Í Mosfellsblaðiðnu árið 2001 er m.a. fjallað um “Fornleifaskráningu í Mosfellsbæ“, s.s. Hraðaleiði, Hafravatnsrétt o.fl. Auk þess má þar lesa um Æsuleiði.
“Á síðasta ári gerðu Mosfellsbær og Þjóðminjasafn Íslands með sér samning um skráningu fornleifa í landi Mosfellsbæjar. Skráningin er unnin í tengslum við vinnu við aðalskipulag bæjarins. Samkvæmt Þjóðminjalögum er skylt að skrá fornleifar á skipulagsskyldum Jarðatali J. Johnsens frá 1847. Samkvæmt Jarðatalinu voru 25 jarðir innan þess svæðis sem tilheyrir Mosfellsbæ í dag.
Jörðum hefur verið skipt upp og aðrar sameinaðar á þeim tíma sem liðinn er frá 1847. Sem dæmi má nefna jörðina Seljabrekku sem ekki verður tekin svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Eitt af markmiðum fornleifaskráningar er að sporna við því að minjar verði fyrir skemmdum af gáleysi eða að nauðsynjalausu.
Fornleifaskráning kemur að notum í minjavörslu þegar ákvarðanir eru teknar um aðgerðir til verndar einstökum minjastöðum eða minjasvæðum. Auk þess kemur hún að gagni í rannsóknum og kynningu. Það er einnig hagur þeirra sem stýra hvers konar framkvæmdum að eiga aðgang að yfírliti um fornleifar á tilteknu svæði. Segja má að við það vinnist tvennt. Unnt er að taka tillit til minjanna við skipulagsvinnu og nýta þær til að varðveita sögu staðarins í landslaginu. Einnig má minnka stórlega líkur á að finnist, öllum að óvörum, fornleifar sem nauðsynlegt verður að rannsaka. Auk kostnaðar við fornleifarannsóknir geta tafir á framkvæmdum haft mikinn kostnað í för með sér.
Skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980. Þetta var fyrsta skrá sinnar tegundar sem gerð var á Íslandi. Vinnubrögð við fornleifaskráningu hafa breyst mikið á þeim tíma sem liðinn er frá því að skráningin fór fram árið 1980 þó svo að hún standi ennþá vel fyrir sínu og verði notuð sem grunnur fyrir þá vinnu sem nú er hafin. Í fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands eru minjar skráðar í nýtt skráningarkerfi sem fengið hefur nafnið Sarpur. Fornleifar eru flokkaðar eftir jörðum og miðað bæði við opinbera fasteignaskrá og jarðaskiptingu eins og hún kemur fyrir í sem sérstök jörð í fornleifaskráningunni því árið 1847 tilheyrði hún landi Mosfells. Mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru skilgreind sem fornleifar. Því er eðlilegt að miða fornleifaskrána við jarðaskiptingu eins og hún var fyrir rúmum 100 árum.
Það eru ekki einungis leifar mannvirkja sem orðnar eru eldri en 100 ára sem eru skráðar. Þannig eru stríðsminjar teknar með í þessari skráningu. Og skráningin nær einnig út fyrir eiginleg mannvirki svo sem til álagabletta og annarra staða og kennileita sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnarhefð.
Vinnu við fornleifaskráningu má í stórum dráttum skipta í tvennt. Fyrri áfanginn felur í sér gagnaöflun. Farið er í gegnum ritaðar heimildir, bækur er fjalla um sögu svæðisins, jarðabækur, fornbréfasafn, örnefnalýsingar, túnakort o.fl. Allt er tínt til sem gæti bent til fornleifa. Örnefni geta t.d. falið í sér vísbendingu um að þar hafi staðið mannvirki.
