Færslur

Hólmsheiði

Gengið var um vestanverða Hólmsheiði, austan og norðaustan við Rauðavatn. Á þessu svæði er m.a. finna búskapsleifar frá Hólmi, s.s. réttir, áletranir, fjárborgir og fjárhús auk sels (Grafarsel) frá bænum Gröf, sem var skammt sunnan við Keldur.

Áletrun í réttinni

Allt svæðið tilheyrði Gröf (Grafarholti 1703)., en jörðin átti þá land að Reynisvatni í austri, Hólmi í suðaustri, Elliðavatni í suðri, Árbæ í vestri og Keldum og Lambhaga í norðri. Þrátt fyrir mikla skógrækt ofan við Rauðavatn allt frá árinu 1899 og fram til þessa dags hafa minjarnar að mestu verið látnar í friði. Þó hefur mátt sjá hvar trjáplöntum hefur verið plantað í einstaka þeirra, en þær þá jafnan rifnar upp og plantað utan minjanna. Sumar minjanna eru merktar “Borgarminjar”, en þó ekki allar.
Byrjað var á því að ganga í rétt (borg) við gömlu þjóðleiðina austur fyrir fjall. Hún er í leirblandaðri hlíð, Borgarholti, mót suðri, skammt fyrir ofan leiðina, ómerkt. Réttin hefur verið hlaðin úr stórum steinum, sem enn standa – sumir hverjir. Allt svæðið er nú umlukið lúpínu svo mannvirkið hverfur jafnan þegar líða tekur á sumrin. Norðan í réttinni er flatur steinn. Á hann hefur verið markað ártalið 1818 og SG undir. Ofan við áletrunina er krossmark. Hvort sem “réttin” hefur verið hlaðin til minningar um mann eða konu, sem þarna hefur látist, eða viðkomandi látist þarna í réttinni, er ekki gott að segja. Eflaust er einhvers staðar til lýsing á tilurð áletrunarinnar.
Þá var haldið upp með norðausturbrún skrógræktarinnar í sunnanverðum Úlfhildarbrekkum. Þar utan í henni (reyndar inni í henni nú orðið) er fjárhústóft (sauðatóft). Austan í henni, samfast, er heykuml. Hleðslur standa í því, en hleðslur fjárhússins standa grónar. Gafl hefur verið mót vestri. Frá þessum stað sést vel yfir Rauðavatnið.
Fjárhústóft utan í HólmsheiðiRauðavatn er í jökuldæld austan Seláss. Austasti hlutinn nefnist Austurvík. Suðurvík er syðst og Jaðar á millum. Fyrstu tilraunir með trjáplöntur voru m.a. gerðar við vatnið skömmu fyrir aldamótin 1900. Áhugamannafélag um skógrækt var stofnað árið 1901 og keypti svæði úr landi Grafarholts austan vatnsins. Tilraunir til skógræktar þar brugðust vonum manna og var hætt. Skógræktarfélag Íslands tók við resktrinum og árið 1946 Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nokkrir sumarbústaðir er byggðir voru um og eftir stríðsárin stóðu við vatnið. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar árið 1982 gerði ráð fyrir íbúðabyggð við vatnið en að loknum sveitarstjórnakosningum sama ár var hætt við þessa fyrirætlan. Ástæðan var ekki síst aðvörun jarðfræðinga um sprungubelti á þessu svæði. Árið 2005 hófst íbúðabyggð á svokölluðu Norðlingaholtssvæði, milli Rauðavatns og Elliðavatns, þannig að byggð færist æ nær vatninu. Ein stærsta prentsmiðja landsins stendur nú á “sprungusvæðinu” sem og höfuðstöðvar áreiðanlegasta dagblaðs landsins.
NorðurljósasætiðSkógurinn við Rauðavatn er hluti að “Græna trefillinum” svonefnda, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar, Álftaness og Hafnarfjarðar. Á þessu svæði búa tæplega 230.000 íbúar eða rúm 60% þjóðarinnar. Samstarf skógræktar- og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu útivistarsvæða innan og á jaðri byggðar á sér langa sögu. Má rekja hana allt aftur til ársins 1903 þegar gróðursetningin hófst skipulega við Rauðavatn. Hugmyndin um að líta á svæðið sem eina heild er þó mun yngri og er fyrst farið að nota hugtakið „Græni trefillinn“ upp úr 1990. Árið 1985 gaf Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins út metnaðarfullt rit sem nefndist „Átak í trjárækt á
höfuðborgarsvæðinu“ sem innlegg í væntanlegt svæðisskipulag. Veturinn 1993 – 94 létu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna drög að sameiginlegum markmiðum með skógrækt í upplandi svæðisins. Jafnframt voru unnin frumdrög að samræmdu umferðarkerfi á svæðinu
jafnt fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi sem akandi útivistarfólk. 

