Færslur

Vorhúsbrunnur
Gengið var um svæði Vatnsleysustrandar milli Auðna og Kálfatjarnar þar sem staðnæmst var við Goðhól. Reynt var að beina athyglinni að minjum og stöðum, sem ekki höfðu verið skoðaðar í fyrri ferðum um svæðið.
Um jörðina Auðnar er m.a. fjallað árið 1584. Þar kemur fram að landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs sé 1 hdr í fríðu og 1 vætt fiska. Hjáleigur eru taldar upp í Jarðabókinni 1703; Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjáleiga. Auðnakot er þarna hjáleiga árið 1847. Höfði hét afbýli frá Auðnum, í byggð frá um 1850-1971. Höfði er nú nafn á fallegu rauðmáluðu húsi sunnan Auðna, en þar hefur gamli bærinn líklega staðið fyrrum. Tómthúsið Hóll var einnig í landi Auðna.
Skv. Jarðabókinni 1703 eru Auðnar konungseign: “Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu. Engjar eru öngvar.”
“Norðan við stíginn var svo Höfðabrunnur.” segir í örnefnaskrá. Líklega er þarna átt við sjávarstíg frá Höfða niður að vörinni, en túnin þarna hafa verið sléttuð svo erfitt getur reynst að finna brunn þann er getið er um í örnefnaskránni. Það væri þó eflaust hægt með staðkunnugum, en ætlunin er að reyna að finna einhvern slíkan. Þá mun væntanlega koma viðbót (búbót) við lýsingu þessa.
“Auðnabrunnur var austan bæjarins, og Auðnabrunnstígur heim til bæjar.” segir í örnefnaskrá. Hér er að öllum líkindum um sama stíginn að ræða að hluta, en hvort um sama brunn er að ræða mun væntanlega koma í ljós síðar. Ekki er ólíklegt að gamli brunnurinn sé þarna einhvers staðar einnþá, en gömlu túnin eru nú allloðinn og torveldar það leit á svæðinu. Kunnugir gætu vitað hvar brunninn er/var að finna. Þegar FERLIR bar að garði á Auðnum var þar fyrir fólk, sem ekki vissi hvað “brunnur” var – hvað þá aðrar mögulegar (sögulegar) minjar.
Þá var farið að Bergsstöðum, en svo heitir hús það nú er stendur vestan við tóftir Bergkots. Í örnefnaskrá segir m.a.: “Austan við bæinn var brunnur (vatnsból), Bergkotsbrunnur. Brunnur þessi var hlaðinn innan, og var hann tæp mannhæð á dýpt. Vatn úr honum var notað handa skepnum og einnig til þvotta, en óhæft til drykkjar, svo sækja var neyzluvatn á næsta bæ, Landakot.”
Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá árinu 1919. Hann sést enn, reyndar suðaustan við bærinn, en innan heimagarðs. Hann er hlaðinn a.m.k. eina umgjörð upp frá jörðu, en byrgður með röftum, heillegur að sjá.
Landakot hefur sennilega byggst upp úr jörðinni Lönd. Kotið var nefnt hálflenda, en jarðadýrleikinn var óviss árið 1703. Jörðin var þá konungseign. Árið 1584 er landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Guðmundur B. Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930. Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. Niður við sjó var býlið Lönd. Í Jarðabókinni 1703 segir að “túnin [hafa] fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.”
“Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir.” segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman, í bók Guðmundar Jónssonar segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22.
Í örnefnaskrá segir af Landakotsbrunni: “Sá brunnur [Djúpagröf sjá Þórustaði] var aldrei kallaður annað í okkar tíð, og var ausið úr honum vatn á þvott. Vatnsbólið var annar brunnur miklu dýpri, byrgður, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað en Brunnurinn.” Brunnurinn er teiknaður inn á túnakort árið 1919. Hann er fallega hlaðinn. Girt er í kringum hann og lagðir raftar yfir hann svo ekki hljótist af slys, eins og títt var um gamla brunni.
Austan við Landakot má sjá tóftir Götu. Til útnorðurs frá þeim er fyrrgreint jarðhýsi, rétt innan girðingar.
