Færslur

Selvogsgata

Gömlu Selvogsleiðirnar eru nú til dags jafnan taldar hafa verið þrjár, þ.e. Selvogsgata, Stakkavíkurvegur og Hlíðarvegur, hvort sem var um Grindaskörð eða Kerlingarskarð.

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð framundan.

Í raun voru leiðirnar ofan Skarðanna lengst af einungis tvær, þær fyrrnefndu, annars vegar niður í Selvog (Austurvog) og hins vegar niður að Stakkavík og Herdísarvík (Vesturvog), en seint á 20. öldinni varð ætlunin að leggja vagnveg um Kerlingarskarð frá Hafnarfirði niður að Hlíð í Selvogi. Fjárveiting fékkst til fjallvegarins, einkum vegna þess að vonast var til að brennisteinsnámið í Brennisteinsfjöllum á árunum 1885-1887 kynni að verða endurtekið og skapa þannig atvinnu fyrir þurfandi hendur. Byrjað var á því að varða leiðina frá Mygludölum að Hlíðarskarði og síðan var ætlunin að hefja hina eiginlegu vegalagningu. Úr henni varð þó aldrei, en göngufólk hefur æ síðan rakið sig eftir vörðunum í þeirri trú að þar væri hin eiginlega Selvogsgata millum byggðalaganna. Er það skiljanleg afstaða því vörður á hinum leiðinum tveimur eru víðast hvar fallnar eða orðnar nánast jarðlægar (enda miklu mun eldri og hefur ekki verið haldið við). Eftir að bílvegur var lagður um Selvog og Krýsuvík á sjötta áratug tuttugustu aldar lagðist umferð um gömlu leiðirnar af að mestu. Bæir í Selvogi voru þá flestir komnir í eyði, Stakkavík fór í eyði 1943 og Herdísarvík fór einnig í eyði um það leyti.
Þegar göturnar voru gengnar kom í ljós að Hlíðarvegurinn reyndist vera ~17 km, Stakkavíkurvegurinn reyndist vera ~18 km og Selvogsgatan ~24 km. Allar voru leiðirnar mældar frá Bláfjallavegi.
Upphaflega leiðin, Selvogsgatan (Suðurferðagatan) milli Hafnarfjarðar og Selvogs, lá upp frá bænum um Lækjarbotna, Setbergssel og með jaðri Smyrlabúðarhrauns. Þar má sjá vegghleðslur, væntanlega fyrrum áningastað Selvogsmanna. Gatan lá um Helgadal, upp með austanverðum Valahnúkum, Strandartorfum og um Hellur. Syðst á þeim skiptist gatan. Eldri gatan, sem jafnframt var reiðgata, lá upp í Grindaskörð austan við Konungsfell (Stóra-Bolla). Nýrri leið, sem einkum var notuð eftir að brennisteinsnámið byrjaði í Fjöllunum eftir 1885 lá um Kerlingarskarð. Sæluhús (úr timbri með aðhleðslum) var reist norðan undir Skarðinu og má sjá leifar þess enn. Húsið var skjól fyrir lestarmenn, sem ýmist fluttu brennisteininn neðan úr námunum eða umhestuðu honum og fluttu niður til Hafnarfjarðar. Þetta vinnslutímabil varði um tveggja ára skeið. Tvennt kom til; bæði var vinnslan og flutningurinn kostnaðarsöm og lítið fékkst fyrir afurðina á þessum tíma (forsendur brennisteinsvinnslu hafði jafnan verið stríðsáran og vandræðagangur einhvers staðar úti í Evrópu).

Kerlingarskarðsvegur

Efst í Kerlingaskarði. vegur sést vel neðra sem og drykkjarsteinninn í efra.

Kerlingarskarð er einungis fært að sumarlagi og þá oftast fótgangandi. Grindaskörð hafa verið fær öllu lengur og þá ríðandi. Að öllu jöfnu hafa þessar götur lítt eða ekkert verið farnar að vetrum þótt vörðuleifarnar við Selvogsgötuna bendi hins vegar til þess að síðar hefði verið reynt að gera hana nytsamlegri til ársins lengri tíma.
Ofan Grindaskarða / Kerlingarskarðs á Kerlingarskarðsleiðinni austan Girðingarhliðsins (sem nú er horfið að mestu) eru tvær vörður. Við þær eru gatnamót; annars vegar áframhaldandi leið úr Skarðinu yfir á Selvogsgötu upp frá Grindaskörðum og hins vegar (til hægri) leið um Stakkavíkurveg. Hlíðarvegurinn liggur aftur á móti til suðurs frá fyrstu vörðunni austan “hliðsins” með stefnu á næstu vörðu sunnan hennar. Vegurinn kemur síðan saman við Stakkavíkurveginn við vörðu nokkru sunnar. Reyndar skarast Hlíðarvegur og Stakkavíkurvegur þrisvar áður en þeir skiljast að ofan Ása. Þar liggur Hlíðarvegurinn áfram niður úfið hraunhaft að vestanverðum Austurásum, en Stakkavíkurvegurinn heldur áfram niður með austanverðum hraunjaðri Draugahlíðargígshraunsins að austanverðum Vesturásum.
Fyrrnefndi vegurinn liggur síðan kerlingarskard-223til suðurs með vestanverðum Austurásum með stefnu á Hlíðarskarð. Hinn síðarnefndi liggur aftur á móti til vesturs með sunnanverðum Vesturásum, niður með Urðarási, niður Dýjabrekkur og Selbrekkur uns varða blasir við framundan efst á Selsstígnum efst á Stakkavíkurfjalli. Þar liggur gatan niður hlíðina og liðast um hana kjarrivaxna áleiðis niður að bæjarstæðinu við norðvestanvert Hlíðarvatn.
Selvogsgatan hins vegar, meginleiðin, skiptist í tvennt sunnan Grindaskarða (Konungsfells). Annars vegar liggur leiðin niður með hraunkanti þeim er þar blasir við uns komið er að lítilli vörðu á litlum hraunhól.

Hlidarvegur-553

Þar eru gatnamót Götunnar og Heiðarvegarins (til vinstri) er liggur áfram upp að Bláfjallaenda, Kerlingahúk og áfram niður í Ölfus. Hins vegar liggur leiðin til hægri og áfram upp á slétta hraunbrúnina. Vörður og vörðubrot vísa leiðina um “sléttuna” uns komið er út af henni nokkru sunnar, inn á fyrrnefndu leiðina er lýst var.
Nú heldur Selvogsgatan áfram um auðrekjanlega slóð yfir mosahraun. Hún greinist í tvennt á kafla, en kemur fljótlega saman á ný. Vörður vísa leiðina. Þá er aðþrengdum grasbala fylgt og beygt til hægri. Framundan eru upplyftar hraunhellur er vísa leiðina að tveimur vörðum er gefa enn ein gatnamótin til kynna. Annars vegar er um að ræða leiðina, sem gengin hefur verið síðastnefnda leið upp frá Grindaskörðum og hins vegar leiðina er liggur frá vörðunum tveimur er gáfu til kynna gatnamót Stakkavíkurvegar og áður voru nefndar við leiðina upp frá Kerlingarskarði.

