Færslur

Hóp

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um miðhverfið (fyrri hluti). Molda-Gnúpur nam land í Grindavík, en hvar…..

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Árið 1703 voru “öngvar engjar” á Hópi. “Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.” Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt of flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Árið 1840 er “jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegheitum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðst hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda; þegar fiskur gengur grunnt, hefir þar inni þorskur fengist og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi.” Í Landnámi Ingólfs segir að “á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.”

Hóp

Hóp – túnakort.

Árið 1847 var jörðin seld í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eftir afsalsbréfum 8. ágúst 1787 og 26. janúar 1791. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öldina, en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talið hafa heitið Hof. Bær Molda-Gnúps í Álftaveri austan mun hafa heitið Hof. “Sagt er að bærinn hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum,” segir í örnefnaskrá.
Landið er sneið af Þorkötlustaðanesinu og spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn sitt af, heitir Hóp. Nú eru þar hafnarmannvirki Grindvíkinga. Ós var á hópinu, austast, stundum nefndur Barnaós því þar munu börn hafa drukknað.
Inn á túnakort 1918 er býlið Hópsnes merkt. Það var um 140 m suðsuðaustan við Hópskot. Húsið hefur verið í námunda við þar sem nú er fiskvinnsluhús við Bakkalág. Bærinn mun hafa staðið á hól, sem notaður var í vegagerð á 7. áratugnum og bærinn því kominn undir veginn.

Grindavík

Grindavík – Hópið.

Gamli Hópsbærinn stóð að hluta þar sem fjárhúsbyggingin stendur nú. Hann hefur þó náð lengra til norðurs þar sem nú eru tún. Tröð lá niður túnið á Hópi. Enn sjást merki um tröðina vestan í bæjarhólnum og má greina hvar hún beygir meðfram honum til austurs. Sléttuð tún eru umhverfis. Tröðin er greinileg á 16 m kafla vestan í bæjarhólnum og beygir meðfram honum sunnaverðum. Á þessu svæði hefur tröðin mótast af bæjarhólnum, en hlaðið hefur verið upp með henni að austan.
“Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft”, segir í örnefnaskránni. Goðatóftin er friðlýst frá 25.10.1930. Brynjúlfur Jónsson segir 1903 að “bærinn Hóp hafi upphaflega heitið Hof og að þar hafi verið goðahof”. Þar hafi verið “goðahús” í heiðni og þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota á hvern hátt sem hentar. “Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; “goðahúsið” hefir til skamms tíma verið geymsluskemma, en nú er það haft fyrir fjós,” segir Brynjúlfur. Tóftin er einföld og snýr austur-vestur. Op er syðst á vesturhlið.

Hópsnesviti

Hópsnesviti (Þórkötlustaðanesviti).

Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum þeim sem voru á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi. Gæti það verið vísbending um bænhús á Hópi. Engar vísbendingar eru um staðsetningu bænhússins, en það hefur þó líklega verið í námunda við bæjarstæðið.
Í manntali 1703 er getið um hjáleigu á Hópi, en hennar er ekki getið í jarðabók frá sama ári eða öðrum heimildum. Frá 1880 og fram yfir aldamótin er þriðja býlið á Hópi nefnt Litla-Hóp í manntölum, og á kortum er sýnt Hópskot suðaustan við bæinn.
Melber er merkt inn á túnakort frá 1918. Þar var um 160 m norðnorðvestan við bæ. Bærinn stóð rétt norðan við þar sem gamal bárujárnshús stendur nú, rétt norðan við íbúðarhúsið á Hópi I. Nú er þar sléttað tún.

Hópssel

Hópssel.

Gerðatóft, útihús, er fast norðan við bæjarhólinn. Það er merkt á túnkort 1918. Þrátt fyrir að sléttað hefur verið yfir húsið má greinilega merkja útlínur þess. Það hefur verið 12×18 m að stærð og virðist hafa verið einfalt. Út frá vesturhlið má grein garðlag sem og út frá asuturhlið þess. Mun þetta vera gerðið sem húsið var kennt við.
Tóft er 10 m norðan við vegarslóðann sem liggur suður Hópsnes. Þar mun hafa verið ískofi, líkt og í Þórkötlustaðanesi. Önnur tóft er fast norðan við Bakkalág með sama brúkunargildi skv. upplýsingum Tómasar Þorvaldssonar.

Ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þar upp frá skammt frá vitanum er Látravarða og norður af þeim hólum heita Katlar. Látravarða var í sjónlínu frá Siggu, sem stóð á fjörukambinum, en er nú horfin. Hún var endurhlaðin a.m.k. í tvígang, en Ægir tók Siggu jafnan til sín á ný.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Langur klettahryggur liggur til norðurs frá vegarslóðanum um Hópsnesið (nálægt landamerkjum við Þórkötlustaði). Varðan stóð á þessum hrygg, nyrst. Nú er grjóthrúga þar sem varðan var.
Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Milli þess og Skiparéttar er hraunhryggur eða strýta, sem heitir Álfakirkja. Hún er 5-10 m vestan við vegarslóða, sem liggur suður Hópsnesið. Kletturinn er í mosa- og grasigrónu hrauni. Hann er aflíðandi og grasivaxinn að norðan en að sunnan skín í klöppina. Frá jafnsléttu er kletturinn um 3 m á hæð. Skiparéttin er suður af Vatnsstæðinu. Þetta var grjótrétt, sem skipin voru sett upp í. Hún sést enn og er 12×12 m að stærð. Veggir hennar eru nokkuð hrundir. Tóftin er einföld ef frá er talinn krókur, sem er á henni austarlega. Skiparéttin er um 10 m suðaustan við bílastæði við smábátahöfnina.

Hóp

Minjar í Hópstúni.

Langhóll er austan við Síkin, fast vestan við veginn er liggur suður á Hópsnes. “Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna,” segir í örnefnaskrá. Nyrst á Langhól er tóft og bogadregin grjóthleðsla liggur yfir hálft Síkið. Önnur tóft er sunnar á hólnum. Þetta eru leifar frá því að Hóp hafði útgerð ofan við Hópsvör, sem er þarna fyrir utan.
Hleðsluleifar eru í hrauninu á Hópsnesi. Mikið er um hleðslur í hrauninu á þessum stað, sumar hverjar greinileg hólf en aðrar ógreinilegar. Hugsanlega hafa þetta verið herslugarðar.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Túngarðsleifar sjást 50-60 m ofan við eystri bæ Hóps. Hægt er að greina hvar túngarðurinn hefur legið í vestur frá þessari girðingu, en þar hefur verið sléttað yfir hann. Garðurinn liggur í grasigrónu og sléttuðu túni. Hægt er þó að sjá hvar garðurinn hefur legið til vesturs frá girðingunni austan við Hópstún. Frá girðingunni er um 30 m kafli þar sem einungis er merkjanlegur hryggur þar sem garðurinn var. Þá verður garðurinn greinilegri og sést hann þaðan á um 36 m kafla til vesturs þar til rof er í hann og honum hefur alveg verið rutt á 22 m kafla. Hann birtist aftur þar vestan við á 40 m kafla áður en hann verður enn aftur ógreinilegur og úr honum sléttað. Þó sést hann óglöggt í 35 m til viðbótar sem hæð í túninu uns hann hverfur alveg. Hornsteinn í norðvesturhorni garðsins er enn merkjanlegur í sléttu túninu miklu vestar, en þær garðleifar sem enn sjást á yfirborði.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við garðinn í túninu er brekka, sem heitir Kinn, og rétt við hana er laut, sem heitir Kvíalág. Þar voru kvíar þegar fært var frá. Kvíarnar voru þar sem Hópsvegur liggur niður brekku vestan við túnin á Hópi, milli hans og túnanna.
“Hópsvör er austan við bæinn að Hópi. Austan við vörina heita Vöðlar. Þá er Stekkjarfjara og svo básar, sem heita Heimribás og Syðribás,” segir í örnefnaskrá. Þar ofan við er Stekkjarbakki og Síkin, feskvatnstjarnir. Hópsbændur reru frá Hópsvör á fyrri tíð. Enn má sjá móta fyrir vörinni utan varnargarðsins á lágsjávuðu. Þar sem garðurinn er nú voru sjóbúðirnar frá Hópi.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjarvarða er um 50 m norðan við gatnamót á vegarslóðanum sem liggur út í Hópsnes. Hún stendur þar á hól fast sunnan við vegarslóðann. Varðan er alveg hrunin, en sést grjóthrúga þar sem hún stóð. Hún hefur væntanlega verið kennd við sama stekk og Stekkjarfjara.
Markasteinn var í fjörunni um 60 m vestan við Hópsvita. Á hann voru klappaðir stafirnir LM til merkis um landamerki Hóps og Þórkötlustaða. Hann virðist nú vera horfinn.
Fyrir neðan Hóp eru Vötnin og Vatnatangi (Vatnstangi), en í Vötnunum var þveginn þvottur frá Hópi. Ummerki eftir þvottastaðinn eru nú horfin vegna framkvæmda, en Vatnatangi er beint suður af innsiglingarvörðunni, stundum nefnd Svíravarða, en sú varða mun hafa verið nokkru vestar við Hópið, í Járngerðarstaðalandi. Efri innsiglingavarðan er efst í túninu á Hópi. “Í Vatnatanga sóttu húsfreyjur á Hópi vatn í kaffið og þótti hvergi betra vant á þessum slóðum,” segir í Sögu Grindavíkur.