Og þá svolítið um Þórustaði. Jarðadýrleikinn var óviss árið 1703, konungseign. Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. Árið 1584 er landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eitt hdr fiska. Hjáleigur 1703 voru Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. Norðurkot var einnig hjáleiga árið 1847. Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar segir GBJ í Mannlíf og mannvirki (309). Árið 1703 eru: “Túnin [farin að] spillast af sjáfarágángi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.”
“Fyrir aldamótin var tvíbýli á Þórustöðum. Timburhús reis á jörðinni 1884 og brann húsið 1984”, segir GBJ í MogM. Nú sést þar enn grunnurinn af Hellukoti, vestan megin við heimkeyrsluna að Þórustöðum, vestan íbúðarhússins.
“Brunnar tveir eru við Mómýrina Syðri. Nefnast þeir Tjarnarbrunnar. Brunnurinn Nyrðri norðan Mýrarinnar og Brunnurinn Syðri sunnan, eða utan Mýrarinnar.” segir í örnefnaskrá. Einnig að “brunnar tveir eru við Mómýrina Syðri. Nefnast Tjarnarbrunnar Brunnurinn Nyrðri norðan Mýrarinnar og Brunnurinn Syðri sunnan, eða utan Mýrarinnar.”
Í raun má sjá báða þessa brunna enn þann dag í dag. Einkum er Syðri brunnurinn áberandi. Hann er bæði hlaðinn og stór um sig, þó líkari vatnsstæði, enda suðvestan undir Tjarnarendanum. Fallega hlaðin brunngata liggur að honum. Nyrðri brunnurinn er vestan götu frá bænum niður að sjávarhúsnum. Steypt er við opið og stór hringlaga hlemmur ofan á. Hann er fallega hliðinn niður.
“Auk þess sem áður segir finnast í Þórustaðatúni eftirtalin örnefni: Tíðarhóll, Jónsvöllur, Jónsslakki, Grábakki og Bakkarétt.” segir í örnefnaskrá. Einnig “Stekkhólsrétt, veit ég ekki, hvort er sama réttin, sem enn stendur að hluta uppi og var alltaf notuð í mínu ungdæmi og var alltaf kölluð bara Þórustaðaréttin.” segir í svörum við spurningum um örnefnaskrána. Líklega er hér um einu og sömu réttina að ræða. Þórustaðaréttin er hins vegar nokkuð sunnan íbúðarhússins og sést enn ágætlega. Hún er tvískipt með leiðigarði eins og títt hefur verið um heimaréttir á þessu svæði. Réttin sést vel norðan heimtraðarinnar.
Margrét Guðnadóttir í Landakoti talar um Bakkan og Bakkagarð í örnefnalýsingu. “Sjór hefur mikið gengið á landið í seinni tíð, og má heita, að sjávargarðurinn frá Hausaklöpp að mörkum Þórustaða sé eyddur. Á honum sem næst miðjum er sundvarðan, sem áður er á minnzt, og hefur verið reynt að halda henni við. Ofan við garðstæðið eru harðir sandbakkar með lágu, þéttu grasi. Þeir voru kallaðir Bakkinn eða Landakotsbakki og talað um að slá Bakkann.
Neðst á Bakkanum sést nú kálgarðsstæði, sem notað var til skamms tíma, eða þar til ágangur sjávar gerði þar veruleg spjöll. Þessi kálgarður var kallaður Bakkagarður eða sandgarður, því að jarðvegurinn var hvítleitur af fjörusandi, hér um bil eins og sandfjaran fyrir neðan sjávarkambinn. Utan um Bakkagarð voru grjótveggir, og fyrir austan hann merkilegt mannvirki grafið inn í Bakkann, hlaðið í hring og reft yfir með tunnustöfum, svo tyrft yfir allt saman. Þetta var kallað Jarðhúsið og notað fyrir kartöflugeymslu í okkar bernsku og var víst upphaflega ætlað til að ísa í fisk.”
