Færslur

Hólmsborg

Samningar tókust við veðurguðina um gott gönguveður á Heiðmerkursvæðinu um laugardagsfyrirmiðdag.

Dimmir

Við op Dimmis.

Gengið var að Hólmsborginni, sem var endurhlaðinn árið 1918. Hún stendur svo til óröskuð inni í hrauninu. Sagnir eru um tvo hella skammt ofan við. Þeir eiga að heita Þorsteinshellir og Dimma. Gerð var nokkur leit að þeim, en án árangurs í fyrst, enda tekið mið af fyrirliggjandi lýsingu.
Gengið var framá einmanna eini á mosabreiðu og hlaðinni fjárhústótt (beitarhúsi) undir klapparholti. Hlaðin var hlaða innst í tóttinni. Sennilega útihús frá Hólmi.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Gengið var niður með hraunbreiðunni og inn með tjörnunum við Silungapoll. Sunnan við þær liggur gömul hestagata austur um heiðina. Hraunkantinum var fylgt undir holtunum áleiðis að Selfjalli. Þegar farið var að nálgast malarnámur norðan fjallsins fóru skynjunarviðbrögðin að gera vart við sig. Staðnæmst var stutta stund á hraunhól og litið yfir nágrennið. Eftir mat á umhverfinu var stefnan tekin til austurs, beint á munna Þorsteinshellis. Við hann var lítið skilti frá borgarminjavörlsunni, vandlega falið. Op Dimmis fannst fljótlega undir hraunbrekku skammt norðaustar. (Sjá meira HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 53 mín.

Hólmsborg

Hólmsborg.

Hólmsborg

Gengið var frá bænum Elliðavatni við samnefnt vatn eftir svonefndri Þingnesslóð, yfir Myllulækjartjarnarlæk (tiltölulega nýlegt örnefni) og að Þingnesi, hinum meinta forna þingstað. Þar munu vera mannvistarleifar er teljast verða með þeim elstu hér á landi.

Þingnes

Minjasvæðið á Þingnesi.

Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti lét hlaða steinhúsið að Elliðavatni á árunum 1860 – 1862. Það hefur sérstakt byggingarsögulegt gildi og nú er unnið að þvi að varðveita það og stefnt að því að þar verði sett á stofn fræðslustofa þar sem gestum gefst kostur á því að kynnast Heiðmörk, sögu og náttúrufari í máli og myndum og með fyrirlestrum þegar það á við. Þess má geta að þjóðskáldið og athafnamaðurinn Einar Benediktsson er fæddur á Elliðavatni 30. október 1864 og átti heima þar til 10 ára aldurs.
Við Myllulæk eru rústir, en eins og nafnið gefur til kynna er talið að þar hafi verið mylla.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Skoðaðar voru minjarnar á og við Þingnes, en þar var grafið sumarið 1984, 2003 og 2004 og svæðið metið. Grafið var í þrjár rústir og kom í ljós að þær voru frá tímabilinu 900 – 1100. Einnig komu í ljós tveir hlaðnir grjóthringir, sá stærri um 18 metrar í þvermál. Sumir hafa viljað halda því fram að þar séu komnar minjar Kjalarnessþings, sem stofnað var af Þorsteini, syni Ingólfs Arnarssonar, þess er fyrstur er skrifaður til bólfestu hér á landi. Í heimildum er getið um stofnun Kjalarnessþings og mun það vera forverinn fyrir stofnun Alþingis árið 930.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Minjarnar eru vel aðgengilegar en lítt finnanlegar þar sem þær eru talsvert utan stígar. Upplýsingatafla er við bílastæðið ofan við Þingnes, en erfitt að átta sig á því fyrir ókunnuga hvar minjarnar er að finna þótt þær séu ekki allfjarri. Staðurinn sjálfur er mjög fallegur, að hluta til tangi úti í Elliðavatni eins og það er í dag, en hafa ber í huga að vatnsborðið hækkaði talsvert við stíflugerðina fyrrum.
Auðvelt er að setja sig spor þeirra, sem gætu hafa verið þarna við þingstörf á sínum tíma, með fuglasönginn í vindhljóðum eyrum og fiskuppitökuna á sléttum vatnsfletinum mót augum.
HólmsborgHvanna- og birkiangan hafa brugðið fyrir broddinn og sólin vermt kinn.
Nyrsta húsið er sýnilega stær
st. Um miðju þess liggur hlaðinn garður. Gangurinn er þvert á húsið því opið vísar mót suðri, en húsið er á lengdina frá vestri til austurs. Vestan og utan í húsinu er hringurinn fyrrnefndi, eða öllu heldur hringirnir því annar er inni í hinum. Inni í honum er svo aftur enn eldri tóft. Sunnan við eru þrjár tóftir, þ.a. ein nokkuð stór. Norðan við þær er en nein tóftin. Á tanganum vestan við þær eru þrjár tóftir.

Eftir gönguna haldið inn í Heiðmörk um Heiðarveg í austur að Hraunslóð, en svo nefnist vegurinn sem liggur út á Suðurlandsveg við Silungapoll, og haldið eftir henni er fljótlega komið inn á Hólmshraun. 

Ártalssteinn

Til hægri handar u.þ.b. 200 m. frá veginum er fjárborg sem nefnist Hlómsborg. Hún er hringlaga og má skríða inn í hana um þröngar dyr. Fjárborg þessi er að mestu hlaðin af Karli Norðdahl, bónda á Hólmi árið 1918 og þykir með afbrigðum vel gerð og stendur að mestu óskemmd.
Guðrún Eggertsdóttir Norðdahl frá Hólmi, sem fædd er árið 1902, man vel eftir því þegar borgin var reist. Borgina gerðu Eggert faðir hennar, sem fyrr sagði, Magnús Jónsson mágur hennar, kenndur við Engjabæ í Laugardal, Karl bróðir hennar og Áskell hálfbróðir föður hennar. Magnús í Engjabæ var annálaður hleðslumaður. Guðrún færði föður sínum og þeim félögum mat og kaffi frá Hólmi, meðan þeir unnu að borginni. Fór hún þá beinustu leið yfir
hraunið hjá Háhellu, en svo nefnist hraunhella, sem rís hátt norðan vegarins og sést vel frá Hólmi.

Hólmsborg

Hólmsborg.

Að sögn Guðrúnar átti faðir hennar mest tuttugu til þrjátíu sauði. Var borgin ætluð þeim til skjóls á útigangi. Annars telur Guðrún að borgin hafi ekki verið mikið notuð. Hafi faðir hennar jafnvel haft í huga að hún yrði öðrum þræði eins konar minnismerki. Hinu verður þó ekki neitað að borgin er vel staðsett. Austur af henni var gott kjarrlendi í úfnu hrauni, er nefndist Kargi. (Sjá meira um nágrenni Hólmsborgar HÉR).
Á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, hins fyrsta norræna landnámsmanns, má (ef vel er leitað) finna minjar tæplega eitt hundrað fjárborga, fyrrum skjóla fyrir sauðfé í útigangi.
Veður var frábært – lygnt og hlýtt. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Áfangar, ferðahandbók hestamanna, 1986

Hómsborg

Hólmsborg.

Vatnaborg

Þrátt fyrir dimmviðri lék sólin við Reykjanesbrautina. Ákveðið hafði verið að fara í skoðunarferð um borginar sex sem og nokkra aðra staði við brautina. Byrjað var á því að skoða Vatnaborgina sunnan brautarinnar skammt vestan Kúagerðis. Borgin er á grashól örskammt frá veginum og sést vel. Norðan borgarinnar er hið fallegasta vatnsstæði. Borgin ber þó fremur nafn sitt af bænum Vatnsleysu en vatnsstæðinu, enda í Vatnsleysulandi.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Næst var staðnæmst við Stóra-Skjólgarð sunnan við Innri-Njarðvík, sunnan Reykjanesbrautar. Um er að erð ræða mikinn hlaðinn skjólgarð á hól skammt frá brautinni. Hann hefur veitt fé skjól fyrir vondum veðrum úr öllum áttum. “Garðinn hlóð Helgi Jónsson sterki, er var húsmaður Þorkels lögrm. Jónssonar, föður Jóns Thorkilli. – Skv. frás. Guðm. A. Finnbogasonar.” Skv. því hefur garðurinn verið hlaðinn um 1650. Skipsstígurinn á milli Narðvíkur og Grindavíkur, liggur skammt vestan við hólinn.

Rósel

Rósel.

Þá var haldið að Róasaseli vestan Rósaselsvatna og það skoðað. Selið er greinilega mjög gamalt. Við þar er hlaðinn stekkur, fremur lítill. Litið var á borg skammt vestan þjóðvegarins að Garði. Borgin er á litlum hól og er fremur lítil af fjárborg að vera. Hún er greinilega mjög gömul, enda engar sagnir til um tilvist hennar. Hún er hvergi til á kortum, hvorki gömlum né nýjum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Staldrað var við Keflavíkurborgina, sem er á holti ofan við Grófina. Um er að ræða mjög gamla hlaðna fjárborg. Inn í hana hefur einhvern tímann verið hlaðinn garður og er líklegt að fé hafi verið gefið í borginni. Eins og flestir vita voru ekki til fjárhús á þeim tíma, heldur komu hlaðnar borgir og fjárhellar (fjárskjól/fjárbyrgi) í þeirra stað. Sérstök hús fyrir fé komu löngu síðar( á 20. öldinni).

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

Haldið var að Hólmsborginni á Hólmsbergi (Berghólum). Um er að ræða mjög fallega fjárborg, að mestu hlaðna úr torfi og grjóti. Út frá henni til suðurs er garður, en inni í henni miðri er stallur. Hafa ber í huga að fornum fjárborgum var breytt í tímans rás, allt eftir þörfum hverju sinni. Þannig urðu sumar borgir að stekkjum, sbr. Þórustaðaborgin, og til eru dæmi um að borgir hafi þróast í réttir, sbr. Auðnaborgin. Sunnan Hólmsborgar er gerði eða rétt, en austan hvorutveggja liggur gamla þjóðleiðin á milli Keflavíkur og Útskála.

Árnarétt

Árnarétt.

Loks var haldið að Árnarétt við viðkomu við Hríshólavöru, einni fallegustu fjárborginni á Reykjanesi. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt. Álaborgin syðri er ofan Bæjarskerja. Hún er einnig forn rétt og stendur enn að mestu heil. Í bakaleiðinni var skoðuð gömul fjárborg sunnan vegarins að Leifsstöð. Rétt mótar fyrir hringnum innan um leifar hernaðarmannvirka Bretans. Gaman að sjá hvernir hin gamla arfleið hefur lifað hernaðarbröltið vegna þess hversu ómeðvituð þau hafa verið þeim er þar komu að.
Góður dagur. Og hið skemmtilega var að flestir í hópnum, sem ekið hafa margoft þessa leið, höfðu aldrei tekið eftir þessum merku mannvirkjum – sem eru einungis nokkra metra frá einni fjölförnustu þjóðleið nútímans.

Stóri-krossgarður

Stóri-krossgarður.