Í Mosfellbæ eru til mörg slík örnefni, t.d. Rögnvaldarstekkur, Stekkjarmýri, Miðdalskot, Kvíaból, Keldnasel, Rikkudys, Reykjalaug, Skólavarða, Jónssel, Markasteinn, Skiphóll, Hraðaleiði, Lambalækur, Móholt, Blikastaðavað og Hafravatnsrétt. Þessum fyrri áfanga fornleifaskráningarinnar í Mosfellsbæ er nú lokið. Heimildum hefur verið safnað um 626 fornleifar í landi bæjarins. Í síðari áfanganum felst að farið er á vettvang og athugað hvort enn finnist leifar þeirra mannvirkja sem gagnasöfnunin leiddi í ljós að verið hefðu á svæðinu i eina tíð.
Ástand fornleifanna er metið og staðsetning þeirra færð inn á kort. Vettvangsvinnan verður unnin í sumar. Gefin verður út skýrsla með skrá yfir allar fornleifar í Mosfellsbæ. Eins og áður segir er fornleifaskráningin unnin í tengslum við vinnu við aðalskipulag bæjarins. Vonandi verður fornleifaskráin þó gefin út þannig að hún verði öllum aðgengileg. Vönduð útgáfa fornleifaskráningar í Mosfellsbæ ætti að geta nýst mjög mörgum, t.d. fræðimönnum til rannsóknarstarfa, skólar bæjarins geta unnið verkefni upp úr henni fyrir nemendur sína, bæjaryfirvöld geta notað hana í kynningu bæjarins út á við og síðast en síst getur fólk sem nýtur útivistar í bæjarfélaginu kryddað göngutúra og reiðtúra með fróðleik úr henni um umhverfi sitt.
Þegar farið er að glugga í gamlar heimildir er ótrúlega margt sem kemur á óvart og aðeins virðist á fárra vitorði. Þessu til staðfestingar skulu tekin hér nokkur dæmi úr áfangaskýrslu Þjóðminjasafns Íslands. Býlið Hamrahlíð var við rætur samnefndrar hlíðar og mun hafa staðið fyrir neðan veginn á móts við hlið á girðingu Skógræktarfélags Mosfellssveitar. Var hjáleiga frá Blikastöðum. Byggð um 1850 og búið á henni að minnsta kosti til 1890. Rústir býlisins sást enn. Um 150 m norðnorðaustan bæjarins á Helgafelli er í brekkunni hóllinn Hjálmur. Sagnir eru um að í Hjálmi væri bústaður álfa.
Á landamerkjum Mosfells og Hraðastaða um 20-30 m norðan við Köldukvísl er hóll sem nefndur hefur verið Hraðaleiði. Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessóknar frá 1855 segir: Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, er hafí fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þar, er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.
Í Bjarnavatni, þar sem Varmá á upptök sín, segir þjóðsagan að búið hafi nykur. Nykur var talin vera skepna af öðrum heimi og líktist hesti, steingráum. Þessa skepnu mátti vart þekkja frá hesti nema á hófunum sem snéru öfugt.
Nykrar höfðu þá ónáttúru að ef maður settist á bak límdist maður við bakið og skepnan stormaði beint í vatnið sitt og heimkynni með mann á baki og voru það hans endalok.
Brauðhver var austast í landi garðyrkjubýlisins Bjargs við Skammadalsveg. Eins og nafnið ber með sér var bakað í honum brauð. Á Suður-Reykjum var kirkja. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð en talið er að hún hafi verið austan og sunnan við núverandi íbúðarhús Jóns M. Guðmundssonar. Kirkjunnar er fyrst getið í máldaga Þorláks biskups Þórhallssonar frá um 1180. Hún var lögð af með konungsbréfi 1765.
Norðan undir Grímmannsfelli, undir hárri og fagurri brekku niðri við Köldukvísl, á norðurbakka hennar, eru rústir hins svo kallaða Helgusels. Sagt er að Helga, dóttir Bárðar Snæfellsáss, hafi hafst þar við um hríð og við hana sé selið kennt.