kerlingarskard-224

Hér skilja leiðir – til vinstri og framundan er gamla Selvogsgatan. Hún liggur greinileg að vestanverðu Litla-Kóngsfelli. Augsýnilega hefur gatan verið unnin á þessum kafla og það talsvert á köflum. Reynt hefur verið í gegnum tíðina að gera hana vel greiðfæra, bæði fyrir lestir og vagna (undir það síðasta). Líklegt má telja að verk þessi hafo verið unnin um og eftir miða 19. öld, en þá voru í gildi tilskipanir konungs um þegnskyldu og umbætur á helstu vegum landsins. Sérhver vinnandi maður átti þá að leggja sitt af mörkum til slíkra framkvæmda eftir tilvísun og undir eftirliti hrepsstjóra. En vegna þess hve vinnandi menn voru fáir og tíminn takmarkaður varð oft lítið úr verki, s.s. sjá má á umbótunum, en á afar litlum köflum hér og þar.
kerlingarskard-225Selvogsgatan liðast niður (ýmist utan í eða upp á hraunbrúninni) í Stóra-Leirdal, yfir hann og upp og yfir Hvalsskarð. Nafnið er reyndar ekki komið af engu. Þjóðsagan segir að tröllskessa í Stórkonugjá þar efra hefi farið niður í Selvog er fréttist af hvalreka, sótt sér hlut og stefnt heimleiðis. Bóndi, sá er hlutinn átti, fémargur í Selvogi, frétti af ferðum hennar, sótti á eftir henni og náði í Hvalskarði. Sá hann aumur á skessunni og samdist þeim um að hún héldi hvalfanginu gegn því að passa þess að fé bóndans færi ekki yfir Skörðin. Gerði skessan til þess grindur í Gridarskörðum, en gætti Kerlingarskarðsins sjálf. Þar af eru komin örnefnin Grindaskörð og Kerlingarskarð.
Hlidarvegur-554Neðan Hvalskarðs beygir Selvogsgatan allverulega til vinstri uns horft er mót vörðu á klapparhól í suðaustri. Að henni náð verður eftirfylgjan auðveld.
Að vísu er nú búið að aka ofan í gömlu götuna á köflum (af refaskyttum), en ef vörður og vörðubrot eru gaumgæfð sem og umförin á gömlu leiðinni, er tiltölulega auðvelt að fylgja götunni niður í Hlíðardal og áfram niður um Strandardal allt að Strandarmannahliði.

Selvogsgata

Selvogsgata (Suðurferðavegur), Hlíðargata og Stakkavíkurgata/-stígur.

Þar greinist gatan; annars vegar áfram niður Selvosgheiði að Strandarhæð og í Selvog og hins vegar um Hlíðargötu neðan Borgarskarða að Hlíð norðan Hlíðarvatns (sem áður hefur verið lýst).

Selvogsgatan um Selvogsheiði er tiltölulega auðrötuð þrátt fyrir uppblástur og jarðvegseyðingu á köflum. Suðvestan Vörðufells eru gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Hlíðarvegar/ Vogsósargötu /- vegar (varða er á gatnamótunum). Selvogsgatan liggur hins vegar áfram um graslendi uns halla tekur niður að Selvogi. Gatan er augljós handan gamla malarvegarins um ofanverðan Selvog og niður “túninn” austan Vogsósa, yfir nýja Suðurstrandarveginn og allt niður í Selvog þar sem gatan endar og greinist skammt norðvestan við núverandi veitingarbæinn T-Bæ, ofan Torfabæjar og Þorkelsgerðis, austan Strandar.
Frábært veður.
Gangan tók 6 klst og 6 mín.

 

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Selvogsgata

“Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Selvogsgata

Selvogsgata/Grindarskörð.

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur, en var vetrarvegur (KB)) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.

Selvogsgata

Grindarskarðsgata á Hellunni.

Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana. Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið lögið til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða. Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu.

Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.

Selvogsgata

Varða á Selvogsgötu.

Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhalda af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells. Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gengum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, í fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg – vetrarveginn) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman.

Hlíðarborg

Tóft í Hlíðarborg.

Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.

Strandardalur

Strandardalur.

Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur. Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Stínurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.

Selvogsgata

Á Hlíðargötu.

Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.

Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg á sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.

Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús.

Áni

Áni.

Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Í lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.

Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu.

Selvogsgata

Gengið um Hvalskarð.

Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni. Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið (Úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið um Grindarskörðin með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Páskabóla

Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð við Hlíðarvatn. Elstu tóftirnar, landnámsbærinn, voru þar sem nú er nes út í vatnið skammt austan við veiðihús SVFH. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær á kaf, líkt og gamli Stakkavíkurbærinn. Vestar eru tóftir útihúsa og ofan vegar eru tóftir og garðar enn eldri minja. Í Hlíð var síðast búið 1906 eða fyrir tæpri öld. Gerður verður uppdráttur af minjasvæðinu.
Gengið var um Hlíðarskarð. Þoka var í skarðinu og ofan við það, en lygnt og hlýtt veður.

Páskabóla

Páskabóla.

FERLIRsfélagi, sem var fyrir nokkruvið athuganir á gömlum leiðum og götum ofan við Stakkavíkursel, rakst þar á op í hraunhól. Undir niðri var gat, dýpi undir og hugsanlegar rásir. Síga þurfti niður um opið. Annar FERLIRsfélagi hafði nú bæði hannað bandstiga til að sigra dýpið og einnig þjálfað sig að bera hann þá vegalengd sem til þurfti.
Þrátt fyrir mikla og snögga hækkun fyrsta hluta leiðarinnar blésu þátttakendur varla úr nös þegar upp var komið. Kynjabergmyndanir tóku við efst í skarðinu og ekki varð þokan til að draga úr kyngimögnuninni. Engin varða er á spotta á götunni eftir að Hlíðarskarðsvörðunni sleppir. Stefnan var því tekin á vörðu, sem vitað var af ofan mela, og var vörðunum ofan hennar síðan fylgt upp undir Vesturása. GPS-punktur var hafður til viðmiðunar, en hann reyndist því miður rangur þegar á þurfti að halda. Nú voru dádýr góð. Brugðið var á eitt af hinum þjálfuðu FERLIRsráðum; gengið upp fyrir mögulegt leitarsvæði og svæðið síðan línuleitað til suðurs, vestan götunnar. Fannst þá gatið skömmu síðar. Hraunhóllinn var nær fullur af snjó, en eftir að innihaldið hafði verið kannað kom í ljós heil, falleg og stór hraunbóla, 12 x 22 metrar og um 7 m á hæð. Rás var austur úr henni, en fremur stutt. Kaðalstiginn kom sér vel, bæði við að komast niður og ekki síður til að komast upp aftur. Ekki er að sjá að neitt dyldist þarna umfram það sem áður var. Ákveðið var að gefa hellinum vinnuheitið “Páskabóla” í tilefni stundarinnar.
Nýr GPS-punktur var tekinn. Bólan er tilvalinn áningarstaður fyrir ferðalanga um Hlíðarskarðsveg í misjöfnum veðrum – ef þeir bara hefðu stiga meðferðis.
Á leiðinni til baka var farið um Hlíðarskarð. Niðurgangur gekk vel, en þessi ferð verður ekki afturgenginn.
Erfið og hröð 13 km ganga (3 klst og 2 mín). Gott veður, þrátt fyrir dimma (en umfeðmingasama) þoku á köflum.

Páskabóla

Opið.

Ratleikur Hafnarfjarðar

Þema Ratleiks Hafnarfjarðar í ár, þann 25. í röðinni, eru fornar þjóðleiðir, gamlar götur og stígar.
Guðni Gíslason hjá Fjarðarfréttum (Hönnunarhúsinu) leggur leikinn. Þátttakendur geta nálgast frítt ratleikskort í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar við Strandgötu, á bensínafgreiðslustöðvum N1, í Fjarðarkaupum og sundlaugum bæjarins.

1. Garða(Kirkju)vegur (norðan Hjallabrautar)

Hjallabraut

Gamlar götur vestan Hjallabrautar.

