ÚRDRÁTTUR:
“Segja má að bóndinn fyrir sextíu árum hafi staðið landnámsmanninum nær en syni sínum – slíkar hafa breytingarnar orðið á íslensku þjóðlífi.”
Smalakjör fyrir 60 árum
1. Sextíu ár eru ekki langur tími í þjóðarævi. Samt hafa lífskjör þjóðarinnar breyst meira á þessum sextíu árum en á næstu þúsund árum áður.
2. Ég var á tíunda ári þegar bóndi, sem byrjað hafði búskap um vorið og vantaði smala, falaðist eftir mér.
3. Ég var mættur daginn eftir. Mjaltastúlka á fjórtánda ári fór með mér í fyrstu yfirsetuna til að kynna mér smalaslóðirnar.
4. Um miðaftansleyti mátti reka ærnar heim undir bæ, fá sér hressingu, en gæta þeirra síðan fram að mjöltum.
5. Seint á tíunda tímanum var lokið kvöldmjöltum, þá tók smalinn þær og vaktaði, ekki langt frá bæ, til klukkan eitt að nóttu.
6. Klukkan 6 að morgni hleypti einhver fullorðinn ánum út og gætti þeirra þar til kl. 8, en kvíaði þær þá til mjalta. Húsfreyjan og vinnukonan mjólkuðu báðar og voru búnar að því seint á níunda tímanum. Þá átti smalinn að vera kominn á kvíarnar með bita og mjólkurpela til dagsins.
7. Einveran, sem mörgum smala þótti einna verst, en öðrum ágætur tími til afþreyinga.
8. Smalinn hafði sín ákveðnu fyrirmæli. Hann varð að leyfa ánum að dreifa sér hóflega, svo þær beittu sem best, en gefa þeim ekki lausari tauminn en svo, að sjá að mestu yfir þær, og telja oft, vera helst alltaf að telja þær aftur og aftur, svo engin tapaðist, því það átti að vera fyrsta skylda hans að skila þeim alltaf með tölu á hverjum tíma. En vandalaust var það ekki.
9. Ég hafði ekki klukku að deginum, en mátti þess í stað koma með ærnar heim undir bæ upp úr miðaftni. Svefntóm smalans var ekki nema frá kl. 1 að nóttu til kl. 8 að morgni og þætti það líklega í styttsta lagi nú.
10. Á flestum bæjum voru sérstakar kvíar til að mjólka ærnar í. Það var tóft, sem hlaðin var úr torfi og grjóti eða torfi einu eftir ástæðum. Breidd hennar var við það miðuð, að þegar ærnar röðuðu sér á ská með báðum veggjum, væri dálítill gangur milli raðanna, eftir þeim gangi stikkluðu mjaltakonurnar.
11. Mjaltafötur voru á þeirri tíð heimasmíðaðar úr tré og voru heldur liðlegar og léttar.
12. Þegar mjöltum var lokið, átti smalinn að vera kominn, albúinn, því óhæfa þótti að láta ærnar standa í kvíum lengur en brýnasta þörf krefði.
13. Sums saðar voru notaðar svokallaðar “færikvíar”, það voru trégrindur, sem bundnar voru saman á hornunum og hægt að færa til, þegar blotnaði í þeim. Þær voru gjarna settar á greiðfæran óræktarbala, sem varð þá fljótlega að grónu túni, því ærnar báru vel á þá staði, ar sem þær stóðu í kvíunum; þrátt fyrir sína góðu kosti náðu færikvíar ekki þeirri útbreiðslu, sem þær áttu skilið.
Horfin stétt
1. Vegna sérstakra tilmæla krotaði ég niður 1965 litla greinargerð um fráfærur, eins og ég þekkti þær af eigin raun.
2. Sauðféð og umhirða þess tók því, beint eða óbeint, mestan hluta af starfi sveitafólksins, með ærinni önn allan ársins hring.
3. Þegar sauðburður hófst, voru skildar að fyrri viku ær og hinar, sem seinna áttu að bera, til þess að hafa færri ær í vöktun, og var nógu örðugt samt.
4. Næst eftir burðinn þurfti að hafa góða gát á ánum. Var gengið stöðugt til þeirra, og þurfti margs að gæta.
5. Þegar sauðburði var lokið, hófust vikulega sameiginlegar smalamennskur, venjulega hvern mánudag.
6. Þegar leið á vorið var farið að “stía”, þ.e. að skilja að ær og lamb næturlangt. Oftast var það gert á “stekk”, sem var eins konar rétt með viðbyggðri “lambakró”, en hún þurfti að hafa örugglega griphelda veggi.
7. Vaknað var klukkan 5 árdegis til að fara á stekkinn.
8. Varla var fært frá yngri lömbum en fimm vikna, helst þurftu þau að vera orðin 6-7 vikna gömul.
9. Þegar hinn endanlegi fráfærudagur rann loks upp, voru ærnar reknar inn fyrir miðjan dag, lömbin tínd þegar inn eins og venjulega, en ánum hleypt út og þær reknar í haga með valdi, því viljugar gengu ærnar ekki burt frá lömbunum sínum.
10. Þegar ærnar væru komnar svo langt frá, að tryggt var að ekki heyrðu hvort til annars, ær og lamb, var þeim hleypt út. Þau kveinuðu sárt, þegar engin móðir tók á móti þeim, en héldu sig við stekkinn og gripu í jörð á milli grátkviðanna.
11. Þar voru þau svo næstu tvo til þrjá daga, am.k. hýst í stekknum um nætur.
12. Ánum var haldið til beitar um daginn.
13. Frá þriðja degi voru lömbin rekin í örugga fjarlægð frá stekknum og þeirra gætt þar.
14. Þegar ærnar voru reknar á stekkinn gripu þær í tómt, og verður varla með orðum lýst þeim kveinstöfum, sem kváðu við frá stekknum næsta hálftímann, á meðan ærnar æddu eða ráfuðu um stekkinn í vonlausri leit að aleigu sinni. Það voru ömurlegustu stundir smalans.
15. Þegar kom fram á sautjándu viku sumars, var hætt að hýsa ærnar en þeim í þess stað vikið í haga og svo smalað til mjalta að morgni af einhverjum fullorðnum.
16. Síðustu daga fyrir göngurnar voru ærnar ekki mjólkaðar nema annað málið og geltust þá fljótt, enda veitti þeim ekki af að braggast svolítið fyrir veturinn.
Skógerð
1. Fram undir okkar daga, sem nú gjörumst rosknir, urðu flestir landsmenn að bjargast við þá skól, sem hægt var að gjöra heima, og voru þá varla tiltæk önnur efni en skinn ýmissa dýra láðs og lagar. Var mikið verk að gjöra skó á alla á fjölmennari heimilum, því fremur sem ending skinnsins var heldur lítil, þó menn leituðu snemma ýmissa ráða til að bæta hana.
2. Þeir, sem voru efnaðir og fornbýlir, áttu oft kippur hertra bjóra og fleiri húðir í reyk.
3. Sauðskinn og kálfskinn voru notuð í skó handa kvenfólki og börnum og þeim, sem lítið gengu.
4. Þeir, sem þurftu mikið að ganga, urðu að hafa leðurskó, og veitti ekki af, því allt fram til 1920 og lengur þó var meira um göngulag en nútímafólk á gott með að skilja. Til lands var látlaust göngulag árið um kring, en minnstum sláttinn, mikið var ferðast á fæti, og þótti varla meðalmannsverk þá að ganga 50 km á dag, en góðir göngumenn lögðu að baki miklu lengri leiðir.
5. Skónálar voru smíðaðar af innlendum hagleiksmönnum.
6. Selskinn þótti gott til skæða, og voru oft gjörðir úr því skór.
7. Gerðir voru skór úr hvelju og hákarlaskráp.
8. Þá voru skinnsokkar algengir í hausthrakningum og algengum ferðalögum.
9. Íleppar fylgdu íslensku skónum lengi. Gerð þeirra var með ýmsum hætti, en tilgangurinn var alltaf sá sami, að hlífa ilinni við kulda og ekki síður sárindum. Þeir voru prjónaðir úr grófu, lítt vönduðu bandi, til þess að þeir yrðu sem þykkastir.
Að koma ull í fat…
1. Við spurningunni, hvernig fólk gat lifað, verður mér tvennt hugstæðast til svara, en þar hygg ég drýgst hafa hjálpað torfhúsin og íslenska ullin.
