Færslur

Hópsnes

Gengið var um Hópsnes, framhjá Siggu, ofan við Bólu, framhjá Hópsnesvita (sem heitir í raun Þórkötlustaðaviti því landamerkin eru í fjörlægan stein u.þ.b. 60 metrum vestan hans), um Þórkötlustaðanesið, um Strýthólahraun, framhjá Leiftrunarhól, ofan við Þórkötlustaðabótina, yfir Kónga, neðan Buðlungu, inn á Klappartúnið, upp á Sloka og að landamerkjum Hrauns nyrst í Slokahrauni. Róleg ganga um þessa leið tekur nálægt klukkustund, en nú var ætlunin að staldra við af og til og gefa flestu því merkilegasta á leiðinni sérstakan gaum – af mörgu er að taka.

Hóp

Hópnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni “Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð”, lýsir Guðsteinn Einarsson örnefndum og staðháttum með strandlengju Grindavíkurumdæmis í skrifum sínum “Frá Valahnúk til Seljabótar”. Um þetta svæði segir hann m.a.:
“Um sundin á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum er til gömul þjóðsaga, sem hér fer á eftir:
Í fyrndinni voru aðalhöfuðbólin í Grindavík, hvort við sitt sund; Járngerðarstaðir við samnefnt sund og Þórkötlustaðir við sitt sund. Ekki er getið nafna bændanna á höfðubólum þessum, en konurnar hétu, Járngerður á Járngerðarstöðum og Þórkatla á Þórkötlustöðum.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Engir aukvisar munu bændunrir þó hafa verið, þó nafna þeirra sé ekki getið, því þeir höfðu mannaforráð, svo sem betri menn höfðu, og stjórnaði hvor sínum bát, af kappi miklu, þannig, að þeir fóru lengra og sátu lengur en fjöldinn.
Einhverju sinni, þegar flestir Grindvíkingar voru á sjó, bar það til, að sjó tók að brima, sem kallað var, þ.e. þegar aldann vex svo að hún fer að brotna yfir leiðina (sundin). Bátarnir höfðu fljótlega farið að leita lands og allir verið komnir í land þegar þeir heimabændurnir komu hvor að sínu sundi. Þá gerðist það, að bóndi Járngerðar fórst með allri áhöfn á Járngerðarstaðasundi, en bóndi Þórkötlu hafði komist klakklaust inn Þórkötlustaðasund.

Hópsnes

Sjóbúð á Hópsnesi.

Hitnað mun þeim frúnum hafa í hamsi við að bíða eftir afdrifum bænda sinna, því eftir að séð var, að maður Járngerðar hafði farist á Járngerðarstaðasundi, lagði hún það á, að á því sundi skyldu farast 20 bátar. Aftur á móti lagði Þórkatla þá, að á Þórkötlustaðasundi, réttförnu, skyldi enginn bátur farast.
Þetta þykir allt hafa orðið að áhrínsorðum, þannig að enginn bátur hefur farist á Þórkötlustaðasundi, en talið að 20 bátar hafi farist á Járnegrðarstaðasundi og enginn eftir að komið var í þá tölu.

Sigga

Sigga.

Fram af Sölvaklöppum (undan Hópsnesi) er skerstandur úti í sjónum; sá heitir Bóla. Sigga heitir stór og mikil varða, þarna uppi á kampinum; ekki veit ég önnur deili á henni, en hún var notuð sem mið af sjó. Þá koma Hópslátur; það eru klettarnir með malarbásum framan á Þórkötlustaðanesi. Austan við Hópslátur halda áfram svipaðir Klettaranar, sem heita Kotalátur. Mörkin milli þessara klettalátra eru landamörk milli Hóps og Þórkötlustaða. Fram af þessum látrum, beint fram af Nesinu, kemur nokkuð hundruð metra langur skerjatangi fram í sjó, er kallast Nestá; fer í kaf á flóðum, en upp úr á fjörum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar neðst og bryggjan efst.

Þarna á Nesinu varð hinn 18. janúar 1952 eitt hið hörmulegasta sjóslys, sem orðið hefir hér í Grindavík, þegar mb. Grindvíkingur fórst þar með allri áhöfn, fimm ungum og hraustum mönnum. Þá má segja, að þegar hin ótömdu náttúruöfl eru í sínum mestu hamförum, eins og var í þetta skipti, megi alltaf búast við slysum. En þarna fórst stærsti og besti báturinn, að talið var þá í Grindavík.

Gamalt máltæki segir, “að Guð fleyti jafnt grátitlingum sem gamalálftinni”. Og víst er um það, að náttúröflin virðast í öðru tilfellinu leggja sig fram um að bjarga öllu sem best, en í hinu að tortíma og eyðileggja.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir austan Kotalátur koma Austurbæjarlátur; þá Þórkötlustaðalátur. Sagnir eru um, að einhvers staðar á þessum látrum hafi skip strandað á árunum 1880-´90. Þetta hafði verið kútter og heitið Vega – verið með saltfram. Mannbjörg hafði orðið, en skipið brotnað. Sumarið 19?? í norðan kalda og sléttum sjó sigldi og þarna upp í nestána þrímastrað briggskip; var að koma til landsins með saltfarm. Það flaut upp í næsta flóði, barst undan kaldanum frá landi og losnaði þannig úr strandinu.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka.

Austan við Látrin er Leiftrunarhóll. Frá honum liggja svo kölluð Rif austur og út á Þórkötlustaðavíkina.

Strýthóll

Efri Strýthóll.

Í fjörunni niður undan hólnum lenti enskur togari hinn 23. mars 1932. Skipshöfninni var komið í björgunarbát og út á hættulausan sjó. Heyrði ég sagt að varðskipið Ægir hefði náð þessum togara út með því að koma taug í togarann. Þarna nálægt Leiftrunarhól hafa þá tvö skip strandað, sem náðst hafa út aftur, en það eru líka einu skipin, sem vitað er um að grinfdavíkurfjörurnar hafi sleppt aftur.

Hópsnesviti

Hópsnesviti/Þórkötlustaðanesviti.

Innar undir Leiftrunarhól, víkurmegin, strandaði í maímánuði 1917, ensk skonnorta með saltfarm og eitthvað af síladartunnum. Sú hét Scheldon Abby. Áhöfnin komst í björgunarbáta, en skipið liðaðist í sundur næstu daga.
Innan Leiftrunarhóls koma næst Drítarklappir, þá Stekkjafjara og varirnar á Þórkötlustaðanesi. Þar var þriðja bryggjan (auk bryggjunnar neðan Hvirfla í Staðarhverfi og neðan Járngerðarstaða), byggð 1930. Allar þessar bryggjur, sín í hverju hverfi, má segja að hafi komið að miklum notum með því að losa menn við það hroðalega erfiði að bera allan aflann á bakinu upp úr fjörunni. Fyrir þá bættu aðstöðu hefir og eitthvað meiri afli komið á land, svo að þannig, bæði beint og óbeint, hefir fé það, sem í þær fór, fengist endurgreitt, þótt nú séu þær allar ónotaðar og einskis virði.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan.

Innan við varnirnar er klettur, sem heitir Draugur, þá Draugsklappir, Herdísarvík – upp af henni í kampinum eru hólar kallaðir Kóngar -, þá Miðmundarflöt og Syðri- og Heimri-Bót. Þarna í Bótinni er sögn um, að eftir miðja 19. öld hafi frönsk skúta strandað þar. Áhörnin gekk sjálf upp á hlaið á Einlandi, en skipstjórinn, sem gekk fremstur, féll í hlandforina framan við bæinn og var næstum drukknaður þar. Félagar hans brugðust skjótt við og björguðum honum í því er bóndinn á Einlandi, Hannes, birtist í dyragættinni.

Þórkötlustaðanes

Fiskgarðar á Kóngum.

Austan við Bótina, í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlungavör. Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist, þegar vélarnar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.
Austan við Buðlunguvör koma Slokin; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól og áður er getið.

Slok

Slok – fiskigarðar.

Þarna á Slokanum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu, að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þr tóku höfuðskepnurnar öðru vís á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð þar vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Þórkötlustaðanes

Pétur Guðjónsson við Höfn í Þórkötlustaðanesi.

Næsta örnefni við Slokin er svo Markabás. Þar eru landamerki milli Þórkötlustaða og Hrauns.”
Þórkötlustaðaneshraunið kom ofan úr Vatnsheiði, en í henni eru þrír gígar. Falleg, stór og skjólgóð hrauntröð liggur eftir Nesinu. Í raun væri hún kjörin til útivistarnotkunar. Endur og gæsir verpa beggja vegna gjárinnar.

Pétur Guðjónsson, skipstjóri, sem uppalinn er í Höfn á Þórkötlustaðanesi, einu af þremur íbúðarhúsum, sem þar voru, hefur í annarri FERLIRslýsingu sagt frá mannlífi og minjum á Nesinu fyrir miðja 20. öldina. Við þá skoðun komu í ljós gömul mannvirki, bæði ofan við sjávarkambinn og ofar í Nesinu.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni í Þórkötlustaðanesi.

Í Strýthólahrauni eru t.d. gömul þurrkbyrgi, lík þeim sem sjá má við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar eru miklir þurrkgarðar líkt og í Herdísarvík, en þeir segja til um hina gömlu vinnusluaðferð fiskjarins er allt far þurrkað og hert. Fáir virðast vita af þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni og því hafa þau varðveist svo vel sem raun ber vitni.
Austan við Strýthólahraun má sjá tóftir og minjar í kringum Þórshamar, en útveggir hússins standa enn við Flæðitjörnina. Jóhann vitavörður bjó þar síðastur manna.

Þórkötlustaðanes

Innsiglingarvarða og Þórshöfn á Þórkötlustaðanesi.

Suðaustan við húsið er manngerður hóll. Hann virðist vera fjárborg eða tóft, miklu mun eldri en allar minjar umhverfis. Sunnan við húsið er heillegt fjárgerði og fjárhústóft. Suðvestan við það eru minjar hins eina skrautblómagarðs, er þá var til í umdæmi Grindavíkur. Eflaust hefur hann vakið mikið umtal og margar vangarveltur á þeim tíma er lífið snerist um þurrfisk og síðan saltfisk (undir steini).

Ofan bryggjunnar milli Kónga og Strýthóla eru mörg íshúsanna er komu við sögu seinni tíma útgerðar á Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Klöpp er austastur Þórkötlustaðabæjannna. Bæjartóftin kúrir austan undir fjárhúsgafli Buðlungu. Beint vestan hennar má sjá austustu sjávargötuna í hverfinu, en þær voru þrjár talsins. Þarna fæddist m.a. Árni Guðmundsson, síðar bóndi í Teigi. Faðir hans, Guðmundur í Klöpp var formaður og þótti veðurglöggskyggn með afbrigðum og aflasæll. Klappartúnið er nú í eigu afkomenda hans í þriðju kynslóð þótt aðrir stelist stundum til að nýta það á óstundum. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi mun hafa gist í Klöpp er hann var við sjósókn á yngri árum því hann ritaði m.a. Jóni Árnasyni dagsett bréf þaðan um söfnun og skráningu þjóðsagna, sem hann var iðinn við. (Hafa ber í huga hér gæti einnig verið um að ræða Klöpp í Selvogi, en Brynjúlfur var þó nokkrar vertíðir í Grindavík og dvaldist þar).

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Hraunkotið, sem er skammt norðar, var upphaflega þurrabúð frá Klöpp. Þannig var að bændur í hverfinu leyfðu vermönnum, sem hjá þeim réru og ílengdust, að byggja sér kofa eða kotbýli meðan ekki varð landskerðing. Þegar fram liðu stundir efldust kotin, kind kom og kýr, þá kona og loks krakki. Köttur og krafa um lánaðan landsskika fylgdu í kjölfarið. Allt var þetta látið meinlaust meðan miðaði.
Í Slokahrauni eru miklir þurrkgarðar og einstaka þurrkbyrgi frá löngum fyrri tíð. Hafa þau að mestu fengið að vera í friði, en eru nú verðmætar leifar hins liðna. Ofan við Markabás er Sögunarhóll. Þar söguðu men rekan og má sjá hlaðin hrauk við hólinn þar sem viðurinn var hafður.
Í Hraunkoti eru fallegar hleðslur heimtraðarinnar sem og fallegar og heillegar garðhleðslur. Frá Slokahrauni er fagurt útsýni yfir að Hraunsvík og Festarfjalli. Í fjörunni eru víða grágrýtishnyðlingar og annars sérstæðir gatasteinar. Hraunreipin neðan Klappar eru og einstaklega falleg.
Frábært veður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðanes

Gengið var um Þórkötlustaðanes undir leiðsögn Péturs Guðjónssonar, en hann er fæddur í einum af þremur bæjum, Höfn, sem voru í Nesinu. Hinir tveir voru Arnarhvol og Þórshamar. Þórshamar stendur að hluta vestan við Flæðitjörnina. Útveggir eru heilir.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Gengið var frá Höfn, sem var sunnan við veginn. Húsið var flutt vestur í hverfi um miðjan fimmta áratug 20. aldar.
Blómatími útgerðar á Þórkötlustaðanesi var á öðrum, þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Margir árabátar og síðar vélbátar voru gerðir þaðan út. Sjá má minjar íshúsanna og fiskhúsanna, lifrarbræðslu og salthúss, ráa og reiða.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Bryggjan var byggð um 1930. Gamla vörin er skammt austan hennar. Ofan við vörina má enn sjá járnkengi, stýrislykkju og spil þar ofar. Þegar bátarnir voru dregnir upp var tógið þrætt í kengina, eftir því hvar bátarnir áttu að raðast ofan við kampinn. Áður voru bátarnir drengir á land á kampinn skammt austar, sunnan við lifrabræðsluna, sem síðar varð.
Vestan við Höfn eru allmörg íshús. Margar tóttanna eru mjög heillegar. Á veturna sáust vermenn oft þjóta út eftir að byrjaði að snjóa, rúlluðu upp snóboltum og renndu þeim niður í íshúsin. Þar voru milliþiljuð ker. Í lögin var settur saltblandaður snjór, sem gaf hið besta frost. Í kerjunum var beitan fryst.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

Vestan við Flæðitjörnina er húsið Þórshamar. Í kringum húsið er margt minja, s.s. gerði og fjárhús. Sunnan þess, skammt ofan við kampinn, er gömul fjárborg, eldri en aðrar minjar. Borgin gæti þess vegna verið frá tímum Hafur-Björns. Í kringum hana er gerði, Hraunsgerði, og lítil tótt sunnan við hana.

Þórhamar

Þórshamar í Þórkötlustaðanesi.

Vestan við Þórshamar er skrúðgarður, framfararspor þess tíma. Í húsinu bjó vitavörðurinn síðastur manna. Þótti hann furðulegur í háttum – stóð jafnvel nakinn niður á kampi þegar sunnan- og suðvestanáttin var hvað verst og lét hana leika um útlimi. Arinn, sem enn má sjá í húsinu, gerði hann er bæta átti um betur. Milliveggir voru rifnir niður til að auka rýmið, en við það fékk vitavörðurinn steypustykki ofan á sig. Lá hann um stund, en fannst og gert var að sárum hans.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.

Enn vestar er Strýtuhraun eða Strýtuhólahraun, nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum.
Pétur fylgdi hópnum áfram vestur um Nesið. Vestan við vitan er dalur og í fjörunni undan honum er Markasteinn. Hann skiptir löndum Hóps og Þórkötlustaða. Á steininn er klappað L.M. Benti hann og á sundurlamda skipsskrokka og lýsti ströndum.

Þórkötlustaðanes

Sögu- og minjaskilti í Þórkötlustaðanesi.

Á leiðinni var ekið fram hjá Siggu, vörðu á hól, sem notuð var sem loka vendimið áður en vent var inn í Hópið. Grjótið úr vörðunni var tekið að mestu þegar verið var að tína það undir bryggjurnar. Nauðsynlegt er að endurgera vörðuna á meðan enn er vitað hvar hún var. Norðar eru gamlar sjóbúðir, sem nefndar voru Nesið. Þær verða skoðaðar í annarri ferð sem og þurrkgarðar og þurrkbyrgi, sem sjá má ofar á Hópsnesinu.
Sjá meira um Þórkötlustaðanes undir Lýsingar.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðir

Ætlunin er að ganga um Þórkötlustaðanes og Hópsnes (sem er í rauninni sami nestanginn). Hraunið kom úr Sundhnúki fyrir um 2500 árum og féll beint í sjó fram og myndar þar þennan um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, “en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði”.
Thorkotlustaðanes - loftmynd“Hverjum þeim er um Reykjanesskaga ferðast, hlýtur að verða ljóst, að geysileg eldvirkni hefur átt sér þar stað frá því að ísöld lauk, sem talið er, að hafi verið fyrir 10.000-15.000 árum. Erfiðara er hins vegar að segja til um aldur einstakra hrauna, því óvíða er hægt að ná í sönnunargögn hvað það snertir, og lítið er þar um öskulög, sem vitað er um aldur á. Án efa hafa nokkur gos átt sér stað á þessu svæði, eftir að land byggðist og eru skráðar heimildir til um það, flestar séu þó óljósar.

Sundhnúkahraun við Grindavík
ThorkotlustaðanesvitinnÁ Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um. Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. [Innsk: Klifhólar eru axlir er ganga út frá Þorbjarnarfelli sunnanverðu og dregur hraunið sunnan undir fellinu nafn sitt af þeim]. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð.
A Thorkotlustaðanesi
Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

GígaröðinA Thorkotlustaðanesi-2

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það.

A Thorkotlustaðanesi-3

Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegn um nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar. Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands.

A Thorkotlustaðanesi-4

Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

A Thorkotlustaðanesi-5

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum(P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. 

A Thorkotlustaðanesi-6

Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðar-dyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.

Sundhnúkagígaröð

Sundhnúkagígaröðin.

Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs.
Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

A Thorkotlustaðanesi-7

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Eldri gígaröð
A Thorkotlustaðanesi-8Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir. Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröðinni, sem áður er getið.

Hvenær rann hraunið?

A Thorkotlustaðanesi-9

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.”
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn 45. árg. (1975-1976), 1. tbl. bls. 27.
-Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn 43. árg. (1973-1974), 3.-4. tbl. bls. 145-146.

A Thorkotlustaðanesi-10

Hópsnes

Gengið var austur Hópsnesið frá Nesi og yfir á Þórkötlustaðanes, að þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni vestan við Þórshamar. Í þessari ferð var m.a. ætlunin að rifja upp sjóskaðana, sem orðið hafa á Nesinu sem og fiskverkun fyrri alda, en í Strýthólahrauni má enn sjá minjar hennar.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

En þar sem lágsjávað var og tært vatnið streymdi undan hrauninu í Hópið þar sem fyrrum var vatnslind ábúenda á Hópi og þvotturinn og ullin voru þvegin, var staldrað við og fyrirbærið skoðað nánar. Það heitir Vatnstanginn. Straumurinn var stríður og líklegt má telja að hann hafi áður verið ein helsta ástæða búsetu á Hópi. Hugmyndir manna hafa verið þær að þar hafi einn sona landnámsmannsins Molda-Gnúps Hrólfssonar sest að, eða jafnvel hann sjálfur, við komu sína í Víkina eftir að hafa áður dvalið austar með landinu.
Ofan við Hópið eru gamlar búsetuminjar. Sjá má jarðlægar tóftir og garða í túninu. Þar eru og sundvörður eða innsiglingavörður, vel við haldið. Sú neðri heitir Svíravarða og hin Stamphólsvarða, sem lengra var uppi í landi. Stamphólsgjá er skammt vestan við hana, en sú gjá gekk niður í gegnum Járngerðarstaðahverfið, en hefur nú að mestu verið fyllt upp, nema efsti hluti hennar. Nú er hins vegar búið að skipuleggja nýtt hverfi á gjáarsvæðinu og ekki er ólíklegt, ef byggt verður yfir gjána, að þar kunni eitthvað að gliðna síðar.

Strýthólhraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Síra Geir Backman lýsir þessum tveimur vörðum sem og Heiðarvörðunni á Hópsheiði er var mið í Járngerðarstaðasundið ásamt Sundvörðunni er komið var austan að. Sundvarðan var á sjávarkambinum austan við sundið. Allar þessar vörður eru til enn þann dag í dag, en Sundvarðan, sú sem hefur verið næst sjónum, hefur látið mest á sjá.
Hópsnes er nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Vitinn, Hópsnesviti, er fremst á Nesinu, en er á Þórkötlustaðanesi. Landamerkin eru u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann, í landamerkjastein, sem þar er. Klappað er í hann stafirnir LM og eiga þeir að sýna landamerkin. Hópsnesviti var reistur 1928. Áður en haldið var inn eftir Hópsnesinu til að huga að og rifja upp skipsskaðana var komið við í sjóbúðinni skammt austan við Nes. Hún er á grónum hraunhól við Síkin. Utan við Síkin voru áður sjóbúðir frá Hópi, en þeir fóru forgörðum þegar varnargarðarnir voru reistir. Enn sést þó móta fyrir Hópsvörinni utan við þá, einkum á fjöru.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. Þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.

Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld.

Hópsnes

Skipsbrak í Hópsnesi.

Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.

Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbátuirnn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á starndsstað.

Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Blásíðubás

Blásíðubás.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.

Hópið

Hópið – Vatnstangi nær.

Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan.

Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi. Þá er ferð um Nesið lýst í FERLIR-473.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.
Menningararfurinn er afar áhugaverður. Uppruninn og ræturnar eru við fæturna, hvert sem farið er – ekki síst í og við Grindavík.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór 1994.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Minjar útgerðar fyrrum, sjóskaða og hugsanlega fornmannabúsetu.