Tag Archive for: Höfði

Höfði

Höfði á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir.

hofdi-2

Höfði 1919.

Húsið var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin. Það var hannað í Austur-Noregi og flutt tilsniðið til Íslands. Í byggingunni má sjá áhrif frá júgendstíl, klassísku nýbarrokki og norskri þjóðernisrómantík. Í viðhafnarstofu er nafn Brillouins ritað gullnu letri yfir dyrum ásamt byggingarári hússins, 1909.
Mikill virðuleikablær ríkti yfir Höfða fyrstu áratugina. Eftir Brillouin hafði Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, aðsetur hér ásamt fjölskyldu sinni. Lengstu búsetu átti fjölskylda Matthíasar Einarssonar, læknis. Heimasætan, Louisa Matthíasdóttir, átti eftir að gera garðinn frægan með málaralist sinni.

hofdi-1

Höfði 1923.

Frá árinu 1938 og fram yfir stríð var Höfði aðsetur ræðismanns og síðar sendiherra Bretlands.
Hingað komu meðal annarra í heimsókn á stríðsárunum Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og söng- og leikkonan Marlene Dietrich. Frá miðri 20. öld bjó fjöldi manna í Höfða um lengri eða skemmri tíma og þar var einnig atvinnurekstur.

Höfði

Höfði – upplýsingaskilti.

Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1958 og var það endurbætt og fært til fyrri glæsileika. Frá árinu 1967 hefur Höfði verið vettvangur fyrir gestamóttökur á vegum borgarinnar.
HöfðiFrægur er leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs í Höfða í október 1986, sem talinn er marka upphafið að endalokum kalda stríðsins. Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða endurheimt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og var yfirlýsing þess efnis undirrituð í Höfða í ágúst 1991. Erlendir þjóðhöfðingjar sem sækja Ísland heim koma flestir í Höfða.
„Þetta er nú sennilega það hús í Reykjavík sem er frægast allra húsa,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

Höfði

Höfði.

 

 

Breiðagerði

Breiðagerði var bær á Vatnsleysutrönd. FERLIR knúði dyra á Breiðagerði 17, bústað Hólmgríms Rósenbergssonar, f: 1956 í Ormalóni á Sléttu. Gengið var í framhaldinu um bæjarstæði Breiðagerðis, en minjum á svæðinu hefur mikið verið raskað á tiltölulega skömmum tíma. T.d. hirtu starfsmenn Voga gamla bátaspilið ofan Breiðagerðisvarar og fleira í tiltekt fyrir nokkrum árum. Afraksturinn var sendur í eyðingu til Hringrásar. Hólmgrímur sagðist ekki eiga ættartengsl við staðinn, en hefði búið þarna um áratuga skeið.

Breiðagerði

Breiðagerði – Hólmgrímur Rósenbergsson við Breiðagerðisbrunninn.

Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum.

Í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar (1987) um „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir hann m.a. frá Breiðagerði: „Þríbýli var á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur fluttu af jörðinni um 1926.“
Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum. Hóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum.

Breiðagerði

Brunnurinn í Breiðagerði.

Hóllinn er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.
Hólmgrímur sagði að ætlunin hafði verið að reisa sumarhús á bæjarhólnum fyrir ca. 50 árum, þar var steyptur nefndur húsgrunnur, en ekkert meira varð úr framkvæmdunum.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II“ frá árinu 2014 segir um sögu Breiðagerðis:
„Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, 137.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 137. 1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100m2.

Breiðagerði

Breiðagerði – uppfært túnakort.

Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni innarlega og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins,“ segir í örnefnaskrá [GS]. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að þríbýli hafi verið á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur hafi flutt af jörðinni um 1926. Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum.
Bæjarhóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakortið frá 1919 sett ofan á nútíma loftmynd ásamt skráðum fornleifum.

Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum. Hann er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.“

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Auðna og Höfða:

Breiðagerði

Breiðagerði – útihús.

„Jarðir á Vatnsleysuströnd næstar við Knarrarnes. Upplýsingar gaf Þórarinn Einarsson á Höfða. Þess er þá fyrst að geta að 1703 og bæði fyr og síðar var jörð sem Breiðagerði hét næst við Knarrarnes og eftir landskuld að dæma hefur það verið með stærri býlum hér á þessum slóðum. Breiðagerði hafði þá sín sérstöku merki, þar var þríbýli og eins mikið land eða meira en Höfðinn og Auðnir til samans. Víkin sem hér er á milli, heitir enn Breiðagerðisvík.“

Gísli Sigurðson skráði örnefnu Breiðagerðis og nágrennis:

Breiðagerði

Breiðagerðisvör – bryggja ofan vararinnar.

„Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni, innarlega, og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins. Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar. Heiman frá bæ lá sjávarstígurinn niður á kampinn. Breiðagerðisgata lá frá bæ upp á þjóðveginn. Á kampinum stóð Sundvarða, Neðri-). Á mörkunum milli Breiðagerðis og Auðnahverfis var Þúfuhóllinn og litlu ofar Sundvarðan, Efri-). Að sunnan lá landamerkjalínan um Geldingahólinn, Nyrðri-.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þar var í heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður, þar var einnig klettur nefndur Latur eða Breiðagerðislatur. Að innan lá landamerkjalínan upp frá Þúfuhól um Markavörður upp heiðina í Auðnaklofninga. Tók þá við Hrafnagjá sem lítið bar á er þarna var komið. Lína lá svo áfram upp yfir Klifgjá um Gjárnar. Þarna er að finna Breiðagerðissel. Síðan eru í landi Breiðagerðis Keilisbróðir, Nyrðri- og Litli-Hrútur og eru því Brúnir og Fjallið að einhverju leyti í landinu.“

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Í skýrslu um „Deiliskráningu vegna áforma um byggingu frístundabyggðar í landi Breiðagerðis á Vatnsleysuströnd“ árið 2022 segir m.a.:
1703: Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, bls. 137.
09.09.1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV, bls. 707-708.
13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, bls. 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, bls. 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, bls. 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla, bls. 26.

Breiðagerði

Breiðagerðisvör.

Jörðin hefur verið í eyði frá 1926 og liggur undir Auðnum. Þar var þríbýli um aldamótin 1900.
Neðan Vatnsleysustrandarvegar í landi Breiðagerðis er húsaþyrping þar sem aðallega eru sumarbústaðir en einnig íbúðarhúsnæði.
1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100 m2.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, bls. 137.

Breiðagerði

Breiðagerði 2022 – loftmynd.

Í „Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson (1987) segir um Breiðagerði:
„Nú er komið yfir landamerki á milli Knarrarnesbæjan og Auðnahverfis. verður þá fyrst fyrir jörðin Breiðagerði og láta mun nærri að þar hafi verið þríbýli um aldamótin. Í Breiðagerði bjuggu hjónin Sveinn Sæmundsson, bóndi, f: 1861 og kona hans Elín Sæmundsdóttir, f: 1860. þau voru síðustu búendur í Breiðagerði og fluttu til hafnarfjarðar um 1926 og bjuggu þar til æviloka. Þau áttu tvö börn, Guðrúnu, sem bjó í Sandgerði og Sesselju. Man ég þau hjón vel og þáði oft góðgerðir hjá þeim, enda nokkur gestanauð á heimilinu, því öllum þurfti aað gefa kaffisopa er þangað áttu erindi, sér í lagi þeim sem langt voru að komnir. Eitt lítið minningarbrot læt ég fylgja hér með. Þannig var að Sveinn átti „þarfanaut“ og þegar bændur úr sveitinni fóru með gripi sína að Breiðagerði, þá þurfti að „reka á eftir“ og höfðu ég og mínir jafnaldrar það embætti og uppskárum rúgköku með bræðingi ofaná hjá Elínu.

Breiðagerði

Breiðagerði – sundvarðan Neðri.

Þurrabúð 1. Þar bjuggu Hafliði Hallsson, f: 1862 og kona hans, Guðríður Torfadóttir, f: 1867.
Þurrabúð 2. Þar bjuggu Sumarliði Matthíasson, f: 1841 og kona hans, Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 1847. Breiðagerði tiheyrir nú Auðnalandi og meirihluti af Breiðagerðislandi hefur nú verið látinn undir sumarbústaði.“

A sögn Hólmgríms var hlaðinn brunnur skammt norðar. Brunnurinn var grjóthlaðinn í lægð í túninu. Hann hefði byrgt brunninn fyrir um 40 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað til að koma í veg fyrir slys. Áður var hlaðinn aflíðandi gangur niður að brunninum og hann hlaðinn niður, en nú sést ekki ofan í brunninn. Enn sést móta fyrir brunnganginum.

