Færslur

Hlíð

Hlíð stendur við Hlíðarvatn í Selvogi. Hún mun vera landnámsbær. Þórir haustmyrkur er sagður hafa sest þar að fyrstur manna. Mikið af minjum er við vatnið, en upphaflega mun bærinn hafa verið í Hjallhólma, sem nú er varla svipur hjá sjón eftir að hækkaði í vatninu. Nú vottar einungis fyrir minjum utan í hólmanum.

Hlíð

Tóftir við Hlíð.

Gengið var um tóftirnar norðaustan vatnsins, um Hjallhólma, Arnarþúfu og yfir á Réttartanga. Þar skammt sunnar eru Borgirnar þrjár, fjárborgir frá Vogsósum. Gömlu götunni frá Vogsósum áleiðis að Selvogsgötu (Suðurfararvegi) var fylgt til austurs, framhjá Vogsósaseli og upp í Katlabrekkur. Þar var Hlíðarselið og Hlíðarborgin skoðuð áður en haldið var vestur Hlíðargötu, framhjá Borginni undir Borgarskörðum, fjárhústóftum skammt vestar og endað í rústunum ofan við Hlíð (ofan þjóðvegarins).

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Gísli Sigurðsson ritaði m.a. um Hlíð. Hann taldi þar hafa verið stórbýli fyrrum. Hafi hún um aldaraðir verið eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hafi verið í eyði um 90 ára skeið. “Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhólnum, lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.

Tlíð

Tóft við Hlíð.

Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi. Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Hlíðarmöl er þar innar, vestan túnsins, sem einnig var aðeins nefnd Mölin. Uppspretta er nálægt miðri Mölinni, heitir Buna.
Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Innarlega á Mölinni er tjörn, kölluð Hvolpatjörn eða Kettlingatjörn, og rennur úr henni vatn um Tjarnarlæmið.

Stakkavíkurselsstígur

Útsýni úr Selskarði yfir Hlíðarvatn og Stakkavík.

Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forar-vik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. Rakarsker er nýnefni á skeri einu eða hólma fram af vikunum. Nethóll er tangi með hundaþúfu á og er hann einnig nefndur Jónstangi, en fram af honum drekkti sér maður, er Jón hét.

Borgarskörð

Fjárborg undir Borgarskörðum.

Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. (Þórarinn Snorrason á Vogsósum sagði selið hafa verið frá Vogsósum, enda í landi jarðarinnar). Marknes var þar utar eða um 400 metra frá Selvogsréttum. Úr nesi þessu lá landamerkjalínan milli Hlíðar og Vogsósa. Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stór-grýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri.
Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.

Hlíðarkot

Hlíðarkot.

Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu. Kirkjugata lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogsósum og áfram suður að Strandarkirkju.”

Vogsósasel

Vogsósastekkur (heimasel).

Í Selbrekkum eru tóftir Vogsósasels. Götunni var fylgt upp Katlabrekkurnar þangað til komið var að Hlíðarseli. Fjárborg er við selið, en norðan þess er Hlíðarborgin undir háum klapparhól. Hlaðin tóft er í borginni. Enn ofar, undir Svörtubjörgum er Strandarsel (Staðarsel). Skammt frá borginni er fjárborgin undir Borgarskörðum. Hún stendur, gróinn, á hól og sést því vel úr nokkurri fjarlægð. Vestan hennar eru tóftir fjárhúsa eða sauðakofa. Við þau liggur Hlíðargatan niður að Hlíð. Á leiðinni var komið við í Ána, stórum skúta í Katlahrauni. Hlaðið hefur verið umhverfis opið, en auk þess er hleðsla sunnan við þá hleðslu.
Tækifærið var notað og minjasvæðið við Hlíðarvatn rissað upp.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Stakkavík

Hlíðarvatn – Stakkavík – örnefni.

Dísurétt

Haldið var að Kleifarvöllum og haldið á Kleifarvallarskarð. Þar nokkuð ofan við brúnina eru þrír skútar, Pínir, Sveltir og Músarhellir. Frábært útsýni var þarna yfir Vogsósa og Selvog. Sjá mátti t.d. Fornagarð (Strandargarð) mjög greinilega þar sem hann liðaðist um sandinn sunnan Vogsósa, en garðurinn er talinn eitt elsta uppistandandi mannvirki landsins.

Áni

Áni.

Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Upp af Strandardal er Kálfsgil þar sem Eiríkur prestur á Vogsósum er sagður hafa grafið mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu. Haldið var að Eiríksvörðu efst á Svörtubjörgum, en hana er Eiríkur sagður hafa látið hlaða og mælt síðan svo fyrir um að á meðan varðan stæði væri Selvogur hólpinn fyrir Tyrkjanum. Hugað var að Sælubúnu, lind á milli Svörtubjarga og Urðarfells og síðan gengin refaslóð niður fyrir björgin og staldrað við í Staðarseli, fallegu fráfæruseli efst undir björgunum. Þaðan er fallegt útsýni niður með Svörtubjörgum, Katlahlíðum og Herdísarvíkurfjalli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Eftir að hafa skoðað selið vel og vandlega var gengið niður með björgunum í rjómalogni og hita. Klifrað var upp í Stígshella vestast og efst í Svörtubjörgum, en framundan (neðan) þeim eru brattar grasbrekkur og síðan einstigi vestur með hellunum og áfram upp á vesturbrún fjallsins. Þaðan var haldið að Hlíðarborg og hún skoðuð. Um er að ræða mjög fallega fjárborg á fallegum stað, vestur undir háum klofnum hraunhól. Byggt hefur verið hús í borginni, en allt er þetta upp gróið.