Innan Mosfellsbæjar eru friðlýstar fornleifar á fjórum stöðum. Hafravatnsrétt er þar á meðal. Í þjóðminjalögum stendur m.a.: Friðlýstar fornleifar skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Því miður hefur Hafravatnsrétt ekki notið þeirrar friðhelgi sem lögin kveða á um. Eins og sést á þeim tveimur myndum af réttinni sem fylgja þessari grein þá hefur hún látið mikið á sjá á síðustu 20 árum. Nauðsynlegt er að ráðist verði í viðgerð á réttinni sem fyrst svo að hún fái aftur það tignarlega útlit sem hún hafði áður.” – Agnes Stefánsdóttir og Kristinn Magnússon, fornleifafræðingar.
Í Selfossi í desember 2014, er m.a. fjallað um Hraðastaði og sýnd mynd af bænum.
“Síðasta bæjarmynd reyndist vera af Hraðastöðum í Mosfellssveit (Mosfellsbæ). Guðbrandur Jóhannesson segist hafa alist upp á bænum og þar búa foreldrar hans núna. Eins og sjá má er ekki komið rafmagn í bæinn þegar myndin er tekin. Auk húss er fjós og hlaða á myndinni. Gamla bæinn vildi heimafólk gefa sveitarfélaginu en það þáði ekki. Morgunblaðið segir frá þvi 10. desember 1988 en þá leit bærinn út eins og þessi mynd ber með sér. Fyrirsögnin var: Sögulegt gildi Hraðastaða ekki talið vera 3 m. kr. virði – segir Páll Guðjónsson bæjarstjóri. Það var sem sé talið að það myndi kosta þetta mikið að endurbyggja.
Sigurður Vigfússon rannsakar fornleifar í Borgarfirði 1884 og segir um Hraðastaði í Árbók fornleifafélagsins 1884: Hraðastaðir sýnast vera landnámsjörð og snemma bygðir; eru þeir líklega kenndir við Hraða þann, er Landn. nefnir bls. 53, sem fyrr segir. Hraðastaðir eru fyrir sunnan ána, er rennur fyrir sunnan Mosfell, enn standa nokkuð ofar undir Grímmannsfelli (Grrímarsfelli réttara). Skammt fyrir neðan Hraðastaði, suður viðs yðri ána, er dálítill hóll, sem kallaður er Hraðaleiði. Hraðablettur er og kallaðr fyrir ofan Hraðastaði upp með Grímmannsfelli.”
Í Alþýðublaðinu í maí 1964 fjallar Ragnar Lár m.a. um Æsu og Hraða, auk Egils Skallagrímsson:
“Mörg vötn hafa runnið til sjávar síðan, en dalurinn er sjálfum sér líkur, þó nokkuð hafi hann að sjálfsögðu breytt um svip, með tilkomu nýrra bygginga og ræktunarframkvæmda. Hér stendur Mosfell þar sem Egill Skallagrímsson lifði seinustu ár ævi sinnar og í þessum dal er gullið hans fólgið, en hvar, veit enginn.
Þarna eru Æsustaðir, en þar bjó Æsa, tröllkona, forðum, og sér ennþá móta fyrir leiði hennar í túninu. Æsa lézt af sárum, er hún hlaut í bardaga við Hlaðgerði í Hlaðgerðarkoti, en þær áttu í erjum og gengu loks hvor af annarri dauðri í bardaga. — Nú er mæðraheimili í Hlaðgerðarkoti, en þar koma mæður á sumrin til að hvíla sig, en heimilið er rekið af Mæðrastyrksnefnd. Þarna eru Hraðastaðir, en þar bjó Hraði sá, er þræll var — en fékk land og frelsi.
Fyrir nokkrum áratugum var kirkja lögð niður að Mosfelli, en flutt að Lágafelli. Þetta þótti mörgum miður og þá sérstaklega „dalbúum,” enda sjónarsviptir fyrir þá. Einn bóndinn í dalnum gerði sér lítis fyrir og náði í kirkjuklukkuna og kvaðst ætla að varðveita hana, þar til kirkja yrði reist á Mosfelli að nýju.
Þegar við ökum í borgina á ný, og virðum fyrir okkur þéttbýli sveitarinnar kemur okkur í huga hversu langt þess verði að bíða að engin Mosfellssveit verði til lengur — aðeins Reykjavík. En nú þegar hefur hún teygt umráðasvæði sitt upp að Korpúlfsstöðum, en sú var tíðin að Mosfellssveit átti land niður að Elliðaám.”