Hafnfirðingar og Garðbæingar í Hraunum sóttu kirkju að Görðum á Garðaholti allt fram til þess að Fríkirkjan í Hafnarfirði (vígð 14. desember 1913) og þjóðkirkjan (vígð 20. desember 1914) voru byggðar. Allar götur þangað til gengu kirkjugestir eftir Kirkjuveginum ofan Akurgerðis, fram og til baka, að og frá Garðakirkju. Veginum var síðar breytt norðan Víðistaða, upphlaðinn af Sigurgeiri Gíslasyni og vinnuflokki hans til flutninga milli bæjarins og fiskvinnslunnar á Langeyri. Út frá honum voru ótal fiskreitir og hjallar.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Sigurgeir átti blett við Víðistaðatún, s.a.s. fast við Kirkjuveginn. Vegurinn sá lá upp frá miðbæ Hafnarfjarðar sunnan Akurgerðis, upp með Víðistöðum og áfram yfir hraunið að Görðum. Í dag sjést vegurinn enn ofan Akurgerðis (Byggðasafnið), auk þess sem mótar fyrir honum á Víðistaðatúninu að vestanverðu Skátaheimilinu. Í Norðurbænum er vegurinn kominn undir byggðina.
Sigurgeir var vegavinnuverkstjóri við flestar vegaframkvæmdir inn og út frá Hafnarfirði í byrjun 20. aldar, s.s. Suðurnesjaveginn til Njarðvíkna, Grindavíkurveginn, Hafnarfjarðarveginn til Reykjavíkur og Járnbrautarveginn í gegnum Hafnarfjarðarhraun.

2. Engidalsstígur (norðan Fjarðakaups)

Garðahverfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Enn má sjá nokkurra metra kafla af Engidalsstígnum, uns hann hverfur undir hugsunarlausa framkvæmdargleði nútímamannsins. Þarna lá gamla leiðin suðurúr frá gatnamótunum í Engidal. Hraunkanturinn er þarna skammt norðar, en austar er m.a. tóft sauðakofa og síðan rétt og fleiri mannvirki skammt inni í hrauninu ofan við kantinn. Hraunsholtshellir, Arneshellir, er við Hraunsholt. Á milli Hafnarfjarðarvegarins og réttarinnar liggur Hraunsholtsselsstígur í gegnum hraunið, að Hádegishól, þar sem Hraunsholtsselið var fyrrum sunnan undir honum. Selsminjarnar hafa, því miður, verið í auðn lagðar vegna framkvæmda – eitt þriggja þekktra selja af u.þ.b. 400 slíkum á Reykjanesskaganum.
Skammt sunnan við Engidalsstíginn gamla er listaverkið Jötnar eftir Grím Marinó frá árinu 2000.

3. Hagakotsstígur (á móts við Járnbrautarveginn)

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Hagakotsstígur lá frá Hofstöðum að selstöðu bæjarins við Urriðavatn. Nafnið er dregið af Hagakoti, sem var hjáleiga frá Hofstöðum og stóð skammt norðan við Hraunsholtslæk (Hagakotslæk), ofan við Hagakotsvað. Stígurinn sést enn mjög vel í gegnum Hafnarfjarðarhraunið frá hlaðinni tóft á hól sunnan lækjarins við vaðið að mislægum gatnamótum er liggja nú að Kaupstaðahverfinu. Þar hverfur hann undir nútímaframkvæmdir.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Járnbrautarvegurinn (Atvinnubótavegurinn) í Hafnarfjarðarhrauni var stórframkvæmd í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hann liggur hann yfir Hafnarfjarðarhraun (nú Garðahraun) sem er hluti Búrfellshrauns.
Atvinnubótavegurinn var lagður frostaveturinn mikla 1918. Þá strituðu verkamenn í miklum frosthörkum við að ryðja og hlaða upp veg gegnum hraunið með handaflinu einu saman. Engu að síður voru þeir starfinu fegnir. Þetta var eina vinnan sem í boði var á erfiðum tímum og löngu fyrir tíma atvinnuleysisbóta og viðlíka úrræða af hálfu hins opinbera. Vonir stóðu til að leggja varanlega járnbraut millum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur…

4. Útnesjaleið á Alfaraleið (kapellan)

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Útnesjaleiðin lá frá Hafnarfirði (Innnesjum) út á Suðurnes (Útnes). Frá Hraunabæjunum nefndist gatan Alfaraleið að Kúagerði, þá Almenningsvegur ofan Vatnsleysustrandar og Stapagata frá Vogum til Njarðvíkur. Gatan sést í grónu Hellnahrauninu vestan golfvallarins á Hvaleyri um Leyni. Þar fór hún upp á Brunann (Nýjahraun/Kapelluhraun), en öllu því hraunssvæði hefur nú verið spillt, utan lítils hóls, sem endurgerð kapellutóft stendur nú á. Vestan við hana sést bútur af götunni þar sem hún á að hraunbrúninni við Gerði. Þar sést hvar Útnesjaleiðin og Alfaraleiðin koma saman.

Alfaraleið

Útnesjaleiðin (Alfaraleiðin) – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja á Reykjanesskaganum. Um hana fóru allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig enn eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim kennileitum, sem enn eftir standa.

5. Selvogsgata (Setbergssel)

Setbergssel

Setbergssel við Selvogsgötu – nátthagi.

Sunnan Selvogsgötu suðaustan Fjárhúshlíðar eru tvö sel, Setbergssel og Hamarskotssel. Varða ofan og milli hraunrásar er á mörkum jarðanna. Vestan við austara opið sést móta fyrir hlaðinni kví í skjóli fyrir austanáttinni. [Þessi kví mun hafa tilheyrt Hamarsskotsselinu]. Ofar eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru, s.s. hlaðið gerði. Í hraunrásinni er Setbergsselsfjárhellir (Selshellir) að norðanverðu (hlaðinn garður er þvert fyrir hellinn) og Hamarskotsselsfjárhellir að sunnanverðu. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar, en selið lagðist af í lok 19. aldar.

Fjárhús

Fjárhús.

Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vandaða vörðu á Fjárhúshlíð, má enn sjá háar hleðslur af gömlu fjárhúsi, sem byggt voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsselinu. Gott útsýni er til selsins frá vörðunni.
Tveir aðrir hellar eru í hraunrás austan og ofan seljanna; Kershellir og Hvatshellir. Selvogsgatan liggur ofan við jarðfallið, sem myndar opið. Þar er hlaðin varða.

6. Selvogsgata (Helgadalur)

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Selvogsgata liggur þvert yfir Helgadal. Vestan götunnar er gróinn Helgadalur með vatni í undir háum hamravegg og að austan er hraunsvæði Búrfellshrauns. Í því eru nokkrir hellar, s.s. Rauðshellir, Hundraðmetrahellir og Fosshellir. Allir eru í sömu hraunrásinni, sem lokast á millum. Í grónu jarðfalli við op fyrstnefna hellsins eru miklar hleðslur, bæði neðar og ofar. Þar eru og undir jarðveginum hleðslur einhverra fornra skjóla. Skammt norðar jarðfallsins er hlaðinn stekkur.
Nyrst í austanverðum Helgadal eru tóftir, annað hvort fornbæjar eða, sem er öllu líklegra, fornar selstöðu, sem lítt hafa verið rannsakaðar.

7. Kaldárselsvegur (vestan Borgarstands)

Kaldárselsvegur

Kaldárselsvegur.

Kaldárselsstígur var fyrst sem selstígur frá Görðum um Setberg (Selvogsgatan) þar sem hún lá af götunni til vesturs ofan misgengis austan Klifsholts að Kaldárseli, en síðar sem frá Hafnarfirði upp á Öldur og þaðan inn með vestanverðri Sléttuhlíð að Borgarstandi og þaðan að selinu. Gatan er enn vel greinileg vestan og norðan Borgarstands þar sem hún er grópuð í hraunhelluna.
Á Borgarstandi voru fyrrum tvær topphlaðnar fjárborgir, en önnur þeirra var endurnýtt (sú austari) af handverksmönnum er unnu að gerð vatnsleiðslunnar frá Kaldárbotnum til Hafnarjarðar árið 1919.
Leifar af undirhleðslu vatnsstokksins úr Kaldárbotnum, þar sem vatninu var fleytt yfir þverhleðslu Lambagjár og áfram yfir í Gjáahraunið þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum ofan Hafnarfjarðar.