2. Um torfhúsin hefur oft á síðari árum verið farið niðrandi orðum, af lítilli þekkingu en miklu vanþakklæti. Þau voru notagóð lausn, vaxin upp úr nauðsyn fyrir húsaskjól og eina lausnin, sem fólk hafi efni og möguleika á í þá tíð.
3. Ullin okkar hefur heldur ekki verið metin sem skyldi á undanförnum velgengdarárum þjóðarinnar, þó fólk sé nú heldur aðeins byrjað að átta sig á gildi hennar og nauðsyn í okkar ágæta en misvirðrasama landi.
4. Ekkert af ullinni mátti fara forgörðum, þjóðin var ekki það efnuð.
5. Hún var þvegin í keytu sem svaraði 1/3 á móti vatni.
6. Frá fornöld, langt fram eftir öldum, var ekki önnur verkfæri að ræða til spuna en teinsnælda.
7. Teinsnældan tók ekki teljandi breytingum frá söguöld og fram á mína daga, nema stærðin lagaðist eftir viðfangsefnum.
8. Rokkar voru bæði innfluttir og, einkum á seinni árum, innlend hagleikssmíði, sem þótti heldur betri en hinum útlendu.
9. Fólk fór snemma á fætur, eins þó dagar væru stuttir, ljósfæri lítil og frumstæð og spart þyrfti að halda á öllu ljósmeti. Lengi var aðeins innlent efni til ljósa; lýsi, hrossafeiti og margs konar flot.
10. Um svipað leyti og eldakonan risu karlmenn almennt til gegninga; konur settust þá líka við tóvinnu, þó kalt væri í baðstofunni fyrst, og jafnvel börnin vakin til starfa, svo fljótt þau gátu gert gagn.
11. Karlmenn voru lengst úti við á vetrum, alla daga, því beitt var fénu, hvenær sem fært var.
12. Konur og aðrir, sem inni voru, unnu úr prjónabandi.
13. Um og upp úr 1920 fara að koma prjónar úr öðru efni en stáli, en hollastir þeirra fyrir hendurnar voru tréprjónar.
14. Nálægt aldamótunum komu fyrst til landsins hringprjónavélar.
15. Flatprjónavél sá ég fyrst 1910.
….og mjólk í mat
1. Fyrsta og mest metna verðmætið var smjörið, sem oftast var fremur hörgull á.
2. Í eldri tíð var það fyrsta, sem gjöra þurfti fyrir mjólkina, að “setja” hana, þ.e. að hella henni í grunn ílát með miklum grunnfleti (trog eða byttur), en þær nefndust bakkar, og voru það grunn stafaílát.
3. Á hverri byttu var borað fingurgómastórt gat niðri við botninn og tappi hafður í því en þegar ná skyldi rjómanum, var tappinn tekinn úr og undanrennan látin renna í ílát, sat þá rjóminn eftir í ílátinu og var strokinn með fingrunum ofan í strokkinn.
4. Þá var komið að því að skaka strokkinn, því þótt rjóminn væri orðinn þykkur, var enn í honum væta, sem ná þurfti úr, svo smjörið yrði til, en það gjörðist í strokknum.
5. Bullustrokkna þekkja margir enn í sjón.
6. Mikið þurfti að geyma til vetrar, einkum skyr og osta.
7. Mjólkurílátin voru mest úr tré og því vandgerðara við þau en síðari tíma ílát.
Sauðatað til eldneytis
1. Allt frá upphafi Íslandsbyggðar hefur eldsneytisþörfin verið ærið vandamál, það því fremur sem hér var einatt kalt í veðri.
2. Tað húsdýra hefur lengi verið notað í eldinn, og hér hnúði nauðsyn því fastar á sem skógar eyddust og annar jarðargróður.
3. Til forna mun hafa þurft að nota “pál” til að stinga út taðið.
4. Karlmenn stungu og óku taðinu út, enda var hvort tveggja erfitt.
5. Næst var að kljúfa taðið, og gjörðu það kvenfólk og unglingar, oft voru hafðir til þess sérstakir spaðar, úr beini eða hörðu tré.
6. Kropið var á kné, annað eða bæði, hausinn lagður á hliðina og klofið eftir lögum, í sem næst eins þumlunga þykkar skánar eða þynnri.
7. Hlaðið var í taðhlaða.
8. Eldiviðarleysi þótti mikið böl í búskap og var nefnt í sama flokki og heyleysi og matarleysi. Þessi uggvænlega þrenning var tíðasta orsök þess, að fólk “flosnaði” upp.
9. Þeir þóttu heppnir, sem áttu rekafjörður og gátu hirt morvið til búdrýginda. Rekajarðir voru alltaf eftirsóttar, sem og allt annað sjávarfang.
Mótekja
1. Mótekja er einn þeirra fornu atvinnuhátta, sem nú má heita, að séu að mestu úr sögunni.
2. Var það eitt nauðsylegasta vorstarf allra að “taka upp svörð”, þurrka hann vandlega og hirða og ganga frá, svo nægði til vetrarins.
3. Hver hnaus var ferkantaður, tæp rekublaðslengd á hverja hlið en jafnlangur blaðinu.
4. Þegar mórinn hafði sigið í kestinum sem hæfilegt þótti, var hann fluttur á þurrkvöll.
5. Þegar komið var á þurrkvöllinn, var næst að kljúfa hann. Það var oftast gert með reku. Hnausinn varlagður á hliðina og skýfður í nokkrar skánar. Síðan voru skánarnar breidar flatar á jörðu, svo þær gætu skurnað, en eftir það oft snúið á hina hlið til að þorna betur. Ef óheppilega viðraði í móinn, þurfti stundum að hlaða honum í hrauka, en að síðustu var hann alltaf tekinn í hlaða, sem svo voru tyrfðir.
6. Í sveitinni var sauðatað aðaleldsneytið.
Hrístekja
1. Sem kunnugt er og oft hefur verið minnst á, hefur gróður mjög eyðst hér á landi frá landnámstíð. Hefir það í seinni tíð allt verið kennt mönnum og búsetu þeirra, en þetta er alls ekki rétt, eins og allt fullgreint fólks ætti að geta sagt sér sjálft.
2. Oft fór náttúran hamförum og eyddi í stórum stíl gróðri og gróðurlendi.
3. Eldgos, jökulhlaup, sandbylji og þvílíkt þarf síður að benda alþýðunni á en menntamönnum.
4. Nú rífa menn ekki lengur hrís, lyng og jafnvel mosann í eldinn af þeirri einföldu ástæðu, að “vísindin” hafa kennt þeim að kynda með mikli minni áreynslu útlendu eldsneyti, sem er enn botnlausari rányrkja en hin fyrri.
5. Þá var það, að ég fór á útmánuðum, oft dag eftir dag og fleiri ár, í hlíðina algróna hrísi og sótti hrísbyrðar stórar til drýginda og fóðurbóta handa kúnum þegar fóðurskortur var fyrirsjáanlegur.
6. Víða var allt fram á mína daga “skógviður”, en svo var allt birkikjarr nefnt, notaður mjög mikið í þéttrefti og tróð á hús, mjög til eldsneytis, jafnvel gripið til að gefa kúm til fóðurbóta og fóðurauka í heyskorti.
7. Íslenskt birki, vel þurrkað, hefur lengi þótt úrvalsviður til útskurðar og ýmissa smásmíða, því það er seinvaxið, fíngjört og ókleyfið.
Trjáreki
1. Trjáreki er snemma nefndur í fornum sögnum og heimildum, og mun vera eitt af þeim hlunnindum, sem landnámsmenn litu hvað hýrustum augum, þegar þeir komu hingað, ásamt veiðiföngum og óteljandi nytjum þessa fagra lands, sem átti að heita ósnortið. rekinn hafði þann stóra kost fram yfir aðrar landsnytjar, að varla var hægt að rányrkja hann.
2. Reki var notaður og unninn til smíðaviðar. Einnig í girðingastaura.
3. Þá var ekki smælkið vanmetið heldur, en hirt kostgæfilega, hvert kefli og sprek, sem fór mest í eldinn og þótti mikil hlunnindi.
Vatnsburður
1. Mikill kostur þótti á hverju býli, að þar væri þægilegt vatnsból eða a.m.k. stuttur vatnsvegur, en hvoru var ekki alls staðar til að heilsa.
2. Brunnhús voru stundum við bæjarlæki.
3. Hef ég grafið a.m.k. átján brunna en endurgrafið eina tíu.
4. Kvikasilfur var gott til brunngerðar. Það át sig niður á við.
Torfhús
1. Eitt af því, sem flestir menn þurftu að bera nokkurt skyn á í eldri tíð og geta bjargað sér við, var að byggja úr torfi og dytta að torfhúsum. Til þess þurfti að vera hlutgengur að skera torf.
2. Regla var að hafa grjót, a.m.k. að innan í öllum hesthús- og fyrir það sem skepnunar náðu að nudda sér við. Einnig voru allir garðar og jötuþrep hlaðin úr grjóti.
3. Réttarveggir stóu ekki heldur lengi nema hlaðnir úr grjóti, sérstaklega innan.
4. Þá má minna á vörslugarða, sem hlaðnir hafa verið fram á þessa öld úr torfi en löngum ekki síður úr grjóti, hinir síðustu einhlaðnir, eins og sjá má m.a. í Aðaldalshrauni og á Suðurnesjum.
5. Víða sjást enn eldforn garðalög, mikil um sig og greinileg, sem ætla má frá fornöld, en enginn getur sagt sér til nú, til hvers mörg þeirra voru.
Fjárhúsgerð
1. Snemma á öldum munu menn hafa þurft að fara að hugsa fyrir einhverju skýli fyrir búpening sinn, en er lítið um það vitað, hvernig það var helst gjört.
2. Notaðir hafa verið hellar eftir því, sem þeir hrukku til, og eru dæmi um, að þeir hafi verið notaðir fram, um síðustu aldamót.
3. Ak þess voru svo beitarhús, eitt eða fleiri, lengra frá bæ, þar sem landrými var mikið.
4. Hesthús voru oftast með eina jötu eða “stall” við annan vegg, og látnir voru þeir “standa á taði”, eins og féð.
5. Hæð veggja á gripahúsum var í upphafi miðuð við, að þeir væru gripheldir, en eftir því sem þeir sigu og greru, hættu þeir oft að vera það.
6. Ein er sú gerð fjárhúsa, sem varla verður gengið fram hjá í svona yfirliti, en það eru “borgir”, eldfornt nafn.
7. Fjárborgin er kringlótt, hlaðin úr grjóti einu, meira en mannhæðahá, með einum dyrum, lítið meira en kindgengnum á hæð, lögð flötum steinum í botninn, og fennti ekki inn í hana, svo teljandi væri, því snjónum hvirflaði í kringum hana.
8. Oft eru beitarhús langt frá bæ og beitarhúsasmalinn því hálfgerður útilegumaður vegna hátta sinna, en þau voru þó óðum að hverfa um síðustu aldamót.
Mataröflun í eldri tíð
1. Þykir svöngum sætt, sem söddum þykir óætt.
2. Viðarmest af þessu er sennilega grastekjan.
3. Sölvatekja var einnig umfangsmikil lengi vel, þar sem vel hagaði til á víðlendum flúðum; meira mun það þó hafa verið sunnanlands, því þar er miklu meiri munur flóðs og fjöru. Sölin eru skoluð vel í vatni, en síðan þurrkuð vel, líkt og hey, en troðið síðan, vel þurrum, fast ofan í tréílát. Brýst þá út úr þeim eins konar sykurefni, sem sest utan á þau eins og hrím, og má telja, að þau séu orðin fremur ljúffeng.
4. Þá var fjöldi jurta notaður til tevatnsgerðar, þ.ám. blóðberg, vallhumall, rjúpnalauf, sortulyng, aðalbláberjalyng, einir o.m.fl.
5. Svokallaður “ruslakeppur” var gjörður ur ýmsu smálegu innan úr kindum.
6. Kútmagar og sundagar úr þorski þóttu bæði sælgæti og til mikilla búdrýginda, lifraðir kútmagar voru etnir nýir, en sundmagar soðnir og súrsaðir.
7. Sporðar og bægsli hákarla voru sviðin, soðin og súrsuð.
8. Alþýðan fann, að skarfakál var gott við skyrbjúgi, þótt hugsun um vítamín hafi þá ekki verið komin inn meðal fólks.
9. Menn höfðu rótgróna ótrú á að eta hákarl nýjan, en þó voru hákarlahausar soðnir nýir og etnir með þrárri tólg bræddri út á, hákarlastappa.
10. Algengt var, að hörðum þorskhausum væri drepið ofan í sýru og þeir síðan lánir ryðja sig, en á eftir rifið úr þeim það, sem ætilegt var, en beinin barin og gefin kúnum, sem höfðu fulla þörf fyrir kalkið.
Brauðgerð í eldri tíð
1. Framan frá upphafi byggðar þessa lands og líklega miklu lengra voru hlóðirnar einu eldunarfærin fyrir alla matseld.
2. Brauðtrog var til á hverju heimili, en það var grunnt, fremur flátt, með nokkuð stórum botni, nærri jafnt breidd og lengd. Í því lá sem oftast eitt “kökudeig”, frá síðustu brauðgerð, súrdegið, sem sá um gerjunina.
3. Pottbraut var áreiðanlega mest notað og ljúfengast alls brauðs, ef vel tókst til með það.
Kornmölun
1. Langt er síðan mennirnir lærðu að hagnýta sér korn til manneldis.
2. Fundist hafa hér í mjög fornum rústum kvarnasteinar úr íslensku grjóti, og gæti það bent til þess, að landnámsmenn hafi haft út hingað þekkingu á mölun korns og jafnvel kvarnir.
3. Víða um land bjuggu menntil kvarnasteina, einkum úr eitilhörðuhraungrjóti.
4. Kvarnasteinar entust lengi, en slitnuðu með tímanum eins og flest annað. Þegar þeir gerðust sléttir á slitflötinn, þurfti að klappa þá upp, sem kallað var, en það var að höggva rásir með nokkru millibili eins og geisla út frá miðju og út úr brúnum.
Sléttun túna
1. Lengst þeirrar tíðar, sem liðin er, síðan landið byggðist, hafa menn strítt við þúfurnar, sér til ærinna óþæginda. Þær torvelduðu alla umferð og urðu orsök margar illrar byltu, en mest og verst töfðu þær fyrir heyskapnum, sem segja má, að gengi fyrir handafli einu, allt til síðustu aldamóta. Oft var á öllum þeim tíma búið að bannsyngja þúfurnar, en hvorki fækkaðu þær né lækkuðu neitt við það.
Lítið ljós
1. “Betra er lítið ljós en mikið myrkur”. Þannig hljóðar eitt hinna fornu spakmæla þjóðarinnar.
2. Langeldar, niðurgrafnir í gólf, voru fyrst og fremst til hlýinda, en einnig var birta þeirra hagnýtt til starfa.
3. Kolur voru úr steini.
4. Á seinni öldum, þegar ofurlítið fer að rýmkast hagur þjóðarinnar, fer að tíðkast að smíða ljósfæri úr látúni eða steypa þau úr kopar, og á síðustu öldum voru kolur orðnar tvöfaldar, kölluðust þær þá lampar og þóttu mestu þing og fyrirmyndarljósfæri, einkum ef hægt var að veita sér lýsi á þau.
5. Þegar byrjað var að flytja inn steinolíu til lýsingar, gjörðist hér bylting, en lítt mun alþýða hafa af því haft að segja fyrr en um 1870.
6. Fyrstu eldspýturnar fluttust hingað seint á átjándu öld, þá í litlum, renndum trébaukum.
7. Steinolíuluktir munu hafa farið að flytjast um aldamót, var þeim tekið fegins hendi, þó ekki væru þær notaðar nema í nauðsyn vegna eyðslu.
Járnsmíðar
1. Við, sem munum aftur undir síðustu aldarmót, höfum lifað meiri byltingu í þjóðlífinu en nokkur önnur kynslóð hérlend, og þýðing málma, einkum þó stáls, hefir farið vaxandi með breyttum starfsháttum og vaxandi notum verkfæra og véla til sjávar og lands, en járnsmíði, þ.e. járnslátta við kolahitun, má heita niður lögð.
2. Gömlu íslensku ljáina þurfti alltaf að dengja heita og herða þá á eftir. Þess vegna þurftu flestir, sem teldust sjálfbjarga, að hafa smiðju á sínum heimilum.
-Horfnir starfshættir – 1990 – Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi.