Færslur

Hjarðarhagi

Á bak við húsið nr. 13 við Hjarðarhaga í Reykjavík er stakur álfasteinn. Þrátt fyrir hús allt um kring og snyrtar lóðir umleikis hefur steinninn fengið að vera óhreyfður.
ÁlfasteinninnHalldóra Aðalsteinsdóttir man vel eftir þessum steini þótt sé komin yfir áttrætt. Hún fæddist 16. júní 1927 á Lindargötu 7 (í dag nr. 23) og fluttist 10 ára gömul í verkamannabústað á Hofsvallagötu 15. Þegar hún giftist Magnúsi Þorbjörnssyni fluttist hún á heimili hans að Fálkagötu 22. Þar var Magnús fæddur og uppalinn og bjó í 71 ár.
Halldóra býr nú í fjölbýlishúsi við Kleppsveg, gegnt Hrafnistu. Hún er enn vel ern. Í viðtali við Halldóru sagði hún frá álfasteini í holtinu sunnan við húsið og vestan við Laugarásbíó. Þá sagði hún einnig frá álfasteini nálægt Fálkagötu 22, sem hér verður getið:
“Áður en ég flutti á Kleppsveginn átti ég heima á Fálkagötu 22, þar sem eiginmaðurinn minn var alinn upp. Bakgarðar hjá okkur og hjá íbúum á Hjarðarhaga 13 lágu saman. Reyndar voru kálgarðar og smá búskapur þar þá, fyrst eftir að ég flutti á ÁlfasteinnFálkagötuna árið 1949. Ég tók strax eftir steini sem var þarna, og var hann ekki fjarlægður þó að fjölbýlishús væri byggt þarna síðar. Á þeim tíma var girðingin töluvert lægri en hún er í dag. Ég sá því þennan stein mjög greinilega.
Eitt sinn þegar ég horfði út um eldhúsgluggann á 2. hæðinni, sennilega í kringum 1960-1965, þá fannst mér ég sjá inn í þennan stein, skært kringlótt ljós, og fannst mér vera einhver hreyfing þar fyrir innan. Ég man þó nú óljóst eftir þessu, þar sem svo langt er síðan, en ekki ósvipað og þegar ég sá ljósið í klettunum við Laugarásbíó.
Afi mannsins mín, Magnús Magnússon, bjó í sama húsi og við og talaði hann oft um að þessi steinn væri “bústaður”, en þar sem ég hafði ekki mikinn áhuga á þessum steini á þessum árum, hlustaði ég ekki mikið  á gamla manninn. Við fyrrnefnda upplifun varð ég þó sannfærð um að hann hefði haft rétt fyrir sér.”
Þegar FERLIR skoðaði vettvang tók ekki langan tíma að hafa uppi á nefndum steini á bak við húsið að Hjarðarhaga 13. Þetta er jarðfast bjarg – dæmigerður álfabústaður.

Heimild:
Halldóra Aðalsteinsdóttir, f. 16. júní 1927 – í viðtali við FERLIR des. 2008.

Reykjavík

Reykjavík.