8. Kúastígur (sunnan Kaldársels)

Kúastígur

Kúastígur frá Kaldárseli.

Kúastígur liggur frá Kaldárseli með stefnu á Kúadal, inn á Undirhlíðaleið vestan Undirhlíða og inn í Kúadal þar sem beit var fyrir kýr. Slíkir staðir eru fáir í nágrenni við selið. Reyndar voru kýrnar fáar og einungis í stuttan tíma, þ.e. á meðan búið var í selinu undir það síðasta.

Kúastígur

Kúastígur að Kúadal.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Kaldársel

Kaldársel – nú og fyrrum.

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun um 1880.

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.
Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.
Hafnarfjarðarbær keypti Kaldársel 1912 og árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli, nánast ofan í seltóftunum.

9. Undirhlíðaleið (Litli-Skógarhvammur)

Litli-Skógarhvammur

Litli-Skógarhvammur.

Undirhlíðaleið liggur, eins og nafnið bendir til, með vestanverðum Undirhlíðum frá Kaldárseli, í Sandfellsklofa og áfram til suðurs vestan við Sveifluháls að Ketilsstíg. Í Undirhlíðum hefur verið plantað í skógarreiti.
Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Birkið og víðitrén áttu í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða lundinn. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

10. Undirhlíðaleið (Stóri-Skógarhvammur)

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur.

Stóri-Skógarhvammur er eitt best varðveitta leyndarmál hafnfirskrar skógræktarsögu. Þangað liggur enginn akfær vegur, einungis slóði, sem ætlunin er að betrumbæta. Hvammurinn er í norðanverðum Undirhlíðum milli Bláfjallavegar og Krýsuvíkurvegar og var áður vinsæll áningastaður þeirra sem fóru Undirhlíðaleið, gömlu þjóðleiðina milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.
Auðvelt er að komast í Stóra-Skógarhvamm með því leggja bílnum á afleggjara af Kýsuvíkurvegi norðan við Vatnsskarð eða við aflagða malarnámu í Undirhlíðum við Bláfjallaveg. Þar eru stikur sem vísa á Undirhlíðaleið. Leiðin að Stóra-Skógarhvammi er tæplega 2 km löng, hvora leiðina sem farið verður.

Undirhlíðaleið

Undirhlíðaleið.

Eins og nafnið gefur til kynna var Stóri-Skógarhvammur vaxinn gömlum birki- og víðiskógi þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk svæðið til umsjónar og ræktunar 1958. Byrjað var á að girða 56 ha. spildu af sumarið 1958 en árið eftir hófst plöntun trjágróðurs af fullum krafti.
Samið var við Hafnarfjarðarbæ um að piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík önnuðust ræktunarstarfið undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Þegar vinnuskólinn í Krýsuvík var lagður niður haustið 1964 var formlegu ræktunarstarfi lokið í Stóra-Skógarhvammi. Skógurinn hefur fengið að aðlagast landsháttum undanfarna fjóra áratugi og hefur nánast verið sjálfbær þennan tíma.

11. Dalaleið (um Leirdal við Leirdalshöfða)

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur  til norðurs- Helgafell fjær.

Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um og eftir Bakhlíðum að Leirdalshöfða. Leiðin liggur um Leirdal (Slysadal), yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, inn með utanverðum Breiðdalshnúk með stefnu á Vatnshlíðarhorn og um Blesaflatir að Kleifarvatni vestan Lambhagatjarnar. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Ytri- og Innri Stapa í áttina að Vesturengjum austan Seltúns í Krýsuvík.

Slysadalur

Slysadalur til suðurs – Breiðdalur og Vatnshlíð framundan.

Þegar vatnsyfirborð Kleifarvatns var hátt, sem gerist af og til, þurftu ferðalangar að „fara Helluna“, þ.e. að feta móbergshallan ofan við bergið norðan Ytri-Stapa. Það gat verið varasamt vegna sleipu á kafla og reyndist stundum þörf á að fara hann á sokkaleistunum. Enn má sjá þar rás í hallanum. Við Seltún var brennisteinsnámusvæði fyrrum, auk boranatilrauna, bæði eftir heitu vatni og jarðgufu. Seltún dregur nafn sitt af fyrrum seli frá Krýsuvík. Selshúsin voru jöfnuð við jörðu í byrjun sjöunda áratugs tuttugustu aldar þegar til stóð að reka þar kúabú, en enn ná sjá leifar gerðis og stekks austast í túninu (austan vegarins), sem hross Hafnfirðnga hafa smám saman verið að jarðlægja.
Í nútíma ferðalýsingum er Dalaleið sögð liggja upp úr Fagradal, um ofanverða Vatnshlíð austan Kleifarvatns, um Hvammahraun og Austurengjar að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Sú leið var farin af rjúpnaveiðimönnum fyrrum, enda jafnan veiðivænt í hlíðunum og með hraunkantinum efra.

12. Stórhöfðastígur (varða)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastígur liggur frá Ási um Hádegisskarð og Dalinn (Ásflatir), sniðhallt yfir Bleiksteinsháls, út á Selhraunið að Stórhöfða, upp með honum að vestanverðu uns hann beygir yfir Hellnahraunið yngra og Brunann í átt að Snókalöndum. Þar fer hann yfir Krýsuvíkurveginn og síðan suður hraunið upp að Fjallgjá, fylgir misgengi að Fjallinu eina, upp með því að austanverðu að austurjaðri Hrútagjárdyngju og með upprisuvegg hennar að Undirhlíðaleið.
Skammt vestan Stórhöfðastígs á móts við vesturhorn Stórhöfða er heillegt hlaðið fjárskjól og gerði í hraunkrika. Gegnt Stórhöfða hefur stígurinn verið lagaður í gegnum hraunið, sem nú hefur verið úr lagi færður á stórum kafla vegna skammsýnnar efnistöku.

13. Hrauntungustígur (varða)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur við Krýsuvíkurveg – vegvísir.

Hrauntungustígur liggur frá Ási um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina með stefnu á Hrútargjárdyngju, samhliða henni að Hrúthólma og upp með austanverðu Hrútfelli að Ketilsstíg.
Hrauntungustígur frá Hádegisskarði með Hamranesi og yfir fyrrum fiskhjallahraunið (Hellnahraun) er horfin undir byggð og aðrar framkvæmdir. Varða ein er á Brunahraunbrúninni vestan Krýsuvíkurvegar. Stígurinn sést vel frá veginum að henni, en síðan tekur við eyðilagt hrauntökusvæði í boði Skógræktar ríkisins. Ef stikum er fylgt í gegnum svæðið má finna stíginn þar sem hann kemur inn í Hrauntungur og síðan upp úr þeim norðvestan við skógræktina í Brunntorfum. Á þeirri leið er m.a. Hrauntunguskjólið, sem nýtt hefur verið til kolagerðar í tungunum.

