaða, minntist ég sögusagna mér eldri manna sem tóku þátt í sjósókn og uppbyggingarstarfsemi og síðan endalokum útgerðar í Nesinu.
Það teygðist því stundum úr kaffitímunum við frásagnir af sjóróðrum, vinnu, fólki og spaugilegum atburðum.

Grindavík

Hraðfrystihús Þórkötlustaða – Byggt 1946 og tók til starfa 1947.

Þarna voru menn að minnast sinna mestu manndómsára, þegar þeir voru flestir í útgerð og sjósókn og voru sínir eigin herrar.
Þeim fækkar nú óðum sem róið hafa ur Nesinu og á síðasta ári lést Magnús Þórðarson frá Búðum, en hann lifði lengst þeirra formanna sem reru úr Nesinu. Til að koma á blað þessu tímabili í útgerðarsögu Grindavíkur átti ég tal við Júlíus Bjargþór Daníelsson. Hann er fæddur 27. ágúst 1910 og er sonur hjónanna Daníels Daníelssonar og Þóru Jónsdóttur frá Garðbæ.

Allur fiskur seilaður upp

Þórkötlustaðanes
Frá því ég man fyrst eftir mér réru Þórkötlungar úr Buðlungavör (buðlungur=fiskhlaði), og voru að jafnaði gerðir út 5 tíæringar á vetrarvertíðum en í vertíðarlok sem ávallt var 11. maí, var þeim hvolft í naust fyrir ofan vörina en minni skip sexróin, voru notuð á sumrin og haustin, segir Júlíus er hann rifjar upp liðan tíma.

Grindavík

Áttæringar í Nesi.

Árið 1929 komu fyrstu vélarnar í skipin í Þórkötlustaðahverfi. Þá var Þórkatlan keypt af Jóni bróður mínum og fleirum og með þeim byrjaði ég að róa ári síðar suður í Nesi. Í fyrstu var engin bryggja, lent var í Nesvörinni og allt seilað upp. Þá var eitt færið bundið upp í hnykil og alar seilar bundnar saman og tvær laggarbaugjur settar við og rakið ofan af hnyklunum þar til komið var inn í vörina, þá var vaðið í land og skipið strax dregið á land með spili sem knúið var af líkamskraftinum. Síðar kom vélspilið sem létti mikil setninguna.
Upp úr vörinni fóru fljótlega að rísa fiskverkunarhús, beitningarskúrar, ískofar sem beitugeymsla og lifrarbræðsla. Þá voru þrjú íbúðarhús byggð í Nesinu; Höfn, Arnarhvoll og Þórshamar.

Byrjað á bryggjusmíði

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Nesi.

Vorið 1932 var fyrst farið að huga að bryggjusmíði og var hún staðsett um 35 metra sunnan gömlu bátavararinnar og unnið við hana í tvö sumur.

Þórkötlustaðanes

Uppsátu í Nesinu norðan við bryggjuna. Höfn fjær.

Bryggjan var þannig að byggð, að í henni voru steyptir veggir, grjótfylling og steypt þekja og hallaði hún fram í sjó. lengdin var 70 m. og breiddin 8 m.
Kostnaður við bryggjugerðina var 37 þús. kr. Ríkið greiddi þriðjung kostnaðar en heimamenn 2/3, sem tíðkaðist á þessum tíma. Bryggjusmíðin tókst vel í alla staði og hún gjörbreytti allri aðstöðunni til hins betra. Erfiður uppburður á fiski var nú úr sögunni, því nú fóru bílarnir fram á bryggjuna og fluttu fiskinn beint úr bátunum. Þá voru steyptir stokkar með eikarhlutum norðan við bryggjuna ári síðar, til að setja bátana á. Fljótlega kom í ljós að bryggjan náði oaf stutt fram, bátarnir flutu ekki upp með henni þegar lágsjávað var og eins var sker fyrir framendanum sem var til mikilla óþæginda.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Því var farið að huga að lengingu bryggjunnar, en það var ekki fyrr en árið 1945 sem hún var lengd með 20 m löngu keri sem steypt var af heimamönnum á stokkum norðan við bryggjuna. Þessi síðasta framkvæmd í nesinu kom ekki að miklum notum því margir voru þá komnir í bretavinnuna og ári síðar var Hraðfrystihús Þórkötlustaða stofnað. Það voru því aðeins Guðmundur Ben. á Svani, Magnús í Búðum á Sæbjörgu og Haraldur á Eyvindarstöðum á Vini sem gerðu þarna út eina vetrarvertíð, en örlög útgerðar í Nesinu voru brátt ráðin, því öll skipin voru seld og enginn þeirra sem gerði þar út flutti sína útgerð út í Hópið í Járngerðarstaðahverfið, nema óbeint sem hluthafar í Hraðfrystihúsinu.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – Uppdráttur ÓSÁ.

Þegar mest var hins vegar í útgerð í nesinu voru 11 skip gerða þaðan út og þá voru umsvifin ekki minni en í Járngerðarstaðarhverfinu.
Byggðin drógst saman, fiskhúsin voru rifin og sjö íbúðarhús voru flutt úr Nesinu og Hverfinu og nú líktist Nesið stóru byggðarsafni frá fjórða áratugnum. Þannig fylgir búsetan örlögum atvinnuháttanna. En í Nesinu hefur ávallt verið mikil happalending, eins og þessi gamla þjóðsaga um sundin á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum vitnar um.

Þjóðsagan um sundin
Þórkötlustaðanes
“Í fyrndinni voru aðalhöfuðbólin í Grindavík, hvort við sitt sund, Járngerðarstaðir við samnefnt sund og Þórkötlustaðir við sitt sund. Ekki er getið nafna bændanna á höfuðbólum þessum, en konurnar hétu, Járngerður á Járngerðasrtöðum og Þórkatla á Þórkötlustöðum.
Engir aukvisar munu bændurnir þó hafa verið, þótt nafna þeirra sé ekki getið, því þeir höfðu mannaforráð, svo sem betri menn höfðu, og stjórnaði hvor sínum bát, af kappi miklu, þannig, að þeir fóru lengra og sóttu meira en fjöldinn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðslan.

Einhverju sinni, þegar flestir Grindvíkingar voru á sjó, bar það til, að sjó tók að brima, sem kallað var, þ.e., þegar aldan vex svo að hún fer að brotna yfir leiðina (sundin). Bátarnir höfðu fljótlega farið að leita lands og allir verið komnir í land, þegar þeir heimabændurnir komu hvor í sínu sundi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðslan.

Þá gerðist það, að bóndi Járngerðar fórst með allri áhöfn á Járngerðarstaðasundi, en bóndi Þórkötlu hafði komist klakklaust inn Þórkötlustaðasund.
Hitnað mun þeim frúnum hafa í hamsi við að bíða eftir afdrifum bænda sinna, því eftir að séð var, að maður Járngerðar hafði farist á Járngerðarstaðasundi, lagði hún það á, að á því sundi skyldu farast 20 bátar. Aftur á móti lagði Þórkatla það á, að á Þórkötlustaðasundi, réttförnu, skyldi enginn bátur farast.
Þetta þykir allt hafa orðið að áhrínsorðum, þannig að enginn bátur hefur farist á Þórkötlustaðasundi.”

250-400 fyrir vertíðina

Þórkötlustaðanes

Vélspilið á Nesinu.

Margi vermenn komu í Nesið oft ára eftir ár. Þetta voru mest aðkomumenn autan úr sveitum, úr Hreppunum, Tungunum og alla leið autan úr Skaftafelli. Þeir reru á vetrarvertíðinni frá því seinni partinn í janúar og fram til 11. maí. Það fiskaðist oft mjög vel á þessum árum og oft var tvíróið sama daginn.
Ég man eftir því, segir Júlíus, að eina vertíðina fengum við 500 skipspund af þurrfiski, þ.e. 160 kg. í hverju pundi. Eitthvað nálægt 80 tonnum. Menn voru yfirleitt ráðnir uppá kaup frá 250 upp í 400 kr. fyrir vertíðina, sem hélst fram undir stríð.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðabæirnir.

Tíðarfarið var ákaflega misjafnt þá eins og nú. Þetta var brimverstöð og sundið varasamt en með gætni og varkárni fór allt vel og ekki veit ég til að skip farist á Þórkötlsutaðasundi og það gengið eftir sem segir í þjóðsögunni.
Ég kveð Júlíus Daníelsson á heimili hans á Hrafnistu í hafnarfirði. Hans minni er enn gott og hann hefur frá mörgu að segja frá liðnum tíma. M.a. sína eigin útgerðarsögu eða þátttöku hans við hin ýmsu skipsströnd en Júlíus var einn af þeim sem björgðu skipverjunum af Cap Fagnet þann 24. mars 1931 og er annar núlifandi þeirra björgunarsveitarmanna. Þá var fluglínutæki í fyrsta sinn notað við björgunarstörf hérlendis.” – Hingrik Bergsson

Heimild:
-Sjómanndagsblað Grindavíkur 1992, Hinrik Bergsson, Útgerðarsaga í Þórkötlustaðanesi, bls. 35-36.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.