Hóp

Hóp.

Öskuhóll er hóll, fullur af gamalli ösku. Hann er beint norðan við eystri Hópsbæinn. Hóllinn er í sléttuðu túni, grasi gróinn. Hann er 25×15 að stærð. Draugur var klettur í túninu á Hópi. Hann er nú horfinn þar sem eru sléttuð tún. Draugar eru víða til, en þeir voru nefndir svo vegna rökkuropinberunarinnar.
Gömul rudd leið liggur úr túni á Hópi til austurs óræktina, í átt að Þórkötlustöðum. Leiðin liggur til austurs í svipaðri hæð í túninu og Hópsbæirnir standa nú. Slóðinn liggur í jarðri túnsins og í um 50 m áður en hann kemur að girðingu, sem girðir af Hópstún, og vegi sem liggur þar til suðurs að Bakkavör. Slóðinn er svo aftur greinilegur austan vegarins og þar liggur hann út hraunið til austurs.
Leifar gerðis eru sunnan við Austurveg. Gerðið er fast vestan við óskýrðan vegarslóða sem liggur frá Austurvegi að olíutönkum. Það er á gróðurlitlu hraunlendi, formlega lagað.
Í efralandinu er Heiðarvarðan í Hópsheiði, en svo nefnist svæðið ofan þjóðvegarins að Þórkötlustaðahverfi. Varðan var innsiglingamerki. Nokkuð hefur hrunið úr vörðunni einkum úr suðurhlið hennar.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Gjáhóll er austan við Stamphólsgjá. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði. Leifar þess eru að mestu horfnar.
Gálgaklettar eru norðan í Hagafelli. Þar er klettabelti með þessu nafni. Þar segir sagan, að þjófarnir í Þjófagjá hafi verið hengdir. Vestan í Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri og er gamalt fiskimið (Melhóll í Grágeira). Þar vestan í fellinu er svonefndur Selháls, sem þjóðvegurinn liggur yfir. Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Hann er sunnan við Dagmálaholtið. Dagmálaholt mun vera kennt við eyktarmark frá selinu á Baðsvöllum, en það var frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni. Einnig er Selháls kenndur við það sel, sem er fast austan við veginn norðan við hálsinn. Þær tættur virðast yngri en Baðsvallaselin. Tóftin er í aflíðandi hæð. Seltóftin er þrískipt. Hún er tæp 12 m á lengd, en 4,5 m á breidd. Op eru á suðurveggjum allra hólfanna, en ekki er greinilegt op á milli þeirra. Tóftin er gróin að utan, en grjóthleðslur sjást að innan.

Skógfellavegur

Skógfellavegur og Sandakravegur.

Skógfellaleið er forn leið milli Grindavíkur og Voga. Við hana eru vörður, sumar fallnar, aðrar endurhlaðnar í seinni tíð. Fast norðan við Austurveg, þar nálega til móts við þar sem Mánagata kemur á veginn er nýlegt minnismerki þar sem Skógfellsleið lá. Leið þessi lá frá merkinu og til norðvesturs út á hraunið. Afleggjarinn lá á hina eiginlegu Skógfellsleið, sem einnig var nefnd Vogavegur og liggur frá Þórkötlustöðum, austur fyrir Stóra Skógfell og í Voga eins og nöfnin gefa til kynna. Leiðin milli byggðalaganna liggur að mestu um hraunlendi, en kaflinn milli Skógfellanna er djúpt markaður í slétta hraunklöppina. Hann er um 16 km, en bæði greiðfær og áhugaverð gönguleið.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur hafi numið land þar sem nú er Hóp og nefnt bæ sinn Hof. Eldgos efra á 12. og 13. öld raskaði byggð í Grindavík sem og á nálægum svæðum, t.d. í Krýsuvík. Eftir það byrjar flækja búsetu í Grindavík, sem enn á eftir að greiða úr.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Fornleifaskráning FÍ 2002.
-Örnefnalýsing.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.