Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir “Lónakot” segir um landssvæði bæjarins ofanvert:
“Svo er nafnasnautt upp undir veginn, en um hann liggja hraunbrekkur þvert. Þær heita Högnabrekkur. Svo er þar á vesturmerkjum, nokkuð ofan vegar, Taglhæð og Hólbrunahæð. Enn ofar er svo Lónakotssel. Ofan þess liggur hraunás þvert yfir landið, sem heitir Skorás, og þar, sem landið nær lengst í suður, heitir Mið-Krossstapi. Meira er svo ekki til hér að sinni.”
Vesturlandamerki Lónakots í Lónakotsseli lágu um Skorás, í áberandi vörðu, sem þar er. Skammt austar er landamerkjavarða utan í klapparhól, líkt og segir í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar. Landamerkjavarðan sú (með hattinn) stendur enn óröskuð. Skammt vestan hennar er austasti selstekkurinn.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Lónakots segir m.a. um framangreint svæði:
“Ofan vegar liggur landamerkjalínan um Taglhæðarvörðu á Taglhæð. Þaðan um Hólsbrunn og Hólsbrunnsvörðu á Hólsbrunnshæð, sem eiginlega er klapparflatneskja allmikil um sig. Héðan liggur svo línan um Skorásvörðu á Skorás og þaðan í Mið-Krossstapa.
Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða “Klett” austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorási er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali var klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.”
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a. um svæðið norðan Lónakotssels:
“Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni. Þar var mikið bláberjalyng og var mikið farið þangað til berja í gamla daga. Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni suður yfir Seljahraun og þaðan upp í Mjósundavörðu. Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn. Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker. Framan við hellinn óx fyrrum mikil birkihrísla. Hana kól í frostunum 1918, en rafturinn er þarna enn.
Töluvert vestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita. Vestur og niður af þeim er hæð, sem nefnist Breiðás. Skammt suður frá fjárbyrginu eru Litluskútar og þar austur af slétt hæð, sem nefnist Litliás.
Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur stígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er feiknastór, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er svo þröngt. Fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur, og fé fór ekki inn í hann nema rétt inn fyrir opið. Varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.”
Í bókinni “Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, sem Sesselja Guðmundsdóttir, skrifaði, segir um framangreint svæði:
“Þegar staðið er á Taglhæð sést sléttlendi nokkurt til suðausturs og þar ofar blasir Skorás við en það er hæð sem liggur til suðvesturs út frá Lónakotsseli í Hafnarfjarðarlandi. Við augum blasir þversprunginn klapparveggur og ber hæðin Skorásnafnið því með sóma. Sunnan til á ásnum er varða sem heitir Skorásvarða en hennar er getið í gömlum merkjalýsingum.”
Líkt og fram kemur hér að framan eru þrjár “aðgreindar seljatættur” í Lónakotsseli, auk einnar stakrar. Tóftin sú hefur væntanlega verið eldhús frá vestasta tóftarhólnum. Lýsingin passar vel við fjölda stekkja á svæðinu. Þeir eru þrír; einn nyrst, annar austast og sjá þriðji í jarðfalli vestan við selið. Í því er einnig fjárskjól.
Í Brenniselshæðum eru reyndar ummerki eftir eldri selstöður er höfðu þjónað sama tilgangi fyrrum. Þar er og að finna kolagrafir er styðja tilvist þeirra.
Heimildir:
-örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði.
-Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bl.s 119.