Breiðagerði

Breiðagerði – Sundvarðan Efri.

„Breiðagerðisnaust var upp frá fjörunni var allt eins kenndur við bæinn, Breiðagerðiskampur. Á honum var innarlega Breiðagerðisnaust og Breiðagerðisbúð og fram undan var svo Breiðagerðisvör, sem allt eins var nefnd Breiðagerðislending …,“ segir í örnefnaskrá.
Naustið var að líkindum þar sem merking er á túnakorti frá 1919 að mannvirki hafi verið á varnargarði/túngarði, um 120 m norðaustan við bæ. Við deiliskráningu árið 2016, sem unnin var vegna fyrirhugaðra sjóvarna í Breiðagerðisvík, fundust leifar af varnargarðinum á tveimur stöðum til viðbótar.
Breiðagerðisnaust var í lítilli vík á milli klappar á merkjum móti Auðnum og lítillar klappar til vesturs. Fjaran þar á milli er grýtt klapparfjara. Á sjávarkampinum er gróið en grýtt.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II – 2014.
-Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, Deiliskráning vegna áforma um byggingu frístundabyggðar – 2022.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Breiðagerði

Breiðagerði – gamli vagnvegurinn (Almenningsvegurinn) að Knarrarnesi. Í fornleifaskráningu frá 2022 er vegagerðin skráð sem „garður“!?

Höfði

Liðin eru 100 ár frá því að húsið Höfði var tekið í notkun. Húsið á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Það var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin, hannað í Austur -Noregi og flutt tilsniðið til Íslands. Í byggingunni má sjá áhrif frá júgendstíl, klassísku nýbarrokki og norskri þjóðernisrómantík. segir í frétt frá Reykjavíkurborg.

Höfði

Í tilefni afmælisins var húsið opnað almenningi þann 24. september til og með sunnudagsins 27. september frá kl. 13-16 árið 2009. Boðið var upp á leiðsögn um húsið og jafnframt var opnuð sýning  þar sem rakin var í máli og myndum byggingarsaga hússins, sem og saga atburða og íbúa þar. Varnlegt skilti með upplýsingum um sögu þess hefur verið reist fyrir utan Höfða.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að mikill áhugi sé fyrir Höfða meðal borgarbúa en á menningarnótt hafi 900 manns heimsótt þetta sögufræga hús. Nú gefist aftur tækifæri til að skoða húsið og kynna sér áhugaverða sögu þess.

Margir sögufrægir einstaklingar hafa búið í húsinu. Eftir Brillouin bjó Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Lengstu búsetu átti fjölskylda Matthíasar Einarssonar læknis, en dóttir hans Louisa Matthíasdóttir, átti eftir að gera garðinn frægan með málaralist sinni.

Einar Ben.

Frá árinu 1938 og fram yfir stríð var Höfði aðsetur ræðismanns og síðar sendiherra Bretlands. Meðal þeirra sem heimsóttu Höfða á stríðsárunum voru Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og söng- og leikkonan Marlene Dietrich. Frá miðri 20. öld bjó fjöldi manna í Höfða um lengri eða skemmri tíma og þar var einnig atvinnurekstur.

Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1958 og var það á næstu árum endurbætt og fært til fyrri glæsileika. Frá árinu 1967 hefur Höfði verið vettvangur fyrir gestamóttökur á vegum borgarinnar.

Frægur er leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs í Höfða í október 1986, sem talinn er marka upphafið að endalokum kalda stríðsins. Þá ber einnig að geta þess að Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða endurheimt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og var yfirlýsing þess efnis undirrituð í Höfða í ágúst 1991.

Heimild:
-Mbl.is – Ferðalög | mbl.is | 23.9.2009 | 13:57.

Höfði

Stytta af Einar Benediktssyni við Höfða.

Hraunssel

Haldið var upp með austanverðum Höfða frá Méltunnuklifi, vestan Leggjabrjótshrauns, Skolahrauns og Grákvíguhrauns. Ofarlega í Höfða eru gígaraðir frá mismunandi tímum. Stærsti gígurinn er formlega löguð eldstöð. Úr honum hefur gosið síðast og þá myndað stórbrotna og langa hrauntröð.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Á móts við mitt Sandfell liggur Hraunsselstígurinn inn á slétt helluhraun Grákvíguhrauns. Ofar (norðar) er Stórahraun er nær frá vestanverðum Selsvöllum og langleiðina til Hafnarfjarðar. Selstígurinn, sem að þessum stað, er einnig gata að Selsvallaseljunum skammt norðar undir Núpshlíðarhálsi. Gatan liggur upp með Einihlíðum, beygir til austurs í Einihlíðakrika að sunnanverðu Sandfelli og áfram til norðurs með því austanverðu. Hraunsselsstígurinn yfir hraunið er grópaður á köflum i mjúka hraunhelluna og sums staðar hefur verið kastað upp úr stígnum.

