Tag Archive for: Hlaðgerðarkot

Mosfellsdalur

Í vestanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

„Velkomin í Mosfellsdal.

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – skilti.

Mosfellsdalur er umkringdur fjöllum, í norðri rís Mosfell (276 m.ys.) en að austanverðu eru Grímannsfell eða Grímarsfell (484 m.y.s.), Æsustaðafjall (220 m.y.s.) og Helgafell (217 m.y.s.). Talið er að jökullón hafi fyllt dalinn á ísöld og skýrir það mikið jarðvegsdýpi á dalbotninum. Hann var fyrrum mýrlendur en ræktaður upp smám saman ogvar lagður akvegur eftir miðjum dalnum um 1930 en áður lá leiðin meðfram fjöllunum.

Tvær ár renna um Mosfellsdal, Kaldakvísl að norðanverðu og Suðurá um sunnanverðan dalinn. Þær fallast í faðma hér skammt frá í svonefndum Víðiodda og renna til sjávar í Leiruvogi undir nafninu Kaldakvísl.

Mikill jarðhiti er í suðurhluta Mosfellsdals. Jarðhitinn var á sínum tíma virkjaður og vatninu dælt um Skammadal og áfram til Reykjavíkur.

Í Mosfellsdal eru starfrækt vistheimili. Í Reykjadal er starfrækt heimili fyrir fötluð börn. Í Hlaðgerðarkoti er meðferðarheimili og í norðanverðum dalnum gnæfir Mosfellskirkja á háum hól. [Tjaldanes var heimili þroskaheftra drengja í Mosfellsdal þar til í maí 2004.]

Mosfellsdalur

Í Mosfellsdal.

Landbúnaður var fyrrum blómlegur í dalnum en nú er hefðbundinn búskapur að mestu aflagður, sauðfé er á örfáum bæjum og á Hrísbrú er rekið eina kúabúið í sveitarfélaginu. Í dalnum er einnig að finna gróðrastöðvar, tjaldstæði, hestaleigu, golfvöll og húsdýragarð.

Laxnes

Bærinn Laxnes í Mosfellsdal.

Austast í dalnum er bújörðin Laxnes þar sem Halldór Laxness ólst upp, hann hleypti undir heimdraganum úr Mosfellsdal en orti árið 1930 þegar hann kom til bernskustöðvanna:

Í dalnum frammi undi eg áður fyr,
við ána greri fífillinn minn bestur.
En brott eg fór, og fjöllin urðu kyr.
Eg fer hér nú sem þúsundáragestur.“

[Auk margra annarra áhugaverðra staða, s.s. Hraðastaði, Æsustaði og Helgadal, geymir dalurinn fjölmarga aðra minjastaði, m.a. Hrísbrú og Mosfell þar sem t.d. Egill Skallagrímsson bjó um tíma, auk aðliggjandi staða.]

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – horft frá Laxnesi.