Gengið var um Selvogsgötu frá Bláfjallavegi, upp Kerlingarskarð og áfram niður Hlíðarveg, um Hlíðarskarð og niður að Hlíð við Hlíðarvatn.
Skammt ofan Bláfjallavegar greinist Selvogsgatan. Annars vegar liggur hún áfram áleiðis upp að Kerlingarskarði og hins vegar til vinstri, áleiðis að Grindarskörðum. Síðarnefnda leiðin hefur lítið verið farin í seinni tíð, en þá leið var t.d. farið þegar burðarhestar voru með í för.
Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar. Beggja vegna götunnar eru hellisskútar. Einn þeirra er með einstaklega fallegu rósamynstri í lofti. Skammt austan hennar er stórt ílangt jarðfall, hrauntröð úr Miðbolla, en hann er einn fallegasti eldgígur landsins. Í rauninni eru þrír gígar í honum; sá stærsti efst, einn í honum norðanverðum og annar norðvestanvert í honum.
Ofarlega undir Kerlingarskarði eru tóftir af húsi brennisteinsnámumanna. Efst í því, vinstra megin þegar komið er upp, er drykkjarsteinn, skessuketill í móbergssteini. Hann hefur löngum komið til tals þegar fjallað er um þessa leið, enda stólaði fólk yfirleitt á vatnið í steini um á ferðum sínum. Í sumum frásögnum er talað um fleiri en einn drykkjarstein í skarðinu.
Þegar komið er upp á brún sjást eldgígar á hægri hönd, Draugahlíðar framundan og Miðbolli og Kóngsfell á vinstri hönd. Utar má sjá Stóra-Kóngsfell og Drottningu, Stórkonugjá og Bláföllin. Reykjavegurinn kemur þarna inn á Selvogsgötuna. Þegar gengið er niður brekkuna mót suðri er komið að gömlu hliði á götunni. Nálægt því eru gatnamót. Selvogsgatan heldur áfram áleiðis niður að Litla-Kóngsfelli og síðan áfram til suðurs um Hvalskarð og Strandarhæð í Selvog.
Gata, sem liggur til hægri og nú er vel vörðuð, nefnist Hlíðarvegur og liggur að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Þessi gata hefur verið vinsæl gönguleið í seinni tíð. Hún er vel greiðfær, liggur niður með vestanverðum Hvalhnúk og Austurásum og er síðan tíðindalítið að skarðinu ofan við Hlíð. Stakkavíkurselsstígur kemur inn á götuna neðan Vesturása og miðja vegu að Hlíðarskarði er stór og falleg hraunbóla í hraunhól (hægra megin – lítil varða við opið). Skömmu áður en komið er að henni er ágætt skjól í lágum grónum hraunhól, kjörinn áningarstaður.
Þegar komið er í Hlíðarskarð blasa við fallegar klettamyndanir og fallegt útsýni yfir Hlíðarvatn, Vogsósa og Selvog. Ágætt er að feta sig rólega niður skarðið og njóta útsýnisins og gróðursins í hlíðinni.
Tóftir eru undir Hlíðarskarði og ofan (norðan) og vestan við veiðihúsið undir skarðinu. “Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn. Tangi eða hólmi er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega . Árið 1501 selur Grímur Pálsson Þorvarði Erlendssyni lögmanni Hlíð. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Ofan við Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga.”
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimildir eru m.a. úr örnefnaskrá fyrir Ölfus; Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir.