Jón Tómasson segir í Faxa 1945 frá ferð sinni til Grindavíkur undir fyrirsögninni “Hvað er að gerast þar?”.
“Hvað bíður manns bak við þetta gráa og úfna apalhraun? hugsar sjálfsagt margur, sem rennur fyrsta sinni inn í hið háa og hrikalega Grindavíkurhraun fyrir sunnan Seltjörn. Og ef það væri ekki þessi mjói mjúki vegur, sem brotinn var gegnum torfærurnar fyrir um 30 árum, og sem telja má allgóðan, þá væri vegfarandi ekki miklu betur settur heldur en þótt hann stæði í Ódáðahrauni. Þess má geta, að á meðan umferð var hófleg um þennan veg, var hann talinn með allra beztu vegum landsins.
Þegar komið er suður á Selháls, er meirihluti hraunsins að baki, Svartsengi og Hagafell ávöl og mild að frádregnum Gálgaklettum til vinstri — þar sem útilegumenn voru hegndir áður fyrr — og Þorbjörn með björtum og djörfum línum til hægri.
Þó að Þorbjörn sé hvorki stór né hrikalegur, er hann elskaður og virtur af Grindvíkingum. Hann er fagur og heillandi. Hann býr yfir einhverju duldu og hann hefur laðað til sín frá því að hann var fyrst augum litinn. Utsýni af honum er ágætt, enda hefur hann hjálpað mörgu Grindvísku ungmenni til að víkka sjóndeildarhring sinn, og sýnt þeim fyrsta sinni Eyjafjallajökul, Vestamannaeyjar, Eldey og allt Reykjanes, Esjuna og Reykjavík, Snæfellsjökul og svo allt þarna á milli. Og saga Þorbjörns er án efa einhver sú merkilegasta, sem nokkurt fjall á. En því miður kann ég ekki mikið af henni. Jarðfræðingarnir eiga sjálfsagt eftir að segja okkur eitthvað af henni. Öllum eru þó kunnug tröllin, sem til voru í gamla daga. Eitthvert þeirra hefur orðið ógurlega reitt við Þorbjörn litla og ætlað að sökkva honum í sjó eða kljúfa bann í herðar niður, og hann ber þess menjar ennþá.
Þjófagjá er glöggt merki þess, en hún gengur fró toppi og langt inn í iður fjallsins.
Þegar maður er þar niðri, finnst manni maður vera svo nærri þessu óþekkta og furðulega, sem inni fyrir býr, að maður stendur á öndinni og væntir þess að heyra búktal jarðarinnar eða einhverjar annarlegar raddir, sem fræði menn um undur jarðarinnar. Og þó að maður standi þar á snjófönn, — en snjór er þar stundum langt fram eftir sumri, jafnvel allt árið, — þá finnst manni allt í einu sem hiti eða jafnvel sterkur straumur þjóti um mann, er maður hugsar til þess að sennilega hafi skorpa jarðarinnar opnast þarna endur fyrir löngu ag út hafi runnið glóandi grjót, sem eytt hefur gróðurlöndum Reykjanesskagans og orðið síðan að þessu erfiða hrauni. Útilegumenn og þjófar héldu til í Þjófagjá og gerðu bændum í nágrenninu búsifjar miklar. Þetta var, — en nú er Þorbjörn ekki lengur þjófabæli og í margar aldir hefur verið hljótt um tröllin, Ísöld og Gos, sem átt hafa sinn þátt í því, að Þornjörn er einmitt svona.
Sennilega á Þorbjörn vinsældir sínar að einhverju leyti því að þakka, að hann skýlir Grindvíkingum fyrir norðangjóstinum og dregur til sín hitageisla sólarinnar, og veldur því að Grindavíkin er hlýjasta og vinalegasta byggðarlag Suðurnesja.
En ferðamaðurinn, sem kominn var á Selháls sá framundan sér Atlantshafið í allri sinni dýrð og vogskorna ströndina í aðeins 5 til 6 km. fjarlægð.
Ströndin og hafið leika sér saman — og leikur sá er lengsti leikur, sem átt hefur sér stað. Hann er líka sá stórfenglegasti leikur, sem fram hefur farið á jörðinni.
Þarna í Grindavík hefur hann verið svo blíður, einlægur og hjartnæmur að undrum sætir. Því verður ekki með orðum lýst hve atlot þeirra eru innileg og þýð. Hafið bylgjast og blakar við blógrýtið og mölina, sem malar af ánægju og þangbrúskar breiða úr sér á klöppunum, en þönglarnir, sem eru útverðir strandarinnar beygja sig og hneygja eins og vera ber, þegar bylgja eða boði ganga í garð.