14. Hrauntungustígur (Brunntorfur)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustíg má auðveldlega rekja í gegnum Hrauntungur upp í Brunntorfur. Eftir að komið er úr Hrauntungum (þar sem m.a. má líta Hrauntunguskjólið augum) liggur gatan um Brunntorfur (Brundtorfur). Þar hefur nú verið komið upp miklum skógi af hálfu úthlutaðra spilduáhugagræðara. Á Brunabrúninni má sjá steinhlaðna “skýjaborg”; Þorbjarnarstaðafjárborgina. Fjárborgin var hlaðin af börnum hjónanna á Þorbjarnarstöðum, Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi og Ingveldar Jónsdóttur, dóttur Jóns Guðmundssonar, bónda á Setbergi um aldramótin 1900. Systkinin, sem voru 11, hafa eflaust setið yfir fé í Torfunum og ætlað sér að byggja þar topphlaðna borg líkt og þau þekktu frá Djúpudölum í Selvogi. Miðveggurinn í henni var ætlaðu að halda undir þakið, þegar að því kæmi, en líklega hefur þeim verið bannað að halda verkinu áfram því hlutfallslega hefði tilgangurinn ekki helgað meðalið – til þess var ummál borgarinnar allt of mikið.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Ofan Brunntorfa liggur Hrauntungustígur upp að Fornaseli og síðan áfram upp í Almenning, áleiðis að Fjallsgrensvörðunni, um Sauðabrekkur og áfram á Ketilsstíg.

15. Stórhöfðastígur (ofan Brunntorfa)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – gerði.

Stórhöfðastígur um Brunntorfur liggur um gróið Hellnahraunið. Þar er hlaðið gerði í krika. Skammt norðan þess er varða er vísar leiðina inn í Snókalönd, sem eru óbrinnishólmar í Brunanum. Eftir að komið er á stíginn sunnan Krýsuvíkurvegar liggur hann um tiltölulega slétt Hrútagjárdyngjuhraunið. Í því ofanverðu, áður en komið er að Fremstahöfða, má víða sjá stíginn mótaðan í hraunklöppina eftir umferð manna og dýra um aldir.

16. Gerðisstígur (ofan Gerðis)

Gerðisstígur

Gerðisstígur.

Gerðisstígur liggur frá Gerði í Hraunum, upp með vesturbrún Brunans (Kapelluhrauns) og í gegnum Selhraun (þar sem hún hefur verið rudd í gegnum hraunið) í áttina að Neðri- og Efri-Hellum (fjárhellum). Stígurinn er varðaður að hluta. Hann liggur að malarnámum þar sem áður var Þorbjarnarstaðarauðamelur í áttina að Neðri-Hellum. Norðan námunnar má sjá fjárskjól með hleðslum í stuttum hraunrásum. Þaðan liggur stígurinn upp með Vorréttinni undir brunanum að Efri-Hellum, sem eru gróin fjárskjól með hleðslum í hraunrás undir háum hraundrang. Frá fjárskjólinu liggur leiðin upp að Kolbeinshæð þar sem fjárskjólið Kolbeinshæðarfjárskjól hvílir og áfram um Laufhöfðahraun að Gjáseli og áleiðis upp á Hrauntungustíg.
Gerðisstíg hefur nú verið spillt að hluta með óskiljanlegum moldartipp sunnan kvartmílubrautarinnar.

17. Alfaraleið (í Draugadölum)

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Alfaraleiðinni er fylgt til vestur frá Þorbjarnarstöðum. Hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókóttari þar sem hún þræðir um skorninga á milli hraunhóla og – hvela. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd, hlaðin í atvinnubótavinnu snemma á 20. öld líkt og nokkrar aðrar sambærilegar við leiðina. Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Þar við eru gatnamót Rauðamelsstígs (Óttarsstaðaselsstígs/Skógargötu).
Framundan er Gvendarbrunnshæð. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli.
Reimsamt þótti í Draugadölum. Þótti sumum sem þeir heyrðu þungan andardrátt fyrir aftan sig á göngunni í gegnum dalina, einkum eftir að skyggja tók.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar, örsutt ofan túngarðs, og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en aðrir segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu [ofan Þorbjarnastaða]. Síðan er þarna kallað Himnaríki.“

18. Rauðamelsstígur (gatnamót við Alfaraleið)

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígur liggur frá Óttarsstöðum upp í Óttarsstaðasel og síðan áfram upp Almenning inn á Hrauntungustíg efst í Almenningi. Stóri-Rauðamelur var fyrrum áberandi í landslaginu þar sem nú er niðurgrafin grjótnáma norðan Alfaraleiðar. Skammt norðan hans er Litli-Rauðamelur, sem í örnefnalýsingum er sagður horfinn. Því fer fjarri. Um er að ræða fagurfræðilegan afrúnaðan rauðamelshól í umluktu hraunlendi. Ofan Meitla sést vel heim til selsins. Skammt neðar er Meitlaskjól (fjárskjól).
Stígurinn var einnig nefndur Óttarsstaðaselstígur. Út frá honum liggur Skógargatan til suðurs. Við gatnamótin eru tvær nánast jarðlægar vörður.

19. Lónakotsselsstígur (gatnamót Alfaraleiðar)

Lónakotsselsstígur liggur frá Lónakoti upp í Lónakotssel undir Skorási. Á ásnum er varða, sem sést víða að.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við á hægri hönd. Þetta er falleg fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum svonefnda, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir vel í bók sinni Íslenskum aðli. Nú hefur verið komið fyrir grind af húsinu á gjallhaugnum til minningar um listaverkið sem þar var.

20. Straumsselsstígur vestari (vestan Draughólshrauns)

Straumsselsstígur vestari liggur upp frá Straumi, nokkru vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina, upp með vestanverðu Draughólshrauni að vörðu á þverleið milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þaðan sést vel til beggja seljanna.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Þegar þverleiðinni er fylgt til austurs er komið að Straumsseli. Í Straumsseli eru bæði leifar selsins sem og bæjar skógarvarðarins í Almenningum.
Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þótt kjörin væru kröpp.
Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

21. Skógargata (gatnamót við Rauðamelsstíg/Óttarsstaðaselsstíg)

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur neðan gatnamóta Skógargötu.

Á Rauðamelsstíg (Óttarsstaðaselsstíg) neðan Meitla eru tvær fallnar vörður. Þær eru á gatnamótum Skógargötunnar er liggur vel vörðuð upp í Skógarnef að Bögguklettum. Þaðan liggur leiðin um hraunið að Lambafellsklofa. Norðaustan hans skiptist leiðin; annars vegar upp að norðanverðum Dyngjurana, utan við Fíflvallafjall að Hrúthólma þar sem hún sameinast Hrauntungustíg, og hins vegar til suðurs austan Eldborgar að Trölladyngju og áfram um Selsvelli og Hraunsel vestan við Núpshlíðarháls niður á Krýsuvíkurleið milli Grindavíkur og Krýsuvíkur norðan Skála-Mælifells.
Merkið er nokkru norðan við gatnamótin.

22. Straumsselsstígur eystri (gatnamót Gjáselsstígs/Fornaselsstígs)

Straumsselsstígur eystri liggur upp frá Straumi sunnan garðs Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina og upp gróna kvos vestan Þorbjarnarstaðastekks (Stekksins), til austurs norðan Draughólshrauns um Flárnar ofan Katla. Neðan og norðan við Katlana greinist gatan; annars vegar heldur hún stefnu í átt að Laufhöfða (Laufhöfðavarða) þar sem hún stefnir á Gjásel og síðan áfram upp í Fornasel, og hins vegar stefnir gatan í átt að Kötlunum og upp með þeim í Straumssel.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur eystri -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

Upp frá Straumsseli liggur leiðin um Straumsselshellnastíg (framhjá Neðri- og Efri-Straumsselshellum) upp að Gömlu-þúfu í áttina að Sauðabrekkugjá þar sem stígurinn sameinast Hrauntungustíg við Fjallgrensvörðuna skammt norðan gjárinnar. Straumselsstígurinn eystri er í fari selstígsins að Fornaseli (ofar) og Gjáseli (neðar). Hvorutveggja voru sel frá Þorbjarnarstöðum. Á stígnum skammt ofan við Tobburéttar austari (sem er fast vestan við hann) má sjá hvernig mikil umferð í gegnum aldirnar hefur sett mark sitt á hraunhelluna.

23. Hrauntungustígur (Fjallgrensvarða)

Fjallgrensvarða

Fjallgrensvarða. Girðingarstaur á landamerkjunum sést í fjarlægð.

Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða við Hrauntungustíg á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þrem­ur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna eru þar skammt frá.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum segir m.a.: „Austur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
Hrauntungustígur virðist rangt stikaður á þessum slóðum.

24. Grásteinsgata (í Urriðakotshrauni)

Grásteinn

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Grásteinsgata lá frá Hraunsholtstúni til austurs með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum er fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun (Hafnarfjarðarhraun), framhjá Miðaftanshól og yfir núverandi Reykjanesbraut, en stígurinn er nú undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól (landamerki Urriðakots og Vífilsstaða), inn á Moldargötur og áfram eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun framhjá Grásteini að Kolanefi og þaðan á stíg upp með hlíðinni í Selgjá. Í gjánni voru 11 selstöður frá Garðabæjunum og sjást þar enn leifar þeirra.
Hluti gjárinnar, að vestanverðu, hefur nú verið friðlýstur.

25. Dauðadalastígur (ofan Helgafells)

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Á kortum er Dauðadalastígur sýndur koma frá austanverðu Helgafelli, inn í elsta Húsfellsbrunann frá því um 950 e.Kr. og síðan um eldri hraun er kom frá Grindaskörðum (1100 – 4000 ára). Síðan liggur hann um Tvíbollahraunið, niður á Hellnahraunið frá sama tíma um Dauðadali og eftir þeim til suðurs uns hann beygir upp með suðvestanverðum Markraka og fylgir honum síðan utanverðum áleiðis upp á Selvogsgötu. Eflaust hafa hellaopin í Dauðadölum litla athygli vakið fyrrum, enda voru ljóslausir ferðalangar ekki að gera sér sérstakan útúrdúr til að kíkja niður í slík „ómerkilegheit“ í þá daga. Nú sækjast ferðalangar einkum í litadýrð þessara hella (Dauðadalahella, Flóka o.fl.). Stígurinn kemur inn á Selvogsgötuna þar sem hún greinist annars vegar í leiðina að Kerlingaskarði og hins vegar í svo til beina stefnu að Grindaskörðum.

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Þegar gengið er um þetta hraunsvæði má, sem fyrr er lýst, sjá nokkur hraunskeið, s.s. hraun úr Grindaskörðum (1100-4000 ára gamalt, enda vel gróið líkt og sjá má í Grindarskörðunum sjálfum), Tvíbollahraunið (frá því um 950) og Hellnahraunið (rúmlega 2000 ára gamalt). Austar er Húsfellsbruni (frá svipuðum tíma og Tvíbollahraunið (950). Inni á millum er grágrýtismyndanir kaplatóarhæða (rúmlega 7000 ára gamlar). Efst, í bókstaflegri merkingu, trjóna Helgafells- og Húsfellsmóbergsmyndanirnar í norðvestri (eldri en 11000 ára). Í heildina er á svæðinu um að ræða einstaka jarðsögu (þ.e. ef fólk kann á annað borð að lesa úr henni). Ekki má horfa framhjá hinum stórkostlegu hraunreipsmyndunum í horfnum árfarvegi vestan Dauðadala.
Gatan var einkum notuð af rjúpnaveiðimönnum. Efst í Kristjánsdölum, skammt frá Selvogsgötunni, eru tóftir eftir hús þeirra.

26. Selvogsgata (Kaplatór)

Selvogsgata

Selvogsgata – rudd á kafla gegnt Kaplatór. Húsfell fjær.

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga. Ferðalangar fyrri alda hafa bæði mótað og sett spor sín á götuna sem liðast eins og farvegur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandartorfum og Kaplatór eftir varðaðri leiðinni um Hellur, upp í Grindarskörð (sem og Kerlingarskarð inn á Hlíðarveg) og áfram niður í Selvog um Hlíðardal og Strandadal.
Strandartorfur og Kaplatór voru kærkomnir áfangastaðir við götuna, enda báðir skjólgóðir og beitarvænir. Hlaðin varða trjónir yfir Kaplatór.
Miðkafli Selvogsgötunnar er vel varðaður og ruddur um úfnar hraunspildur á köflum. Þessi hluti götunnar, frá Grindarskörðum niður í Hafnarfjörð, notaður til flutnings á brennisteini úr námum í Brennisteinsfjöllum um skeið á seinni hluta 19. aldar.

27. Kerlingaskarðsvegur/Selvogsgata (gatnamót við Bláfjallaveg)

Selvogsgata

Selvogsgata um Grindarskörð og  Kerlingarskarðsvegur um Kerlingarskarð.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur eins og heimamenn í Selvogi nefndu leiðina) lá á millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Gatan er enn vel greinileg þar sem hún liggur upp frá Strönd í Selvogi, upp Selvogsheiði um Strandar- og Hlíðardal, yfir Hvalskarð og áfram að Grindaskörðum austanvert við Konungsfell (síðar Kóngsfell) þar sem undirlendið að Hafnarfirði blasti við.
Fyrir neðan Grindaskörð, við bílastæði neðan sæluhúss, sem þar er, eru gatnamót. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu áratuga hafa gjarnan frá þeim stað fetað aðra götu, sem brennisteinsmenn notuðu á leið sinni upp í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum í lok 19. aldar og Hlín Johnson lét síðar áframleggja niður að Hlíð við Hlíðarvatn, þ.e. upp Kerlingarskarð. Ofan þess hefur síðan vörðum frá því um miðja síðustu öld verið fylgt niður að Hlíðarskarði – og leiðin síðan jafnan verið kynnt sem hina einu sanna “Selvogsgata”.

Selvogsgata

Grindaskarðavegur.

Í rauninni er um þrjár götur að velja og er “túrhestagatan” nýjust. “Túrhestagatan” er seinni tíma “gata”, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna í þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn vera “sú eina” millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar önnur.
Tvær vörðuleifar eru enn á þessum hluta Selvogsgötunnar ofan gatnamótanna, en annars er yfir slétt mosavaxið helluhraun að fara áleiðis upp í Grindaskörð. Leiðin sú er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum; áningarstöðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Við það mótar enn fyrir jarðlægum tóftum.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðingum. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir það þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 80 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.

Grindarskörð

Grindarskörð og Kerlingaskarð.

Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður er liggur niður að Hrauni í Ölfusi.
Ofan Litla-Kóngsfells er varða og flöt uppsett hraunhella. Hvorutveggja eru merki um ofanverð gatnamót Selvogsgötu og Hlíðarvegar. Skammt vestar er vatnsstæði. Sunnan Hvalsskarðs þverast göturnar af Stakkavíkurselsstíg, sem liggur sem leið liggur niður að Stakkavík um Selstíg. Vestan við Hvalhnjúk taka við Vestur-Ásar.
Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrúnina. Þegar á brúnina kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist allnokkuð. Af henni blasir við undirlendið allt sem og hafið svo langt sem augað eygir til suðurs.

Sjá meira um ratleikinn HÉR.

Selvogsgata

Selvogsgatan að morgni dags.

Valgarðsborg

Öxl skilur af Strandardal og Hlíðardal vestan Svörtubjarga. Úr bergöxlinni sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem var ómetanleg fyrir heyskapafólk í dölunum. Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ætlunin er að finna Sælubunu og tóftir af bæ Indriða.

Strandardalur

Varða við Katlabrekkur.