Að sögn dóttur Margrétar, Eydísar, sem nú býr í Landakoti, fór hún ásamt nokkrum öðrum í för með Margréti um ströndina neðan og austan Landakots. Þá hafi móðir hennar sagt hleðslurnar í kampinum við sjávarbyrgi (herslubyrgi, heillegt) vera leifarnar af Bakkaréttinni. Þegar þær voru skoðaðar, rétt vestan við byrgið, má sjá móta fyrir görðum og hólfum. Kampurinn er kominn yfir réttina. Skammt vestar má sjá hleðslur, sennilega fjárhúss, innan við kampinn. Austan þess er hlaðinn garður. Allt er þetta í Þórustaðalandi. Austan sjávarbyrgisins er annað, hálffallið, frá Tíðargerði.
Nýjasti brunnurinn við Þórustaði er fast norðan við húsið. Hann er um 9 m djúpur og var enn í notkun fyrir nokkrum árum.
Norðurkot var hjáleiga Þórustaða 1703, jarðadýrleiki óviss. Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, og aflagðist árið 1920. Harðangur var tómthús frá Norðurkoti, í byggð frá um 1885 til um 1900 segir GBJ í MogM (315-316). Harðangur var “sunnan við garðinn, sem skilur á milli Norðurkotslands og Goðhóls, neðan Hliðs. Þar eru rústir býlisins Harðangurs. Þar er lítill túnblettur innan garða, sennilega kálgarður upphaflega,” segir í örnefnaskrá.
“Harðangur var tómthús frá Norðurkoti og stóð rétt hjá Tíðargerði. Í byggð 1885 en aflagðist um aldamótin,” segir GBJ í MogM.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir meira um Norðurkot, en húsið var flutt fyrir skömmu af grunni sínum yfir á væntanlegt húsminjasvæði norðvestan við Kálfatjarnarkirkju. Þar stendur húsið nú, uppgert. “Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd … Norðurkot var í upphafi grasbýli frá Þórustöðum og átti ekki ítök í heiðarlandi.” Norðurkot var notað sem heyhlaða og geymsla.
Norðurkotsbrunnurinn er einn fallegast brunnurinn á ströndinni og nær alveg heill. Hann er í lægð skammt norðan við túngarðinn.
“Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. … Tíðargerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar.” segir í örnefnaskrá.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi matjurtagarður og svo var Heiðarlandið óskipt, en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins. En Tíðargerði átti 2400 fermetra land.” “Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, þó það yrði grasbýli síðar … Tíðagerði aflagðist árið 1920.” Á túnkorti 1919 sést að “tún eru 0,5 teigar og garðar 700m2.”
“Djúp graslaut er rétt norðan við bæjarstæðið í Tíðargerði. Hún var kölluð Lautin. Á Klöppinni norðan við Lautina, rétt utan við túngarðinn, er vatnsstæði, Klapparvatnsstæði.” segir í örnefnaskrá. Vatnsstæðið sést enn og jafnan er vatn í því þótt það standi hátt í landinu.
Hlið var bæjarstæði við Tíðargerði. “Í beinu áframhaldi af túngarði Hátúns liggur Heiðargarðurinn suður frá traðarhliði fyrir ofan Landamóa, en þegar nálgast suðausturhorn Kálfatjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfatjarnartúns) unz hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlíð; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum.” segir í örnefnaskrá. “Milli Goðhóls og Norðurkotstúns var Hlið og var þar í kring liðslóð eða Hliðstún umgirt Hliðstúngörðum, hlöðnum af grjóti og ofan lóðarinnar svo svo Heiðargarðurinn.” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Hlið var tómthús frá Kálfatjörn. … “ Þar lagðist niður búskapur 1923 en þar var byggður sumarbústaður sem ekki er notaður nú. Túnakort árið 1919 gefur til kynna: “Tún 0,05 teigar, garðar 540m2.” Þarna er nú sumarbústaður.
Í fyrri umfjöllun FERLIRs segir m.a. um þetta: “Á miðjum vestari garðinum eru tóftir bæjarins í Hliði en þar í gegn lá kirkjugatan svokallaða sem að allir kirkjugestir fóru til messu og þar má sjá steinhleðslu yfir rásina sem áður hefur verið nefnd og þar má jafnframt finna klappaðan stein með ártalinu A°1790. Sagnir eru um að allir hafi stoppað í Hliði og fengið sér í nefið og rabbað um landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel farið í kirkjufötin þar. Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndinn í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.”
“Þegar nálgast suðausturhorn Kálfattjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfajarnartúns) uns hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum. Við vesturenda baðstofunnar í Hliði, lá gatan milli bæjanna og heim að Kálfatjörn, Kirkjugatan.”
“Svo sem 20 m neðar en brunnurinn er Rásin, en þar er farvegur, er Goðhólsrás hefur grafið sér, en hún rennur að nokkru inn á Kálfatjarnartún.” “Í beinu áframhaldi af túngarði Hátúns liggur Heiðargarðurinn suður frá traðarhliði fyrir ofan Landamóa, en þegar nálgast suðausturhorn Kálfatjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfatjarnartúns) unz hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlíð; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum. … Nokkurt tún er í Goðhól.
Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bærinn var skammt frá suðurtúngarði og eigi alllangt frá sjó. Beint niður undan bænum er uppsátrið, skiparéttin og vörin …” segir í örnefnaskrá. “Ofan og sunnan Naustakots var býlið Goðhóll, sem stóð í Goðhólstúni, á suðurhlið túnsins var svokallaður Heimagarður og Vatnagarður eða Móinn.” Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt.” Búskapur lagðist af þar 1935. Túnakort frá 1919 sýnir “tún 1,4 teigar og garðar 660m2.”
Á annarri síðu FERLIRs segir: “Vestan við Naustakot og Kálfatjarnartúnið eru tóftir Goðhóls en þar var búið í torfbæ til ársins 1933. Þar má vel sjá hvernig fólk lifði í byrjun tuttugustu aldar en þar eru tóftir baðstofu og fjósið við hliðina og þar er fjárhús og garðar í kringum kálgarðinn og kartöflubeðin. Goðhólsjörðin afmarkast greinilega af hlöðnum görðum.”
Kálfatjarnarhverfinu austan Tíðargerðis, Hliðs, Harðangurs og Goðhóls er líst í annarri FERLIRslýsingu, en þá var gengið um svæðið í fylgd Ólafs Erlendssonar frá Kálfatjörn. Hann þekkir svo til hverja þúfu á svæðinu. Ólafur hafði samband nýlega og kvaðst myndi hafa áhuga á að fara aðra umferð um svæðið, enda nú orðin hressari eftir aðgerð, sem hann hafði þurft að ganga í gegnum. Sú ferð hefur verið sett á áætlun.
Hér er gengið um svæðið milli Auðna og Goðhóls. Vatnssleysustrandarsvæðið er í heild bæði merkilegt og af þeim sökum verðmætt af mörgum ástæðum. Ströndin, þar sem byggð hefur verið samfelld um aldir, myndar heilstæðar búsetuminjar er lýsa ljóslifandi lífi og afkomu fólks nánast frá upphafi landnáms hér á landi til okkar daga. Minjarnar bera augljóslega með sér hvernig byggðin hefur þróast, á hverju fólkið hefur byggt lífsafkomu sína, við hvaða aðstæður og til hverra ráða það hefur gripið til þess að geta skilað okkur, sem nú lifum, með mikilli fyrirhöfn inn í nútímaveröldina. Við þekkjum hana nokkuð vel, en þekkjum við jafn vel veröld forfeðranna og -mæðranna, sem þó skiluðu okkur þangað (hingað)? Minjar um fyrri tíma má enn sjá víðast hvar með Ströndinni, hvort sem er ofan við sjávarsíðuna, þar sem fólkið bjó að jafnaði, eða upp til heiða, þar sem upplandið var nýtt til beitar, selsbúskapar, eldiviðartöku og veiða. Minjar um allt það má og enn sjá þar, bæði neðra og efra – ef vel er að gáð.
Frábært veður – gult og gott.

Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Margrét Guðnadóttir.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnurinn.