Færslur

Hlöðunesleiði

Hlöðversneshverfi eða Hlöðuneshverfi er austan Brunnastaðahverfis og vestan Knarrarnessbæjanna á Vatnsleysuströnd. Á herforingjaráðskorti frá 1908 er bærinn nefndur Hlöðversnes, en á slíku korti frá 1950 er þar komið nafnið Hlöðunes í staðinn. Í viðtali í Morgunblaðinu 1971 segir Ólafur Kr. Teitsson, þá áttærður: “Það heitir Hlöðversnes. Þessi Hlöðver nam land þar sem hverfið er og er greftraður í því miðju.”
Hlodunes-202Í “Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustrandarhreppi” segir m.a. um Hlöðunes: “Af Einiberjahólum sjáum við til Gjásels, sem kúrir undir næstu gjá ofan Klifgjár. Óvíst er frá hvaða bæ var haft í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðalands. Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir af átta húsum standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli eins og reyndar annars staðar. Skipulag húsa á þessu selstæði er gjörólíkt því sem er á öllum hinum stöðunum í heiðinni en þar eru tveggja húsa samstæður á víð og dreif á grasblettum en í Gjáseli er eins konar raðhúsalengja.

Gjasel-501

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Skipanin hér minnir um margt á Nýrra-Merkinessel í Hafnaheiði. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu en jarðskjálftar á fyrri hluta 20. aldar hafi eytt þessum eina “fossi” í hreppnum. Ein heimild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu vatnslaus nú.”
Um Hlöðuneshverfið segir m.a. í fyrrnefndu riti: “Árið 1930 var nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá búenda í Áslákstaða, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamli-vegur notaður sem reiðvegur. [Geta má þess til fróðleiks að “Gamli-vegur” var hluti af fyrsta vagnveginum milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Vegurinn á milli byggðalaganna var lagður á árunum 1908-1913].
Atviks er getið er hermir upp á íbúa í Hlöðuneshverfi, Ólaf Þorleifsson: “Nokkrun veg norðaustur af Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Olafsvarda-301

Gjáin er í raun sprunga úr úr vestasta hluta Klifgjár en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir gjárveggirnir jafnháir landinu í kring. Um síðustu aldamót hrapaði í sprunguna Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að gá að fé rétt fyrir jól [á aðfangadag] árið 1900. Mikil leit var gerð en allt kom fyrir ekki. Árið 1931 eða um 30 árum seinna fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að ná í kind sem fallið hafði niður á sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókina “Hrakningar og heiðarvegir”, 3. bindi eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson [sem og frásögn í Morgunblaðinu frá beinafundinum.”
Þegar gengið er um Hlöðuneshverfið (Hlöðversneshverfið) má vel sjá minjar húsa og útihúsa, túngarða og gerða Hlöðuness, Narfakots og Halldórsstaða, auk eftirmyndar nautgripagirðingar líkri þeirri er sjá má í Borgarkoti austan Kálfatjarnar og vestan Minni-Vatnsleysu.
Hlöðversnes, eða Hlöðunes, er nú afskekkt minjasvæði á Vatnsleysuströnd, þótt nærtækt sé.
Hlodunes-203Einungis þarf að stoppa við hlaðna heimreiðina austan fuglabús Ísfugls, ganga að bæjarstæðinu – og síðan áfram yfir túnið að útihúsaminjunum nær sjónum. Þar má m.a. sjá leifar sjóhúss, gerða og gerðis og friðlýstra náttúruminja þar sem Hlöðunestjarnirnar eru.
Hlöðunes fór í eyði um miðja 20. öldina. Enn má sjá þar uppistandandi steinsteypt útihús og þær síðustu heyvinnuvélar er notaðar voru við búskapinn á þeim tíma. Ljóst er að jörðin sem og hverfið allt, þótt tiltölulega lítið sé, felur í minjum sínum mikla búskaparsögu, jafnvel allt frá 10. eða 11. öld, ef vel er að gáð.

Hlodunessel-201

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Fram hefur komið að bændur í Hlöðuneshverfinu hafi fyrrum haft selstöðu í Gjáseli og áður í Hlöðunesseli í Strandarheiði. Selstöðurnar voru hluti búskaparháttanna frá upphafi fram til loka 19. aldar. Hlöðunesselið er nú að blása upp vegna jarðvegseyðingar, en Gjáselið mun kúra enn um sinn í skjóli undir gjárveggnum. Af minjunum þar að dæma virðist hafa verið góð samstaða með bændunum í Hlöðuneshverfi, svo góð að líkja mætti henni við samyrkjubúskap seinni tíma. Átta rými í einni röð frá suðri til norðurs og einn stekkur skammt sunnan þeirra bendir til góðs samkomulags a.m.k. þriggja bæja. Venjulega má sjá þrjú rými í einni selstöðu, þ.e. baðstofu, búr og stakt eldhús, en þarna vantar eitt rými til þess að allir hafi haft þar sjálfstæða aðstöðu.
Þess má geta að enn er búið í Narfakoti þótt ekki sé stundaður þar hefðbundinn búskapur.
Kuml Hlöðvers, þess er fyrstur bjó að Hlöðversnesi, er í túninu skammt sunnan Narfakots. Um er að ræða tiltölulega lága bungumyndaða upplyftingu á annars sléttu túninu.


Heimild:
-Morgunblaðið, Ólafur Kr. Teitsson, 15. ágúst 1971, bls. 12.
-Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 80 og 82.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppu, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 248.
Hlöðversnes