Hraunssel

Hraunssel.

Hraunsselið eru fjórar tóftir, auk eldri seltófta, stekkja og kvíar. Eldri tóftirnar eru vestar á nokkuð sléttum grónum bletti undir hlíð Núpshlíðarhálsins. Þar mótar óljóslega fyrir húsaskipan. Nýrri tóftirnar eru tvær selstöður. Önnur er samliggjandi þrjú rými; baðstofa, búr og eldhús. Hin er tvískipt; baðstofa og eldhús annars vegar og búr stakt. Að baki þeim er gróinn stekkur. Hlaðinn stekkur er norðvestan við tóftirnar sem og hlaðin kví utan í moshól. Síðast var haft í seli í Hraunsseli um 1914, en það kun hafa verið síðasta selstaðan sem lagðist af á Reykjanesskaganum, enda eru tóftirnar mjög heillegar að sjá.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa rissað upp og ljósmyndað minjarnar var haldið vestur yfir hraunið eftir jeppaslóða að norðanverðu Sandfelli og litið yfir nýtt hraunflæðið í Meradal, þar sem gos hafði komið upp. Staðnæmst var við „skarðið“ þar sem hraunflæði hafði nánast fyllt dalinn og var að myndast við að flæða þar yfir.
Gengið var niður með austanverðu Fagradalsfjalli, niður um Einihlíðakrika, um Hrútadal og áfram niður með Einihlíðum og Höfðahrauni á vinstri hönd uns komið var til móts við gamla Krýsuvíkurveginn (vagnveginn ofan Skála-Mælifells. Þar var gróið hraun skágengið niður að bílnum, sem beið þolinmóður niður við Krýsuvíkurveg neðan Meltunnuklifs.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Landakot

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu I“, er m.a. fjallað um bæina Auðna, Höfða, Bergskot (Auðnakot), Landakot, Hellukot, Þórustaði, Norðurkot og Tíðagerði. Þessum bæjum fylgdu og nokkur önnur kotbýli sem og mannvirki, sem enn sér móta fyrir.

Auðnar

Auðnar

Auðnar, Höfði, bergskot, Landakot, Hellukot, Þórustaðir, Norðurkot og Tíðagerði – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki óviss, konungseign 1703. JÁM III, 137-139.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs, 1 hdr í fríðu og 1 vætt fiska.
Hjáleigur 1703: Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjáleiga. Auðnakot hjáleiga 1847. Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971. Tómthúsið Hóll var einnig í landi Auðna.

Auðnar

Auðnar – loftmynd.

„Guðmundur [Guðmundsson] var með mestu útgerðarmönnum á Suðurnesjum með 60 manns á vertíð og þar með um 20 fast heimilisfólk. […] Guðmundur hafði góðar landnytjar og allnokkurn búpening, þó hann sinnti búskapnum minna en sjósókninni. Hann byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].“ GJ: Mannlíf og mannvirki, 296-300.
1703: „Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 138. 1919: Tún Auðna og Höfða 6,5 teigar, garðar 4300m2.

Auðnar

Auðnar og nágrenni – loftmynd.

Bæjarhóllinn er greinilegur en refabú var byggt fyrir nokkrum áratugum norðan við hann og nær það norður að sjávarbakka.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn en á honum sjálfum er nú malbikað bílaplan. Bæjarhóll Auðna er í miðju túni.
Bæjarhóllinn er um 20×20 m að stærð og um 1,2 m á hæð þar sem hæst er fram af honum til norðurs. Engar fornar mannvirkjaleifar sjást á honum. Líkur eru til þess að hann hafi lítið verið skemmdur vegna byggingaframkvæmda úr því nýjasta íbúðarhúsið var ekki byggt á honum.

Auðnakot (Bergskot)

Bergskot

Bergskot – loftmynd.

Hjáleiga Auðna 1703, dýrleiki óviss. JÁM III, 138. Upphaflega tómthús. GJ: Mannlíf og mannvirki, 302.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 670m2.

Bergskot

Bergskot (Auðnakot) – uppdráttur.

„Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu. Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést enn, auk þriggja kálgarða. Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.

Höfði

Höfði

Höfði.

„Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971,“ segir í örnefnaskrá Auðnahverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Höfði um 90 m suðaustan við bæ (Auðnum). Bæjarstæðið er í hólóttu túni. Á því stendur stórt hús sem er allgamalt í grunninn og líklega sama hús og merkt er inn á túnakortið. Ekki sjást leifar kálgarðs sem sýndur er á túnakorti fast sunnan við bæinn. Hann er skráður hér með bænum.
Bæjarstæðið er í gömlu túni suðaustan við Höfðatjörn, stóra lægð sem nú er þurr og gróin. Nú (2010) er fallegur skrúðgarður í kringum húsið en aðallega sunnan við það. Austan við syðsta hluta hússins er upphækkun og hleðsla þar sunnan við en þetta virðast ekki vera gamlar minjar.
Byggingarnar á bæjarstæðinu eru um 20×13 m að stærð og snúa ANA-VSV. Byggingarnar samanstanda af fjórum samtengdum húsum eða herbergjum. Þær hafa verið gerðar upp og eru bárujárnsklæddar. Ekki er að sjá að kjallari sé undir byggingunum og ekki er nein uppsöfnun mannvistarleifa sýnileg.

Ólafsbúð
Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen segir: „Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og […]. Ólafsbúð, þurrabúð sunnanmegin við Auðna […].“ Þrjár tóftir eru um 180 m suðvestan við bæ og hafa þær líklega tilheyrt Ólafsbúð þó ekki sé hægt að fullyrða um það.

Bæjarstæði
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hjáleiga forn heima við bæinn, hefur bygð verið fyrir tuttugu árum, síðan um stund í eyði legið, nú ljær bóndin húsin móður sinni … Kann ekki að byggjast án bóndans skaða.“ Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi hefur verið og því ekki hægt að staðsetja hana með innan við 50 m skekkju. Hjáleigan hefur væntanlega verið í túni, nærri bæ.
Ekki sjást neinar minjar við bæinn sem gefa til kynna staðsetningu hjáleigunnar en ekki er ólíklegt að hún hafi verið þar sem eitthvert af þeim útihúsum sem skráð eru af túnakorti stóðu.

Hólmsteinshús
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hólmsteinshus hafa yfir tuttugu ár í eyði legið … grasnautnina brúkar heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.“ Ekki er vitað hvar Hólmsteinshús voru og því ekki hægt að staðsetja þau með innan við 50 m skekkju.

Hóll
„Og svo er eitt tómthús, Hóll. … Skammt frá Þúfuhól er þurrabýlið Hóll í Hólslóð,“ segir í örnefnaskrá. Tóft Hóls er um 265 m frá bæ og um 10 m sunnan við Sundvörðu Neðri. Tóftin er uppi á klapparhól í hraunmóa, innan sumarhúsalóðar.

Mylla

Auðnar

Auðnar – mylluhús. Grunnur vindmylluhúss í Auðnalandi. Athafnamaðurinn Stefán Sigurfinnson á Auðnum stofnaði samtök meðal hreppsbúa um byggingu vindmyllunnar 1918-19. Átti hún að mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Rekstur beinamyllunnar gekk ekki eins og vonast var eftir, bilanir voru all tíðar og viðhald dýrt auk þess sem hún malaði of gróft. Var hún því aflögð aðeins tveimur eða þremur árum eftir að hún var reist. En hús hennar stendur enn sem vitnisburður um stórhuga athafnafólk Strandarinnar. Keðjurnar sem héldu mylluspöðunum hanga þar ennþá.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Þá stofnaði Stefán, ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggir […] Beinmyllan stóð stutt og var aflögð 1920-21.“ Myllan er um 150 m suðvestan við bæ.
Myllan stendur á klapparhól í móa rétt utan túns, um 10 m vestan við veg heim að Auðnum. Myllan er steinsteypt og er um 3 m á kant að grunnfleti. Dyr eru á norðvesturhlið og gluggar á suðvestur- og suðausturhliðum. Myllan mjókkar lítið eitt upp, er um 4 m á hæð. Timburbrak er utan við og innan í myllunni.