Auk þess var ætlunin að skoða Vogsósasel, Hlíðarborg, Hlíðarsel, Valgarðsborg, Hlíðarveg, Selvogsgötuna gömlu (Suðurferðaveg), Dísurétt, Borgarskarðsborg og tóftir vestan hennar, auk Ána.
Lagt var af stað frá réttinni austan Hlíðarvatns. Gengið var upp að Vogsósaseli, tóftir þess skoðaðar og síðan haldið upp slóða áleiðis að Hlíðarborg. Eftir að hafa skoðað borgina, sem er í heiðinni vestan undir háum hraunhól, fallega hlaðin, var haldið spölkorn til suðurs, yfir girðinguna, og litið á tóftir meints Hlíðarsels. Ekki er vitað til þess að selið hafi verið skráð. Reyndar gildir það einnig um Hlíðarborgina, sem er þarna skammt norðar.
Selstígurinn vestan tóftanna sést enn vel. Seltóftirnar eru vestan undir grónum hól, en sunnan hans er Valgarðsborg. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Stefnan var tekin inn á Hlíðargötu er liggur frá Hlíð, upp með Hlíðarfjalli og inn með Kötlubrekkum. Nefjavarða er þar á Rofunum. Gísli Sigurðsson segir í lýsingu sinni um þetta svæði að “ekkert örnefni sé á Hlíðarfjalli uppi, þar til kemur að Hlíðarfjallsenda, þar sem það hverfur undir Katlahraunið, sem er uppi á brún, fyrir ofan Katlabrekkur.

Sælubuna

Sælubuna í Standardal.

Í Katlahrauni eru grónar lautir, og var slegið þar áður fyrr. Hér er komið á aðalleiðina úr Selvogi til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Leiðin liggur af Katlabrekkubrún, skáhallt upp og yfir Katlahraunið. Katlabrekkur eru framan í brún, vestan við Björgin. Þær eru rétt við vegslóðann, farið er milli þeirra og Bjarganna. Þegar upp er komið, blasa við á hægri hönd Hlíðardalir, Hlíðardalur efri og Hlíðardalur neðri, vestan við Stóra-Urðarfell. Efri dalurinn er stærri.
Á milli dalanna er Dalshryggur, svolítill berghryggur eða klettar.” Farið var fyrir endann á honum. Þá blasti við lægð í Urðarfellin. Fram af þeirri lægð er Kálfsgil, sem er á landamerkjum Hlíðar og Strandar.
Sagan segir að séra Eiríkur á Vogsósum (1677-1716) hafi grafið Bók bókanna, mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu, í Kálfsgili. Segir í sögunni að sá, sem ráði þeirri bók, hafi vald á því sem hann velja vildi.
Bunga er í Urðarfellunum alveg fram á Svörtubjörg. Þar í er Sælubuna, uppspretta út úr klettum, og rennur ofan í Strandardalinn. Hún þornar aldrei alveg. Strandardalur er austan eða suðaustan við Kálfsgil. Er Litla-Urðarfell fyrir austan, en Stóra-Urðarfell fyrir vestan.

Strandardalur

Strandardalur.

Urðarfellin eru skriðurunnin fell, en ekki hraun. Litla-Urðarfell er nokkurn veginn stakt, hnöttótt ofan með klappabrúnum. Þar eru fellin einna hæst. Hæðin fram á Björgin er frá Litla-Urðarfelli. Kálfsgil er myndað af vatnsrennsli úr fellunum. Það er á mörkum Hlíðar og Strandar. Í stórleysingum rennur vatn úr Kálfsgili fyrir austan Katlabrekkur.
Austan við Litla-Urðarfell eru Merarbrekkur. Fyrir innan (norðan) Stóra-Urðarfell er lægð, sem kölluð er Móvatnsstæði. Snarhallar af fellinu ofan í það. Þar var smáblettur, þar sem var mótak frá Hlíð. Það var eini mórinn, sem til var í Selvogi, en hann var lélegur.

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.

Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún.
Sagt er, að sá, sem hreyfi vörðuna, eigi að fara fram af Björgunum. Varðan stendur enn. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann. Einna hæst eru Björgin um Grágæsanípu og Eiríksvörðu, og Gatahóll er einnig hátt, líkt og Eiríksvarða.
Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar. Þeir eru vestarlega við Björgin. Vestan við Björg, niður undan Stígshell(r)um, er Hofmannaflöt; þar var áningarstaður.”

Hlíðardalur

Tóft Erlends í Hlíðardal.

Fallega hlaðin varða er á klapparrananum er aðskilur dalina. Undir henni er Sælubuna. Hún er greinilega sírennslislind og kemur úr hlíðinni. Eflaust er vatnið úr henni allra meina bót. Leitað var eftir tóftum af bæ Indriði í Hlíðardal. Mikið gróðurrof hefur orðið í dalnum. Einungis eru nú torfur upp með hlíðum Urðarfells. Fallegur einir á klöpp gaf þó dalnum lit. Hlíðardalur er ekki fullkannaður, enn á eftir að skoða efsta hluta hans m.t.t. hugsanlegra tófta. Það verður gert á sumri komanda.
Í bakaleiðinni var komið við í Dísuréttum í Katlahrauni vestan Hlíðardals. Um er að ræða fallega hlaðna rétt austan undir hraunhól. Erfitt getur reynst að finna hana í hrauninu. Þegar leitað var að réttinni fannst stór og fallegur hellir. Um er að ræða hraunbólu, um 3 m á hæð og um 15 metra breiða. Inn úr henni er rás og innan af henni þverrás. Vel er hægt að ganga þar uppréttur. Úr loftinu hengu um tveggja metra langar rætur. Fallegar klakamyndanir voru á gólfum. Þau eru slétt og ekkert fallið úr loftum. Hellirinn er ekki fullkannaður, en hann er a.m.k. 40-50 m. langur.

Borgarskraðsborg

Borgarskarðsborg.

Gengið var niður Borgarskarð og vestur Hlíðarveg með Hlíðarfjalli. Borgarskarðsborg neðan við skarðið var skoðuð sem og tóftir skammt vestan hennar, við Hlíðarveg. Stefnan var tekin á hellinn Ána og síðan haldið sem leið lá að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dísurétt

Dísurétt.