Í Dagblaðinu Vísir í júní 1986 er “Gengið á Helgafellið að austanverðu”. Þar er m.a. getið um hólinn Hjálm á Helgafelli og Biskupsklett í Skammadal.
“Við höfum áður athugað gönguleiðina á Úlfarsfell og farið með fjörum í Mosfellssveitinni. Í dag skulum við stefna á „auðvelda” gönguleið og veljum Helgafellið. Á Íslandi eru mörg fjöll eða fell sem heita þessu nafni og þau eru hvert öðru lík. Helgafell í Mosfellssveit blasir við byggðinni og er freistandi að ganga á það og er það tiltölulega auðvelt.
Gott er að fara austur fyrir fellið og koma að því leiðina úr Mosfellsdalnum. Beygt er til suðurs af veginum þar sem fólk úr Reykjavík fer til þess að sinna kartöflugörðum sínum sem eru þarna á fellsöxlinni í litlu dalverpi. Takið fyrsta afleggjarann til hægri þegar ekið er austur Mosfellsdal.
Þegar komið er upp er komið að svonefndum Stórhól sem er klettarani austur úr Helgafelli. Skarð er í fellið á þessu svæði en það skilur á milli hólsins og fellsins og heitir þar Stekkjarmýri. Síðan er haldið á fellið. Sé staldrað við og litið um öxl blasir við Skammidalur og eiga ýmsar jarðir þar land auk Helgafells. Að norðanverðu er Hlaðgerðarkot eða Reykjahlíð, eins og það er nú kallað. Þessi jörð er í eigu Reykjavíkurborgar. Þá koma Norður-Reykir sem eru í eigu Mosfellshrepps. Þar austur af er land Æsustaða og Æsustaðafell lokar dalnum að norðaustan og við tekur Vetrarmýrarháls. Þar mætast landamerki jarðanna Æsustaða, Suður-Reykja og Helgadals að hluta.
Skammidalur er í raun tvískiptur í fremri og innri Skammadal. Klettur sá er dalnum skiptir heitir Biskupsklettur. Reykjabunga eða Reykjafell eins og margir kalla það, blasir við til suðurs en norðurhlíðar þessu eru brattar og grýttar. Biskupsklettur hefur ugglaust fengið nafn sitt af því að þar má greinilega sjá mannsmynd ef skoðað er frá gömlu mógröfunum á Reykjum sem eru í hinum svokallaða fremri Skammadal.
Er komið er upp á Helgafellið liggur svonefnd Langatorfa suður og ofan af því á móts við bæinn að Helgafelli.
Að norðvestan er örnefnið Hjálmur við vesturhornið og Hjálmsmýri þar norður af. Norðan við fellið er skriða niður á jafnsléttu en þar tekur við gróinn mýrarfláki, sem heitir Langamýri og er sunnan þjóðvegarins, norðan Helgafells.
Útsýni af fellinu er ekki veruleg en þaðan sést byggðin í Mosfellssveit frá nýju sjónarhorni.
Leiðin vestur af og heim á leið blasir nú við og er auðveld og komið er niður í íbúðarhverfi þar sem götunöfnin enda á -fell.” – Unnið úr leiðarlýsingum eftir Jón M. Guðmundsson. -A.B.
Fleiri lýsingar af fornleifum og fornleifaskráningum í Mosfellsbæ eru að finna á vefsíðunni – ef grannt er skoðað…
Heimildir:
-Mosfellsblaðið, Fornleifaskráning í Mosfellsbæ, 6. tbl. 01.06.2001, bls. 15.
-Selfoss, 23. tbl., 04.12.2014, bls. 14.
-Alþýðublaðið, Dagstund í sveitasælu, Ragnar Lár, 109. tbl. 16.05.1964, bls. 4-5.
-Dagblaðið Vísir, Gengið á Helgafellið að austanverðu, 138. tbl. 21.06.1986, bls. 8.