“Í aldarfarsbók þeirri, er Beda prestur heilagur gerði, er getið eylands þess er Thile heitir og á bókum er sagt, að liggi sex dægra sigling í norður frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetur og eigi nótt á sumar, þá er dagur er sem lengstur. Til þess ætla vitrir menn það haft, að Ísland sé Thile kallað, að það er víða á landinu, er sól skín um nætur, þá er dagur er sem lengstur, en það er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst. En Beda prestur andaðist sjö hundruð þrjátigi og fimm árum eftir holdgan dróttins vors, að því er ritað er, og meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Norðmönnum.
En áður Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn. Enn er og þess getið á bókum enskum, að í þann tíma var farið milli landanna.
Þá er Ísland fannst og byggðist af Noregi, var Adríánus páfi í Róma; þá var Haraldur hárfagri konungur yfir Noregi.
Svo segja vitrir menn, að úr Noregi frá Staði sé sjö dægra sigling í vestur til Horns á Íslandi austanverðu, en frá Snæfellsnesi, þar er skemmst er, er fjögurra dægra haf í vestur til Grænlands. En svo er sagt, ef siglt er úr Björgyn rétt í vestur til Hvarfsins á Grænlandi, að þá mun siglt vera tylft fyrir sunnan Ísland. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er fimm dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi (í suður; en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er) fjögurra dægra haf norður til Svalbarða í hafsbotn.
Svo er sagt, að menn skyldu fara úr Noregi til Færeyja; nefna sumir til Naddodd víking; en þá rak vestur í haf og fundu þar land mikið. Þeir gengu upp í Austfjörðum á fjall eitt hátt og sáust um víða, ef þeir sæju reyki eða nokkur líkindi til þess, að landið væri byggt, og sáu þeir það ekki.
Þeir fóru aftur um haustið til Færeyja; og er þeir sigldu af landinu, féll snær mikill á fjöll, og fyrir það kölluðu þeir landið Snæland. Þeir lofuðu mjög landið.
Þar heitir nú Reyðarfjall í Austfjörðum, er þeir höfðu að komið. Svo sagði Sæmundur prestur hinn fróði.
Maður hét Garðar Svavarsson, sænskur að ætt; hann fór að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús.
Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá
honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.
Garðar fór þá til Noregs og lofaði mjög landið. Hann var faðir Una, föður Hróars Tungugoða. Eftir það var landið kallað Garðarshólmur, og var þá skógur milli fjalls og fjöru.
Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill; hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar úr er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi; þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni. Með Flóka var á skipi bóndi sá, er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður, er þar var á skipi.
Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið.
En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: “Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnföll stór”. Síðan er það kallaður Faxaóss.
Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk
Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið.
Þeir Flóki ætluðu brutt um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf; hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs.
Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör.
Björnólfur hét maður, en annar Hróaldur; þeir voru synir Hrómundar Gripssonar; þeir fóru af Þelamörk fyrir víga sakir og staðfestust í Dalsfirði á Fjölum. Sonur Björnólfs var Örn, faðir þeirra Ingólfs og Helgu, en Hróalds son var Hróðmar, faðir Leifs.
Þeir Ingólfur og Leifur fóstbræður fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, og er þeir komu heim, mæltu þeir til samfara með sér annað sumar.
En um veturinn gerðu þeir fóstbræður veislu sonum jarlsins. Að þeirri veislu strengdi Hólmsteinn heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, en Leifur roðnaði á að sjá, og varð fátt um með þeim Hólmsteini, er þeir skildu þar að boðinu.
Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá, en þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót honum. Varð þá enn orusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.
En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virðist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.
Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking. Hann herjaði á Írland og fann þar jarðhús mikið. Þar gekk hann í, og var myrkt, þar til er lýsti af sverði því, er maður hélt á. Leifur drap þann mann og tók sverðið og mikið fé af honum; síðan var hann kallaður Hjörleifur.
Hjörleifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé; þar tók hann þræla tíu, er svo hétu: Dufþakur og Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór og Drafdittur; eigi eru nefndir fleiri. En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.
Þenna vetur fékk Ingólfur að blóti miklu og leitaði sér heilla um forlög sín, en Hjörleifur vildi aldri blóta. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands.
Eftir það bjó sitt skip hvor þeirra mága til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra, og lögðu til hafs, er þeir voru búnir.
Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár.
Þeir höfðu samflot, þar til er þeir sá Ísland; þá skildi með þeim.
Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.
Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs.
Eftir það fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan.
Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.
Þeir Ingólfur höfðu með sér konur þeirra, er myrtir höfðu verið; fóru þeir þá aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.
Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.”
Getur verið að þá og þegar hafi fólk staðið á ströndinni þar sem Reykjanesskaginn er nú og horft forvitnum augum á skip Ingólfs þar sem því var siglt skammt utan við á leið hans til Reykjavíkur?
Heimild m.a.:
-http://anamnese.online.fr/islensk/textesis3.html