Landakot
Landakot
Nefnd hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930. Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. GJ: Mannlíf og mannvirki, 304, 309. Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1703: „Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

Landakot

Landakot – loftmynd.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.“ „Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,“ segir í örnefnaskrá Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki.

Landakot

Landakot.

Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar. Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði 028 sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Gata

Landakot

Gata – tóftir.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. „Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,“ segir í örnefnaskrá.

Landakot

Gata – uppdráttur.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.“ Gata er um 115 m norðaustan við bæ.
Býlið er í hæðóttu túni.

Garðlag – túngarður

Landakot

Landakot – garðlag (Heiðargarður).

„Ofan sjávargarðsins liggur landamerkjalínan að sunnan milli Landakots og Auðnahverfis og stakkstæðið upp í krókinn eða hlykkinn, sem var milli sjávargarða Landakots og Auðna. Þaðan um grjótgarðinn í Brunnhóla og svo eftir gamla torfgarðslaginu um Landakotshól og þaðan út í túngarðinn og heiðargarðinn,“ segir í örnefnaskrá. Frá Bakka til og með Auðnum er nokkuð óslitinn garður sem skilur tún jarðanna frá beitarlandi í Strandarheiði. Hann er sumsstaðar kallaður Heiðargarður (ýmist með stórum eða litlum staf) og er skráður á hverri jörð fyrir sig enda óvíst að hann sé allur frá sama tíma. Heiðargarður í Landakoti tengist görðum nágrannajarðanna. Heiðargarðurinn liggur á mörkum túns og móa.

Þórustaðir
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 141.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 115)
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eitt hdr fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26). Hjáleigur 1703 Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. (JÁM III, 141). Norðurkot hjáleiga 1847. Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar (GJ: Mannlíf og mannvirki, 309).

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.“ JÁM III, 141. 1919: Tún 4,8 teigar alls, garðar 2480m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra, sjá 003. Timburhús reis á jörðinni á syðra bæjarstæðinu 1884 og brann húsið 1984. Húsið var byggt úr viði úr James-Town strandinu í Höfnum. Í sömu bók segir: „Byggðu þau [Páll Jónsson og Hrefna Guðnadóttir] við Þórustaði, en svo brann allt eins og áður segir árið 1984. Þá þegar var hafist handa og byggt nýtt íbúðarhús, nokkuð suðaustur af því gamla. Þegar farið var að grafa fyrir nýjum grunni í og við brunarústirnar, komu í ljós leifar af fornminjum. Var þá uppgröftur stöðvaður og farið fram á að nýja húsið yrði byggt nokkuð fjær, því kanna þyrfti betur staðinn, ef þarna kynnu að vera gamlar menjar.“ Núverandi íbúðarhús er um 60 m sunnan við bæjarhólinn. Ekki er hefðbundinn búskapur á jörðinni en búið er í íbúðarhúsinu. Tún eru ekki nytjuð.

Þórustaðir

Þórustaðir.

Bærinn á Þórustöðum var á hæð í landslaginu og allt í kringum hana eru tún sem komin eru í órækt. Mikið rask hefur orðið á bæjarhól Þórustaða og er af þeim sökum erfitt að gera sér grein fyrir stærð hans. Hæðin sem bærinn var á er um 40×40 m stór og mest um 3 m á hæð. Búið er að byggja stór, steinsteypt, útihús í norðvesturhluta hólsins og eru þau niðurgrafin að hluta. Á norður- og norðausturhluta hólsins er búið að ryðja til grjóti og jarðvegi. Sunnan og suðaustan á hólnum er slétt plan og eru háir jarðvegsruðningar til suðausturs og vesturs. Leifar kálgarðs sjást í suðausturjaðri bæjarhólsins.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra. Ekki er víst hvar norðurbærinn stóð nákvæmlega en í einni örnefnaskrá Norðurkots er tekið fram að hann hafi átt lendingu í Krókum eins og Norðurkot og Tíðagerði. Gera má því ráð fyrir að norðurbærinn hafi verið norðan við hinn bæinn. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru nokkur hús saman í hnapp um 10 m norðan við bæ og kálgarður sambyggður hluta þeirra.

Hellukot

Hellukot

Hellukot.

„Upp í túninu sunnan götunnar var hjáleiga í eina tíð, nefndist Hellukot, þar í kring var Hellukotstún. Í þessu túni var Hellukotsbrunnur, og brunnstígur frá honum til bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar.“ Ekki er ljóst hvenær Hellukot fór í eyði en það hefur þó verið eitthvað fyrir síðari heimsstyrjöld því í bók Guðmundar kemur fram að býlið hafi verið notað til sumardvalar í nokkur ár, ýmist sem barnaheimili (á stríðsárunum) og fyrir aðra sumargesti. Hellukot er um 155 m suðvestan við bæ.
Hellukot er í suðurhorni túnsins, þar eru klapparhólar í grónu túni. Stór hluti minja sem tilheyrt hafa Hellukoti eru innan girðingar vestan heimreiðar þar sem nú er sumarhúsið Grund.

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt.

„Norðan Þórustaðagötu og ofan við bæinn er Stekkhóll og þar er Stekkhólsrétt,“ segir í örnefnaskrá.
„Stekkhólsrétt, veit ég ekki, hvort er sama réttin, sem enn stendur að hluta uppi og var alltaf notuð í mínu ungdæmi og var alltaf kölluð bara Þórustaðaréttin,“ segir í svörum við spurningum. Líklega er Þórustaðarétt og Stekkhólsrétt sama réttin. Margrét Guðnadóttir man vel eftir að réttin hafi verið notuð og að féð hafi verið rekið í réttina þegar því var smalað úr heiðinni. Réttin er 250 m sunnan við bæ.

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt.

Réttin er á flatri hæð og sést í bera klöppina, í móa utan túns. Réttartóftin er grjóthlaðin og tvískipt, snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin er um 16×5 m að stærð og er hólf I í norðausturenda um 4×4,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf II er um 4,5×10,5 m að innanmáli og snýr eins og hólf I. Veggir eru einfaldir, um 0,5 m á breidd og hæstir um 1 m, sjást 5 umför. Þar sem veggur skiptir tóftinni í tvennt liggur veggur til suðurs frá tóftinni, um 2 m langur. Suðvesturveggur er horfinn að mestu á kafla.

Norðurkot

Norðurkot

Norðurkot.

Hjáleiga Þórustaða 1703, jarðadýrleiki óviss. JÁM III, 141. Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, og aflagðist árið 1920. Harðangur var tómthús frá Norðurkoti, í byggð frá um 1885 til um 1900 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 315-316) 1919: Tún 1,7 teigar, garðar 340m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: „Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga“. Húsið var úr timbri, ein hæð og port-ris. […] Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti 1910 […].

Norðurkot

Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Norðurkot var í upphafi grasbýli frá Þórustöðum og átti ekki ítök í heiðarlandi.“ Í sömu heimild kemur fram að í kringum 1940 hafi verið hætt að búa í Norðurkoti og eftir það hafi húsið verið notað sem heyhlaða og geymsla. Á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga kemur fram að árið 2004 hafi Minjafélag sveitarfélagsins fengið Norðurkotshúsið að gjöf og var húsið flutt á fyrirhugað minjasvæði sveitarfélagsins að Kálfatjörn og gert upp. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru bæjarhús Norðurkots á svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Bæjarhóll Norðurkots er um 110 m norðaustan við Þórustaði. Umhverfis bæjarhólinn er sléttað tún í órækt. Hann er í hæðóttu landslagi þar sem sést í hraunnibbur á stöku stað. Bæjarhóllinn er um 15×20 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur.

Tíðagerði

Tíðagerði

Tíðagerði og Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

„Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór. Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
Tíðargerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá KE. Í annarri örnefnaskrá segir: „Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi matjurtagarður og svo var Heiðarlandið óskipt, en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins. En Tíðargerði átti 2400 fermetra land.“ Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: „Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, þó það yrði grasbýli síðar … Tíðagerði aflagðist árið 1920.“ Samkvæmt túnakorti frá 1919 tilheyrðu Tíðagerði bæjarstæði A), þró B), útihús C) kálgarður D), túngarður E) og kálgarður F).
Á túnakorti frá 1919 kemur fram túnastærð Tíðagerðis: Tún 0,5 teigar, garðar 700m2. Minjarnar sem tilheyra Tíðagerði eru á svæði sem er um 110×85 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í umfjöllun. Ekki er mikið um uppsafnaðar mannvistarleifar á bæjarstæði Tíðagerðis.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla I – Fornleifastofnun 2011.

Höfði

Yfirlitsmynd.