Valgarðsborg

Valgeirsborg í Hlíðarseli.

Valgeirsborg er skammt sunnar, en vestan hennar eru tóftir, sennilega selstöðu. Ekki er vitað til þess að þessar minjar hafi verið færðar á fornleifaskrá. Frá Hlíðarborg var gengið að Ána og skoðaðar hleðslurnar fyrir hellismunnanum og síðan hellirinn sjálfur.
Litið var til með Vogsósaseli ofan við Vatnsdal. Að því búnu var gengið að Vogsósaborgum, þremur mjög heillegum fjárborgum á hól austan Hlíðarvatns.
Þetta er skemtileg gönguleið og margt að skoða.
Frábært veður – sól, hlýtt og lygnt.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Hlíðarborg

Undir Hlíðarfjalli eru tvær samliggjadi tóftir. Munnmæli herma að þar hafi um tíma verið athvarf og/eða mannabústaður.
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1956 segir m.a.: “Í fardögum árið 1850, fluttu ung hjón búferlum á jörðina Efri-Mörk á Síðu. Þessi hjón voru: Ísleifur Guðmundsson frá Ystabæli undir Eyjafjöllum og Ragnheiður Jónsdóttir frá Hlíð í Skaftártungu.
hlidarkot-1Ekki kemur hér við sögu annað heimilisfólk þessara hjóna, en sonur þeirra er Guðmundur hét, hann var þá fjögurra mánaða gamall er þau fluttu að Efri-Mörk, fæddur 17. jan. (1850).
Það mun snemma hafa komið í ljós, að drengurinn vildi vera sjálfráður ferða sinna. Því ungur var hann, er svo bar við einn góðan veðurdag, að hann hvarf frá bænum, og leit var gerð að honum. En meðan á leitinni stóð, breyttist veður, til hins verra. Þann árangur bar þó leitin, að drengurinn fannst á svonefndu Borgarholti. Þar hafði hann fengið afdrep undir skjólgarði, og er það sem svarar 10 mínútna gang austur frá bænum.
Alloft mun Ísleifur hafa skipt um bústað, en ekki verður það rakið hér. Árið 1858, þegar Guðmundur var 8 ára, þá flutti Ísleifur alfarið af Síðunni, og þá alla leið til Krýsuvíkur, en nokkuru síðar að Hlíð í Selvogi.
Ekki verður hér meira sagt af foreldrum Guðmundar Ísleifssonar, en hjá þeim dvaldi hann í Hlíð í nokkur ár. Svo þegar hann hafði þroska til, þá réðist hann til vandalausra sem vinnumaður. Fyrst var hann hjá Selvogsprestinum um þriggja ára skeið. Þá réðist hann í kaupmannshúsið á Eyrarbakka.
hlidarkot-2Eftir skamma dvöl þar, fór hann að eiga með sig sjálfur. Og þá kvæntist hann Sigríði Þorleifsdóttur á Stóru-Háeyri. Þar settist hann svo að, og þar hófst vegur hans og gengi, eins og flestu eldra fólki á Suðurland; er kunnugt.
Ekki verður saga Guðmundar Ísleifssonar — eða Guðmundar á Háeyri, sem hann var jafnan nefndur — rakin hér frekar.”
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um framangreindar tóftir: “Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún”. Minjarnar eru líklega frá því um miðja 19. öld.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 23. sept. 1956, bls. 546.

-Örnefnalýsing fyrir Hlíð. ÖÍ.

Hlíð

Hlíð, bæjarminjar.