Sumarhúsið

Með þessu frumkvæði vildu skógræktarfélögin leggja fram drög að svæðisskipulagi útivistar og skógræktar í þeirri von að tillögurnar yrðu fléttaðar inn í aðalskipulags- og framkvæmdaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Árið 2003 var undirritaður formlegur samningur um Græna trefilinn milli
skógræktarfélaganna. Við gerð Svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið 2001-20241 var Græni trefillinn staðfestur í skipulagi. Græni trefillinn hefur einnig verið tekinn inn í aðalskipulag einstakra sveitarfélaga. Ekki hefur þó enn verið unnið skipulega að því að tengja svæðin saman eða formgera framkvæmd þessa verkefnis.
Að öllum líkindum var fjárhúsið (sauðahúsið) frá Hólmi. Þjóðjörðin Hólmur fær eftirfarandi umsögn í fasteignamatinu 1916-1918: “Land mikið og gott, hagsamt, skjólótt, kvistlendi + hrís á nokkru (Hólmsheiði ekki hér með talin, sjá Mosf.sv.). Kostir: … (nú leigð fyrir slægjur frá Elliðav.,Rauðh.). … Ath. Beitarland, nefnt Hólmsheiði, er liggur í Mosfellsveit (norðan Bugðu) en fylgir nú Hólmi, er metið sérstaklega …”
Í sömu heimild segir um Hólmsheiði: “Beitarland, sunnan við Reynisvatnsland (og talið af því tekið), milli Geitháls og Grafarholtslanda (norðan við ána Bugðu), fylgir nú þjóðjörðinni Hólmi í Seltjarnarnesshreppi og notað þaðan til beitar; má stundum slá vellisbletti í því. Fremur hagsælt og allgott sauðland. Með því áin, Bugða, er talin skilja sveitirnar, telzt land þetta í Mosfellssveit.”
Skammt norðaustar í heiðinni, uppi á ísaldarsorfnu klapparholti Úlfhildarbrekkna, einnig fast við skógræktarreit, er önnur rétt (borg). Hún hefur verið svipuð að stærð og sú fyrrnefnda og lega hennar er svipuð. Ástæðan fyrir tilvist réttarinnar þarna er gömul leið, sem lá þarna með holtinu til austurs, áleiðis upp að Lyklafelli. Með því að fara þessa leið, norðan við Rauðavatn, hafa ferðalangar komist hjá því að ösla mýrar neðra því þeir hafa fljótlega komist í hæð, sem hefur haldist að mestu langleiðina að Hellisskarði, eða  undirhlíðum Hengilsins ef farið hefur í þá áttina eftir gamalli þjóðleið er þar liggur. Ekki var að sjá áletrun á steini í þessari rétt.
GrafarselÁ holti skammt sunnar er líkt og skorsteinn frá braggabyggð, sem var þarna í heiðinni á stríðsárunum. Þegar nánar var að gætt kom í ljós stuttur hlaðinn himnastigi eða hátt hásæti. Þar við var áletrun. “Norðurljósasæti – Erla Þórarinsdóttir, með aðstoð unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur – Landlist við Rauðavatn 2000”. Kunnugir sögðu að listaverkið hefði verið liður í menningarverkefni Reykjavíkurborgar. 17 myndlistarmenn unnu að sýningunni með aðstoð Vinnuskólans. Um er að ræða um 20 listaverk, sem komið var upp við Rauðavatn og á Hólmsheiði. Hvert þeirra er merkt með nafni og höfundar getið. Auk Norðurljósasætisins (nr. 16) er annað (nr. 15) ofan við Grafarsel. Það ber nafnið “Sumarhús” og er eftir Borghildi Óskarsdóttur. Um verkið segir m.a.: “Sumarhús er línuteikning, náttúran/heimurinn er utan og innan línunnar. “Sumarhús það er heimurinn” sagði Bjartur í Sumarhúsum.” Fjárborg suðaustan Rauðavatns
Í Mbl frá árinu 200 segir m.a. um þessa list við Rauðavatn: “Land List er sýning á verkum allt að tuttugu myndlistarmanna sem verður opnuð við Rauðavatn þann 16. júlí.Það eru margir vel þekktir myndlistarmenn taka þátt í sýningunni, sem er framlag Vinnuskóla Reykjavíkur til dagskrár menningarborgarinnar. Skólinn fékk Samband íslenskra myndlistarmanna til að aðstoða við skipulagningu hennar. Hugtakið landlist (land art) er notað um listaverk sem unnin eru úti í náttúrunni og úr náttúrunni. Framlag Vinnuskólans felst m.a. í að 16 ára unglingar í sumarvinnu aðstoða höfundana við að útfæra verkin. Myndlistarmenn sendu inn hugmyndir að verkum sem sýningarnefnd valdi úr. Við val á tillögum til útfærslu var ekki eingöngu haft í huga listrænt gildi verkanna, heldur einnig að þau tækju mið af staðháttum og hentuðu til útfærslu fyrir nemendur skólans. Nú þegar er lokið við gerð tveggja verka, en hægt er að fylgjast með listamönnunum vinna með aðstoð unglinganna að útfærslu annarra frá 13. júní og fram að opnunardegi.”
Listaverkin eru unnin voru úti í náttúrunni og með náttúruna sem efnivið.
Mörk lögbýla árið 1703 - grátt er GröfSkammt sunnan við listaverkið “Sumarhús” er Grafarsel í Selbrekkum. Ofan þess er Selholt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit. Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: “Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.” Þá segir að “selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.”
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.

Göngusvæðið

Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim [250] sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum.
Fjárborg er á holti suðaustan við Rauðavatn. Leiðigarður liggur frá henni til suðurs. Búið er að planta trjám yfir hann að hluta.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er önnur fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.

 

Hólmsheiði

Hólmsheiði.