Gengið var frá bænum Elliðavatni við samnefnt vatn eftir svonefndri Þingnesslóð, yfir Myllulækjartjarnarlæk (tiltölulega nýlegt örnefni) og að Þingnesi, hinum meinta forna þingstað. Þar munu vera mannvistarleifar er teljast verða með þeim elstu hér á landi.
Minjasvæðið á Þingnesi.
Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti lét hlaða steinhúsið að Elliðavatni á árunum 1860 – 1862. Það hefur sérstakt byggingarsögulegt gildi og nú er unnið að þvi að varðveita það og stefnt að því að þar verði sett á stofn fræðslustofa þar sem gestum gefst kostur á því að kynnast Heiðmörk, sögu og náttúrufari í máli og myndum og með fyrirlestrum þegar það á við. Þess má geta að þjóðskáldið og athafnamaðurinn Einar Benediktsson er fæddur á Elliðavatni 30. október 1864 og átti heima þar til 10 ára aldurs.
Við Myllulæk eru rústir, en eins og nafnið gefur til kynna er talið að þar hafi verið mylla.
Þingnes – upplýsingaskilti.
Skoðaðar voru minjarnar á og við Þingnes, en þar var grafið sumarið 1984, 2003 og 2004 og svæðið metið. Grafið var í þrjár rústir og kom í ljós að þær voru frá tímabilinu 900 – 1100. Einnig komu í ljós tveir hlaðnir grjóthringir, sá stærri um 18 metrar í þvermál. Sumir hafa viljað halda því fram að þar séu komnar minjar Kjalarnessþings, sem stofnað var af Þorsteini, syni Ingólfs Arnarssonar, þess er fyrstur er skrifaður til bólfestu hér á landi. Í heimildum er getið um stofnun Kjalarnessþings og mun það vera forverinn fyrir stofnun Alþingis árið 930.
Fornleifauppgröftur á Þingnesi.
Minjarnar eru vel aðgengilegar en lítt finnanlegar þar sem þær eru talsvert utan stígar. Upplýsingatafla er við bílastæðið ofan við Þingnes, en erfitt að átta sig á því fyrir ókunnuga hvar minjarnar er að finna þótt þær séu ekki allfjarri. Staðurinn sjálfur er mjög fallegur, að hluta til tangi úti í Elliðavatni eins og það er í dag, en hafa ber í huga að vatnsborðið hækkaði talsvert við stíflugerðina fyrrum.
Auðvelt er að setja sig spor þeirra, sem gætu hafa verið þarna við þingstörf á sínum tíma, með fuglasönginn í vindhljóðum eyrum og fiskuppitökuna á sléttum vatnsfletinum mót augum.
Hvanna- og birkiangan hafa brugðið fyrir broddinn og sólin vermt kinn.
Nyrsta húsið er sýnilega stærst. Um miðju þess liggur hlaðinn garður. Gangurinn er þvert á húsið því opið vísar mót suðri, en húsið er á lengdina frá vestri til austurs. Vestan og utan í húsinu er hringurinn fyrrnefndi, eða öllu heldur hringirnir því annar er inni í hinum. Inni í honum er svo aftur enn eldri tóft. Sunnan við eru þrjár tóftir, þ.a. ein nokkuð stór. Norðan við þær er en nein tóftin. Á tanganum vestan við þær eru þrjár tóftir.
Eftir gönguna haldið inn í Heiðmörk um Heiðarveg í austur að Hraunslóð, en svo nefnist vegurinn sem liggur út á Suðurlandsveg við Silungapoll, og haldið eftir henni er fljótlega komið inn á Hólmshraun.
Til hægri handar u.þ.b. 200 m. frá veginum er fjárborg sem nefnist Hlómsborg. Hún er hringlaga og má skríða inn í hana um þröngar dyr. Fjárborg þessi er að mestu hlaðin af Karli Norðdahl, bónda á Hólmi árið 1918 og þykir með afbrigðum vel gerð og stendur að mestu óskemmd.
Guðrún Eggertsdóttir Norðdahl frá Hólmi, sem fædd er árið 1902, man vel eftir því þegar borgin var reist. Borgina gerðu Eggert faðir hennar, sem fyrr sagði, Magnús Jónsson mágur hennar, kenndur við Engjabæ í Laugardal, Karl bróðir hennar og Áskell hálfbróðir föður hennar. Magnús í Engjabæ var annálaður hleðslumaður. Guðrún færði föður sínum og þeim félögum mat og kaffi frá Hólmi, meðan þeir unnu að borginni. Fór hún þá beinustu leið yfir hraunið hjá Háhellu, en svo nefnist hraunhella, sem rís hátt norðan vegarins og sést vel frá Hólmi.
Hólmsborg.
Að sögn Guðrúnar átti faðir hennar mest tuttugu til þrjátíu sauði. Var borgin ætluð þeim til skjóls á útigangi. Annars telur Guðrún að borgin hafi ekki verið mikið notuð. Hafi faðir hennar jafnvel haft í huga að hún yrði öðrum þræði eins konar minnismerki. Hinu verður þó ekki neitað að borgin er vel staðsett. Austur af henni var gott kjarrlendi í úfnu hrauni, er nefndist Kargi. (Sjá meira um nágrenni Hólmsborgar HÉR).
Á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, hins fyrsta norræna landnámsmanns, má (ef vel er leitað) finna minjar tæplega eitt hundrað fjárborga, fyrrum skjóla fyrir sauðfé í útigangi.
Veður var frábært – lygnt og hlýtt. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Heimild m.a.:
-Áfangar, ferðahandbók hestamanna, 1986
Hólmsborg.