Hlíðarborg
Lengi hefur verið leitað að Selhellum í Selvogi. Ekki hefur verið vitað um staðsetningu þeirra, en í örnefnalýsingu fyrir Hlíð í Selvogi segir m.a.: “Hlíðarsel – heimild um sel – …suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. Við Selbrekkur eru Stekkjardældir.”
Sel er undir suðausturhorni Svörtubjarga, sennilega Strandarsel [Staðarsel]. Enn sunnar eru týndar seltóftir og fjárborg. Neðan þessa eru Selbrekkur. Framundan þeim er stór hraunhóll, einn af nokkrum. Við hann eru Selhellar, að sögn heimildarmanns, sem telur sig hafa séð þá af tilviljun er hann var þar á ferð eitt sinn í leit að fé. Hellarnir eru vandfundnir, en við þá má greina mannvistarleifar ef vel er að gáð. Selhellar eru einnig nefndir hellarnir ofan við Stakkavíkursel, en við þá eru hleðslur.
Einnig var ætlunin að skoða óþekktar mannvistarleifar undir Strandardal, hugsanlega hluti tófta bæjar Erlends lögmanns Jónssonar frá 17. öld.
Gengið var austur Hlíðargötu frá Hlíð, áleiðis austur vestanverða Selvogsheiðina undir Hlíðarfjalli. Heimildarmaðurinn, Snorri Þórarinsson frá Vogsósum, var með í för.
Hin gamla Hlíðargata liggur upp á Selvogsgötu (Suðurfararveg) með Kötlubrekkur á vinstri hönd, þar sem Kötluhraun kemur niður hlíð fjallsins.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um þetta svæði austur með Hlíðarfjalli:
“Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni. Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stórgrýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri (fyrir vegagerð).
Sprungnaflöt lá milli rústa og Hvolpatjarnar ofan Malarinnar. Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.
Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.”
Hlíðargata er enn greinileg skammt austan þjóðvegarins. Skömmu eftir að lagt var stað var komið að tvískiptu heykumli vinstra megin götunnar. Hlaðnar eru tvær tóftir utan í stóran stein, önnur til vesturs og hin til suðurs. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið sauðakofar eða -kofi, en þegar fjárskjólið Áni, sem er þarna skammt suðsuðaustar, er skoðað liggur beinast við að tengja rústirnar því. Um opið á Ána er hlaðið á alla vegu. Ef grannt er skoðað í kring má sjá hluta af leiðigarði norðan opsins og sunnan þess. Hleðslan vestan við opið er nýlegri og ein við endann að norðanverðu. Líklegt má því telja að grjótveggurinn að austanverðu við opið hafi verið hafi verið hluti leiðigarðsins og fé þá runnið auðveldlega niður í fjárskjólið. Seinna, eftir að hætt var að nýta skjólið fyrir fé, hefur grjót verið tekið úr leiðigarðinum og hlaðið í vegginn að vestan- og norðanverðu svo fé færi ekki niður í hellinn, enda fyrrum hlaðinn stígur niður í hellinn þá verið farinn að láta á sjá. Leifar þessa stígs eða stéttar sjást vel þegar komið er niður í Ána.
Hleðslan hefur hrunið fremst, en sjá má grjót úr honum neðan við opið. Veruleg grjóthleðsla er niðri og vestan við opið, til að varna fé að fara innfyrir og norður með innganginum. Annars liggur meginrásin til suðausturs. Undarlegt þykir að ekki skuli vera fyrirhleðsla þar innar í hellinum, en líklegt má telja að þar hafi rásin verið lokað fyrir með trégrind til að varna því að fé færi innar í hana. Sjá má leifar af tré í hellinum. Í vesturveggnum er lítið gat og rás þar fyrir innan, lág. Áni hefur verið gott fjárskjól og það tiltölulega nálægt bænum.
Næst var komið að fjárborginni undir Borgarskörðum. Skörðin eru tvö (Háhamar, skilur þau að) og er borgin neðan þeirra, í Stekkatúnsbrekkum. Borgin er vel gróin og ferköntuð hlaðin rúst, heilleg, inni í henni. Í framangreindri örnefnalýsingu segir að þarna hafi verið stekkur og Stekkatún. Ekki er ólíklegt að borginni hafi verið breytt í stekk. Hún er sjálf hringlaga, en ferköntuð rústin inni í henni er svipuð og í Hlíðarborginni, en minni.
Hlíðarborgin er hægra megin götunnar, hlaðin vestan undir hraunhól líkt og borgin undir Borgarskörðum. Hún hefur verið allstór, tvíhlaðin, en síðan verið breytt í stekk með hús eða kró á milli, inni í borginni. Hlíðarborgin er enn eitt dæmið um breytta nýtingu á mannvirkjum í vestanverðri Selvogsheiði.
Suðaustan við Hlíðarborg, sunnan girðingar er umlykur beitarhólf þeirra Selvogsmanna, er Valgarðsborg. Hún er minni en hinar fyrrnefndu. Norðvestan við borgina, í lægð undir grónum hól, má vel greina mjög gamlar tóftir a.m.k. tveggja húsa. Allt bendir til að þarna hafi fyrrum verið selstaða og Hlíðarborgin þó nýtt sem hluti af því, Valgarðsborgin mun líklega hafa þjónað sem aðhald eða skjól því líklegt má telja að hún hafi verið yfirbyggð. Marka má það af því hversu lítil hún er og auk þess hafa veggir hennar verið nokkuð háir.
Þá var stefnan tekin upp heiðina, áleiðis að Strandarseli suðaustan undir Svörtubjörgum. Framundan þeim eru nefndar Selbrekkur. Bæði ofan þeirra og neðan má sjá minjar nokkurra selja, sem flest hafa gleymst mönnum. Þau virðast hafa týnst líkt og svo margt annað í Selvogsheiðinni, en ef vel er að gáð má varla þverfóta fyrir óskráðum minjum í henni, enda verið drjúgum nýtt fyrr á öldum frá bæjunum í Selvogi.
Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar.
Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann.
Þegar gengið hafði verið yfir Hraunhóla var skömmu síðar komið á svæðið undir Selbrekkum og sáust þegar tóftir húsa. Þær eru reyndar ógreinilegar og að öllum líkindum mjög gamlar. Svæðið er að öllu jöfnu utan göngu- og alfaraleiða. Tvær rústir eru vestast. Norðaustan við þær er hlaðinn gangur, fallinn. Hann hefur áður verið reftur og sennilega legið í tvær áttir, suðurog norður, eftir að inn var komið. Þegar gangurinn féll saman opnaðist niður í syðri hluta hellisins, sem þarna er undir. Hellirinn er stór, ca. 100m2, gólfið slétt og hátt til lofts. Fyrirhleðsla er austan við niðurganginn, stór. Hægt er að komast yfir hana til norðurs og er þá farið framhjá miklum hleðslum á vinstri hönd, sem hafa verið hluti gangsins. Þar liggur hellirinn til norðausturs, en er miklu mun lægri en suðurhlutinn. Vegna þess hversu hreint gólfið er í suðurhlutanum virðist sá hluti hans annað hvort verið notaður sem búr og geymsla eða einungis verið notaður í skamman tíma. Norðurhlutinn gæti hins vegar hafa verið notaður undir fé. Ofan á suðurhlutanum er hlaðin kví. Skammt norðaustan við hellisopið er annað op, langt og ílangt.
Norðan við skjólið er tóft. Austan hennar er annað fjárskjól, slétt í botninn og rúmgott (ca. 60m2). Opið er í gegnum skjólið, en inngangurinn hefur verið að sunnanverðu því hlaðið er þvert fyrir nyrðra opið.
Tóftir eru norðan við síðarnefnda fjárskjólið og hlaðin kví norðan þeirra. Svo virðist sem þær hafi verið hlaðnar fyrir op á enn einum hraunssalnum, en fallið saman og lokað opinu. Þó má sjá að rými er þar fyrir innan.
Fjárskjól er í hattslaga hraunhól nálægt minjunum. Einnig í litlum hraunhól norðan þeirra (varða ofanb á) og auk þess er enn eitt fjárskjólið skammt norðaustan við tóftirnar. Það er rúmgott rými með sléttu gólfi og fyrirhleðslu svo fé kæmist ekki nema takmarka inn í hraunsrásina, sem það er í.
FERLIR hefur áður skoðað þetta svæði, s.s. með Guðmundi Þorsteinssyni, hellamanni frá Þorlákshöfn, en þá var fyrstnefnda fjárskjólið nefnt Bólið til aðgreiningar. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna sé komið hið eiginlega Vogsósasel, enda í landi Vogsósa.
Ljóst er að þetta svæði hefur að geyma miklu mun fleiri minjar og væri ástæða til að gaumgæfa það betur. Ferðin var notuð til að rissa upp þær minjar, sem bornar voru augum.
Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ekki er með öllu útilokað að tengja óljósar hleðslur uppi á hraunhól vestan Svörtubjarga veru manna í dölunum (Strandardal og Hlíðardal) fyrrum. Þó gæti þarna hafa verið um aðstöðu til að ná fé að ræða. Þá er og mjög sennilegt að grónar hlíðar og sléttur undir björgunum hafi verið slegnar til að afla viðbótartöðu þegar þannig áraði. Grjót virðist hafa verið tekið úr mannvirkinu í undirhleðslu girðingar, sem legið hefur niður með vestanverðum Björgunum.
Gengið var til baka vestur með og undir hlíðunum, um Suðurfaraleiðarhliðið á Suðurfaraleið og vestur Hlíðargötu. Þokan sveipaði umhverfið dulúðlegu yfirbragði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Áni

Gengið var frá Selvogsréttunum austan við Hlíðarvatn og upp í Selbrekkur neðst í svonefndu Rofi. Þar voru skoðaðar tóftir Vogsósasel við Stekkjardældir, sem sumir hafa álitið vera Hlíðarsel. Tóftirnar eru innan marka Vogsósa. Þórarinn, bóndi, staðfesti að um sel frá þeim bæ væri að ræða.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Gengið var áfram austur Rofið og stefnan tekin á einn af stærstu hraunhólunum í heiðinni, með stefnu á Katlabrekkur. Þar undir vestanverðum hólnum er Hlíðarborgin. Hún hefur verið allnokkurt mannvirki, en verið breytt síðar því inni í henni er hlaðið hús eða stekkur. Hvorutveggja gæti hafa tengst athöfnum í Hlíðarseli, sem er þarna skammt frá. Selið er í nokkurra mínútna fjarlægð til suðausturs, utan í og á grónum hól. Þar eru talsverðar rústir, sem rissa þarf upp við tækifæri. Austan við tóftirnar er nafngreind fjárborg.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var til norðurs inn á svonefnda Hlíðargötu, er liggur frá Suðurfaravegi (Selvogsgötu) þar sem hann kemur niður úr Strandardal áleiðis að Strönd í Selvogi, og henni fylgt til vesturs, áleiðis að tóftum bæjarins Hlíðar. Við götuna er fjárborg undir Borgarskörðum og tvær tóftir skammt vestar. Op hellisins Ána birtist á vinstri hönd.
Þegar komið er að Hlíð ofan við Hlíðarvatn verða fyrst fyrir tóftir norðan þjóðvegarins. Þar móta fyrir húsum og görðum. Sunnan þjóðvegarins eru bæjartóftir og skammt vestar með vatninu eru tóftir útihúsa og garðar.
Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú í bráðum 80 ár. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn, en talið er að elsti bæjarhlutinn hafi verið við tanga, sem nú stendur út í vatnið þar fyrir neðan. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær rústir í kaf.

Borgarskarðsborg

Borgarskarðsborg.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá bókinni í álfheimum. Í henni segir frá komu skips á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður. Stýrimaður tók Jón nokkurn með sér út í skipið eftir nokkrun aðdraganda og leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fekk Jón eigi annað að sjá og fer með það. Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríkur spyr hann að: “Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?” Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann: “Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.”
Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið. Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga. Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: “Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.”

Hlíðarkot

Tóft ofan Hlíðar.

Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fekk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna. Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum. Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu.
Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.
Segir önnur saga frá því að Eiríkur hafi komið þessari miklu galdrabók, sem síðar var nefnd Gullskinna, fyrir í Kálfgili við Urðarfell ofan við Svörtubjörg. Þess er og getið að í bókinni sé getið um upphaf byggðar á Íslandi og að sú lýsing sé önnur ern segir frá í síðari tíma skrifum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Þórarinn Snorrason
Gengið var frá Hlíð við Hlíðarvatn, að Vogsósum, Fornagarði fylgt upp túnið og síðan haldið áfram eftir Kirkjugötunni að Strönd í Selvogi.
Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð, sem mun hafa verið landnámsbær Þóris haustmyrkurs. Reyndar er talið að rústir þær hafi verið á tanga eða hólma, sem er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Eftir að hækkaði í vatninu hafa möguleikar á að skoða þær farið minnkandi.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Frá rústunum liggur Hlíðargata austur og inn með fjallinu, framhjá fjárborginni og tóftunum undir Borgarskarði, Hlíðarborg og Hlíðarseli áleiðis upp á Suðurferðaveg (Selvogsgötu).
Gengið var suður með austanverðu Hlíðarvatni, um Réttartanga og síðan beygt upp á gróna hraunhóla þar austur af, vestan þjóðvegarins. Á þeim eru Borgirnar þrjár, eða Vogsósaborgir eins og þær hafa einnig verið nefndar. Borgir þessar eru nokkuð heillegar. Ekki er vitað hver hlóð þær, en eflaust hafa þær átt að skýla fé svo sem meginhlutverk fjárborganna var. Ekki er ólíklegt að þær hafi verið frá fleiri en einu koti, sem voru þarna skammt frá. Skammt austar, austan þjóðvegarins eru tóftir Vogsósasels.

Hlíð

Hlíðarkot – tóftir.

Frá Borgunum er ágætt útsýni yfir Hlíðarvatn, hólmana, Víðisand sunnar og Alnboga, vestan fráfallsins úr vatninu. Þar lá gamla þjóðleiðin frá Strönd yfir ósana og áfram áleiðis að Herdísarvík. Jörðin þar fór í eyði árið 1957 eftir að Hlín flutti burt 17 árum eftir andlát Einars Benediktssonar.

Gengið var að enda Fornagarðs (Strandargarðs) neðan við túnið á Vogsósum og honum fylgt áleiðis upp túnið. Vogsósar var stórbýli og prestsetur á fyrri tíð. Þar bjó galdrapresturinn Eiríkur Magnússon á ofanverðri sautjándu öld og fram á þá átjándu. Margar sögur eru til af Eiríki og göldrum hans. Aldrei notaði hann galdur sinn til ills en gerði mönnum glettur og aðallega ef á hann var leitað að fyrra bragði.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1840 segir að Vogsósaland sé “allt að framan gjörspillt af sandágangi, verr en Austurvogurinn, því að sönnu fýkur hann af austur- og landnyrðingsáttum eins á þetta land og Austurvoginn. En þar að auki líka því meir af útnorðri og til með af vestri, sem það er nær Víðasandi. Þegar ósinn er undir ís, fær túnið á Vogsósum óbætanleg áföll af sandi í vestanstormum, t.d. næstliðinn vetur.”
Árið 1847 voru Strönd og Vindás komnar í eyði og eru taldar með Vogsósum sem eru beneficium og liggja Hlíð og Stakkavík og 3 ½ hdr í Þorkelsgerði undir kirkjuna. “Prestsetrinu fylgja 2 ásauðar kúgildi og 1 veiði- og heyflutníngsbátur. Tún er lítið mjög og hætt við sandfoki, og utantúns slægjum eins, en landkostir eru góðir og útibeit góð. Jarðarhlynnindi eru hér að auki talin, þó mínkandi fari; sela- og silúngsveiði og sölvatak, sem líka gengur af sér, einkum af sandfoki, en höfuðkosturinn er trjáreki. Selvogs kirkja á ítak í Krýsuvíkur fuglbergi.

Vogsósar

Vogsósar – kirkjugatan að Strönd.

Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa og umlukið þar bæ er nefndur er Vogshús, enda er hann nefndur svo í fornbréfum. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra.”
Þess má geta að suðaustan við túnið á Vogsósum eru óþekktar rústir, fast austan við Fornagarð.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Frá Vogsósum er ágætt útsýni upp að Svörtubjörgum. Á þeim er Eiríksvarðan. En “þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svco langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er svo hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon … dó 1716 … og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.”
Margar sögur eru til af Eiríki, presti á Vogsósum. Eftir að Eiríkur var orðinn prestur í Selvogi komst það orð á að hann væri göldróttur. Kallaði þá Skálholtsbiskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann að gera grein fyrir því hvort hann kynni eitthvað úr þeirri bók. Eiríkur fletti upp bókinni og sagði; “Hér þekki ég ekki einn staf”! Og sór fyrir það. Síðar sagði hann að þetta þýddi ekki að hann þekkti engan staf í bókinni heldur að hann þekkti alla stafi bókarinnar nema einn.

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarðs er getið í heimildum. Segir m.a. að “Vogósatúngarður var girtur aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: “Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…” (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér.”
Stefnan var tekin suður yfir heimatúnið, að Kirkjugötunni, sem liggur yfir að Strönd. “Kirkjugatan lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogósum og áfram suður að Strandarkirkju.” Hún sést enn vel þar sem hún liggur um sandinn, enda ávallt mikið farin þangað til fyrir tiltölulega stuttu síðan.

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd í Selvogi – einnig nefndur “Staður”.

Selvogur er vestasta byggð í Árnessýslu og var lengst af fremur afskekkt og einangrað byggðarlag. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og vegamál hafa verið í ólestri fram undir þetta. Á fyrri tíð voru í Selvogi margar jarðir og víða stórbúskapur og gjöful fiskimið undan landi. Síðast var gert út á vetrarvertíð úr Selvogi árið 1950 og eftir það hafa bændur lifað eingöngu af landbúnaði og einkum sauðfjárbúskap því mjólk var ekki sótt á bæi í Selvogi til að flytja í mjólkurbú. Í byrjun tuttugustu aldar eru um 20 býli í Selvogi en nú mun búskapur lítill í sveitinni.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sagan segir frá sjómönnum sem fyrir langa löngu villtust í hafi og hétu því að byggja kirkju þar sem að þeir kæmu að landi ef þeir lifðu af. Eftir áheitið leiddi engill þá heila á húfi að landi í Engilsvík og þeir byggðu kirkju að Strönd. Kirkjan sem nú stendur að Strönd var reist seint á nítjándu öld og endurbyggð árið 1967. Í henni er gömul altaristafla frá 1865 og kaleikur kirkjunnar er merkilegur en hann er forn gefinn kirkjunni af Ívari Hólm lögmanni og hirðstjóra sem sat á Strönd en einnig á Bessastöðum. Kaleikur þessi er eini gullkaleikurinn sem til er hér á landi og því mikil gersemi. Síðasti prestur sem bjó í Selvogi var séra Eggert Stefánsson merkur maður en hann þjónaði Strandarkirkju á árunum 1884 til æviloka 1908. Þá var prestakallið lagt niður sem sérstakt prestakall.

Vogsós

Vogsósaborgir.

Helgi og átrúnaður á Strandarkirkju virðist hafa komið upp mjög snemma eins og sagan af áheiti skipshafnarinnar sýnir og væntanlega fylgt henni alla tíð. Öldum saman hefur verið heitið á kirkjuna í lífsnauð og hvers kyns öðrum erfiðleikum. T.d. munu norskir sjómenn snemma hafa heitið á kirkjuna og eignaðist hún skógarhögg í Noregi. Í gegnum aldirnar hefur kirkjunni því safnast mikill auður, bæði dýrmætir gripir og peningar. Hluta af því hefur verið varið til endurbóta á kirkjunum en einnig hefur þetta fé verið lánað til kirkjubygginga víða um land.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðn uppdrátt af Selvogi.

Stórbýli var á Strönd og á staðurinn sér mikla sögu frá fornu fari þótt þar sé ekki lengur búið og vafalítið eitt af elstu býlum sveitarinnar. Fram yfir aldamótin sextán hundruð voru 7 eða 8 býli á Strönd en hverfa úr byggð á 17. öld og árið 1696 fer höfuðbólið sjálft í eyði. Því olli uppblástur og sandfok sem gerði jörðina óbyggilega, sem fyrr sagði.
Eftir að Strönd fór í eyði var um það rætt að flytja kirkjuna en fólkið var á móti því þar sem það taldi hættu á að við það glataði kirkjan mætti sínum og helgi. Hún stendur því enn á sama stað og í upphafi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn
-http://www.utivist.is

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Hlíð

Í Örnefnalýsingu fyrir Hlíð (höfundur ónafngreindur) segir m.a.: “Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.

Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.
Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi.”

Hlíð

Hlíð – bæjarminjar.

Síðan er örnefnum við vatnið lýst, en auk þess segir: “Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman.” Þórarinn Snorrason á Vogsósum upplýsti FERLIR um að ofan við Selbrekkur hafi fyrrum verið heimasel frá Vogsósum, enda í þeirra landi. Selið hafi jafnan verið nefnt Vogsósastekkur, enda voru yfirleitt ekki önnur mannvirki í heimaseljum.
“Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur [Hlíðarsel] og Stekkatún.” Í Hlíðarseli eru greinilegar selminjar, nokkur hús, hlaðið smalaskjól og stekkur, sem stundum hefur verið nefnd Valgarðsborg, en hún ber öll einkenni stekks, þ.e. tvískipt aðhald. Skammt norðar er Hlíðarborgin, stekkkur, sem væntanlega hefur tekið við af selinu eftir að það lagðist af. Hlíðarsel er í landi Hlíðar. Þórarinn ók FERLIRsfélögum upp að Híðarborginni fyrir allnokkrum árum og benti þeim þá m.a. á seltóftirnar sunnan heiðargirðingarinnar.
“Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.”

Hlíð

Hlíð, bæjarminjar.

Gísli Sigurðsson skráði örnefnalýsingu í landi Hlíðar. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
“Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.
Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins. Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.”
Gísli Sigurðsson skráði einnig örnefni á Selvogsafrétti.

Aðalskráning fornleifa í Selvogi 2015.Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I”, sem Fornleifastofnun Íslands gerði 2015, segir m.a: um einstakar minjar í landi Hlíðar:
[Hafa þarf í huga að talsvert virðist vanta í skráninguna og hún lítt gaumgæfð. Svo virðist sem ef örnefna eða minja sé ekki getið í örnefnalýsingum þá eru þær ekki til. Lítið sem ekkert virðist hafa verið gert til að rýna svæðið á vettvangi, t.d. út frá heilbrigðri skynsemi].

Hlíð

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: “Jarðardýrleiki xx að sögn manna, en engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 463 Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: “Lyngrif til eldiviðar bjarglegt. Silúngsveiðivon er góð og hefur oft að merkilegu gagni verið. Eggver í vatnshólmum hefur að nokkru gagni verið, en fer mjög til þurðar. Sölvafjöru og grasafjöruítak á jörðin fyrir Vogshúsalandi sem áður segir, vide Vogshús. Túnunum grandar fjallsskriður og landbrot, sem Hlíðarvatn gjörir að neðan. Engjar, sem áður voru litlar með vatninu, hefur sama vatn eyðilagt.” JÁM II, 464

Bæjarhóll – bústaður
“Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn fór í eyði árið 1906.
Slétt grund sem nær allt frá vatnsborðinu og upp að fjallsrótum. Þjóðvegurinn liggur um túnið um 70 m norðan við bæjarrústirnar. Enn er nokkur rækt í túninu. Það er ekki slegið, ógirt og sækja kindur í það. Veiðihús stendur á vesturenda bæjarrústanna og hefur sennilega raskað þeim að litlum hluta en miklar rústir eru á hólnum austan við húsið. Hefur bæjarröðin legið frá austri til vesturs og bærinn snúið með framhlið í suður.

Kirkjuhóll – bænhús

Kirkjuhóll

Kirkjuhóll (Bænhúsahóll).

“Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð,” segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki vitað hvar Bænhúshóll var. Yfirleitt voru kirkjur og bænhús í næsta nágrenni við bæjarhóla og með hliðsjón af því er helst að giska á ávalan hól í túni fast austan við bæjarhól. Óslegið tún. Hóllinn er sporöskjulaga og nokkuð ávalur en ekkert rústalag á honum, 15-20 m í þvermál. Enginn annar hóll virðist líklegri.

Hlíðarsel – sel [Vogsósasel]

Vogsósasel

Vogsósastekkur  ofan við Selbrekkur (heimasel).

“…suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman,” segir í örnefnalýsingu. Í annarri lýsingu segir: “Selbrekkur. Á þeim stað könnuðust þeir [heimildamenn í Stakkavík] við Stekkjardældir.” Engar dældir eru suður frá Selvogsréttum en hins vegar eru grösugar brekkur og dældir um 300 m austur af þeim og hlýtur að vera átt við þann stað. Þetta er rétt tæpan 1 km SA af bæjarhól. Vel grónar og fallegar valllendisbrekkur og -dældir mót vestri og gróin grund þar niður af.
Eina tóftin sem þekkt er á þessum slóðum er sú sem Þórarinn Snorrason í Vogsósum nefnir Vogsósastekk. Þess má geta að Ómar Smári Ármannsson hefur kallað aðrar tóftir Hlíðarsel. Sú túlkun er ekki útilokuð þótt tóftirnar teljist of langt í burtu til að passa við lýsingu örnefnaskrár.
[Þeir, sem lesið og metið hafa örnefnalýsingar, vita að þær eru takmarkandi, misvísandi og jafnvel rangar. Þær ber ávallt að taka með fyrirvara, þ.e. ekki allt of bókstaflega. Í heimildum eru framangreindar Selbrekkur nefndar Vatnsdalur upp af Selvik, ofan Réttartanga. Gísli minnist ekki á Hlíðarborg, einungis Hlíðafjallsbrekkur og Hlíðargil, sem þar eru efra. “Sunnan undir þeim eru Selbrekkur. Skammt suðaustar er Hlíðarsel”. Þ.S.]

Borgaskörð – fjárskýli

Borgarskarðsborg

Borgarskarðaborg – neðri fjárborgin.

“Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar,” segir í örnefnalýsingu. Undir skörðunum er tóft sem skörðin gætu hafa dregið nafn sitt af, um 130 m austur af stekk. Hlíðarborg og Valgarðsborg eru sunnar.
Lyngmói, sumsstaðar með hraunnibbum og -hólum. Hlíðargata liggur áfram til austurs fast sunnan við tóftina.
Tóftin er í háum og gróskumiklum valllendishól sem er nokkuð áberandi og sést vel að. Hún er lítið uppbyggð en að mestu leyti grafin niður í hólinn. Hann sjálfur er nokkuð hringmyndaður en hólfið er aftur næstum ferkantað. Mögulegt er að byggingin hafi upphaflega verið fjárborg en síðan verið endurbyggð sem fjárhús.

Hlíð

Borgarskarðaborgin efri.

[Önnur fjárborg, miklu mun eldri, er skammt ofar, enda jafnan talað um Borgarskarðaborgir. Hún er nánast jarðlæg, en þó má enn sjá móta fyrir hringlaga hleðslum í henni.]

Stekkatúnsbrekkur – stekkur

Stekkur

Stekkur í Sekkjatúnsbrekkum.

“Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún,” segir í örnefnaská. Stekkjartóft er einmitt á þessum stað, undir Hlíðarfjalli um 600 m ANA af bæjarhól. Smákvos í lyngmóa sem víða er grasi gróinn. Hraunnibbur stingast upp úr hér og þar og talsvert er um stórgrýti. Hraunhólar eru suðaustan við stekkinn. Varla er hægt að segja að túnblettur sé kringum stekkinn. Ljómandi falleg tóft, byggð utan í jarðfasta kletta. Hún er tvískipt og L-laga, alls um 9×8 m stór.
Rekið hefur verið inn að sunnanverðu í dálitla rétt sem er um 7×5 m stór frá norðri til suðurs að utanmáli. Klettarnir mynda norðurgafl réttarinnar. Úr henni er svo op til vesturs, nyrst við klettana, í heldur þrengri kró sem er rúmlega 4×3 m stór frá austri til vesturs. Mikið grjót sést í innanverðum veggjum sem eru mest um 1 m háir.

[Sagan segir að þarna hafi hokrað maður stuttan tíma og að Borgarskarðaborgirnar hafi tengst búrekstrinum – ÞS.]

Hlíðargata – leið

Hlíðargata

Varða við Hlíðargötu.

“Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu,” segir í örnefnaskrá. Gatan sést enn vel austan túns, t.d. um 390 m austur af bæ en einnig fast við stekkjartóftina. Grónar valllendiskvosir eru næst fjallinu en síðan tekur við lyngmói í gömlu hrauni. Greinilegur kindatroðningur liggur til austurs inn með fjallinu og sést vel víðast hvar. Sennilega eru það leifar af gömlu Hlíðargötunni. Að sögn Þórarins Snorrasonar var ekki fært með hesta upp Hlíðarskarðið og því oft farið inn með fjallinu og síðan til norðurs.

Dísurétt

Dísurétt.

[Ofan við Borgarskörðin er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.]

Hlíðarborg – fjárskýli

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Hlíðarborg er fjárborg úti í hrauninu 1,7 km austan bæjarhóls. Hún er um 150 m norðan við girðingu sem liggur frá skilaréttinni við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Borgin er byggð vestan í hraunhól, sem er klofinn eftir endilöngu, og þjónar hraunið sem austurveggur. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Borgin sjálf er nokkurn veginn hringlaga, alls um 13×14-15 m að stærð. Veggir eru allir hrundir og mikið grjót í þeim, einna minnst þó að norðanverðu og þar er hleðslan best gróin. Ekki sjást dyr á borginni. Mannvirkið er mjög óvenjulegt að því leyti að tóft, sennilega af fjárhúsi, er inni í borginni og fyllir út í hana að mestu, alls um 6×5 m stór frá NA-SV. Sennilega er hún yngri en borgin og heldur meiri gróska er í veggjum hennar en borgarinnar. Hleðsla er fyrir húsdyrum, um 3 umför af stórum og þykkum hellum og er það að heita má eina heillega hleðslan í tóftinni. Hlaðið hefur verið frá norðausturhluta hústóftarinnar að klettinum sem er austar og er hleðslan um 3-4 m löng. Hvorki sést garði né jötur í fjárhúsinu og ekki hlaða heldur.

Valgarðsborg – sel [Hlíðarsel]

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Tóftir eru tæpa 300 m suður af Hlíðarborg, á allgrösugum bletti vestan í klettahól. Sennilega eru þær nálægt mörkum móti Vogsósum en þau liggja úr Nefjavörðu austur í Hellholt. [Línan í Hellholt er mun sunnar]. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Milli Hlíðarborgar og umræddra tófta liggur girðing allt frá skilarétt við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Tóftirnar eru a.m.k. þrjár [dæmigert fyrir sel á þessu landssvæði] og ná yfir svæði sem er rúmlega 30×30 m stórt. Nyrst er greinileg en vallgróin tóft, dálítið grafin inn í brekkuna. Hún er einföld, um 7×5 m stór frá norðri til suðurs og dyr heldur sunnar en fyrir miðjum vesturvegg. Dýpt nemur allt að rúmum 1 m. Nokkrar dældir eru norðan og norðvestan við tóftina og gætu þar leynst fleiri mannvirki eða útbyggingar. Um 8 m austar, uppi á hól, er hleðsla, sem gæti verið yngri, sennilega refagildra. [Hleðslan ber engin einkenni refagildru]. Þetta er grunnur að hlöðnu hólfi sem er um 1,5 x 0,8 m stórt NA-SV og snýr op í SV. Hleðslan er aðeins eitt umfar og um 0,2 m há.

Hellir – fjárskýli [Áni]

Áni

Áni – fjárskjól.

Fjárhellir er úti í hrauni undir Borgarskörðum og um 1 km austur af bæjarhól. Hann er um miðja vegu milli Hlíðarfjalls og girðingar sem liggur frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell. Hálfbert hraun. Hellisopið snýr mót norðaustri. Það er einfaldlega skúti, fyrst nánast beint niður og svo innundir hraunhelluna til suðvesturs. Laglega hefur verið hlaðið um munnann á allar hliðar en þó er hægt að komast að honum úr austri. Hleðslan er úr hraungrýti og myndar hólf sem er hér um bil ferkantað og um 4,5×3 m að stærð SV-NA. Hleðslan er hæst að suðvestan, allt að tæpur 1 metri. Lítil varðaer á hleðslunni að suðvestan og að auki liggur einföld hleðsla um 3 m til suðvesturs frá hólfinu. Ekki var farið niður í hellinn en hann sýnist manngengur.

Hellir

Fjárskjól ofan Ána.

[Annar svipaður fjárhellir er skammt norðar. Hleðslur eru við opið.]

[Hlíðardalur – tóft

Hlíðardalur

Tóft í Hlíðardal.

Í heimildum er getið um Sælubunu við Selvogsgötuna (Suðurferðaveginn). Þar segir m.a.: “Hlíðardalur stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar.”
Í Hlíðardal er greinileg tóft. Sjá má móta fyrir grunnsteinhleðslum í grónum aflíðandi hvammi.]

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls 240-250.
-Selvogsafréttur, Árnessýsla – Selvogshreppur, Örnefnalýsing
-Hlíð – Örnefnalýsing.
-Hlíð í Selvogi, Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.