Þegar „vindur vargur” kemur í heimsókn slæst upp í vinskapinn og aldan angrar klöppina og klettaskútar kasta frá sér með illindum bárubroti. Þannig eykst þetta „orð af orði”, þar til fullur fjandskapur er orðinn milli láðs og lagar.
Fylkingar af himin háum haföldum streyma að landi og gera fyrirvaralaust heiftúðlegar landgöngur. Hávaðinn, súgurinn og hvæsið, — brimgnýrinn er óskaplegur — heillandi hljómkviða haisins. Margra tonna blágrýtisbjörg eru leiksoppur, mannvirkin tortímast — og menn láta lífið. En ströndin tekur kröftuglega á móti innrás holskeflanna og rekur þær af höndum sér, þó telja gamlir menn, að ströndin hafi farið hallloka og orðið að láta af hendi rakna nokkurt land, og ég man eftir grænum bölum og bændabýlum, sem honfið hafa vegna ágangs sjávarins.
Í aldaraðir hafa þó Grindvíkingar, eins og flestir aðrir landsmenn, átt afkomu sína undir brigðlyndu hafinu. Þeir hafa barizt með þrautseygju gegn örðugleikunum. Þeir hafa unnið marga sigra, en sigurlaun þeirra hafa oft ekki verið annað en meiri erfið]eikar. Í seinni tíð hafa verið gerðar margar tilraunir til að létta starf grindvíska sjó mannsins. Þeir hafa fengið vélar, stærri og betri báta, bættar bryggjur o.s.frv. Í sumar var t. d. bryggja og varnargarður við þrautalendinguna í Þorkötlustaðarnesi bættur að miklum mun.
20—30 menn undir stjórn Halldórs Þórðarsonar unnu að þessu verki í margar vikur og mun kostnaður verksins vera fast að 150 þús. kr. En langsamlega merkilegasta úrbótin tel ég að liggi í hafnargerðinni í Hópinu. Það eru allar líkur til, að sá áfangi verði svo glæsilegur, að þar komi betri höfn en til er á Reykjanesi og þó að víðar væri leitað. Áleitni Atlantshafsins hefur verið stöðugur háski fyrir bátana og einnig staðið í vegi fyrir því, að þeir væru stækkaðir svo sem bátar annarra verstöðva.
En í Hópinu ættu þeir að hafa örugga höfn, hvernig svo sem hafið hamast. Á þennan hátt er áhyggjum létt af skipverjum og þeir njóta friðar og öryggis, þegar báturinn er í höfn. Báturinn getur verið stærri og traustari, þar með er öryggi sjómanna og aðbúnaður bættur, og það eiga þeir sannarlega skilið. En við þetta vex líka aflavonin til hagsbóta fyrir alla. Það kæmi mér ekki á óvart þó innan fárra ára yrði Grindavík eftirsóknarverðasta verstöðin við Reykjnesskagann. Þegar farkostirnir eru orðnir sambærilegir við það, sem annarsstaðar tíðkast, þá eru kostir staðarins margir.
Auk fyr getinnar hafnar má telja: 1. Stutt á miðin, sem skapar tíma og olíusparnað. 2. Góð fiskimið, sem bátar úr næstu verðslöðvum verða oft að leita á, einkum er á vertíð líður. 3. Vídd fiskisviðsins, í tregum afla, er ýmist betra á miðum Vestmannaeyinga eða Sandgerðinga, en á báðar þessar slóðir geta góðir bátar úr Grindavík sótt. Menn vilja kannske malda í móinn með því að benda t. d. á brimið eða að Hópshöfnin geti aldrei orðið hafskipahöfn og því erfitt að losna við afurðirnar. Því er til að svara, að ég tel að allmiklu af þeirri hættu sé bægt frá með góðum og stórum dekkbátum, einnig vil ég benda á, að allstór skip munu geta komizt inn í Hópið. Svo er það ekki nema tímaspursmál þar til flughöfnin á Reykjanesi verður orðin stærsta útflutningshöfn landsins, og verði vegur lagður yfir hraunið frá Grindavík, skemstu leið á flugvöllinn, þá eru það ekki nema um 10 km. Það ætti því ekki að vaxa svo mjög í augum, ekki hvað sízt, ef farið verður að þurrvinda þorskinn, eins og líkur eru til og léttist hann þá um 9/10 hluta.”
Heimild:
-Faxi,5. árg. 1945, 8. tbl. bls. 1-3.