Hlíðarborg
Lengi hefur verið leitað að Selhellum í Selvogi. Ekki hefur verið vitað um staðsetningu þeirra, en í örnefnalýsingu fyrir Hlíð í Selvogi segir m.a.: “Hlíðarsel – heimild um sel – …suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. Við Selbrekkur eru Stekkjardældir.”
Sel er undir suðausturhorni Svörtubjarga, sennilega Strandarsel [Staðarsel]. Enn sunnar eru týndar seltóftir og fjárborg. Neðan þessa eru Selbrekkur. Framundan þeim er stór hraunhóll, einn af nokkrum. Við hann eru Selhellar, að sögn heimildarmanns, sem telur sig hafa séð þá af tilviljun er hann var þar á ferð eitt sinn í leit að fé. Hellarnir eru vandfundnir, en við þá má greina mannvistarleifar ef vel er að gáð. Selhellar eru einnig nefndir hellarnir ofan við Stakkavíkursel, en við þá eru hleðslur.
Einnig var ætlunin að skoða óþekktar mannvistarleifar undir Strandardal, hugsanlega hluti tófta bæjar Erlends lögmanns Jónssonar frá 17. öld.
Gengið var austur Hlíðargötu frá Hlíð, áleiðis austur vestanverða Selvogsheiðina undir Hlíðarfjalli. Heimildarmaðurinn, Snorri Þórarinsson frá Vogsósum, var með í för.
Hin gamla Hlíðargata liggur upp á Selvogsgötu (Suðurfararveg) með Kötlubrekkur á vinstri hönd, þar sem Kötluhraun kemur niður hlíð fjallsins.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um þetta svæði austur með Hlíðarfjalli:
“Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni. Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stórgrýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri (fyrir vegagerð).
Sprungnaflöt lá milli rústa og Hvolpatjarnar ofan Malarinnar. Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.
Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.”
Hlíðargata er enn greinileg skammt austan þjóðvegarins. Skömmu eftir að lagt var stað var komið að tvískiptu heykumli vinstra megin götunnar. Hlaðnar eru tvær tóftir utan í stóran stein, önnur til vesturs og hin til suðurs. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið sauðakofar eða -kofi, en þegar fjárskjólið Áni, sem er þarna skammt suðsuðaustar, er skoðað liggur beinast við að tengja rústirnar því. Um opið á Ána er hlaðið á alla vegu. Ef grannt er skoðað í kring má sjá hluta af leiðigarði norðan opsins og sunnan þess. Hleðslan vestan við opið er nýlegri og ein við endann að norðanverðu. Líklegt má því telja að grjótveggurinn að austanverðu við opið hafi verið hafi verið hluti leiðigarðsins og fé þá runnið auðveldlega niður í fjárskjólið. Seinna, eftir að hætt var að nýta skjólið fyrir fé, hefur grjót verið tekið úr leiðigarðinum og hlaðið í vegginn að vestan- og norðanverðu svo fé færi ekki niður í hellinn, enda fyrrum hlaðinn stígur niður í hellinn þá verið farinn að láta á sjá. Leifar þessa stígs eða stéttar sjást vel þegar komið er niður í Ána.
Hleðslan hefur hrunið fremst, en sjá má grjót úr honum neðan við opið. Veruleg grjóthleðsla er niðri og vestan við opið, til að varna fé að fara innfyrir og norður með innganginum. Annars liggur meginrásin til suðausturs. Undarlegt þykir að ekki skuli vera fyrirhleðsla þar innar í hellinum, en líklegt má telja að þar hafi rásin verið lokað fyrir með trégrind til að varna því að fé færi innar í hana. Sjá má leifar af tré í hellinum. Í vesturveggnum er lítið gat og rás þar fyrir innan, lág. Áni hefur verið gott fjárskjól og það tiltölulega nálægt bænum.
Næst var komið að fjárborginni undir Borgarskörðum. Skörðin eru tvö (Háhamar, skilur þau að) og er borgin neðan þeirra, í Stekkatúnsbrekkum. Borgin er vel gróin og ferköntuð hlaðin rúst, heilleg, inni í henni. Í framangreindri örnefnalýsingu segir að þarna hafi verið stekkur og Stekkatún. Ekki er ólíklegt að borginni hafi verið breytt í stekk. Hún er sjálf hringlaga, en ferköntuð rústin inni í henni er svipuð og í Hlíðarborginni, en minni.
Hlíðarborgin er hægra megin götunnar, hlaðin vestan undir hraunhól líkt og borgin undir Borgarskörðum. Hún hefur verið allstór, tvíhlaðin, en síðan verið breytt í stekk með hús eða kró á milli, inni í borginni. Hlíðarborgin er enn eitt dæmið um breytta nýtingu á mannvirkjum í vestanverðri Selvogsheiði.
Suðaustan við Hlíðarborg, sunnan girðingar er umlykur beitarhólf þeirra Selvogsmanna, er Valgarðsborg. Hún er minni en hinar fyrrnefndu. Norðvestan við borgina, í lægð undir grónum hól, má vel greina mjög gamlar tóftir a.m.k. tveggja húsa. Allt bendir til að þarna hafi fyrrum verið selstaða og Hlíðarborgin þó nýtt sem hluti af því, Valgarðsborgin mun líklega hafa þjónað sem aðhald eða skjól því líklegt má telja að hún hafi verið yfirbyggð. Marka má það af því hversu lítil hún er og auk þess hafa veggir hennar verið nokkuð háir.
Þá var stefnan tekin upp heiðina, áleiðis að Strandarseli suðaustan undir Svörtubjörgum. Framundan þeim eru nefndar Selbrekkur. Bæði ofan þeirra og neðan má sjá minjar nokkurra selja, sem flest hafa gleymst mönnum. Þau virðast hafa týnst líkt og svo margt annað í Selvogsheiðinni, en ef vel er að gáð má varla þverfóta fyrir óskráðum minjum í henni, enda verið drjúgum nýtt fyrr á öldum frá bæjunum í Selvogi.
Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar.
Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann.
Þegar gengið hafði verið yfir Hraunhóla var skömmu síðar komið á svæðið undir Selbrekkum og sáust þegar tóftir húsa. Þær eru reyndar ógreinilegar og að öllum líkindum mjög gamlar. Svæðið er að öllu jöfnu utan göngu- og alfaraleiða. Tvær rústir eru vestast. Norðaustan við þær er hlaðinn gangur, fallinn. Hann hefur áður verið reftur og sennilega legið í tvær áttir, suðurog norður, eftir að inn var komið. Þegar gangurinn féll saman opnaðist niður í syðri hluta hellisins, sem þarna er undir. Hellirinn er stór, ca. 100m2, gólfið slétt og hátt til lofts. Fyrirhleðsla er austan við niðurganginn, stór. Hægt er að komast yfir hana til norðurs og er þá farið framhjá miklum hleðslum á vinstri hönd, sem hafa verið hluti gangsins. Þar liggur hellirinn til norðausturs, en er miklu mun lægri en suðurhlutinn. Vegna þess hversu hreint gólfið er í suðurhlutanum virðist sá hluti hans annað hvort verið notaður sem búr og geymsla eða einungis verið notaður í skamman tíma. Norðurhlutinn gæti hins vegar hafa verið notaður undir fé. Ofan á suðurhlutanum er hlaðin kví. Skammt norðaustan við hellisopið er annað op, langt og ílangt.
Norðan við skjólið er tóft. Austan hennar er annað fjárskjól, slétt í botninn og rúmgott (ca. 60m2). Opið er í gegnum skjólið, en inngangurinn hefur verið að sunnanverðu því hlaðið er þvert fyrir nyrðra opið.
Tóftir eru norðan við síðarnefnda fjárskjólið og hlaðin kví norðan þeirra. Svo virðist sem þær hafi verið hlaðnar fyrir op á enn einum hraunssalnum, en fallið saman og lokað opinu. Þó má sjá að rými er þar fyrir innan.
Fjárskjól er í hattslaga hraunhól nálægt minjunum. Einnig í litlum hraunhól norðan þeirra (varða ofanb á) og auk þess er enn eitt fjárskjólið skammt norðaustan við tóftirnar. Það er rúmgott rými með sléttu gólfi og fyrirhleðslu svo fé kæmist ekki nema takmarka inn í hraunsrásina, sem það er í.
FERLIR hefur áður skoðað þetta svæði, s.s. með Guðmundi Þorsteinssyni, hellamanni frá Þorlákshöfn, en þá var fyrstnefnda fjárskjólið nefnt Bólið til aðgreiningar. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna sé komið hið eiginlega Vogsósasel, enda í landi Vogsósa.
Ljóst er að þetta svæði hefur að geyma miklu mun fleiri minjar og væri ástæða til að gaumgæfa það betur. Ferðin var notuð til að rissa upp þær minjar, sem bornar voru augum.
Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ekki er með öllu útilokað að tengja óljósar hleðslur uppi á hraunhól vestan Svörtubjarga veru manna í dölunum (Strandardal og Hlíðardal) fyrrum. Þó gæti þarna hafa verið um aðstöðu til að ná fé að ræða. Þá er og mjög sennilegt að grónar hlíðar og sléttur undir björgunum hafi verið slegnar til að afla viðbótartöðu þegar þannig áraði. Grjót virðist hafa verið tekið úr mannvirkinu í undirhleðslu girðingar, sem legið hefur niður með vestanverðum Björgunum.
Gengið var til baka vestur með og undir hlíðunum, um Suðurfaraleiðarhliðið á Suðurfaraleið og vestur Hlíðargötu. Þokan sveipaði umhverfið dulúðlegu yfirbragði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Portfolio Items